Páll Oddgeirsson
Páll Oddgeirsson var fæddur 5. júní 1888 í Kálfholti í Rangárvallasýslu og lést 24. júlí 1971.
Foreldrar hans voru séra Oddgeir Guðmundsen og kona hans, Anna Guðmundsdóttir húsfreyja.
Börn Oddgeirs og Önnu voru:
1. Guðmundur Oddgeirsson, f. 28. maí 1876 að Felli í Mýrdal, d. 5. nóvember 1920. Stórkaupmaður í Kaupmannahöfn, kvæntur danskri konu.
2. Jóhanna Andrea Oddgeirsdóttir húsfreyja, f. 26. maí 1877 að Felli í Mýrdal, d. 17. nóvember 1906. Hún var miðkona Magnúsar Jónssonar sýslumanns, síðar bæjarfógeta í Hafnarfirði.
3. Guðrún Sigríður Oddgeirsdóttir húsfreyja, f. 11. júní 1878 að Felli í Mýrdal, d. 3. maí 1968. Hún var þriðja kona Magnúsar Jónssonar sýslumanns, síðar bæjarfógeta í Hafnarfirði.
4. Margrét Andrea Oddgeirsdóttir húsfreyja í Winnipeg, f. 25. september 1879 að Felli í Mýrdal, d. 6. mars 1966 í Californíu. Maður hennar var Skúli Gissurarson Barneson bakarameistari.
5. Þórður Oddgeirsson, f. 19. september 1880 að Felli í Mýrdal, d. 28. september 1880.
6. Þórður Oddgeirsson, f. 11. nóvember 1881 að Felli í Mýrdal, d. 13. júlí 1882.
7. Jóhannes Oddgeirsson, f. 16. júlí 1882 að Miklaholti, d. 16. júlí 1882.
8. Þórður Oddgeirsson yngsti, prestur og prófastur á Sauðanesi í N-Þing., f. 1. september 1883 í Miklaholti, d. 3. ágúst 1966. Hann var fyrr kvæntur Þóru Ragnheiði Þórðardóttur, síðar Ólafíu Sigríði Árnadóttur.
9. Guðlaug Oddgeirsdóttir verkakona, f. 20. janúar 1885 í Miklaholti, d. 21. desember 1966.
10. Björn Oddgeirsson, tvíburi, verkamaður í Winnipeg, f. 18. mars 1886 í Miklaholti, d. 9. janúar 1983, ókvæntur.
11. Haraldur Oddgeirsson, tvíburi, f. 18. mars 1886 í Miklaholti, d. 30. júlí 1886.
12. Páll Oddgeirsson kaupmaður og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, f. 5. júní 1888 í Kálfholti í Holtum, Rang., d. 24. júní 1971. Kona hans var Matthildur Ísleifsdóttir.
13. Ingibjörg Oddgeirsdóttir, f. 17. ágúst 1889 í Kálfholti í Holtum, d. 1. júní 1890.
14. Auróra Ingibjörg Oddgeirsdóttir húsfreyja, f. 25. september 1890 að Ofanleiti, d. 15. febrúar 1945. Maður hennar var Þorvaldur Guðjónsson formaður. Þau skildu.
15. Sigurður Oddgeirsson vélstjóri og verkamaður í Reykjavík, f. 24. apríl 1892 að Ofanleiti, d. 1. júní 1963. Kona hans var Ágústa Þorgerður Högnadóttir
Fjölskyldan flutti til Eyja ári eftir fæðingu Páls því þar fékk faðir hans veitingu fyrir Vestmannaeyjaprestakalli. Séra Oddgeir var prestur í Eyjum í 35 ár við miklar vinsældir. Páll var í stórum systkinahóp, átti hann 14 systkini.
Eiginkona Páls var Matthildur Ísleifsdóttir frá Kirkjubæ. Þau giftust 17. janúar 1920. Þau eignuðust fimm börn. Matthildur lést í ágúst 1945 en Páll lést árið 1971. Þau bjuggu í Miðgarð við Vestmannabraut ásamt móður Matthildar, Sigurlaugu Guðmundsdóttur.
Menntun
Til Kaupmannahafnar var Páll sendur til að nema við verzlunarskóla.
Störf
Þegar Páll kom heim frá Kaupmannahöfn stofnaði hann verslun og gat sér góðan orðstír fyrir góðar og smekklegar vörur. Í uppeldi sínu hafði verið lögð áhersla á velvild í garð sjómanna og fékk hann að kynnast hinum erfiðu hliðum preststarfsins þegar slysin höfðu átt sér stað. Því stofnaði hann útgerð og var með fiskverkun og átti gott samstarf við sjómenn.
Menningarstörf
Páll hafði óþrjótandi áhuga á Vestmannaeyjum og gerði allt sem í hans valdi stóð til að bæta menningu og að rækta Eyjarnar. Ræktaði hann á mörgum stöðum á Heimaey og ber hæst ræktunina suður í Klauf á Breiðabakka, þar sem hann útbjó góðan útivistarstað fyrir Eyjamenn.
Páll stóð fyrir byggingu minnisvarða um drukknaða og hrapaða við Vestmannaeyjar. Kom hann með hugmyndina á Þjóðhátíð árið 1935 og afhjúpaði hann hið mikla verk árið 1951.
Páll gaf út Minningarrit í mars 1952, þar sem fjallað er um slysfarir í Eyjum frá aldamótum 1900, og um tilurð minnisvarðans og fleira þessu tengt.
Heimildir
- Bergljót Pálsdóttir, munnleg heimild.
- Friðfinnur Finnsson. Páll Oddgeirsson, minningargrein. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972.