Blik 1972/Síminn lagður milli Eyja og lands

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Síminn lagður milli Eyja og lands


I.
Sæsími til Íslands

Söguleg drög


Framámenn og fyrirliðar ýmissa erlendra símafélaga höfðu jafnvel þegar um miðja s.l. öld látið sér koma til hugar símasamband milli útlanda og Íslands. Sérstaklega vaknaði þessi hugmynd, þegar tekið var að bollaleggja lögn sæsímastrengs milli Evrópu og Kanada. Ekki þótti ráðlegt að leggja sæsímastreng milli Evrópu og NorðurAmeríku nema hafa stöðvar á leiðinni, svo sem Færeyjar, Ísland og Grænland.
Árið 1852 var hugleitt og bollalagt um lögn sæsímastrengs milli Evrópulanda og Kanada. Vegna veðurfregna, sem sjálfsagt þótti að senda um sæstrenginn, þá þótti það ákjósanlegast og reyndar sjálfsagt að strengurinn lægi um Ísland, svo að þaðan mættu einnig berast veðurfregnir daglega til aðvörunar og hjálpar skipum, sem leið áttu um norðanvert Atlantshafið.
Sótt var um einkaleyfi til þess að leggja sæstrenginn og reka símann, og var það veitt, en ekkert varð úr framkvæmdum.
Með fárra ára millibili var hvert einkaleyfið veitt eftir annað í þessu skyni, en ekkert aðhafzt áratugum saman. Hins vegar var sæsímastrengur lagður milli Evrópu og Ameríku miklu sunnar árið 1866.

——————


Árið 1869 (1. júní) var stofnað Hið mikla norræna ritsímafélag (Det store nordiske telegraphaktieselskab). Svo að segja strax eftir stofnun þess, tóku forgöngumenn þess að skeggræða og áætla lögn sæsímastrengs vestur til Kanada um Færeyjar, Ísland og Grænland. Lengi vel varð þó ekkert úr framkvæmdum, ekkert næstu áratugina. Ástæðan var sú, að framkvæmd þessi var ekki talin svara kostnaði, ekki talin borga sig fjárhagslega. Sérstaklega þótti ekki taka því að kosta svo miklu til um símasamband við hið fámenna og afskekkta eyland, Ísland, þarna norður við heimskautsbauginn, því að litlar voru tekjurnar áætlaðar fyrirtækinu af þjónustu við dvergríki það.

——————


Árið 1891 var símamálinu fyrst hreyft á Alþingi Íslendinga. Það gerðu þingmennirnir Skúli Thoroddsen og Jens Pálsson. Þá fluttu þessir tveir þingmenn þessa tillögu til þingsályktunar:
„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ráðgjafa Íslands, að leggja fyrir Alþingi 1893 sundurliðaða áætlun samda af verkfræðingi um kostnað við lagningu málþráða (telephona) með hæfilega mörgum málþráðastöðvum milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, milli Reykjavíkur og Akureyrar og milli Akureyrar og Seyðisfjarðar.“
Í greinargerð flutningsmannsins, Skúla Thoroddsens, sem var aðalflutningsmaður tillögunnar, standa þessi orð m.a.: ,,... Ég tel þess meiri von, að oss verði þá auðveldara að fá fréttaþráð t.d. frá Skotlandi til Austfjarða, þegar fréttaþráður lægi þaðan til Reykjavíkur.“
Svo segir í merkum heimildum um þessa tillögu Skúla Thoroddsens: „Tillagan fékk lítinn byr, kom auðsjáanlega flatt upp á menn. Enginn hafði um þetta hugsað.“ Tillagan var felld í Neðri deild Alþingis með 10 atkvæðum gegn 8.
Árin liðu, og ýmsir urðu til þess að halda hugsjón þessari um símann og sæsímann lifandi manna á milli.
Já, hún hélt lífi.
Árið 1895 skoraði Neðri deild Alþingis á stjórnina (í Kaupmannahöfn) að veita þeim mönnum eða fyrirtækjum, er um það kynnu að sækja, einkaleyfi til þess að leggja fréttaþráð (telegraph) frá hinum brezku eyjum (eins og það er orðað) til Reykjavíkur með þeim skilyrðum, sem henni þykir nauðsyn á.
Á Alþingi 1897 (lesandi athugi, að Alþingi var þá aðeins haldið annað hvort ár) taldi enginn þingmaður lengur varhugavert að veita einkaleyfi til lagnar og reksturs sæsíma milli Bretlands og Íslands.
Stjórnin í Kaupmannahöfn hafði látið í ljós það álit sitt og þann vilja sinn, að íslenzka þjóðin legði fram, greiddi, kr. 35.000,00 á ári hverju næstu 20 árin til fréttaþráðar milli Íslands og útlanda. Fyrsta greiðsla þjóðarinnar í þessu skyni skyldi þá eiga sér stað árið 1899. Jafnframt tók danska þingið því vel að leggja fram kr. 54.000,00 á ári hverju næstu 20 árin í sama skyni.
Þegar hér var komið sögu þessa máls, barst út um heiminn fréttin um uppfyndingu þráðlausu skeytanna. Marconi hafði fundið upp hina þráðlausu firðritun. Þessi uppfynding olli hiki um framkvæmdir sæsímalagnarinnar. Varð ekki nýja uppfyndingin þess valdandi, að öll þessi fréttaþjónusta landa á milli yrði ódýrari og á ýmsan annan hátt hagkvæmari en símleiðin?
Enn lágu allar framkvæmdir í bið og kyrrð.
Skömmu eftir þingslit 1901 gerðist sá merkisatburður, að upphafsmanni þráðlausu firðritunarinnar, Marconi, tókst (12. des. 1901) að senda skiljanlegt skeyti yfir þvert Atlantshafið frá Englandi til Nýfundnalands.
Þessi uppfynding vakti mikla athygli og umræður meðal ráðamanna á Íslandi og leiddi til þess, að á Alþingi 1902, sem var aukaþing, var borin upp svohljóðandi tillaga til þingsályktunar: „Neðri deild Alþingis ályktar að kjósa fimm manna nefnd til þess að athuga málið um þráðlaus rafmagnsskeyti milli Íslands og útlanda og gera tillögur um það.“
Tillaga þessi var samþykkt í einu hljóði.
Við athugun kom í ljós, að þráðlaus firðritun virtist mun dýrari en gert hafði verið ráð fyrir eða menn yfirleitt búizt við.
Og svo liðu tvö ár eða rúmlega það.
Hinn 1. febrúar 1904 urðu stjórnarskipti með markverðum viðburði. Íslendingur varð ráðherra, og stjórnarskrifstofan flyzt heim til Íslands. Hannes Hafstein var tilnefndur valdamaður í landinu, íslenzkur ráðherra.
Þá horfði símamálið þannig við, að heimild lá fyrir frá Alþingi um að gera samning um ritsíma milli Íslands og útlanda og jafnframt heimild til þess að verja kr. 35.000,00 á ári næstu 20 árin til þess að standa straum af kostnaðinum.
Íslenzki ráðherrann tók nú símamálið allt til rækilegrar athugunar með nánustu samstarfsmönnum sínum. Hann virðist hafa haft náin bréfaviðskipti við ýmsa málsmetandi menn um málið bæði í Lundúnum og í Kaupmannahöfn.
Á sama tíma vann ráðherra opinberra framkvæmda í Danmörku af alhug að framgangi málsins. Sá var E. Hage samgöngumálaráðherra.
Síðari hluta sumars 1904 ferðast íslenzki ráðherrann síðan til Lundúna til þess að kynna sér kostnað og fleira við þráðlausu firðritunina til landsins, og svo þaðan til Kaupmannahafnar til þess að kynna sér ,,hina leiðina“, sæsímamálið. Þegar þangað kom, hafði danski ráðherrann svo að segja samið við Mikla norræna ritsímafélagið um lögn sæstrengsins til Íslands og náð þeim skilyrðum og kjörum, að íslenzki ráðherrann gat vel við unað, einnig um lögn símalínu frá Austfjörðum norður um land til Reykjavíkur.
Hinn 26. september 1904 voru undirritaðir samningar við Mikla norræna ritsímafélagið um allar þessar risavöxnu framkvæmdir. Að samningum þessum undirrituðum hvarf Hannes ráðherra aftur heim til Íslands.
Helztu samningsatriðin voru þessi:
1. Norræna ritsímafélagið fékk einkaleyfi til símalagningar til Íslands frá Hjaltlandi um Þórshöfn í Færeyjum til Austur-Íslands.
2. Lagningu símans skal lokið eigi síðar en 1. okt. 1906, ef ófyrirsjáanlegar hindranir hamla ekki.
3. Einkaleyfi félagsins gildir í 20 ár. Vilji Ritsímafélagið ekki endurnýja leyfið til reksturs símans án allra styrkja að tuttugu árunum liðnum, geta Danir og Íslendingar í sameiningu krafizt þess, að símakerfi þetta sé afhent þeim endurgjaldslaust til fullrar eignar þannig, að Danir eigi 2/3 fyrirtækisins og Íslendingar 1/3 hluta.
4. Hið mikla norræna ritsímafélag veitir kr. 300.000,00 til landsímalagningar frá Seyðisfirði til Reykjavíkur.
5. Viðhald og rekstur sjálfs landsímans kostar landssjóður Íslands og fær jafnframt allar tekjur af honum, en sæsímanum, millilandasambandinu, verður haldið við á kostnað félagsins gegn kr. 54.000,00 á ári í 20 ár úr ríkissjóði Dana og kr. 35.000,00 úr landssjóði Íslands jafnmörg ár.
Naumast hafði Hannes ráðherra stigið aftur á land hér heima, er andstæðingar hans í stjórnmálunum, og þá alveg sérstaklega Ísafoldarliðið, hóf hatrama sókn á hann fyrir samningana um lagningu símans og rekstur.
Að sjálfsögðu urðu mikil átök um mál þetta allt á Alþingi 1905, en 21. ágúst lauk endanlega umræðum um málið, og þá samþykkti þingið frumvarpið um ritsímalagningu til Íslands og svo lagningu landssímans frá Austfjörðum norður um land til Reykjavíkur.
Eftir það hófust árásirnar á Hannes ráðherra fyrir alvöru og stjórn hans. Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar skrifaði og úthúðaði samningnum í blaði sínu, og hann og hans menn skrifuðu fylgifiskum sínum um allt land og hvöttu þá til þess að boða til mótmælafunda, mótmæla þessum fyrirhuguðu framkvæmdum fyrst og fremst á þeim grundvelli, að þjóðin risi aldrei undir þeim gífurlega kostnaði, sem leiddi af framkvæmdum þessum. Þjóðinni yrði gjörsamlega reistur hurðarás um öxl fjárhagslega, sem svo hamlaði sjálfstæðisbaráttu hennar um ófyrirsjáanlega framtíð.
Hér læt ég fylgja nokkrar fundarsamþykktir utan af landsbyggðinni, svo að glöggur lesandi geti betur gert sér í hugarlund mótmælin og svo æsingarnar, sem andstæðingar Hannesar ráðherra gátu komið fólkinu í, og svo öll þau stóryrði, er sumstaðar voru notuð í samþykktum þessum. Mörgum var heitt í hamsi, enda var mál þetta eitt allra mesta framfaramál íslenzku þjóðarinnar fyrr og síðar, en skilningurinn á gildi þess ofvaxinn öllum almenningi.
Þingmálafundur á Blönduósi 28. apríl 1905:
,,Fundurinn lýsir megnustu óánægju yfir því, hafi ráðherrann gert samning við ritsímafélagið danska (Stóra norræna) um ritsímalagningu hingað að Alþingi forspurðu, og skorar á þingið að vera einkar varkárt í því máli og samþykkja ekkert í því, er sé kröftum þjóðarinnar ofvaxið. Einnig, er samningur þessi er gjörður, að Alþingi láti vandlega rannsaka, hvort ráðherrann hefur haft heimild til að gera slíkan samning.“
Þingmálafundur á Hellissandi Snæfellssýslu 14. júní:
,,Fundurinn skorar á Alþingi að gæta þess vandlega, að landinu verði ekki reistur hurðarás um öxl með fjárframlögum til ritsímans.“
Samþykt í einu hljóði.
Þingmálafundur í Ísafjarðarkaupstað 31. maí. Tillaga:
,,Fundurinn telur ritsímasamning stjórnarinnar við norræna ritsímafélagið ekki samkvæman fjárlögunum og skorar á Alþingi að samþykkja ekki nein þau fjárframlög í því máli, er ofvaxin séu kröftum þjóðarinnar.“
Tillagan var samþykkt með 24 samhljóða atkvæðum.
Þingmálafundur á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu 19. júní 1905. Ritsímamálið:
,,Um leið og fundurinn lætur í ljós, að samningur sá, sem ráðherrann hefur undirritað um hraðskeytasambönd með hinu stóra norræna fréttaþráðafélagi, verði að álítast alveg óhæfur og andstæður hagsmunum Íslands, bæði fjárhagslega og í bága við sjálfstjórnarfrelsi landsins, vill fundurinn skora fastlega á þingmenn kjördæmisins og þingið í heild sinni að hafna umsvifalaust aðgerðum landsstjórnarinnar í þessu efni, þegar af þeirri ástæðu einni, að þær aðgerðir eru ósameinanlegar við frelsi löggjafarvaldsins gagnvart umboðsvaldinu.
Einnig vill fundurinn eindregið skora á þingið, sérstaklega fyrir sakir þess, sem fram er komið í þessu eina málefni, að varðveita þingræðið og frelsi sitt á komandi tímum með því að heimta, að hinn núverandi ráðherra víki úr völdum.“
Tillaga þessi var samþykkt með 26 atkvæðum.
Þingmálafundur á Hofsósi 5. júní.
,,Fundurinn lýsir megnri óánægju yfir samningi þeim, sem ráðherra hefur gert um ritsíma til landsins.
Sérstaklega þykir fundinum stjórnin hafa farið út fyrir lagaheimild með ráðstöfunum þeim, sem hún hefur gert til símalagningar yfir land.“
Samþykkt með 14 gegn 5 atkvæðum.
Þingmálafundur í Vestmannaeyjum 25. júní 1905. Ritsímamálið:
„Fundurinn telur hraðskeytasamband við önnur lönd æskilegt, en vill eigi sæta þar neinum afarkostum, og hyggur, að ritsímasamningurinn frá í haust sé ofvaxinn fjárhag landsins, hafi eigi heimild í gildandi fjárlögum og sé því hættulegur fjárforræði voru og þingræði, og skorar fastlega á þingið að samþykkja ekkert í því máli, sem sé efnahag þjóðarinnar um megn. Jafnframt skorar fundurinn á þingið að sæta þeim kjörum í hraðskeytamálinu, sem bezt eru fyrir landið og mótmælir fjárframlögum til hraðskeytasambands áður en þingið hefur bundið enda á málið frá þjóðarinnar hlið.“
Samþykkt í einu hljóði.

Fleiri tugum fundarsamþykkta í þessum dúr víðsvegar úr hinum dreifðu byggðum landsins svo að segja rigndi yfir ráðandi menn þjóðarinnar. Alls hef ég lesið yfir 50 slíkar samþykktir.
Ekki voru samþykktir þessar allar á einn veg.
Þingmálafundur á Eskifirði 5. júní 1905. Ritsímamálið:
„Fundurinn lýsir í einu hljóði ánægju sinni yfir framkvæmdum ráðherra Íslands í ritsímamálinu.“
Þingmálafundur að Hrafnagili í Eyjafirði 12. júní 1905:
,,Fundurinn lýsir yfir því, að hann eftir atvikum ber fullt traust til ráðherra Íslands fyrir samninga hans í ritsímamálinu fyrir Íslands hönd, og telur þá vera fullkomlega eftir óskum þings og þjóðar.“
Tillaga þessi var samþykkt með 58 atkv. gegn 11.
Jafnframt þessum fundahöldum um land allt, þar sem samningunum um símalagninguna var mótmælt kröftuglega, hófust víða almennar undirskriftir til þess að fylgja vel fram fundarsamþykktum.
Undirskriftaskjölin gengu milli manna. Þar var beitt hinum fjarstæðukenndasta áróðri til ófrægingar og hnekkis ráðherranum.
Í handriti að grein, er séra Jes A. Gíslason skrifaði eitt sinn um símamálið, skrifar hann á þessa leið og segir frá viðburði, sem átti sér stað í sókn hans í Mýrdalsþingum, er hann var þar prestur:
,,Ég var nýfluttur austur í Skaftafellssýslu (séra Jes varð prestur í Mýrdalsþingum 2. maí 1904), er mál þetta (símamálið) var í fæðingunni. Þar kom ég á bæ nokkurn og ræddi um hríð við húsbóndann.
Í lok samtalsins spurði hann mig, hvort ég hefði ekki séð skjalið, sem verið væri nú að skrifa undir. Hann lýsti að nokkru innihaldi þess, og þóttist ég skilja, hvað hér væri um að vera. Ég spurði hann, hvað maðurinn héti, sem stæði fyrir þessu, sem fyllti hann og ýmsa aðra þessari skelfingu. Hann kvaðst ekki muna það. Nafnið væri óvanalegt; en þetta er landráðamaður, sagði hann með áherzlu (þ.e. Hannes Hafstein). Lauk svo samtali okkar.
Tæp vika leið. Þá var ég staddur á kirkjustað skömmu fyrir messu. Ég sá þá, að maður nokkur þar í sveitinni rétti skjal að bónda nokkrum mér vel kunnugum og bað hann að skrifa undir. Bóndinn las skjalið, snýr sér síðan að mér og spyr, hvort ég álíti það rétt að skrifa undir skjal þetta. Um leið rétti hann mér skjalið. Þetta var þá skjalið um landráðamanninn! Þegar ég hafði lokið lestri þess, fékk ég bóndanum það með þeim ummælum, að ég vonaðist til, að hann gerði sig ekki að því fífli að skrifa undir það.
Hann hætti við að skrifa undir, og enginn af þeim, sem þar voru inni, léðu nafn sitt undir skjal þetta.
Svo fór um sjóferð þá. Ég átti þó eftir að kynnast þessu margumrædda skjali. Það leit svo út sem það fylgdi mér eins og skugginn.
Nokkrum dögum síðar kemur maður heim til mín og afhendir mér stórt bréf. Ég spurði hann, hvaðan bréf þetta væri, og tilgreindi hann nafn sendanda. Þarna var þá enn komið undirskriftarskjalið, en engin lína fylgdi með.
Af því að ég þekkti mann þann, sem sendi mér skjalið, og af því að ég þóttist vita, að hann hefði verið beðinn að safna undirskriftum, þá vildi ég þó að hann sæi þess merki, að bréfið hefði komið í mínar hendur. Þess vegna skrifaði ég á skjalið tvö nöfn: Ögmundur löðurkúfur og Helgi beinrófa. Síðan endursendi ég honum það. Við hlógum dátt að þessu, er við sáumst næst. Fleiri skjöl af þessu tagi sá ég ekki framar ...“
Andstæðingar Hannesar Hafsteins og Heimastjórnarflokksins óskuðu einskis frekar, en að gera símamálið að þrætuepli, sem leiða mætti til hnekkis ráðherra og stjórnmálagengi hans og valdi. Þess vegna voru bændur og búaliðar hvattir til að leggja land undir fót og flykkjast til Reykjavíkur, er á sumarið leið, til þess að herða á mótmælunum við valdamenn landsins.
Þegar leið á sumarið 1905, tóku bændur á Suðvesturlandinu og sveitum Suðurlandsins að hugsa til Reykjavíkurferðarinnar, mótmælaferðarinnar samkvæmt samþykktum andstæðinga Hannesar ráðherra og símamálsins, og svo eftir pöntunum Björns Jónssonar ritstjóra og fylgifiska hans.
Hinn 1. ágúst flykktust bændur til höfuðstaðarins til að bera fram kröftug mótmæli gegn ritsímasamningnum.
Ég minnist þess enn, að Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri sagði eitt sinn okkur nemendum sínum ítarlega frá þessari mótmælaheimsókn. Það var veturinnn 1918 eða tólf og hálfu ári eftir atburðinn. Skólastjórinn kom einmitt heim frá námi í Danmörku sama sumarið og heimsóknin átti sér stað. Vilhjálmur faðir hans bjó þá á Rauðará, jörð sinni skammt utan við Reykjavík þá, og hafði góða aðstöðu til að fylgjast með helztu viðburðum í höfuðstaðnum.
Til þess að hindra að nefnd eða nefndir þær, sem andstæðingar ráðherrans sendu á fund hans til að mótmæla gjörðum samningi, strunsuðu upp á efri hæð og um allt gamla stjórnarráðshúsið við Lækjartorg, var Klemens Jónsson, landritari, látinn standa í stiganum. Hann var stór vexti og sterklegur og ekkert árennilegur persónuleiki, þar sem hann, viðbúinn öllu, ygldi brún og beið átekta.
Allt fór þó þetta friðsamlega fram. Ráðherrann veitti viðtal á fyrstu hæð hússins og kvaðst halda fast við gjörðan samning.
Þegar sendimenn stigu út úr byggingunni og tjáðu félögum sínum úti fyrir svör ráðherrans, var hrópað: „Niður með stjórnina!“
Þar með var endi bundinn á æsingarnar og tekið til óspilltra málanna að framkvæma stórvirkið.
Sumarið 1906 var lokið við að leggja sæsímastrenginn milli Hjaltlands, Færeyja og Austfjarða. Jafnframt var unnið að því að leggja landssímalínur frá Austfjörðum norður um land til Reykjavíkur, og svo að setja upp stöðvar á þeirri leið. Símalagningarmönnunum var skipt í 14 flokka og unnu í hverjum 15-20 menn. Meiri hluti símaverkamannanna voru norskir. Þar unnu einnig um 20 Danir.
Hinn 24. ágúst 1906 var sæsíminn opnaður til afnota milli Hjaltlands og Seyðisfjarðar. Þá sendi formaður Stóra norræna ritsímafélagsins símskeyti hingað til lands þess efnis, að sæsímalagningunni væri lokið.
Næstu sumur var svo haldið áfram að leggja símalínurnar út frá Reykjavík og víðar. T.d. var lokið við að leggja símalínu frá Reykjavík austur að Garðsauka í Rangárvallasýslu sumarið 1909.


II.
Sími milli lands og Eyja 1911

Stofnað Rit- og talsímafélag
Vestmannaeyja


Vestmannaeyingar minntust 50 ára kaupstaðarréttinda sinna með hátíðahöldum ýmiskonar dagana 15.-17. júní 1969.
Í heild hygg ég að fullyrða megi, að hinir ýmsu liðir hátíðahaldanna hafi orðið Eyjamönnum og kaupstaðnum til sæmdarauka, þrátt fyrir óhagstætt veður, sem leiddi af sér erfiðleika og spillti að ýmsu leyti hátíðarblænum, þar sem gert var ráð fyrir, að nokkur hluti hátíðahaldanna færi fram undir berum himni.
Sumir þeir, sem skrifuðu í landsblöðin í tilefni 50 ára afmælisins, komust svo að orði, að Vestmannaeyingar væru í ýmsu tilliti í fararbroddi um þjóðfélagslegt framtak og menningarlegar framfarir. Slík prentuð orð viljum við Vestmannaeyingar gjarnan lesa og lesum með ánægju, af því að við finnum með sjálfum okkur, að þau eru sönn en ekki spott eða uppspuni, innantóm hólyrði. Við leggjum sjálfir hlutina á metaskálarnar og finnum, sjáum og vitum, að orð blaðamannanna eru í mörgu tilliti sönn og réttmæt, eins og rúm okkar er skipað nú í íslenzka þjóðfélaginu og staða okkar, þegar 70 ár eru liðin af 20. öldinni. Konsúlatímabilið með hinum tveim menningarskautum sínum og fyrirbrigðum í hugsun og athöfn er um garð gengið.
Persónulega dái ég marga þá menn hér í bæ, sem gengið hafa í fararbroddi á undanförnum áratugum og rutt margskonar framfaramálum braut á atvinnusviðinu. Þeir hafa skapað með framtaki sínu og hyggjuviti Eyjafólki í heild mannsæmandi afkomu og viðunandi menningarskilyrði með fádæma dugnaði og atorku, framtaki og víðsýni, hyggindum og velvild til bæjarfélagsins og Eyjabúa. Þó mætti hér minna á orðin kunnu úr Grettissögu: „Ekki skal skuturinn eftir liggja, ef allvel er róið í fyrirrúminu.“ Hér verður það þannig skilið, að lítið getur forustan í atvinnumálunum aðhafzt, ef verkamaðurinn og verkakonan valda ekki vel ár sinni, gera ekki sitt til þess að allt gangi og fari vel. Ekki á það síður við um sjómanninn.
Einn var sá maður, fæddur hér og upp alinn, sem neytti starfsorku sinnar og víðsýnis í ríkum mæli um tugi ára Eyjafólki til ómetanlegra hagsmuna. Það var Gísli J. Johnsen, útvegsmaður og kaupmaður. Hann skipaði hér hið æðra skaut í menningarlegum efnum. Það er því af engri fordild, að nafns hans hefur e.t.v. oftar verið getið á blaðsíðum Bliks á undanförnum áratugum en flestra annarra framtaksmanna hér í bæ.
Þar sem Blik skal fyrst og fremst vera safn sögulegra heimilda, hefur Eyjaskeggi þessi gefið tilefni til þess, að nafn hans væri þar oft nefnt.
Hér verður að nokkru minnzt eins hinna mörgu framfaramála, sem Gísli J. Johnsen beitti sér fyrir á sínum tíma og leiddi til farsælla lykta. Það stórmál er lögn símans til Vestmannaeyja sumarið 1911.
Eins og áður er tekið fram, var lokið við að leggja símalínu frá Reykjavík austur að Garðsauka sumarið eða haustið 1909. Þá fór símaendinn að nálgast Vestmannaeyjar. Þó höfðu Eyjamenn enga von um síma heim til sín. Veturinn 1909-1910 leið og svo sumarið 1910 án þess að nokkur hreyfing væri í þá átt að leggja sæsímastreng til Vestmannaeyja. Enginn vildi hætta fjármunum í svo vonlaust fyrirtæki, því að það gat aldrei skilað arði, ályktuðu flestir. En menn bollalögðu um loftskeyti milli Eyja og Reykjavíkur. Þó varð ekkert úr framkvæmdum.
Svo var það 20. maí 1911 að oddviti sýslunefndar Vestmannaeyja lagði fram á framhaldsfundi nefndarinnar bréf frá Sveini Björnssyni, yfirdómslögmanni í Reykjavík (síðar sendiherra og svo forseti Íslands). Í bréfi þessu fór yfirdómslögmaðurinn fram á að fá meðmæli sýslunefndarinnar til þess, að landsstjórnin veitti honum einkaleyfi á loftskeytasambandi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um 5 ára skeið. Eftir nokkrar umræður í sýslunefndinni bar oddviti hennar (Karl Einarsson, sýslumaður) upp svofellda tillögu:
,,Nefndin mælir með því eindregið, að leyfisbeiðandi fái hið umbeðna einkaleyfi um 4 til 5 ára bil, ef stjórninni ekki berst ábyggilegt tilboð um símalagningu á þessu ári milli lands og Eyja sýslunni að kostnaðarlausu innan 20 daga frá því umsækjandi leyfisins til loftskeytasambands sendir umsókn sína og býður fram þær tryggingar, sem stjórnin kann að heimta fyrir leyfinu.“ Tillögu þessa samþykkti sýslunefnd Vestmannaeyja með öllum greiddum atkvæðum.
Sýslunefndarmaðurinn Magnús bóndi Guðmundsson á Vesturhúsum bað bókað, að hann greiddi tillögunni atkvæði í trausti þess, að sambandið milli lands og Eyja yrði ritsímasamband. Jafnframt lýsti hann því yfir, að hann væri algjörlega á móti loftskeytasambandinu.
Þessi samþykkt sýslunefndarinnar snart viðkvæma strengi í brjósti fjölmargra Eyjabúa. Mjög margir þeirra áttu rætur að rekja til bændafólks í Suðurlandssveitunum frá Vikarskeiði vestri og alla leiðina austur í Austur-Skaftafellssýslu. Já, allur þorri þeirra var brotinn af bergi sunnlenzkra bændaætta. Og svo skyldi þannig högum hagað, að tæknin mikla, sem nú ruddi sér árlega til rúms um sambönd og samskipti fólksins í landinu, leiddi ekki til aukins sambands við ættfólkið og vini þar í Suðurlandsbyggðum þrátt fyrir allt!
Nú fannst forustumönnum ekki lengur til setunnar boðið. Hefjast skyldi handa og vinna að einu marki: Sæsímastrengur skyldi lagður til Eyja!
Séra Jes A. Gíslason skrifar: „Þegar í stað var hafin fjársöfnun meðal einstakra manna. Þessi fjársöfnun gekk svo greitt, því að frekar vel áraði, að innan skamms fékkst nægileg upphæð til þess að koma þessu þarfasta fyrirtæki Eyjanna í trygga höfn.“
Ójá, víst er þetta rétt og e.t.v. ekki rétt þó hjá séra Jes. Það fer alveg eftir því, hvað við köllum skamman tíma í þessu tilviki.
Hinn 22. maí (1911) boðuðu forgöngumenn símamálsins í Eyjum til almenns fundar í Goodtemplarahúsinu. Húsfyllir var og kapp og hiti í mörgum. Alþingi fékk þar sitt fyrir afstöðu þess gagnvart Vestmannaeyjabyggð í þessu mikilvæga máli, ritsíma- og talsímamálinu. Á fundi þessum var samþykkt einróma, að Vestmannaeyingar sjálfir skyldu leggja símann milli Eyja og lands og koma byggðinni í símasamband við landsbyggðina. Til þess þurfti mikið fé á þeirrar tíðar kvarða. Og fundarmenn buðu fram fé; síðasti eyririnn skyldi greiddur til þessa mikilvæga framtaks og fyrirtækis.

Gísli J. Johnsen kaupmaður, Breiðabliki.

Á fundinum söfnuðust þegar 12 þúsundir króna. Það var mikið fé árið 1911 og þó ekki nema fjórði hluti þeirrar fúlgu, sem áætlað var að kosta mundi að setja Vestmannaeyjabyggð í fullkomið símasamband við landsbyggðina.
Samhliða því að safna fé í Eyjum til framkvæmdanna var hafizt handa um að stofna hlutafélag til að hrinda verkinu í framkvæmd. Forustumaður þeirra félagssamtaka var Gísli J. Johnsen, útgerðarmaður og kaupmaður m.m. Félag þetta kölluðu þeir Rit- og talsímahlutafélag Vestmannaeyja. Í 3. grein félagslaganna segir svo: „Tilgangur félagsins er að stofna og starfrækja rit- og talsímasamband milli Vestmannaeyja og þeirra landsímastöðva, sem hentast þykir, svo og talsímasamband í Vestmannaeyjum.“
4. grein laganna var þannig orðuð: ,,Stofnfé félagsins er 30 þúsund krónur sem skiptast í 600 hluti og hver hlutur 50 krónur. Stjórn félagsins hefur heimild til að ákveða að auka stofnféð upp í allt að 40 þúsundir, en til aukningar þar fram yfir þarf samþykki aðalfundar.“
Lög félagsins voru annars 21 grein og svo „bráðabirgðarákvæði“ þessi: „Hluthafar greiði helming af hlutum sínum fyrir 1. júlí 1911 og síðari helming fyrir 1. september sama ár.“

Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri á Heiði.

Marga fundi héldu forgöngumennirnir með sér og nokkrum Eyjamönnum öðrum, áður en seinasti stofnfundurinn var haldinn hinn 18. júnímánaðar 1911.
Svo var fyrir mælt í 14. grein félagslaganna, að stjórn þess skipuðu fimm menn og skyldu þrír þeirra vera búsettir í Eyjum. Þannig var frá upphafi stefnt að því að safna fé, hlutafé utan Eyjanna og ættu þeir hluthafar þá trúnaðarmenn í stjórn félagsins.
Í stjórn Rit- og talsímahlutafélags Vestmannaeyja voru kosnir þrír valinkunnir Eyjamenn: Gísli J. Johnsen, formaður; Þorsteinn Jónsson, útvegsbóndi og formaður í Laufási og Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri á Heiði í Eyjum. Tveir stjórnarmennirnir voru búsettir í Reykjavík og höfðu beitt sér ótrauðir fyrir fjársöfnun þar og glætt skilning manna á nauðsyn fyrirtækisins. Það voru þeir Jón Þorláksson, þá landsverkfræðingur og áhrifamaður í stöðu sinni, síðar forsætisráðherra, og Jón Magnússon, þá bæjarfógeti í Reykjavík og alþingismaður Vestmannaeyinga, síðar forsætisráðherra.

Þorsteinn Jónsson, skipstjóri, Laufási.

Kveikt hafði verið í forustumönnum Rangæinga um þetta hugsjónamál. Þeir höfðu ekki minni áhuga en Eyjabúar um sambandið milli byggðanna. Frændur eru á stundum frændum beztir. Svo reyndust þeir í þessu máli. Björgvin Vigfússon, sýslumaður þeirra, beitti sér fyrir því í sýslunefnd Rangárvallasýslu, að sýslan legði fram úr sjóði sínum 6 þúsundir króna til kaupa á hlutabréfum í þessu sæsímafyrirtæki Vestmannaeyinga. Það var mikið fé þá.
Jafnframt öllu þessu mikla starfi tryggði formaður Rit- og talsímahlutafélags Vestmannaeyja, G.J.J., sér og Eyjabúum í heild velvild og hjálpsemi landsímastjórans, Norðmannsins O. Forbergs, til þess að fá leyfi landsstjórnarinnar til sæsímalagningarinnar og símatengsla í heild við landssímakerfið, og svo til kaupa á sæstrengnum og öllum tólum og tækjum til símans. Einnig verkfræðilega aðstoð við lögn hans bæði á sjó og landi.
Ekki var það lítill styrkur þessum sérlegu framkvæmdum öllum, að formaður Rit- og talsímafélagsins tryggði Eyjabúum áhrif hinna mætu manna, Jónanna beggja, sem skipuðu sætin sín í stjórn félagsins.
Landsímastjórinn áætlaði, að allur kostnaður við sæsímalögnina mundi nema 37 þúsundum króna. Í upphæð þeirri átti að felast kaupverð sæstrengsins sjálfs, flutningur hans til landsins og lögn hans yfir álinn milli lands og Eyja. Þá fólst einnig í verði þessu andvirði símastauranna, sem nota þyrfti frá Garðsauka niður til strandarinnar, suður á Hólmasandinn, og vinna við að grafa fyrir þeim og koma þeim fyrir. Einnig þurfti að kaupa öll tól og tæki í millistöðvarnar frá Garðsauka að Hólmasandi, en þær voru Hemla, Miðey og Hólmar. Milli Hólmasands og Eiðisins skyldi strengurinn liggja.
Því má skjóta hér inn, að allur kostnaðurinn við þessa símalögn með öllu og öllu nam 50 þúsundum króna.
Gísli J. Johnsen og stjórnarmennirnir, sem búsettir voru í Reykjavík, neyttu vináttu sinnar við fjárhagslega sterka aðila og svo áhrifaaðstöðu til þess að útvega kaupendur að hlutabréfunum utan Eyja og svo lán, þar sem hlutaféð hrökk ekki til.
Heimildir eru fyrir því, að þessir einstaklingar og fyrirtæki keyptu hlutabréf Rit- og talsímahlutafélags Vestmannaeyja eins og hér segir:
Jón Magnússon, bæjarfógeti í Reykjavík og alþingism. Vestmannaeyja, 20 bréf.
Th. Krabbe, verkfræðingur, 20 bréf.
Det Danske Petroleum Aktieselskab (D.D.P.A.), 20 bréf.
Holger Debell, 10 bréf.
Kaptajn Karl Trolle, 40 bréf.
August Flygering, kaupm., 10 bréf.
Jón Laxdal, kaupm., 10 bréf.
Hjalti Jónsson, skipstjóri, 20 bréf.
Jón Þorláksson, verkfræðingur, 4 br.
N.B. Nielsen, kaupm., 2 bréf.
Eggert Claessen, yfirréttarmálaflutningsmaður, 10 bréf.
Rangárvallasýsla 120 bréf.
Nú kostaði hvert bréf 50 krónur samkv. 4. gr. félagslaganna. Þessi 296 bréf eru þá að verðmæti rúmlega fjórðungur þeirrar upphæðar, sem þurfti til að greiða andvirði sæstrengsins og landsímans með öllu, sem því fylgdi.
Sameinaða gufuskipafélagið danska lánaði Rit- og talsímahlutafélagi Vestmannaeyja 10 þúsund krónur fyrir orð Gísla J. Johnsen. Það lán var til 10 ára og vaxtalaust. Þessi drengskapur hins danska skipafélags þótti Eyjabúum mjög þakkarverður.
D.D.P.A. útvegaði skip til þess að flytja sæsímastrenginn til landsins.
Von var á skipi til landsins með sæstrenginn um miðjan ágústmánuð. Þá tilkynningu hafði landsímastjórinn fengið. Þess vegna sendi hann 10. ágúst sex verkamenn með verkstjóra austur í Landeyjar. Þeir áttu að láta ferja sig þaðan til Vestmannaeyja, þar sem þeim var ætlað að undirbúa lögn sæstrengsins, áður en skipið kæmi til Eyja.
Verkamönnum þessum fylgdi einn af verkstjórum landsímastjórnarinnar, Norðmaðurinn Kristján Björnæs.
Guðlaugur Nikulásson, bóndi í Hallgeirsey, tók að sér að flytja menn þessa til Eyja. Þeir ýttu frá Landeyjasandi síðari hluta föstudagsins 11. ágúst og komu í höfn í Eyjum, þegar að kvöldi leið. Þeir hrepptu blíðuveður yfir Álinn.
Þegar hér var komið sögu, hafði Þórunn Jónsdóttir frá Túni í Eyjum rekið matsölu í Þingholti við Heimagötu (nr. 2) um tveggja ára skeið eða svo.



Magnús Oddsson frá Eyrarbakka. Hann var einn af hinum 6 verkamönnum, sem landsímastjórinn sendi til Eyja 1911 til þess að leggja sæsímastrenginn yfir Álinn og vinna að uppsetningu símans í Eyjum.
Magnús Oddsson er sonur Odds bónda Oddssonar frá Sámsstöðum í Fljótshlíð og k.h. Helgu Magnúsdóttur hreppstj. í Vatnsdal í Fljótshlíð.
Magnús Oddsson var símaverkstjóri á Eyrarbakka og síðan símstöðvarstjóri þar, f. 1892. Hann stjórnaði lagningu símans suður í Stórhöfða árið 1919. Magnús Oddsson er heimildarmaður að frásögn minni um gistingu símaverkamannanna hjá Þórunni Jónsdóttur í Þingholti.



Þarna fengu gestirnir satt hungur sitt, er þeir komu til Eyja þreyttir og svangir eftir róðurinn yfir sundið. Liðið var nær miðnætti, þegar þeir höfðu lokið við að matast. Þá kom til þerna Þórunnar matsölukonu til að losa sig við gestina og aflæsa húsi fyrir nóttina. En þá kom babb í bátinn.
Eðlilegt fannst gestunum það, að loka þyrfti húsi, þar sem liðið var fast að miðnætti. En hvar áttu þeir að gista? Í ljós kom, að þeim hafði enginn gististaður verið ætlaður. Aðeins höfðu forgöngumenn símamálsins hugsað fyrir gistingu norska verkstjórans.
Hann tók það hins vegar ekki í mál að yfirgefa félaga sína fyrr en þeim var tryggð gisting. Um þetta var rætt aftur og fram. Endirinn varð sá, að Þórunn veitingakona varð að leyfa gestunum að búa um sig í matstofunni í Þingholti. Þar gisti líka norski verkstjórinn. Þarna bjuggu þeir um sig ýmist á stólum eða gólfinu og lágu við lánuð teppi og svo yfirhafnir sínar, það sem eftir lifði nætur.
Daginn eftir leituðu símamennirnir á náðir frænda sinna í kauptúninu, eða kunningja eða þá annarra, sem vildu hýsa þá „málefnisins vegna“, þar til skipið kæmi með sæsímastrenginn og lögnin gæti hafizt.
Daginn eftir gistinguna í Þingholti, eða laugardaginn 12. ágúst, tóku þeir þá ákvörðun að skemmta sér á þjóðhátíð Vestmannaeyja, sem hófst þá eftir hádegi. Þá var það Kvenfélagið Líkn, sem stóð fyrir þjóðhátíðinni í Herjólfsdal. Gestirnir fengu lánuð „spariföt“ hjá þeim, sem áttu þau til skiptanna og skemmtu sér síðan sérlega vel með Eyjabúum þarna í Dalnum, þó að dumbungsveður væri.
Mánudaginn 14. ágúst hófu svo gestirnir sjö að undirbúa komu skipsins með sæsímastrenginn. Stefnt var að því að tök yrðu á að leggja sæstrenginn milli Eyja og lands, þó að brim yrði við Eiðið og Landeyjasand, þegar skipið kæmi.
Kaðall var lagður frá Hólmasandi út fyrir yzta sandrifið og dufl haft þar við endann og þungur stjóri. Samskonar undirbúningur fór fram norðan við Eiðið.
Á sjálfri Maríumessunni, mánudaginn 15. ágúst, kom svo skipið með sæsímastrenginn. Þetta var þýzkur togari, „Polarstern“ (Pólstjarna) að nafni. Hófst þá strax lögn sæsímastrengsins yfir sundið út frá Eiðinu. Lögnin gekk sérlega vel, enda bezta veður, norðan kaldi og bjartviðri.
Botninn norður af Eiðinu hafði verið kannaður nokkuð, svo að tök yrðu á að leggja strenginn á sem hættuminnstum botni, fram hjá bríkum og hraunsnögum, sem þar eru víða á hraunbotninum. Dálítil sandgeil fannst þarna á milli hraunbríka, og var seilzt eftir að fylgja henni svo langt sem kostur var. Vegalengdin eða strengurinn, sem lagður var, reyndist vera 13 km.
Við sandinn varð skipið að liggja langt frá landi vegna sandrifs þess, er þar liggur svo að segja fyrir allri ströndinni. En sökum hagfellds og góðs undirbúnings gekk mjög vel að koma sæsímastrengsendanum á land. Þar voru margir menn í sandi, sem lögðu ótrauðir hönd á plóginn og drógu strengendann svo langt upp á ströndina, sem þurfa þótti. Þungur var drátturinn, því að strengurinn var gildur.
Séra Jes A. Gíslason, skrifstofustjóri Edinborgarverzlunar, getur þess, að frá margra sjónarmiði hafi þetta verið einhver mesti „happadráttur“, sem þarna hafði verið á land dreginn til hagnaðar og hamingju öllum Suðurlandsbyggðum, og þó fyrst og fremst Vestmannaeyjabyggð.
Forberg landsímastjóri hafði fest kaup á sæstrengnum, 13 km löngum. Fyrstu 1.500 metrarnir af honum út frá Eiðinu voru gildari en strengurinn ella vegna hraunbotnsins þar norður af og því hættu á sliti.
Þá annaðist landsímastjóri kaup á öllu öðru efni, stóru og smáu, sem þurfti til framkvæmdanna. Einnig lánaði hann verkamenn frá Landsímanum, menn, sem vanir voru verkinu og höfðu, sumir a.m.k., tæknilega kunnáttu til brunns að bera, svo að allt yrði rétt og vel unnið.
Vitaskuld fékk landsímastjóri skriflegt umboð frá Rit- og talsímahlutafélagi Vestmannaeyja til þess að framkvæma innkaupin og skuldbinda félagið til greiðslu á öllu saman. Hér birti ég umboðið til handa landsímastjóra:
„Til herra landsímastjóra O. Forberg, Reykjavík.
Hér með veitir undirrituð stjórn Rit- og talsímahlutafélags Vestmannaeyja yður fullt og ótakmarkað umboð til þess að gjöra innkaup á öllu efni og áhöldum til hinnar fyrirhuguðu símalínu milli Garðsauka og Vestmannaeyja ásamt tilheyrandi stöðvum.
Einnig veitum vér yður umboð til þess að ráða verkstjóra og fólk til að framkvæma verkið og gjöra aðrar ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að símasamband milli Vestmannaeyja og meginlandsins komist sem fyrst á.
Ennfremur veitist yður umboð til þess að gjöra samning við hreppstjóra þá, þar sem síminn kemur til að liggja á landi, um símstöðvar og annað, er með þarf.
Til leiðbeiningar skal tekið fram, að nú eru lofaðar um 24 þúsund krónur í hlutum, og væntir stjórnin, að eitthvað bætist við þá upphæð síðar meir.
Stjórnin lofar að sjá um greiðslu á öllu því, er þér kaupið inn til símans.

Vestmannaeyjum, 2. júní 1911.
Gísli J. Johnsen, Sigurður Sigurfinnsson, Þorsteinn Jónsson.“

Hinn 30. júní sumarið 1911 kom norskt skip til Vestmannaeyja og lagðist við akkeri á Víkinni í vestan andvara og björtu veðri. Það var gufuskipið Stralsund. Farmur þess var einvörðungu símastaurar frá Noregi, sem notast áttu til að bera uppi símalínu frá Garðsauka fram til strandar, þar sem sæsíminn frá Eyjum yrði lagður á land. Hinn norski skipstjóri afsagði með öllu að afferma skipið upp við Landeyjasand eða suðurströndina af ótta við útfirið eða sandrifin. Þess vegna varð að flytja alla staurana fyrir afli vélbáta frá Eyjum til lands. Þetta allt sannast og skýrist með bréfi, sem formaður Rit- og talsímahlutafélags Vestmannaeyja, Gísli J. Johnsen, skrifaði Guðmundi bónda Sigurðssyni í Litlu-Hildisey. Hann sendi bréfið með vélbáti, sem dró fyrstu símastaurana norður að Hólmasandi, þar sem þeir voru dregnir á land. En Guðmundur bóndi er enn þekktur mætismaður hér í Eyjum, Guðmundur Sigurðsson frá Heiðardal við Hásteinsveg, sem enn býr hér, nú 88 ára að aldri.
Bréf þetta var dags. 1. júlí 1911 eða daginn eftir að skipið Stralsund kom til Eyja með staurana, og orðaðist þannig:

„Herra Guðmundur Sigurðsson, Hildisey.

Símastaurarnir komu hingað í gærkvöldi með skipi beint frá Noregi. Og þar eð ekki er nærri því komandi að fá skipið til að fara upp að sandinum með þá, varð að neyðast til að skipa þeim upp, og verður svo að reyna að koma þeim í flotum til lands. Ég vil því biðja þig samkvæmt umtali, er þú varst hér á ferð síðast, að veita þeim mótttöku í Sandinum og sjá um flutning þeirra upp á grös. Hvað svo við tekur, veit ég ekki, en hygg þó að Forberg símstjóri hafi samið við viðkomandi hreppsnefndir um flutning úr því. Ef mögulegt reynist, verður byrjað að flytja þá héðan strax í nótt, og gjöri ég ráð fyrir að það verði alls einir 5 flotar.
Ég bið þig auðvitað að gjöra þetta við svo litlum kostnaði, sem mögulegt er. Hér á í hlut almenningur og verður því ekki síður þess vegna að halda vel og sparlega á, og treysti ég þér til hins bezta í því efni.

Virðingarfyllst.
Gísli J. Johnsen.“

Alls höfðu þá 35 menn óskað þess að fá síma í hús sín í Vestmannaeyjum og æsktu 18 eftir símaáhöldum hangandi á vegg en 17 vildu fá tæki, sem stæðu á borði.
Í samvinnu við landsímastjórann var jafnframt unnið að því að komið yrði á stofn í Vestmannaeyjum „símritandi veðurathugunarstöð“. Í bréfi frá landsímastjóra voru sett fram ákveðin skilyrði fyrir því, að þessi stöð yrði stofnsett í Vestmannaeyjum. Í bréfi Landsímastjóra varðandi þessa veðurfregnastöð eru tekin fram nokkur atriði, sem eru skilyrði hans fyrir því, að þessu velferðarmáli útvegsins og sjómannastéttarinnar í kauptúninu sérstaklega verði sinnt að svo stöddu. Skilyrði Landssímans og Stóra norræna ritsímafélagsins voru þau, að símstöðvarstjórinn í Vestmannaeyjum fái í sinn hlut óskiptar þær kr. 300,00, sem Landssíminn hefur til umráða til greiðslu fyrir þessa þjónustu. Skal þá símstöðvarstjórinn í Vestmannaeyjum senda veðurskeytin á morgnana og taka á móti veðurfregnum ,,frá hinum símritandi veðurathugunarstöðvum innanlands og frá Þórshöfn í Færeyjum,“ eins og það er orðað í gildri heimild.
Hinn 29. ágúst eða á sjálfan höfuðdaginn komu til Eyja 2 eða 3 tæknifræðingar frá Landssímastjórninni með tæki og tól til þess að koma á talsímasambandinu á milli Eyja og Reykjavíkur og svo allrar landsbyggðarinnar.
Hinn 6. september (1911) átti sér stað fyrsta símasambandið milli Eyja og Reykjavíkur. Það gerðist af Eiðinu, hinu gamla og kunna Þrælaeiði.
Hinn 8. sama mánaðar var ritsíminn tekinn í notkun og „símskeyti dynja að hvaðanæfa,“ segir í merkri samtímaheimild.
Síminn var lagður á staurum frá Eiðinu vestur fyrir Botninn og austur í Boston, gömlu brauðsölubúðina, sem varð fyrsta símstöðin í Eyjum. Þetta var lítið hús, sem rifið var fyrir fáum árum. Það stóð rétt austan við verzlunarhús Verzlunarfélagsins gamla, þ.e. rétt austan við Njarðarstíg 4, efst við Formannasund, sem nú heitir Formannabraut, síðan sund þetta var breikkað og mótað á nútíðarvísu eins og vegur eða braut, sem síðan var malbikuð. Boston var gamalt brauðsöluhús, sem Stefán Gíslason frá Hlíðarhúsi lét byggja. Þar seldi hann brauð á sínum tíma. Þess vegna var hús þetta kallað Brauðsölubúðin öðru nafni, eina brauðsölubúðin í kauptúninu um nokkurt skeið.


ctr


Gamla brauðsölubúðin. Við hinir eldri Vestmannaeyingar þekkjum sjálfsagt betur þetta hús undir nafninu Boston. Þetta hús var byggt árið 1903 og átti sér markverða sögu. Það var rifið fyrir fáum árum.
Stefán Gíslason í Ási eða frá Hlíðarhúsi mun hafa látið byggja hús þetta. Hann rak einhvers konar brauðgerð um tíma eftir aldamótin og lét selja framleiðsluna í húsi þessu. Þar af kom fyrsta nafnið á því.
Þegar síminn var lagður til Eyja árið 1911, var það gert að símamiðstöð (1911-1912). Hinn 12. september 1913 var opnuð ný vefnaðarvöruverzlun í „Brauðsölubúðinni gömlu“, eins og segir í merkri dagbók frá þessu ári.
Egill kaupmaður Jakobsen frá Reykjavík stofnsetti þessa vefnaðarvöruverzlun og hafði þá fengið ,,Gömlu brauðsölubúðina“ á leigu í þessu skyni. „Rífandi ös í gær og í dag,“ stendur skráð í dagbókinni 13. sept. 1913. Einar Sigurðsson (ríki) frá Heiði hér í Eyjum hóf verzlunarferil sinn í Boston árið 1924, og var hann þá 18 ára gamall. Eftir hann ráku ýmsir verzlun í húsi þessu. Boston var rifið fyrir nokkrum árum.
Það stóð efst við Formannabrautina að vestanverðu, aðeins austan við Njarðarstíg 4, verzlunarhús Helga Benediktssonar, áður verzlunarhús Verzlunarfélags Vestmannaeyja.
(Þessa mynd lét ég taka af húsinu vegna hinnar merku sögu þess nokkru áður en það var rifið. Þ.Þ.V.

Í októbermánuði um haustið (19. okt., segir ein heimildin) var hafið það verk, að setja niður símastaura í kauptúninu. („Telefonstaurar“ voru þeir þá nefndir).
Símstöðvarstjóri var ráðinn Petersen, tengdasonur Gísla kaupmanns Stefánssonar í Hlíðarhúsi.
Nú var sigur unninn í þessu mikla menningarmáli byggðarlagsins og fannst þá „stórmennum“ þess mál til komið að fá sér eilítinn glaðning til minningar um unnin afrek. Þetta samsæti „stórmenna“ átti sér stað 2. desember 1911. Svo segir um það í merkri heimild: „Samsæti hjá stórmennum þessa byggðarlags í tilefni af símasambandi til Eyja. Etið og drukkið í dýrðlegum fagnaði.“ Og svo eru sett tvö háðsmerki á eftir þessum orðum í dagbók.


ctr


Símstöðvarhúsið gamla í Vestmannaeyjum. Meginhluti þess a.m.k. var byggður 1911, þegar verið var að vinna að kaupum á sæsímastrengnum milli lands og Eyja og lagningu hans yfir Álinn.


Rit- og talsímahlutafélag Vestmannaeyja var veitt einkaleyfi til reksturs símans í eitt ár, og skyldi það einkaleyfi framlengt til 10 ára, ef landstjórnin að fyrsta árinu liðnu óskaði ekki að yfirtaka reksturinn og kaupa allt símakerfi Eyjamanna. Að fyrsta árinu liðnu kom í ljós, að mikill hagnaður, beinn fjárhagslegur hagnaður, var af símarekstri Eyjamanna. Afréð þá landsstjórnin að ríkissjóður (landssjóður) skyldi kaupa allt símakerfi Vestmannaeyinga samkvæmt samningi, kerfið í heild með þrem símstöðvum á fastalandinu (í Hemlu, Miðey og Hólmum), sæstrenginn og alla símastaura bæði á fastalandinu og á Heimaey. Greitt var kostnaðarverð fyrir allt þetta símakerfi að frádregnum 1.500 krónum (fimmtán hundruðum kr.), sem samkomulag náðist um. Það taldist vera rýrnun (fyrning) á símakerfinu í heild eftir fyrsta rekstursárið.
Hluthafar fengu 15% arð af hlutafé sínu, þegar upp var gert, og sannar það okkur, að tekjurnar urðu ríflegar, og fengu Eyjamenn ekki aðrar tekjur en þær, sem komu inn á þeirra kerfi. Þá má gera sér í hugarlund, hversu Landssíminn í heild græddi á þessu framtaki Eyjamanna.
Í riti því, sem Landssíminn gaf út á 20 ára afmæli sínu, er þessa framtaks Eyjamanna naumast getið. Gísli J. Johnsen skrifaði á sínum tíma um þessa hundsun Landssímastjórnarinnar á þessa leið:
,,... Hvort Vestmannaeyjar eru skoðaðar ekki þess verðar að minnast á þær eða eins og fyrir utan landslög og rétt eins og stundum lítur út fyrir, þegar Vestmannaeyjar eiga í hlut ...“

(Heimildir: Blaðagreinar; Fundargerðir sýslunefndar Vestmannaeyja; Dagbækur Brydeverzlunar í Byggðarsafni Vestmannaeyja; Lög fyrir Rit- og talsímahlutafélag Vestmannaeyja; frásögn Magnúsar Oddssonar o.fl.)