Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Hinir sérsmíðuðu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÓLAFUR SIGURÐSSON:


HINIR SÉRSMÍÐUÐU


Alla tíð hefur sjósókn á opnum bátum verið erfið við Vestmannaeyjar. Því ræður veðurfar að mestu og aðstöðuleysi, sem þó fer batnandi, og ekki síst sú staðreynd að róið er á opið haf. Með tilliti til þessa mætti spyrja hvers vegna í ósköpunum menn eru að standa í þessu basli. Svarið virðist einfalt, en hjá trillukarli gæti verið um langa skýringu að ræða og flókna sem eflaust gæti fyllt margar blaðsíður og vísast að landkrabbi myndi aldrei skilja.
Sumir halda því fram að trillukarlar séu furðufuglar og lifi í allt öðrum heimi en aðrir menn og tali jafnvel annað tungumál. Þetta er eflaust hárrétt. En trillukarlar láta slíkt hjal ekki slá sig út af laginu. Vitandi það að hlýhugur er almennt til þessara sérsmíðuðu sjósóknara. Allavega mætir margur maðurinn á bryggjurnar til að skoða báta, afla og karla og sumir jafnvel á blakkskóm.
Heimur trillukarlsins er svo sannarlega víðfemur. Ekki aðeins hin stórbrotna náttúra og yfirborð hins breytilega hafs, heldur og nær hann niður á botn. Ekki er ólíklegt að þeir elstu í greininni, til dæmis frændurnir Siggi í Bæ og Jón í Sjólyst, þekki botnlagið við Vestmannaeyjar betur en stofugólfið heima hjá sér.
Ási í Bæ sagði eitt sinn að hafið væri slíkt undur í fjölbreytni að ekki væri hægt um það að yrkja.
Það mætti segja að tungumál trillukarlsins sé tvenns konar, annars vegar önnur útfærsla á íslensku en gerist í saumaklúbbum og kristilegum söfnuðum og hins vegar áunnir hæfileikar til að skilja þær víddir sem felast í sjósókn á opnum báti er lærist í kröppum dansi við hafið eða lognkyrran sæ, í óráðnum gátum náttúrunnar frá degi til dags, alls konar brasi og þrældómi, gleðistundum og vonbrigðum, en umfram allt siglir hver sinn sjó.
Ekki skal draga í efa að aðrir sjómenn hafa margir hverjir numið sitt tungumál í ölduróti stórra sjóa og lygnra daga.
Á unglingsárum mínum og annarra drengja í Vestmannaeyjum voru bryggjurnar, bátarnir og hafið hámark tilverunnar. Yfirleitt vorum við mættir á bryggjurnar er bátarnir komu úr róðrum og við áttum okkar uppáhaldssjómenn, einkum þá er ekkert höfðu fyrir því að kasta golþorskum upp á bryggjurnar án þess að blása úr nös. Og svo voru það bitakassarnir sem vöktu áhuga. Það kom ekki svo ósjaldan fyrir að tvísótt væri á vertíð og þá þurfti að sækja nesti, allavega handa sumum og vorum við peyjarnir nokkuð glöggir á hverjir af sjómönnunum væru mest þurfandi fyrir aukabita. Mörg heit pönnukakan rann ljúflega niður um kverkar hungraðra snáða og annað góðgæti hjá margri sjómannskonunni í þessum sendiferðum.
Á þessum árum mótuðumst við peyjarnir til framtíðar og urðum flestir sjóblandaðir. Á haustin lágu bátarnir við festar og voru lítt hreyfðir, og þá færðist doði yfir allt athafnalíf. Fuglinn farinn til hafs og fjarlægari landa og fjöllin eins og þau svæfu og vöknuðu ekki fyrr en með komu fuglsins að vori. Þá vakna líka veiðimenn sem bíða ferðalanga háloftanna er senn lækka flugið og tylla sér á eyjar og sker.
Ætli ég hafi ekki verið tíu ára eins og nafni minn á Bergsstöðum er við ákváðum að hætta línu- og netalögnum á túninu í Vatnsdal og snúa okkur að alvörunni. Við komumst yfir línustubb, belgi og bólfæri, auk tveggja netasteina og beittum stubbinn niðri á pöllum hjá frænda mínum. Ryðgaðan lagningskall fundum við bakatil við Boston að mig minnir. Svo var það að komast yfir bát, en það var þrautin þyngri. Bátarnir í hrófunum voru allir læstir saman með keðjum, en í Austurslippnum lá gamall bátur með árum, lauslega bundinn. Biðum við færis í hádeginu og rerum austur að Bæjarbryggju, drifum veiðarfærin um borð og rerum svo lífróður út fyrir hafnargarða. En þá var líka þrekið búið og við lögðum bara línuna þarna, af kunnáttu, að okkur fannst, utan þar að lagningskallinn hvarf út fyrir borðstokkinn og seinna bólfærið varð eftir í bátnum. Og svo var farið að draga. Spriklandi fiskur var á, allt frá marhnútum upp í feita stútunga og krókarnir festust í peysunni minni, enginn hnífur — og svo var þetta búið.
Sælir peyjar dóluðu svo í land með afla eins og hinir, en gamanið fór að kárna er nær dró. Pabbi var á bryggjunni og Gunnar Marel sem átti bátinn, en skammirnar urðu í lágmarki. Aftur á móti þótti tíðindum sæta að falleg rauðspretta, stútungur og allt upp í þorsk fyrirfyndist í hafnarkjaftinum við Vestmannaeyjar.
Þetta atvik held ég að hafi orðið kveikjan að því að aldrei rann af peyjanum sem enn í dag er uppfullur af veiðimennsku.
Það mun hafa verið árið 1956 að ég eignaðist minn fyrsta trillubát ásamt Guðjóni gamla á Heiði. Ég bjó þá á efstu hæðinni hjá honum. Þá var hann kominn á áttræðisaldurinn, hraustmenni hið mesta á yngri árum og enn mátti sjá í honum áræði og kraft. Báturinn var keyptur austan af fjörðum og bar nafnið Leifur heppni. Mér leist satt að segja ekkert á blikuna er hann var hífður upp úr Esjunni. Sjá mátti skýin í gegnum botninn. Hann þéttir sig svaraði Guðjón, er ég hafði orð á þessu. Skelltu þér bara um borð og svo var hann látinn síga í sjó. Austurinn tók sólarhring áður en hann þétti sig. Leifur heppni var með færeysku lagi, tvær brúttólestir, með bensínvél sem var mesti gallagripur. Við áttum þennan bát í nokkur ár og gekk svona á ýmsu. Báturinn var lekur og fór mikill tími í að þétta hann með tjöru og blýlöppum, jafnframt reynt að hressa upp á vélina. Og svo var auðvitað róið þess á milli. En þrátt fyrir allt var þetta ánægjulegt bras.
Svo var það einn daginn að Guðjón sagði mér hátíðlega að hann væri búinn að panta nýjan bát frá Siglufirði og fól mér að huga að vél. Það kom aldrei annað til greina en að kaupa dísilvél. Við vorum sammála um að ekki væri burðugt að vera með bensínvél í opnum báti ef halda ætti í líftóruna. Dísilvél var keypt og sett í bátinn hér í Eyjum og reyndist bæði bátur og vél framúrskarandi vel.
En fjárlagadæmið, eins og fínt er að nefna það fyrirbrigði nú á tímum, var okkur ofviða og því var Leifur heppni auglýstur til sölu. Þó ríkti ekki bjartsýni um að það tækist, en annað kom á daginn og magnað var það augnablik er þau kaup voru gerð. Eldri sjómaður vildi kaupa og var honum boðið til kaffidrykkju í stofunni hjá Guðjóni. Ekki man ég hve upphæðin var há. Kaffið var sötrað í rólegheitum og spjallað um heima og geima, en ekki minnst einu orði á kaupin. Þetta var ekki beint álitlegt, nýbúnir að láta skvera vélina sem kostaði sitt. Og svo, eins og hendi væri veifað, þá er þagnað og tilvonandi kaupandi dregur gætilega upp úr vasanum splunkunýja seðla og byrjar að telja um leið og hann leggur þá nánast blíðlega á borðbrúnina. Þegar hann er kominn í helming upphæðarinnar hægir hann talninguna og hættir, lítur upp og spyr: „Hefur vélin ekki verið að bila?“ Guðjón lítur á mig. Svo að ég verð að svara: „Hún er nýskveruð.“ Loks lagðist síðasti hundraðkallinn á borðbrúnina og kaupin voru gerð.
Nú fóru í hönd skemmtilegir tímar með Guðjóni gamla á Heiði. Róið til fiskjar, Bjarnareyjarstúss og þar fram eftir götunum, en róðrum mínum fækkar og svo flosnaði ég upp úr þessu og varð jarðbundinn um tíma. Svo kom að því að mér áskotnaðist bátur sem raunar var í lamasessi og gerði ég hann upp á löngum tíma. Þessi bátur hét áður Þórdís og átti Friðgeir í Bragganum hann og farnaðist vel. Þá fékk báturinn nafnið Katrín og eigendur hans þá Sigfús Johnsen og Sigurgeir í Þorlaugargerði. Hófst ég handa í kjallaranum á Vöruhúsinu að gera hann upp, en bráðvantaði 12" borð á byrðinginn. Það fékkst hvergi nokkurs staðar. En dag einn, er ég var staddur uppi í Helgafellsgryfju, þá er verið að losa þar úr vörubíl allskonar drasl og þar á meðal þetta glæsilega hjónarúm, akkúrat það sem mig vantaði, 12" í hliðunum.
Eggert í Austurslippnum var svolítið glettinn til augnanna þegar að hann var að sníða og hefla hvítmáluðu borðin sem fóru síðan í stjórnborðssíðu bátsins. Þá var eftir að redda vél og fékk ég hjá kunningja mínum Mersedes Benz dísilvél úr fólksbifreið. Þessa vél setti ég í bátinn með mestu leynd vegna þess að bílgírinn skyldi líka í bátinn og ekki æskilegt til frásagnar. Og svo var skrúfuöxullinn og skrúfan, sem fyrir var, látið duga og tengt, síðan sett á flot, en beðið með að prufa græjurnar þar til að bryggju og bátaunnendur voru komnir í háttinn. Þriðji gírinn hentaði og þurfti ekki einu sinni að stíga á kúplinguna til að skipta og náði hann 8 mílna hraða. Báturinn fékk nafnið Klakkur og fór sérlega vel í sjó einkum í hliðarskellu og lensi.
Það hefur verið sagt að milli manns, hests og hunds liggi leyniþráður. Ég vil líka heimfæra þetta upp á vin minn Klakk. Eitt sinn var ég á leið í Suðursjóinn. Er kom að Suðurey stoppaði vélin og fékk ég hana ekki í gang, en fæ þá hugdettu að renna færi, og viti menn: sá guli er á og ég rek að Hellisey og kominn með um tonn er undan tók. Þá var að huga að vélinni, en hún rauk umsvifalaust í gang við fyrsta start. Það má vel vera að á þessu megi finna skýringu, en trillukarlinn hefur sína skoðun og hún er ævinlega rétt. Þrátt fyrir góðan vilja til að fá að plægja sjóinn áfram varð vinur minn þreyttur og fúinn, gafst loks upp og var tekinn á land til langframa.
En karlinn var ekki á því að leggja árar í bát og skellti sér, þrátt fyrir blankheit, í að kaupa bát úr trefjaplasti. Honum var truttað inn í bílskúrinn og yfir honum legið dag og nótt. Sveinn á Smurstöðinni reddaði þessu öllu, en varð samt ekki ríkur af.
Svo var það einn daginn að Doddi í Skipaskoðuninni hringir og spyr hvort báturinn sé kominn á flot. Ég kvað nei við og vildi hann þá að ég kæmi til hans, sem ég og gerði. Er vélin komin í bátinn? spyr hann. Ja, eiginlega, svaraði ég. Heyrðu mig Óli minn, annaðhvort er vélin komin í eða ekki, þú verður að borga andvirði vélarinnar allrar á morgun og færð engan afslátt. Þú hafðir þrjá mánuði til að ganga frá þessu! Ég tók mig á. Vélin var komin í, en smávegis eftir að græja. Jæja þá, sagði Doddi kíminn. Og hvað heitir báturinn? Ég er ekki búinn að ákveða það, svaraði ég. Doddi lítur af pappírunum og segir ósköp ísmeygilega: „Þeir vilja hafa nöfn á bátum þarna fyrir sunnan.“ Þá datt mér í hug nafnið Einfari. „Jæja,“ sagði Doddi bara og byrjar að skrifa og bætir við. „Mig skal ekki undra það.“
Einfarinn hefur reynst afburðavel í glímunni við sjólagið á Eyjamiðum í kompaníi með öðrum trillum og körlum sem geta kúplað úr bölvi og ragni yfir í léttan húmor. Einna helst er á bjátar og karlinn á það til að láta reka upp við einhverja úteyjuna og halda súpufund með fuglum.
Lúðulína er í miklu uppáhaldi, en Einfarinn orðinn hálfvondaufur um að fá ofan í sig fleiri lúður utan þessi tvö skipti í fyrra. Og er þá ekki rétt að bjóða lesendum með í þessa tvo róðra, þegar Einfarinn varð sem kátastur.
Veðurguðirnir voru í sérlega góðu skapi þennan dag og helltu geislum sólar niður á bæjarbúa. Hafið spegilslétt og fuglinn svo latur að hann nennti ekki að fljúga. Í stað þess að slá blettinn eða reyta arfa sit ég á lunningunni og beiti lúðulínu. Aðdragandinn er að tvær lúðusprökur fundu þörf hjá sér til að glefsa í færakróka, urðu fastar og dregnar um borð í Einfarann. Þá var ákveðið að beita lúðulínu í einum grænum þar sem líklegt væri að í undirdjúpinu fyrirfyndust fleiri. En það er tafsamt að beita. Túristar víða að úr heiminum lulla um bryggjurnar, taka myndir og svala forvitninni á ýmsa lund og allt í einu er ég orðinn áhugaverðari í þeirra augum en annað sem það kom til að skoða hér á norðurslóðum. Boldungskvenmaður í hópnum hefur upp röddina og baðar út öllum skönkum og bendir á mig þar sem ég sit í sakleysi mínu og handfjatla beituna. Frönskukunnátta mín og annarra trillukarla á eyju þessari í norðri er víst í lágmarki og var því ekkert annað að gera en að brosa til konunnar. Þá er kallað til mín úr hópnum: „Heyrðu, konan heldur því fram að þú sért að brjóta einhver hafréttar- eða hvalfriðunarlög.“ Þar með var mælirinn fullur, losað í skyndi og klárað að beita í Klettsvíkinni. Síðan haldið til hafs og lagt úr tveimur döllum. Ekki verður bleyðan gefin upp enda vísast að aðrir trillukarlar tækju slíkum yfirlýsingum með fyllstu varúð. Næsta dag er bræluskratti en á öðrum degi komið ágætisveður. Spáin er austan kaldi síðdegis og er ég því snemma kominn á bleyðuna, en það er kolfast í báða enda og er því ekkert annað að gera en bíða fallaskipta. Í þau eru þrjár klukkustundir. Kaffisopinn hressir, og Einfarinn vaggar lítillega og rekur undan straumi. Léttur vindsveipur hleypur eftir haffletinum, gárar hann lítið eitt og hverfur svo. Örlítil vísbending um að austanátt sé í aðsigi. Og fljótlega er hann kominn á áttina. Er því ekki eftir neinu að bíða að byrja að tosa í útendann. Enn er kolfast og áfram er reynt. Nú loks losnar úr festunni og færið dregið inn með hraði, stjórinn birtist, en verð að bæta við olíugjöfina og ná bátnum betur upp í, það slaknar á línuni, stjórinn inn fyrir og stórlúða komin upp að síðunni. Nú gerist margt í senn. Ég kem ífærunni í lúðuna og bátnum slær flötum. kaldaskratti er kominn og því ekki annað að gera en að skera á strengda línuna. Og þá er ná ferlíkinu inn. Ég tosa og tosa, spyrni í, en ekkert dugir. Loks festi ég lúðuna við borðstokkinn, kúpla að í skyndi og held heim á leið, en hægt miðar. Kominn er steytingur með tilheyrandi ágjöf og aldan kröpp. Lensidælan er sett á, vonandi skilar hún út því sem inn kemur. Lítið er hægt að keyra vegna lúðunnar er hangir við borðstokkinn, en það miðar og Einfarinn er nánast í einu sjókófi. Eftir þriggja stunda barning sem að öllu jöfnu tekur eina klukkustund er kúplað frá í Klettsvíkinni og þá fyrst er hægt að slappa af og fá sér heitan kaffisopa. Einfaranum er þakkað fyrir að hafa skilað okkur heim einn ganginn enn. Lúðan vigtaði 145 kg og hvíta hliðin öll blóðrisa og barin eftir barninginn við síðu bátsins.
Austanáttin varaði í þrjá daga og tíminn notaður til að huga að tækni og vísindum. Jói Bald var fenginn til að smíða hífigræjur ef ske kynni að fleiri stórlúður ættu eftir að yfirgefa hafdjúpið á krókum Einfarans.
Loks lygnir og enn er haldið af stað. Fýllinn eltir í von um lifrarbrodd er Einfarinn klýfur kyrran sjóinn til fundar við bauju sem vonandi er enn á sínum stað og drottning háloftanna stingur sér af og til. Jú, jú, þarna er hún framundan blessunin sú arna og báturinn rennir sér mjúklega upp að henni um leið hún er gripin nánast ástúðlega. Færinu skellt á spilið og nú gengur þetta vel, engin festa og líkur á að línan náist öll inn hvað sem öðru líður. Þá birtist stórlúða og ég sé aðra ámóta á þriðja krók. Báðar lúðurnar voru rólegar enda búnar að hanga lengi á krókunum. Þá fyrri batt ég við lunninguna og hina hífði ég inn á hífigræjunum og loks er endinn á línunni birtist lágu ellefu lúður á dekkinu. Heimferðin er hafin og Einfarinn er þó nokkuð siginn.