Örnefni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2005 kl. 16:15 eftir Smari (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2005 kl. 16:15 eftir Smari (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Örnefnin í Vestmannaeyjum skipta líklega þúsundum. Jafnvel heitið Vestmannaeyjar er örnefni, og eru til ýmsar heimildir um það örnefni, til dæmis í Landnámubók. Ekki er ljóst hverjir hafa búið til örnefnin, og af hvaða tilefni, en víst er að þeim skiptir þúsundum.

Á Heimaey má finna örnefni á borð við Sölvaflá, Illugaskip, Páskahellir og Háhá. Í úteyjum má sjá Austursvelti, Höskuldarhelli, Þolimæði og Bunka, svo að dæmi séu nefnd.

Örnefnaferð um Eyjar

Mynd:Örnefnakort heimaey.PNG Fólk sem kemur til Vestmannaeyja í fyrsta skiptið, hvort heldur með flugi eða Herjólfi, tekur líklegast fyrst eftir Einidrangi, sem stendur eitt og sér úti í hafi. Um hálfa leið milli Einidrangs og Heimaeyjar má finna Þrídranga, sem eru í raun fjórir talsins: Stóridrangur (öðru nafni Háidrangur), Þúfudrangur og Klofadrangur. Fjórði drangurinn, sem sést ekki frá Heimaey, er líklega nafnlaus.

Þegar að komið er að Heimaey þá sjást Heimaklettur, Miðklettur og Ystiklettur nyrst og austast á eyni. í Miðkletti má sjá Selhelli, og Latur stendur þar hjá. Elliðaey stendur fyrir norðaustan Ystaklett, og Faxasker skýtur upp kollinum þar á milli. Sunnan við Elliðaey má sjá Bjarnarey, en þær eru einu úteyjarnar sem eru austan við Heimaey.

Höfnin

Þegar farið er inn um innsiglinguna er Skansfjara sunnan megin, en Klettsvík norðan megin á milli fjallanna þriggja. Þegar farið er framhjá Hringskersgarður má sjá Stafkirkjuna á Skansinum fast upp við Nýja Hraunið, ásamt gamla Hervirkinu. í Heimakletti má sjá Hörgareyri.

Í Vestmannaeyjahöfn eru nokkrar bryggjur, t.d. Nausthamarsbryggja, Básaskersbryggja, Friðarhöfn, Binnabryggja.

Þegar að litið er til norðurs frá höfninni má sjá Þrælaeiði, en til vesturs eru Stóra-Klifið, Litla-Klif, Molda og Háhá. Til austurs má sjá nýja hraunið, og sunnan við það eru Eldfell og Helgafell.

Bærinn

Miðbær Vestmannaeyja er byggður á aflíðandi brekku sem kallað var Breiðholt áður fyrr, en Breiðholtsbraut heitir Vestmannabraut í dag, og var hún lengsta gata bæjarins fyrir gos. Götur í Vestmannaeyjabæ eru 66 talsins, og eru þær allar malbikaðar nema Reglubraut. Heiðarvegur og Skólavegur eru helstu göturnar sem ganga frá norðri til suðurs, en Strandvegur, Vestmannabraut og Kirkjuvegur þvera þær frá austri til vesturs. Kirkjuvegur sveigir niður til norðurs og gengur meðfram hrauninu niður að Sjómannasundi.

Fjallganga um norðurkletta

Þegar að gengið er meðfram Strandvegi til vesturs frá höfninni er fljótlega komið að Spröngunni. Þaðan er auðvelt að ganga upp á , og þaðan upp á Háhá og Molda. Áður fyrr tíðkaðist það að síga frá Molda niður í Fiskhella og þurka þar fisk. Ef gengið er til norðurs á toppi Molda má komast út í Náttmálaskarð, en þaðan er greið leið um Eggjar yfir á Dalfjall. Á eggjum Dalfjalls eru krossgötur: Hægt er að halda til norðurs niður á Ufsaberg og þaðan niður í Stafsnes, eða til vesturs upp á Blátind, eða einfaldlega til suðurs, framhjá Saltabergi og niður ofan í Herjólfsdal.

Í miðri Herjólfsdal er Tjörnin, en hún er tengd vatnsuppsprettu sem er sunnar í dalnum, nær Molda. Ef farið er vestur frá brunninum sem við vatnsuppsprettuna má sjá Gamla Golfskálann í suðri undir Fiskhellum. Þá er komið að landnámsbænum, þar sem talið er að Herjólfur Bárðarson hafi búið. Þá segir sagan um Vilborgu og Hrafnanna frá því þegar að byggð lagðist í eyði þar.

Meðfram hamrinum

Til vesturs yfir golfvöllinn má finna Kaplagjótu innundir Dalfjalli. Suður af Kaplagjótu er Mormónapollur þar sem að mormónar voru skírðir í stórum stíl um miðja 19. öld. Gengið er svo meðfram hamrinum til Suðurs, en þá er hægt að sjá á góðum degi út í úteyjarnar Álsey, Brand, Geirfuglasker, Suðurey, Surtsey og Súlnasker.