Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1971/ Þegar Ari VE 235 fórst 24. janúar 1930

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jón Sigurðsson


Þegar m/b Ari VE 235 fórst 24. janúar 1930.


FYRIR og eftir síðustu aldamót bjuggu í Sjávargötu á Eyrarbakka hjónin Jónína Þórðardóttir og Gísli Karelsson. Þau áttu mörg börn og voru mjög fátæk, eins og margt fólk á þeim tímum. Gísli stundaði alltaf sjó, ýmist á skútum eða frá Stokkseyri.
Nú var elzti sonur hans orðinn 13 ára; hann hét Matthías. Gísli fór fyrst með Matthías á kútter Björn Ólafsson. Skipstjóri var Pétur Mikael. Þetta var sumarið 1907. Fljótt var Matthías fiskinn og líflegur við færið. Hann dró því mikinn fisk þennan vetur. En 1908 er Matthías beitingamaður hjá Ingvari Karelssyni föðurbróður sínum á Stokkseyri, og er þá Gísli, faðir Matthíasar, háseti hjá Ingvari. En þá sömu vertíð fórst Ingvar með allri sinni skipshöfn, að undanskildum einum manni sem bjargaðist. Hann hét Brynjólfur Magnússon frá Bár í Flóa. Þetta skeði á Stokkseyrarsundi, og var Matthías áhorfandi að þessu slysi.

Jón Sigurðsson
Ari VE 235.

Næstu vertíð fer Matthías suður til Reykjavíkur og ræður sig á skútu. Þá er hann orðinn 14 ára. Fyrsti maður, sem Matthías hittir, var Pétur Mikael skipstjóri. Pétur ávarpar Matthías og segir: - Hvað ert þú að fara, drengur minn? - Ég er að ráða mig til sjós, svarar Matthías. - Það var gott, segir Pétur, þú verður með mér. Matthías segir við Pétur: Mig vantar peninga. - Við skulum ganga niður á kontór á morgun og sjá hvað ég get gert fyrir þig, svarar Pétur. Daginn eftir fer Pétur með Matthías í skrifstofu skipsins: - Hér er ég kominn með háseta, sem ég er búinn að ráða, en hann þarf að fá peninga, segir Pétur skipstjóri. - Hvað þarft þú að fá mikið? spyrja skrifstofumennirnir. - 200 krónur, svarar Matthías. Þá segja þeir, að það sé allt of mikið, því að þessi drengur hafi ekki að draga fyrir því, þó hann verði allt úthaldið. Pétur skipstjóri segir: Látið þið drenginn hafa þetta. Ég skal borga, ef hann hefur ekki að draga fyrir þessu, og fékk hann peningana. Að vetrarvertíð lokinni kom í ljós, að Matthías hafði dregið fyrir 400 krónur. Þá var Pétur skipstjóri á skútu sem hét Anna Breiðfjörð. Eftir þetta úthald var skipið smíðað upp og skírt Valtýr og hét svo til æviloka. Var Pétur jafnframt skipstjóri þar til yfir lauk.

Matthías Gíslason formaðu á Ara.

Matthías var á Valtý mörg úthöld og var orðinn með allra beztu færamönnum. Hann hélt til í lúkar skipsins eins og aðrir hásetar. Það var eitt vor að þeir voru á leið inn Faxaflóa úr síðasta túr. Matthías leggur sig til svefns. Þá dreymir hann, að hann sé kominn aftur á hekk á Valtý. Sér hann þá, að þar liggja 28 jakkar, eins og hásetar voru margir á Valtý og voru þeir allir sjóblautir. Hann fer að gá að sínum jakka og finnur hann. Hann er þá moldugur. Eftir þennan draum vaknar Matthías. Ekki líkaði honum draumurinn. Hann réð hann strax: bjóst við, að hann yrði fyrir i skipinu, því á því voru 28 menn. En jafnhliða taldi hann víst, að hann sjálfur færi ekki í sjóinn, þar sem hans jakki var moldugur.
Eftir þetta úthald fór Matthías af Valtý, en það var vorið 1915. Fór Matthías þá til Vestmannaeyja með sína ungu konu, sem var Þórunn Sveinsdóttir frá Eyrarbakka. Matthías var þá fulltíða maður, aðeins rúmlega tvítugur að aldri, fullur af lífsfjöri og áhuga, léttur í spori og vel á sig kominn á allan hátt.
Eftir að til Vestmannaeyja kom, stundaði Matthías sjóróðra á ýmsum bátum, þar til 1919, að hann tók við formennsku á mb. Heklu og var með hana eina vertíð. Þá kaupir Matthías mb. Unni frá Stokkseyri, ásamt bræðrum sínum þeim Ingibergi og Karel, og er með hana veturinn 1920. Eftir það hætti Matthías formennsku í bili.
Nú er það af Valtý að segja, að hann fórst vestur af Vestmannaeyjum með allri áhöfn veturinn 1920, 28 mönnum. Var þá draumur Matthíasar fram kominn. Matthías kaupir mb. Kristbjörgu VE 112, ásamt Þórði bróður sínum, haustið 1925. Hann var formaður með hana þrjár vertíðir, eða til loka 1928. Á þessum árum gerist Matthías ágætur aflamaður og sjósóknari. Veturinn 1929 er Matthías formaður með mb. Enok VE 248. Um lokin 1929 sagði Matthías upp formennsku á Enok og ræður sig sem stýrimann á mb. Ágústu vestur fyrir land. Formaður með hana var Þorvaldur Guðjónsson skipstjóri; á henni er Matthías út sumarið.
Eitt sinn er mb. Ágústa var á leið inn Grundarfjörð, sezt hrafn á mastrið á skipinu og gargar þar inn allan fjörð. Ekki líkaði skipverjum þetta og töldu, að þetta mundi vera fyrirboði að feigð bátsins. Þorvaldur tók til máls á þessa leið: Það er svo mikið víst, að ég og Ágústa erum ekki feig, en hvort einhverjir á skipinu eru það, veit ég ekki. Síðan fellur samtalið niður.
Um haustið hélt mb. Ágústa inn til Reykjavíkur til ýmissa útréttinga. Allir skipverjar fóru í land, þar á meðal Matthías. Þá er staddur í Reykjavík Ingibergur bróðir Matthíasar, og hittust þeir niður á hafnarbakka og taka tal saman. Matthías er með smálögg á pela og gefur bróður sínum bragð, og segir um leið: Eigum við ekki að fara til systur okkar (sem þá bjó uppi á Laufásvegi 20) og vita hvort hún á ekki kaffi að gefa okkur. Ingibergur samþykkir það, og ganga nú þeir bræður þangað. Systir þeirra býður þeim í stofu og setjast þeir. Síðan kemur systir þeirra með kaffi og lætur Matthías lítið eitt út í bollana til að hressa þá á. Fara þeir að spjalla saman um eitt og annað. Aðeins fundu þeir breytingu á sér, en var þó í hófi, því hvorugur þeirra var vínmaður. Matthías tók til máls og segir við Ingiberg: Ég ætla að biðja þig að fara varlega í vetur, því að þú drukknar. - Ég drukkna ekki, svarar Ingibergur - er það ekki bara þú sjálfur, sem drukknar, svarar Ingibergur. Þetta eru þeir að ræða góða stund. Ingibergur var þá orðinn formaður í Vestmannaeyjum. Síðan hætta þeir þessu samtali og ganga út.
Matthías var á Ágústu fram á haust, en Ingibergur fór til Vestmannaeyja. Er Ingibergur hafði verið heima í viku hittir hann Árna Sigfússon útgerðarmann á Strandvegi. Árni ávarpar Ingiberg og segir:
- Getur þú ekki úrvegað mér formann fyrir Ara í vetur?
- Það getur komið til mála, að ég geti það, svarar Ingibergur.
- Hver er hann? spyr Árni.
- Það er Matthías bróðir minn. — Það ei prýðilegt, svarar Árni.
- Það er ég mjög ánægður með, en hvernig á ég að ná tali af honum?
- Þú verður að senda honum skeyti og stíla það á mb. Ágústu.

Páll Gunnlaugsson.

Árni sendir skeytið og fær svar frá Matthíasi aftur, að hann gangi að því að taka að sér formennsku á Ara. Liggur nú ailt niðri í bili. Nú kemur Matthías til Vestmannaeyja, og er nú farið að standsetja fyrir komandi vertíð. Nú er kominn janúar, og er þá Ingibergur farinn að róa á Ásdísi. Hafði hann þá farið nokkra róðra. Þá hittir Ingibergur Matthías og spyt hann, hvort hann sé ekki nærri tilbúinn að róa. Matthías svarar, að það fari nú bráðum að verða. - Ég ætla að standsetja bátinn vel. Það verður þá ekki hægt að kenna því um, hvað sem fyrir kemur. Þá er komið annað hljóð í Matthías, og er hann heldur daufur í bragði.
Nú kom að því að Matthías fór að róa. Það varð að samkomulagi hjá þeim bræðrum, Ingibergi og Matthíasi, að þeir kölluðu hvor annan, eða sá sem vaknaði á undan. Nú er almennt farið að róa í Vestmannaeyjum, og er Matthías einn af þeim. Það var heldur tregur fiskur, en þó fiskaði Ari báta bezt þessa róðra, sem búið var að fara. Nú er kominn 23. janúar. Þá hittast þeir bræður enn, Ingibergur og Matthías, og taka þeir tal saman. Gengur tal þeirra oft út á sjósókn og aflabrögð. Ingibergur slær upp á því við Matthías, hvort það væri ekki rétt fyrir þá að róa vestur að Bankahryggjum næsta sjóveðursdag, því þar hafi þeir bátar, sem þangað fóru undanfarna daga, fiskað vel. Matthías tekur því vel, en segir um leið, að það sé sízt verra að vera þar en austur í sjó ef vont veður geri, svo þetta verður að fullu samkomulagi hjá þeim bræðrum.
Nú er kallað næstu nótt, og kallar Matthías Ingiberg. Er þá kominn 24. janúar. Ingibergur klæðir sig í flýti og fer niður að höfn, og er Matthías þá að keyra niður stömpunum. Matthías gengur sjálfur fyrir vagninum. Ingibergur þekkir hann ekki, en veit þó, að það er hann. Síðan fer Ingibergur að keyra sínum stömpum og heldur síðan út á Botn. Veðurútlit er mjög ljótt þessa nótt. Það sézt hvergi í loft, aðeins gíma á austurlofti. Síðan er blússið gefið, og allir halda út úr höfninni.

Baldvin Kristinsson vélamaður á Braga.

Ingibergur á Ásdísi heldur norður með Yztakletti, eins og um var talað daginn áður. Hann fór hægt, því hann býst við Ara á eftir. Hann lónar vestur með Eiði með hægri ferð. Ingibergur hugsar með sér: Það er bezt að skreppa niður í lúkar og fá sér kaffi, því það var orðið heitt á katlinum. Ingibergur setur einn háseta sinna að stýrinu og fer niður og hellir kaffi í fant. Er hann hefur lokið því, kemur einn hásetanna og kallar í Ingiberg og segir: Það er bátur að blússa austur við Lat. Hann er sjálfsagt stopp. Ingibergur fer upp úr lúkar í flýti. Honum dettur í hug, að þetta muni vera Ari og snýr við í skyndi. Þá er farið að kalda við ausnir. Ásdís heldur að hinum bilaða bát. Þá reynist það vera mb. Kári VE 123. Formaður á honum var þá Sigurður Þorsteinsson í Nýjabæ. Ásdísarmenn koma dráttartaug í Kára, og er síðan haldið af stað. Alltaf er storminn að þyngja. Þegar Ásdís er komin með Kára inn fyrir hafnargarða, var kominn stóra stormur. Ásdís fer með Kára upp að Bæjarbryggju að vestan, og þar er Kári bundinn vandlega. Ingibergur fer síðan með Asdísi út að bóli og leggur henni, og eru þeir svo góðan tíma að laga til, það sem aflaga hefur farið. Síðan fer Ingibergur í land á skjöktbátnum og upp í hróf. Þá hálffyllir bátinn Samt hafa þeir að setja hann upp í hróf. Alltaf er veðrið að versna. Hásetar Ingibergs ganga heim til sín, en Ingibergur fer austur á Skansinn. Þá er flóinn allur hvítur af sjóroki.

Vestmannaeyjahöfn 1926-1927.

Var nú kominn fótaferðartími, og eru þá fyrstu bátarnir að koma að landi línulausir. Ingibergur gengur síðan heim til sín. Hann bjó þá á Grímsstöðum. Á vesturleið hugsar Ingibergur með sér: Það er bezt að koma við á Sandfelli og vita hvort gömlu hjónin eigi ekki volgt á katlinum. Þá bjuggu þar Ingveldur Unadóttir og Guðjón Jónsson, sem voru tengdaforeldrar Ingibergs. Ingibergur kastar kveðju á gömlu hjónin. Þau ávarpa Ingiberg og segja: Það er gott að þú ert kominn, Ingi minn. Nú vitum við, hvor ykkar bræðranna fer í sjóinn í dag. Við þessi orð bregður Ingibergi, og fer hann heim til sín. Alltaf helzt sami veðurofsinn, og bátarnir eru að koma að, hver af öðrum, og allir kvarta yfir sjólaginu. Er nú kominn dagur að kvöldi, og eru þá allir komnir í höfn nema Ari. Ýmsir sáu hann á sjó þennan dag. Hann hafði lagt línuna suðaustur af Bjarnarey, en annað sáu menn ekki, sem á sjó voru, né vissu meira um afdrif Ara.
Daginn eftir var stillt veður, og var þá almennt róið. Mb. Soffí lagði þá línu sína suður af Bjarnarey. Formaður á henni var þá Sigurjón Ingvarsson frá Klömbru. Er hann fór að draga, kom upp lína frá Ara og dró Sigurjón 2 bjóð af línu Ara. Þegar Sigurjón kom í land, sagði hann Árna Sigfússyni af þessu og sagði um leið, að meiriparturinn af línu Ara lægi þarna. Árni Sigfússon bað Gísla Jónsson á Arnarhóli að draga fyrir sig línuna, og gerði Gísli það. Þarna dró Gísli 12 bjóð og sleit; var þá bein niðurstaða. Þá voru komin alls 14 bjóð. Gísli var þá formaður á mb. Víkingi.
Meiru var ekki hægt að ná af línunni, því aftur var komið vonzkuveður. Þarna hefur þá meiripartur af línunni legið, svo Ari hefur lítið verið búinn að draga, þegar slysið varð.
Ýmsar getgátur urðu um afdrif Ara. Sumir héldu, að hann hefði farizt í línudrættinum, en aðrir á heimleið, og er hvort tveggja ágizkun. Nú voru orðnar líkar ástæður hjá Þórunni Sveinsdóttur, konu Matthíasar, og tengdamóður hennar fyrir 28 árum, er hún stóð ein uppi með sjö börn Þau Matthías og Þórunn áttu fimm börn, sem öll voru ung. Það elzta um fermingu. Þegar hér er komið sögu, er Jónína Þórðardóttir flutt til Reykjavíkur og býr þar með seinni manni sínum, Ögmundi Þorkelssyni, á Bergsstaðastræti 30. Það verður að samkomulagi hjá þeim Þórunni og Jónínu, að Jónína taki yngsta drenginn, er Gísli hét. Hann var 8 ára gamall. Drengurinn fer til Reykjavíkur og ekkert ber til tíðinda.
Um vorið 1930 rekur* lík í svonefndum Bratta í Vestmannaeyjum. Var smíðað utanum það og jarðað sem óþekktur sjómaður. Hver var maðurinn? Líður nú tíminn, Þórunn lét drengi sína fara í sveit á sumrum, einn þeirra fór að Krosshjáleigu í Landeyjum. Hann hét Sveinn og var þá kominn að fermingu. Þá bjó þar Björn Eiríksson. Sveinn litli fór til Björns um vorið 1930, en Björn var búinn að ákveða að flytja sig búferlum upp í Borgarfjörð. Þetta vor ætlaði Sveinn að fylgja Birni þangað.
Oft var Gísli litli að tala um það við ömmu sína, að sig sé alltaf að dreyma pabba sinn, og að hann segi sér, að hann liggi uppi í kirkjugarði í Vestmannaeyjum, segist hann muni koma bráðum og sækja hann. Ekki líkaði gömlu konunni þetta og taldi ekki mundi vera fyrir góðu. Nú tekur Björn sig upp og flytur alla sína búslóð á stórum vörubíl og fer fyrst til Reykjavíkur. Hann kemur við á Bergstaðastræti 30 og verður mikill fagnaðarfundur hjá litlu bræðrunum, Sveini og Gísla. Björn stanzar þar góða stund og lofar þeim að tala saman. Svo kom að því að Björn leggur af stað vestur í Borgarfjörð. Nú langar Gísla að fylgja bróður sínum niður í bæinn, en amma hans vildi það ekki. Bíllinn fer af stað, og eru þá drengirnir saman en amma þeirra er inni í húsinu. Fer hún síðan út að gá að Gísla og sér hann hvergi. Hún lætur leita og fara á eftir bílnum. Fannst þá Gísli dáinn á götunni. Hann hafði þá hangið utan á bílnum, en dottið og orðið undir hjólunum. Og þarna kom draumur Gísla litla fram, svo það verða daprir dagar hjá Þórunni og Jónínu.

„Þorskurinn lepur strauma“. Úr fiskabúri í Náttúrugripasafni Vestmannaeyja.

Með mb. Ara fórust: Matthías Gíslason formaður. Hann var fæddur að Vatnsholti í Flóa 11. maí 1893. Hann ólst upp með foreldrum sínum, eins og áður hefur verið sagt. Hann byrjaði sjómennsku um fermingu og varð fljótt liðtækur. Er óhætt að fullyrða, að hann var með frískustu mönnum. Hann var mikill sjósóknari og aflamaður. Hann lét eftir sig þrjá syni hér í Vestmannaeyjum, sem nú eru þekktir dugnaðar sjómenn, meðal þeirra er Óskar, sem hér hefur verið toppmaður í aflabrögðum og aflakóngur. Einnig er Ingólfur hér í Eyjum harðduglegur sjómaður, og sá þriðji er Sveinn, einn með duglegustu sjómönnum. Páll Gunnlaugsson, Ráðagerði í Vestmannaeyjum. Hann var fæddur að Uppsalakoti í Svarfaðardal 2. júní 1895. Foreldrar: Gunnlaugur Pálsson og Una Jóhannesdóttir. Páll fór til Eyja 1918 og byrjaði þar sjómennsku. Hann var dugnaðar sjómaður og var búinn að vera formaður tvær vertíðír og var nú ráðinn formaður á mb. Gullfoss. Hann ætlaði að róa þennan eina róður á Ara.
Baldvin Kristinsson vélstjóri, Syðra-Ósi í Hofshreppi, fæddur þar 3. september 1907. Foreldrar: Kristinn Egilsson og Kristín Rut Jóhannsdóttir, búendur Syðra-Ósi. - Baldvin tók vélstjórapróf 1924-25, stundaði sjómennsku frá fermingu. Var vélstjóri á ýmsum bátum, dugnaðarmaður. Þetta var fyrsta vertíð hans í Vestmannaeyjum.
Eiríkur Auðunsson frá Svínhaga á Rangárvöllum, 23 ára, dugnaðarmaður. Hann hafði verið aðgerðarmaður hjá Matthíasi á mb. Enok.
Hans Andersen frá Færeyjum.
Því miður hefur ekki tekizt að afla mynda af tveimur mannanna.