„Blik 1965/Árni Gíslason frá Stakkagerði“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 5: Lína 5:




==''Árni Gíslason frá Stakkagerði''==
<big><big><big><big><center>''Árni Gíslason frá Stakkagerði''</center></big></big></big></big>





Útgáfa síðunnar 23. september 2010 kl. 13:30

Efnisyfirlit 1965



Árni Gíslason frá Stakkagerði


Hér birtir Blik mynd af mætri og merkri fjölskyldu, sem flutti frá Eyjum árið 1939. Þetta er fjölskylda Árna Gíslasonar frá Stakkagerði.



Frá vinstri: Árni Gíslason; kona hans, frú Sigurbjörg Sigurðardóttir; Yngvi Árnason, kjörsonur þeirra, nú séra Yngvi Þórir Árnason, prestur á Prestsbakka í Hrútafirði; Sigurður Guttormsson, systursonur frúarinnar.





Árni Gíslason fæddist í Stakkagerði 2. marz 1889. Foreldrar hans voru Gísli gullsmiður Lárusson og k.h. Jóhanna Árnadóttir Diðrikssonar hreppstjóra og k.h. Ásdísar Jónsdóttur, sem var amma séra Jes A. GíslasonarHóli hér, en frú Ásdís var tvígift. Stakkagerðisheimilið var á sínum tíma eitt allra merkasta heimili hér í Eyjum og bæði hjónin forustufólk í félags- og ýmsum öðrum menningarmálum.



Hin merku Stakkagerðishjón, Gísli Lárusson og Jóhanna Árnadóttir og börn þeirra talin frá vinstri: Lárus (var verzlunarmaður og lézt um tvítugt: Árni; Theodóra (var gift í Kupmannahöfn og lézt í spænsku veikinni 1918 á leið heim í átthagana; Georg.
Á milli hjónanna stendur yngsta barn þeirra, Kristín, er var gift Bjarna Sighvatssyni bankamanni og síðast bankastjóra Útvegsbankans hér í Eyjum. Kristín Gísladóttir var fædd 26. október 1896. Dáin 17. desember 1956.




Árni Gíslason og Sigurbjörg Sigurðardóttir giftust 20. sept. 1913 og bjuggu fyrstu árin í Stakkagerði hjá foreldrum Árna.
Árni Gíslason stundaði á æskuskeiði nám við Verzlunarskóla Íslands og lífsstarf hans var verzlunar og bókhaldsstörf til hinztu stundar, að segja má. Hann var námsmaður góður; sérstaklega féll honum létt að læra allt er laut að stærðfræði eða reyndi á skilning, því að hugsunin var skýr og glögg.
Árni Gíslason vann um skeið við verzlun Gísla J. Johnsen í Edinborg. Síðar var hann um árabil við bókhald kaupfélagsins Fram. Þar áður hafði hann verið um stund kaupfélagsstjóri K/f Bjarma. Einnig vann hann hér nokkur ár á bæjarskrifstofunum, var hafnargjaldkeri.
Árni Gíslason reyndist alltaf hinn prýðilegasti starfskraftur, glöggur og öruggur, sem kunni verk sitt út í æsar. Hann skipulagði oft og endurbætti fyrir menn bókhald stofnana og einstaklinga.
Á fyrstu árum kaupfélaga útgerðarmanna hér í bæ (K/f Herjólfur, K/f Bjarmi, K/f Fram) voru öll verzlunarstörfin og umsvifin margþættari en nú gerist. Gerð voru mikil innkaup beint frá útlandinu, milliliðalaust, og mikil útflutningsverzlun átti sér stað, þar sem kaupfélögin önnuðust sjálf afurðasöluna. Það féll því oft í hlut Árna Gíslasonar að skrifa mikið af verzlunar- og öðrum viðskiptabréfum á erlendum málum.
Vinnudagarnir í skrifstofu K/f Fram munu t.d. hafa æði oft orðið býsna langir, þar sem þeir sátu og unnu af kappi Jón Hinriksson, kaupfélagsstjórinn, og Árni Gíslason, bókhaldarinn, við bréfaskriftir og bókfærslu löngu eftir að eðlilegum starfsdegi lauk. Lítið næði höfðu þeir fengið að deginum sökum margháttaðri umsvifa við verzlunar- og framleiðslustörfin til þess að inna bréfaskriftirnar og bókhaldið af hendi.
Þá tíðkaðist ekki að greiða sérstaklega fyrir yfir- eða eftirvinnu. Kaupið var klippt og skorið, en vinnan takmarkalítil, ef svo mætti segja. Setið var meðan sætt var, þrekið leyfði.
Á unglingsárum sínum stundaði Árni Gíslason iðkun íþrótta hér, þó að þær færu þá fram með ýmsum öðrum hætti en nú gerist. Það var á árum Ungmennafélags Vestmannaeyja. Síðan ól Árni Gíslason með sér brennandi áhuga á íþróttastarfi Þórs og Týs hér í bæ.
Snemma á árum lærði Árni sund hér, þegar það var kennt við höfnina um og eftir aldamótin. Þegar Leikfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1910, var Árni Gíslason einn af stofnendum þess, þá 21 árs gamall. Um margra ára skeið var hann síðan einn af beztu leikurum þess og ötull starfskraftur, svo sem um getur í 2. kafla leiklistarsögu Vestmannaeyja, sem birtist nú á öðrum stað hér í ritinu. Um skeið var hann formaður Leikfélagsins. Einnig fórnaði Árni Gíslason oft miklu starfi í þágu þess leikstarfs, er fram fór hér um árabil fyrir atbeina Kvenfélagsins Líknar.
Eftir að þau hjón fluttu til Reykjavíkur (1939), ráku þau tvær verzlanir, sem þau áttu þar sjálf. Þennan rekstur ráku þau um tvo áratugi.
Jafnframt eigin verzlunarrekstri annaðist Árni Gíslason frystihússrekstur í Innri-Njarðvík fyrir Eggert Jónsson frá Nautabúi, sem hér hafði atvinnurekstur um skeið. Nokkur sumur var Árni einnig starfandi hjá Óskari Halldórssyni, útgerðarmanni, sem keypti síld og saltaði á ýmsum stöðum á landinu og rak jafnframt síldarútgerð sjálfur.
Síðla sumars 1957 var Árni Gíslason á ferð vestur um frá Raufarhöfn, þar sem hann hafði unnið við atvinnurekstur Óskars Halldórssonar. Ferðinni var heitið að Prestsbakka til séra Yngva, sonarins, þar sem Árni dvaldi oft og vildi nú dveljast um skeið og njóta hvíldar. Hann hafði á undanförnum árum kennt hjartasjúkdóms, sem ágerðist snögglega á þessu ferðalagi og dró nú til bana.
Árni Gíslason lézt að Prestsbakka 8. sept 1957. Hann er jarðsettur í heimagrafreit á Prestssetrinu að Prestsbakka, skammt frá bæjardyrum.
Árni Gíslason var mikill gæðamaður, eins og hann átti kyn til. Manngæðin duldust engum, er nokkur kynni höfðu af honum. Hann var umhyggjusamur og mildur heimilisfaðir, skyldurækinn, drenglundaður og kærleiksríkur.
Nokkurn tíma úr sumri hverju hin síðari árin dvöldust foreldrar séra Yngva hjá honum og tengdadóttur sinni á Prestsbakka og hjálpuðu til við búskapinn. Árni var barngóður með afbrigðum, og segja kunnugir mér, að smáfólkið á Prestsbakka hafa á sumri hverju hlakkað mikið til komu afa og ömmu á Prestssetrið, þar sem Árni lék við smábörnin eins og hann væri eitt af þeim.

Frú Sigurbjörg Sigurðardóttir lifir mann sinn. Hún er fædd 1. október 1886 að Hólalandi í Borgarfirði eystra, þar sem foreldrar hennar voru bóndahjón og faðir hennar söðlasmiður. Frúin ólst upp á Seyðisfirði og var á tvítugsaldrinum búðarstúlka hjá hinum kunna kaupmanni á Seyðisfirði, Stefáni Th. Jónssyni. Þessi hjón bjuggu hér í Vestmannaeyjum rúman aldarfjórðung, eins og áður er á drepið. Frú Sigurbjörg var lengi ötull starfskraftur í Kvenfélaginu Líkn og vann þar ótrauð að ýmsum hjálparstörfum. Hún var formaður Kvenfélagsins um skeið og lengi varaformaður þess, greind kona og gifturík í starfi.

Séra Yngvi Þórir, kjörsonur þeirra hjóna, ólst upp hjá þeim hjónum frá eins árs aldri. Hann er dóttursonur séra Magnúsar Jónssonar fyrrv. prests í Vallarnesi á Héraði.

Sigurður Guttormsson dvaldist hjá hjónunum í 10 ár frá 15 ára aldri. Hann var hér um skeið starfsmaður í Íslandsbanka útibúinu og síðan útibúi Útvegsbankans. Nú bankastarfsmaður í Reykjavík.

Þ.Þ.V.