Lúðvík Jónsson (Haga)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. mars 2016 kl. 11:06 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. mars 2016 kl. 11:06 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Lúðvík Jónsson frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, bakarameistari í Eyjum og síðan á Selfossi fæddist 14. október 1904 og lést 21. mars 1983.
Faðir Lúðvíks var Jón formaður að Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, f. 17. september 1856, d. 8. september 1941, Guðmundsson bónda og formanns á Gamla-Hrauni 1860, f. 10. júlí 1830, d. 21. febrúar 1914, Þorkelssonar bónda í Mundakoti, f. 1802, d. 29. apríl 1880, Einarssonar „ríka“ Hannessonar, og konu Þorkels í Mundakoti, Guðrúnar húsfreyju, f. 1804, d. 8. júní 1863, Magnúsdóttur í Mundakoti Arasonar.
Móðir Jóns á Gamla-Hrauni og kona Guðmundar Þorkelssonar var Þóra húsfreyja, f. 24. október 1830, d. 4. september 1918, Símonardóttir bónda, skipasmiðs og formanns í Brautartungu í Stokkseyrarhreppi, en lengst á Gamla-Hrauni, f. 1801 í Simbakoti, d. 21. nóvember 1881, Þorkelssonar bónda, skipasmiðs og hreppstjóra á Gamla-Hrauni, Jónssonar og konu Þorkels, Valgerðar húsfreyju, f. 1765, d. 7. febrúar 1859, Aradóttur Jónssonar.
Þóra var eftirsótt til hjúskapar. Tyrfingur Snorrason formaður á Stokkseyri var einn þeirra, sem á sóttu, en missti af til Guðmundar Þorkelssonar. Tyrfingur kvæntist ekki. Hann kvað:

Eg á fljóðum fæ ei ást,
finn því hljóður trega,
því sú góða Þóra brást;
það fór slóðalega.

Móðir Þóru og kona Símonar var Sesselja húsfreyja og móðir amk. 15 barna, f. 1801, d. 1859, Jónsdóttir bónda á Ásgautsstöðum, Óseyrarnesi (Nesi), síðast á Selfossi, f. 1767, d. 8. febrúar 1856, Símonarsonar og konu Jóns Símonarsonar, Guðrúnar húsfreyju frá Kakkarhjáleigu (síðar nefnt Hoftún), f. 1769, d. 15. apríl 1837, Snorradóttur, Knútssonar.

Móðir Lúðvíks og kona Jóns á Gamla-Hrauni var Ingibjörg Gíslína húsfreyja á Gamla-Hrauni, f. 1. september 1867, d. 2. apríl 1937, Jónsdóttir bónda á Miðhúsum í Sandvíkurhreppi, f. 12. apríl 1834, d. 19. júní 1872, Jónssonar bónda á Vötnum í Ölfusi, f. 1801, d. 19. febrúar 1865, Þórðarsonar, Jónssonar, og konu Þórðar, Ingveldar Guðnadóttur.
Móðir Jóns á Míðhúsum og kona Jóns á Vötnum var Sigríður húsfreyja, f. 28. maí 1806, d. 25. mars 1868, Gísladóttir bónda og hreppstjóra í Reykjakoti í Ölfusi, f. 1760, d. 27. maí 1840, Guðnasonar, og konu Gísla, Guðríðar húsfreyju, f. 1765 að Sogni í Ölfusi, d. 6. maí 1837, Jónsdóttur.
Móðir Ingibjargar Gíslínu og kona Jóns á Miðhúsum var Aðalbjörg húsfreyja, f. 31. janúar 1830 á Álftanesi, d. 15. október 1917, Eyjólfsdóttir bónda á Brekkuflöt á Álftanesi 1845, f. 29. ágúst 1800, d. 12. mars 1868, Eyjólfssonar, Jónssonar.
Móðir Aðalbjargar og kona Eyjólfs á Brekkuflöt var Ingibjörg húsfreyja, f. 5. desember 1797 á Þórustöðum í Grímsnesi, d. 22. maí 1866, Sturludóttir bónda á Þórustöðum, skírður 19. desember 1750, d. 27. ágúst 1823, Jónssonar.

Börn Jóns Guðmundssonar á Gamla-Hrauni og Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur húsfreyju í Eyjum voru:
1. Þórður Jónsson formaður og skipasmiður á Bergi, f. 10. júní 1887, d. 1. febrúar 1939.
2. Guðmundur Jónsson formaður, skipasmiður á Háeyri, f. 14. október 1888, d. 27. nóvember 1976.
3. Gunnar Marel Jónsson formaður og skipasmiður, f. 6. janúar 1891, d. 7. maí 1979.
4. Magnús Valdimar Jónsson skipasmiður á Bergi, f. 27. október 1892, d. 13. október 1920.
5. Haraldur Jónsson sjómaður á Bergi, f. 18. nóvember 1899, d. 20. febrúar 1962.
6. Guðni Jónsson prófessor, f. 22. júlí 1901, d. 7. mars 1974. Hann var kennari við unglingaskóla í Eyjum 1926-1927.
7. Lúðvík Jónsson bakarameistari, síðar á Selfossi, f. 14. október 1904, d. 21. mars 1983. Hann ólst upp hjá Árna Filippussyni og Gíslínu Jónsdóttur í Ásgarði, en Gíslína var móðursystir hans.
8. Ágústína Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, f. 11. mars 1906, d. 1. nóvember 1989. Hún ólst upp um skeið hjá Þórði á Bergi, en lengst í Ásgarði hjá Gíslínu frænku sinni og Árna.
9. Guðmundur Júníus Jónsson sjómaður í Eyjum, síðar skipstjóri á Akranesi, f. 29. júní 1908, d. 22. ágúst 1972.

Móðursystir systkinanna var Gíslína Jónsdóttir húsfreyja í Ásgarði, f. 18. apríl 1871, d. 18. júlí 1953.

Lúðvík var með foreldrum sínum á Gamla-Hrauni 1910, var kominn til Gíslínu frænku sinnar í Ásgarði 1911. Þar ólst hann upp næstu árin, skráður ættingi þar 1920 og þar átti hann enn heimili sitt 1927. Hann var með Lovísu í Ásgarði við giftingu 1929, bjó með henni og barninu Ástu á Vegbergi (Skólavegi 32) 1930. Þau leigðu á Brekku (Faxastíg 4) við fæðingu Sesselju 1932, voru í Dagsbrún (Kirkjuvegi 8b) 1934.
Fjölskyldan var komin í Haga (Heimagötu 11) 1940.

Þau fluttust til Selfoss um 1945-1946 þar sem Lúðvík var bakari Kaupfélagsins um árabil. Hann lést 1983. Lovísa lést 1993 á Sólvangi í Hafnarfirði.

Kona Lúðvíks, (1. júní 1929), var Lovísa Guðrún Þórðardóttir húsfreyja, f. 27. október 1901, d. 3. ágúst 1993. Foreldrar hennar voru Þórður Björnsson sjómaður, verkamaður, f. 20. febrúar 1866, d. 20. október 1932, og kona hans Sesselja Steinþórsdóttir húsfreyja, f. 22. júní 1873, d. 11. janúar 1968.
Börn þeirra voru:
1. Ásta Lúðvíksdóttir húsfreyja og kennari í Hafnarfirði, f. 9. apríl 1930 á Vegbergi, d. 29. júlí 2012.
2. Sesselja Þóra Lúðvíksdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 25. nóvember 1932 á Brekku, d. 13. júlí 2014.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.