Þórunn Sveinsdóttir (Byggðarenda)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þórunn Júlía Sveinsdóttir

Þórunn Júlía Sveinsdóttir, Tóta á Byggðarenda, fæddist á Eyrarbakka 8. júlí árið 1894 og lést 20. maí 1962. Faðir hennar var Sveinn Sveinsson, fæddur í Simbakoti 9. okt. 1863. Hann var sjómaður, lést 2. júní 1941. Kona hans og móðir Þórunnar var Ingunn Sigurðardóttir frá Rauðafelli í A-Eyjafjöllum, f. 26. jan. 1858, d. 29. apríl 1941. Þau hjón bjuggu að Ósi á Eyrarbakka með fimm börnum sínum, fjórum stúlkum og einum dreng. Húsið Ós hafði tvær burstir og það var aðeins eitt herbergi í austurburstinni. Í því svaf öll fjölskyldan. Þar var hátt undir loft því að burstin var látin halda sér en þröngt hefur verið í herberginu. Sváfu systurnar tvær og tvær saman í rúmi en bróðir þeirra einn. Þetta hús stendur enn á Eyrarbakka og er vel við haldið.

Börn Sveins og Ingunnar voru: Sigurður Ari, f. 3. jan. 1892, Þórunn Júlía, sem hér segir frá, Anna, f. 28. jan 1896, Sveinbjörg, f. 2. apríl 1898, og Jónína, f. 27. des. 1899.

Systurnar Þórunn, Sveinbjörg og Jónína fluttust allar til Vestmannaeyja og bjuggu þar mestan hluta ævi sinnar enda var mikill uppgangur í Vestmannaeyjum á þessum tíma, bátar voru vélvæddir, afli jókst og mikil að gera fyrir vinnufúsar hendur. Systkini þeirra, Sigurður og Anna, bjuggu áfram á Eyrarbakka.

Þórunn flyst til Vestmannaeyja

Þórunn var 22 ára gömul þegar hún fluttist til Vestmannaeyja árið 1916 ásamt tilvonandi eiginmanni sínum, Matthíasi Gíslasyni sjómanni frá Eyrarbakka. Foreldrar Matthíasar voru Gísli Karelsson, f. 25. nóv. 1868, frá Sjávargötu á Eyrarbakka. Hann drukknaði í sjóslysi á Stokkseyrarsundi ásamt sjö öðrum sjómönnum 2. apríl 1908. Kona hans, Jónína Margrét Þórðardóttir, f. 25. maí 1870, d. 4. sept. 1951, var frá Vatnsholti í Villingaholtshreppi í Árnessýslu.

Þórunn vann fyrst eftir að hún kom til Eyja sem vinnukona hjá Árna Filippussyni og konu hans, Gíslínu, sem bjuggu í húsinu Ásgarði við Heimagötu.

Þau Þórunn og Matthías byrjuðu að búa eftir að þau komu til Eyja, og þann 10. maí 1917 giftu þau sig. Þau fengu inni á Vestri-Gjábakka sem var frekar lítið hús en þó dálítið langt og allt á einni hæð. Það var austarlega á Heimaey og stóð við Bakkastíg. Fyrsta barn þeirra Þórunnar og Matthíasar fæddist 17. des. 1916 og fékk nafnið Ingólfur Símon (Símonar-nafnið er Símon Dalaskáld). Frá Gjábakka fluttust þau Þórunn og Matthías að Vestmannabraut 27, í hús sem hét Garðsauki. Það átti Árni Jónsson útgerðarmaður, hann átti vélbátinn Gissur hvíta. Þar fæddist Sveinn 14. ágúst 1918 og Óskar 22. mars 1921. Frá Garðsauka flytjast þau hjón að Vallarnesi og síðan á Hof við Urðaveg. Á þessum árum eignuðust þau Gísla, fæddur 17. apríl 1925, en hann lést í bílslysi í Reykjavík aðeins 8 ára gamall. Matthildur Þórunn fæddist 13. júní 1926. Það var síðan líklega 1928 sem þau kaupa minnsta húsið við Brekastíg, nr. 15a, en húsið heitir Byggðarendi. Þröngt var um þau í því húsi. Það er gengið inn í það að norðan, inn í litla forstofu eða gang og beint inn af útidyrunum var herbergi þar sem öll fimm börnin sváfu og lítið herbergi þar sem þau hjón sváfu. Einnig var eldhús, meira var plássið ekki. Vaskahús var í skúr við hliðina eða bak við húsið. Eins og sést á þessum búferlaflutningum hefur verið erfitt með húsnæði í Eyjum á þessum árum. Ef fólk átti ekki sjálft húsnæði þurfti það oft að flytja sig á milli húsa.

Eins og áður hefur komið fram var Matthías alltaf sjómaður. Fyrst var hann á skútum frá Reykjavík en síðan stundaði hann sjó frá Vestmannaeyjum og var þá skipstjóri eða formaður eins og það var kallað á þessum árum.

Vélbáturinn Ari ferst

Þau Þórunn, Matthías og fjölskylda fengu ekki að vera lengi saman í þessu litla húsi, aðeins tvö ár. Þann 24. janúar 1930 drukknaði Matthías þegar vélbáturinn Ari fórst með allri áhöfn.

Þegar slysið átti sér stað höfðu þau Þórunn og Matthías búið saman í 14 ár. Hann var 37 ára en hún 36 ára. Börn þeirra fimm voru á aldrinum 4 til 14 ára. Það voru því erfiðir tímar framundan hjá Þórunni Sveinsdóttur, hún var nú ein með börn sín og ekki var auðvelt að fara frá þeim til útivinnu.

Þórunn fékk styrk eftir slysið og notaði hann, þótt ekki væri hann stór, til að stækka Byggðarenda um helming til vesturs. Húsið var lítið, á norðurhlið var útidyrahurðin og einn gluggi sem var á eldhúsi. Við stækkunina bættist gluggi við norðurhliðina þar sem var svefnherbergi. Húsið er enn óbreytt frá þessum tíma og má þá sjá að það hefur ekki verið stórt fyrir stækkunina.

Þegar Þórunn hafði lokið við að byggja við Byggðarenda fór hún að taka menn í fæði, kostgangara eins og þeir voru kallaðir. Þetta gerði hún í nokkur ár til að bjarga sér og var jafnframt með menn í þjónustu, þvoði af þeim og straujaði fötin þeirra. Það var haft eftir þeim sem voru kostgangarar hjá Þórunni á Byggðarenda að þar hafi alltaf ríkt góður andi og verið vel tekið á móti þeim sem þangað komu.

Sonarmissir

Gísli, sonur Þórunnar, var aðeins 8 ára er hann lést í sviplegu bílslysi í Reykjavík 27. maí 1933. Hann var, þegar þetta gerðist, hjá föðurömmu sinni, Jónínu M. Þórðardóttur sem bjó að Bergstaðarstræti 30, neðstu hæð (jarðhæð). Atvik voru þau að Sveinn, bróðir Gísla, hafði verið í sveit hjá bónda á Krossi í A-Landeyjum sem Björn hét og var hann að flytja búferlum þetta vor að Horni í Skorradal. Ætlaði Sveinn að fylgja honum þangað. Seinna fluttist Björn norður í Eyjafjörð og gerðist kennari þar. Svein langaði að hitta bróður sinn í Reykjavík og varð úr að þeir komu við í Bergstaðastrætinu á leiðinni vestur svo að bræðurnir gætu hist. Má nærri geta að þar urðu fagnaðarfundir. Gísla var gefinn peningur. Þegar bíllinn er að fara af stað missir hann peninginn og ætlar að ná honum upp en verður þá undir bílnum sem var með búslóðina. Hann dó samstundis. Sveinn, bróðir Gísla, hefur því verið áhorfandi að þessu hræðilega slysi. Þetta voru vitaskuld þungbærar fréttir fyrir Þórunni, aðeins þremur árum eftir að hún missti Matthías í Ara-slysinu.

Birtir til

Öll él birtir upp um síðir. Þórunn átti eftir að eiga bærilega ævi þegar tímar liðu fram. Hún giftist aftur Sigmari Guðmundssyni frá Miðbæ á Norðfirði, f. 28. ágúst 1908, d. 4. júlí 1989, dugmiklum sjómanni. Sigmar var kostgangari hjá henni þegar þau kynntust. Þau giftu sig á gamlársdag 1939. Sigmar var þá sjómaður en varð síðar útgerðarmaður. Gerðu þeir Óskar Matt, stjúpsonur hans, út bátana Nönnu VE 300, Leó VE 294 og Leó VE 400. Gekk sú útgerð að mestu leyti vel, sérstaklega eftir að þeir keyptu Leó VE 400 sem var stálbátur, smíðaður fyrir þá í Austur-Þýskalandi. Hann kom nýr til Eyja í desember 1959.

F.v. Þórunn Júlía Sveinsdóttir, Guðlaug Erla Sigmarsdóttir, Gísli Matthías Sigmarsson og Sigmar Guðmundsson

Sigmar og Þórunn eignuðust tvo börn saman, Gísla Matthías Sigmarsson, f. 9. okt. 1937, d. 6. júní 2020, og Guðlaugu Erlu Sigmarsdóttur, f.11. okt. 1942, d. 11. maí 2005. Auk þess ólu þau upp, Sigmar Þór Sveinbjörnsson, f. 23. mars 1946, til fjórtán ára aldurs, eða þar til Þórunn lést, en hún ól Sigmar Þór upp vegna veikinda móður hans.

Þau Þórunn og Sigmar bjuggu á Byggðarenda til ársins 1954, en þá fluttu þau að Sunnuhvoli við Miðstræti 14 þar sem Þórunn bjó til dauðadags.

Myndir


Heimildir