Sölvaflá

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Vatn drýpur úr bergi á söl á Sölvaflánni.

Sölvafláin er bergflái norðanvert í Stórhöfða, niður af Raufinni, innanvert við Napa. Þar hagar svo til að bergvatn úr Raufinni rennur niður á flána og veldur því að söl þaðan eru mátulega sölt og þarf ekki að útvatna þau. Á Sölvaflá var venjulega farið til sölvatekju um mánaðamótin júlí-ágúst, á stórstraumsfjöru en þá er fjöruborðið um þrír metrar og athafnasvæði gott. Einnig varð veður að vera hagstætt og helst þurfti að spá sólskini næstu daga á eftir svo að hægt væri að þurrka sölin.

Áður fyrr höfðu Ofanbyggjarar rétt til sölvatekju og fóru allir af bæjunum fyrir ofan hraun, þeir sem vettlingi gátu valdið, til sölvatínslu. Farið var á bátum Ofanbyggjara úr Höfðavík, neðan við Erlendarkrær, og róið að Sölvaflánni, nokkurra mínútna róður. Þar fóru síðan allir upp nema einn maður sem andæfði fyrir utan með bátana bundna saman. Sölin voru tínd í strigapoka og þurfti nokkra aðgæslu við, þar sem hált var á flánni og kom fyrir að fólk færi í sjóinn við flána ef því skrikaði fótur. Ekki var þó um neina hættu þar að ræða.

Þegar falla tók að á ný, var farið að huga að heimferð enda pokar tínslufólks þá jafnan fullir. Þess var jafnan gætt að enginn bæri skarðan hlut frá borði, þótt fáliðað væri frá einhverjum bæjum, og hjálpuðust þá hinir við að fylla á poka þeirra. Síðan var sölvapokum og fólki komið um borð í bátana á ný og róið til lands. Sölvapokarnir voru oftast reiddir heim á hestum en kæmist ekki allt á hestana báru karlmenn poka heim.

Þegar heim var komið voru sölin breidd til þerris á þök eða segl og þurfti einn til tvo góða daga til að þau væru fullþurrkuð. Þá voru þau sett í tunnu og pressuð vel með því að setja farg ofan á, oftast blágrýtisstein. Söl þóttu kjörfæða með skreið og brauðmat sem á þeim tíma var algengur kvöldmatur, enda eru söl bæði holl fæða og góð, rík af söltum, steinefnum og joði.


Heimildir