Blik 1961/Kafari við Vestmannaeyjahöfn, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. ágúst 2010 kl. 20:36 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. ágúst 2010 kl. 20:36 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961



FRIÐFINNUR FINNSSON:


Kafari við Vestmannaeyjahöfn


í 25 ár, 1927-1952


(Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri, hefur nokkrum sinnum minnzt á það við mig, að ég segði honum ýmislegt varðandi vinnu mína við kafarastörf í Vestmannaeyjahöfn um 25 ára skeið. Satt að segja finnst mér skólastjórinn eiga þetta fyllilega skilið, því að hann hefur verið óþreytandi að bjarga frá gleymsku fróðleik um Eyjarnar, sem birzt hefur í skólaritinu Bliki, er á vaxandi vinsældum að fagna með Eyjamönnum og landsmönnum yfirleitt. — Sannarlega á ég margar ánægjulegar minningar frá þessum árum. Ég kynntist þarna tugum ágætismanna, sem unnu á flekanum með mér, og verkstjórarnir voru undantekningarlaust afbragðsmenn og vel vaxnir sínu starfi. — Við höfum kosið að hafa þetta í viðtalsformi. F.F).

Friðfinnur Finnsson.

Hvar ertu fæddur, Friðfinnur? Segðu mér í fáum dráttum frá uppruna þínum.
Ég er fæddur á Stóruborg undir Eyjafjöllum 22. des. 1901. Þar bjuggu foreldrar mínir, Finnur Sigurfinnsson og Ólöf Þórðardóttir. Þau áttu 13 börn. Af þeim dóu 6 í æsku en 7 komust til manns. Faðir minn drukknaði 16. maí 1901 með Birni frá Skarðshlíð, þegar Eyjafjallaskipið Björgúlfur fórst við Klettsnef og 27 manns drukknuðu, en einn maður komst af, Páll Bárðarson frá Rauðafelli. Mun það mesta sjóslys við Eyjar.
Hvenær fluttist þú til Eyja?
Það var í maí 1905. Þá fluttist móðir mín til Eyja með okkur bræðurna, Finnboga og mig. Fór hún þá vinnukona að Brekkhúsi til þeirra hjóna Sigurbjargar Sigurðardóttur og Sigurðar Sveinbjarnarsonar. Finnboga bróður mínum var komið fyrir í Eystra-Þórlaugargerði hjá þeim kunnu hjónum Rósu Eyjólfsdóttur og Jóni Péturssyni. Eftir 2 ár fluttist móðir mín frá Brekkhúsi niður í bæinn með Finnboga bróður minn og settist þar að. Ég varð eftir í Brekkhúsi hjá þeim heiðurshjónum til 24 ára aldurs.
Hvenær hófst svo köfunarstarf þitt við hafnargerðina?
Ég hóf það starf 12. ágúst 1927.
Ekki munt þú hafa verið sá fyrsti, sem hér innti af höndum kafarastörf eða hvar kynntist þú þessu starfi?
Áður en ég gerðist kafari, hafði verið unnið að því tvö sumur að jafna botninn, þar sem sökkva átti steinkerjum þeim, er mynda undirstöður hafnargarðanna.
Það kafarastarf gjörði Matthías Finnbogason smiður að Litlhólum hér í bæ. En sumarið áður en ég tók til við kafarastörfin, hafði verið fenginn hingað kafari frá Stokkseyri. Hann hét Ásgeir Jónasson. Hann andaðist hér síðsumars 1926, og var því um kennt, að hann hefði ekki þolað kafarastörfin.
Gerðu nú svo vel að tjá lesendum Bliks, hvernig það atvikaðist, að þú gerðist hér kafari.
Það vil ég gjarnan gera. — Í júnímánuði 1927 hafði þáverandi bæjarstjóri, Kristinn Ólafsson, látið setja auglýsingu í auglýsingakassa bæjarsjóðs, sem hékk á austurgafli verzlunarhússins Þingvellir. Hún var þannig orðuð:
,,Kafari óskast strax til vinnu við dýpkun hafnarinnar. Hátt kaup í boði.“
Þegar ég hafði lesið þessa auglýsingu, tók ég til að velta því fyrir mér, hvort ég mundi geta innt af hendi þetta verk. — Nokkru síðar mætti ég Kristni bæjarstjóra á götu. Ég innti hann eftir því, hvort hann væri búinn að ráða kafara handa höfninni. Hann kvað það ekki vera. ,,Þú ættir að koma í þetta starf. Þú ert einmitt rétti maðurinn þar,“ sagði bæjarstjóri. Þessi traustsyfirlýsing hans hvatti mig, og áður en við skyldum, hafði ég heitið honum því að reyna starfið.
Sumarið 1927 fékk hafnarnefnd Vestmannaeyja til afnota danska sanddæluskipið Uffe, sem ríkisstjórnin hafði tekið á leigu. Með þessu dýpkunarskipi var framkvæmt mikið og gott starf hér við Vestmannaeyjahöfn. T.d. dældi það upp hinum svokallaða Hnykli við hafnarmynnið, en það var sandrif í innsiglingunni, hinn versti farartálmi og hættuvaldur, því að á því braut strax og hreyfði sjó. En steinrif eða stórgrýtisurð lá á milli hausanna á hafnargörðunum, og við það gat skipið ekkert átt. Hafði engin tæki til þess. Alls var talið, að Uffe hefði dælt upp 24.072 rúmmetrum af sandi upp úr innsiglingunni og höfninni þetta sumar. Skipið var hér að verki mánuð eða tæplega það. Jafnframt þessum dýpkunarframkvæmdum lét hafnarnefnd smíða feikimikinn tréfleka, er var um 12x12 metrar að flatarmáli. Hann var gjörður úr gildum trjám. Á þau var neglt þilfar úr plönkum. Flekinn flaut á 200 trétunnum. Gildri stoð var komið fyrir á flekanum og lyftirá. Þar var einnig öflug handvinda.
Þegar svo þessari flekagerð var lokið, var hann dreginn út á milli hafnargarða og festur þar vel. Síðan var ég færður í kafarabúning og látinn síga til botns.
Hvernig geðjaðist þér svo að hlutunum, þegar niður kom?
Ég hugsaði fyrst og fremst til frelsara míns og drottins. Mér var það ljóst, að þetta gat verið lífshættulegt starf. En væri hann með mér, þyrfti ég ekkert að óttast. Hann mundi vel fyrir öllu sjá. Svo varð einnig reyndin á, því að þetta starf vann ég meira og minna í 25 ár og varð aldrei fyrir neinu slysi.
Mannstu, hverjir voru staddir á flekanum, þegar þú renndir þér fyrst í hafið?
Já, það man ég. Fyrst og fremst var það flekaáhöfnin, 8 manns, og hafnarnefnd. Einnig voru þar hafnarvörðurinn, Geir á Geirlandi, hafnsögumaðurinn, Hannes Jónsson, og bæjarstjórinn, Kristinn Ólafsson.
Hvernig var grjótinu náð upp?
Hafnarnefnd hafði fest kaup á geysimiklum grjóttöngum af sanddæluskipinu Uffe. Þær voru smíðaðar úr fjaðrastáli og þoldu ótrúlega mikla sveigju. Þær voru mjög næmar og héldu vel hnöttóttum steinum. Eftir þeim smíðaði síðan Matthías Finnbogason, smiður hafnarinnar, margar tangir stærri og minni. Þær voru engu síðri þeim dönsku. Matthías reyndist mikill snillingur bæði við nýsmíðar og viðgerðir á áhöldum hafnargerðarinnar á þessum árum og vissulega einn af hennar allra þörfustu mönnum.
Auðvitað hefur áhuginn við starfið og vinnugleðin verið ríkjandi, þegar séð varð, að þetta starf mundi allt takast vel og ykkur heppnast að dýpka innsiglinguna eða Leiðina, sem verið hafði hættuleg mannslífum og til trafala útgerð Eyjamanna?
Já, áhugi Eyjamanna var mikill og mikil bjartsýni ríkjandi, þegar séð varð að takast mætti að fjarlægja grjótið og dýpka Leiðina, því að á þessum árum var það algeng sjón að sjá báta Eyjamanna standa grunn á þessum stað og bíða flæðis til þess að komast heilir í höfn. Þó voru margir þeirra ekki stærri en 10—12 smálestir.
Já, þetta kannast ég við, og oft var þá erfitt að afferma flutningaskip, sem komu með kol og salt og aðrar nauðsynjavörur.
Já, þess voru mörg dæmi, að þau þurftu að bíða 10—15 daga eftir því, að tök væru á að fara með þau inn á höfnina til affermingar. Það var allt háð veðráttunni og sjávarstraumunum sökum þess, hve Leiðin var grunnn. Sökum þessara tafa og „óorðs“, sem Vestmannaeyjahöfn hafði á sér, þurftu Eyjamenn að greiða hærri farmgjöld en flestir aðrir landsmenn. Einnig þurfti að greiða skipunum biðtímann. Allt orkaði þetta til hækkunar á vöruverði í Eyjum.
Hvernig gekk annars að ná grjótinu upp á flekann og hvað var gert af því?
Þegar ég var kominn upp á lag með að festa tangirnar á steinunum, gekk verkið jafnt og vel, og við hlóðum flekann daglega, þegar gott var í sjó, kyrrð og gott næði. Væri ylgja og mikill straumur, gekk allt verr. Þegar við höfðum hlaðið flekann, var hann leystur úr festum og dreginn upp að Berggangi á Heimakletti. Þar var grjótinu sökkt í hafið. Eftir að hafin var bygging Básaskersbryggjunnar og stálþilið þar sett, var grjótið úr Leiðinni notað þar í uppfyllingu.
Hvað var kaupið hjá þér þetta fyrsta sumar við köfunarstörfin?
Tímakaupið var 5 krónur.
En hve langur var daglegur vinnutími?
Fyrst var ég 4—5 tíma niðri daglega.
Kafaðirðu alltaf einn. Já, fyrst í stað var ég einn. Menn voru afartregir til að reyna að kafa. Sumir reyndu að vísu en gáfust fljótt upp. Sögðust þeir heldur vilja láta skjóta sig en vinna þvílíkt verk. Þegar líða tók á fyrsta sumarið (1927) gerði Sigurður Oddgeirsson frá Ofanleiti það fyrir mig að reyna að kafa með mér og vinna á hafsbotni. Honum tókst þetta vel, og vann hann síðan með mér, það sem eftir var sumarsins. Hann reyndist mjög dugmikill verkmaður. — Næsta ár fluttist hann burt úr Eyjum.
Síðan köfuðu þeir með mér Sigurjón Hansson frá Hjalla og Jónas Sigurðsson í Skuld, sín tvö sumrin hvor og reyndust báðir ágætir verkmenn og harðduglegir við þetta starf. — Sigurjón fluttist burt úr Eyjum, en Jónas varð að hætta sökum þess, að hann þoldi ekki þessa vinnu.
Eitt sumarið var fenginn kafari úr Reykjavík. Hann vann með mér í 3 vikur. Þá hætti hann og fór heim, með því að hann sagði vinnuna svo erfiða, að hann vildi ekki stunda hana fyrir nokkurn pening.
Eftir þessi fyrstu 5 sumur vann ég aleinn að köfuninni hér.
Var unnið eftir þetta við köfun hér á hverju sumri?
Nei, eitt og eitt sumar féll úr. Það var ekki af áhugaleysi hafnarnefndar eða bæjarstjórnar heldur sökum fjárskorts, sem eðlilegt var, þar sem ríkissjóður greiddi ekki nema 1/3 af kostnaði við hafnarframkvæmdir á þeim árum. Og fram að þessum tíma hafði hann ekki greitt nema 1/4 kostnaðarins. Jóhann Þ. Jósefsson kom því til leiðar á Alþingi, að ríkisframlagið var hækkað upp í 1/3. Það var að sjálfsögðu til stórbóta. Vannstu ekkert að byggingu hafnargarðanna?
Jú, ég vann við það að slétta botninn að framanverðu undir steinkerið í Norðurgarðinum en það var steypt hér. Guðmundur heitinn Magnússon smiður á Goðalandi var þá verkstjóri við hafnargerðina og sá hann um smíði kersins, en teikninguna gerði Finnbogi Rútur Þorvaldsson, hafnarverkfræðingur. Þetta stóra ker var gjört úr járnbentri steinsteypu, 10x15 metrar að botnflatarmáli, með 16 hólfum. Því var sökkt á sinn stað og það síðan fyllt með grjóti, sem við tókum upp úr innsiglingunni. Grjótið var lagt í sementsblöndu. Á þessu keri stendur hausinn á Hörgeyrargarði. Hann hefur lítið haggazt, síðan hann var fullgerður sumarið eða haustið 1929.

Vitinn hefur verið reistur á norðurgarðinum, Hörgeyrargarðinum, 1929. Myndin er tekin, eftir að ræðuhöld hafa farið fram í tilefni þessa áfanga, samanber greinina.

Síðan var þarna reistur viti, svo sem kunnugt er. Daginn, sem grind hans var reist, hélt hafnarnefnd öllum hafnarverkamönnunum og öðrum starfsmönnum hafnarframkvæmdanna hóf á nyrðri hafnargarðinum (Hörgeyrargarðinum), eins konar reisigildi. Í hófi þessu fluttu ræður þeir Finnbogi Rútur Þorvaldsson, hafnarverkfræðingur, og Jóhann Þ. Jósefsson, alþingismaður, og minntust þeir hins mikla áfanga, sem náðst hafði í hafnarmálum Eyjabúa og þökkuðu hafnarverkamönnunum vel unnin störf.

ctr

Fyrsti hafnargarðurinn (1915).
Ægir sá fljótlega fyrir honum.

Á þessum árum áttu sér stað tíðar bilanir á syðri hafnargarðinum. Var þá hafizt handa um að setja járnþil með honum að austanverðu og breikka hann um leið og styrkja. Við þetta verk vann ég á sjávarbotni. Þar var ég látinn stafla strigapokum með sementsblöndu innan við járnþilið og niður við botninn. Síðan fylltum við upp innan við járnþilið með grjótinu, sem við drógum daglega upp úr innsiglingu hafnarinnar og slógum þannig tvær flugur í einu höggi. Allt kom þetta verk fyrir ekki. Eftir tvö ár höfðu Ægisdætur rifið burtu járnþilið, tætt það veg allrar veraldar. Þá var reynd ný aðferð til að styrkja hafnargarðinn að framan (að austan): Saumaðir voru pokar úr sterkum segldúk. Þeir voru 3 metrar á breidd og 10—15 metrar á lengd. Jón Bjarnason, seglasaumari, saumaði pokana.
Ég kafaði síðan með botnenda hvers poka niður á sjávarbotninn og kom hverjum poka þar fyrir á réttum stað, hélt þeim þar, meðan rennt var í þá sterkri steinsteypu, svo að þeir stöðvuðust. Síðan voru þeir fylltir steypunni og voru taldir hver um sig vera 50—60 smálestir að þyngd, þegar búið var að fylla þá. Þarna voru þeir lagðir hlið við hlið. Þessi viðgerð hafnarinnar hefur ekki haggazt síðan. Þetta verk var framkvæmt sumarið 1942. Þá hafði alltaf öðru hvoru verið unnið að byggingu og endurbótum á þessum hafnargarði í 28 ár eða síðan 1914 að bygging hans hófst.
Fullyrða má, að kaupin á sanddæluskipinu „Vestmannaey“ hafi verið eitt mesta happaráð, sem tekið hefur verið í hafnarmálum Eyjanna. Án þessa skips virðist sem hafnarframkvæmdirnar hér að ýmsu leyti hefðu orðið óframkvæmanlegar. Eitt dæmi langar mig að nefna um það.

Gamli Ægir vann fljótt á járnþilinu, sem var austanvert við Hringskersgarðinn honum til styrktar. Náttúruöflin tættu það sundur og dreifðu því um mararbotninn. Það mun hafa verið Finnbogi Rútur Þorvaldsson, hafnarverkfræðingur, sem lét sér þá hugkvæmast að fylla gímaldsstóra poka úr segldúk af sterkri sementssteypu þarna við austurhlið garðsins. Sú aðgerð hefur dugað til þessa dags. Á myndinni gnæfir Ársæll Sveinsson hæst. Hann var verkstjóri við þessar viðgerðir. Á pokana sést í sjávarskorpunni.


Þegar við höfðum í nokkur ár unnið að því að rífa upp grjót úr Leiðinni, var orðið illkleift að festa á því tangir sökum sands, sem safnazt hafði ofan á grjótið í botninum. Allt var þar orðið á kafi í sandi. Þá reyndum við að nota slökkidælur bæjarins til að sprauta sandinum til hliðar, blása hann ofan af grjótinu. Það reyndist svo seinvirkt, að það var ógerningur. Þá var það, sem Böðvari Ingvarssyni, sem þá var hafnarverkstjóri, hugkvæmdist að láta sanddæluskip hafnarinnar vinna þetta verk á þann hátt, að sogdæla þess var látin blása frá í stað þess að soga að, láta sem sagt vélarnar vinna öfugt. Smíðuð var sérstök trekt á sogpípuenda skipsins, svo að krafturinn hnytmiðaðist og notaðist betur. Þetta reyndist allt þjóðráð. Vel gekk að fjarlægja sandinn, og síðan reyndist auðvelt að læsa töngunum um steinana.
Þurftuð þið aldrei að sprengja stórgrýti í grjótrifinu?
Jú, eitt sumarið var talsvert gert að því. Þegar við höfðum tekið upp allt grjótið úr rifinu nema það smæsta, kom í ljós við rannsókn, að undir rifinu var móklöpp á annan metra á þykkt. Sogdælum skipsins gekk mjög erfiðlega að vinna á henni. Þó vannst það á, að rásir mynduðust í klöppina og háir garðar á milli þeirra. Allt gekk þetta verk mjög seint. Þessa garða sprengdum við með sprengiefni með mjög góðum árangri. Þar með má segja, að erfiðasti björninn væri unninn um dýpkun Leiðarinnar, því að undir móklöppinni reyndist vera sandur, sem sanddæluskipið átti mjög auðvelt með að soga upp.
Var ekki kalsamt að vinna á flekanum, þegar hausta tók eða illa viðraði að sumrinu?
Jú, vissulega, því að á honum var ekkert skýli fyrstu árin. En eftir að skýli var sett á hann, gat áhöfnin drukkið þar kaffi og skipt þar vinnuklæðum. Einnig gat ég athafnað mig þar við að fara í kafarabúninginn. Seinna var svo sett niður bátavél á flekann og byggt yfir hana skýli. Vélin sneri vindunni, sem dró upp grjótið. Við alla þessa tækni gekk verkið miklu greiðar.
Hve þunga hyggur þú þyngstu steinana, sem þið tókuð upp úr grjótrifinu?
Finnbogi verkfræðingur áætlaði þunga þeirra allt að 7 smálestir. Starfið var mjög erfitt hjá vindumönnunum, áður en við fengum bátavélina á flekann, því að vindunni var þá snúið með handafli. En menn gerðu sér þá yfirleitt allt að góðu. Aðalatriðið var þá að hafa vinnu, hvað sem stritinu og slitinu leið.
Stundum á haustin, þegar góð voru veður og hætt var að vinna á flekanum, unnum við að grjótnámi vestan við syðri hafnargarðinn. Þá höfðum við gufukrana á brautarspori á garðinum og fjarlægðum stóra steina úr grjóteyrinni innan við garðinn. Suma þá steina réðum við ekki við af flekanum. Einn þeirra var t.d. áætlaður 12 smálestir að þyngd (sbr. mynd).
Nú langar mig að víkja aftur að kafarastarfinu. Sérstakur maður mun hafa annazt sambandið við þig, meðan þú vannst á sjávarbotninum og þið talað saman með einhverjum merkjum.?
Já, til mín lá lína af flekanum, sem kölluð var líflína. Með henni gaf ég merki. Kippti ég einu sinni í línuna, þýddi, að gefa þyrfti eftir á stálvírnum, sem tangirnar voru tengdar við. Kippti ég tvívegis í líflínuna, var það merki þess að draga skyldi upp steininn. Kippti ég hins vegar þrívegis í líflínuna, var það merki þess, að ég óskaði sjálfur að koma upp.
Árið 1929 fengum við síma í kafarahjálminn. Haraldur Eiríksson, rafvirkjameistari, gekk frá honum að öllu leyti. Eftir það gat ég talað við vinnufélaga mína á flekanum. Sú tækni létti mjög mikið allt starfið. Afköst uxu og ég var á allan hátt öruggari. Fyrst var það aðeins ég, sem gat látið til mín heyra. Síðan endurbætti Haraldur símann, svo að báðir aðilar gátu ræðzt við. — Eftir því sem ég bezt veit, var kafarasími þessi algjör nýjung hér á landi, sá fyrsti, sem notaður var.

seinni hluti