1973 Allir í bátana/Frásagnir, greinar og viðtöl tengd Heimaeyjargosinu/Þyngra en tárum taki að missa túnin og skepnurnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. október 2025 kl. 19:12 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. október 2025 kl. 19:12 eftir Frosti (spjall | framlög) (tenglar)
Fara í flakk Fara í leit

Þyngra en tárum taki að missa túnin og skepnurnar

Lóga þurfti kúnum og kálfunum á Kirkjubæ vegna eldgossins

Þorbjörn (Guðjónsson) bóndi á Kirkjubæ og kona hans Helga (Þorsteinsdóttir) höfðu orðið vör við væga jarðskjálftakippi á mánudagskvöldið og fóru ekki úr fötum. Skápar og hurðir titruðu. Það var eins og þau fyndu á sér, að eitthvað væri í aðsigi.

Þetta var þeirra síðasta kvöld á Kirkjubæ eftir meira en hálfrar aldar búsetu þar. Þorbjörn bóndi er 83 ára gamall, en Helga 75 ára. Veluppbyggð húsin, ræktuð jörðin, hin fallegu tún suður af Kirkjubæjum var lífsstarf þeirra.

Þorbirni virtist gosið eins og smástrókur fyrst í stað, en síðan rifnaði jörðin í átt til sjávar. ,,Þetta var eins og kveikt væri á kertum." Glóandi grjótið gróf sig niður í túnsvörðinn.

Tún Þorbjörns og öll austureyjan var lýst upp í ægilegu skini. Þegar þeir feðgar, Þorbjorn og Ingi, og Ingvar, tengdasonur Þorbjörns, höfðu komið mæðgunum, Helgu og Unni, vestur í bæinn, fóru þeir að huga að skepnunum. Með kálfum og ungviði voru 40 nautgripir í fjósi, þar af voru 28 mjólkandi kýr; auk þess átti Ingi tvo hesta. Þorbjörn og þeir Kirkjubæjarmenn voru ákveðnir í því að fara ekki frá skepnunum lifandi, ef annars væri nokkur kostur. En eins og útlitið var mátti lítið út af bera, svo að unnt væri að ná skepnunum; eldsteinar þeyttust heim í hlaðvarpann að Kirkjubæ.

Þorbjörn bað lögreglustjórann að vera viðbúinn að skjóta skepnurnar á básunum, ef þeir næðu þeim ekki frá bæ. Bræðurnir frá Háagarði komu þeim Kirkjubæjarfeðgum til hjálpar, Bjarni formaður, Unnar og Þorgeir Guðmundssynir, granni Þorbjörns, Jón Nikulásson i Staðarbæ og Engilbert, sonur Þorbjörns og Helgu, sem er bifreiðastjóri í Eyjum.

Ennþá var stafalogn, en gosstrókarnir spýttust með krafti og gný beint upp í dimman vetrarhimininn. Barmar sprungunnar voru í roðaglóð og hlóðust óðfluga upp. Eldbjarminn á himni og dökkir skuggar húsa.

Þeir leystu kýrnar af básum og teymdu þrjár kýr á undan. Klukkan var að verða þrjú; öðru hverju s1ó móðu yfir og lítils­ háttar aska féll yfir Kirkjubæina. Allt gekk vel og kýrnar tóku á rás rétta leið vestur götuna. Kálfarnir voru skildir eftir af ótta við, að þeir myndu ærast og trylla kýrnar. Sigurbergur Jónsson í Ólafsbæ var lagður af stað með sínar kýr. Fjósið hjá þeim var talsvert fyrir norðan Kirkjubæjar­hverfið og þar voru 15 nautgripir. Honum gekk vel með kýrnar vestur götuna. Þær hlupu öskrandi vestureftir. Kirkjubæjarmenn ráku kýrnar niður í aðgerðarsal Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja. Þá var gosið í sprungunni að ná fullum krafti og orku, og þegar þeir ráku síðustu kýrnar um þrjú leytið um nóttina sáu þeir, að há loftskeytastöng, beint austur af Kirkjubæjum þeyttist í loft upp. Með tilliti til þessa útlits ákváðu þeir bændurnir að lóga skepnunum. Þeir töldu ekki forsvaranlegt að hafa þær fóðurlausar í langan tíma. Um fjögurleytið gerði grenjandi öskufall austur á bæjum. Það stytti heldur upp um sex leytið um morguninn. Þá ákváðu þeir að freista þess að komast í fjósið á Kirkjubæ og ná í kálfana. Leiðin austur að Kirkjubæ var þá orðin þungfær af ösku og minni bílar komust með erfiðismunum áfram, varla sáust handaskil fyrir gufumekki og öskufalli. Vind hafði aukið, en á Stórhöfða var vindur klukkan sex um morguninn, 23. janúar, aust-suðaustan fjögur til fimm vindstig. Hraunið hafði nú náð í sjó fram, og glóðheit askan kom í hrinum yfir jörð og menn. Við þessar kringumstæður sáu Kirkjubæjarmenn sér ekki annað fært en að skjóta kálfana átta á básum sínum og skilja skrokkana þar eftir. Það var ekki sársaukalaust fyrir þá feðga að rifja þessa raunasögu upp.

,,Það er nú ekkert að missa húsin", sögðu þeir báðir, ,,en að missa túnin og gripina - það er þyngra en tárum taki." Alikálfarnir voru stolt Inga.

...Þorbjörn Guðjónsson yfirgaf Eyjarnar um ellefu-leytið um morguninn; þá var Helga, Guðrún í Ólafsbæ og húsfreyjur aðrar á Kirkjubæjum komnar til Reykjavíkur. Þær fóru með flugvél. Jón Nikulásson fylgdi Salgerði konu sinni til skips, en fór síðan að hjálpa til við kýrnar.

Kom hér skýrt fram það hjálparþel, sem alltaf ríkti með bændum og ábúendum á Kirkjubæ.


Heimildir

  • Guðjón Ármann Eyjólfsson. VESTMANNAEYJAR, BYGGÐ OG ELDGOS. Ísafoldarprentsmiðja 1973



Heimildir