Blik 1960/Skólaferðalagið vorið 1959

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



BRYNJA HLÍÐAR:


Skólaferðalagið vorið 1959


La, la, la, lífið er dásamlegt. Brynja Hlíðar, höfundur greinarinnar.

Nemendur 3. bekkjar deilda Gagnfræðaskólans ráðgerðu ferðalag um Suðvesturland að skóla loknum vorið 1959. Lagt var af stað 1. júní kl. 10 að morgni með flugvél. Tveir kennarar skólans voru fararstjórar, þeir Eyjólfur Pálsson og Bragi Straumfjörð. Biðið var á flugvellinum um stund eftir vélinni. „Sterka kynið“, strákarnir, var ókyrrt og tvísteig. Þeir virtust ekki með nokkru móti geta kyrrir verið. Við stúlkurnar vorum rólegar og kyrrlátar, eins og okkur sæmdi bezt, að okkur fannst. Arnar mændi lengi í vesturátt, en þaðan var vélarinnar von, fullur af útþrá og ævintýralöngun. Steini litli æddi um eins og bandóður væri, og var það honum þó óeðlilegt, eftir því sem kynni okkar voru af honum. Hann virtist vera snortinn, sá litli. Við stúlkurnar sátum á tröppunum og brostum dularfullum brosum hver til annarrar en sögðum lítið. Við hugsuðum því meira. Óneitanlega höfðum við gaman af að gaumgæfa „sterka kynið“, íhuga það og brosa að því. Allt í gamni auðvitað.
Allt í einu kvað við: „Hún er að koma“. Allir ruku upp og litu upp í loftið. Já, þarna kom hún og flaug eins og glitrandi fugl inn á völlinn.
Við vorum svo mörg, að við fylltum vélina. Þetta var vélin okkar. Þegar allir voru setztir, var tekið til að syngja. Já, nú var fjör í tuskunum og gaman að lifa. Edda sat með gítarinn sinn á hnjánum og hamraði á strengina. En lítið heyrðist í gítarnum vegna vélaniðsins og svo söngsins. Þar dró enginn af sér. Flestir strákarnir voru þó í mútum og hljóðin úr þeim því skræk og afkáraleg. Sem betur fór heyrðu þeir það ekki sjálfir.
Við lentum á Reykjavíkurflugvelli kl. hálf tólf. Við dvöldumst síðan til nóns í höfuðstaðnum. Þá hófst bifreiðarferðin vestur með einni af langferðabifreiðum Ólafs Ketilssonar á Laugarvatni, og sat hann sjálfur við stýrið.
Fyrsti áningarstaður var Hvalfjarðarbotn. Þarna var hitað kakó, og sá Bragi kennari um þá matseld. Við það starf voru teknar af honum margar myndir. Kennararnir og bifreiðarstjórinn fræddu okkur um ýmis örnefni í Hvalfirði, eins og reyndar alls staðar, þar sem við fórum um. Nemendur sýndu því fræðslustarfi annars mismunandi mikinn áhuga. Ekið var sem leið liggur í Borgarnes og gist þar um nóttina í barnaskólahúsinu. Við fengum leyfi til að sjá okkur um í kauptúninu til kl. hálf tólf um kvöldið. Þá skyldu allir vera mættir í skólahúsinu. Þessu boði hlýddu allir. Leiðsögumenn hópsins um þorpið í Borgarnesi vorum við Hildigunnur systir mín, því að við vorum fyrrverandi „þorparar“ úr Borgarnesi. Áttum þar heima í bernsku.
Um kvöldið snæddum við skrínukost úr „bakpokanum“ og líkaði vel.
Lagt var af stað úr Borgarnesi kl. 1 daginn eftir vestur á bóginn til Stykkishólms. Ljótt var um að litast á Borg á Mýrum eftir brunann, sem þar hafði átt sér stað nokkru áður.
Í bifreiðinni var mikið sungið og mikið spjallað. Hjárómaraddir hins „sterka kyns“ gusu upp og mútuskrækir blönduðust hreinum tónum úr „mjóu hálsunum“. Þá kímdum við stúlkurnar svo lítið bar á.
Undir kvöldið tók að síga á okkur svefn, svo að hljótt var í farkostinum og dauft yfir. Ólafur Ketilsson virtist kunna því illa og fann ráð til að lífga upp aftur í bifreiðinni. Hann tók til að þrefa um stjórnmál við kennarana, sem virtust þar á öndverðum meið. Færðist þá aftur líf í tuskurnar. Allir glaðvöknuðu við hávaðann í Ólafi og líffullar pólitískar prédikanir, sem kennararnir þæfðu gegn og andmæltu. Hávaðinn í Ólafi yfirgnæfði vélarskröltið. Þá hófum við upp raustir okkar og sungum hástöfum hvert lagið eftir annað í ýmsum tóntegundum og með alls kyns tilbrigðum, þar til Ólafur þagnaði, gafst alveg upp, því að honum brast rómur til að yfirbuga sönginn.
Þegar svo kyrrð komst á aftur í bifreiðinni, vorum við komin upp í Kerlingarskarð. Þar skoðuðum við „kerlinguna“ í krók og kring og þótti mikið til stallsystur okkar koma. Þarna voru teknar myndir og mikið borðað. Vel minnist ég þess, hve Sæmi litli tók hraustlega til matar síns, eins og hann hefði allt í einu uppgötvað það við að leiða „kerlinguna“ sjónum, hversu lítill hann var og ástæðan væri: „of lítið borðað.“
Nú var ekið í einum áfanga til Stykkishólms. Við bjuggum um okkur í barnaskólahúsinu, því þar var gist um nóttina. Um kvöldið gengum við um kauptúnið til þess að kynnast því. Og þarna höfðum við líka góða aðstöðu ekki síður en í Borgarnesi, því að Bragi kennari er alinn þarna upp og var því hinn kunnugi „þorpari“ í hópnum. Við snæddum indæla máltíð í gistihúsinu í Stykkishólmi.
Daginn eftir var haldið út í Breiðafjarðareyjar. Við komum við í ýmsum eyjum, kynntumst fuglalífinu, kyrrð þeirra og náttúrufegurð í vorskrúðanum og dáðum þar margt.
En nú var ekki til setu boðið, heldur urðum við að haska okkur, því að gista skyldi á Akranesi næstu nótt.
Á leið suður aftur komum við við á ýmsum merkum stöðum, svo sem á Helgafelli Snorra goða, Bifröst í Borgarfirði, að Reykholti, Varmalandi og borðuðum góða máltíð í „Fúsaskála“, sem er á næstu grösum við Bifröst.
Okkur leið vel í skólahúsinu á Akranesi um nóttina. „Vekjaraklukkan“ morguninn eftir var sem endranær á ferðalaginu Atli nokkur Ásmundsson frá Gjábakka í Eyjum.
Ætlunin var að aka frá Akranesi rakleitt til Reykjavíkur. En á leiðinni var afráðin svolítil lykkja á leiðina, nefnilega krókurinn austur að Laugarvatni. Þar ók Ólafur Ketilsson okkur um staðinn og sýndi okkur öll ríki skólanna þar. Þar var hann öllum hnútum kunnugastur, því að þar býr hann sjálfur. Annars virtist hann bera gott skyn á flesta bæi og örnefni alla leiðina vestur og óspar á fræðslu, ef eftir var leitað. Góðgerðir þágum við hjá honum og konu hans á Laugarvatni og vorum þeim þakklát fyrir.
Á leið til Reykjavíkur stönzuðum við á Selfossi og skoðuðum kauptúnið. Um nóttina gistum við svo í höfuðstaðnum. En daginn eftir var ekið með okkur til Keflavíkur. Þar komum við m.a. á flugvöllinn og snæddum máltíð í Flugvallarhótelinu. Með þessu ferðalagi lengdist ferðaáætlun okkar um heilan dag. En allt varð þetta til þess að auka ánægjuna af ferðalaginu og víkka sjóndeildarhring okkar.
Við erum öllum, sem greiddu götu okkar, hjartanlega þakklát, en þó mest kennurum okkar, sem veittu okkur leiðsögu, og svo Ólafi bifreiðarstjóra, sem reyndist okkur vel í alla staði.

ctr

Myndir frá ferðalagi nemenda vorið 1959:
Efri röðin frá vinstri:
1. Fararstjórarnir Bragi og Eyjólfur, kennarar með Ólafi Ketilssyni bifreiðarstjóra.
2. Lagt af stað frá Stykkishólmi til heimsóknar í Breiðafjarðareyjar.
3. Andri „rokkar“ af mikilli list.
Neðri röð frá vinstri:
1. Sungin viðkvæm ástarljóð með gítarundirspili.
2. Bragi „bruggar“ kakó í ferðahópinn.
3. Nemendur keppast við að taka myndir af Ólafi Ketilssyni, hinum vinsæla ekli og ferðafrœðara.
4. Farkostur ferðahópsins leggur að einni Breiðafjarðareynni.


Gjafir til skólans

Á s.l. ári var náttúrugripasafni skólans gefnir þessir hlutir:
Drúði, gef. Þórarinn Guðjónsson, Presthúsum.
Haftyrðill, gef. Þorsteinn G. Þorsteinsson, nemandi í 4. bekk.

Yfirsjónir

Ýmsar yfirsjónir áttu sér stað varðandi Blik í fyrra, eins og gengur og vitað er um okkur, ófullkomna menn. Sumar stafa af fáfræði, aðrar af gleymsku. Engin þeirra var ásetningssynd.
Hér koma tvær friðþægingar:

1.
Valdimar Ottesen kaupm. átti son með konu sinni¹), sem skírður var Þorkell. Þessi sonur hans, Þorkell Ottesen, er prentari á Akureyri, vinnur í Prentverki Odds Björnssonar.
2.
Þess gleymdist að geta, þar sem rætt var um Sigurð Ólafsson frá Bólstað hér, formann á opna skipinu Fortúnu, að hin góðkunna kona hér í Eyjum, Sigurbjörg SigurðardóttirStað við Helgafellsbraut, er dóttir Sigurðar. Hún var gift Kristjáni Egilssyni.
Einlæglega bið ég afsökunar á yfirsjónum þessum.

Þ.Þ.V.

¹) Leiðr. Heimaslóðar: með Elínu Jónsdóttur.

RITNEFND BLIKS 1960.

Þorsteinn Þ. Víglundsson, formaður,
Guðrún Helgadóttir, gagnfræðadeild,
Sigfús Þór Elíasson, 3. b. bóknáms,
Hildur Axelsdóttir, 3. b. verknáms,
Ingimar Pálsson, 2. bekk C,
Rósa Helgadóttir, 2. bekk B,
Sigríður Valdimarsdóttir, 2 bekk A,
Rannveig Gísladóttir, 1. bekk C,
Inga Þórarinsdóttir, 1. bekk B,
Guðmundur Sigurjónsson, 1. b. A.

Prentsmiðja Þjóðviljans h.f.