Ingólfur Matthíasson (Byggðarenda)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ingólfur

Ingólfur Símon Matthíasson fæddist 17. desember 1916 og lést 18. október 1999. Hann bjó að Hólagötu 20. Síðustu árin bjó hann á Hraunbúðum. Foreldrar hans voru hjónin Þórunn Júlía Sveinsdóttir og Matthías Gíslason á Byggðarenda. Ingólfur var eldri bróðir Óskars Matthíassonar.

Ingólfur var skipstjóri á Haferni VE.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Ingólf:

Annar hér æginn kannar
arfi Matthías djarfur,
grér þann í veiði veri
veit ég með Ingólfs heiti.
Frosta í Ránar rosta
rakkur siglir nú frakkur.
Képpinn fisk hraður hreppir,
hugaður víkings maður.

Myndir


Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.

Frekari umfjöllun

Ingólfur Símon Matthíasson frá Byggðarenda, Brekastíg 15a, vélstjóri, skipstjóri, útgerðarmaður fæddist 17. desember 1916 á Gjábakka og lést 18. október 1999 í Hraunbúðum.
Foreldrar hans voru Matthías Gíslason skipstjóri, f. 14. júní 1893 í Sjávargötu á Eyrarbakka, drukknaði 14. janúar 1930, og Þórunn Júlía Sveinsdóttir húsfreyja, f. 8. júlí 1894 í Hausthúsum á Eyrarbakka, d. 20. maí 1962

Börn Þórunnar og Matthíasar:
1. Ingólfur Símon Matthíasson sjómaður, vélstjóri, skipstjóri, útgerðarmaður, f. 17. desember 1916, d. 18. október 1999.
2. Sveinn Matthíasson matsveinn, útgerðarmaður, f. 14. ágúst 1918, d. 15. nóvember 1998.
3. Óskar Matthíasson skipstjóri, útgerðarmaður, f. 22. mars 1921, d. 21. desember 1992.
4. Gísli Matthíasson, f. 7. apríl 1925, d. 27. maí 1933.
5. Matthildur Þórunn Matthíasdóttir húsfreyja, f. 13. júní 1926, d. 6. nóvember 1986.
Börn Þórunnar og Sigmars Guðmundssonar:
6. Gísli Matthías Sigmarsson skipstjóri, útgerðarmaður, f. 9. október 1937, d. 6. júní 2020.
8. Guðlaug Erla Sigmarsdóttir húsfreyja, f. 11. október 1942, d. 11. maí 2005.

Ingólfur var með foreldrum sínum fyrstu þrettán ár ævinnar, en faðir hans fórst með Ara VE 235 í janúar 1930. Hann var með móður sinni 1930 og 1934.
Ingólfur lauk 1. og II. stigs vélstjóraprófi hjá Fiskifélagi Íslands 1948, hlaut skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum í Eyjum 1958.
Hann hóf sjómennsku 16 ára, var háseti og síðar vélstjóri á Muggi VE 322 og Helga Helgasyni VE 343.
Hann var skipstjóri á Hildingi VE 3, Frosta VE 363 og Gullþóri VE 39, skipstjóri og útgerðamaður á Haferni VE 23, sem hann átti ásamt Sveini bróður sínum 1959-1984.
Ingólfur var hafnarvörður í Vestmannaeyjum 1984-1989. Hann sat lengi í stjórn Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja og í stjórn Vinnslustöðvarinnar .
Þau Pálína giftu sig 1938, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Bólstaðarhlíð við fæðingu Kolbrúnar 1938, á Stóru-Heiði 1940, á Hásteinsvegi 7 1945 og enn 1953, síðar að Hólagötu 20.
Pálína lést 1990.
Ingólfur dvaldi að síðustu í Hraunbúðum og lést 1999.

I. Kona Ingólfs, (12. apríl 1938), var Pálína Björnsdóttir húsfreyja, f. 12. maí 1918, d. 4. júní 1990.
Börn þeirra:
1. Kolbrún Ingólfsdóttir, f. 22. október 1938 í Bólstaðarhlíð. Barnsfaðir hennar Birgir Aðalsteinn Ingólfsson. Fyrrum maður hennar Carl Ólafur Gränz, f. 16. janúar 1941.
2. Drengur, f. 21. ágúst 1941 á Hásteinsvegi 7, d. 1. nóvember 1941.
3. Ægir Rafn Ingólfsson tannlæknir, f. 12. nóvember 1948. Fyrrum kona hans Guðrún Pétursdóttir. Sambýliskona Ragna Margrét Norðdahl.
4. Inga Dís Ingólfsdóttir húsfreyja, f. 26. nóvember 1960 í Reykjavík. Hún er kjörbarn Pálínu og Ingólfs, dóttir Kolbrúnar Ingólfsdóttur. Maður hennar Pétur Sigurðsson.



Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslensk skip. Jón Björnsson. Iðunn 1990.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 30. október 1999. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.