Saga Vestmannaeyja II./ VI. Afgjöld og skattar, 1. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. ágúst 2011 kl. 13:03 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. ágúst 2011 kl. 13:03 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit




VI. Afgjöld og skattar


Hér undir falla launagreiðslur til presta og til sýslumanna eftir að þau komu til. Launin voru greidd með beinum afgjöldum af framleiðslunni með fiskatíundum og voru ásamt fátækragjöldunum einu beinu gjöldin, er féllu í sjóð manna, er hér voru búsettir.


Prestalaun (prestatíund, prestsfiskur).


Gjaldskylda Vestmannaeyinga var að því er tíundir snertir nokkuð öðruvísi en gerðist annars staðar á landinu. Lögboðnar tíundir voru teknar af afurðum eingöngu, aðalframleiðslunni, fiskaflanum og lítils háttar af fuglatekju. Allar opinberar greiðslur og afgjöld hvíldu á fiskframleiðslunni og á henni voru grundvölluð laun embættismanna eyjanna, prestanna, frá fyrstu tíð, og þegar ákveðin voru sérstök sýslumannslaun hér, komu þau til að hvíla á fiskaflanum með löggildingu hundraðsfiskjarins, er var hundraðsgjald af fiskihlut hvers eins. Sérstök fiskigjöld voru og fátækrafiskurinn og kirkjufiskurinn.
Eftir atvinnuhögum í Vestmannaeyjum og ástæðum þar hlaut sá tíundarhluti, er grundvallaðist á náttúruafurðum, landaurum, og eftir aflatölu, að henta þar bezt, og gjaldskylda með öðrum hætti eigi framkvæmanleg, þar sem hér voru eingöngu leiguliðar og lausafjártíund mjög lítil sökum fæðar kvikfénaðarins og fátæktar eyjabúa yfirleitt; af lausafé var þó tekin fátækratíund, 4 fiskar á hundrað á landsvísu, á seinni tíð. Fyrirkomulag um gjaldskyldu eyjabúa var að miklu leyti í samræmi við norræn (norsk) lög, en eigi íslenzk. Í Vestmannaeyjum var tíund þannig goldin af afurðum og afrakstri, en eigi af fasteign og lögboðin tíund eigi heldur af lausafé. Eftir ástæðum öllum átti norrænn tíundarmáti betur þar við en íslenzkur. En sá var munur norrænnar tíundar og íslenzkrar, að samkvæmt norrænni tíund skyldi greiða tíunda hluta alls afla og ávaxtar, en hins vegar var íslenzk tíund, tíundi hluti af lögleigu alls fjár eða 1/100 hluti allrar eignar. Í samræmi við hinn gamla norræna tíundarmáta var goldin tíund af helztu framleiðslu hér, eins og áður segir, fiskaflanum og fuglatekjunni. Fuglatíundin, er upprunalega hefir tilheyrt hinum eiginlegu tíundum, er seinna runnu til kirkna og presta að mestu, hefir snemma verið skilin frá og gelzt sem fátækratíund lengi og síðar sem spítalagjald, fuglafiskur. Eftir að hinn forni tíundarmáti loks er úr sögunni hér seint á 19. öld, hélzt þó áfram gamla venjan, að skipta fátækrahlut af fuglaveiði.
Með umgetinni tíundarskyldu eyjabúa, eins og hún var í framkvæmdinni, voru studdir hagsmunir landsdrottins, eins og sést eigi sízt, er eyjarnar voru orðnar konungseign. Eignum konungs og afgjöldum er hlíft við öllum kvöðum, eyjamenn launa sjálfir embættismenn sína, t.d. fá sýslumennirnir eigi nein laun né innheimtu af umboðinu, eins og annars staðar tíðkaðist. Þess utan gjalda eyjamenn og konungi tíund og skatt. Ef hins vegar hefði verið fylgt almennum íslenzkum tíundarmáta, myndi afrakstur tíundanna hafa verið harla lítill. Prestshlutinn af skiptitíundinni í Vestmannaeyjum, eftir að hin nýju tíundarlög voru gengin í gildi eftir 1879, nam t.d. eigi nema rúmum 45 kr.¹) Sennilegt er, að fylgt hafi verið í eyjunum umgetnum norrænum tíundarmáta frá fyrstu tíð, og að elztu íslenzku tíundarlögin frá 1096, sem kennd eru við Gissur biskup Ísleifsson, hafi eigi fengið gildi í Vestmannaeyjum, en þar hafi fljótt myndazt venjur um greiðslur til prests og kirkju af afurðum eyjabúa, er síðan hafa haldizt óbreyttar. Líklegt er, að fyrsti presturinn í eyjunum hafi verið norskur leiguprestur. Tíundarréttur Gissurar biskups Ísleifssonar í Skálholti frá 1096 varð grundvöllurinn undir tíundinni hér á landi, sbr. kristnirétt Árna biskups og Alþingisdóm 1574, seinna reglugerð 17. júlí 1782.²)
Því hefir verið haldið fram,³) að umgetinn norrænn tíundarmáti í eyjunum stafi frá þeim tíma, er Árni biskup Þorláksson gaf klaustrinu af Munklífi í Björgvin, Monasterio sancti Micaeli, Kirkjubæjarkirkju. Þessi skoðun, sem mjög er skiljanleg, er gengið er út frá því, að eyjarnar hafi allar verið eign klaustursins, horfir öðruvísi við, er þess er gætt, að góð og gild rök eru fyrir því, að í téðri eignaryfirfærslu til klaustursins hafi aðeins verið um Kirkjubæjarkirkju sjálfa að ræða og það, er henni fylgdi, en eigi nein umráð yfir jörðum og lendum í eyjunum, sbr. það, er áður segir. Í hæsta lagi gat hér verið um eina jörð að ræða, er kirkjunni hafi fylgt, Bílustaði. Það verður eigi séð, að kirkjugjöfin ein hafi getað valdið breytingum á tíundarfyrirkomulaginu í ofangreinda átt, og af máldaga Kirkjubæjarkirkju frá 1269 — og því eldri en gjafabréfið, 1284, og er saminn meðan kirkjan var eign Skálholtsstóls — virðist fremur mega ætla, að hið sama tíundarfyrirkomulag hafi gilt, er máldaginn var saminn. Það verður heldur eigi leitt af gögnum, er hér að lúta, að breyting hafi orðið á tíundarfyrirkomulaginu einmitt eftir 1284. Ákvæðin í máldaganum um, að til Kirkjubæjar liggi til prestskaups fiskatíundir hálfar, svo og annars veiðiskapar, og allar kirkjutíundir að helmingi, eru í samræmi við norrænan tíundarmáta, að gjalda tíund af helztu framleiðsluafurðum eyjamanna, fiski, fugli og ef til vill eggjum. Að vísu er það eigi tekið fram, að miðað væri við tíunda hvern fisk, er aflaðist, eins og síðar kemur fram. En bæði í dómi frá 1491 og í Bessastaðasamþykktinni 1555, þar sem sagt er, að tíundin í Vestmannaeyjum sé tíundi hver fiskur í fjöru, er tekið fram, að svo hafi að fornu verið reiknað og í dómnum vísað til máldagans í Skálholti, sem hlýtur að vera máldagi Kirkjubæjarkirkju frá 1269. Snemma mun það hafa komizt á, að kirkjutíundirnar rynnu til prestanna, er í staðinn hafa tekið að sér að sjá fyrir þörfum kirkjunnar. Eiginleg biskupstíund virðist og aldrei hafa verið greidd hér, en tíund af eyjunum, þ.e.a.s. þá tekin af prestslaunum, ef til vill verið dregin til stólsins, er sérstök ástæða þótti til, svo sem er Ögmundur biskup Pálsson tók 1/3 af presta- og kirknatíundinni í Vestmannaeyjum sem tillag til endurbyggingar dómkirkjunnar í Skálholti,⁴) og hélzt téð greiðsla áfram, þótt af öðrum stöðum væri afgjaldinu létt, er kirkjan var fullgerð, og þannig aflað skreiðar til Skálholtsstaðar. Getið er þess til, sbr. Forest. 12. apríl 1777 og tilsk. 21. apríl s.á., að Ögmundur biskup hafi stuðzt við gjafabréf Árna biskups Þorlákssonar fyrir Kirkjubæjarkirkju til klaustursins í Noregi, er hann lagði tíundina frá Vestmannaeyjum undir stólinn, og verið þá umboðsmaður klaustursins. En þetta fær eigi staðizt, sbr. það, er áður segir.
Aðallaun eyjaprestanna var tíundin af fiski og fyrrum og af öðrum veiðiskap, sbr. máldaga Kirkjubæjarkirkju frá 1269.⁵) Nutu prestarnir tíundanna til fulls að helmingi hvor, og önnuðust viðhald kirknanna á stöðunum, er munu hafa verið litlar torfkirkjur. Prests- eða tíundarfiskurinn, er var hver tíundi fiskur í fjöru, sbr. dómana frá 1491 og 1545, skyldu menn afhenda í fjöru um leið og skipt var afla báta. Tíundin var goldin af öllum fiski, á hvaða tíma sem aflaðist, bæði af smáferjum og stórskipum, sem gengu til fiskjar frá eyjum. Áður er getið um tillagið, er greitt var um tíma til Skálholts af tíundunum og sem með röngu hefir seinna verið talin biskupstíund, og sem slík tilfallin konungi eftir siðabótina. Er eigi ósennilegt, að oftar hafi komið til, að dregið hafi verið af tíundunum í eyjunum til Skálholts og prestunum bætt það upp að einhverju leyti, sem skylt var, þar sem hér var um að ræða hluta hinnar sameiginlegu presta- og kirkjutíundar eyjanna, er prestarnir áttu að njóta óskertrar sem launa. Umrætt tillag eða stólshluti hefir eftir siðabótina gengið til eyjaprestanna aftur, svo sem eðlilegt var, er reynt var yfirleitt að bæta kjör prestanna. En hitt er aftur víst, að konungur, Kristján III., hefir þegar við upphaf siðabótarinnar haft augastað á þessum umgetna tíundarhluta frá Vestmannaeyjum og viljað leggja hann undir sig sem biskupstíund til viðbótar afgjöldum sínum af eyjunum.⁶) Þennan tíundarhluta tók konungur undir sig nokkru eftir siðabót og hélt lengi. Til þess að réttlæta tilraun konungs upphaflega til þess að ná undir sig umgetnum tíundum, bar umboðsmaður konungs það fyrir, að tíundin væri tekin af landsskyldum konungs í Vestmannaeyjum og bæri að bæta þar fyrir. Var svo Gissuri biskupi Einarssyni falið að taka mál þetta til rækilegrar athugunar. Nefndi Gissur biskup sex presta og sex leikmenn til að kveða upp dóm í máli þessu. Féll dómur um þetta 7. sept. 1545, staðfestur af Gissuri biskupi.⁷) Hljóðar dómurinn um fiskatíundir til prestanna. Dæmdu dómsmenn með fullu dómsatkvæði „fyrrgreinda fiskatíund í Vestmannaeyjum vera og verið hafa réttilega rentu og prestskaup þeirra presta, sem nú eru í Vestmannaeyjum, eftir fyrrgreindum máldaga, og herra kónginn enga tiltölu eiga né átt hafa til fyrrskrifaðrar fiskatíundar“. Í forsendum dómsins segir, „að dómsmönnum beri að rannsaka og fullnaðardóm á leggja, hvert afl að hafa skyldi sú áklögun, sem náðugasti herra konungurinn hefði um tíund í Vestmannaeyjum, er hljóðaði um það, að tíundin væri burt dregin af konungsins landsskyld, og væri hún þar með forkortuð“. Dómurinn er byggður á gömlum máldaga kirkjunnar í Vestmannaeyjum um að fiskatíundir þar liggi til prestskaups, hálfar til hvorrar kirkju. Er þetta máldaginn frá 1269, sem hér er vitnað í. Ennfremur vitna dómsmenn í áðurgenginn tólf manna dóm, er svo hljóðaði, að þeir dæmdu prestunum tíunda hvern fisk af allri þeirri skreið, er í land kæmi í eyjunum, eftir innsigluðum bréfum góðra manna og gömlum máldaga kirkjunnar í Skálholti. Er hér átt við áðurnefndan dóm frá 1491.
Þessi dómur frá 1545 tekur af öll tvímæli um það, eins og hinn fyrri dómur, að prestunum einum beri fiskatíundin. Umboðsmaður konungs hefir samt eigi viljað láta hér við lenda og því áformað nú, að annað prestsembættið skyldi lagt niður, en fyrir þörfum eins prests var séð sæmilega, þótt konungur hefði drjúgan skerf fiskatíundanna. Um þessar mundir hefir verið prestslaust í Kirkjubæ, presturinn þar sennilega dáinn. Hefir hirðstjóri því nú ætlað að nota tækifærið og sameina bæði eyjabrauðin í eitt og tilkynnt það biskupi. Segir Gissur biskup í bréfi, er skrifað er í Vestmannaeyjum 1. apríl 1546 til Otta Stígssonar hirðstjóra,⁸) „að hirðstjóri muni minnast þess, að hann hafi hugsað sér, að eigi yrði framvegis nema einn prestur í Vestmannaeyjum, en bændur og almúgi í eyjunum vilji með engu móti hafa það, að eigi séu þar tveir prestar sem venjulegt sé og verið hafi allt hér til“. Leggur biskup, sbr. nefnt bréf, eindregið til, að tveir prestar verði framvegis, sem haldi staðina af náðugasta herra konungsins umboðsmanni með venjulegri landsskyld og afgjaldi. Biður biskup um að fá að vita ákvörðun hirðstjóra um þetta sem fyrst, til þess að geta sent prest til eyjanna. Segir hann og, að þar gangi sótt mikil, og vilji fólk síður verða af prestum sínum. Hefir hirðstjóri samþykkt tillögur biskups um að prestarnir yrðu áfram tveir, enda hafði þessi ráðstöfun og enga lækkun á landsskyldum konungs í för með sér, því að prestarnir hafa haldið áfram að greiða fulla venjulandsskyld eftir jarðir sínar, enda fólst það og í tillögum biskups.
Gissur biskup veitti séra Gissuri Fúsasyni, Vigfússyni, þingaprests, sóknarprests, vist að Kirkjubæ með þeim rétti og rentu, sem fullmektugum þingapresti ber að hafa, er voru hér, sbr. dóminn frá 1545 og það, er áður segir, hálfar fiskatíundir. Veitingarbréfið, sem er dagsett 8. maí 1546,⁹) virðist skrifað hér, og hefir Gissur biskup þá enn verið hér staddur þetta sama vor.
Í Vestmannaeyjum héldu þannig áfram að vera tveir þjónandi prestar. Bar þeim samkvæmt framansögðu að njóta „fullrar rentu“ eða allrar tíundarinnar að jöfnu hvor.
Af landskipum þeim, er gerð voru út héðan, hefir verið greidd full fiskatíund, sbr. dóminn frá 1491, er staðfestir, að greiðast skuli tíundi hver fiskur af allri skreið.
Í Bessastaðasamþykktinni frá 1. júlí 1555, sbr. leiðbeiningarbréf (Instruktion) 16. apríl 1556, sem úrskurður (Resolution) konungs felst í, er svo fyrir mælt, „að allir hér heimilisfastir menn skuli greiða venjutíund, og svo þeir, er róa á þeirra skipum . . . En þessi venjulega tíund er tíundi hver fiskur í fjöru og skal skipta í fjóra parta . . . En um þau skip, er af meginlandi koma og þangað (til eyja), eru útgjörð til sjóar um vertíðina, þá gjalda undirgift, eftir kóngl. Majest. skipan, sem vanalegt er að gjalda undir skip í Sunnlendingafjórðungi, þeim prestum til eignar, sem búa í eyjunum, þó með því móti, að greindir prestar skulu þar í staðinn skikka þeim mönnum, sem á þessum landskipum róa, hús og vergögn eftir þeirra þörfum, svo hvor geri öðrum nægju fyrir sitt“.¹⁰)
Bessastaðasamþykktin sjálf boðar nýtt fyrirkomulag um tíundir í Vestmannaeyjum með ákvæðinu um fjórskiptingu tíundanna, er héldu áfram að vera fiskatíundir einar, en eigi tíund af fasteign eða lausafé, að undanskilinni hinni ólögboðnu tíund, sveitartíundinni, en nú gert ráð fyrir, að bændur greiddu lausafjártíund, eins og venja var annars staðar, en þetta var nýmæli hér. En í þessu efni höfðu einmitt myndazt hér fornar, fastar venjur, og engin eiginleg skipting tíundarinnar átt sér stað. Ákvæði Bessastaðasamþykktarinnar hafa heldur eigi hlotið staðfestingu konungs til að gilda hér, en þar hafa orðið ráðandi ákvæðin í leiðbeiningarbréfi frá 20. marz 1555, fyrir hirðstjóra, og fylgt þeim venjum, er áður giltu í Vestmannaeyjum í þessum efnum. Í nefndu leiðbeiningarbréfi segir, „að hans hátign konungurinn hafi svo ákveðið, að þeir, sem búi úti í eyjum, skuli hér eftir greiða fulla tíund til kirkjunnar, en þeir, sem halda bátum sínum út þaðan og liggja þar við, skuli greiða þar undirgift af bátum sínum, sem venja er til á Íslandi að greiða af bátum, og lætur konungur undirgift þessa ganga til uppeldis prestunum og til þarfinda kirkjunnar“. Leiðbeiningarbréfið mælir eigi fyrir um þrískiptingu tíundarinnar hér, heldur hefir verið fylgt hér um framvegis þeim venjum, er fyrir voru.
Fjórskipting tíundarinnar, eins og Bessastaðasamþykktin gerir ráð fyrir hér sem annars staðar á landinu, kom eigi til greina í sinni vanalegu mynd, heldur óbeinlínis í hluttöku konungs í prestatíundinni, og fátækratíund greidd með niðurjöfnun til ómagaframfærslu: Hér kom og annað fiskgjald, þurfamannafiskurinn, og sveitartíund, ólögboðin, greidd af lausafjáreign, í fugli og eggjum.
Tíundarhluti prestanna af „öðrum veiðiskap“, sbr. máldaga Kirkjubæjarkirkju frá 1269, en hér mun átt við tíund af fugli og eggjum, virðist allsnemma hafa gengið undan. Þessarar tíundar sést eigi getið seinna í dómum eða öðrum heimildum, nema hvað Bessastaðasamþykktin þó gerir ráð fyrir, að fuglatíundir og tíundir af eggjum haldist ennþá, sem þrátt fyrir það er engan veginn víst að verið hafi. Greindrar tíundar er heldur eigi getið í leiðbeiningarbréfinu frá 20. marz 1555. Líklegt er, að þessi tíund hafi að minnsta kosti að einhverju leyti komið í stað fátækrahlutans af fiskatíundunum, eða helzt, að sú venja hafi komizt á, að greiða sérstakt gjald af fuglaveiði til fátækra, í líkingu við gjaldið af fiskafla, þurfamannafiskinn. Í bænar- og kæruskjali, er prestarnir í Skálholtsstifti ásamt Oddi biskupi Einarssyni sendu konungi og ritað var í Skálholti 20. júlí 1592,¹¹) er þess getið um Vestmannaeyjaprestana, að þeir hafi ekki heldur neina inntekt, nema einn lítinn part af þeirri tíund, sem þar gelzt í fiski, eftir því sem vanalegt er“.¹²) Af þessu virðist mega ráða, að prestarnir hafi eigi notið fuglatíundar, er hér var komið.
Á síðasta hluta 16. aldar gelzt konungi 1/3 hluti tíundar í Vestmannaeyjum, en prestunum þar 2/3 hlutar. En sú breyting er nú orðin á gjaldskyldunni, að í stað þess að greitt var áður tíundi hver fiskur í fjöru,¹³) er nú greiddur einn skipshlutur í tíund af hverju skipi, er til fiskjar gekk, og þessum hlut skipt í þrjá staði, milli prestanna og konungs. Þessi breyting mun hafa komizt hér á um það leyti, er konungur stofnaði útgerð sína. Útgerðin hefir færzt mjög í aukana þá, frá því sem áður var, og séð sæmilega fyrir launum prestanna með umgetnum hætti vegna hinnar auknu bátatölu, og það þótt konungur nú reiknaði sér 1/3 hluta tíundanna og næði þannig hinum langþráðu tíundum af eyjunum. Vertíðarskipin, er nú gengu héðan, tólfæringar og teinæringar, hafa og verið miklu stærri en áður gerðist um eyjaskipin, og hefði tíundin verið reiknuð af þeim eftir hinum gamla máta, hefði hún aukizt verulega.
Um þessar mundir, eftir byggingu Landakirkju 1573, var og létt allri kostnaðarbyrði af prestunum framvegis vegna kirkjuviðgerða, er þeir höfðu orðið að kosta af kirkjutíundunum, sem prestarnir nú og lengi höfðu notið, ásamt hinni eiginlegu prestatíund, sem launa. Það sést og heldur eigi annað en að prestarnir hafi möglunarlaust tekið hinni umræddu breytingu um tíundirnar.
Laun prestanna voru þannig fólgin í fiskatíundinni, og fóru því eftir árferðinu, eða hversu mikið aflaðist, og verðinu, er þeir fengu fyrir fiskinn og fiskafurðirnar, og voru prestarnir því með afkomu sína líkt settir og bændurnir sjálfir, er áttu mannshluti og skipshluti, aðallega í smáskipum. Tekjur prestanna voru því mjög misjafnar eftir árferðinu. Prestarnir hafa haft vinnumenn í skiprúmum og átt hlut í skipum þeim, er eyjamenn gerðu út, og sumarútgerðin mun oft hafa dropið drjúgum. Tekjur prestanna af tíundunum, hvors fyrir sig, hafa eftir að þrískipting tíundarinnar komst á náð að jafnaði í góðum meðalárum um 15 skpd. af fullverkuðum þorski, gildum málsfiski, á síðasta hluta 16. aldar, svo og lítils háttar lönguhlutur, sbr. tíundarhluta konungs, og síðar jafnvel nokkuð hærra.¹⁴) Þetta má reikna að minnsta kosti 50—60 rd. virði. Töluvert hefir og fallið til af smáfiski og trosi. Þá má og telja með lýsi. Auk þessa kemur og, að prestarnir nutu fríábúðar á jörðum sínum eftir Tyrkjaránið. Finnur biskup Jónsson telur Vestmannaeyjaprestakall í III. og lægsta flokki (minimæ). Hæstu brauðin í þessum flokki, vissar tekjur, 48 rd.¹⁵) Einkennilegt er, að hér eru Vestmannaeyjar taldar sem eitt prestakall, með 38 rd. tekjum, og tekjur aðeins miðaðar við fiskatíundina, en á þessum tímum, er kirkjusagan miðar við, hafa eyjaprestarnir fyrir löngu fengið jarðir sínar til fríábúðar, er fleytti laununum allmikið fram. Afgjaldið af Ofanleiti var 15 vættir eða 37/8 skpd. Af Kirkjubæ nokkru minna. Kemur hér fram sem oftar ókunnugleiki á málefnum Vestmannaeyja, og hefir kirkjustjórnin látið sér óviðkomandi ýmsar ráðstafanir, er snertu Vestmannaeyjaprestana og kirkjuna, er umboðsmaður konungs réði mestu um. Fyrir nokkrum aukatekjum mætti og gera ráð. Brauðin virðast hafa verið of lágt metin og ættu fremur sennilega að tilheyra II. flokki brauða (mediocres). Meðal Vestmannaeyjaklerkanna teljast bæði vel lærðir menn og í fremstu röð, og hefðu þeir vart unað þar til lengdar, ef launakjörin hefðu eigi verið sæmileg. Þegar veltiár komu komst tíundin hátt, svo að vaxið gat í augum um tekjur prestanna. Hannes biskup Finnsson segir í bréfi til Ólafs stiftamtmanns 11. nóv. 1791, að séra Benedikt á Ofanleiti hafi á einu ári lagt inn í kaupstað fyrir 500 rd., þá er skippundið af fiskinum hafi verið 3 rd. 72 sk. Hefir prestur þá og haft hluti í útgerð. Séra Benedikt varð að síðustu mjög fátækur maður. Á fiskileysisárunum á síðasta hluta 18. aldar komust prestalaunin mjög langt niður. Á árunum 1764—1776 nam konungshlutinn af tíundinni 45 rd. árl., en hér mun reiknað með 6 rd. fyrir skpd., eins og venja var með konungstekjurnar, en lækkar ennþá mikið.¹⁶) Við sameiningu brauðanna 1837 er Vestmannaeyjaprestakall metið á 76 rd., eins og bæði brauðin 1748. 1850—1859 komst tíundin mjög hátt. Þannig nam hún árið 1855 10,560 gildum fiskum, alls 1,090 rd.
Prestssetrunum Kirkjubæ og Ofanleiti fylgdu góðar innnytjar af fuglaveiði og hagagöngu fyrir sauðfé í úteyjum. Prestarnir svöruðu lengi fullri landsskuld, sennilega frá því eyjarnar urðu konungseign. En eftir Tyrkjaránið 1627 — í því auma ástandi, er þá var hér — þótti eigi fært að láta prestana greiða landsskuld. En landsskuldargreiðslan af prestssetursjörðunum var eigi tekin upp aftur, og munu þar hafa ráðið tillögur umboðsmanns. Höfðu prestarnir síðan jarðir sínar til fríábúðar. Áður höfðu prestarnir oft kvartað undan því, án þess að því væri sinnt, að þeir hefðu „ekkert frítt beneficium og prestssetur, heldur yrðu þeir að búa á kóngl. Majest. leigujörðum“, sbr. t.d. bænarskjal presta til konungs 20. júlí 1592.
Kirkjubæjarprestar bjuggu oftast á 3/8 úr Kirkjubænum. 1587 hafði Kirkjubæjarprestur, séra Jón Jónsson 1/4 jarðarinnar og var eftirgjald hans 250 fiskar.¹⁷) Ofanleitisprestur hefir venjulega setið á 1/2 Ofanleitistorfunni. Eftirgjaldið lengi um 1/2 lest fiskjar. Prestssetursjarðirnar höfðu mikla fugla- og eggjatekju. Þessar atvinnugreinar voru stundaðar með samvinnu allra jarðarábúenda undir sama leigumála, svo að með þessu móti var einstaklingum kleift að hagnýta sér þessi hlunnindi, enda aðkeypt vinna í sambandi við veiðiskap og úteyjaafnot yfirleitt venjulegast greidd með vissri tiltölu af veiði, hagagöngu fyrir sauðfé og slíku. Virðist sem eigi hafi verið fullt tillit tekið til jarðahlunninda eyjaprestanna við brauðamat hér yfirleitt. Samhliða jarðabúskap hafa prestarnir að jafnaði rekið útgerð og stundum mikla, bæði fyrr og síðar, og átt í skipum með bændum á einokunartímunum og meðan konungsverzlunin stóð, innan þeirra takmarka, sem útgerð einstaklinga raunverulega var sett. Vestmannaeyjaprestar munu eigi hafa stundað sjómennsku sjálfir, að minnsta kosti eigi á vetrarvertíð, en sumir, einkum Ofanleitisprestar, hafa sótt sjó að sumarlagi nokkuð frá útræði Ofanbyggjara í Vík suður frá Ofanleiti. Í kærumálum konungsfógeta gegn séra Ormi Ófeigssyni í Kirkjubæ (1593—1607) hljóðar eitt kæruatriðið einmitt um það, að séra Ormur hafi móti sínu embætti gefið sig til að vera formaður á fiskibát, er konungur átti, og á móti fógetans vilja.¹⁸)
Á prestssetrunum hafa búin verið stærst og mannflest að jafnaði. Á Ofanleiti hafa húsakynni verið meiri á seinni öldum, enda var og Ofanleitisjörð stærri og henni fylgdu betri innnytjar í úteyjum heldur en Kirkjubænum, eftir að Yztiklettur var tekinn undan, en við það rýrnuðu Kirkjubæjarjarðir mjög mikið. Má gera ráð fyrir, að fyrr á tímum hafi eigi síðri hefð fylgt Kirkjubænum. Á Ofanleiti er kunnugt um bæjarhúsin frá því um miðbik 18. aldar, er voru allmikil. Aðalbæjarhúsin: Klefi svonefndur í tveim stafgólfum, sængurhús í þrem stafgólfum, þiljað innan, með fjalagólfi, 3 gluggar, lítill pallur í miðju. Skáli í þrem stafgólfum. Eldhús í fjórum stafgólfum, stórt búr, smiðja og skemma og húsagarður umhverfis. Einnig sérstakt hús, stofa, í þrem stafgólfum, þiljað innan, með lofti.
Prestssetrin hafa verið miðstöð héraðsins í menningarlegu tilliti, og prestarnir sjálfir forgöngumenn eyjabúa í andlegum og veraldlegum málum þeirra, eins og sjá má af tíðum kærumálum eyjamanna gegn umboðsvaldinu og kaupmönnum.
Eftir Tyrkjaránið gaf konungur eftir sinn tíundarhluta í bili, meðan útgerðin var skammt á veg komin aftur og fiskatíundir þar af leiðandi mjög litlar. Gekk konungshlutinn til uppeldis séra Ólafi Egilssyni, er eftir heimkomu sína frá Algier sat á Ofanleiti hjá tengdasyni sínum, er þar var þjónandi prestur, „skikkaður“ þangað strax eftir ránið. Að Kirkjubæ var prestur kominn 1629 eða 1630. Hefir eigi þótt annað sæma en að séra Ólafur, er ratað hafði í svo miklar raunir, hefði uppeldi sitt af prestatíundunum í Vestmannaeyjum, en þetta var eigi hægt með öðru móti en að konungur afsalaði sér sínum tíundarhluta. Segir svo í Minnisbók Odds biskups Einarssonar frá 1630: „En Jens Heselberg lét prestana eigi gjalda þess, að hann vildi að staðirnir yrði frí“. Mun hér vera átt við, að eigi var dregið af tíund þeirra. Oddur biskup staðfesti á ný skipun um tíundir til prestanna í Vestmannaeyjum. Staðfesting þessi, er gerð var í maí 1630, hljóðar á þá leið, að þeir séra Ólafur Egilsson og séra Gísli Þorvarðarson og séra Jón Jónsson skuli hafa sinn þriðjung hver af prestatíundinni þetta ár, 1630, og svo skal haldast héðan í frá, svo lengi sem konungsvaldið gerir ekki þar um aðra skikkan“. Hefir biskup gefið út téða skipun eftir að hann hefir móttekið umkvörtunarbréf frá séra Jóni Jónssyni í Kirkjubæ, þess efnis, að þeir séra Ólafur og séra Gísli skipti milli sín tíundunum, sem bezt þeim líki, en Kirkjubæjarprestur verði útundan. Eftirgjöf konungs á tíundinni til hagsmuna fyrir prestana gilti aðeins um stundarsakir og dró konungur aftur til sín sinn tíundarhluta, er ástandið batnaði og útgerðin komst í fullt horf.
Þegar illa lét í ári báru eyjaprestarnir sig einatt upp undan launakjörum sínum við biskup, sjá t.d. bænarskrá eyjapresta 26. júní 1689 um uppihaldseyri þeirra, sjá og biskupsbréf 12. jan. 1743 út af beiðni séra Illuga á Ofanleiti um að prestarnir fengju að njóta allra tíundanna, en biskup kveðst eigi úrskurða neitt um þessi mál, því að þau heyri sér eigi til. Prestarnir, er voru hér á síðari hluta 18. aldar, á hinum miklu fiskileysisárum, séra Benedikt Jónsson á Ofanleiti (1748—1781) og séra Guðmundur Högnason í Kirkjubæ (1742—1795), hófu umkvartanir yfir hinum lágu launakjörum sínum, sóttu um það til konungs að fá greidd árlega föst laun, 60 rd. til hvors, en fiskatíundirnar allar rynnu í konungssjóð.¹⁹) Höfðu prestarnir, eins og áður segir, nú fríar ábýlisjarðir, en áttu að halda við prestsseturshúsunum fyrir eigin reikning. Nefndir prestar höfðu og síðustu árin fengið hlutdeild í þeim 200 rd., er árlega var skipt milli fátækra presta, sbr. tilsk. 13. maí 1754.²⁰) Hafði hluti eyjaprestanna af þessum peningum numið 1-4 rd. árlega. Lagði biskup það til, að prestunum yrðu ákveðin föst laun úr konungssjóði, 30-40 rd. hvorum, er var svipað því, er tíundirnar voru taldar að vera í meðalárum, eftir að útgerðin fór að dragast saman, eða að konungur léti prestunum eftir þann 1/3 tíundarinnar, er konungi var reiknaður, en kaupmenn höfðu leigðan með öðrum konungstekjum af eyjunum og sem tekinn hafði verið frá prestunum án alls réttar. Sést það, að útlitið hefir þótt slæmt með að fá presta í eyjarnar og halda þeim þar, því að biskup lagði það og til, að Vestmannaeyjaprestum skyldi lofað brauðum á landi eftir 10 ára þjónustu. Leitað var umsagnar stiftamtmanns um málið. Afréði stjórnin, með því að stiftsyfirvöldin voru sammála um það, að bæta þyrfti launakjör prestanna, að láta prestunum eftir konungshlutann af tíundinni næstu sex ár, sbr. nefnda tilsk. 21. apríl 1777.²¹) Báðir umgetnir prestar voru lærdómsmenn miklir og séra Guðmundur talinn meðal allra lærðustu presta landsins. Ritverk hans mörg prentuð.
Þegar umgetinn sex ára frestur var liðinn, sendu prestarnir séra Guðmundur Högnason og séra Páll Magnússon, er kominn var að Ofanleiti eftir séra Benedikt, er nú var andaður, stjórninni beiðni um, að laun þeirra yrðu ákveðin 90 rd. árlega. Samkvæmt tillögum biskups og amtmanns var ákvæðið í tilsk. 21. apríl 1777 framlengt til þriggja ára, sbr. tilsk. 19. júní 1783.²²) Árið 1786 sóttu prestarnir um það á ný, að fá launaviðbótina framlengda, ella væru þeim greidd viss árleg laun, en tíundin tilfélli öll konungssjóði. Var gefin út tilsk. 26. apríl 1786²³) um framlengingu tilsk. 19. júní 1783, sbr. tilsk. 21. apr. 1777, þar til öðruvísi kynni að verða ákveðið. Kaupmönnum voru endurgreiddir úr konungssjóði 45 rd. árlega, en það var sú upphæð, sem konungshluti tíundarinnar var metinn í afgjöldum.
Ný ákvæði um tíundina voru eigi tekin upp aftur eftir 1786 og fengu eyjaprestarnir að halda fiskatíundunum óskertum hér eftir, enda hélzt og líkt árferði hér um og eftir aldamótin 1800. Tíundargreiðslan til konungs var þannig felld niður með öllu 1777 og framvegis, meðan fiskatíundir voru greiddar, en þær voru fyrst felldar niður með lögum 14. des. 1877, frá 1. jan. 1879 að telja.
Á fyrstu árum 19. aldarinnar var útgerðin mjög lítil, svo að prestarnir þóttust vanhaldnir mjög í tekjum, þótt þeir, eins og áður segir, nytu fiskatíundanna óskertra. Sótti nú séra Jón Högnason á Ofanleiti um það til stjórnarinnar 1812, að til Ofanleitis yrðu lögð afgjöldin af hinum helmingi Ofanleitistorfunnar. Afgjaldið eftir þessar jarðir nam 1/2 lest fiskjar. Tók stjórnin allvel í þetta, sbr. kansellíbréf 17. júlí 1813, og lofaði að leggja hjáleigurnar Svaðkot og Ofanleitishjáleigu — seinna Draumbæ — undir staðinn, en tjáðist myndu selja Gvendarhús og Brekkhús, og lofaði að leggja andvirðið til Ofanleitisprestakalls, og sama var lofað Kirkjubæjarpresti, ef til sölu kæmi á Kirkjubæjarjörðum.²⁴) Ekkert af þessu komst samt til framkvæmda.²⁵)
Með úrskurði 7. júní 1837 ákvað konungur samkvæmt tillögum Steingríms biskups Jónssonar og stiftamtmanns L.A. Krieger, að Kirkjubæjarprestakall í Vestmannaeyjum skyldi sameinað Ofanleitisprestakalli, svo að eftirleiðis yrði eitt prestakall í eyjunum, og skyldi þáverandi sóknarprestur að Ofanleiti, séra Jón Austmann, þjóna hinu nýja, sameinaða prestakalli.²⁶) Ofanleiti varð áfram prestssetur eyjanna, en prestssetursjarðirnar í Kirkjubæ lagðar Ofanleitispresti til tekna. Var afgjaldið eftir þær 408 fiskar (smátt hndr.). Jörðunum fylgdi beitarítala, vetrarbeit fyrir 18 sauði í Suðurey og 36 ær á Heimalandi, fuglaveiði í Brandi og Geldung og víðar og ítak í Súlnaskeri og Geirfuglaskeri. Hið nýja brauð var metið með vissum tekjum 76 rd., sbr. kansellíbr. 3. okt. 1837.²⁷) Um aldamótin 1800 var tillag eyjapresta til fátækra prestakalla 2 rd. af hvorum, en var áður 1 rd. af hvorum. Til prestsekkna skyldi greiða 1/10 af nefndum tekjum brauðsins.²⁸) Náðarárslaun prestsekkna voru hér 1 hlutur, tíundarhlutur af einu skipi.²⁹)
Fasteignar- og lausafjártíund, heytollur og dagsverk voru engin goldin í Vestmannaeyjum. Offur voru talin um 16 rd. árlega.
Samkvæmt skýrslum um tekjur og gjöld Vestmannaeyjaprestakalls 1849—1853 var þetta 5 ára meðaltal, sem hér segir:

Ofanleiti, prestssetursjörðin, 30 hndr. 44 rd. 51 sk.³⁰)
Ásamt Kirkjubæjarjörðunum þrem, 21 hndr. 30 — 27 sk.³¹)
Aukaverk 50 —
Offur 16 —
Fiskatíundir, 5 ára meðaltal,
8000 fiskar, þar af 4000
reiknað innlagt „blautt“
266 —
en hitt verður að frádregnum kostnaði 316 —
Lýsi 88 —
Samtala 810 rd. 78 sk.
Útgjöld: Til uppgjafapresta og prestsekkna 3 —
Mismunur 807 rd. 78 sk.



Prestatíundin í Vestmannaeyjum hljóp árin 1850—1859³²):

1850 7257 fiskar, eftir verði á harðfiski, salt- og blautfiski og lýsi 630 rd.
1851 7200 do. do. 610 —
1852 9060 do. do. 761 —
1853 6000 do. do. 504 —
1854 6360 do. do. 603 —
1855 10560 do. do. 1096 —
1856 8400 do. do. 652 —
1857 2090 do. do. 313 —
1858 3054 do. do. 317 —
1859 5000 do. do. 462 —


Þegar Vestmannaeyjaprestakall losnaði við dauða séra Jóns Austmanns 1858 komst til tals, sbr. bréf kirkju- og kennslumálaráðh. til stiftamtm. 19. ágúst 1859,³³) að veita eigi brauðið, nema með því skilyrði, að næsti prestur héldi og aðstoðarprest. Þótti ófært nú sem áður að eigi væru tveir prestar vígðir í eyjunum, eins og alltaf hefði verið þar. Var sóknarpresti talið vel kleift að kosta aðstoðarprest, því að prestakallið hér væri nú eitthvert bezt launaða brauð landsins.³⁴) Eigi varð samt af því, að þetta skilyrði yrði sett næsta presti, enda höfðu og tekjur rýrnað eftir 1856. Séra Brynjólfur Jónsson, er verið hafði kapellán hjá séra Jóni Austmann og nú hlaut brauðið, taldi þess og litla þörf, að brauðinu væri skipt. Segir hann í bréfi til héraðsprófasts 3. okt. 1859, að séra Jón Austmann hafi þjónað einn í eyjunum í 15 ár, og hafi aldrei orðið að því bagi; hafi þó séra Jón verið aldraður maður. Þegar eyjamenn vildu fá séra Jón Austmann fyrir þingmann eyjanna 1845, á fyrsta Alþingi, er haldið var, var þessu neitað, með því að eigi mætti séra Jón sitja á þingi, meðan enginn annar prestur eða kapellán væri í eyjunum.³⁵)
Greiðsla prestsfiskjarins með fullum skilum hefir eigi alltaf gengið umyrðalaust, eins og sjá má af dómum og skrifum hér um. Oftast mun hafa verið deilt um það, hvort greiðast skyldi af öllum fiski, er á land kom, og ekkert undanskilið, sem og um það, hvort greiða skyldi af öllum fleytum og ferjum, jafnt af smáferjum sem stórskipum, en hitt sjaldnar, að menn neituðu allri greiðslu af skipi, sbr. dóm frá 1491, er dæmdur var á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Er líklegt, að hér hafi verið um greiðslu af landskipi að ræða, enda töldu landmenn sér síður skylt að inna tíundina af höndum. Þessi málefni, er vörðuðu launakjör presta, heyrðu til hinum svokölluðu andlegu málum, er kirkjulegir embættismenn höfðu dómsvald í.
Um greiðslu fiskatíundar af þilskipum sést eigi getið. 1835 fóru eyjaprestar þess á leit við stiftamtmann, að gefið yrði út ákvæði um, að prestatíund skyldi greidd af þilskipum, er gerð væru út frá eyjunum. Þessu neitaði stjórnin að svo stöddu, sbr. kansellíbr. 24. maí 1836.³⁶)
Um 1850 kvartar sóknarprestur yfir því til sýslumanns, að menn sýni undanbrögð um tíundargreiðslu, eins og sífellt hafði viljað brenna við. Færðust sumir formenn undan því að greiða af smáferjum, sem þó var skylt. Samþykkti prestur til samkomulags, að taka skyldi aðeins 1/3 hlut af bátum, sem færri væru á en fjórir, og að undanskilja alveg eins manns för.³⁷) Eftir þetta fór meira að tíðkazt, að menn réru einir á bát á sumrum.
Umkvörtun kom frá eyjaprestunum 1702 um að þeir fengju ekki tíund af trosfiski utan vertíðar, sem þeir áttu rétt til, en eyjamenn báru þá fyrir sig gamla venju um þetta, er þó eigi kom þeim að gagni, er málið kom fyrir allsherjar-prestastefnu.
Tíundarhlutur af hákarli var eigi greiddur, að minnsta kosti eigi í seinni tíð og eigi fyrr en eftir 1872, að um þetta var genginn dómur. Með héraðsdómi Vestmannaeyja 14. des. 1872, er dæmdur var í máli út af kæru sóknarprests eyjanna á hendur nokkrum eigendum hákarlaskipa fyrir það að greiða eigi tíund af hákarlaafla. Var svo ákyeðið, að greiða skyldi einn hlut í tíund til prests af hákarlaafla, er fékkst á báta í Vestmannaeyjum. Dómur þessi var staðfestur í landsyfirrétti 15. des. 1873. Í forsendunum er vísað til máldagans frá 1269 og tekið fram, að með fiskatíund sé átt við tíund af öllu fiskfangi og þá einnig af hákarlaveiði. Og þótt fyrirrennarar núverandi sóknarprests í eyjunum hafi eigi gengið eftir tíundinni af hákarli, sem fengizt hefir á róðrarskip úr Vestmannaeyjum, þá geti það eigi hnekkt tíundarkröfu núverandi prests, ef hún finnist vera á rökum byggð.³⁸)
Formenn fyrir landskipum, er gengu héðan, skrifuðu sýslumanni Vestmannaeyja 1855 og kröfðust þess að vera algerlega undanþegnir því að greiða framvegis tíund til Vestmannaeyjaprests. Eins og áður segir var tíundin af landskipunum 1/2 hlutur. Færðu þeir fram sem aðalástæðu fyrir kröfu sinni, að þeir nytu eigi framar hlunninda sem áður, eða ókeypis vergagna, er búið var að leggja niður fiskigarðana í eyjunum. Fiskigarðana höfðu umboðsmenn látið landmönnum í té ókeypis, en munu hafa tekið gjald fyrir hjalla. Hjá prestunum höfðu landmenn engin vergögn, þó að gert væri ráð fyrir því í Bessastaðasamþykktinni. Stóð í stappi um þessi mál um hríð, og vildi sýslumaður enga tilslökun samþykkja, enda engin lög fyrir því. Um greiðslu fiskatíundar af landskipum vísast til Alþingisdóms um tíund af trosfiski, 30. júní 1680.³⁹) Rangæingar sendu bænarskrá til Alþingis 1861, þess efnis, að skip úr Rangárvallasýslu, sem róa til fiskjar úti í Vestmannaeyjum, mættu losna við að gjalda prestinum í Vestmannaeyjum 1/2 hlut í fiskatíund. Undir bænarskrána rituðu 97 bændur. Báru landmenn það fyrir, að þeir fái nú eigi lengur endurgjald það, er þeim hafi verið heitið með Bessastaðasamþykktinni, þar sem búið sé að leggja fiskigarðana niður, er landmenn hafi áður notað.
Samkvæmt brauðamatinu frá 1867—1868 voru tekjur Vestmannaeyjaprestakalls sem hér segir:

Landsskuld af Ofanleiti, 300 áln., sem borgist
eftir verðlagsskrá á harðfiski
93 rd. 42 sk.
Tekjur af hjáleigum engar.
Af kirkjujörðum: Lénsjörð Kirkjubær, afgjöld
200 álnir í hörðum fiski
63 — 51 —
Tekjur af sókninni, hér aðeins talin offur, 5 að
tölu, borguð með
12 —
Borgun fyrir aukaverk og skoðunarlaun
tekjureikninga
61 — 46 —
Aðrar tekjur. Þær eru það, sem kalla má aðaltekjur
prestakallsins, nefnilega hin svokallaða fiskatíund.
Eftir meðaltali 5 síðustu ára hefir fiskatíund þessi
verið samtals 2850 fiskar, sem að sama fimm ára

meðaltali hafa verið hér um bil 22 skpd. af saltfiski,
sem nú er hér eingöngu verkaður svo sem
verzlunarvara, á 22 rd., frátaldir 3 rd. fyrir salt og verkun á skpd.,

verður reiknað í saltfiski 488 — 38 —
38 og 3/5 kútar lýsi 64 —
Ennfremur tíund af fjögra og tveggja manna
förum, áætlað
30 —
og þá tekið tillit til þess, hve erfitt er að hirða
þetta frá Ofanleiti, svo langan veg.
Tekjur alls 812 rd. 81 sk.
Útgjöld:
Til uppgjafapresta eftir konungsbréfi 14. febr. 1705 2 — 24 —
Til prestsekkna eftir konungsbréfi
5. júní 1750
72

Aths. prófasts: Að fiskatíundir í þessu brauðamati eru svo miklu minni en í brauðamatinu frá 1853 kemur af þvi, að á seinni árum hefir fiskafli í Vestmannaeyjum oft verið sáralítill og miklu minni en áður. Sökum lækkunar á saltfiski og lýsi lækkar heildarupphæðin um 39 rd. 25 sk.
Fiskatíund til presta var upphafin með lögum um skattgjald í Vestmannaeyjum 14. des. 1877, frá 1. jan. 1879. Voru presti ákveðin laun eftir 5 ára meðaltali tekna hans undanfarin ár og nam það 20 skpd. saltfiskjar. Þessi ár hafði verið fremur fisklítið. Hin föstu laun prestsins voru ákveðin kr. 1443,19, og prestinum bættur upp sá tekjumissir, sem leiddi af ákvæðum 1. gr. nefndra laga og eigi vannst upp, sbr. 2. og 3. gr. laganna.⁴⁰) Með téðum lögum, sbr. lög 14. des. 1877 um ábúðar- og lausafjárskatt og lög sama dag um tekjuskatt, var löggilt skattgjald í Vestmannaeyjum sem annars staðar af fasteign og lausafé til landssjóðs, kirkju og prests og fátækra, sbr. 2. gr. Í 3. gr. var ákvæði um að presti skyldi hér sem annars staðar greitt dagsverk og heytollur. Var Vestmannaeyjaprestur loks með greindum lögum kominn undir venjuleg lög um launagreiðslur. Með lögum um skipun prestakalla 27. febr. 1880 voru Vestmannaeyjaprestakalli lagðar 800 kr. og svo kveðið á jafnframt, sbr. 1. gr. 34, að tillagið við næstu prestaskipti skyldi aðeins verða 600 kr.⁴¹)
Tekjur og gjöld Vestmannaeyjaprestakalls um 5 ára bil frá fardögum 1893 til fardaga 1898 voru þannig, að brauðið var metið að hreinum tekjum kr. 1083,61.⁴²)
Hér fylgir útdráttur:

a. Prestssetrið Ofanleiti. Eftir álitsgjörð hreppstjóra
er jörðin sanngjarnlega leigð með 280 álna
landsskuld, sem borgist í peningum eftir meðalverði,
5 ára meðaltal.
kr. 124,32
b. Hlunnindi jarðarinnar er lunda-, svartfugla- og fýlungaveiði
í Bjarnarey að helmingi og sömuleiðis að helmingi
í Smáeyjum, ennfremur í Súlnaskeri til jafns við hverjar
aðrar 4 jarðir, 4 hlutir, og að sömu tiltölu
í Geirfuglaskeri, ennfremur dálítil súlnaveiði í Súlnaskeri
og Hellisey. Lundaveiðin mjög lítil móti því, sem áður var.
Svartfuglaveiði á förum. Kostnaður við veiðina sívaxandi.
Bjargfuglamenn ófáanlegir fyrir minna en 2/3-3/4
veiðarinnar. Þessi hlunnindi eru eftir álitsgjörð hreppstjóra
metin, að frádregnum kostnaði, eftir 5 ára meðaltali.
Eggjatöku engrar minnzt.
— 50,00
c. Hjáleigur:
Hjáleigur heimajarðarinnar engar.
1. Kirkjubær, 3 jarðir: Bænhús, Syðstibær og Garðar.
Eftir álitsgjörð hreppstjóra sanngjarnlega leigð
með 66 álnum, sem gjaldist með
innskrift í kaupstað.
— 229,30
2. Ey, landsskuld og leiga — 125,63
3. Brók, landsskuld og leiga — 20,25
4. Strandarhöfuð, landsskuld og leiga — 72,30
5. Akurey, landsskuld og leiga — 107,56
Þessar 4 síðastt. jarðir allar í Út-Landeyjum.
6. Hólmar í Austur-Landeyjum, landssk. og leiga — 54,34
7. Ljótarstaðir í A.-Landeyjum, landssk. og leiga — 63,98
8. Hólmahjál. í A.-Landeyjum, landssk. og leiga — 43,30
9. Butra í Fljótshlið, landsskuld og leiga — 22,73
Kr. 713,98
Tekjur af ískyldum útkirkjum, vextir af
innstæðu o.s.frv. eigi til.
Tekjur af sókninni:
a. Fasteignatíund af 382,84 hndr. 99,85 áln. kr. 44,33
b. Lausafjártíund af 12 hndr. — 1,78
c. Dagsverk, 80 að tölu, hvert á kr. 2,51 — 200,80
d. Lambsfóður, 43 að tölu með 4 kr. — 172,00
e. Offur, að tölu 6, greidd með 4 kr. — 24,00
f. Borgun fyrir aukaverk greidd með — 76,53
g. Aðrar tekjur, uppbót úr landssjóði — 42,38
Tekjur samtals kr. 1215,80
Útgjöld:
Til prestsekkju 1/8 af föstum tekjum
prestakallsins
kr. 149,91
Afborgun og vextir af landssjóðsláni —42,29


Jarðirnar 2—9 voru lagðar til Vestmannaeyjaprestakalls frá Breiðabólsstaðarprestakalli í Fljótshlíð eftir prestaskipti 1889, frá fardögum 1890, sbr. lög 27. febr. 1880 um skipun prestakalla, 1. gr. 28, sbr. 5. gr. Sjá lög 16. nóv. 1907. Vestmannaeyjaprestur nýtur launa samkvæmt hinum almennu launalögum.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Skýrslur um tekjur og gjöld Vestmannaeyjaprestakalls 1893—1898, Þjóðskjs.
2) Sjá Kirkjurétt Jóns Péturssonar, bls. 165—169.
3) Ísl. kirkjuréttur, J. Pétursson, bls. 196; Halldór Einarsson (Haldor Einarsen) : Værdi-Beregning paa Landsviis og Tiende Ydelsen i Island, Khavn 1833; F. Jónsson: Hist. eccl. Isl. III, bls. 39—40.
4) Samkv. heimild í kristinrétti.
5) Ísl. fornbr.s. VII, nr. 80.
6) Sjá bréf Ögmundar biskups, Ísl. fornbr.s. X, nr. 157.
7) Lovs. I, bls. 64—65.
8) Ísl. fornbr.s. 1546, nr. 401.
9) Ísl. fornbr.s. 1546, nr. 403.
10) Lovs. I, bls. 71—73 og 74.
11) Sjá og Kýraugastaðasamþykkt 19. maí 1592.
12) Alþingisbækur II, bls. 255 og 276.
13) Sjá dóma og Bessastaðasamþykkt 1. júlí 1555.
14) Umboðsr. V.E. 1586—1601; A.M. Embedsskrivelser.
15) Sjá og Specification paa alle Præstekald og deres Revenuer i Island ude i Skalholtsstift 1748; P. Pétursson: Hist. eccl. bls. 299; sjá og kgbr. 29. jan. 1740.
16) Forest. 12. apríl 1777 og 21. apríl s.á.
17) Jarðabók 1586-1587.
18) Kærumál gegn séra Ormi Ófeigssyni, Alþingisb. IV, 62—67.
19) Tilsk. 21. apríl 1777 um fiskatíundir og reikninga kirkjunnar i Vestmannaeyjum, sbr. Forest. 12. apríl 1777; Lovs. IV, 393—399. 20) Rentek. Norske Relat. og Resol.; Lovs. III, 200.
21) Tíundarhluti prestanna hafði 1773 eigi náð fullum 6 vættum, 1774 undir 5 vættum, 1775 og 1776 undir 2 vættum.
22) Lovs. IV, 743.
23) Rentek. Norske Relat. og Resol. Prot. 67, nr. 42; Lovs. V, 255.
24) Canc. I, Dep. Brevb. 1813, nr. 1935.
25) Samkv. skrá yfir prestaköll á landinu og mat á þeim frá 1748 (Kirkjusaga dr. Péturs Péturssonar; Lovs. II, 701—712) eru prestaköll á landinu þá talin 191 (ættu að vera 192, Vestmannaeyjar taldar eitt). Tekjur þessara 191 prestakalla eru alls taldar 6,443 rd. 13 sk. 55 brauð eru með undir 19 rd. árlegum tekjum.
26) Algren Ussing Reskr. Saml. 1837, 177; Lovs. XI, 69—70.
27) Lovs. XI, 112—113.
28) Annars 4 mk., ef engin prestsekkja var í sjálfu brauðinu. Með lögjöfnun við Reskr. 14. maí 1705 skyldi greiða af tekjunum 2 rd. 24 sk. árl.
29) Sjá úttekt Ofanleitis 10. júní 1811.
30) 300 álnir.
31) 204 álnir.
32) Bréfabók sóknarprestsins í Vestmannaeyjum, Þjóðskjs.
33) Lovs. XVII, bls. 634—635.
34) Sjá og Þjóðólf 1859.
35) Sýsluskjöl V.E. 1840—1846, Þjóðskjs.
36) Canc. I. Dep. Brevb. 1836, nr. 1480; Lovs. X, 750.
37) Sýsluskjöl V.E. 1850—1860, Þjóðskjs.
38) Dómasafn 1873, bls. 87.
39) Segir í dómnum, að presti, Oddi Eyjólfssyni í Kirkjubæ, 1674—1732, hafi verið gerð „tregða á því tillagi, sem kóngleg Majestas Christians þriðja (háloflegrar minningar) hafi prestunum í Vestmannaeyjum til uppeldis tileinkað, nefnilega undirgift af þeim bændaskipum, sem þar á kóngsins grunni, er til fiskafla haldið, hvar af presturinn þykist vanhaldinn, einkanlega af hlutskipti trosfisksins utan vertíðar“. „Auglýsa nú lögþingsmenn á líkan hátt sinn skilning vera og kennidómurinn ákveður, sem sé, að trosfiski sé ekki fráskilið“.
40) Ráðh.br. 17. okt. 1878.
41) Lagas. III, 231.
42) Sjá skýrslur í skjalasafni biskups í Rvík.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit