Saga Vestmannaeyja II./ II. Jarða- og bæjaskipun í Vestmannaeyjum frá fyrstu tímum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




II. Jarða- og bæjaskipun í Vestmannaeyjum frá fyrstu tímum



Tún jarðanna lágu saman í þremur aðalsamgirðingum af vallhlöðnum grjót- og torfgörðum. Uppgirðing, Vilborgarstaðagirðing, er langstærst, þar eru 26 jarðaábúðir. Bæjahverfin eru tvö, á Vilborgarstöðum og Kirkjubæ. Tvíbýlisjarðir eru Oddsstaðir, Búastaðir, Vesturhús, eystri og vestri, og Presthús. Einbýlisjarðir: Nýibær og Ólafshús, byggð úr Nýjabæ að nokkru um 1600.¹) Fyrir ofan Hraun voru í samgirðingu 10 jarðaábúðir, þar af Ofanleiti, er telur 2 jarðavelli, 5 einbýlisjarðir og tvennar tvíbýlisjarðir, Þorlaugargerði og Norðurgarður, eystri og vestri. Í Niðurgirðingu, austurgirðingu, er tvíbýlisjörðin Gjábakki, Kornhóll, áður Höfn og Miðhús. Stakkagerði, tvíbýlisjörð, eystra) og vestra, er skammt upp af kaupstaðnum. Dalir, einnig tvíbýlisjörð, vestan undir Helgafelli, uppi á miðri Heimaey. Gerði, oftast nefnt Stóragerði, norðan Helgafells. Í jarðaskiptingunni kemur fram mikið samræmi. Þannig er höfuðbólunum þrem í eyjunum hverju um sig skipt í 8 jarðir. En líklegt er, að flestar tvíbýlisjarðirnar, sem nú eru, hafi fyrst verið einbýlisjarðir.
Túnunum var skipt í reiti og skákar með markasteinum, en sérgirðingar eigi fyrr en upp úr aldamótunum síðustu. Hverjum bónda bar að viðhalda túngarði eða vörzlugarði fyrir sínu túni og voru þeir harla misstórir. Fátækir bændur, sem mikla höfðu túngarða, fengu stundum ekki risið undir þessari kvöð og máttu þá hinir sameignarmennirnir hlaupa undir bagga að boði landsdrottins. Þannig bauð amtið á hinum miklu erfiðleikaárum á síðasta hluta 18. aldar, sbr. bréf til sýslumanns 23. maí 1789,²) að bændur skyldu hjálpast að um að viðhalda túngörðum. Land allt utan túns á Heimalandi var sameiginlegt beitarland jarðanna. Leifar af gömlum gerðum sáust utan túns á nokkrum stöðum til skamms tíma. Eru þar talin að hafa verið til forna korn- eða akurgerði eyjanna. Þau byrjuðu við svokölluð Manga-Lönd suður af Löndum og vestur af Vilborgarstöðum og náðu upp að Stóragerði og vestur fyrir Stakkagerði. Þar, sem akurgerðin fornu voru, er nú allt komið undir nýrækt og byggingar og sést nú hvergi móta fyrir þeim framar. Séra Gissur Pétursson segir í sóknarlýsingu sinni: „Það hefir maður eftir mann af fyrri aldar mönnum sagt þeim ungu og eftirkomendunum, að hér á þessari ey hafi mjölakrar verið.“ Getur hann og þess, að þá sjáist gömul og vallgróin garðalög og marki fyrir hverju akurgerði.
Jarðirnar voru flokkaðar niður í sérstaka leigumála eða aðskildar samábúðir, sem hér kallast sameignir, og hafa sameiginleg afnot og hlunnindi í úteyjum. Er þetta sérkenni fyrir jarðaskipunina. Hér eru 4 jarðasameignir eða sameiginlegir leigumálar með 8 jörðum hver og ein jarðasameign með 16 jörðum, og jarðaafgjöld þar nokkuð misjöfn. Hver jarðasameign hafði vissar úteyjar undir til jafnra afnota fyrir leiguliðana innan sömu samábúðar, er voru fólgin í hagbeit fyrir sauðfé, slægjum og fuglatekju. Sameignin eða leigumálinn var venjulegast kenndur við aðaleyna, er undir sameignina lá, t.d. Elliðaeyjarleigumáli, þar var Elliðaey aðaleyjan, Bjarneyjarleigumáli o.s.frv. Hvert jarðasamlag starfaði að þessu leyti út af fyrir sig, og bændurnir hver með öðrum með fullkomnu samvinnusniði um allt það, er að úteyjasókninni laut eða notkun eyjanna, og fylgt æfagömlum, einskorðuðum reglum í smáu sem stóru um allt, er að téðri starfrækslu laut, frá ári til árs og mann fram af manni. Svo samgróin voru úteyjanotin, enda talin með beztu hlunnindum jarðanna, starfi eyjabóndans og lífi, að bændurnir í sameignunum voru oft kenndir við beztu eyna, t.d. Elliðaeyjarmenn, Álfseyjarmenn. Margt í þessum störfum, er fylgdu æfagamalli hefð, gerði sitt til, að setja að mörgu leyti allsérstæðan svip á lífið í eyjunum, en hver sameignarleigumáli með tilheyrandi var eins og nokkurs konar ríki fyrir sig. Þessi skipun hafði og sína praktísku þýðingu. Með þessu móti voru mátulega margir um að starfrækja hina erfiðu sókn í úteyjarnar, er bændurnir þannig snéru bökum saman, og hver bóndi í sameigninni lét aðeins einn mann til hverrar úteyjarfarar, en aukamenn, ef með þurfti við fuglaveiðar, voru kostaðir sameiginlega af aflanum, með vissri ítölu af óskiptu. Ókleift hefði hins vegar verið einum eða fáum bændum að annast hinar mannfreku ferðir í úteyjar. Með þessu móti var og komizt hjá rányrkju og fuglaveiðin t.d. stunduð þannig, með tilliti til fjöldans, að reikna mátti með því, að bóndinn hefði af henni árleg, hagfelld not. Í Vestmannaeyjum hafa bændur lengi notið kosta góðrar samvinnu í atvinnumálum þeirra, úteyjasókn og sjósókn, sem hefir orðið þeim til léttis í lífsbaráttu þeirra.
Elzta heildarskrá um jarðir í Vestmannaeyjum frá 1507³) ber það með sér, að þá eru byggðar flestallar núverandi jarðir þar. Nýibær er ekki talinn þarna, er fyrst nefndur í elztu kunnu jarðabókinni frá 1586 og Ólafshús eigi fyrr en 1600. Stakkagerðis sést fyrst getið í jarðabókinni 1586. Bæjarnafnið Höfn hélzt fram til 1621, í skrifum sést ritað Höffden, Hobffden, Kobenn. Kornhóll, sem er seinna nafn á þessari jörð, er í reikningum og skrifum hinna dönsku umboðsmanna oft nefndur Cornholm, Courenholm, þar af nafnið Courenholm Schanzte. Jörðin Höfn mun vera meðal elztu byggðra bóla hér. Er almennt talið, að flytja hafi mátt bæinn fyrir ágangi sjávar og uppbroti á háum rofbökkum, og þá skipt um nafn á bænum. Allgamalt steinker fannst á þessum slóðum fyrir skömmu þar nálægt, er talið er, að hinn forni Hafnarbær hafi staðið.
Á mjög gamalli jarðaskrá frá Vestmannaeyjum, sem er til,⁴) frá árinu 1450, eru taldar 4 jarðir með nafni. En eftir heildarafgjöldunum að dæma og sundurliðun þeirra á skránni er greinilegt, að greitt er af sömu jörðum og 1507, þó eigi séu jarðirnar tilgreindar. Jarðaskráin frá 1507 mun telja allar jarðir, er verið hafa í byggingu í eyjunum á þeim tímum og goldið var eftir. Skráin telur 15 jarðaheiti og afgjöldin af hverri jörð undir einu, án þess að geta um það, hvernig jörðinni er skipt til ábúðar.
Elzta jarðabókin fyrir Vestmannaeyjar, sem getið er um, er jarðabók Símonar Surbech frá síðari hluta 16. aldar. Hafði Friðrik konungur III. falið Surbech, er var forstöðumaður konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum, að semja fullkomna jarðabók yfir eyjajarðir, sbr. erindisbréf hans dags. 28. apríl 1570,⁵) og mun það fljótlega hafa komizt í framkvæmd. Í skilagreinum og reikningum umboðsins og konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum, sem enn eru til frá tímabilinu 1586—1601, er að finna elzta yfirlitið, sem nú er til, um jarðabók Vestmannaeyja. Mun það að sjálfsögðu byggt á sjálfri jarðabók Surbechs, sem nú er eigi til og verið mun hafa miklu fyllri, því að í útdrættinum frá 1586—1601 er eigi getið vissra innnytja, er jörðunum hafa fylgt, svo sem hagagöngu í úteyjum, fuglatekju, fiskigarða o.fl., en látið nægja að telja upp jarðirnar sjálfar með landskyldum og hver ábúð sundurgreind, talin stærð jarðanna og kýrfóðratala.⁶)
Jarðabókaryfirlitið telur jarðir í Vestmannaeyjum, miðað við túnstærð og ef til vill við slægjuafnot í úteyjum, 24 túnvelli, en jarðirnar sjálfar 48, þannig að hver tvíbýlisjörð eða 2 jarðaábúðir gera til samans 1 völl og sömu jarðir ætíð taldar undir sama völl. Þessi skipun hefir haldizt í Vestmannaeyjum t.d. við skipti á fugli úr Almenningsskeri, eftir hinum fornu venjum að skipta á völl úr fuglakös. Sama um skipti á þangfjörum og reka m.m. Hver völlur er hér talinn 4 kýrfóður eða kýrgrös, svo að kýrfóðratalan verður 96. Við samanburð á jarðaskránni 1507 sést, að jarðabókin telur 6 jörðum fleira, eða 3 kýrvöllum, miðað við heildarstærðina. Þessar jarðir eru Stakkagerði, tvíbýlisjörð, 1 völlur, Nýibær 1 völlur, önnur Presthúsajörðin ½ völlur. Eftir afgjaldinu af Presthúsum 1507, 100 fiskar, hafa þau verið hálflenda á við aðrar tvíbýlisjarðir. 1586 eru Presthúsin talin 1 völlur og þar 2 ábúendur og landskuld í heild helmingi hærri en 1507. Þessi stækkun á Presthúsum og þar með aukið afgjald af jörðinni hefir verið framkvæmd með því móti, að túninu hefir verið skipt milli tveggja ábúenda og hvorri hálflendu síðan lögð til slægja í Elliðaey til uppbótar, og helzt svo lengi síðan, að Presthúsin höfðu helming túna sinna í Elliðaey á afmörkuðu svæði. Um jörðina Dali gildir líkt og um Presthúsin, jörðin hefir verið stækkuð um hálfan völl, 2 kýrfóður eftir 1507 með því, að tún jarðarinnar hefir verið fært út. 1586 er jörðin talin 1 kýrvöllur, ábúendur nú 2 og afgjald hækkað um helming.
Um jörðina Stakkagerði gæti komið til mála, þótt ekkert verði sagt með vissu um það, að hún hafi verið leigð sérstaklega 1507 og hennar því eigi getið þá, t.d. í sambandi við verzlunarleyfi. Jörð þessi liggur nálægt þeim slóðum, sem Englendingar aðallega höfðu beykistöð sína, meðan þeir ráku verzlun og útgerð í eyjunum. Vera má og, að jörðin hafi fyrrum verið umboðsmannsjörð. Líklegt er, að Stakkagerðisjörðin hafi verið færð út og stækkuð yfir akurgerðin þar í nánd.
Alllíklegt er, að hin umrædda jarðaaukning stafi frá þeim tímum, er Símon Surbech var ráðamaður konungs hér, og við þetta mun átt í kærumálum eyjamanna frá 1583 til Alþingis með umkvörtuninni um, að skertur hafi verið beitarréttur, er jörðunum hafi fylgt, því að með útfærslu túnanna var tekið af sameiginlegu beitarlandi jarða á Heimalandi og með þessu o.fl. gengið á rétt bænda. Í kærumálunum gegn Símoni Surbech er honum brugðið um harðdrægni og ágengni við eyjabændur, og honum borið á brýn að hafa tekið undan jörðum ýms forn réttindi, er áður hafi fylgt þeim, bæði rekaréttindi og almenningsafnot af fuglatekju í úteyjum. Símon Surbech gerði Yztaklett að sérstakri jörð og tók undan Kirkjubæ. Bætti hann með þessu við jarðatöluna. Í Yztakletti er samkvæmt úttektargerð frá 22. sept. 1877 talin útigangsbeit fyrir 120 sauðkindur, slægjur fyrir 1 kú, fýlungatekja 4000 og jarðarhlutur af lunda 3000. Yztiklettur var lengi umboðsjörð.
Vilborgarstaðir og Kirkjubær munu elztir bæja í Uppgirðingu og sennilega jafngamlir eða nær því og frá elztu byggingu eyjanna. Frá þessum bæjum hefir síðan byggðin færzt. Yngstu jarðirnar, sbr. það, er áður segir, byggðar á 16. öld. Vesturhúsin er líklegt, að séu meðal yngri jarðanna, þótt bygging þeirra muni allgömul, einnig Dalir og Gerði og sumar jarðirnar fyrir ofan Hraun, er tilheyra Elliðaeyjarleigumála.
Heildarskipulagið um eyjajarðirnar, eins og það kemur fram í jarðabókarútdrættinum frá 1586, mun mega heimfæra til Símonar Surbechs. Í aðaldráttum mun fyrirkomulagið, svo sem um skiptinguna í sérstaka leigumála, ákvörðun afgjalda, vera miklu eldri og mætti sennilega miða það við þá tíma, er eyjarnar voru leigðar sem lén.
Þurrabúðir eða tómthús. Þurrabúðir, sem a.m.k. á seinni tímum voru hér nefnd tómthús, hafa snemma verið reist nálægt höfninni og verzlunarstaðnum, og myndað sjóþorp með dreifðum tómthúsbýlum og sjóbúðum upp frá aðalnaustunum í Skipasandi, „niður í Sandi“, og tómthúsbyggðin aðgreind frá bændabýlunum: „uppi á bæjum“. Fiskisæld eyjanna og athafnalíf í sambandi við verzlunarrekstur og útgerð í stórum stíl, fuglatekjan o.fl. veitti skilyrði til lífsframfæris fleirum en þeim, er jarðirnar sátu.
Eftir elztu heimildum, sem þekkjast um þurrabúðirnar eða tómthúsin hér, frá lokum 16. aldar, sést, að tómthúsbyggðin hefir á þeim tímum verið á sama svæði og alltaf síðan: strandlendis með sjónum, í stefnu frá Höfn og vestur undir Bratta, sem sé í Höfn og á Löndum, í Götu með Hól og í Kastala.
Eystri tómthúsahverfin voru í Höfn og á Löndum í námunda við elzta verzlunarstaðinn, við Dönskueyri, Hafnareyri. Vestri hverfin þar upp frá, er löngu síðar var Miðbúðarkaupstaður. Kastalahverfið (Kastalle, Castelle, Castel) þar, sem fyrr hefir verið aðalbeykistöð enskra kaupmanna og útgerðarmanna. Nafnið Kastali er dregið af virki því, er Englendingar höfðu reist á þessum slóðum snemma á 15. öld. Mun varnarvirkið hafa verið garður af grjóti og torfi, reistur umhverfis hús Englendinga og sölubúðir. Alllíklegt er og, að fiskigarðar og tómthús hafi verið innan þessara vébanda og virkið náð yfir stórt svæði. Kunnugt er um tölu tómthúsa á 16. öld og voru þau mörg. Jarðabókin 1704 telur 12 eyðitómthús í Kastala. Hefir svæði það, er kennt var við hinn forna Kastala, verið allstórt.
Tómthúsa eða þurrabúða getur ekki á jarðaskránum 1450 og 1507, en auðsætt er af hinum háu landskyldum, að á þessum tímum hafa verið mörg tómthús og löngu fyrr eftir hinum háu landskyldum að dæma. Undir lok 16. aldar, 1586—1587, eru talin 25 tómthús hér, og er þetta elzta tómthúsaskráin, sem kunnugt er um. Í Höfn, „ude i Hobenn eða Hobden“, voru 6 tómthús og önnur 3 þar í grennd, á Miðhúsum. Loks Myrdhús og Benediktshús. Á Löndum voru 5, í Kastala 5 og í Götu 4. Gata heyrir eiginlega til hinu gamla Kastalahverfi, austasta húsaþorpið þar. Í umboðsskilagreinum og reikningum eru tómthúsin venjulegast talin austan frá, byrjað við Höfn, síðan koma Lönd, „Londom“, Gata, nefnd í dönsku reikningunum „Giothe“ eða „Gótte“, stundum og „Schiettestad“. Húsatalan í Götu er oft viðlíka og í Kastala, 4—6. Stundum er Gata talin með Kastala. Hæsta húsatala í báðum samtöldum er 16—17. Sandhús og Hólshús eru 1674 talin með Götu. Garðhús, stundum Garðhúsahóll, Hóll með Ronehúsinu, er mun vera sama og Runkahús, sbr. jarðabókina 1704, teljast til Götu- og Kastalahverfisins.⁷)
Umgetin tómthús, Myrdhús og Benediktshús, munu hafa verið fyrir norðan eða austan Lönd, nálægt Gjábakka, ef til vill í lægðinni hjá Vatnsdal. Þau eru talin í röðinni næst eftir tómthúsum á Miðhúsum, sem koma í réttri röð næst eftir tómthúsum í Höfn. Árin 1595 og 1600 eru talin tómthús á Gjábakka, 4 fyrra árið og 2 síðara árið, en ekkert nafn tilgreint. Þessi ár er heldur ekki minnst á Myrdhús eða Benediktshús og auðsætt, að þau eru þá talin með Gjábakkahúsunum, en hin árin eru þau, eins og áður segir, talin næst eftir húsunum á Miðhúsum. Myrdhús er dönsk afbökun, en erfitt að segja um rétta nafnið. Víst er, að umgetið Myrdhús er ekki kennt við Torfmýri og hefir eigi verið á þeim slóðum. Mardhús, sem getið er um 1674, mun vera sama og Myrdhús.
Á síðasta hluta 18. aldar, er tómthúsin gömlu voru flest komin í eyði, voru gömlu tómthúsnöfnin að mestu týnd. Alltaf hefir þó haldizt við tómthúsbyggð á Löndum og þar, á Nyrðri-Löndum, hefir aldrei fallið niður byggð. Í Kastala hélzt og byggð við. En á báðum þessum stöðum var aðeins eitt hús á hvorum stað í lok 18. aldar. Sum gömlu tómthúsnafnanna komu upp aftur, er húsum tók að fjölga á 19. öld, Hóll, Hólshús, Garðhús, Gata og Kokkhús. Hið síðastnefnda mun að réttu hafa heitið Kochhús, kennt við Koch, danskan mann, er hér var.
Tómthúsunum fjölgar á árunum 1586—1601. Árferði hefir verið gott þau árin, er útgerð konungsverzlunarinnar stóð með blóma. Tómthús eru þá og allmörg á jörðum. Við lok þessa tímabils eru tómthúsin alls 35 eða 36 að tölu, og er það sami húsafjöldi og var mestur á góðu fiskiárunum á síðari hluta 17. aldar, og aftur löngu seinna, um miðbik 19. aldar. Á Löndum hétu Syðri og Nyrðri Lönd. Hin fyrrtöldu þar, sem seinna var kallað Fornulönd. Eitt hús var í byggingu á Syðri Löndum 1704 og þá talin þar 4 eyðihús. Eitt hús var þá í byggingu á Nyrðri Löndum og 3 voru eyðihúsin. Nafnið Lönd er oft mjög afbakað og úr lagi fært í hinum dönsku umboðs- og kirkjureikningum. Þannig varð nafnið London til hjá útgefendum Tyrkjaránssögunnar úr „paa Londom“ í kirkjureikningnum 1634. Þetta er afbökun úr Löndum og á að lesast „á Löndum“.
Tómthúsunum, sem mörg voru í eyði eftir Tyrkjaránið, var farið að fjölga mikið aftur fyrir miðja 17. öld. Með vissu voru 26 tómthús í Vestmannaeyjum 1646 og 1674 eru þau 36,⁸) og ná þannig hæstu tölunni. Fólki fækkar hér á síðustu tveim áratugum 17. aldar og tómthúsin leggjast í eyði.
1760 eru 6 þurrabúðir eða tómthús hér í byggingu, þar á meðal í Kastala 2 hús. Í eyði eru þá Garðhús og Hólshús, en Hóll við líði.⁹)
Eftir því, sem leið á 18. öldina, fækkaði tómthúsunum, og frá því um lok einokunartímabilsins og þar til liðinn var fyrsti fjórðungur 19. aldar, eða um 40 ár, eru aðeins 4 tómthús í byggingu, sem sé 1 í Kastala, 1 á Löndum og húsin Dalahjallur og Ömpuhjallur. Kokkhús var og í byggingu nokkurn tíma. Húsunum fjölgar ekki aftur fyrr en 1824. Þá bætist við Elínarhús. Sama nafn var á tómthúsi hér á 17. öld. 1826 bætast við 4 ný hús: Hólshús, sem er gamalt heiti, Steinshús, Saurbær og Kokkhús. Enn bætist við 1827 og kemst húsatalan þá upp í 13. Nýju húsin 1827 voru Beykishús, Grímshjallur, Gíslahjallur og Jónshús. Árin 1828 og 1829 bætast við Arvlöse, Nýihjallur, Hallbergshús, Króarhús og Miðhús. Árið 1863 eru tómthúsin orðin 32, en fækkar síðan, 1888 eru þau aðeins 25 og aldamótaárið 1900 eru þau 28 eða 8 færri en þau voru undir aldamótin 1600. 1908 er tala íbúðarhúsa hér 53, hæsta tala, sem kunnugt er um fram til umgetins tíma. Síðan fer þeim stöðugt fjölgandi. Hætt er alveg upp úr aldamótunum að leigja eiginleg tómthús með tómthúslóðum, er venjulega voru stærri en vanalegar húslóðir gerðust síðar, er voru 600 ferálnir. 1940 voru hér 16 tómthús með lóðarréttindum og 14 lóðarréttindalaus. Tala leigusamninga fyrir húslóðum var þá komin hátt á 6. hundrað. Jarðarhús eigi talin með. Hafði íbúðarhúsatalan aukizt um nálægt 100 á síðustu 10 árum.
Gömlu tómthúsin voru oft kennd við nafn þess, er húsið reisti, og jafnvel stundum farið eftir því, hver í húsinu bjó í það og það sinnið. Húsin eru tíðast kennd við karlmannanöfn, en einnig oft við nöfn kvenna: Sigguhús, Gróuhús, Þorgerðarhjallur, Solveigarbær. Hjallanöfnin á tómthúsunum koma fram á seinni tímum. Þau eru fágæt meðal hinna gömlu, hefðbundnu tómthúsa, hans konunglegu Majestatis, á Löndum og í hinum eiginlegu gömlu tómthúsahverfum. Tómthúsin með hjallanöfnunum eru byggð upp úr fiskhjöllum, og áttu sér aldrei langan aldur. Öll voru þau horfin fyrir aldamótin síðustu, og þá var og hætt að kenna húsin við nöfn þeirra, er í þeim bjuggu. Síðustu tómthúsin voru nefnd venjulegum nöfnum íslenzkra bæja: Grund, Dalur, Holt o.s.frv.
Orðið tómthús eða þurrabúð þekkist nú orðið eigi nema í bókum umboðsins um hinar fáu þurrabúðir, sem eftir eru og goldið er eftir sem slíkar.
Húsmannahús. Þau voru byggð á jörðum og voru húsmennirnir leiguliðar bændanna, en eigi konungs, sem þeir, er leigðu hin konunglegu tómthús í Höfn, á Löndum, í Götu og í Kastala, eins og þau eru greind í reikningum umboðsins. Þessi aðgreining er þó ekki alltaf skilmerkileg. Á dögum konungsverzlunarinnar setti umboðsmaður tómthús á sumar jarðir, og af þeim greitt í konungs- eða jarðabókarsjóð. Tala slíkra tómthúsa var hæst 9, eftir því er næst verður komizt. Fram á síðasta tug 19. aldar og lengur voru til hér húsmannahús á jörðum, t.d. Móhús í Kirkjubæ, Hús á Miðhúsum, Borg o.fl. Eldra er Litla-Gerði nálægt Gerði. Þar af komið Stóra-Gerði til aðgreiningar. Á tíundareikningum frá 19. öld eru taldir tómthúsmenn sér og húsmenn sér.
Kaupstaðarhús. Svo nefndust verzlunarhúsin og íbúðarhús kaupmanna og verzlunarþjóna.


Heimildir neðanmáls í þessum kafla:
1) Uppgirðing kallað suður af Vilborgarstaðagötunni.
2) Sýsluskjöl V.E. IV, 1, Þjóðskj.s.
3) Ísl. fornbr.s. VIII, 180.
4) Ísl. fornbr.s. XII, 1, nr. 19.
5) Tegn paa alle Landene, Canc. Brevb. 1566—1570.
6) Regnskaber vedrörende Vespenö 1586—1601, nú Þjóðskj.s. í Rvík, endurheimt frá Ríkisskj.s. Dana.
7) Ísl. fornbr.s. IV, 324—334; Umboðsreikn. V.E.; Reikningsbók Landakirkju 1631—1701.
8) Reikningsbók Landakirkju 1631—1704.
9) Jarðabók 1760, XXX, III, Þjóðskj.s.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit