Sævar Þ. Jóhannesson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sævar Þorbjörn Jóhannesson.

Sævar Þorbjörn Jóhannesson, fyrrverandi lögreglufulltrúi við embætti Ríkislögreglustjóra, fæddist 8. maí 1938 á Minni-Núpi við Brekastíg 4 og lést 3. ágúst 2024 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Jóhannes Albertsson, lögreglumaður, f. 19. nóvember 1899, d. 4. febrúar 1975, og síðari kona hans Marta Pétursdóttir, húsfreyja, f. 6. apríl 1914, d. 27. ágúst 1989.

Börn Mörtu og Jóhannesar:
7. Sævar Þorbjörn Jóhannesson, rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík, f. 8. maí 1938, d. 3. ágúst 2024. Kona hans Emma T. Hansen frá Nesi í Austurey, Færeyjum.
8. Soffía Lillý Jóhannesdóttir, húsfreyja í St. Marys í New South Wales, Ástralíu, f. 20. júní 1940, d. 9. júlí 2016. Maður hennar Lúðvík Sigurðsson frá Sunnuhvoli á Djúpavogi.
Börn Jóhannesar og fyrri konu hans Kristínar Sigmundsdóttur:
1. Jóhannes Albert Jóhannesson matsveinn í Reykjavík, f. 21. júlí 1925 í Litlakoti, d. 5. febrúar 2001. Kona hans Brynja Óskarsdóttir Hendriksen frá Færeyjum.
2. Grettir Jóhannesson bóndi, f. 11. febrúar 1927 í Vegg. Kona hans Málfríður Fanney Egilsdóttir frá Skarði í Djúpárhreppi.
3. Gréta Jóhannesdóttir húsfreyja, kaupmaður, f. 8. janúar 1929 í Vegg, d. 12. mars 2002. Maður hennar Haraldur Guðmundsson frá Ólafsvík.
4. Elínborg Jóhannesdóttir Sielski í Kaliforníu, húsfreyja, f. 27. apríl 1930 í Vegg, d. 21. október 2023. Maður hennar Henry Sielski jr. frá San Antonio í Texas.
5. Jóhanna Maggý Jóhannesdóttir húsfreyja, f. 29. maí 1931 í Vegg, d. 14. apríl 2020. Maður hennar Arnþór Ingólfsson frá Hauksstöðum, Vopnafirði, látinn.
6. Ragnar Sigurjón Jóhannesson sjómaður, f. 30. júní 1932 í Vegg, d. 10. desember 2020. Kona hans Hólmfríður Sigurðardóttir frá Þrúðvangi.

Sævar var gagnfræðingur frá Skógaskóla 1955, lauk námi við Lögregluskóla Reykjavíkur 1961, lauk bréfaskólanámi í tæknilegum lögreglufræðum frá Institute of Applied Science, Chicago, Ill., Bandaríkjunum 1963, lauk námi í fingrafarafræðum við Metropolitan Police Detective Training School og New Scotland Yard í London 1969, lauk bréfaskólanámi við Modern Gun Repair School, Scottsdale, Arizona, Bandaríkjunum 1976, lauk námi í tæknilegum sakamálarannsóknum við New York City Police Academy, Bandaríkjunum 1977. Hann sótti námskeið í samanburðarsmásjártækni hjá Leitz í Wetzlar í Þýskalandi og rannsóknarlögreglu Glasgowborgar í Skotlandi 1979, sótti einnig námskeið fyrir yfirmenn lögreglu við Lögregluskóla ríkisins 1986, námskeið fyrir stjórnendur hjá Stjórnunarfélagi Íslands 1989 og símenntun í framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins 1994.
Sævar byrjaði starfsferil sinn í lögreglunni í Reykjavík 1. júní 1960 og starfaði þar til 1. ágúst 1963, hóf þá störf hjá tæknideild rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík og vann þar uns Rannsóknarlögregla ríkisins var stofnuð 1. júlí 1977, að hann fór til starfa við tæknideild RLR þar til RLR var lögð niður 1. júlí 1997, fluttist þá í tæknirannsóknarstofu við embætti Ríkislögreglustjóra 1. júlí 1997. Lauk hann sínum starfsferli við tæknirannsóknir hjá embætti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2010.


Þau Emma giftu sig 1960, eignuðust þrjú börn.

I. Kona Sævars, (16. október 1960), er Emma R. Hansen Jóhannesson, frá Nesi í Austurey í Færeyjum, húsfreyja, sjúkraliði, f. 4. nóvember 1937. Foreldrar hennar voru Tummas Johan Hansen sjómaður, f. 5. júlí 1900 í Gerðinu, Nesi í Austurey, d. 6. mars 1993, og kona hans Elsebeth Soffia Hansen, f. 20. október 1903 í Saltnesi á Austurey, d. 5. ágúst 1994.
Börn þeirra:
1. Elsebeth Sævarsdóttir, stuðningsfulltrúi í Færeyjum, f. 23. júní 1961 í Rvk, d. 19. október 2019.
2. Jóhannes Albert Sævarsson, lögmaður í Rvk, f. 8. október 1962.
3. Marta Sævarsdóttir, grunnskólakennari í Kaupmannahöfn, f. 28. júlí 1965 í Rvk.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.