„Saga Vestmannaeyja I./ III. Kirkja, 2. hluti“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 1: | Lína 1: | ||
<br> | |||
<big><big><big><center>III. Kirkja</center></big></big></big> | <big><big><big><center>III. Kirkja</center></big></big></big> | ||
<center>(2. hluti)</center> | <center>(2. hluti)</center> |
Núverandi breyting frá og með 1. desember 2011 kl. 21:11
Í Kristnisögu segir, að þeir Gissur og Hjalti hafi lagt skipi sínu við Hörgaeyri og borið þar föt sín á land og kirkjuviðinn. Að hér sé átt við eyrina norðan Leiðarinnar, Heimaklettseyrina, og hún þá með réttu kölluð Hörgaeyri, eins og gert er nú, sbr. kort herforingjaráðsins, fær eigi staðizt. Við þessa eyrí, sem eins og áður segir er öll í sjó, en kemur upp um fjöru, var jafnvel á síðustu tímum eigi hægt að leggja bátum nema að vestanverðu og varð að fara inn fyrir sundið. Þarna gat eigi verið hentugt að skipa upp vörum, er byggðin var öll sunnan megin. Af orðalagi frásagnarinnar sjálfrar í Kristnisögu virðist og mega ráða það, að Hörgaeyri sé annar staður en sá, er kirkjan var reist á, því ólíklegt er að svo hefði verið komizt að orði, ef um sama staðinn væri að ræða, að segja fyrst, að kirkjuviðurinn hafi verið fluttur á land á Hörgaeyri og síðar, að hlutað hafi verið til um staðinn, er hún átti að standa á, og að það hafi verið fyrir norðan voginn. Hörgaeyri hefir eigi verið fyrir norðan voginn og kirkjan heldur eigi reist á Hörgaeyri.
Kirkjuviðurinn hefir verið fluttur á land við hafnarstæðið, þar sem venja hefir verið að skipa vörum og góssi á land, og það hefir vissulega eigi verið norðan megin vogsins, heldur sunnan megin. Þótt miklar breytingar hafi að vísu orðið á Vestmannaeyjum á þessum slóðum, er samt vitað um höfnina eða skipalægið hér fyrr á tímum, þótt nú sé fyrir löngu hætt að nota þá höfn sökum breytinga á landslagi og staðháttum vegna sjávargangs. Hafnar er getið í Vestmannaeyjum skömmu eftir 1400, og mun það vera sama höfnin og getur iðulega á 16. öld og síðar. Eins og kunnugt er létu íslenzk skip fyrrum oft í haf, í utanlandsferðum, frá Vestmannaeyjum, og leituðu þar fyrst lands við heimkomu, „tóku Vestmannaeyjar“. Komu norrænna kaupmanna til kaupskapar þar getur og mjög snemma eða skömmu eftir 1200 ¹⁸). Hlýtur því höfn eða skipalægi að hafa verið hér frá fyrstu tímum, og líklega sama höfnin frá öndverðu og sú, er hér getur að ofan, enda kemur það bezt heim við staðháttu.
Páll alþingismaður Sigurðsson í Árkvörn segir ¹⁹), að hægt sé að geta þess til, að fyrstu landnámsmenn í Rangárþingi hafi ef til vill komið fyrst til Vestmannaeyja og farið við hentugleika á skipsbátum til lands til að skoða sig um. Þá telur hann og líklegt, að kaupmenn fyrrum hafi stundum lagt skipum sínum út úr Holtsós til Vestmannaeyja, og búist þaðan að fullu.
Þessi höfn var eins og áður er getið í suðaustur frá Heimaklettseyrinni, norðureyrinni, í góðu vari frá Hafnareyri, suðureyrinni. En Hafnareyrin mun einmitt vera hin forna Hörgaeyri. Vestan undir eyrinni, er lukti fyrir að austan, hefir snemma verið alldjúpt, svo skip gátu lagzt þar. Þar austur af er Hringskerið, er skipin voru bundin við, og Flóðsker. Hafnareyri er gamalt nafn og bæjarnafnið Höfn. Í Hafnarlandi er elzti verzlunarstaður í Vestmannaeyjum.
Margt bendir til þess og styður það, að Hafnareyri sé gamla Hörgaeyrin, og hefir þá verið skipt um nöfn eftir að kristni var lögtekin, og eyrin nú kennd við höfnina sjálfa eins og bærinn Höfn. Hér var skipalægið og vöruuppskipunarstaður og hér hafa kaupskipin hafzt við. Kemur þetta og bezt heim við frásögnina í Kristnisögu, um að þeir Gissur hafi lent við Hörgaeyri o.s.frv. Eftir staðháttum, sbr. það, er áður segir, er Hafnareyri, sem mun seinna tilkomið nafn á þessari eyri fyrir Hörgaeyri, eini líklegi lendingarstaðurinn.
Hörgaeyrin, sem svo er nefnd í Kristnisögu, mun þó eigi vera staður sá, er eyjamenn fyrst byggðu á hof sín og hörga, heldur mun hans að leita allmiklu vestar, sennilega á eyrunum miklu við Básaskerin. Á þessum slóðum norðvestur af Tanga eru mest líkindi til að hin fyrsta kirkja Eyjanna hafi verið reist. Getur þessi staður og samrýmzt frásögninni um kirkjubygginguna, sérstaklega ef maður hugsar sér, að frá Básaskerjum hafi land náð alllangt til norðurs og inn undir Eiði.
Vogurinn, sem nefndur er í Kristnisögu, hefir verið skipgengur róðrarbátum, og hafa bátanaust eyjabúa verið nálægt Nausthamri, er mun vera mjög gamalt örnefni og skipgengt inn í Læk. Vogurinn náð inn með Nausthamri inn í Læk að Stokkhellu og til vesturs inn undir Bratta og takmarkast að vestan og norðvestan af Básaskerjaeyrunum, innra og ytra. Eyrar þessar munu hafa verið samanhangandi við skerin fram af Skildingafjöru og Grjótgarðinn svonefnda, og land samfellt inn í Botn.
Básaskerjaeyrarnar eru þar skammt fram undan, sem líklegast þykir að bærinn Ormsstaðir hafi staðið, og hér er eðlilegt, að þeir Herjólfsdals- og Ormsstaðamenn hafi reist fyrst hof sín. Eins og áður segir er þess getið um Hörgaeyri, að kirkjan hafi eigi verið reist þar, heldur á öðrum stað, „þar sem áður voru blót og hörgar“.
Þá kemur til athugunar, hvort landið fram af Básaskerjum hefir verið samgróið á umgetnum tímum yfir um að Kleifnabergi og norður með Eiðinu, eða áll hefir gengið inn undir Eiðið, sem er sama Eiðið, Þrælaeiði, og um getur í Landnámu. Grasfitjar gátu hafa verið með Kleifnaberginu, þótt áll skærist þarna inn, er tengdu saman Litlu- og Stóru-Löngu beggja megin Kleifnabergsins, fram til þessa gengt milli þeirra um stórstraumsfjöru. Hætt er við grjóthruni undir berginu. Er erfitt að hugsa sér kirkju þarna undir og kirkjugarð, nema hún hefði getað staðið alllangt frá berginu og land samgróið frá Básaskerjum yfir um. En svo er að sjá eftir nafninu Eiði, að sjór hafi náð þar að báðum megin, og vissulega má gera ráð fyrir, að þessu hafi verið þannig varið á 13. öld, er Landnámuhandritið var ritað.
Sundið milli eyranna, Heimakletts eða norðureyrarinnar undir Heimakletti og Hafnareyrarinnar eða suðureyrarinnar, er mun hafa verið Hörgaeyrin, sbr. það er áður segir, hefir verið mjótt og grunnt víðast, og eigi fært stórum skipum, en fyrir innan þetta sund, Leiðina, hefir vogurinn verið. Ég þykist þess fullviss, að það er einmitt þetta sund, sem miðað er við, þegar sagt er „fyrir innan“ á eyjunum, er víða kemur fram og mjög snemma, sbr. Landnámu. Með þessu er átt við hina einu almennu leið út á sjóinn, eins og alltaf hefir verið, Ægisdyr. Af því að miðað var við aðalumferðastaðinn, hefir myndazt orðatiltækin „fyrir innan“ og „fyrir utan“. Sjálft sundið gat eigi kallazt vogur. Aðalvogurinn milli Löngunefs, Nausthamars og Básaskerja. Byggðin var sunnan við voginn. Það virðist eigi óeðlilegt, með tilliti til þess, er hér er lýst, þegar miðað er úr landi eða frá byggðinni sunnan við voginn, að segja landið eða eyrarnar við Básaskerin norðan megin vogsins, einkum hafi landið náð langt norður eftir, og ef til vill nokkuð hringmyndað, og sama gegndi auðvitað um byggingar þar, svo sem kirkju, þótt réttara væri auðvitað að segja það norðvestan vogsins. Og hafi landið verið samanhangandi að sunnan yfir að Kleifnabergi frá Básaskeri, má fallast á það með þeim Sig. Sigurfinnssyni og Brynjúlfi frá Minna-Núpi, með þeim athugasemdum, er að framan greinir, að kirkjan hafi getað staðið suðvestan Kleifnabergsins eða á Ytra Básaskerseyrunum.
Næst er að athuga, hversu lengi kirkjan hefir getað haldizt á staðnum, er hún fyrst var reist á, sem eins og áður segir að
vorri ætlun hefir verið annaðhvort á Básaskerjaeyrunum eða suðvestan Kleifnabergsins. Ýms gögn, er hér verða tilfærð, hníga að því, að á hinum síðarnefnda stað að minnsta kosti hafi kirkja eigi getað haldizt mikið fram yfir 1200, hafi hún annars verið reist þar, og á fyrrnefnda staðnum að vísu nokkuð lengur, en að samt hafi verið búið að flytja kirkjuna þaðan eða byggja upp á öðrum stað, þegar máldagi Kirkjubæjarkirkju í Vestmannaeyjum var saminn 1269. Þessi máldagi nefnir auk Kirkjubæjarkirkjunnar, er var helguð St. Andreasi, og Péturskirkjunnar fyrir ofan Leiti, einnig þriðju kirkjuna á eyjunum, Klemensarkirkju, en fyrsta kirkja eyjanna var Klemensarkirkja eða helguð dýrlingnum Klemensi.
Eftir máldaganum gæti virzt svo sem Klemensarkirkjan sé þá eigi lengur eiginleg graftrarkirkja, af því að báðar hinar kirkjurnar eru nefndar graftrarkirkjur, en þess eigi getið um Klemensarkirkjuna. En þess ber að gæta, að hér er um að ræða fyrsta máldaga Kirkjubæjarkirkju og því sjálfsagt, að taka allt fram um kirkjuna og réttindi, er henni tilheyrðu. Óvíst er hvenær Ofanleitiskirkja var reist og máldagi hennar eigi til fyrr en frá byrjun 16. aldar. Ofanleitiskirkjunnar og réttinda hennar er fyrst getið í nefndum máldaga Kirkjubæjarkirkju. Um Klemensarkirkjuna er í téðum máldaga ekkert getið, hvort hún var graftrarkirkja eða eigi, en hins vegar vísað til máldaga hennar og því óþarft að greina hér um sérstaklega. Er það augljóst, að til hefir verið á greindum tíma sjálfstæður máldagi Klemensarkirkjunnar. Um þenna máldaga er samt ekkert kunnugt, og hefir hann glatazt fyrir löngu. Kirkjudagur Klemensarkirkjunnar hefir verið haldinn fram á síðustu áratugi 13. aldar eða líklega meðan hún stóð uppi, eins og hinna kirknanna í eyjunum.
Þegar máldaginn 1269 er saminn eru prestsetur eyjanna á Ofanleiti og Kirkjubæ, eins og síðar hélzt lengi. Hvar presturinn við Klemensarkirkjuna, meðan hún var aðalkirkja, hafi setið er ekkert upplýst um. Fiskatíundir féllu til prestanna á nefndum stöðum og til staðanna lágu kirkjutíundir að jöfnu. Prestarnir á Kirkjubæ og Ofanleiti þjónuðu á víxl Klemensarkirkjunni, sbr. máldagann. Með því tíundarfyrirkomulagi, er gilti í Vestmannaeyjum, sá hér síðar, hafa prestarnir sjálfir notið kirkjutíundarinnar og hún eigi aðskilin frá prestatíundinni og prestarnir sjálfir orðið að sjá fyrir þörfum kirknanna, svo framarlega sem það, sem kirkjunum safnaðist í fiskgjöfum, eigi hrökk til. Hefir Klemensarkirkjan að þessu leyti verið eins sett og hinar kirkjurnar, þann tíma, sem hún enn var við líði, eftir að kirkja var sett á Kirkjubæ og prestsetur þar. Af téðum máldaga verður eigi dregið, að réttindi Klemensarkirkju hafi að þessu leyti verið minni en hinna kirknanna. En einmitt það atriði, að kirkjan hafi eigi verið graftrarkirkja um það leyti, er máldaginn var saminn, sem þó eigi þarf að hafa verið, hefir stutt að þeirri ályktun, að kirkjan hafi staðið ennþá úti á eyrum á sínum upprunalega stað, en svo að henni þrengt, að eigi hefir lengur verið hægt að halda þar við kirkjugarði, þótt kirkjan stæði, en engan veginn gert ráð fyrir því, að kirkjan hafi nokkurn tíma verið flutt eða færð af staðnum, sem hún fyrst var byggð á. En eins og drepið hefir verið á hér á undan, má telja það víst, að búið hafi verið að flytja kirkjuna 1269, og því lengur sem Klemensarkirkjan hefir verið við líði, því meiri vissa er um flutning hennar og hann jafnvel oftar en einu sinni. Með vissu verður eigi um það sagt, hvenær kirkjan er með öllu lögð niður, og getur verið, að það hafi skeð þegar skömmu eftir 1269. Í næsta máldaga Kirkjubæjarkirkju frá tímabilinu 1481—1507, og Ofanleitiskirkju frá sama tíma, er Klemensarkirkju eigi getið og mun hún þá hafa verið lögð niður fyrir alllöngu.
Eigi þarf að undra það, þótt Klemensarkirkjan leggðist fljótt niður eftir að hún var orðin þriðja kirkjan í eyjunum og eiginlega útkirkja, því vissulega hefir prestunum, er máttu standa straum af byggingu og viðhaldi kirknanna að miklu leyti, verið það ofviða að halda uppi þrem kirkjum. Þriðju kirkjunnar heldur eigi þörf eftir fólksfjölda, og einkum eigi, ef fækkað hefir fólki niður í „Sandi“ (Skipasandi). Aðrar ástæður þurftu eigi að vera fyrir því, að kirkjan var lögð niður, svo sem, að kirkjuna hefði dagað uppi úti á eyrum og orðið að leggjast niður vegna sjávargangs.
Hér skal sýnt fram á, að Klemensarkirkjan gat eigi hafa haldizt á þeim stöðum, sem mestar líkur eru til, að hún hafi verið reist á, fram á seinni hluta 13. aldar og því síður lengur vegna uppblásturs á landi og sjávaraðgangs.
Í Hauksbókarhandritinu af Landnámu, sem talið er ritað nálægt miðri 13. öld, segir um Ormsstaði, er Ormur hinn auðgi Herjólfsson bjó á, „að þar sé nú blásið allt“. Sést að bærinn á Ormsstöðum hefir, er þetta var ritað, verið kominn í eyði. Uppblástur og landeyðing hefir átt sér stað þarna og stafað af sandfoki frá fjörunum inni í Botni. Hefir sjór brotið landið og sótt lengra og lengra inn eftir. Virðist jafnvel eftir lýsingunni í Landnámu sem umhverfið á þessum slóðum hafi þá eigi verið allskostar ólíkt því, sem nú er. Þegar nú svo var komið um miðja 13. öld, að Ormsstaðir voru komnir í eyði og land þarna upp frá sjónum uppblásið, sjá og um örnefnið Eiði, eru líkurnar litlar til að kirkja hafi getað staðið úti á eyrunum eða við Kleifnabergið, og gersamlega er þetta útilokað, ef Ormsstaðir hafa staðið nálægt eða undir Kleifnaberginu (Neðri-Kleifum), eins og haldið hefir verið fram af sumum ²⁰).
Hvar hefir Klemensarkirkjan staðið eftir að hún hefir verið flutt? Þessu skal nú reynt að svara. Fyrst skal þess getið, að kirkjan hefir eigi staðið nálægt Kirkjubæ eða Ofanleiti eða í hinum efri byggðum á eyjunum, Kirkjubæ eða Vilborgarstöðum eða fyrir ofan Hraun. Kirkjan hlýtur að hafa verið endurreist í þriðju aðalbyggðinni, er hún raunar alltaf hefir tilheyrt, niðri í Sandi, í kauptúninu eða á einhverri af jörðunum „niður frá“, þar sem kallað er Niðurgirðing, eða jafnvel við Lönd, Fornu-Lönd ²¹).
Gera má ráð fyrir, að allsnemma hafi verið töluvert af fólki, tómthúsmönnum, niður í Sandi nálægt verzlunarstaðnum. Þar hafa og staðið verbúðir, og hér hefir verið fjölmennt á kauptíðinni og vertíðinni. Af elztu jarðaskránum sést að mörg tómthús hafa verið hér, þó ekki séu þau beinlínis nefnd, í landi jarðarinnar Hafnar, upp af elzta verzlunarstaðnum, eins og alltaf hefir verið síðan.
Hversu lengi Klemensarkirkjan hefir staðið eftir að hennar er síðast getið í Landnámu, verður ekkert fullyrt um. Á 13. og 14. öld virðist hafa verið allfólksmargt í Vestmannaeyjum, ef marka má sögn Strandakols um landskyldarfiskinn til forna af eyjunum, IX lestir samfengnar, hér innifalin tómthús- og garðaleiga. Hlýtur á þessum tímum að hafa verið fólksmargt niður í kaupstaðnum. Svo er að sjá, sbr. kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem eigi hafi verið nema ein kirkja með prestsskyld eða prestsvist í Vestmannaeyjum um 1200 og hefir það þá verið Klemensarkirkjan. Hefir sóknarprestur þeirrar kirkju verið einn sóknarprestur eyjanna, þar til stofnað var Ofanleitisprestakall og kirkja reist á Ofanleiti, er mun hafa verið fyrr en kirkja var sett og prestssetur í Kirkjubæ. Klemensarkirkjan mun eigi hafa verið endurreist eftir 1269, er kirkja var komin í Kirkjubæ. Má vera, að sú kirkja hafi einmitt átt að koma í stað Klemensarkirkjunnar, er mun samt hafa verið uppistandandi alllengi hér eftir. Hafa íbúar kauptúnsins viljað halda sem lengst í kirkju sína niður í kauptúninu. Á 16. öld var eins og kunnugt er aftur reist aðalsóknarkirkjan fyrir báðar sóknirnar í eyjunum niður í kauptúninu, við Fornu-Lönd. Upp í sjálft kauptúnið hefir Klemensarkirkjan á sínum tíma verið flutt utan af eyrunum, og reist sennilega í landi Hafnar, þar á túninu eða Miðhúsatúni, en Miðhús munu til forna hafa verið hluti af Höfn. Einhvers staðar við Lönd eða Fornu-Lönd, t.d. þar sem kirkjan var reist á 16. öld, gæti kirkjan og hafa staðið, og það er einna líklegast ²²).
Á dögum konungsverzlunarinnar seint á 16. öld reistu eyjabúar sóknarkirkju fyrir Vestmannaeyjar skammt fyrir ofan kauptúnið, þar sem nú heitir á Fornu-Löndum, og kirkjan kölluð Landakirkja. Voru þá lagðar niður kirkjurnar að Ofanleiti og Kirkjubæ, en á báðum stöðum haldið við bænhúsum með skyldu fyrir prestana fram á síðari hluta 19. aldar. Kirkjan á Fornu-Löndum stóð þar til Tyrkir brenndu hana 1627. Á Fornu-Löndum sást móta fyrir kirkjugarði, þar til breytingar voru gerðar þar á landinu á næstliðinni öld. Kringum Fornu-Lönd hefir verið töluverð bygging áður. Þar sáust til skamms tíma miklar garðalagnir. Munu hér hafa staðið tómthús eigi allfá. Hér sáust víða leyfar af akurgerðum.
Forráðamaður konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum, Simon Surbech, er í flestu lét til sín taka um málefni eyjanna og var þar einráður, að því er virðist, mun hafa ráðið því, að kirkjan var færð niður að kauptúninu aftur. Um þessar mundir var Ofanleitiskirkja komin að niðurfalli, en í stað þess að byggja hana upp, var ný kirkja reist eins og að ofan greinir. Sennilegt er og, að Kirkjubæjarkirkja hafi verið orðin hrörleg líka, því annars hefði prestinum þar sem Ofanleitispresti eigi verið gert að skyldu að kosta til hinnar nýju kirkjubyggingar svo sem raun varð á. Sóknirnar héldu áfram að vera tvær og prestarnir tveir, þótt kirkjan væri ein. Ný sóknarskipun hefir ef til vill verið samin, en samt allt eins líklegt, að gamla sóknarskipunin hafi haldizt áfram að mestu óbreytt, unz Eyjaprestaköllin bæði voru sameinuð fyrir miðja 19. öld.
Við gröft á Miðhúsatúni fyrir skömmu fannst mikið af mannabeinum. Þessi beinafundur virðist jafnvel geta bent til þess, að þarna hafi verið forn grafreitur. Engar fullnaðarályktanir er samt hægt að draga út af téðum fundi, enda allt órannsakað nánar um staðinn ²³).
Það virðist ólíklegt, að þarna hafi verið dysjaðir útlendingar, er fallið hafi í róstum á eyjunum, t.d. 1397 eða á öndverðri 15. öld, er þeir deildu Hannes hirðstjóri Pálsson og enskir kaupmenn og útgerðarmenn. Bæði er það, að eigi er getið um mannfall af hálfu útlendinga, enskra, í þessum deilum, og víst er það, að eigi myndu útlendingar, er fallið hefðu óhelgir, hafa verið dysjaðir inni í aðalbyggðinni og við aðsetursstað norrænna kaupmanna, sem frá fyrstu tíð hefir verið einmitt þarna nálægt, nema því aðeins, að Englendingar hafi þá ráðið öllu á eyjunum, og þá myndu þeir hafa fært sína dauðu til legs í kirkjugarði. Þess ber að gæta, að aðsetursstaður enskra í Vestmannaeyjum, sem kunnugt er um, var alllangt frá þessum stað vestar miklu.
Í bardaganum á öndverðri 14. öld milli Síðumanna og Englendinga voru hinir ensku, er féllu, dysjaðir lengst vestur á eyjum, fjarri mannabyggðum, samkvæmt því, er gilti eftir fornum lögum að grafa ódæðismenn, en með þeim taldir erlendir ofbeldismenn, sem lengst frá kirkjugörðum, vígðri mold, eða eigi skemur en ör af boga náði. Sama var gert hér um erlenda sjómenn, er fundust dauðir í skútu, er var á hvolfi við Eyjarnar, 1821. Þeir voru dysjaðir sem víkingar eða illræðismenn lengst suður við eyjarodda. Engar sagnir eru til um það, að menn hafi nokkurn tíma verið dysjaðir á Miðhúsatúni eða yfirleitt nokkurs staðar inni í byggðinni, og engar sagnir um grafreit á þessum slóðum.
Hafi Englendingar haft grafreit hér í eyjunum, hlaut hann að hafa verið nálægt Kastala, en eigi við aðalverzlunarstaðinn hjá Höfn, þar sem norrænir kaupmenn hafa haft aðsetur sitt og umboðsmaður konungs. Að hér hafi verið jarðaðir menn, er féllu í óeirðum í eyjunum á síðari hluta 16. aldar, sbr. dóm frá 1573, virðist fremur ólíklegt. Hafi hér t.d. verið um skipsmenn af skipum konungsverzlunarinnar eða þjóna hennar að ræða, mundu þeir hafa verið færðir til legs í kirkjugarði, en hafi hins vegar verið um útlenda menn aðra að ræða, er farið hefðu fram með óleyfilegu framferði, myndu þeir eigi hafa verið greftraðir inni í kaupstaðarbyggðinni nálægt verzlunarhúsunum. Hafi hér verið um grafreit að ræða, gat beinafundurinn í eystri grófinni, þar sem líkum virtist hafa verið hrúgað saman, stafað t.d. frá þeim tímum, er svartidauði gekk hér á landi. Herma frásagnir svo, að þá hafi stundum mörg lík verið jörðuð í sömu gröf. Gæti og verið um það að ræða, að seinna hafi verið rótað til í kirkjugarðinum, eða að téð bein hafi verið aðflutt úr niðurlögðum kirkjugarði, sbr. Kristinnrétt hinn forna, er var í gildi 1123—1275, þar sem svo er fyrirskipað um kirkjuflutning, er helzt átti sér eigi stað nema af nauðsynlegum ástæðum, svo sem ef kirkju var hætta búin af skriðum eða flóðaágangi, skyldi flytja öll lík og mannabein úr hinum niðurlagða kirkjugarði og jarðsetja þau í kirkjugarði nýju kirkjunnar, og átti leitin eftir mannabeinunum að vera framkvæmd með hinni mestu nákvæmni, svo ekkert væri eftir skilið.
Eins og áður segir var jarðlagið, þar sem umræddur gröftur á Miðhúsatúni kom upp, mjög þurrlent og sendið. Staðurinn liggur hátt nokkuð og hallar norður af. Hér voru því ágæt skilyrði fyrir því, að bein gætu geymzt þarna lengi ófúin. Fundir frá fornum grafreitum sýna, hversu lengi bein geta geymzt lítt skemmd í jörðu, þar sem skilyrði eru góð ²⁴).
Við ákvörðunina, hvar kirkja þeirra Gissurar og Hjalta hafi staðið, hefir það verið þungt á metaskálunum, að fundizt hafa mannabein undir Litlu-Löngu og jafnvel suður af Neðri-Kleifum, og hefir því mörgum þótt líklegt, að þarna undir Kleifnabergi hafi verið kirkjugarður og kirkjan verið reist þar í öndverðu. Við þetta er ýmislegt að athuga, sbr. það, er áður segir um stað fyrir kirkju undir Kleifnabergi. Þessi beinafundur hefir heldur eigi verið rannsakaður neitt til hlítar, svo að verulegar ályktanir verða eigi af honum dregnar. Mannabein fundust undir Litlu-Löngu eða í krikanum vestan við Kleifnabergið árið 1882. Á þessum stað var byggð skipakví umgetið ár fyrir tvö þilskip, og er staðurinn síðan stundum nefndur „Bólverkið“. Þegar skipin voru sett inn og tekin út, þurfti að grafa fyrir þeim svo sem 2—3 fet og komu þá upp úr sandinum allfúin mannabein og oftar síðar hafa mannabein fundizt í sandinum á þessum slóðum ²⁵).
Það virðist nær ómögulegt, að kirkja eða kirkjugarður hafi staðið minnsta kosti svo nærri berginu, sem beinin fundust, því mjög er þarna hætt við grjóthruni og hafa stór björg fallið niður þarna nálægt og var mikið af því grjóti notað í skipakvína. Beinin, sem fundust undir berginu, virðast því hafa hlotið að hafa flutzt þangað eða borizt annars staðar frá, frá nálægum stöðum, t.d. hafi kirkjan staðið, sbr. það, er áður segir, suðvestan Kleifnabergsins, en þó góðan spöl frá berginu, ef samgróið hefir verið suður yfir að Básaskerjum. Bein þessi kunna einnig að hafa stafað frá kirkjugarði, er var sunnar, á Básaskerjaeyrunum, og borizt með straumnum undir Kleifnabergið, þegar landið var umturnað og komið undir sjó, en einmitt á þessum slóðum hefir orðið jarðrask mikið og umrót, jarðvegur blásið af og sjór flætt yfir. Eigi var hins vegar hætta á því, að beinagrindur, sem borizt höfðu í lygnuna undir Kleifnabergi, þar sem og er alveg straumlaust, færðust þaðan, er þær voru orðnar sandorpnar og því erfitt að segja um það, hvaðan téðar beinagrindur kunnu að stafa. Það er jafnvel heldur eigi útilokað, að hér inni í lygnunni hafi geymzt lík eða bein sjódrukknaðra manna, er borizt hafi utan að og orpizt sandi. Sagnir hafa myndazt í sambandi við örnefnið Skrúðabyrgi, en svo heitir kór eða skúti framan í Kleifnaberginu. Af sögnunum um Skrúðabyrgi verður ekkert ráðið um kirkju við Kleifnabergið. Byrgi er kallað í eyjunum, þar sem hlaðið er fyrir skúta eða hlaðið upp að bergi á stöllum eða kórum upp í bjargi, sbr. fiskbyrgin í Skiphellum og víðar. Vel getur verið, að kirkjuskrúða hafi verið komið fyrir í byrgi eða bergkórum til bráðabirgða, t.d. meðan stóð á byggingu kirkju eða viðgerð, og einkum ef hætta var á ferðum af völdum ránsmanna, en að skrúði kirkjunnar hafi verið geymdur á slíkum stað að staðaldri er harla ólíklegt.
Tilvitnanir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
18) Sturlunga II, 74.
19) Sbr. Örnefni og goðorð í Rangárþingi, Safn t.s. Ísl. II, 498—557.
20) Árb. 1907 og 1913.
21) Á eyjamáli heitir „niður í Sandi“ í mótsetningu við „uppi á bæjum“, líkt og sagt er í Landeyjum.
22) Þess má geta, að 1931 fannst við gröft í túnbakkanum fyrir ofan Hafnareyri fornt steinker eða bolli, er líklegt er að hafi tilheyrt kirkju, Klemensarkirkju. Slíkir kirkjumunir sjást t.d. í gömlum kirkjum í Danmörku.
23) Beinin fundust, er grafið var fyrir tröppum tveggja húsa á Miðhúsatúni. Fannst á öðrum staðnum heil beinagrind og nokkuð af beinum úr annari beinagrind, er lá í öðru leiði. Á hinum staðnum, en milli fundarstaðanna var ca. 80 cm., fundust laus bein, margir fótleggir og rifbein og höfuðbein, en eigi hægt að greina heilar hauskúpur. Voru beinin tekin upp og send fornmenjasafninu. En allmikið af beinum telja fundarmenn að muni hafa verið eftir. Lega beinagrindanna var eins og venja er til um lík. Beinin lágu öll í sandlagi. Ekkert fannst af fatatægi eða viðarkyns. Jarðlag á þessum stað er mjög sendið og þurrlent.
24) Sjá t.d. Daniel Bruun: Fortidsminder og Nutidshjem paa Island, Khavn 1928.
25) Árbók 1913, 13.