Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Sjóslysið 1. mars 1942

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson


Sjóslysið 1. mars 1942


Greinarhöfundur, G.Á.E. uppi á Helgafelli 8 ára gamall sumarið 1943.

„Þegar hendir sorg við sjóinn“
Vorið 1990 skrifaði ég grein í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, sem ég nefndi „Á bryggjunum heima“. Þar sagði ég fyrst og fremst frá hinni björtu hlið skemmtilegra æskuára á árunum 1940-1950, sem að vetrinum liðu við venjulega skólagöngu, bryggjuferðir og snatt við höfnina.

Í þessu rabbi minntist ég ekki á aðrar og dekkri hliðar á lífinu og lífsbaráttu hinna fullorðnu - hin tíðu sjóslys þessara ára, sem hafa alltaf fylgt harðri sjósókn við Íslandsstrendur.

Allir bæjarbúar voru og eru á stað sem Vestmannaeyjum beint og óbeint þátttakendur í sjósókninni og vertíðarlífinu. Allt snýst í kringum sjóinn. Lífið í bænum slær í takt við aflabrögðin og hvernig gengur á sjónum. Þar eru orð skáldsins Jóns Magnússonar í sálminum víðkunna - „Líknargjafinn þjáðra þjóða“ - sannari en víðast hvar annars staðar á Íslandi:

Föðurland vort hálft er hafið
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Yfir logn og banabylgju
bjarmi skín af Drottins náð.
Föðurland vort hálft er hafið,
hetjulífi og dauða skráð.

Þegar brotnar bylgjan þunga,
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll,
vertu ljós og leiðarstjarna,
lægðu storm og boðaföll,
líknargjafinn þjáðra þjóða,
þegar lokast sundin öll.

Allt þetta kom fram í hugann, þegar einn jafnaldra minna sagði er við rifjuðum upp minningar frá Eyjum: „Í upphafi hverrar vertíðar bað maður til Guðs um að ekki yrðu sjóslys“.
Ég kannast vel við þetta. Sjómannsbörn og sjómannskonur hafa beðið fyrir ástvinum sínum á hverri tíð. Dæmin um hörmuleg sjóslys á síðastliðnu hausti og liðinni vetrarvertíð sýna, að þrátt fyrir aukna tækni, menntun og betur búin skip verða enn slys til sjós og skip farast.
Frá æskuárum í Vestmannaeyjum fara mér aldrei úr minni sjóslysin, sem urðu 1. mars 1942, 12. febrúar 1944 og 7. janúar 1950, þegar m/s „Helgi“ fórst við Faxasker og tveir skipverjar komust lífs af upp í skerið en króknuðu þar úr kulda og vosbúð.
Hér verður nánar greint frá sjóslysum Vestmannaeyjabáta sunnudaginn 1. mars 1942. Það var mesta sjóslys í Vestmannaeyjum síðan 1918 eða í 24 ár, en þá fórust í sama veðrinu tveir bátar „Adolf“ og „Frí“ með 9 mönnum. Það slys var einnig á sunnudegi.
Á þessu 24 ára tímabili (1918-1942) fórust samtals 20 vélbátar frá Vestmannaeyjum; margir í ofviðrum með allri áhöfn, en aðrir strönduðu eða sukku vegna leka og einn bátur fórst vegna eldsvoða í rúmsjó. Með þessum vélbátum drukknuðu 36 sjómenn; sjö bátanna fórust með allri áhöfn, af tveimur bjargaðist hluti áhafnar, en mannbjörg varð af ellefu. Sjósóknin og Ægir konungur kröfðust mikilla fórna á þessum árum. Segja má að í Vestmannaeyjum hafi á fyrstu áratugum aldarinnar farist bátur á hverri vetrarvertíð og margir með allri áhöfn. Björgunar- og varðskipið „Þór“, sem kom til Vestmannaeyja árið 1920 og fleiri íslensk varðskip eftir 1926, björguðu þó mörgum bátum og mannslífum.
Þorsteinn Jónsson í Laufási flutti ræðu á sjómannadeginum í Vestmannaeyjum vorið 1942. Hann minntist þeirra sem fórust 1. mars þá um veturinn og róðra á sunnudögum, er voru aflagðir á línuvertíð nokkru eftir þetta slys. Um sjóslysin sagði Þorsteinn: „Af þeim um 30 bátum, sem í ofviðrum hafa týnst síðan er vélbátaútvegur hófst hér fyrir 36 árum hefir að minnsta kosti þriðji hver bátur farist úr helgidagsróðri.“

Skólafélagarnir og vinir, Helgi Magnússon smiður t.v., greinarhöfundur G.Á.E. t.v.

Mannskaðaveðrið 1. mars 1942
Sunnudaginn 1. mars 1942 gerði aftaka austan veður og snjóbyl í Vestmannaeyjum og á fiskimiðum hér sunnanlands. Upp úr miðnætti, þegar veðrið var sem harðast, vissi enginn um afdrif fimm Eyjabáta, sem höfðu farið í róður aðfaranótt þessa sunnudags. Það var ekki fyrr en kom fram á miðjan næsta dag, mánudaginn 2. mars, og miklu fárviðri af suðaustri hafði slotað, að tveir bátanna náðu höfn og frekari fréttir bárust. Allan þann dag hélt samt áfram leit að einum bátnum og bæjarbúar biðu milli vonar og ótta um afdrif þeirra sem voru ókomnir að landi.
Bátarnir, sem saknað var að kvöldi 1. mars, voru: „Þuríður formaður“ VE 233 og „Ófeigur“ VE 217, sem fórust með allri áhöfn, samtals 9 mönnum, „Aldan“ VE 25, sem var siglt á land við Grindavík, „Freyja“ VE 260 og „Frigg“ VE 316, sem komu til hafnar á mánudeginum.
„Freyja“ hafði verið með „Öldu“ í togi frá miðjum degi, sunnudaginn 1. mars, og fram á kvöldið, er dráttartaugin slitnaði og „Alda“ hvarf út í stórsjó og myrkur.
Um miðjan dag, 1. mars, fórst „Bliki“ VE 143, 22 tonna bátur, þegar skyndilegur og óstöðvandi leki kom að bátnum og bjargaðist áhöfnin naumlega um borð í „Gissur hvíta“ VE 5. Í þá daga voru bátarnir ekki búnir björgunartækjum eins og gúmmíbjörgunarbát, en það varð skipverjum á „Blika“ til lífs, að þeir vissu í hvaða stefnu „Gissur hvíti“ var og fundu hann þrátt fyrir blindbyl og dimmviðri, og mátti ekki tæpara standa.
Mannskaðaveðrinu og aðdraganda þess er svo lýst í Vestmannaeyjablaðinu Víði (XII. árg, 3.tbl. 18. mars 1942):
„Sunnudagurinn 1. mars 1942 mun Vestmannaeyingum lengi í minni. Aðfaranótt dagsins var sæmilega gott veður og fóru nærri þrjátíu línubátar í fiskiróður. Um dagmálaleytið var kominn stinningsvindur og kafaldsfjúk, sem skyndilega breyttist í stórviðri og allmikið snjóveður. Fram eftir deginum var háaustanvindur og harðviðri, en gekk nokkuð suðlægari er leið á daginn. Þegar leið að rökkri fóru bátarnir að koma, einn og einn.“
Í Tímanum birtist 3. mars 1942 eftirfarandi lýsing á ofviðrinu hinn 1. mars:
„Á sunnudagsmorguninn var veður allsæmilegt í Eyjum og reru því flestir fiskibátarnir þaðan. En þegar kom fram á daginn, gerði afspyrnuveður með mikilli fannkyngi og stórsjó..“
Mér er minnisstætt, að um dimmumótin sunnudaginn 1. mars, böksuðu sjö bátar í röð fyrir Klettinn og austur Flóann. Fremstur fór Tanga-Ingólfur þá Pip, Herjólfur og Emma, sem faðir minn, Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum, en einnig oft kenndur við fæðingarstað sinn Búastaði, var skipstjóri með. Fylgdumst við eins og svo oft, jafnt á blíðum sumardegi sem í vetrarhreti, með siglingu bátanna frá hlaðinu á Búastöðum, en þaðan blasti við innsiglingin, Víkin og Flóinn.
Margir bátar komust ekki til hafnar áður en myrkur skall á og vantaði þá meira en helming þeirra, sem reru um nóttina eða 15 báta, „á þeim tíma, sem bátar áttu almennt að vera komnir úr róðri“ segir í Morgunblaðinu þriðjudaginn 3. mars 1942.

Frigg VE 316
Freyja VE 260

Bátarnir voru að tínast til hafnar fram undir miðnætti. Þá vantaði enn þá fimm báta, sem hér hafa verið taldir og vissi enginn um afdrif þeirra. „Frigg“ kom að landi rétt fyrir hádegi á mánudeginum og nokkru síðar kom „Freyja“. Bræðurnir Oddur Sigurðsson í Dal og Ólafur Sigurðsson, sem kenndir voru við Skuld, fæðingarstað þeirra bræðra, voru skipstjórar með sitt hvorn bátinn; Oddur með „Frigg“ en Ólafur með „Freyju“.
„Frigg“ VE 316 var 21 brúttórúmlest, byggð úr eik í Svíþjóð árið 1934 með 60-64 ha. June Munktell vél, árg. 1934.
„Freyja“ VE 260 var 14,5 br.l., byggð úr furu í Noregi með 60 ha. Wichmannvél. Báðir bátarnir voru í eigu Einars Sigurðssonar, sem hafði í árslok 1940 keypt eignir kaupfélagsins Fram og stofnað Hraðfrystistöð Vestmannaeyja.
Frá þessu segir í frétt frá Vestmannaeyjum hinn 2. mars, sem birtist í Alþýðublaðinu hinn 3. mars 1942: „Þegar vélbáturinn „Freyja“ komst til hafnar í dag skýrðu skipverjar svo frá, að „Aldan“ hefði verið með bilaða vél í gær og hafði „Freyja“ tekið hana í slef og verið með hana „í slefi“ í 4 tíma, en klukkan 10 í gærkveldi slitnaði taugin og týndist „Aldan“ út í náttmyrkrið og ofviðrið...“

Sjóslysin snertu hvert mannsbarn í bænum
Þeir voru góðir vinir og höfðu verið skipsfélagar, Þórður Þórðarson á Sléttabóli við Skólaveg og pabbi. Þórður fórst í þessu veðri með „Ófeigi“, sem hann var formaður með.
Sunnudaginn fyrir slysið hafði ég farið í heimsókn að Sléttabóli með pabba. Ég man hvað mér var vel tekið, en við Ási, yngri sonur Þórðar vorum nærri jafnaldrar og saman í 1. bekk Barnaskólans.
Aldrei gleymi ég hvað við skólasystkinin fundum til með Ása fyrstu dagana eftir slysið, þegar bátarnir voru taldir af. Við fundum svo mörg okkar, að við hefðum vel getað verið í sporum hans. Nálægð þessara atburða hafði mikil áhrif á mig.
Þegar 50 ár voru liðin frá þessum atburði fannst mér tilhlýða að rifja upp þessa löngu liðnu tíð og geyma minningu og mynd þeirra sem fórust í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Þó að langt sé um liðið þá eru þessir dagar ferskir í minningunni.

Hrakningar "Ægis" GK 8
Það var mikið skrifað í blöð þessa tíma um sjóslysin. Bátar frá Suðurnesjum lentu eins og Vestmannaeyjabátar í miklum hrakningum í þessu aftakaveðri og vélbátsins „Ægis“ GK 8 frá Keflavík var saknað.
Það lýsir vel breyttum aðstæðum, að „Ægir“ var hjálparlaus á reki um Faxaflóa í nærri tvo og hálfan sólarhring, frá því skyndilegur og mikill leki kom að bátnum laust fyrir hádegi sunnudaginn 1. mars og til miðnættis þriðjudaginn 3. mars, þegar togarinn „Óli Garða“ fann „Ægi“, 35 sjómílur norðvestur af Malarrifi á Snæfellsnesi.
„Ægir“ hafði „ slegið úr sér “ í sláttinn (tróðið eða „kalfattið“) og eftir það urðu skipverjar að standa í stöðugum austri til þess að halda bátnum á floti. Þriðjudaginn 3. mars minnkaði lekinn þó skyndilega svo að skipverjar „unnu á og gátu að mestu tæmt bátinn“. Þeir komu vélinni í gang, en þorðu þó ekki að keyra í stefnu til lands við ótta við að lekinn myndi aukast við siglinguna. Það var ekki fyrr en um 10 leytið þriðjudagskvöldið 3. mars, þegar skipverjar á „Ægi“ voru að verða úrkula vonar um að þeir myndu finnast, þar eð veður var gott allan þann dag og skyggni ágætt, að þeir fóru að keyra á hægustu ferð til lands. „Og áttum við satt að segja von á, að flugvél myndi send til að svipast eftir okkur“!, sagði skipstjórinn á „Ægi“ í allri sinni hógværð í blaðaviðtali við Morgunblaðið næsta kvöld, hinn 4. mars (Mbl. 5. mars 1942).
„Óli Garða“ dró „Ægi“ inn til Akraness, þar sem fánar voru dregnir að hún til þess að fagna giftusamlegri björgun bátsins.

Ægir GK 8


„Ægir“ GK 8 var 22 brl., smíðaður úr eik í Friðrikssundi í Danmörku árið 1934 með 84-96 ha. Tuxhamvél, árg. 1934.
Það sem bjargaði skipverjum á „Ægi“ , auk óbilandi þreks og kjarks áhafnarinnar, var að þeir áttu vararafhlöður fyrir talstöðina, þegar aðalrafhlöðurnar urðu óvirkar vegna sjóbleytu og heyrðist veikt neyðarkall frá bátnum.
Skipstjórinn á „Ægi“, Marteinn Helgason, sagði m.a. svo frá hrakningum þeirra í Mbl. hinn 5. mars: „Til þess að sjór ykist ekki í bátnum, urðum við að standa þrír við dekkdæluna, en tveir jusu með fötum. Þessum austri urðum við að halda áfram stöðugt til þess að báturinn fylltist ekki af sjó og sykki. Við skiptumst á að vera við dæluna, en gátum sama sem engu öðru sinnt, naumast matast og um hvíld var ekki að ræða.“

Alda VE 25.

Afdrif Vestmannaeyjabáta
„Bliki VE 143; 22 brl. smíðaður í Vestmanneyjum 1922 úr eik með 100 ha. June Munktel vél, árg. 1935 (Heimild: Sjómanna-almanak 1942); skipstjóri var Guðjón Þorkelsson frá Sandprýði, reyndur formaður, þá 34 ára gamall.
Morgunblaðið lýsti hinn 3. mars afdrifum „Blikans“: „Vjelbáturinn „Bliki“ frá Vestmannaeyjum sökk s.l. sunnudag, þar sem hann var að veiðum, um 25 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum. Áhöfnin bjargaðist með naumindum yfir í vjelbátinn „Gissur hvíta“, sem var þarna á líkum slóðum. Áhöfnin á „Blika“ var að draga línuna á sunnudag og slitnaði hún þá. Veður var þá orðið slæmt. Þegar línan slitnaði, ætlaði „Bliki“ að færa sig á annað ból, en á leiðinni reið slæmur sjór undir bátinn. Einn skipverja, sem var í hásetaklefa, er sjórinn reið undir skipið, kom hlaupandi upp á þilfar og skýrði frá því, að sjór fossaði inn í bátinn. Var vjelin þegar sett á fulla ferð og siglt að vjelbátnum „Gissuri hvíta“, sem var að veiðum þarna skammt frá.,
Stóð það á endum, að er „Bliki“ var kominn að „Gissuri hvíta“ stöðvaðist vjel hans og sökk báturinn skömmu seinna.

Ófeigur VE 217.

Einn skipverja af „Blika“ gat stokkið yfir í „Gissur hvíta“, en hinum fjórum var bjargað með bjargbeltum úr sjónum.“
Skipstjóri á „Gissuri hvíta“ var Alexander Gíslason frá Landamótum.
„Alda“ VE 25: 19 brl, smíðaður úr eik og furu á Fáskrúðsfirði árið 1935 með 50 ha. Skandia vél árg. 1935. Skipstjóri var Jónas Bjarnason. Föstudaginn 6. mars 1942 ritaði Morgunblaðið um hrakninga Öldunnar. Greinin heitir því undarlega nafni: „Æfintýri v.b. „Öldu“ frá Eyjum.“ Hér var þó ekki um nein ævintýri að ræða

Þuríður formaður VE 233 (áður Karl.)

heldur einstæðar mannraunir, en blaðið greinir svo frá:

„Einn af Vestmannaeyjabátunum, sem talið hefir verið að farist hefði í sunnudagsóveðrinu, „Alda“, er heil í fjörunni í Grindavík og ekki ólíklegt, að báturinn náist út. En skipverjarnir fimm, sem á bátnum voru lentu í hinum mestu ævintýrum og virðist sem einstök mildi hafi ráðið, að þeir komust heilir til lands.
Skipverjar halda - þora þó ekki að fullyrða það - að báturinn hafi farið heila veltu í sjónum. En það eru þeir vissir um, að veltan hafi verið það mikil, að möstrin hafi snúið niður, hvort sem báturinn hafi farið „hringinn“ eða ekki.
„Aldan“ lenti á eina staðnum, Hópinu, sem hugsanlegt var, að hægt væri að lenda í Grindavík án þess að brjóta bátinn. Hefði þá borið örlítið frá þeim stað, til austurs eða vesturs, þá var dauðinn vís.
Einn hásetanna á „Öldu“, Sigurjón Skaftason frá Vík í Mýrdal, skýrði Morgunblaðinu frá hinu æfintýralega ferðalagi þeirra fjelaga í gær. Frásögn hans er á þessa leið:

Teknir í eftirdrag
Það var um kl. 12-1 á sunnudag, að vjelin hætti að ganga hjá okkur. Vindur var mikill á suðaustan, eða beint á móti í stefnu til Eyja. Það var ekkert hægt að gera annað en láta reka. Um kl. 5 hittum við vjelbátinn „Freyju“ frá Vestmannaeyjum og var hægt að koma dráttartaug á milli bátanna. Freyja lagði nú af stað áleiðis til Eyja með okkur í eftirdragi. Gekk það svo í um þrjár klukkustundir, en þá slitnaði taugin á milli bátanna. Komið var myrkur og svo að segja ógerningur að koma taug aftur á milli bátanna enda hafði Freyja nóg með sig. Urðum við viðskila þarna. Alla nóttina var látið reka, en kl. 10 á mánudagsmorgun sáum við land og kendum að þar var Krísuvíkurbjarg.
Var þá reynt að setja upp segl til að freista þess að komast vestur fyrir Reykjanes því landtaka var ekki fýsileg að sjá á hvítfyssandi öldurótinu og briminu sem var við ströndina.

Veltan
Er við höfðum siglt dálitla stund, reið allt í einu sjór yfir bátinn. Velti sjórinn bátnum við og er okkur næst að halda að báturinn hafi farið heilan hring í sjónum. Ekki getum við samt fullyrt það, þar sem allt þetta skeði svo að segja í einu vetfangi.
Við vorum fjórir á þilfari er ólagið skall á okkur. Þegar báturinn rjetti sig aftur, voru þrír okkar á þilfarinu, en einn var utanborðs. Tókst að ná honum inn í bátinn.
Við veltuna slitnuðu niður öll segl á bátnum. Reyndum við nú að kasta út báðum akkerum en báturinn dró þau bæði. Jeg var þarna nokkuð kunnugur frá því ég var í Grindavík á vertíðinni í fyrra.
Vissi ég að einasta von okkar var Hópið, tvö sund vestan við Hópsnesvita, sem er rjett austan við Járngerðarstaðahverfið. Tókst okkur að hitta á þann stað og sigla bátnum svo að segja alveg upp í fjöruborð. Blotnuðum við ekki nema eins og upp í mitti við að komast í land.
Þar voru fyrir Grindvíkingar og tóku þeir okkur með dæmafárri gestrisni og höfðingsskap. Skorti ekkert á þær viðtökur.
Á næstunni mun verða reynt að ná „Öldu“ út. Er báturinn furðu lítið skemdur. Áhöfn Öldu bíður hjer skipsferðar til Eyja.
„Maður verður að reyna að fá sér pláss á öðrum bát“ sagði Sigurjón að lokum.“
Því má svo bæta við að „Aldan“ náðist giftursamlega út og var gerð út frá Vestmannaeyjum fram til ársins 1954, þegar hún var seld til Sandgerðis. Síðan fór báturinn til Vestfjarða og Raufarhafnar, þar sem hann hét „Vilborg“ ÞH 66. Hann var dæmdur ónýtur og tekinn af skipaskrá í árslok 1974.
Þuríður formaður VE 233 (áður Karl) 16 brl. smíðaður úr eik í Reykjavík árið 1920, með 30 ha. Alpha vél. Skipstjóri var Jón Sigurbjörnsson frá Ekru við Urðaveg í Vestmannaeyjum.
í Þórkötlustaðahverfi, sem er austast byggðarhverfa í Grindavík, rak síðari hluta mánudagsins 2. mars og næsta dag, hinn 3. mars, ýmislegt brak úr bátnum, t.d. fjöl merkt „Þuríður formaður“ og númeri bátsins, ennfremur brak úr byrðingi og þilfari. Var þá talið víst að báturinn hefði farist með allri áhöfn, samtals fimm mönnum, þarna skammt undan Grindavík.

Bliki VE 143
Gissur hvíti VE 5

Nokkru síðar rak lík Sigvalda Benjamínssonar, sem var háseti á „Þuríði formanni„.
Ófeigur VE 217: 12 rúmlestir brúttó, smíðaður úr eik í Reykjavík 1916, með 42-48 ha. Tuxhamvél, árg. 1932 (Sjóm. almanak 1942). Skipstjóri var Þórður Þórðarson frá Sléttabóli við Skólaveg í Vestmannaeyjum.
Síðast sást til Ófeigs frá varðbátnum Óðni klukkan 8 sunnudagskvöldið 1. mars. Ófeigur var þá staddur 5 sjómílur norðvestur af Þrídröngum og virtist allt vera í lagi um borð.
Aðfaranótt mánudagsins 2. mars og allan mánudaginn leituðu sjö togarar að „Ófeigi“. Þegar leit bar ekki árangur var á þriðjudeginum talin lítil von um að báturinn væri lengur ofansjávar og miðvikudaginn 4. mars var hann talinn af skv. frétt í Morgunblaðinu.
Álitið var að „Ófeigur“ hefði farist við Landeyjasand. Lík Þórðar Þórðarsonar skipstjóra á „Ófeigi“ og Guðmundar Karlssonar háseta frá Akranesi rak á Hólafjöru, austan Þjórsár, einnig rak þar „eitthvað smávegis úr báðum bátunum í námunda við líkin“ að sögn Vestmannaeyjablaðsins Víðis hinn 27. mars 1942.
„Það sannar að báðum („Ófeigi“ og Þuríði formanni“) hafa grunnföll orðið að grandi, sennilega næstu nótt eftir að þeir fóru að heiman“, skrifar Víðir í sama tölublað.
Utför þeirra Sigvalda og Þórðar fór fram frá Landakirkju hinn 21. mars og var þá einnig minningarathöfn um alla þá, sem fórust 1. mars. Verslunum í bænum var lokað á hádegi þennan dag „og sorgarfáni á hverri flaggstöng, bæði í landi og á bátaflotanum, sem nær allur lá kyr á höfninni“, ritar Víðir. Athöfnin var virðuleg og fjölmenn og mikill fjöldi fólks varð frá að hverfa, þó að stæði væru notuð auk sæta í Landakirkju.

Vetrarvertíðin 1942
Vetrarvertíðin 1942 var óvenju erfið og ógæfusöm, sérstaklega þó marsmánuður og segir Víðir svo frá hinn 27. mars 1942:
"Fyrstu sex daga mars var óslitið stórviðri. í tvo sólarhringa var vindhraðinn aldrei undir 11 stigum og hina dagana aðeins minni öðru hvoru. Varð því ekki á sjó komist.
Síðan kom 14 daga blíðviðri, almennt róið og aflaðist vel, eftir því, sem hér gerist, bæði á línu- og dragnótabáta.
Rétt eftir miðjan mánuðinn kom loðna hér inn á grunn. Varð þá línufiskur brellinn, svo nokkrir gripu til þorskanetanna. En lítið hefir aflast í þau. Eftir nokkurra daga landlegu er nú aftur byrjað að róa, en sjóveður óhagstætt.
Sveinn Guðmundsson á Arnarstapa var kunnur borgari í Vestmannaeyjum á sinni tíð. Dagblaðið Tíminn birti 14. apríl 1942 vertíðarfréttir eftir Sveini: „Sveinn Guðmundsson í Vestmannaeyjum var gestkomandi í bænum. Sagði hann Tímanum svo frá, að vetrarvertíð hefði verið með afbrigðum stopul fram að þessu í Eyjum, og eiginlega hefði verið mjög vindasamt síðan í fyrra sumar. Í marsmánuði mun aðeins hafa verið róið þrettán sinnum, þar með talinn slysaróðurinn mikli. Oft hefur verið róið í slæmu veðri í vetur. Botnvörpubátar, hinir aflahæstu, hafa fengið yfir 200 smálestir af fiski, það sem af er vertíðinni. Þetta verður í fyrsta skipti um langan aldur, sem enginn fiskur verður saltaður í Eyjum.“
Í yfirlitsgrein í Ægi, tímariti Fiskifélags íslands, um vetrarvertíðina 1942 segir svo um vertíðina í Vestmannaeyjum: „Að þessu sinni var vertíðin í Vestmannaeyjum óvenju gæftastirð. Kom varla sá dagur að heitið gæti gott sjóveður. Almennt byrjuðu róðrar þar í janúar og öndverðum febrúar. Þegar í byrjun vertíðar virtist vera talsverður fiskur fyrir og hélst svo alla vertíðina. Þegar litið er á veðurfarið aflaðist frekar vel, eftir því sem þar er venja, og munu ógæftirnar eingöngu eiga sinn þátt í því hve aflafengurinn var misjafn og rýr í heild....
Flestir stunduðu 92 bátar veiðar á vertíðinni það var í apríl. Eru þá trillubátarnir taldir með. Er það 9 bátum fleira en síðastliðið ár. Flestir voru farnir 70 róðrar að þessu sinni, en meðalróðrafjöldi mun vera 54. Er hæsti róðrafjöldi því 16 róðrum færri en í fyrra. -Veiðarfæratap var tiltölulega lítið, þegar litið er á hve stormasamt var.
Hæstur dagsafli á bát mun hafa verið um 2500 þorskar. Mestan heildarafla fram til 1. maí er vélbáturinn „Ísleifur“ VE 63 talinn hafa. Fór hann alls 70 róðra, er skiptast þannig eftir mánuðum; janúar 6, febrúar 22, mars 17, og 25 í apríl. Talið er að bátur þessi hafi aflað fyrir 140 þús. kr. auk lifrar, en lifrarfengur hans var 25.700 kg..... verður hásetahlutur á þessum bát um 6.300 kr. ... Meðalhlutur í Eyjum er talinn vera um 4.500 kr. Hér er alls staðar miðað við apríllok.“
Skipstjóri á „Ísleifi“ var Brynjólfur Brynjólfsson, Vesturvegi 34 og var hann 32 ára gamall. Þetta var önnur vertíð hans sem formanns.

Þeir sem fórust í mannskaðaveðrinu 1. mars 1942.

Með "Ófeigi" fórust:

Þórður Þórðarson skipstjóri, 49 ára, Sléttabóli Skólavegi 31 Vestmannaeyjum, fæddur í Hörglandshreppi V-Skaftafellssýslu 12. janúar 1893. Hann var kvæntur Guðfinnu Stefánsdóttur og eignuðust þau 6 börn, hið yngsta var 7 ára, þegar Þórður drukknaði.


Jón Auðunsson vélstjóri, 30 ára, Efra-Hóli Vestur-Eyjafjöllum, fæddur að Efra Hóli 14. apríl 1911, ókvæntur og barnlaus. Hann var á sumrin við búskap aldraðra foreldra, en reri á vetrarvertíðum í Vestmannaeyjum.


Gísli Svavar Jónsson háseti, 19 ára, Engey við Faxastíg í Vestmannaeyjum, fæddur í Vestmanneyjum 21. september 1922, ókvæntur og barnlaus og dvaldi í foreldrahúsum.


Guðmnndur Karlsson háseti, 16 ára, Völlum Akranesi, fæddur í Reykjavík 23. mars 1925. Hann átti heimili hjá fósturforeldrum, en faðir hans Karl Jónas Þórðarson skipstjóri drukknaði með m/b „Þengli“ 7. febrúar 1939.


Myndir af bátunum eru úr myndasafni Jóns Björnssonar frá Bólstaðarhlíð, nema af Þuríði formanni og Ófeigi svo og mannamyndir, sem Helgi Hauksson lánaði, en hann hefur endurútgefið Virkið í norðri eftir Gunnar M. Magnússon. Með miklum myndarbrag. Við ritun æviágrips þeirra sem fórust er stuðst við heimildir í þeirri bók.

Með „Þuríði formanni“ fórust:

Jón Sigurbjörnsson skipstjóri, 34 ára, Ekru, Urðavegi 20 Vestmannaeyjum, fæddur í Vestmannaeyjum 28. mars 1907. Hann var kvæntur Maríu Kristjánsdóttur frá Stöðvarfirði og áttu þau 11 ára gamla dóttur.
Gunnlaugur Þ.V. Helgason vélstjóri, 28 ára, Vopnafirði, fæddur í N-Múlasýslu 30 desember 1913. Gunnlaugur hafði stundað sjóinn á hverri vertíð í Vestmannaeyjum frá 1932. Unnusta hans var Halldóra Jósepsdóttir, ættuð úr Dalasýslu. Þau áttu eina dóttur, sem var á öðru árinu, þegar faðir hennar fórst.
Halldór Halldórsson háseti, 36 ára, Björgvin, Sjómannasundi 3 Vestmannaeyjum, fæddur í Hull í Englandi 1905, þar sem foreldrar hans bjuggu um tíma. Hann fluttist ársgamall með foreldrum sínum til Íslands; ókvæntur og var fyrirvinna aldraðrar móður sinnar, Önnu Sveinsdóttur. Anna var ekkja. sem missti eiginmann sinn og báða syni í sjóinn með stuttu millibili.
Sigvaldi Benjamínsson háseti, 61 árs, Hjálmholti, Urðavegi 34 Vestmannaeyjum, fæddur 12. apríl 1878 í S-Múlasýslu. Fluttist upp úr aldamótum til Vestmannaeyja og stundaði þar sjómennsku til dauðadags, lengst af formaður eða allt til 1930, þegar hann hætti formennsku, en hélt þó áfram að stunda sjóinn. Hann var kvæntur Sigurlaugu Ágústínu Þorsteinsdóttur og áttu þau tvær uppkomnar dætur.


Þorgeir Eiríksson háseti, 55 ára, Skólavegi 33 Vestmannaeyjum, bjó áður í Skel við Formannasund og var iðulega kenndur við það hús. Þorgeir var fæddur 8. ágúst 1886 að Berjanesi Austur-Eyjafjöllum; flutti til Vestmannaeyja árið 1913 og var þar sjómaður. Hann kvæntist Ingveldi Þórarinsdóttur og áttu þau saman þrjú börn, tvö þeirra voru á lífi, þegar Þorgeir fórst. Sonur þeirra er Guðfinnur, lengi skipstjóri í Vestmannaeyjum. Með Unu Jónsdóttur skáldkonu frá Dölum átti Þorgeir áður þrjár dætur, sem dóu ungar.



Guðjón Ármann Eyjólfsson