Ritverk Árna Árnasonar/Konur í úteyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Konur í úteyjum


Sem áður getur var margt kvenfólk við heyskaparvinnu, t.d. í Elliðaey fyrr á árum. Þá var og, allt fram á síðustu ár margt kvenfólk, sem fór í úteyjar, ásamt fjölda barna, þegar farnar voru fjárrúningsferðirnar. Það voru mjög afhaldnar skemmtiferðir, enda tók margt fólk þátt í þeim, oft fleiri en nauðsynlegt var. Það þurfti margt fólk til slíkra ferða, t.d. í Elliðaey, þar sem mest var af fé. Einnig fór margt fólk í Bjarnarey, svo að vart mun ofsagt, að nálægt 20 til 25 manns hafi verið í slíkum ferðum.
Var sumt kvenfólkið mjög duglegt í þessum úteyjaferðum og fjallgöngum, þótt ekki hafi það jafnast á við síðari tíma stúlkur, sem t.d. fóru upp á Súlnasker. Þangað mun fyrst hafa farið Fanney Ármannsdóttir, kona Sigurðar Jóelssonar frá Sælundi, Eyjólfssonar, auk þeirra Ragnheiðar Jónsdóttur, konu Vigfúsar Ólafssonar kennara og Ólafar, hjúkrunarkonu á Sjúkrahúsinu, sem áður getur í sambandi við Súlnasker, og þess utan Ester Karlsdóttir, sem fór upp í Geirfuglasker. Þessum stúlkum blöskraði ekki að klæðast karlabuxum og fara á „lærvað“ eða láta binda sig sem sannir fjallamenn. Þá hefi ég og getið þeirra er fóru í Kirkju í Suðurey. Það var einnig hraustlega gert af kvenfólki, þar eð sú glæfraferð er ekki farin af öllum karlmönnum, sem hefir brostið kjark til slíkrar kirkjuferðar.
Í Kirkjuna fóru þær Helga Sigurðardóttir í Apótekinu og Nikólína Jónsdóttir Hásteinsvegi 4. Ef til vill hafa fleiri stúlkur farið álíka fjallaferðir í Eyjum, þótt ég minnist þess ekki. En til viðlegu hafa verið konur viðlegumanna í Suðurey hin síðari árin og nokkrar í Bjarnarey. Í Suðurey Ebba Þorsteinsdóttir, kona Bárðar Aðunssonar og í Bjarnarey Sigríður Haraldsdóttir, kona Hlöðvers Johnsen og Kristín Þorsteinsdóttir, kona Sigfúsar J. Johnsen, og sennilega fleiri konur.
Þær fyrstu, er menn vita til að hafi dvalið í Suðurey, voru þær systur Ingibjörg Á. Björnsdóttir Sigurðssonar frá Pétursborg og Alda systir hennar. Það var árið 1949. Fóru þær með mönnum sínum þangað til vikudvalar.
Sú ferð byrjaði á þann hátt, að þegar Valdimar Tranberg fór út hafnarmynnið, kom mótorbátur öslandi inn móti þeim Suðureyingum á trillu Tranbergs, og lá við að mótorbáturinn lenti á trillunni flatri. Tranberg tókst þó á síðustu stundu að sveigja svolítið til hliðar og varð því árekstri afstýrt. Þar munaði mjóu, að ekki hlytist slys. Hins vegar skeytti mótorbáturinn þessu ekkert, en hélt sína leið inn í höfn. Töldu þeir á grafskipinu Gretti, sem var að vinna í hafnarmynninu, að þarna myndi stórslys verða.
Allt gekk vel eftir þetta suður í Suðurey. Var lent við steðjann á Útsuðursnefi eyjarinnar, og var allur farangur látinn þar upp vegna ókunnugleika. Síðan urðu þeir tveir eiginmenn kvennanna, þeir Jón Runólfsson, Bræðratungu, maður Ingibjargar Ágústu og Hilmir Högnason, Vatnsdal, maður Öldu, að bera allan farangurinn af steðjanum heim að kofa. Það er langur burður og erfiður, enda voru þeir slituppgefnir, þegar allt var komið heim að kofanum seint um kvöldið. Hefðu þeir verið kunnugri, hefðu þeir að sjálfsögðu dregið dótið upp á Hellunni eins og vant er.
Fólkið lá svo þarna í tjaldi, en þó eitthvað í gamla kofanum eftir að hafa lagfært hann eitthvað. Hann var þá alveg að falli kominn. En í slæmum veðrum og regni var hann þó betri en tjaldið, þó að gott væri. Lítið varð um veiði, en skemmtilegt fannst fólkinu að vera í Suðurey.
Þau reyndu að fiska af Hellunni, en festu færið, og náðist það ekki úr hrauni, hvernig sem að var farið. T.d. reyndi trilla að ná því lausu, en án árangurs. Þeirri skemmtun að draga fisk af Hellunni varð því viðlegufólkið af.
Ekki lögðu systurnar í það að fara í Kirkju í Suðurey, fannst leiðin heldur glæfraleg.
Hins vegar komst Ebba Þorsteinsdóttir hálfa leið í Kirkjuna þannig, að hún sá inn í hana, en lengra fór hún ekki. Þá hafði einn fýll hreiðrað um sig í Kirkjunni og leið auðsjáanlega vel þar, enda þreifst unginn vel í hellisskúta þessum, þar sem sólar nýtur ekki, fyrr en seint að kvöldi um hásumarið, er sólin kemur á norðurloftið. Mikill sólarhiti er ekki þægilegur fyrir fýlsungann. Kemur fyrir, að mikið af fýlunga „brennur“, sem kallað er, þ.e.a.s. hann drepst vegna hitans. Það er og engu líkara en gamli fýllinn viti þetta, þar eð mestu fýlabyggðirnar eru mót norðri, þar sem sólarhitans gætir síst.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit