Sveinn Valdimarsson (Varmadal)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sveinn Valdimarsson.

Sveinn Valdimarsson frá Varmadal sjómaður, vélstjóri, stýrimaður, útgerðarmaður fæddist 11. ágúst 1934 á Geithálsi og lést 16. janúar 2018 í Hraunbúðum.
Foreldrar hans voru Margrét Pétursdóttir húsfreyja, f. 3. maí 1911 í Vallanesi á Héraði, d. 24. ágúst 2002, og maður hennar Valdimar Sveinsson frá Varmadal, sjómaður, f. 18. júní 1905 á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, d. 27. janúar 1947.

Börn Valdimars og Margrétar:
1. Sveinn Valdimarsson, f. 11. ágúst 1934, kvæntur Arnlaugu Láru Þorgeirsdóttur, f. 10. ágúst 1932.
2. Andvana drengur, f. 23. nóvember 1936 í Varmadal.
3. Esther Valdimarsdóttir, f. 10. desember 1938, gift Guðna Grímssyni, f. 13. nóvember 1834.
4. Stefán Pétur Valdimarsson, f. 20. júní 1942, d. 19. desember 2004, kvæntur Önnu Aðalbjörgu Sigfúsdóttur, f. 27. október 1945, d. 21. febrúar 2005.
5. Sigríður Valdimarsdóttir, f. 31. janúar 1945, gift Sveini Óskari Ólafssyni, f. 7. febrúar 1944.
6. Arnór Páll Valdimarsson, f. 30. júní 1946, kvæntur Svanhildi Eiríksdóttur, f. 14. maí 1947.
7. Drengur, sem dó 1932.

Sveinn tók vélstjórapróf 1953 og próf í Stýrimannaskólanum í Eyjum 1960.
Hann var stýrimaður á v.b. Voninni II 1960, síðar skipstjóri á v.b. Lagarfossi.
Þeir Hilmar Árnason keyptu v.b. Sæborgu 1966 og gerðu hana út í sex ár eða til Goss. Hann var skipstjóri á v.b. Elíasi Steinssyni 1974. Eftir þá vertíð keypti hann v.b. Hamraberg og skírði v.b. Valdimar Sveinsson eftir föður sínum. Síðar keyptu þeir Steindór Árnason og Guðmundur Valdimarsson v.b Kópavík og nefndu hana líka v.b. Valdimar Sveinsson. Þeir Steindór gerðu út saman og keyptu v.b. Jarl frá Keflavík og var það sá síðasti með nafni Valdimars Sveinssonar, sem gerður var út.
Sveinn gerðist hluthafi í útgerðarfélaginu Sæhamri og tók fljótlega við skipstjórn á Guðrúnu VE. Hann hætti útgerð 1992 og seldi sinn hlut í útgerð og skipum, en hélt þó áfram að vinna á sjó.
Þau Arnlaug Lára giftu sig 1954, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í fyrstu á Sælundi, á Kirkjubæjarbraut 7 1956, síðar á Nýjabæjarbraut 9 til Goss og síðar við Brimhólabraut 23 og Vesturveg 10c.
Arnlaug Lára lést 2015 og Sveinn 2018.

I. Kona Sveins, (25. desember 1954), var Arnlaug Lára Þorgeirsdóttir frá Sælundi, húsfreyja, f. 10. ágúst 1932, d. 2. október 2015.
Börn þeirra:
1. Guðfinna Sveinsdóttir húsfreyja, f. 1. maí 1954. Maður hennar var Ásgeir Ingi Þorvaldsson, látinn.
2. Margrét Sveinsdóttir húsfreyja, f. 26. september 1956. Fyrrum maður hennar Konráð Viðar Halldórsson. Maður hennar Guðmundur Guðmundsson.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1972.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 27. janúar 2018. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.