Páll Gíslason (Bólstað)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Páll Ólafur Gíslason.

Páll Ólafur Gíslason frá Neskaupstað, sjómaður, bifreiðastjóri á Bólstað fæddist 3. mars 1922 í Sólheimi í Neskaupstað og lést 25. maí 2002.
Faðir hans var Gísli verkamaður í Neskaupstað, f. 11. febr. 1889 á Reykjum í Mjóafirði eystra, d. 19. júlí 1955 í Neskaupstað, Jóhannssonar bónda og sjómanns á Krossi þar, f. 21. september 1860 í Sandvík í Skorrastaðarsókn, d. 3. maí 1924 á Eskifirði, Marteinssonar bónda og formanns í Sandvík, f. 13. september 1824 í Sandvík, d. 12. maí 1861, Magnússonar, og bústýru Marteins, Dagbjartar, f. 14. apríl í Keldudal í Hegranesi í Skagaf., d. 13. mars 1904, Eyjólfsdóttur.
Móðir Gísla og kona Jóhanns Marteinssonar var Katrín húsfreyja á Krossi, f. 2. október 1862 á Krossi, d. 30. október 1950 í Goðasteini, Gísladóttir bónda á Reykjum í Mjóafirði, f. 20. mars 1832 í Karlsskála við Reyðarfjörð, d. 5. mars 1904 á Reykjum í Mjóafirði, Eyjólfssonar, og konu Gísla, Halldóru húsfreyju og ljósmóður, f. 27. júlí 1837 í Hólmasókn í Reyðarfirði, d. 3. janúar 1927 í Neskaupstað, Eyjólfsdóttur.

Sambýliskona og síðar (31. október 1926) kona Gísla og móðir Páls var Þórunn Ólafía Ísfeld húsfreyja, f. 11. des. 1892, d. 2. febr. 1932, Karls bónda að Miðhúsum og Krossi í Mjóafirði eystri, f. 7. okt. 1870, d. 26. okt. 1964, Guðmundssonar og fyrri konu (6. nóv. 1892) Karls, Júlíu (einnig Júníu) Johannsen húsfreyju, f. í Færeyjum 1872, d. í Mjóafirði 13. maí 1898.

Ættbogi í Eyjum

Systir Páls var María Gísladóttir húsfreyja á Burstafell.
Föðursystir þeirra Maríu og Páls var Ingigerður Jóhannsdóttir í Goðasteini, f. 6. sept. 1902. Systkinabörn voru börn Ingigerðar, Páll og María Gíslabörn, Anna Pálína Sigurðardóttir, f. 1920, kona Guðlaugs Guðjónssonar frá Oddsstöðum og Inga Jóhanna, f. 1927, kona Hjörleifs Guðnasonar múrarameistara frá Oddsstöðum. (Sjá Katrínu Gísladóttur).

Páll var með foreldrum sínum í fyrstu, en móðir hans lést, er hann var tæpra tíu ára.
Á barnsaldri lenti Páll í bruna, sem fatlaði hann um lífstíð.
Hann varð ungur sjómaður, háseti og stýrimaður á bátum og togurum í Neskaupstað og Eyjum.
Hann flutti til Eyja 1947, varð síðar bifreiðastjóri vörubíla og vann einnig hjá Ísfélaginu.
Eftir flutning hjónanna til Reykjavíkur varð hann stöðvarstjóri Skeljungs við bensínafgreiðslustöð í Árbæ.
Þau Bára giftu sig 1948, eignuðust fimm börn, en misstu eitt þeirra sautján ára. Þau bjuggu í fyrstu á Bólstað, byggðu hús við Nýjabæjarbraut 1 og bjuggu þar til 1968, er þau fluttu til Reykjavíkur. Þar bjuggu þau í Skaftahlíð, í Hraunbæ og á Jökulgrunni.
Páll Ólafur lést 2002 og Bára 2015.

I. Kona Páls Ólafs, (2. október 1948), var Bára Sigurðardóttir frá Bólstað, húsfreyja, verslunarmaður, f. 16. desember 1925, d. 14. apríl 2015.
Foreldrar hans voru Páll Ólafur Gíslason sjómaður, bifreiðastjóri, f. 3. mars 1922 í Neskaupstað, d. 25. maí 2002, og kona hans Bára Sigurðardóttir húsfreyja, verslunarmaður, f. 16. desember 1925 á Bólstað, d. 14. apríl 2015.

Börn þeirra:
1. Auðbjörg Pálsdóttir húsfreyja, sérkennari, f. 20. janúar 1949. Maður hennar Guðjón Ágúst Norðdahl.
2. Gísli Pálsson prófessor við Háskóla Íslands, rithöfundur, f. 22. desember 1949. Kona hans Guðný Sigurbjörg Guðbjörnsdóttir.
3. Sigurður Þór Pálsson námsmaður, f. 3. ágúst 1953, d. 24. maí 1971.
4. Karl Pálsson tæknifræðingur, f. 2. júní 1961, d. 9. desember 2017. Fyrrum kona hans Metta Baatrup. Sambýliskona hans Ólöf Elín Lind Sigurðardóttir.
5. Lilja Pálsdóttir húsfreyja, útibússtjóri, f. 2. september 1962. Maður hennar Halldór Sighvatsson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.