Trausti Einarsson (prófessor)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Trausti Sigurður Einarsson.

Trausti Sigurður Einarsson frá Staðarfelli við Kirkjuveg 53, prófessor fæddist 14. nóvember 1907 í Reykjavík og lést 26. júlí 1984.
Foreldrar hans voru Einar Runólfsson frá Hömrum í Holtum, trésmiður, útgerðarmaður, f. þar 18. september 1884, d. 10. mars 1961 í Reykjavík, og kona hans Kristín Traustadóttir frá Patreksfirði, húsfreyja, f. 22. október 1878 á Vatneyri þar, d. 3. febrúar 1960.

Börn Kristínar og Einars:
1. Trausti Sigurður Einarsson prófessor, f. 14. nóvember 1907 í Reykjavík, d. 26. júlí 1984.
2. Runólfur Hákon Einarsson skipasmiður, f. 1. mars 1913 á Löndum, d. 10. apríl 2003.
3. Guðrún Þóranna Einarsdóttir húsfreyja, f. 17. október 1914 á Staðarfelli, d. 5. maí 1995.
4. Þórhallur Ingibergur Einarsson lögfræðingur, fulltrúi borgarfógeta, f. 16. mars 1921 á Staðarfelli, d. 27. september 2007.

Trausti var með foreldrum sínum, en sótti skóla í Reykjavík.
Hann varð stúdent í Menntaskólanum í Reykjavík 1927, lauk doktorsprófi í stjörnufræði í háskólanum í Göttingen í Þýskalandi 1934.
Hann var kennari í Menntaskólanum á Akureyri 1935-1944, kennari við verkfræðideild Háskóla Íslands frá 1944, prófessor í aflfræði og eðlisfræði þar frá 1945.
Rannsóknir:
Vann að rannsóknum á jarðmyndunum Íslands frá 1934, m.a. hveragosum og eldfjallagosum (Heklugosi 1947-1948), myndun móbergs, aldursafstöðu í basalti, bergsegulmagni, þyngdarmælingum og almennri jarðfræði.
Trausti hélt fyrirlestra um íslenska jarðfræði við nokkra háskóla í Hollandi og í hollenska vísindafélaginu í Haag 1952, í Köln í Þýskalandi, St. Andrews í Skotlandi og í London.
Trausti samdi fjölda greina og bóka um jarðfræði, jarðeðlisfræði, kennslubækur í stjörnufræði, eðlisfræði.
Trausti sinnti fjölda félagsstarfa á sviði vísindafélaga, sat í stjórn Verkfræðingafélags Íslands, var forseti Vísindafélags Íslendinga, stofnfélagi Jöklarannsóknarfélags Íslands og formaður þess, sat í stjórn raunvísindadeildar Vísindasjóðs, í Geysisnefnd og var stofnfélagi og annar formaður Jarðfræðafélags Íslands.
Hann var kjörfélagi VFÍ, var veitt heiðursmerki félagsins, var heiðursfélagi Jarðfræðafélags Íslands, sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og stórriddarakrossi.
Þau Nína Thyra giftu sig 1951, eignuðust eitt barn. Trausti lést 1984 og Nína Thyra 2004.

I. Kona Trausta, (20. janúar 1951), var Nína Thyra Þórðardóttir tannsmíðameistari, f. 7. janúar 1915 í Reykjavík, d. 25. júlí 2004. Foreldrar hennar voru Þórður Sveinsson læknir, geðlæknir, yfirlæknir á Kleppsspítala, f. 20. desember 1874 á Geithömrum í A.-Hún., d. 21. nóvember 1946, og kona hans Ellen Johanne Sveinsson, fædd Kaaber 9. september 1888 í Kaupmannahöfn, d. 24. desember 1974.
Barn þeirra:
1. Kristín Halla Traustadóttir líffræðingur, f. 7. júlí 1951. Maður hennar Jón Ingimarsson verkfræðingur.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Íslenzkir samtíðarmenn. Jón Guðnason og Pétur Haraldsson. Bókaútgáfan Samtíðarmenn. Reykjavík 1965-1970.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið, minningargreinar.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.