Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Minning látinna
Minning látinna
Guðmann A. Guðmundsson,vélstjóri.
F. 4. apríl 1914. - D. 4. nóv. 1997.
Mig setti hljóðan er ég frétti lát vinar míns, Manna í Sandprýði, en svo var hann ávallt nefndur af vinum og kunningjum. Hann kvaddi þetta jarðlíf á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi, sáttur við lífið og tilveruna, rólegur sem jafnan áður á hverju sem gekk, og með bros á vör án þess að hafa þurft að líða miklar þjáningar eða langar legur.
Fæddur í Eyjum og ólst upp hér við bjargfuglakliðinn og allt það líf sem þar var, að ógleymdum sjónum er náði vissum tökum á honum. Þetta tvennt tók hug hans fanginn og heillaði alla tíð. Hann varð snemma vel liðtækur og lipur fjallamaður sem sótti oft drjúgan feng af eggjum og fugli í björgin sjö.
Hann byrjaði 15 ára að róa á lítilli trillu er Finna hét, og þá með Guðjóni á Sandfelli, alkunnum afla-og dugnaðarmanni hér í Eyjum.
Næst fór hann svo í útgerð með þeim bræðrum Guðna og Guðjóni frá Hlíðardal á bátnum Sigga VE 142, 5 lesta með 20 hesta Seffle-vél og þar varð hann fyrst mótoristi „án réttinda". 17 ára gamall tók hann svo mótoristapróf og skömmu seinna 120 tonnna skipstjórnarréttindi en þau notaði hann ekki nema mjög lítið. Hann var vélstjóri til sjós í rösk 50 ár og var þá heiðraður af sjómannadagsráði í því tilefni. Sérlega farsæll í starfi þótt oft hafi nú ruggað ansi vel undir karli.
Hann var hægur og rólegur í allri framkomu, enginn æsingarmaður, hafði einstaka frásagnargáfu og naut ég þess oft er við höfðum fengið okkur saman í glas, en það kunni hann líka vel að meta. Það var einstakt að hlusta á hann segja frá lífinu hér í Eyjum, bæði til sjós og lands, þegar hann var ungur maður og tók fullan þátt í því sjálfur. Hann kunni ógrynni af vísum og kveðlingum sem þá gengu manna á milli, um menn og malefni.
Hann var ótrúlega æðrulaus á hverju sem gekk: „Það hastar ekki neitt." Hafði gaman af léttu spjalli með góðum kunningjum.
Kona hans var Ásta Sæmundsdóttir frá Draumbæ og áttu þau þrjú börn: Guðfinn, Fjólu og Adólf Þór sem lést í fyrra. Þau bjuggu mestan sinn búskap í Sandprýði og áttu alltaf eittthvað af kindum sem þau höfðu í Draumbæ og nýttu þar tún og útihús. Þessi búskapur gaf þeim ómældar ánægjustundir, einkum þó seinni árin. Rúningsferðir ógleymanlegar, einnig ferðir með féð út í eyjar og þegar það var sótt á haustin. Áður var allt slegið með orfi og ljá og rakað með hrífum, en þau voru búin að fá sér bæði traktor, sláttu- og rakstrarvél svo að heyskapur var leikur einn.
Eftirfarandi frasögn finnst mér lýsa honum vel svo nóg væri: Hinn 4. apríl 1984 varð hann sjötugur, en kvöldið áður hringir Guðfinnur Þorgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu VE í hann og segir að vélstjórinn hjá honum sé veikur og hvort hann geti nú ekki bjargað þeim með að koma í þennan róður. Þeir áttu þá netin austur í Bugt. Guðfinnur vissi lika að Manni þekkti vélina eins og puttana á sér því að hann hafði verið þama vélstjóri í þrjár vertíðir. Jú, jú, alveg sjálfsagt ef ég fæ mig lausan í Eyjaberginu en þar var hann farinn að vinna við vélgæslu og brýningar eftir 50 ára veru við vélgæslu á sjó. Guðfinnur hringir nú í Bjarna Sighvatsson, forstjóra Vinnslustöðvarinnar og Eyjabergs, og það var ekkert til fyrirstöðu með það.
Ekkert vissu þeir Guðfinnur og Bjarni um að einmitt daginn eftir ætti Manni 70 ára afmæli.
Jæja, þeir fara í róðurinn og er þeir eru að komast í netin rýkur hann upp með stórviðri, 10 til 12 vindstig og haugasjó. Þegar hann svo lægði náðu þeir að draga netin og komu í land.
Þegar afmælisbarnið hefði átt að standa stöðugum fótum heima í stofu við að skenkja gestum súkkulaði og meðlæti í góðum fagnaði, þá hafði hann nóg með að forða sér frá meiðslum í þessum látum.
Þessum róðri lauk eins og svo mörgum öðrum án þess að hann væri nokkuð að kippa sér upp þótt hann hefði blásið ein 13 stig.
Þess má geta að Manni missti Ástu konu sína 4. jan. 1996 og var nú orðinn einn eftir í húsinu. En í sumar leið fór hann sér til upplyftingar og skemmtunar til Guðfinns sonar síns og konu hans á Hvolsvelli, og þaðan var farið með hann vítt um Suður og Vesturlandið sem hann naut vel og hafði mikla ánægju af eins og hann sagði mér frá er við töluðum saman í síma. Og eiga þau hjón sérstakan heiður skilið fyrir hvernig þau hugsuðu um hann eftir að hann varð einn og einnig Fjóla sem nú er búsett í Reykjavík.
Far þú í friði, kæri vinur.
Sigmundur Andrésson
Guðmundur Pálsson
F. 3. nóv. 1919. - D. 4. júlí 1997.
Guðmundur Pálsson var fæddur á Eyrarbakka og voru foreldrar hans þau Elín Þórðardóttir og Páll Guðmundsson. Átta ára gamall horfði hann upp á það er faðir hans drukknaði á Sundinu á Eyrarbakka þegar mb. Sæfari fórst þar með átta mönnum.
Þá gekk móðir hans með sjötta barn þeirra hjóna og sat ein uppi með sex föðurlaus böm. Það var ekki létt verk að eiga það fyrir höndum að koma þeim til manns á þeim tíma. Guðmundur var elstur þeirra systkina og fór ungur til sjós og tók fljótlega mótoristapróf og vann við það meiripartinn sem hann gegndi sjómennsku. Byrjaði að róa á Eyrarbakka, síðan í Sandgerði og Keflavík og lenti þá í miklum hrakningum á mb. Ægi í byrjun stríðsins. Fengu vont veður og báturinn sló úr sér og mikill leki kom að honum og urðu þeir að ausa með línustömpunum upp úr lestinni. Fyrir einstakt lán festist þang í rifuna og stöðvaði mesta lekann, og það bjargaði þeim frá drukknun því að þeir voru alveg komnir að því að gefast upp er togarinn Óli Garðars fann þá og bjargaði. Í annað skiptið lenti hann líka í sérlega erfiðri ferð yfir hafið á mb. Sindra VE en þá sigldi bátnum til Englands Pálmi Sigurðsson frá Skjaldbreið en Grétar Þorgilsson var skipstjóri. Segir frá þeirri ferð annars staðar í blaðinu.
Guðmundur stundaði sjó hér í Eyjum, bæði á vertíð og síld og var hörkuduglegur og góður sjómaður og ósérhlífinn við hvað sem var. Hafði ákveðnar skoðanir og lét þær í ljós er honum þótti það við þurfa, annars hægur og óskiptinn um annarra hagi, hafði engan áhuga á að trana sér fram.
Hann giftist Margréti Jónsdóttur frá Sætúni við Bakkastíg 1949 og ólu þau upp Fríðu Einarsdóttur, systurdóttur Margrétar, ennfremur bróðurson Guðmundar, Guðmund Erlingsson. En þau hjón misstu sjálf tvö börn sín við fæðingu.
Við Guðmundur vorum kunnugir utan frá Eyrarbakka og jókst kunningsskapur okkar eftir að við höfðum báðir stofnað hér heimili. Stundum var nú gripið í glas og þá kannski farið að spá í kartöflunar vestur í Hrauni. Þeir dagar eru bjartir og ljósir í minningunni.
Hann vann í mörg ár hjá Shell og sá flotanum fyrir olíu en það var oft erfitt og erilsamt starf og kalt á vetrum, en hann hlífði sér hvergi og sinnti kalli hvort sem það var á nóttu eða degi. Þarna vann hann fram að gosi en fór síðan til Reykjavíkur og vann áfram hjá Shell við bensínsölu.
Guðmundur missti konu sína 1985 eftir erfið veikindi, en seinna eignaðist hann góða vinkonu, Þorbjörgu Bjarnadóttur, er reyndist honum einstaklega vel eftir að hann veiktist og þar til yfir lauk.
Blessuð sé minning hans.
Sigmundur Andrésson
Óskar Vigfús Vigfússon
F. 25. maí 1910. - D. 28. júní 1997.
Óskar á Hálsi, eins og hann var kallaður í daglegu tali, var fæddur í Reykjavík, sonur hjónanna Guðrúnar Magnúsdóttur og Vigfúsar Einarssonar sjómanns. Átta ára fer hann til Svalbarðsstrandar við Eyjafjörð. Þar dvaldist hann í skjóli móðurömmu sinnar og vann ýmis sveitastörf.
Þegar Óskar er 22 ára tekur hann sig upp og heldur austur á Norðfjörð og vann við það sem til féll fyrsta árið. Þá réðst hann til starfa hjá Sigurði Hinrikssyni útgerðarmanni og var þar í nokkur ár til sjós á smábátum ásamt því að vinna ýmis störf í landi.
Síðan er Óskar á Eyjafjarðarbátunum mb. Svani og mb. Sleipni, bæði norðanlands og Faxaflóasvæðinu.
Í janúar 1939 ræður Óskar sig á mb. Drífu sem leigð hafði verið til Fram í Vestmannaeyjum og átti að róa frá Eyjum um veturinn en fara svo austur á firði um vorið ásamt allri áhöfn. En ekki varð úr því að Óskar færi austur, hann hafði hitt lífsförunaut sinn, eina af Eyjarósunum, Guðrúnu S. Björnsdóttur. Þau Óskar og Guðrún gengu í hjónaband 27. okt. 1939. Börn þeirra eru fjögur, Svanbjörg, Elín Guðrún, Sigursteinn og Birgir.
Þau bjuggu allan sinn búskap í Vestmannaeyjum fyrir utan eitt ár sem þau voru á Selfossi vegna jarðeldanna.
Óskar stundaði sjómennsku til margra ára í Eyjum og vinnu í landi tengda sjónum, m.a. hjá Ársæli Sveinssyni, Helga Benediktssyni, sá um lestun báta sem sigldu með ísfisk til Englands, var verkstjóri í Fiskiver til nokkurra ára, vann hjá Netagerð Ingólfs og síðustu árin hjá útgerðum á Bergi VE og Kap VE.
Óskar var dagfarsprúður maður og snyrtimenni, hann hafði mikið yndi af að fylgjast með íþróttum, þó sér í lagi fótbolta, bæði í sjónvarpi og að fara á völlinn, meðan heilsan leyfði.
Óskar var í Félagi eldri borgara og veitti það þeim hjónum mikla ánægju að sækja þær skemmtanir, spilakvöld og ferðalög vítt og breitt um landið.
Guð blessi minningu um góðan dreng og tengdaföður mínum þakka ég samfylgdina í 40 ár.
Stefán B. Ólafsson
Hreinn Svavarsson
F. 20. maí 1929. - D. 20. sept. 1997.
Hreinn Svavarsson fæddist 20. maí 1929 að Syðsta-Kambhóli á Galmarströnd í Eyjafirði, sonur Ágústu Magnúsdóttur frá þeim bæ og Svavars Jóhannssonar bifreiðaeftirlitsmanns á Akureyri. Hreinn ólst upp hjá móður sinni að Syðsta-Kambhóli og dvaldist hjá henni og skyldfólki á Akureyri uns hann lagði leið sína til Reykjavíkur til að læra rafvirkjun.
Að loknu rafvirkjanámi við Iðnskólann í Reykjavík hélt Hreinn til Vestmannaeyja í byrjun árs 1959. Fljótlega kynnist Hreinn eiginkonu sinni til margra ára, Ellý Þórðardóttur, og hófu þau búskap í kjallaranum að Urðarvegi 42 hjá foreldrum Ellýjar. Hreinn hóf strax að vinna sem rafvirki í Eyjum en fljótlega leitaði hugurinn til sjómennskunnar eins og hjá mörgum ungum manninum í Vestmannaeyjum á þeim tíma.
Sjómennskan gagntók Hrein strax og eftir skamman tíma til sjós lagði hann leið sína í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og lauk þar prófi sem skipstjórnarmaður. Að námi loknu fór Hreinn í útgerð og festi kaup á vélbát sem bar nafnið Emma. En eins og margan góðan manninn hendir gekk útgerðin ekki eins og til var ætlast, Hreinn seldi sinn hlut í útgerðinni og réð sig sem stýrimann og skipstjóra hjá ýmsum útgerðum næstu árin. Lengst reri Hreinn með Jóhanni Pálssyni á Hannesi lóðs, hjá Ársæli Sveinssyni á Ísleifi III og Sigurði Gunnarssyni á Sæunni.
Hreinn og Ellý fluttust til Reykjavíkur haustið 1968 og hélt Hreinn áfram störfum til sjós. Næstu árin eftir flutninginn til Reykjavíkur reri Hreinn með þeim fræga aflamanni Finnboga Magnússyni á Helgu Guðmundsdóttur.
Eftir að hafa starfað í landi um hríð við rafvirkjun og hönnun raflagna varð löngunin til að stunda sjóinn ofar öllu öðru. Trillubúskapurinn átti hug hans allan og undi hann hag sínum vel í félagsskap trillukarla og einyrkja sem fyrir löngu voru orðnir samofnir hafinu og fiskinum.
Hreinn missti heilsuna fyrir nokkrum árum. Það dró hann niður og lék hann grátt. Hann var þó hress í bragði þegar hann hitti menn að máli og kvartaði ekki. Hreinn lést á sjúkrahúsi Reykjavíkur 20. september 1997.
Jónas Hreinsson
Hjörleifur Sveinsson, Skálholti
F. 23. jan. 1901. - D. 29. sept. 1997.
Hjörleifur Sveinsson í Skálholti var í hópi þess kjarnafólks sem kom hvaðanæva að af landinu til Vestmannaeyja á fyrstu áratugum vélbátaaldarinnar í Eyjum, sérstaklega úr nærsveitunum á Suðurlandi. Þetta var ungt fólk með tvær hendur tómar, en fangið fullt af krafti, dugnaði og bjartsýni og var ákveðið að búa sér gott líf og framtíð í Vestmannaeyjum. Það lyfti nýstofnuðum kaupstað í röð fremstu bæjarfélaga á Íslandi. Fjórir til fimm ungir og dugandi sjómenn tóku sig saman, keyptu bát og fóru í útgerð. Á fyrri hluta aldarinnar voru gerðir út 90 til 100 vélbátar frá Vestmannaeyjum. Umsvifin og lífið í kringum höfnina var ótrúlegt ævintýri sem smitaði alla. Þetta mætti verða okkur nútímafólki umhugsunarefni.
Mannauður er þetta kallað á nútíma-íslensku og lagði Hjörleifur í Skálholti og kona hans þar drjúgt á vogarskálar.
Hjörleifur var fæddur að Selkoti undir Austur-Eyjafjöllum hinn 23. janúar 1901. Foreldrar hans vom hjónin Sveinn Jónsson bóndi og kona hans Anna Valgerður Tómasdóttir sem þar bjuggu.
Hjörleifur var einn sjö systkina og fluttust bræður hans þrír allir til Vestmannaeyja, Guðjón, sem var elstur, Tómas og Sigfús. Þeir bjuggu nær allan sinn búskap í Vestmannaeyjum, þekktir dugnaðarmenn sem tóku þátt í útgerð, stunduðu sjó og unnu að fullvinnslu sjávaraflans. Fjöldi afkomenda systkinanna frá Selkoti er búsettur í Vestmannaeyjum og hefur tekið virkan þátt í bæjarlífinu.
Hjörleifur tók ungur skipstjórnarpróf og var sjómaður í Vestmannaeyjum í um 20 ár, frá 1921 til 1940. Hann átti hlut í Ófeigi I VE 217 með Jóni Ólafssyni á Hólmi og fleirum og reri á þeim báti. Einnig var hann í margar vertíðir með hinum þekkta sjósóknara Ólafi Vigfússyni í Gíslholti sem var sveitungi Hjörleifs undan Eyjafjöllum.
Eftir að Hjörleifur hætti sjósókn vann hann við járnsmíðar í vélsmiðjunni Magna og smiðju Fiskiðjunnar til ársins 1955. Þegar synir hans, Friðrik Ágúst og Sveinn, fóru í útgerð varð Hjörleifur netamaður við útgerðina og sá um öll veiðarfæri. Þeir bræður keyptu Kristbjörgu VE 70. Sveinn var skipstjóri og alltaf í röð bestu fiskimanna í Eyjaflotanum. Eftir því sem árin liðu keyptu þeir bræður stærri skip og voru því mikil umsvif við útgerð Kristbjargar. Hjörleifur vann við uppsetningu og viðhald veiðarfæra fram að eldgosinu 1973. Hann dvaldist eftir það í góðu yfirlæti á heimili sonar síns, Friðriks Ágústs, og konu hans, Önnu Oddgeirs, í Reykjavík. Árið 1993 fór Hjörleifur á elli- og hjúkrunarheimilið að Hraunbúðum í Eyjum og átti þar gott ævikvöld.
Hjörleifur var kvæntur Þóru Arnheiði Þorbjörnsdóttur frá Eskifirði og eignuðust þau fimm böm. Fjögur þeirra komust til fullorðinsára.
Ásamt sjósókninni og störfum sínum í landi hafði Hjörleifur alltaf nokkum búskap eins og títt var á þessum árum.
Hjörleifur í Skálholti var ákaflega skemmtilegur og þægilegur maður í allri viðkynningu, skipti aldrei skapi og var síkátur og hýr. Hann lagði öllum gott til.
Hjörleifur varð jarðsunginn frá Landakirkju 10. október sl. Blessuð sé minning mikils öðlingsmanns.
Guðjón Ármann Eyjólfsson
Guðmundur Vigfússon
F. 10. febr. 1906. - D. 6. okt. 1997.
Guðmundur Vigfússon var fæddur í Vestmannaeyjum, að Holti við Ásaveg, hinn 10. febrúar 1906. Meðal Vestmanneyinga var hann oftast kenndur við fæðingarstað sinn sem Guðmundur í Holti eða við vélbáta með nafninu Von VE 279 og 113 sem hann stjórnaði lengi og farsællega og þá nefndur Guðmundur á Voninni. Foreldrar hans voru hjónin Vigfús Jónsson frá Túni í Vestmannaeyjum og Guðleif Guðmundsdóttir frá Vesturhúsum, systir Magnúsar eldri á Vesturhúsum sem var þekktur formaður á sinni tíð, Höllu konu Guðjóns á Kirkjubæ og Þórdísar á Sælundi. Faðir hans var bróðir Guðjóns á Oddsstöðum, Jóhanns á Brekku, Sigurlínar í Túni og Þórunnar í Þingholti. Miklar ættir og fjöldi Vestmanneyinga er kominn frá þessu fólki. Guðmundur var því rótgróinn Vestmanneyingur.
Hann tók strax á barnsaldri þátt í þeim miklu umsvifum sem fylgdu fyrstu árum vélbátaútgerðar í Eyjum, uppbyggingu hafnarmannvirkja og kaupstaðar þar sem uppgangur á fyrstu áratugum aldarinnar, frá 1906 til 1930, var líkastur ævintýri. Þau voru sjö alsystkinin í Holti, en nokkru eftir lát móður hans hóf Vigfús sambúð með Valgerði Jónsdóttur og eignuðust þau tvö börn.
Guðmundur fór að stunda sjóinn strax eftir fermingu og 15 ára gamall reri hann á vetrarvertíðinni 1921 með föður sínum á vélbátnum Sigríði VE 240 sem síðar strandaði og fórst í aftakaveðri 14. febrúar 1928. Skipshöfnin bjargaðist fyrir einstakt afrek Jóns, bróður Guðmundar, sem tókst að klífa upp Hamarinn í kafasnjó. Þetta er víðfrægt björgunarafrek og nýlega var að verðleikum reistur minnisvarði á þeim stað þar sem Jón kleif forðum upp og gat gert vart við skipsfélaga sína sem höfðu komist upp á litla syllu í berginu. Skipstjóri í þessum síðasta róðri Sigríðar var Eiður Jónsson, kvæntur systur þeirra bræðra.
Guðmundur lauk minna skipstjóraprófi 18 ára gamall, áríð 1924, en meira skipstjóraprófi lauk hann frá Stýrimannaskólanum í Reykjavfk árið 1946, í svonefndum „öldungi" sem var haldinn fyrir reynda skipstjóra.
Hann fór ungur að sumrinu til fiskveiða fyrir Norðurlandi, bæði til dragnótaveiða og síldveiða í nót. Guðmundur var þarna m.a. eitt úthald með Þorvaldi Guðjónssyni á Ágústu, einnig á Vestmannaeyjabátunum Gunnari Hámundarsyni, Bjarnarey og Kap, 27 tonna báti sem Stefán Björnsson í Skuld var með. Sumarið 1929 var hann á síld á togaranum Kára sem var gerður út frá Viðey. Árið 1928 hóf Guðmundur, þá aðeins 22 ára gamall, formennsku með Sísí VE 265, 13 brúttórúmlesta bát sem Gísli J. Johnsen átti og gerði út. Þessa fyrstu vertíð kom strax í ljós að Guðmundur var mikill fiskimaður.
Haustið 1928 fóru þeir bræður. Jón og Guðmundur, ásamt frænda þeirra, Þorgeiri Jóelssyni, og norskum manni, sem hét Sigvard Haldsör, til Noregs. Þar keyptu þeir 26 rúmlesta fiskibát, Von VE 279, sem kom til Vestmannaeyja í lok október 1928 og var fyrst gerð út frá Eyjum vetrarvertíðina 1929. Þeir feðgar, Guðmundur, Jón og Vigfús, áttu þennan bát ásamt Inga Kristmanns sem fór úr útgerðinni eftir tvö eða þrjú ár.
Heimskreppan mikla skall á árið 1930 og stóð yfir í nærri 10 ár, fram að heimsstyrjöldinni síðari sem hófst 1. sept. 1939. Á þessum árum voru íslenskar sjávarafurðir nærri óseljanlegar og árið 1936 skall á borgarastyrjöld í helsta markaðslandi okkar, Spáni. Allt hjálpaðist því að og fóru margar útgerðir illa út úr þessum árum. Margir misstu allar eigur sínar, bæði bát og hús. Feðgarnir í Holti stóðu þessi erfiðu ár af sér með aflasæld Guðmundar og útsjónarsemi þeirra feðga. Rétt eftir 1940 hófust þeir því handa með að láta smíða nýjan bát, Von VE 113. Það var 65 rúmtonna bátur sem Gunnar Marel Jónsson teiknaði og smíðaði í Vestmannaeyjum. Eigendur voru þrír bræðurnir í Holti, Guðlaugur. sem var 2. vélstjóri og sá um bókhaldið (faðir Vigfúsar stýrimanns á Herjólfi), Jón, sem var fyrsti vélstjóri, og Guðmundur skipstjóri. Vonin VE 113 var glæsileg listafleyta. Guðmundur fiskaði alltaf mikið á þennan bát, bæði bolfisk og síld. Mest kom upp úr Voninni 1240 mál eða 167 tonn af síld þegar hún var á Hvalfjarðarsíldinni haustið 1946. Síldveiðin í Hvalfirði var ævintýri líkust og fékk Vonin 17.000 mál þetta haust sem þótti þá mikill afli og var með því albesta á vertíðinni.
Vegna heimilisástæðna varð Guðmundur að flytjast frá Vestmannaeyjum árið 1957 og fór þá til Hafnarfj'arðar. Þeir bræður gerðu þó út Vonina til ársins 1961. Í Hafnarfirði var Guðmundur með bátana Fróðaklett og Lunda til ársins 1960 og átti Lundann. Guðmundur dvaldist síðan í Hafnarfirði það sem hann átti eftir ólifað. Fyrstu árin eftir að hann hætti á sjónum vann hann við netagerð og uppsetningu veiðarfæra, en í tæp tuttugu ár dvaldist hann í góðu yfirlæti á Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnistu, í Hafnarfirði.
Guðmundur var kvæntur Stefaníu Einarsdóttur úr Fljótum (d. 1982) og eignuðust þau tvö börn, Vigfús, sem missti ungur heilsuna og andaðist 1988, og Erlu sem býr í Hafnarfirði. Maður hennar er Stefán, sonur hjónanna Ingigerðar og Þorsteins Þ. Víglundssonar sem eru bæði látin og voru þekktir borgarar í Vestmannaeyjum á sinni tíð.
Guðmundur í Holti er án efa einn merkasti formaður sem hefur verið í Vestmannaeyjum á þessari öld. Hann gjörþekkti öll Eyjamið og var mikill sjómaður og afburða fiskimaður í öll veiðarfæri. En það sem hann hafði sérstaklega fram yfir flesta aðra skipstjóra var að í honum var eðli rannsóknarmannsins og brautryðjandans sem vildi fara nýjar leiðir.
Guðmundur gerði t.d. að frumkvæði Þorvalds Guðmundssonar, sem síðar var kenndur við Síld og fisk, tilraunir með humarveiðar í botnvörpu sumarið 1939. Hann veiddi allsæmilega norðarlega í Háfadýpinu þegar gaf þar á sjó, en þetta sumar voru miklar suðaustanbrælur og lítið næði til að veiða austan við Eyjar. Eftir þessar tilraunaveiðar Guðmundar lágu humarveiðar niðri um árabil. Vertíðina 1940 hóf Guðmundur togveiðar á gömlu Vonina, en fram að þeim tíma voru Vestmannaeyjabátar eingöngu á hefðbundnum línu- og netaveiðum. Árið 1955, stuttu áður en Guðmundur fluttist frá Eyjum, gerði hann tilraun með þorskveiðar í nót að undirlagi þáv. fiskimálastjóra, Davíðs Ólafssonar. Kastað var frá sjálfum bátnum hringnót sem var 120-130 faðma löng og 28-30 faðma djúp. Þetta var í loðnugöngunni og kastaði Guðmundur ofan í loðnutorfur og fékk góða veiði, t.d. einn daginn 50 tonn af rígaþorski. Þennan vetur fiskaði Vonin rúmlega 100 tonn í þorsknótina. Næstu vertíð notaði Guðmundur einnig nót og fékk eins og vertíðina áður um 100 tonn af fiski, en þriðju vertíðina veiddi hann lítið sem ekkert í nótina af því að þá lá í suðvestan áttum. Þegar menn fóru almennt að nota þorskanót til veiða seldi Guðmundur Ása í Bæ nótina.
Guðmundur í Holti var eins og hann átti ætt til léttur og reifur, hress og kvikur, en þá ákveðinn og fylginn sér. Hann var ern og minnugur allt þar til hann féll skyndilega frá. Mesta yndi hans var að fara með stöng í silungsveiði og var hann þá sama aflaklóin og hann hafði verið sem formaður í Eyjum.
Þegar Guðmundur í Holti rifjaði upp endurminningar sínar, nærri níræður að aldri, við Jón Kr. Gunnarsson í bókinni „Hafið hugann dregur..." sem kom út árið 1996 og hér hefur verið stuðst við, lauk Guðmundur samtalinu með því að segja: „Ég mundi ekki hika við að fara á sjóinn ef ég væri ungur í dag og draga fram lífið á því sem sjórinn gefur."
Guðmundur Vigfússon var jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði að viðstöddu fjölmenni hinn 13. október 1996. Blessuð sé minning mikils sjósóknara.
Guðjón Ármann Eyjólfsson
Hlöðver Johnsen, Saltabergi
F. 11. febr. 1919. - D. 10. júlí 1997.
Með fáum orðum langar mig að minnast míns gamla veiðifélaga og vinar, Súlla Johnsens.
Jón Hlöðver Johnsen hét hann fullu nafni, fæddur í Vestmannaeyjum 11. febrúar 1919. Foreldrar hans voru hjónin Margrét og Árni Johnsen. Margrét var dóttir Jóns Guðmundssonar bónda og konu hans Ingibjargar Jónsdóttur sem bjuggu allan sinn búskap í Svaðkoti fyrir ofan Hraun og síðar var nefnt Suðurgarður. Hjónin í Suðurgarði voru sérstakar gæðamanneskjur og ólst Súlli, frá tveggja ára aldri, upp hjá afa sínum og ömmu í Suðurgarði. Árni Johnsen var yngstur fimm sona hjónanna Jóhanns Jörgens Johnsens og Sigríðar Árnadóttur sem byggðu og bjuggu í Frydendal (síðar Bjarma við Miðstræti). Hann var einn þeirra sem setti svip á Vestmannaeyjar, kaupmaður og brautryðjandi í garð- og blómarækt í Vestmannaeyjum, en lagði annars gjörva hönd á margt, var annálaður bátslegumaður í úteyjaferðum og hraustmenni sem bjargaði á sundi sjö mönnum. Hlaut hann fyrir það verðlaun úr hinum fræga sjóði Caniegies. Bræður Árna voru einnig á sinni tíð þekktir í bæjarlífinu og má hér nefna Gísla J. Johnsen, kaupmann og útgerðannann, Sigfús, bæjarfógeta og sagnaritara, Guðna, sem var mikill fjalla- og veiðimaður og byggði húsið Ásbyrgi árið 1912. Lárus var fimmti bróðirinn, kaupmaður og vararæðismaður Hollands, faðir Lárusar sem var þekktur skákmaður. Frá þessu fólki er kominn fjöldi þjóðkunnra Vestmanneyinga.
Súlla Johnsens, eins og hann var alltaf kallaður, verður sérstaklega minnst í sambandi við fjallaferðir og veru hans í Bjarnarey þar sem hann dvaldist í fjöldamörg sumur á æsku- og fullorðinsárum við lundaveiðar, en í mörg ár aðsótti hann eyjuna á hverju vori til svartfugla- og fýlseggja. Hann fór einnig til veiða í Eldey, Geldung, Súlnasker og allt til Mánáreyja.
Súlli var einstaklega skemmtilegur og góður félagi, hvort sem var til sjós eða í útey, en þar átti ég með honum nokkur sumur í Bjarnarey. Hann gjörþekkti allar úteyjar Vestmannaeyja og var ágætur veiði- og fjallamaður sem naut úteyjalífsins í ríkum mæli í hópi góðra félaga þar sem hann var hrókur alls fagnaðar. Súlli Johnsen var að eðlisfari sannkallað náttúrubarn. Sveinbjörn Björnsson fyrrv. rektor Háskóla Íslands, sem var með honum í Vestmannaeyjum í eldgosinu 1973, lýsti honum þannig í bókinn Bergið klifið: „Sumir menn eru svo samgrónir þeirri náttúru sem þeir hrærast í að þeir virðast skilja og skynja hana nánar en nokkur skólagenginn maður. Þeir eru börn náttúrunnar og þekking þeirra á henni engu síðri en lærðustu náttúrufræðinga. Áhugi þeirra á leyndardómum náttúrunnar er jafnan svo sterkur að þeir hirða lítið um efnaleg gæði. ... Einn þessara manna er Hlöðver Johnsen á Saltabergi í Eyjum."
Súlli skrifaði endunninningar sínar, Bergið klifið. Minningar veiðimanns. Þar lýsir hann æskuárum sínum fyrir ofan Hraun, veiði- og fjallamennsku. „lífshlaupi og samskiptum við gott fólk og samveru með því til sjós og lands".
Í þessari endurminningarbók eru merkar lýsingar á lífi og kjörum fólks í Vestmannaeyjum á fyrri hluta aldarinnar. Þar kemur einnig glöggt fram hve góður drengur og félagi Súlli var í jarðeldunum í Heimaey árið 1973 vann hann ásamt vísindamönnum og Sveinbirni Jónssyni, forstjóra Ofnasmiðjunnar, ótrauður að nýtingu hraunhitans sem var stórmerkileg framkvæmd, en hraunhitinn var notaður til upphitunar húsa í Vestmannaeyjum í ein 15 ár. Um þátt Súlla í því verki ritaði Sveinbjörn Björnsson, þá prófessor við H.Í. en Sveinbjörn vann þar frábær störf sem vísindamaður: „Aðstoð var sótt til ýmissa stofnana og verkfræðistofa en í liði heimamanna voru þeir drýgstir Hlöðver og Sigmund Jóhannsson. Sigmund kom með snjallar hugmyndir og var fljótur að koma prófun þeirra í framkvæmd. Hlöðver var ómissandi við allar tilraunir sem hann annaðist af natni og seiglu við óblíðar aðstæður og lét þar aldrei hugfallast þótt í móti blési. ... Margir lögðu hönd á plóginn en fullyrða má að lítið hefði orðið úr nýtingu hraunhitans ef ekki hefði notið seiglu, bjartsýni og hugkvæmni Hlöðvers."
Frá unglingsárum stundaði Súlli sjómennsku með öðrum störfum og í nokkur ár var hann í útgerð og gerði út Gottu VE 102 og Má VE 276, ásamt Jóni Tómassyni í Mörk, Trausta syni hans, Sigurði Guðlaugssyni á Laugarlandi og Bjarna Jónssyni, skipstjóra í Garðshorni. Súlli fór á matsveinanámskeið sem haldið var í Eyjum og var listakokkur. Í nokkur úthöld, bæði á vetrarvertíð og fyrir norðan land til síldveiða, var hann með Binna í Gröf á Gulltoppi, Haföldu, Sævari og Gullborginni. Lýsir hann í bók sinni ævintýrum til sjós og lands, eins og hann sagði sjálfur frá, með þeim þekkta sjómanni. Þegar eldgosið hófst á Heimaey í janúar 1973 var Súlli á Ásver VE 233.
Hlöðver Johnsen var kvæntur Sigríði Haraldsdóttur frá Garðshorni og eignuðust þau fimm börn, en dóttur Sigríðar, Ágústu, gekk hann í föðurstað. Hann andaðist í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 10. júlí 1997 og var jarðsunginn að viðstöddu fjölmenni frá Landakirkju.
Blessuð sé minning míns gamla veiðifélaga, Súlla Johnsens.
Guðjón Ármann Eyjólfsson
Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað
F. 14. nóv. 1913. - D. 19. júní 1997.
Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað, og einnig kenndur við Blátind, fæddist 14. nóv. 1913. Hann lést á Hraunbúðum 19. júní 1997. Foreldrar hans voru Sigrún Jónsdóttir og Sigurður Hermannsson. Þorsteinn var húsasmiður að mennt, en fljótlega snerist hugur hans að útgerð og fiskvinnslu. Steini á Melstað, eða Blátindi, eins og hann var ávallt nefndur, missti föður sinn ungur að árum. Sigurður féll fyrir borð af mb. Nirði 22. maí 1920 og drukknaði. Sigrún móðir Þorsteins giftist síðar Ágústi Úlfarssyni sem gekk Þorsteini í föðurstað.
Á unglingsárum sínum dvaldist Þorsteinn löngum í Landeyjunum, að Álfhólum, hjá Valdimar bónda þar og hans fólki. Þorsteini var mjög hlýtt til þessa fólks alla tíð og var Valdimar einn af hans bestu vinum ásamt Ágústi í Sigluvík.
Ég hef sagt það áður að Þorsteinn var barn náttúrunnar. Umhyggju hans fyrir náttúrunni og umhverfi sínu var við brugðið. Trúlega hafa unglingsárin í Álfhólum átt sinn þátt í því. Á yngri árum stundaði Þorsteinn mikið fjallamennsku og íþróttir og var hann vel liðtækur þar sem og í öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Þorsteinn hafði yndi af söng og öðrum listum eins og heimilið á Blátindi bar vitni um.
Þorsteinn eignaðist sinn fyrsta bát, Hilmi VE 282, árið 1947, svo og hlut í Ófeigunum. Þorsteinn og Ólafur Sigurðsson frá Skuld létu smíða fyrsta íslenska stálfiskibátinn í Hollandi 1954 og hlaut hann að sjálfsögðu nafnið Ófeigur III VE 325. Ófeigarnir (þeir eru nú orðnir sex að tölu) hafa verið í sömu ættinni í um 80 ár.
Tengdafaðir Þorsteins, Jón Ólafsson frá Hólmi, eignaðist sinn fyrsta Ófeig ásamt fleirum árið 1920. Þau eru ekki ófá tonninn sem Ófeigarnir hafa komið með að landi á þessum 80 árum.
Eins og fram kom í grein minni um Fiskiðjuna í síðasta blaði var Þorsteinn einn af stofnendum og eigendum hennar. Þar var hann framkvæmdarstjóri til margra ára en flutti sig síðar um set og gerðist framkvæmdastjóri í FIVE þegar Fiskiðjan eignaðist þar helmingshlut á móti Vinnslustöðinni. Þorsteinn bar hag sjómanna fyrir brjósti, stuðlaði m.a. að stofnun Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og sat þar í skólanefnd til margra ára.
Þorsteinn kvæntist Önnu Jónsdóttur Ólafssonar frá Hólmi árið 1940 og eignuðust þau tvær dætur, Sigrúnu og Stefaníu.
Blessuð sé minning Steina á Blátindi.
Gúðjón Ólafsson í Gíslholti
Jón Freyr Snorrason
F. 19. jan. 1963. - D. 15. sept. 1997.
Hvílík sorgarfregn! Mig setti hljóðan þegar móðir mín hringdi 15. sept. sl. og tilkynnti mér að besti vinur minn, hann Jón Freyr, hefði látist í þyrluslysi.
Í 18 ár átti ég ótal margar samverustundir með tryggðartröllinu Jóni Frey og fjölskyldu hans, oftast í gleði, en einnig í sorg. Jón Freyr bjó yfir því sem flestir vilja láta minnast sín fyrir, óendanlegri tryggð við vini sína, léttleika og kímni sem smitaði út frá sér, hjálpsemi og verklagni sem ég, sem og margir aðrir kunningjar hans, nutum í ríkum mæli. Sem dæmi má nefna hjálpsemi hans við okkur hjónin þegar við vorum að standsetja íbúðina okkar. Jón Freyr tók að sér ýmis verkefni í íbúðinni óbeðinn því að hann vissi að annars yrði það látið dankast eða jafnvel sleppt. Ég fékk þó stundum að kaupa inn það sem til vantaði, halda á málbandinu eða rétta honum rörtöngina.
Jón Freyr hafði líka mikla leiðtogahæfileika. Þó að hann hafi flutt frá Eyjum árið l984 slitnuðu tengslin við gamla vinahópinn aldrei. Langstærsti hlutinn af upprunalega hópnum var og er sjómenn. Okkur ber öllum saman um að þrátt fyrir fjarlægð við vinahópinn verði hans ætíð minnst sem leiðtoga og tengiliðar sem ræktaði sambandið við vini sína allt fram á síðustu stundu.
Dágóður hópur brottfluttra Eyjamanna stundar fótboltaæfingar einu sinni í viku í Reykjavík. Jón Freyr á ekki einungis heiðurinn af því að hafa safnað þessum peyjum saman, heldur sá hann einnig um að rukka inn æfingargjöld, útvega íþróttasali og síðast en ekki síst stóð hann fyrir flestum eftirminnilegum uppákomum þar sem við strákarnir komum saman og gerðum okkur glaðan dag. Eftir á að hyggja finnst mér að það hafi hreinlega verið í eðli hans að halda þessum hópum saman og það gerði hann svo sannarlega af heilum hug og án alls yfirlætis.
Ég þekki fáa sem hafa haft jafnsterkar taugar til Eyjanna eins og Jón Freyr. Skýrasta dæmið um það er barátta hans við að halda merki IBV á lofti. Hann var giftur inn í fjölskyldu af Skaganum. Þó að erfitt sé að viðurkenna það hafa IA menn náð mun betri árangri í gegnum tíðina, titlar segja mest um það. Þrátt fyrir þetta og tilraunir Svövu og fjölskyldu hennar til að telja honum hughvarf var aðeins eitt lið í huga Jóns Freys, ÍBV! Ég held að það hafi verið ein af mestu ánægjustundum lífs hans þegar honum bárust tíðindi um að Vestmanneyingar væru orðnir Íslandsmeistarar, en þetta var á þeim tíma sem hann vann við þyrluverkefnið örlagaríka.
Jón Freyr hafði mikið yndi af úteyjarlífi og í þrí- eða fjórgang fórum við saman til lundaveiða út í Suðurey. Eitt skiptið tók hann vin sinn með sér úr Reykjavík í lundaveiðina, sem varla telst til tíðinda, nema þá helst að útbúnaðurinn sem sá kappi hafði með sér til veiða var allsérstakur, kassagítar og haglabyssa. Það var eins og Jón Freyr hefði verið búinn að reikna þetta út því að búnaður kappans kom að góðum notum við lundaveiðina. Meðan Reykvíkingurinn fretaði á veiðibjöllur fældist lundinn og skilaði sér í aukinni veiði hjá okkur hinum! Kassagítarinn kom sér einnig vel því að undirspil og söngur á kvöldvökunum hressti upp á mannskapinn. Jón Freyr undi sér aldrei betur en í glöðum vinahóp.
Skömmu eftir að ég kynntist Jóni Frey einsetti hann sér að verða þyrluflugmaður. Draumur hans varð að veruleika og við glöddumst yfir því. Þegar hann var búinn að afla sér fullra réttinda til að fljúga þyrlu hófst atvinnuleitin. Á tiltölulega skömmum tíma tókst honum með seiglu og áræðni að vinna sér traust hjá yfirmönnum Þyrluþjónustunnar og var þar með kominn í draumastarfið. Ástríða hans til flugmennsku lét engan ósnortinn. Honum tókst t.d. næstum því að eyða sjúklegri flughræðslu minni á skömmum tíma. Þegar þurfti að vinna verkefni í Eyjum gat engum dulist hversu innilega Jón Freyr fagnaði því. Ég held að hann hafi einnig verið mjög drjúgur í því að auglýsa Vestmannaeyjar því að ef innlendir sem erlendir menn spurðu álits um heppilega staði til kvikmyndatöku stóð ekki á svarinu hjá Jóni. Eitt verkefnið sem hann tók þátt í var myndin sem sýnd var á Stöð 2 á annan í jólum um Hlöðver Johnsen og Bjarnarey. Í þeirri mynd sá Jón Freyr um þyrluflugið.
Það voru ekki einungis dýrðartímar í lífi Jóns Freys, því að fyrir sex árum lést móðir hans og aðeins tíu mánuðum síðar systir hans, báðar eftir erfiða sjúkdómslegu. Þrátt fyrir þessi áföll stóð Jón Freyr ætíð eins og klettur úr hafinu og reyndi eftir megni að sameina fjölskyldu sína í sorginni. Við hlið Jóns Freys stóð í gegnum þykkt og þunnt Svava Huld, eftirlifandi eiginkona hans.
Við vottum Svövu og Kolbrúnu, svo og öðrum aðstandendum innilegustu samúð. Megi Guð og gæfan styrkja þau ykkur í þessari miklu sorg.
Ég mun hugsa til Jóns Freys á hverjum degi, mörgum sinnum á dag.
Sigurjón Aðalsteinsson
Símon Kristjánsson
F. 2. sept. 1926. - D. 6. okt. 1997.
Tengdafaðir minn, Símon Kristjánsson, fæddist 2. sept. 1926 að Stað í Vestmannaeyjum. Hann var sonur hjónanna Kristjáns Egilssonar útgerðarmanns og konu hans, Sigurbjargar Sigurðardóttur. Símon nam málaraiðn á unga aldri en starfaði lengst af í tengslum við fiskverkun og útgerð, fram til ársins 1962 sem verkstjóri í Fiskiðjunni en síðar við eigin útgerð og fiskvinnslu í félagi við Ólaf Palsson.
Óli og Símon hf. gerði út bátana Sæunni VE og Blátind VE fram að gosi en þá hættu þeir félagar útgerð. Eftir gos tók Símon við starfi framkvæmdastjóra Stakks hf. en fyrirtækið var í eigu frystihúsanna í Eyjum. Ráðist var í byggingu húss af fullkomnustu gerð til að fullverka og þurrka saltfisk til útflutnings. Símon var í þurrkhúsinu öll þau ár sem húsið var rekið í samvinnu frystihúsanna þótt seinustu árin hafi hann ekki meðhóndlað saltfisk heldur umbúðir af öllu tagi fyrir fiskvinnsluna í Eyjum. Árið 1992 var þurrkhúsið selt Fiskmarkaði Vestmannaeyja. Símon hélt þó áfram utan um umbúðalagerinn meðan hann var starfræktur sem slíkur og fram á síðustu stundu starfaði Símon við lagerhald og fleira hjá Ísfélagi Vestmannaeyja.
Þegar litið er yfir farinn veg kemur fyrst upp í hugann hve gott var að fá tengdapabba til liðs við dóttur sína eftir að við festum kaup á húsnæði í fyrsta sinn. Ýmislegt þurfti að lagfæra og endurnýja eins og gengur. Það lék hreinlega allt í höndunum á Símoni. Nákvæmur var hann, svo sannarlega, allt varð að vera akkúrat. Til vitnis um það var heimili tengdaforeldra minna að Túngötu 23. Ég var fljótur að læra það að best af öllu var að vera sem lengst úti á sjó með þumalputta mína þegar Símon var að endurbæta húsnæði fjölskyldunnar, en það var æðioft.
Eftir að barnabörnin komu í heiminn áttu þau hug hans allan. Þær voru margar góðu stundimar með ömmu og afa á Túngötunni. Innan- og utanlandsferðirnar, sem við höfum farið í saman, verða okkur öllum ógleymanlegar. Það var alveg sama upp á hverju blessuð börnin fundu, alltaf var afi til í smásprell, sama hvort átti að klifra upp í tré í Búlgaríu eftir ávöxtum á morgunverðarborðið, dansa við senjórítur suður á Spáni eða bara koma út í rigninguna þegar ferðast var utanlands. Það vafðist alls ekki fyrir Símoni.
Símon giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Önnu Tómasdóttur, 8. nóv. 1952 og áttu þau tvær dætur, Helgu mína og Líneyju mágkonu. Barnabörnin eru þrjú, Símon, Jóhann og Anna Halldórsbörn.
Um leið og ég kveð tengdaföður minn vil ég biðja góðan Guð að styrkja Önnu tengdamömmu og okkur öll hin í sorginni.
Halldór Guðbjörnsson
Gunnar Ólafsson á Gilsbakka
F. 17. sept. 1931. - D. 15. okt. 1997.
Skjótt skipast veður í lofti. Til þess varð mér hugsað þegar ég frétti af andláti vinar míns, Gunnars á Gilsbakka.
Gunnar fæddist í Vestmannaeyjum 17.sept. 1931 og ólst upp á Gilsbakka sem stóð við Heimagötu hér í bæ, en það hús áttu foreldrar hans, Ólafur Stefán Ólafsson vélsmiður og kona hans Friðrikka Dagmar Erlendsdóttir. Gunnar var ætíð kenndur við þetta æskuheimili sitt. Eftir barna- og gagnfræðanám árið 1948 hóf Gunnar járniðnaðarnám í Magna og stundaði jafnframt nám í Iðnskólanum. Hann nam bæði rennismíði og vélvirkjun. Einnig tók hann minna vélstjórapróf árið 1952. Næstu árin vann Gunnar í Magna og vann fyrir Eyjaflotann af einurð og natni, enda mikill hagleiksmaður á allt sem hann tók sér fyrir hendur.
Árin 1969-1974 átti Gunnar í útgerð með Erlingi Péturssyni. Þeir gerðu út bátinn Eyjaver. Eftir það starfaði Gunnar við ýmis störf uppi á fastalandinu sem tengdust menntun hans. Eftir að hann kom aftur til Eyja starfaði hann hjá Skipalyftunni á meðan starfskraftar entust.
Hinn 9. maí 1953 var mikill happadagur í lífi Gunnars en þá gekk hann í hjónaband með Þuríði Guðrúnu Ottósdóttur eða Stellu eins og hún er alltaf kölluð. Þau Gunnar og Stella eignuðust fimm börn, Guðna, Erlu, Ottó Ólaf, Hrönn og Erlend Gunnar.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Gunnari á Gilsbakka. Faðir minn og hann unnu saman í Magna um tíma. Þeir brölluðu margt saman og ég man alltaf léttleikann og glaðværðina sem var á milli þeirra og alltaf var stutt í grínið. Ég átti þó eftir að kynnast Gunnari enn betur eftir að hann hætti að vinna og eru mér margar samverustundirnar við hann ógleymanlegar. Það var sama hvort drukkið var kaffi á vigtinni hjá Torfa eða hjá Geir á Reynistað, alltaf var glatt á hjalla að ég tali nú ekki um ef Doddi í „Steindó" var nálægur.
Þegar ég ákvað að fara í framboð með óháðan lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1994 var Gunnar boðinn og búinn til að aðstoða mig og dró hvergi af sér þrátt fyrir erfið veikindi. Hann var í heiðurssæti listans og var skrifstofustjóri á kosningaskrifstofunni og starfaði af þvílíkum dugnaði að undrun sætti. Þessi dugnaður þurfti ekki að koma neinum á óvart sem til þekktu, enda lét árangurinn ekki á sér standa. Eru honum þökkuð vel unnin störf í kosningabarattunni og vinarþel í gegnum árin.
Þrátt fyrir erfið veikindi Gunnars síðustu æviárin bar hann þau aldrei á torg og var ávallt vel studdur af Stellu, börnum og tengdabörnum.
Ég þakka Guði fyrir að hafa fengið að kynnast öðrum eins öðlingi og Gunnar á Gilsbakka var.
Georg Þór Kristjánsson
Óli Þór Ólafsson
F. 30. mars 1942. - D. 2. júní 1997.
Óli Þór Ólafsson var fæddur í Vestmannaeyjum 30. mars 1942. Hann lést á heimili sínu á Selfossi 2. júní 1997. Foreldrar Óla Þórs voru hjónin Sigríður Sigurðardóttir saumakona, d. 27. jan. 1969, og Ólafur Jónsson skipasmíðameistari sem nú dvelst á Hraunbúðum.
Árið 1964 kvæntist Óli Þór Ingunni Hofdísi Bjarnadóttur, fæddri á Blönduósi. Þau hófu búskap í Eyjum og bjuggu þar fram að eldgosi, 1973. Frá þeim tíma bjuggu þau á Selfossi. Ingunn Hofdís og Óli Þór eignuðust þrjá syni, Ólaf, f. 1967, Sigurð Árna, f. 1974 og Gunnar, f. 1976.
Ungur að árum hóf Óli Þór störf við fyrirtæki föður síns, Skipaviðgerðir hf., og lauk námi í skipasmíði 1963 og húsasmíði 1967. Meistararéttindi í skipasmíði fékk hann 1973.
Á starfsárum Óla Þórs við skipasmíðar var blómatími í bátaútgerð. Hér voru gerðir út um eitt hundrað bátar á vertíðum. Þessir bátar þutftu þjónustu og var þá ekki spáð í á hvaða tíma sólarhrings var unnið. Einnig var unnið að nýsmíðum á tréskipum. Starfsmenn Skipaviðgerða hf. voru 15-20 og var oft líflegt á vinnustaðnum. Óli Þór hafði góða kímnigáfu og var fljótur að sjá það spaugilega í tilverunni.
Frá árinu 1973 starfaði Óli Þór við húsasmíðar hjá SG einingahúsum á Selfossi.
Óli Þór var mikill Eyjamaður í sér og fylgdist vel með öllu sem gerðist hér eftir að hann fluttist á Selfoss. En þrátt fyrir hina hefðbundnu lífsbaráttu gaf Óli Þór sér tíma til að rækta áhugamál sín. Hann var fróður og víðlesinn, las mikið af fornbókmenntum og fræðibókum. Tónlist og söngur áttu ríkan þátt í huga hans. Hann stundaði söngnám í nokkur ár.
Útför Óla Þórs fór fram frá Selfosskirkju 7. júní 1997.
Blessuð sé minning um góðan dreng.
Kristján G. Eggertsson
Björgvin Pálsson
F. 3. júlí 1906. - D. 19. maí 1997.
Björgvin var borinn og barnfæddur í einni fegurstu sveit landsins, undir Fjöllunum, og ólst þar upp. Foreldrar voru Guðrún Eiríksdóttir og Páll Pálsson og áttu ekki lengri samleið. Þrjú voru systkini Björgvins, Pálsbörn. Meðal þeirra var Jón Pálsson frá Hlíð sem sumir nefndu „misheppnaðan tónsnilling". Hann hafði ekki efni á tónnámi en lærði til mótorista.
Halldór Laxness og Jón frá Hlíð voru miklir vinir. Kiljan gerði Jón að þjóðsagnapersónu í minningum sínum. Jón frá Hlíð hafði stundlega afkomu sína af því að vera mótoristi á pung ... „Skrýtið að þegar ég var orðinn leiður á sjálfum mér og öðrum þá langaði mig helst til Jóns Pálssonar frá Hlíð, hetjunnar sem hafði skrifað tvær jólasögur."
„Vort líf, vort líf, Jón Pálsson, er líkt og nóta fölsk" segir Steinn Steinarr í alkunnu minningarljóði um Jón frá Hlíð.
Vel fór á með þeim hálfsystkinum og hafði Björgvin séð um útför bróður síns. Þrettán ára var Björgvin ráðinn á Fjallaskip sem hálfdrættingur. En pilturinn dró svo vel að hann fékk heilan hlut. Ungur réðst hann til starfa á stórbýlið Þorvaldseyri. Átti þar heimili nokkur ár, sendur í ver til Eyja á vetrarvertíðir. Fimm vertíðir sjómaður á útveg Friðriks á Löndum. Vertíðarkaup rann til húsbóndans sem var svipað og árskaupið.
Á Eyri kynntist Björgvin myndarlegri kaupakonu, Gunnhildi Guðmundsdóttur, og tókust með þeim góðar ástir eins og segir í bókum og gengu þau í hjónaband árið 1927.
Sama ár fluttust þau til Eyja og bjuggu fyrst í leiguhúsnæði sem títt var. Nokkrum missirum síðar keyptu þau húsið Hvol við Heimagötu. Björgvin var enn sjómaður nokkur ár og hafði þó nokkurn landbúskap.
Björgvin var greindur vel, frjálslyndur í skoðunum og hafði gott skopskyn. Lítið dæmi upp á það: Hann stundaði m.a. uppskipunarvinnu sem var eftirsótt þrátt fyrir erfiði. Lá orð á að róttækir verkamenn nytu þar ekki forgangs. Nú var von á vöruskipi og Björgvin spurði reiðarann (afgreiðslumanninn) um vinnu. Vel var tekið í þá málaleitun. Bætir við eftir íhugun: „Heyrðu, stendur þú ekki annars með okkur?"
„Ekki held ég að ég standi langt frá þér."
„Ég stóð nefnilega alveg við hliðina á honum" sagði Björgvin og brosti kankvíslega.
Nú kom þar að verkstjórn varð aðalstarf Björgvins um áratugi. Fyrst í Hraðfrystistöð Einars Sigurðssonar. Þar vann ég undir stjórn Björgvins sem flakari. Hann var vinsæll verkstjóri, léttur í lund en ákveðinn, fann ekki að en sýndi hvernig vinna skyldi. Þegar Fiskiðjan tók til starfa var Björgvin þar yfirverkstjóri alls um 30 ár.
Eftir Eyjagos komu þau Gunnhildur sér upp fallegu heimili í Hveragerði. Á þeim árum dvöldumst við hjón stundum í Heilsuhælinu. Þá var fljótlega hringt til gamla verkstjórans í „Hraðinu" sem svo var kallað. Þá kom svar, stutt og laggott: „Ég er með bíl. Hvenær á ég að sækja ykkur í kaffi?" Heimili þeirra á Borgarheiði 13 var vistlegt í besta lagi og frú Gunnhildur drottning í ríki sínu. Við litum líka til Björgvins eftir lát Gunnhildar 24. september 1987. Vel tekið sem fyrr, en nú var mikil breyting á orðin og ótímabær. Einn dag bauð Björgvin okkur hjónum í bíltúr um Hveragerði og umhverfi. Ég hlaut að undrast hversu vel Björgvin þekkti bæinn og íbúana.
„Mig dreymir oft heim" var einhverju sinni haft eftir Björgvin. Svo kom þar að sá draumur rættist, sem betur fór. Hann átti að lokum góð ár í húsi sínu, Kleifarhrauni 2, í nánum tengslum við sitt fólk.
H.G.
Jóhann Eysteinsson
F. 23. febr. 1907. - D. 21. febr. 1998.
Jóhann fæddist í Tjarnarkoti í A-Landeyjum sem var hjáleiga frá kirkjustaðnum Krossi. Þar var löngum tvíbýli, heldur kostarýr. Fólk treysti á sjávaraflann sem sjaldan brást. Foreldrar: Eysteinn Gunnarsson og k.h. Elín Jóhannsdóttir, bónda í Tjarnarkoti. Þau hjón bjuggu í Tjarnarkoti 1901 -1919.
Jóhann, sem hér er minnst, bar nafn afa síns (d. 1906). Kona hans hét Þorgerður Jónsdóttir frá Álfhólum. Jóhann bóndi var greindur vel, húmoristi, málfar kjarnmikið og fjölskrúðugt. Hann var formaður við Sandinn á juli sínu, Svani.
Tvö dæmi af mörgum um tilsvör Jóhanns: Eitt sinn er hann lét ýta á flot var fremur illt í sjó og tvísýnt hvort fært væri. Kallar þá einn skipverja skjálfandi rómi: „Eigum við ekki að róa í Jesú nafni?" Jóhann svaraði byrstur: „Hreint frá að róa í Jesú nafni!" Eftir nokkra bið lögðu þeir frá landi áfallalaust. Er þeir voru komnir að landi eftir allerfiðan róður segir Jóhann: „Hvar ætli við værum nú ef við hefðum róið í Jesú nafni? Allir steindauðir og komnir út undir Dranga!"
Ein veðurlýsing Jóhanns: „Í gær var hreint allur himinninn austan frá lambhúsinu hans Lása vestan fyrir hesthúsið mitt eins og kolsvartur ketilbotn, nema svolítil helvítis glufa sem rétt mátti henda hundi út um."
Merk kona, sem bjó í Reykjavfk, ólst upp í Tjarnarkoti til 7 ára aldurs. Hún sagði: „Þar bjó gott fólk. Það var talað við mig eins og fullorðna manneskju, ég gat spurt um allt og var alltaf svarað."
Jóhann var bókamaður, skrifaði fallega rithönd og skar út höfðaletur. Þótti ódeigur við sjó en athugull vel.
Jóhann Eysteinsson fór að róa með föður sínum 11 ára gamall, óvenjuungur sjómaður, ráðinn upp á hálfdrætti. En drengurinn var fiskinn, dró ekki síður en hinir og fékk heilan hlut.
Þeir feðgar hafa líklega róið hjá Gissuri í Hildisey. Gissur var heppinn formaður en skip hans þótti nokkuð þungt í vöfum og erfitt í róðri. Í byrjun einnar vertíðar reri Jóhann fáa róðra á bát Þórðar á Úlfsstöðum. Svo líður að skiptum. Þá segir Þórður: „Þú skalt ekki fara á þennan bát, Jói minn. Þetta er ljótur bátur!"
Eysteinn var góður sjómaður og mikill ræðari. Ég átti að heita háseti á sama bát á vertíð 1928. Hann hvatti þá stundum okkur hina slakari og sagði: „Þetta er lagið, allir sama skellinn!"
Jóhann fluttist til búsetu í Eyjum árið 1941. Sama ár kvæntist hann Sigríði Júníusdóttur frá Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi. Myndarkona, fróð og sagði vel frá. Þau hjón keyptu húsið Skólaveg 36 og bjuggu þar síðan í löngu og farsælu hjónabandi.
Jóhann sótti sjó frá Eyjum í þrjá áratugi og þrem árum betur. Slíkir leggja stóran skerf í þjóðarbúið og er lítt þakkað. Eftir að sjómennsku lauk vann Jóhann um tvo áratugi í Fiskimjölsverksmiðjunni.
Sigríður kona Jóhanns andaðist 7. maí 1987. Það var mikið áfall, en þá kom sér vel að Jóhann var æðrulaus maður sem bjó nú einn í húsi sínu á annan áratug.
Börn þeirra: Selma, gift Gunnari Jónssyni skipstjóra, og Elín Bjarney gift Svavari Sigmundssyni kaupmanni.
Alloft hittumst við Jóhann á rölti eftir að við fengum löggildingu í ellihólf þjóðfélagsins. Spurði hann þá einatt: „Fréttirðu nokkuð úr Landeyjunum?" Þau ítök hafði fæðingarsveitin enn þótt Jóhann væri fyrir margt löngu innvígður Eyjamaður.
H.G.
Sigurður Gissurarson
F. 21. nóv. 1918. - D. 4. apríl 1998.
Hláturinn hvelli er hljóðnaður og hlýja brosið minning sem mætir manni ekki framar augliti til auglitis í lífsins melódí. Á hinn bóginn lifir hláturinn og hlýjan í fjársjóði lífsreynslunnar og þannig á maður á sinn hátt áfram samleið með þeim sem eru horfnir á braut yfir móðuna miklu. Siggi Giss hefur afmunstrað sig af þessari heims skútu brátt og óvænt því þótt aldurinn segði til sín í kirkjubókum var kempan eins og unglingur í sneipulegu fasi og fljúgandi hnyttni tilsvara og innskota í mannlífsspjallinu.
Sigurður Gissurarson var einn af þessum sterku persónulegu einstaklingum samtímans, eftirminnilegur fyrir margra hluta sakir. Hann hafði einstakt lag á því að njóta í senn alvörunnar og gamanseminnar. Hann var sjómaður dáðadrengur, eins og þeir gerast bestir, harðduglegur, góður og traustur vinur og félagi og trúr hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann fór ekki um með neinum skellum eða hófadyn, en án þess að það þyrfti um það mörg orð virkaði hann ósjálfrátt eins og ankeri í samfélaginu vegna heilsteypts persónuleika, en þó líklega fyrst og fremst vegna leikgleðinnar þar sem hann lagði orð í belg, aldrei niðrandi, aldrei með hroka, en ósjaldan með nettum broddi þar sem menn neyddust til þess að brosa og hugsa hratt í senn.
Siggi Giss kom til Eyja um tvítugt og þar kynntist hann henni Önnu sinni Magnúsdóttur. Þau giftu sig og hann tók að sér strákana hennar tvo frá fyrra hjónabandi og ól þá upp sem sín eigin börn sem þau Anna eignuðust saman. Allt frá því að Siggi kom til Eyja og starfsævina alla stundaði hann sjóinn, var sjómaður af lífi og sál. Siggi Giss var dökkur á brún og brá og stundum minnti alvörugefinn og hvass svipur hans á skýjaþykkni suðvestanáttarinnar, en svo skyndilega rofaði til og brosið hans var eins og margar sólir væru á lofti, því bros augnanna fylgdu með af því að hann gaf sig allan í það sem hann var að gera hverju sinni.
Siggi var ekkert að mylja moðið ef svo bar undir, það gat hvinið í honum eins og heil leiksýning væri á ferðinni, en eins skjótt og það gat skollið á þá var það jafnfljótt að fjúka úr honum og slíkir menn skapa ávallt líf og fjör í kringum sig, enda læra menn að laðast að slíkum persónum. Það var dásamlegt að skynja það hjá Sigga hve heitt hann unni henni Önnu sinni og segja má að allt það góða sem honum kom til hafi hann þakkað henni, enda saknaði hann hennar mikið er hún féll frá.
Stundir með Sigga Giss voru sigurstundir, svona eins og í góðum fótboltaleik sem vinnst, tilsvörin hans og athugasemdir sem menn höfðu svo gaman af, ekki síður en hann sjálfur. Það voru engar maraþonræður en hugsunin var djúp, snörp og gamansöm og svo gall hláturinn eins og tugir karlakórstenóra væru að þenja sig. Það var oft svo skemmtilegt að fylgjast með því hvernig hann lifði sig inn í hita leiksins, eins og til dæmis inni á Hásteinsvelli í hörkuleik og miklu spjalli þegar hann sagði eins og ekkert væri eðlilegra: Strákar, það skiptir engu þó nokkur frystihús fari á hausinn, bara ef við stöndum okkur í boltanum. Það var á sinn hátt eins og lottóvinningur að hitta Sigga Giss, því það þurfti svo lítið til að kveikja í honum taktana sem hann bjó yfir, töfrana í afstöðu hans til manna og málefna. Hann skemmti sér konunglega yfir því þegar við sátum í afmæli Tóta sonar hans á síðasta ári og ég sagði við hann, þegar Tóti var að dansa trúlofunardansinn gamla við Gunnu sína, að þrátt fyrir það að Tóti væri aldeilis léttur á fæti og léttur í lund þá gæti maður haldið að Siggi væri sonurinn en ekki faðirinn. Það hvein í kempunni eins og Concord væri í lágflugi. Í fyrra sátum við líka saman í flugvél frá Selfossi til Eyja. Siggi var að koma úr jarðarför, og eins og lífið heldur áfram hvað sem á dynur þá fórum við að gantast eins og okkar er vani og þegar vélin stöðvaðist fyrir framan flugstöðina í Eyjum kom eitt óborganlega innskotið þegar hann sagði í kveðjuskyni á sinn hátt: Jæja, þetta er nú orðin ágætis jarðarför.
En nú er hann vinur okkar búinn að hitta hana Önnu sína aftur og þá fara nú hjólin að snúast handan við fjall og fjörð. Það er sárt að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hitta Sigga Giss á förnum vegi, en malur minninganna er aldrei langt undan og sem betur fer gengur maður aldrei langt frá minningum sínum, að minnsta kosti ekki þeim góðu. Megi góður Guð styrkja börn Sigga, Þórarin og Margréti, ættfólk þeirra og vini alla. Megi himnarnir njóta hláturs gleðinnar því hvað skiptir meira máli en lífsgleðin sanna.
Árni Johnsen