Ritverk Árna Árnasonar/Fyrsti viti í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 16:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 16:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Fyrsti viti í Vestmannaeyjum“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Fyrsti viti í Vestmannaeyjum
Leiðarljós Eyjamanna 1906


Varast hafa verið stigin hér í Eyjum stærri framfaraspor en þegar Eyjamenn tóku upp vélbátaútveginn í stað opnu skipanna.
Má segja, að allar lífsvenjur manna og skilyrði til bættrar afkomu hafi þá fyrst komist í viðunandi horf. Það hefir ávallt verið svo og mun verða um áraraðir, að það var útgerðin, sem bar uppi þetta byggðarlag að langbestu leyti. Ef hún brást, eins og alloft kom fyrir, var oft þröngt í búi margra Eyjamanna. En með komu vélbátanna sást fyrst ljóma fyrir landi velmegunar alls almennings. En samtímis komu þeirra, skópust ýmis stórvandamál, sem leysa þurfti, ef allt átti vel að fara. Þetta olli mörgum manninum margháttuðum heilabrotum.
Þegar vélbátarnir fóru að sækja gullið í greipar Ægis og þeim fjölgaði með hverjum mánuðinum, sem leið, fór mjög að þrengjast á heimamiðunum, svo að leita varð fiskjarins á djúpmiðum, æ lengra frá heimahöfninni í allar áttir. Ný fiskimið fundust, sem sótt voru af mesta kappi og jafnvel, að manni fannst, of miklu kappi miðað við stærð bátanna, sem var frá sjö til níu tonn, er veður og sjór voru ótrygg. Þareð hér hefir ávallt verið skjótt með veðrabreytingar, fór stundum svo, að bátarnir fengu hin verstu veður, rokstorma, ygldan sjó, svartasta náttmyrkur, þoku og svartasta byl. Öll kennileyti til lands og Eyja hurfu, svo að ekkert var til hjálpar sjómönnum að rétta af frávikna stefnu, nema eðlisávísun þeirra, sjólag og vindstaða. Menn urðu að treysta þessu og á guð og lukkuna, að þeim tækist að stýra framhjá boðum og blindskerjum, eyjum og dröngum og finna örugga höfn. Þá fundu menn sárt til þess, að ekkert leiðarljós var neinsstaðar sjáanlegt, enginn viti, sem gæti leiðbeint þeim, ekkert ljós, sem öruggt gat kallast um borð hjá þeim sjálfum, aðeins áttavitar, sem oft gátu brugðist, er mest á reið.
Að vísu voru leiðbeiningamerki í landi, þegar komið var að innsiglingunni, þ.e. flaggveifan á Skansinum uppsett 1872, en flutt á Gjábakkatúnið 1888. Þarna var flaggað einu flaggi, ef Leiðin var aðgæsluverð til innkomu í höfn, en tveim flöggum, ef hún var talin ófær. Einnig var síðar upp komið tveim rauðum innsiglingarljósum, öðru á Sjóbúðarkletti, en hinu upp af Skildingafjöru. En þetta, þótt til mikilla bóta væri, var þó ónóg, þegar bátarnir komu langt að og þurftu að komast inn að Heimaey, taka land í illviðrum og myrkri. Þá vantaði tilfinnanlega leiðbeiningar frá landi.
Öllum kom saman um, að eitthvað þyrfti að aðhafast í þessu mikla velferðarmáli sjófarenda, þ.e. vöntuninni á ljósvita. Menn ræddu þetta vandamál á götum úti og mannamótum, en sáu fáar leiðir til úrbóta. Stjórn þeirra mála var þá nær eingöngu í höndum Dana, sem daufheyrðust við vitabeiðni Eyjamanna og tillögum þeirra þar um.
Einn maður var þá, sem barðist ótrauður í þessu máli, og sem byrjað hafði á þeim málaleitunum við vitamálastjórnina, sem að mestu samanstóð af dönskum sjóliðsforingjum. Það var Gísli Johnsen. Hann reifaði málið fyrir þeim og íslenskum stjórnvöldum, gerði ýmsar tillögur um vitastæði, styrkleika vitans og kostnað og sýndi fram á þörfina fyrir hann, ekki einungis fyrir Eyjamenn heldur og vegna allra siglinga kringum Eyjar, inn- og erlendar. Ekki virðist þetta hafa borið neinn verulegan árangur og engan fyrst í stað og undirtektir verið neikvæðar.
Mætti í þessu sambandi minnast, hve langan tíma það tók fyrir Íslendinga að fá vitann á Reykjanes o.fl.; allar þær vífilengjur og tafir, sem þá voru hafðar í frammi.
Það mun hafa verið á Alþingi 1874, að fyrst kom til tals um að reisa vita hér á landi. Þá komu fram tillögur um byggingu vita á Reykjanesi og tillaga frá þingmönnum Reykjavíkur og Akureyrar um innheimtu vitagjalda af skipum. Sú tillaga þótti ekki tímabær, þótt hún vekti þá þegar mikla athygli. Mönnum fannst að vonum ekki hægt að innheimta vitagjöld af skipum, þegar enginn viti var til. Í sambandi við þetta hélt alþingismaðurinn Grímur Thomsen því fram, að samkvæmt lögum 2. janúar 1871 um stöðu Íslands í danska ríkinu, skyldi ekki krefja Ísland um neitt framlag til nauðsynja ríkisins, og hlytu því vitamál að heyra undir þann lið. Þessi skoðun náði fullu fylgi á þinginu, sem samþykkti beiðni til konungs, að hann hlutaðist til um, að reistur yrði viti á Reykjanesi fyrir kostnað danska ríkisins. Þetta hreif og var samþykkt í ágúst 1876.
En þar með var þó björninn ekki unninn. Málið þurfti fyrir margar nefndir og ráðherra í Köbenhavn og að síðustu fyrir siglingamálaráðuneytið danska, sem í september 1876 loks afgreiddi þetta á eftirfarandi hátt og með sjónarmiði á málinu. Það sagði, að viti á Íslandi hefði ekki neinn almenningsáhuga eða í það mesta aðeins staðbundinn og gæti þarafleiðandi ekki skoðast sem sameiginlegt fyrirtæki Dana og Íslendinga. Það og svo enn meira, hinar litlu siglingar, ásamt nægilegri næturbirtu um siglingatímann til Íslands, mundi þannig aðeins virka svo, að aðeins fá skip, í mesta lagi sjötíu árlega við Reykjanes, mundu hafa gagn af væntanlegum vita þar. Ráðuneytið hélt einnig fram, að næturnar væru nægilega bjartar frá 15. mars til 1. september, og þareð allar siglingar til Íslands lægju niðri á tímabilinu 1. desember til 15. mars vegna veðursfarsins, þá væri þörfin fyrir vita þar mjög lítil.
Hinsvegar vildi ráðuneytið, þrátt fyrir þessa skoðun sína, ekki vera algjörlega mótfallið vitasamþykktinni, en veita nokkurn stuðning við byggingu vita á Reykjanesi. Eftir tillögum yfirverkfræðings Grove og framkvæmdum rannsóknum árið 1877, voru þá loksins veittar tólfþúsund krónur úr ríkissjóði Dana og fjórtán þúsund krónur úr landsjóði til vitabyggingar á nesinu. Danir ákváðu svo að láta varðskipið Fyllu aðstoða með flutninga á efni og fleiru viðkomandi vitabyggingunni.
En bygging vitans gekk illa. Flutningar gengu illa, miklir erfiðleikar á nauðsynlegu vatni, byggingarefnið á staðnum ónothæft og menn óvanir slíkri vinnu. Veðurfar var líka mjög óhagstætt, svo að allt tafði mjög framkvæmdir. Þó heppnaðist að koma vitanum upp undir stjórn Alexanders Rothe, þannig að hægt var að kveikja á vitanum 1. desember 1878.
Fyrsti vitinn hafði verið byggður á Íslandi, þrátt fyrir mótspyrnu manna og hverskonar annarra erfiðleika. Þá tóku einnig gildi lögin um innheimtu vitagjalda af skipum, sem gekk mjög vel og gaf drjúgar tekjur til landsjóðs. Þótt vitagjöld lækkuðu mikið 1879, voru tekjurnar þó svo miklar að á næstu tíu árum hafði allt framlag landssjóðs, viðhaldskostnaður Reykjanessvitans verið greiddur, auk bústaðar þar og ýmissa breytinga á vitanum. Þetta kom fram á þinginu 1893. Var þá lagt til, að tekjum af vitagjöldum yrði varið til nýbygginga á vitum, þar sem nauðsyn krefði. Ekkert varð þó af því, þrátt fyrir eindregin tilmæli sjófarenda og ekki fyrr en 1896. Þá sendu Danir sérfræðinganefnd til landsins til að athuga þessi mál og ráðgast við landshöfðingja um nýjar vitabyggingar og endurbætur á þeim, er fyrir voru, t.d. á Reykjanesi og Garðskaga. Upp úr þessu voru svo vitar settir á Gróttu og innsiglinguna til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Til þessara starfa veitti danska vitamálastjórnin töluverðan stuðning, en krafðist í staðinn, að ráðinn væri eftirlitsmaður með vitanum, sem þekkingu hefði til að bera á þessu sviði. Þetta samþykkti svo landshöfðingi, og fóru síðan nokkrar framkvæmdir fram á sviði vitamála sumarið 1897. Þegar svo til þingsins kom um ráðningu eftirlismannsins, ætlaði fjárveitinganefnd að ærast. Fannst æði mikið í lagt að greiða heilar þrjú hundruð krónur í laun handa honum. En skilyrði vitamálanefndarinnar var óhagganlegt og varð í engu þokað, enda varð það samþykkt.
Á næstu tíu árum var mjög lítið um vitabyggingar hérlendis, einkum vegna þess, segja Danir, að þá var raunverulega ekkert opinbert yfirvald á Íslandi, sem hafði sérstaklega með þessi mál að gera, gefa upplýsingar um og gera tillögur um nýbyggingar. Kröfurnar um nýja vita komu þá frá sjófarendum og það í ríkum mæli. Sá þá stjórn þessara mála sér ekki annað fært en skipa nefnd danskra sjóliðsforingja. Hún skilaði áliti 1905, um vorið, og gerði tillögur um sjö nýbyggingar á nauðsynlegustu siglingaleiðunum. Samtímis því áliti, bárust svo beiðnir og tillögur um vita frá ýmsum staðbundnum fiskveiða- og siglingafélögum. Þar á meðal voru Vestmannaeyingar.
Af ofansögðu sést, hversu miklum erfiðleikum það var bundið að koma mönnum í skilning um brýnustu þjóðþrifamál, öryggis- og velferðarmál. En þá var líka langsótt á mið ráðandi manna. Er trúlegt, að þurft hafi fleiri en eitt bréf frá áhugamönnum hér til þess að fá samþykki fyrir vitabyggingunni á Stórhöfða. Það hafðist þó í gegn árið 1906. Og skyldi ekki hugsunarhátturinn hafa þá verið líkur hjá vitamálastjórninni og danska siglingamálaráðuneytinu eins og hann var, þegar stappið varð um Reykjanesvitann? Að ekki þyrfti vita kringum Vestmannaeyjar, — hver veit? Að minnsta kosti gekk illa að fá jákvæðan úrskurð.
Þótt danska nefndin hefði skilað áliti 1905 og tekið Vestmannaeyjar með, sem fyrirhugað vitastæði, og leyfi hefði fengist fyrir honum hjá stjórninni, þá voru erfiðleikarnir ekki allir yfirunnir og óvíst, hvernig farið hefði um framkvæmdir, ef Gísli J. Johnsen hefði ekki tekið af skarið. Hann bauðst sem sé til þess að koma upp vitahúsinu á Stórhöfða fyrir hönd vitamálastjórnarinnar dönsku og vera búinn að því fyrir haustið 1906, ef hún vildi ábyrgjast, að ljóstækin kæmu tímanlega eða á sama tíma og húsið væri fullbyggt. Að þessu góða boði Gísla Johnsen gekk stjórnin. Er ábyggilegt, að henni hafi vaxið í augun allir flutningar á byggingarefninu upp á Stórhöfða, séð, hve gífurlegum erfiðleikum flutningarnir þangað upp voru háðir, þareð vegir voru engir, hvorki upp Höfðann eða í nágrenni hans, heldur aðeins troðningar eftir menn og skepnur, þar sem engum ökutækjum yrði við komið.
En Gísli Johnsen gerði og meira. Hann valdi staðinn fyrir vitastæðið í samráði við hinn mæta mann Hannes Jónsson lóðs á Miðhúsum. Staðsetning vitans er mjög heppileg og gat víst ekki verið betri. Staðsetning hans er þannig, að ef siglt er Suðureyjarsund, þ.e. milli Stórhöfðans og Suðureyjar, sést vitinn , og er það hreint ekki lítill kostur.
Að vitahúsið hafi verið traustlega byggt og ekki kastað til þess höndunum, sést best af því, að enn, árið 1960, sést ekki nokkur sprunga í gamla vitahúsinu. Um múrverkið sá maður úr Reykjavík, múrarameistarinn Páll Bjarnason, sem var sérlega vandvirkur maður og múrsmiður afbragðsgóður, enda var hann einn af lærisveinum Balds, sem byggði Alþingishúsið í Reykjavík.
Þótt allir erfiðleikar við byggingu vitahússins væru miklir og auðsæir, áður en verkið hófst, lét Gísli Johnsen það ekki á sig fá. Hann ætlaði að koma upp þessari þörfu byggingu og svo skyldi verða. Hann lét flytja sand og möl neðan úr Höfðavíkinni á hestum upp á Stórhöfða. Vatn var eitthvað uppi þar, en megnið af því varð að flytja að á hestum. Sement og timbur lét hann fara með bát úr Heimaeyjarhöfn suður á Höfðavík, skipa því þar upp og flytja síðan á hestum og mönnum upp á Höfðann. Þótt þetta væri býsna erfitt, gekk þó allt vel, enda afbragðs duglegir menn, sem að byggingunni unnu, og upp komst húsið fyrir tilskilinn tíma. Húsið var sem sagt byggt úr sand- og sementsblöndu, sem þá var nýtt í byggingum hér. Styrkleiki þess var hafður mjög mikill með tilliti til hinna hörðu veðra, sem þekkt voru uppi á Höfðanum þá þegar og ekki síður en nú eru þau.

Um þetta segir Gísli J. Johnsen í bréfi til mín dags. 2. september 1961, sem ég leyfi mér hér með að birta, þareð það hefir mikinn fróðleik að geyma um þetta efni og annað. Þar segir svo m.a.:

Þá var það Stórhöfðavitinn. Jú, víst hefur þú rétt að mæla, ég byggði hann einsamall og án allra afskipta frá æðri stöðum, nema hvað ég hef líklega haft Hannes okkar lóðs í ráðum með mér um staðsetningu vitans, en hún er eins og þú veist slík, að þótt farið sé Suðureyjarsund, sem sé milli Stórhöfða og Suðureyjar, sést vitinn, og er það mjög þýðingarmikið. Vitinn stóð tilbúinn og fullbyggður, þegar þeir dönsku vitamálaverkfræðingar komu með ljóstækin, og ég held mér sé óhætt að segja, að þeir hafi verið ánægðir með, hvernig allt var leyst af hendi. Enda hefur reynslan sýnt það, því ekki mun vera nokkur sprunga í vitanum, og hafa þó stórviðrin skollið á honum án afláts. Til þess að allt væri sem best af hendi leyst, fékk ég múrarameistara úr Reykjavík, Pál Bjarnason, sérlega velvirkan mann, enda var hann einn af lærisveinum Balds, sem byggði Alþingishúsið m.m., já, og hann byggði Franska spítalann í Eyjum. Hann bjó hjá mér, og sem ungur maður lærði ég margt af honum. Þetta var árið eftir að ég byggði Stórhöfðavitann.
Já, Árni minn, við Eyjastrákarnir; það var eitt af því fyrsta verka minna í Eyjum, að byggja Stórhöfðavitann, við vorum allir, hver á sína vísu, að efla hagsæld og sóma Eyjanna, og þá var ekki upprunnin öldin sú, að hugsa aðeins um það eitt, hversu stóra peningahrúgu fæ ég fyrir. Af því við erum að minnast á Eyjarnar, dettur mér í hug, að tveim árum áður, eða 1904, var ég búinn að hjálpa til að koma upp Þinghúsinu og Barnaskólanum, en ég flutti til Eyja fyrsta timburfarminn, sem nokkurntíma hafði þangað komið 1904, og var það m.a. efnið í Þinghúsið og Barnaskólann, sem og efnið í Miðbúðina, sölubúð mína, sem ég reisti sama ár. Já, og þá voru fyrstu nýju tómthúsin í Eyjum byggð, þar á meðal Grund, Dalur og Hvammur, það voru fyrstu nýju tómthúsin, enda mátti segja, að allt færi að blómgast í Eyjum, þegar búið var að drepa Ameríkuferðirnar, að besta fólkið bókstaflega flúði Eyjarnar sökum hinnar alræmdu einokunarverslunar, sem þá ríkti og hafði ríkt um langt skeið og drepið allan kjark úr fólkinu. Einokunin var svo nærgöngul, að fátækur maður fékk ekki færi né öngul og sökku eða annað, sem hann þurfti til að geta komist á sjóinn, nema að undirgangast, að skila aflanum upp úr sjónum janfskjótt og í land var komið. Þessvegna komst enginn úr skuldum, vegna þess að heimilið missti alla vinnuna við verkun aflans. Það var þetta, sem þurfti að drepa, og ég er hróðugur af, að þetta tókst, og arðurinn af striti fólksins hætti að flytjast til Kaupmannahafnar. Allt mitt líf og hugsun allan þann tíma, sem ég var í Eyjum, snerist um hag og hagsæld fólksins og Eyjanna.
Það er vitaskuld rétt munað hjá þér, að HEIMAEY var fyrsti fiskibáturinn með loftskeyti, ekki einungis á Íslandi, heldur að minnsta kosti á öllum Norðurlöndum. Þá ætla ég að gamni mínu að senda þér eintak af Frjálsri verslun frá 1960, ég á þar grein á bls. 11. Þar getur þú séð við hvað maður átti að stríða. Vertu svo alltaf blessaður, og forsjóninn og góðir menn gefi þér góða heilsu. Heilsaðu konu þinni og börnum.

ÞINN EINLÆGUR
G.J. Johnsen


Við þetta bréf er ekkert að athuga, nema að timbrið í Grund og sennilega Dal, Hvamm, Holt og Ás hefir hann flutt inn fyrri en 1904, þareð vissa er fyrir því, að Grund var byggð 1900-1901. Timbur hefir Gísli þess vegna flutt inn til Eyja fyrr en 1903-1904, þótt það hafi ekki verið heill farmur skips.
Ljósin til vitans komu á tilskildum tíma, svo að að því leyti stóðu Danir við loforð sín „til fingerspidsene“. Tækin setti upp danskur maður að nafni Brinck. Vannst honum verkið svo vel að hægt var að kveikja á Vestmannaeyjavitanum 1. október 1906. Það var mikill gleði- og sigurdagur fyrir Eyjamenn, sannur fagnaðardagur fyrir sjófarendur í og við Eyjar. Sá galli var þó á gjöf Njarðar, að ljósmagn vitans var miklu minna en menn hefðu gert sér vonir um. Það var aðeins tveggja kveikja olíulampa snúningsvél. Sjónarlengd hans var tólf sjómílur, en hæð vitans yfir sjávarmáli 126 metrar. Síðar var svo ljósmagni vitans breytt mikið, fyrst í átján sjómílur og síðar enn meir.
Með Hr. Brinck vann hér Jón Waagfjörð í Garðhúsum. Hann var handlaginn vel, t.d. góður smiður og hafði málað nokkuð. Með Brinck og Jóni tókst góð vinátta, sem leiddi til þess, að Brinck bauð Jóni út til Kaupmannahafnar og bauðst til þess að koma honum til málaranáms þar ytra. Þetta góða boð þekktist Jón að sjálfsögðu, fór utan og dvaldi þar samfleytt í þrettán ár við málarastörf. Vann hann alltaf á sama stað. þ.e.a.s. þar, sem Brinck hafði komið honum til náms. Jón var annars, sem áður segir, mjög handlaginn maður. Hann hafði lært töluvert í trésmíði, t.d. með Helga í Steinum Jónssyni, þegar verslunarhús Gísla Johnsen var byggt á Godthaabslóðinni. Þá var hann og við smíðar með Elís Sæmundssyni, þegar hann smíðaði Björgvin og síðar Bergstaði og fleiri hús. Þegar svo Jón Waagfjörð kom heim aftur, lagði hann fyrir sig húsamálningar og hefir gengt þeim störfum allt til síðustu ára. Þess má og geta í sambandi við Jón, að hann var einn af stofnendum Félagsbakarísins, sá um rekstur þess og bakaði þá með bakarameisturum þess.
Þá vík ég aftur að vitanum. Þegar húsið var tilbúið, þá var sá vandi eftir að fá vitavörð, sem búa vildi þar suðurfrá. Hjá því varð ekki komist vegna stöðugrar aðgæslu vitans. Um starfa þennan sóttu fáir, en fyrir valinu varð Guðmundur Ögmundsson í Batavíu, járnsmiður að iðn. Gegndi hann svo vitavarðarstarfinu, sem reyndist verða, samkvæmt hugboði manna, mjög erfitt og ónæðissamt vegna illveðra þar syðra. Gegndi Guðmundur starfanum með aðstoð Friðriks sonar síns til ársins 1910. Er mér tjáð, að án Friðriks hefði Guðmundur, sem var orðinn aldraður maður, varast geta aðstaðið hið erfiða starf, þ.e. pössun vitans, sem þurfti stórmikla aðgæslu á vetrum, í stórviðrum, t.d. myrkrabyl og stórroki, þegar máske þurfti að fara út og þurrka glerin á fimm eða tíu mínútna fresti. En allt gekk þetta vel og hefir Stórhöfðavitinn þá strax og ávallt síðar orðið sannkallað leiðarljós fiskimanna hér og annarra farmanna. Er ekki að efa, að vitinn hefir orðið lífgjafi margra, sennilega miklu fleiri en nokkrar sögur fara af, og hafa þó fjölmargir látið svo ummælt, að einmitt Stórhöfðaviti hafi orðið þeim til lífs á siglingu sinni kringum Eyjar.
Eitthvað hefir orðið ábótavant um hirðu vitans á síðustu veruárum Guðmundar þar (1910). Var hann þá orðinn gamall og farinn að kröftum, búinn að fá áminningu um vanhirðu vitans. Var hann svo látinn hætta störfum árið 1910. Var þá skipaður vitavörður Einar Einarsson á Reynivöllum, uns reglulegur vitavörður yrði ráðinn. En þegar Einar skyldi taka við starfanum, þverneitaði Guðmundur að láta af hendi lyklana að vita og vitatækjunum og þar við sat, hverra ráða, sem leitað var með góðu.
Varð engu tauti við þá feðga komið, svo að ég hef heyrt það sagt, að vitamálastjóri Th. Krabbe hafi sjálfur orðið að koma til Eyja. Fyrst sat gamli maðurinn við sinn keip og neitaði enn að afhenda lykla vitans og önnur áhöld, en þegar til alvörunnar kom, lét hann þó skynsemina ráða og afhenti Krabbe allt saman. Tók svo Einar við vitavörslunni og var við hana þar til reglulegur vitavörður var ráðinn.
Þegar stöðunni var slegið lausri, sóttu nokkrir Eyjamenn um hana og voru þar á meðal Árni Árnason, Grund og Stefán Gíslason, Ási. Var talið alveg víst, að annarhvor þeirra fengi starfann. En þá komst Hjalti Jónsson skipstjóri í málið og sótti um starfann til handa bróðir sínum, Jónatan Jónssyni bónda austur í Mýrdal. Hjalti var mikill áhrifamaður og vel þekktur í höfuðstaðnum. Var talið, að hann hefði sótt málið fast og fengið notið vinsælda sinna og annarra áhrifa meðal ráðandi manna. Jónatan Jónssyni var svo veitt staðan og tók við henni 1. október 1910. Jónatan var vel látinn í starfinu og ávann sér traust allra, enda var og eftirlit hans með vitanum alla tíð í mjög góðu lagi. Naut hann fljótt aðstoðar sona sinna við starfið, sem gerðu sér far um að halda öllu í sem bestu og fullkomnasta lagi.
Þegar Jónatan Jónsson vitavörður lést 10. apríl 1939, var Sigurði syni hans veitt starfið og hefir hann gegnt því síðan af frábærri árvekni og trúmennsku.
Í tíð Jónatans Jónssonar urðu miklar breytingar á húsakynnum í Stórhöfðavita, enda voru húsakynni þar mjög lítil fyrstu árin. Fyrst var byggt þar vestan við gamla vitahúsið, timburhús, sem stendur enn, en síðar var svo gerð stór og vönduð viðbótarbygging úr steinsteypu. Má nú segja, að íbúð vitavarðar sé með ágætum, stór og allvel vönduð.
Breytingar hafa og verið gerðar á vitanum sjálfum. Er þar og raflýst frá eigin vél til heimilisnotkunar og ljósmagn vitans aukið að mun¹). Þar er nú veðurathugunarstöð og hefir svo verið síðan um 1922-1923.
Eitt er það, sem engum breytingum hefir enn tekið í Stórhöfða. Það er veðurhæðin. Hún er oft mikil og töluverður mismunur þar á veðri og niðri í bænum. En veðurathuganir eru gerðar þar af trúmennsku og réttsýni, svo að þau eru teljandi dæmin á höndum sér, sem athuganir vantar frá Stórhöfða.
Ég hef hér að framan farið nokkrum orðum um vitann hér, aðeins vegna þess að mjög lítið hefir verið á hann minnst, en saga hans þó þannig, að hún sýnir enn einu sinni, að mörgum erfiðleikum hafa Eyjamenn sigrast á í baráttu sinni fyrir bættum skilyrðum, fyrir lífsafkomu sinni og öryggi. Eyjamenn hafa ávallt átt því láni að fagna að eiga stórhuga framfaramenn í sínum hópi, sem tekið hafa að sér forystuna á sviði þróunar í hvívetna. Það hefir stundum verið sagt um Eyjabúa, að þeir séu ekki félagslyndir menn eða samvinnuþýðir. Ég hygg, að það sé ekki rétt, þareð í fjölmörgum tilfellum, þegar til alvörunnar kom og kemur, standa þeir saman sem einn maður um áhugamál sitt og slaka hvergi á, fyrr en sigur er unninn. Þessa staðreynd sýna svo fjölmörg dæmi fyrr og síðar. Þeir hafa vissulaga lært það af fyrri ára dýrkeyptri reynslu, að sameinaðir standa þeir, sundraðir falla þeir.
¹) Það mun hafa verið árið 1957, sem ljósmagn Stórhöfðavitans var aukið mjög mikið. Þá var uppsett aflvél, miklu stærri en sú, sem fyrir hafði verið og framleitt rafljós í vitann, sem svarar 60 vöttum. Var það ljósmagn, sem venjuleg húsaljóskúla. En við hina síðustu breytingu varð ljósmagnið og er nú 1000 vött. Var stórkostlega mikil bót að þessu mikla ljósmagni, enda mun ljós vitans nú vera að sjónarlengd allt að 60 sjm. Ætti það að vera í samræmi við hæð hans yfir sjávarmáli.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit