Blik 1971/Páll Bjarnason, skólastjóri, síðari hluti
Auka skyldi stórum garðyrkjuna í bænum
Stofna skyldi þar til skólagarða,
sem gætu verið þáttur í uppeldi æskulýðsins í kaupstaðnum.
Páll skólastjóri var vel að sér í garðrækt, eins og áður er á drepið. Hann bar skyn á ræktun margra hollra og nauðsynlegra nytjajurta, sem hann vissi að gætu þrifist vel í Vestmannaeyjum.
Ég minntist á það, að Páll stundaði garðyrkjunám í Reykjavík hjá hinum landskunna garðyrkjumanni þar, Einari Helgasyni. Síðan dvaldi Páll úti í Noregi við garðyrkjunám. Hann skrifaði margar greinar um garðyrkju og skynsamlega um ræktun ýmissa garðjurta, og hann áleit, að aukin neyzla þeirra gæti að nokkru leyti bætt Eyjafólki upp skortinn á nægri neyzlumjólk, sem þá var að verða alvarlegt vandamál fjöldamörgu fólki búandi í Eyjum. Þá voru þar aðeins um 100 mjólkandi kýr og íbúafjöldinn um 2.200 manns (1920). Þá lætur nærri, að um 22 munnar hafi þar verið um hverja kýrnyt til uppjafnaðar. Margar fjölskyldur, líka berklaveikt fólk, voru þar án mjólkur svo að segja árið í kring, með því að engin mjólk fluttist til Eyja úr nálægum sveitum Suðurlandsundirlendisins. Meðal annars hömluðu samgönguörðugleikar því gjörsamlega. Enda var það flestum hugsandi mönnum í Eyjum þá ljóst, að mjólkurskorturinn hafði geigvænleg áhrif á heilsufar fólksins. Berklaveikin var þá útbreidd í byggðarlaginu og fór í vöxt. Daglegri fæðu fólksins var að öðru leyti ábótavant.
Páll Bjarnason vildi láta auka garðræktina að miklum mun og gera ræktun alls kyns nytjajurta fjölbreyttari. Hann hafði trú á því, að aukin neyzla ýmisskonar garðávaxta, t.d. gulrótna og kálmetis, bætti heilsufarið og yki fólki mótstöðu gegn ýmsum aðsteðjandi sjúkdómum, t.d. berklaveikinni. Þá vildi hann láta skólagarða barnaskólans verða veigamikinn þátt í uppeldisstarfi skólans. Þeirri hugsun sinni lýsir hann með þessum orðum: „Hugsjónin um skólagarða er byggð á þeim óyggjandi sannleika, að hvert heilbrigt barn er fætt með sívakandi hvöt til að hafast eitthvað að, starfshvöt, sem verður að fá að svala sér á einhverju, en verkefnið vandfundið í skólanum, sem gagnast mætti uppeldinu andlega og líkamlega. Hér kemur og fleira til. Má þar til nefna útvalið tækifæri til að æfa og glæða skynjun barnanna og vekja hjá þeim lotningu fyrir náttúrunni lifandi og dauðri. Mönnum varð það ljóst, að svo góð, sem kennsla í náttúrufræði getur verið hjá góðum kennara í húsum inni, þá jafnast hún þó aldrei á við það að ganga fram fyrir náttúruna sjálfa, heyra hana segja upp lögin og sjá hana framkvæma þau um leið ...“
Síðan ræðir Páll ritstjóri um allan þann fróðleik, sem skólagarðarnir, gróandi jurtalífið, veitir börnunum. Hann segir: „Fræin ála, blöðin breiðast út, tréin laufgast, jarðstönglarnir skjóta frjóöngum, limarnar vaxa og blómin opna körfur og krónur. Greina má þar einnig áhrif moldarinnar og vatnsins, loftsins og ljóssins og hitans ... Margt fagurt má lesa á blöðum blómanna á björtum vordegi eftir úðaskúr. Loðgresið yfirgnæfir arfann, samtökin ráða úrslitum. Það er mannlífsmyndin mitt á meal blómanna.“
Mikið langar mig til þess, lesari minn góður, að biðja þig að hugleiða með mér síðustu orð uppalandans hér. Hann segir, að með samtökum getum við yfirskyggt hið illa, illgresið í mannlífinu, yfirbugað það, rétt eins og kjarnagrasið eða blöð nytjajurtanna vinna bug á illgresinu, sé því haldið í skefjum, meðan hið góða nær þroska til að vinna sigurinn fullkomlega.
Ég endurtek: Samtökin ráða úrslitum... Það er mannlífsmyndin mitt á meðal blómanna eins og í sjálfu mannlífinu.
Svo heldur ritstjórinn og hugsjónamaðurinn áfram: ,,Allt er lifandi í skólagarðinum, ekki málað eða troðið út. Það er náttúran sjálf, ættlandið og íbúar þess. Þarna sér barnið frjósemi fósturjarðarinnar ... Og hvað mundi svo arðmeiri auður en frjósöm feðragrund? Barnið verður gagntekið af hugsuninni um það, hversu dáðríkt það er og háleitt að græða glitrandi blómskrúð á brjósti jarðarinnar. Og hvað mun það svo hugsa um skapara og lífgjafa alls þessa? — Já, hvert eitt blað á blómi jarðar smáu er blað, sem margt er skrifað á um þig. Allt er orðið lifandi. Skólinn líka orðinn lifandi.“
Þessi orð skrifaði Páll Bjarnason og talaði fyrir daufum eyrum valdhafanna þá í Vestmannaeyjum. Ekki var á hann hlustað um þetta hugsjónamál. En allur almenningur í bænum las og lét sannfærast af orðum ritstjórans. Garðræktin í Vestmannaeyjum fór vaxandi ár frá ári, þó að engir yrðu þar skólagarðar. Skólastjóri gaf fræið.
Vorið 1924 stofnaði Páll Bjarnason, sem þá hafði stjórnað barnaskólanum í Eyjum í 4 ár, til samtaka með skólabörnum í bænum, nemendum úr tveim efstu deildum barnaskólans, um garðrækt. Hann gaf þá hverjum einum nemanda dálítið af fræi til reynslu og hvatningar. Hann tilkynnti síðan bæjarbúum, að fleiri börn á svipuðum aldri gætu komizt inn í samtök þessi, en áskilið var, að hvert barn yrði eigi skemur en tvö ár í samtökunum. Ekkert gjald skyldu þau greiða, en skólastjórinn hét þeim nægu fræi ókeypis og svo leiðbeiningum um ræktunina.
Tilgangurinn með samtökum þessum var fjórþættur:
1. Rækta skrautjurtir til að prýða kringum heimilin og safna blómum.
2. Læra að rækta matjurtir.
3. Læra að nota fleiri matjurtir til daglegrar fæðu en þá þekktust
í
Eyjum, en gátu þó vel vaxið þar til nytja.
4. Að kynnast lífi og starfi jurtanna, vexti þeirra og viðgangi.
Vandhæfni var á um þetta starf skólastjórans fyrir börnin og heimilin, því að barnaskólann skorti gott garðland. Það land fékk hann aldrei og þær hömlur urðu hugsjóninni brátt að aldurtila.
Í marzlokin 1924 skrifaði skólastjórinn skelegga grein í blað það, sem Kolka læknir gaf þá út í Eyjum og nefndi Skjöld. Þar segir hann m.a.: „Það mun leitun á stað, þar sem meiri þörf er á garðyrkju í góðum stíl en hér í Eyjum. Ber margt til þess. Mannfjöldinn er svo mikill, að mikið þarf að framleiða af garðjurtum, ef nokkuð á að muna um það til búdrýginda. Sjófangið og kjötmetið er miklu betri fæða, ef nægilegt er með því af svokölluðum „jarðarávexti“ ... Árið 1922 voru framleiddar hér tæpar 1.000 tunnur af kartöflum og 340 tunnur af rófum. Það ár var uppskeran talin varla í meðallagi.“
Skólastjóri ályktaði, að uppskera þessi hefði verið um 30 þúsund króna virði, miðað við verðlag þá á garðávöxtum. Svo heldur hann áfram að hvetja Eyjabúa: ,,Á hverju ári er flutt hingað firn af rófum úr nærsveitunum og kartöflur frá útlöndum...Rófur er óþarfi að flytja hingað í flestum árum, en auðvitað þarf að breyta tilhögun á ræktuninni, svo að rófnaræktunin beri sig vel ... Vinna þarf með vélum og koma upp fjölda af smágörðum handa verkafólki ... Margt verkafólk er hér í bænum, sem enga garðholu hefur, en gæti vel hagnýtt sér hana, ef til væri. Bezta úrræðið fyrir það væri að fá sér stóran reit í félagi og gera um hann öfluga girðingu og skipta svo landinu í smáreiti innan hennar ... Það er ekki hægt að bera garðyrkjuna saman við sjávarútveginn, því að hún er engin uppgripaatvinnuvegur. En hún er hentug og holl, gefur dálítinn og notalegan arð og veitir mikla ánægju.“
Engum blöðum er um það að fletta, að þessi hvatningarorð skólastjórans höfðu býsna mikil áhrif til athafna um aukna garðrækt í kaupstaðnum, enda þótt ekki yrði stofnað til skólagarða í kaupstaðnum fyrr en vorið 1951.
Stofna skyldi búnaðarfélag
í Vestmannaeyjum
Haustið 1917, svo sem mánuði eftir að Skeggi hóf göngu sína, vakti Páll ritstjóri máls á því, hversu Eyjabúum öllum væri nauðsyn á því, að stofnað yrði búnaðarfélag í Vestmannaeyjum. Þá höfðu engin búnaðarsamtök átt sér þar stað síðustu árin, ekki síðan Framfarafélag Vestmannaeyja lagði alveg upp laupana (1914), enda var nú foringinn mikli og ötuli, Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson, fallinn frá, og deyfð og drungi ríkjandi yfir öllum ræktunar- og búnaðarmálum Eyjabænda.
Páll ritstjóri skrifaði í Skeggja 17. nóvember 1917 um þörfina á búnaðarfélagi: ,,Ekki þarf lengi að leita eftir verkefnum handa búnaðarfélagi. Lítið aðeins á ræktunaraðferðina. Menn bauka hver í sínu horni, plóglausir og fastir við gömlu þaksléttuaðferðina, sem er hin langdýrasta aðferð, og gott ef ekki lakasta um leið ... Girðingar mætti spara stórlega með samtökum, og væri ekki lítið í það varið, eins og girðingarefni er dýrt ... Það er bersýnilegt, að með vaxandi mannfjölda muni verða hér hin mesta mjólkurekla, og er illt til þess að hugsa, þar sem svo mörg börn eru. Mætti nokkuð bæta úr mjólkurskortinum með aðfluttu fóðri. En varla verður lag á þeim fóðurkaupum nema með samtökum ... Garðyrkjan fyrir sig er svo mikils virði, að vegna hennar væru samtök vel gerandi, því að þar er svo margt, sem betur mætti fara ... Gott búnaðarfélag ætti að sameina hugi allra þeirra, sem við jarðrækt fást í Eyjum, svo að þeim yrði léttara að inna af hendi hina sjálfsögðu skyldu sína: Skila landinu fegurra, en þeir tóku við því ... Það varðar mestu að vera samtaka ...“ Hér talaði ritstjórinn fyrir daufum eyrum.
Vorið 1918 minnti ritstjórinn Eyjafólk aftur á hugsjón þessa. Þá skrifaði hann : „... Þeir ættu sjálfir (Eyjabúar) að hefjast handa og stofna til framfara í búnaði hér, sem hvarvetna annars staðar í landinu. Verkefnin skortir ekki og nauðsynin er þegar nóg til þess að koma á samkomulagi um afnot landsins. Það kemst aldrei á með því móti, að hver og einn nöldri í barm sér. Beinasta leiðin til umbóta er tvímælalaust sú, að nokkrir menn stofni fyrst til samtaka, sem láta sig þetta mál varða. Gætu þau samtök orðið deild í Búnaðarfélagi Íslands og unnið margt þarft þeim, sem fénað eiga og yrkja jörð. Þetta mun vera eina sýsla landsins, þar sem ekkert búnaðarfélag er ... Nú ættu nokkrir menn að taka sig saman og mynda félagið kringum sumarmálin ...“ (Skeggi 20. apríl 1918).
Þessi hugsjón P.B. fekk engan byr að sinni, heldur dróst það í 6 ár, að stofnað yrði búnaðarfélag í Vestmannaeyjum. Búnaðarfélag Vestmannaeyja var stofnað 1924. Tveim til þrem árum síðar rættist sú hugsjón Páls, að samkomulag náðist um ,,afnot landsins“, hins ræktanlega lands á Heimaey, sem bændur Eyjanna höfðu þá algjört einveldi yfir samkvæmt byggingarbréfunum.
Hugsjón Páls skólastjóra hafði rætzt: Búnaðarfélag Vestmannaeyja var stofnað og starfsemi þess var stórkostleg fyrstu árin. Komið er inn á þann þátt hinnar markverðu þróunar í þáttunum hér í ritinu um Hjónin á Kirkjubæ, Þorbjörn og Helgu og hjónin í Heiðardal, Guðmund og Arnleifi. Allir gerðust þessir menn frumherjar Eyjamanna í ræktunarmálunum og voru í fararbroddi þar um 15 ára skeið, einmitt á erfiðustu tímunum, tímum fjárkreppu og allsleysis til athafna í ræktunarmálum Eyjafólks. Forusta þeirra og framtak í þeim málum varð byggðarlaginu til ómetanlegrar blessunar, ekki sízt vegna þess, hve krepputíminn var viðsjárverður heilsu fólksins, vöntunin almenn og heilsa í hættu þess vegna.
Páll skólastjóri var ritari Búnaðarfélags Vestmannaeyja fyrstu árin, eftir að það var stofnað (1924) og jafnframt trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands um allar mælingar á jarðabótum í Eyjum fyrstu 10 árin eftir að Jarðræktarlögin tóku gildi og allar athafnir í búnaði nutu styrks úr ríkissjóði samkvæmt þeim. Í þessu stjórnar- og trúnaðarstarfi naut Páll Bjarnason sín vel, meðan heilsan entist og leyfði áreynslu. Hann var hygginn búmaður, sem gat leiðbeint öðrum og gerði það, enda vel fróður um alla venjulega ræktun, bæði garð- og túnaræktun, svo sem áður er drepið á. Einnig hafði hann vit á hagkvæmum byggingarframkvæmdum í þágu nýtízkulegs landbúnaðarreksturs. Allt varð það starf hans Eyjabúum til gengis og gæfu.
Skipakaup til björgunar- og
strandgæzlu
Ekki hafði Páll Bjarnason dvalizt lengi í Vestmannaeyjum við ritstjórnina þar og blaðaskrif, er hann tók að skrifa og hvetja til athafna í máli málanna í Eyjum þá, björgunarskipsmálinu, þ.e. til kaupa á björgunarskipi þar, sem hjálpa skyldi og aðstoða bátaflota Eyjabúa og stugga jafnframt landhelgisbrjótum frá eða úr íslenzkri landhelgi.
Ritstjóri Skeggja birti skilmerkileg hvatningarorð um þörf á björgunar- og eftirlitsskipi við Eyjar. Greinar hans um þetta mikilvæga mál vöktu líka athygli utan Eyjanna og orkuðu til samhygðar og skilnings á þessu mikilvæga og markverða velferðar- og mannúðarmáli, sem jafnframt var sjálfstæðismál allrar íslenzku þjóðarinnar.
Fyrsta haustið, sem Páll dvaldist í Eyjum (1917), var hann kosinn formaður Fiskifélagsdeildarinnar Léttis þar, en markmið þess félagsskapar var að vinna að hagsmuna og öryggismálum útvegsins í Eyjum og sjómannastéttarinnar þar í heild. Veigamikill þáttur í starfi þessa félags var björgunarmálið, öryggismál sjómannastéttarinnar, og svo gæzla landhelginnar, sem var hið mesta hagsmunamál almennings, með því að verndun fiskimiðanna fyrir lögbrjótum og ræningjum tryggði Eyjabátum meiri afla og Eyjafólki í heild betri afkomu.
Hin nána samvinna þremenninganna, sem skipuðu stjórn Léttis, og sameiginleg hugsjónamið þeirra, þ.e. Páls Bjarnasonar, formanns félagsins, Sigurðar lyfsala, gjaldkera félagsins, og Þorsteins Jónssonar, útgerðarmanns í Laufási, ritara þess, lyftu sannkölluðu Grettistaki í þessum velferðar- og sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Forustuhlutverk þeirra markaði svo mikilvægt heillaspor í björgunar- og landhelgismálum þjóðarinnar, að orðstír þeirra skal ætíð í heiðri hafður og lifa með íslenzku þjóðinni. Og ber þó ekki að gleyma þeim mönnum öðrum, sem hér unnu að vel og drengilega, og svo öllum almenningi, er veitti þeim áheyrn, öðlaðist trú á hugsjónina og fórnaði henni miklum fjármunum.
Segja má með sanni, að Björgunarfélag Vestmannaeyja sé afsprengi fiskifélagsdeildarinnar Léttis í Eyjum, og svo sé Slysavarnafélag Íslands síðan skilgetið afkvæmi Björgunarfélags Vestmannaeyja. Ég vona fastlega, að ég hneyksli engan, þó að ég komist þannig að orði um þetta mikilvæga og markverða mál. Allt má þetta til sanns vegar færa. Ein hugsjónin fæddi aðra af sér.
Eftir að Björgunarfélag Vestmannaeyja var stofnað (1918), tók Sigurður lyfsali Sigurðsson, skáld frá Arnarholti, og þeir félagar í stjórn Léttis að safna til byggingar á björgunarbáti eða til kaupa á björgunar- og strandgæzluskipi. Hinar skeleggu greinar ritstjóra Skeggja um allt þetta velferðar- og hugsjónamál orkuðu mjög mikið öllum þessum málum til framdráttar, áttu sinn drjúga þátt í sigrinum, því að hann skrifaði hverja blaðagreinina á fætur annarri málefninu til framdráttar, til skilnings öllum almenningi á mikilvægi þess. Og Páll Bjarnason skrifaði ljóst og rökfast um hvert mál, svo að almenningur í Eyjum lét sannfærast. Penninn hans hafði áhrif.
Hinn 28. sept. 1918 skrifaði ritstjórinn m.a., eftir að Björgunarfélag Vestmannaeyja hafði verið stofnað: „Framkvæmdir í málinu (þ.e. kaupin á björgunarskipinu) hvíla auðvitað allar á stjórninni (stjórn Björgunarfélags Vestmannaeyja), og vonandi greiðist svo fyrir málinu, að henni verði fært að semja um kaup á skipinu hið allra fyrsta. Hún telur sig þurfa um 200 þúsund króna höfuðstól með landssjóðsstyrk og lánsfé, en ekki fengin greinileg loforð nema fyrir 50-60 þúsundum í framlögðu hlutafé. Hér þarf því að taka fastar á, áður en lýkur, og er ekki örvænt um, að svo verði ... Nú er því síður ástæða til fyrir þá, sem nokkuð geta lagt af mörkum, að láta á sér standa með að taka hluti í félaginu. Fyrirætlanir eru ráðnar og stjórnin þarfnast fjárins mikillega. Henni nægja ekki fáar krónur í viðbót, hún þarf að fá margar þúsundir, tugi þúsunda! En sú upphæð kemur brátt, ef allir, sem nokkuð geta, leggjast á eitt sem einn maður við að velta steininum.“
Þannig skrifaði ritstjórinn og hvatti Eyjabúa óspart til átakanna. Og vissulega varð honum og félögum hans mikið ágengt. Á var tekið. Miklu var fórnað, og sigurinn vannst, svo sem ljósust eru dæmin þann dag í dag. (Ég vísa til greinar um Sigurð lyfsala Sigurðsson hér í ritinu).
Sjómannafræðsla
Sumarið 1918 tók Páll ritstjóri að beita sér fyrir því, að stofnaður yrði vísir að sjómannaskóla í Vestmannaeyjum. Þar skyldu skipstjórnarmenn í Eyjum fá aðstöðu til að auka þekkingu sína og nema til aukinna réttinda.
Hinn 24. ágúst 1918 birtist fyrsta grein Páls ritstjóra um nauðsyn þess að stofna til sjómannafræðslu í Eyjum. Ég óska að Blik geymi meginmál þessarar greinar, svo markvert sem efni hennar er. Enn getur hún verið hvatning ungum sjómönnum hér í bæ. Greinin fer hér á eftir lítið stytt.
„Sú var tíðin í fornöld, að Íslendingar voru farmenn miklir og sannir víkingar. Telst fræðimönnum svo til, að þá hefjist veruleg afturför í verklegum efnum, er draga tók úr siglingum landsmanna. Hefur svo hverri þjóð farið, að hún dofnar til verklegra athafna, þegar hún fer að una bezt einverunni, og þá kýs hún helzt að láta aðra færa sér allt, sem hún þarfnast og getur ekki tekið á heimalandi. Þetta hefur greinilega komið fram á vorri þjóð, og mest var volæði hennar um það leyti, sem hún afrækti mest siglingarnar.
Ástæðan er augljós: Landið er vogskorið eyland úti í reginhafi, sjórinn hinn auðugasti af fiski og auður að jafnaði. Gróðurskilyrðin til sveita eru lakari en í nágrannalöndunum, vantar til dæmis kornið og timbrið. Járn skortir einnig. Hví skyldi þá ekki búa siglingaþjóð á slíku landi?
Framfarir eru miklar orðnar á síðustu áratugum, svo miklar, að þeir, sem lifðu fyrir einni öld, mundu nú tæplega þekkja sig hér, þótt þeir mættu líta upp úr gröfum sínum. Mest mundi þeim bregða við, sem sjóinn sóttu, ef þeir sæju breytinguna, því að í engu hefur verið breytt svo gagngjört og stórmyndarlega sem í sjávarútveginum. Stórþjóðirnar standa í öllum atvinnurekstri feti framar en vér, nema í fiskveiðum og fiskverkun. Þetta er framförin orðin á einum mannsaldri.
Hver eru svo höfuðskilyrðin til þess að geta staðizt stórþjóðunum jafnfætis í þessari grein? Þau eru
framtakssemi og þekking.
Íslenzkir útvegsmenn hafa sýnt það á síðustu árum, að framtakssemi skortir þá ekki, og enginn bregður íslenzkum sjómönnum um hugleysi. Hitt hefur fremur þótt við brenna, að stundum hafi verið stofnað til hlutanna af of lítilli forsjá, og sá skortur komið niður, þar sem verst gegndi: Skipin farizt unnvörpum, oft með allri áhöfn. Tjónið af þeim slysum er orðið svo gífurlegt, að hverjum manni mundi blöskra stórlega, ef tök væru á að reikna og sanna með tölum ...
Sá maður er nú á dögum betur búinn til þeirrar glímu (glímunnar við Ægi), sem girtur er megingjörðum þekkingarinnar. Þekkingin þokar hverri þjóð lengst áfram til verklegra umbóta.
Vestmannaeyjar eru það hérað landsins, sem einna mest á undir því, að sjávarútvegurinn blessist framvegis. Þeim er svo í sveit komið, að um þetta getur ekki verið neinn vafi. Breyting hefur því orðið hér sem víðar, og má búast við annarri innan fárra ára.
Sú breyting stendur nú yfir í sumar, að útgerðarmenn selja þá báta, sem þykja of smáir fyrir netin og fá sér aðra stærri. Kyrrstaða er óhugsandi. En breytingin á útbúnaði og veiðiaðferð útheimtir meiri þekkingu. Nú fer t.d. enginn á sjó nema að hafa með sér áttavita. Svona hrífur tíminn mennina með sér. ,,Vei þeim, sem dragast aftur úr,“ segir tíminn ... Stýrimönnum er hollara að hafa vit sitt heima, er leggja skal móti stormi og straumi, gegnum kafald og niðamyrkur á kaldri vetrarnótt ... Þá er betra að kunna en kunna ekki.
Af þessum sökum er það víst runnið, að menn hafa látið á sér skilja, að hér þyrfti að vera sjómannaskóli, sem vel væri í hæfi við þarfir og kröfur Eyjabúa.
Sú stefna er óðum að ryðja sér til rúms, að kennsla í verklegum efnum eigi að fara fram sem víðast um landið. Heppilegast virðist þó, að einn fullkominn stýrimannaskóli sé í Reykjavík, en smærri skólar séu víða um land. Má ágætlega sameina það á þann hátt, að þeir menn utan af landinu, sem vilja leggja alúð við sjómannafræði, fái undirbúning og smáskipapróf í smáskólunum, en leiti síðan til aðalstýrimannaskóla landsins. Væri þetta eflaust mikill gróði fyrir sjálfan skólann og sjómannamenntun í landinu, en mikið hagræði fyrir margan fátækan ungling. Verður vonandi ekki langt að bíða, að þetta skipulag komist á ...
Bátum, sem eru stærri en 12 smálestir, fer fjölgandi, eða svo vilja menn vera láta, og er þá því meiri þörf á að greiða fyrir mönnum með að fá smáskipapróf.
Smáskipaprófinu fylgir réttur til að stýra skipum, sem eru allt að 30 smálestir. Í þeim flokki eru mörg hin smærri síldveiðiskip.
Það má engan veginn vera takmark ungra og hraustra sjómanna að binda sig ævilangt við smæstu vélbáta og vita þó ekki nema þeir gangi úr gildi eftir fá ár. Markið verður að vera hærra. Hvert siglutré, sem sést við Eyjar, bendir unglingunum á að hækka seglin. Hver hljóðpípa gufuskipanna kallar þá út á reginhaf, lengra, lengra!
Sá þarf nesti, sem að heiman fer. Eins er um þetta, að grundvöllinn á að leggja heima. Safnizt því saman, ungir menn, og heimtið fræðslu í þeirri grein, sem atvinna héraðsins hvílir á!“
Síðan ræðir höfundurinn um skilyrðin fyrir því að takast megi að koma á fót slíku námskeiði. Og hvað skal svo kennt þar?
„Sjómannafræðin sjálf verður auðvitað að skipa öndvegi,“ segir hann. ,,En þörf er einnig fyrir fleira. Bifvélafræði er bráðnauðsynleg námsgrein og sjá menn það æ betur og betur. Ætti hún því að vera á hinum æðra bekk, ef þess væri kostur, en á því er þó nokkuð vandhæfi að þessu sinni.
Þá er á það að líta, að allflestir unglingar hér hafa enga tilsögn fengið til neinnar bókar síðan um fermingu. Er því sumt orðið ryðgað og margt týnt með öllu. Kvartar margur sáran undan þessu. Námsskeiðið ætti að rétta hér hjálparhönd, ef það getur...
Svo eru málin ... Sjómönnum hér getur verið mesta hagræði að því, og enda bráðnauðsynlegt, að kunna ensku og dönsku og fleiri tungumál ...
Tveir vel færir kennarar hafa þegar heitið fylgi sínu, ef til framkvæmda kemur (um námsskeiðið) og von um meiri aðstoð. Horfir þá vænlega með það atriði ... Það er gert ráð fyrir, að námstíminn verði þrír mánuðir, hefjist snemma í september og standi fram í desembermánuð. Má varla skemmri vera. Kennslugjald verða nemendur að greiða, en hve hátt það verður, fer mest eftir því, hve margir sækja og hve miklu verður kostað til kennslunnar ...
Takmarkið er: Góður sjómannaskóli í Vestmannaeyjum.“
Hver varð svo árangur ritstjórans af skrifum þessum og hvatningarorðum?
Sjómannanámskeiðið var haldið, eins og til var stofnað og að unnið. Alls sóttu 8 nemendur kennsluna og luku 5 einskonar prófi við námskeiðslok. Þrír fötluðust frá vegna veikinda. Prófin fóru fram á Þorláksmessu 1918.
Þessir 5 nemendur sjómannanámskeiðisins, sem skrifuðust út af því, urðu síðan kunnir skipstjórnarmenn Eyjum. Þeir voru þessir:
Árni Þórarinsson
Guðlaugur Brynjólfsson
Guðmundur Helgason
Guðni Sigurðsson
Peter Andersen.
Nöfn þessara fimmmenninga eru kunn í útgerðar og aflasögu Vestmannaeyja eða atvinnusögu þeirra.
Árið eftir lyfti svo Sigfús Scheving, skipstjóri í Heiðarhvammi í Eyjum, þessu merki og stofnaði til námskeiðs í sjómannafræði. Fyrsta námskeiðið sitt í þessum fræðum hélt hann í Eyjum 1919 og síðan um margra ára skeið, bæjarfélaginu til ómetanlegs gagns, atvinnulífi þess til eflingar og vaxtar. Ég vona fastlega, að Bliki endist aldur til að skrá þann kafla vestmanneyiskrar menningarsögu, þátt Sigfúsar Schevings í fræðslumálum Eyjanna.
Hreinlætishugvekja Páls Bjarnasonar
Sóðalegasti bær landsins.
- Hreinlegasti bær landsins
Á sínum tíma uppgötvaði ég, sem þetta skrifa, að dr. P.A.S. Schleisner, læknirinn, sem hér dvaldist sumarið 1847 við rannsóknir á ginklofanum svokallaða, hafði skrifað bók um þessa Íslandsferð sína. Vissulega hafði ég hug á því að ná í þessa bók og fræðast af henni um líf Eyjabúa fyrir og um miðja síðustu öldina.
Og bókina fékk ég til lesturs. Margt er þar sagt athyglisvert um líf og störf Eyjabúa á þeim tímum, en fátt af því prenthæft, að mér fannst. Svo óskaplegar eru lýsingar læknisins á lífsvenjum fólksins og sóðaskap, að mér féll allur ketill í eld. Þessvegna hefur Blik aldrei flutt lesendum sínum eitt orð af skrifum læknisins. Nú má enginn skilja þessi orð mín þannig, að þau eigi að vera hnjóðsyrði eða last á það fólk, sem búið hefur hér og starfað kynslóð fram af kynslóð s.l. öld. Fjærri fer því. En ástæður eru til alls. Sumar veigamiklar eins og hér.
Vestmannaeyingar áttu lengst af erfitt með að halda bæ sínum hreinum eða byggðinni við voginn sökum vatnsskortsins. Hvergi fannst rennandi lækur til þess að flytja þvag, saurindi og annað sorp og svo ösku
til sjávar frá heimilunum. Við, sem alin erum upp við rennandi bæjarlækinn og öll þau þægindi, sem hann veitti eða skóp búandi fólki til hreinlætis og heilbrigðara lífs, skiljum vel við íhugun þau miklu vandræði, er hér voru ríkjandi og staðbundin um langan aldur í hreinlætis- og heilbrigðismálum sökum vatnsskortsins. Já, þessum þægindum var aldrei til að dreifa í Vestmannaeyjum.
Hvernig fóru þá Eyjabúar að í þessum efnum? Fyrr á tímum, já, um aldir, grófu þeir „holur“ við híbýli sín og söfnuðu í þær öllu sorpi, sem til féll í heimilunum. Af heilbrigðisástæðum hafði safnþróm þessum verið útrýmt gjörsamlega löngu áður en Páll Bjarnason fluttist til Eyja, og önnur ráð við höfð, þó ófullkomin væru, en hvergi í bænum var skólpveita frá húsum manna.
Margir reyndu að notast við „svelgi“ eða „holur“, sem grafnar voru og svo sprengdar niður í holótt hraunið undir byggðinni. Mörgum entust þessir svelgir um árabil. En byggðin í heild og þó sérstaklega þéttbýlið sunnan við voginn, við Höfnina, leið fyrir alla þessa vöntun, og margur ýldupollurinn mengaði þar andrúmsloftið langar stundir og var til ama og angurs nábýlisfólkinu, ekki sízt vegna barnanna, sem léku sér þar í grennd sökum skorts á leikvöllum. Margir Eyjabúar skildu það mæta vel, að þetta hreinlætismál var vissulega ekkert hégómamál fyrir heilsu og allt líf fólksins. Ýmsir kvörtuðu yfir ástandi þessu í bænum bæði leynt og ljóst. Meðfram sumum aðalgötum bæjarins lágu ræsi full af ýldu viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Mér kemur í hug frásögn um það. „Faðir“ skrifar í Skeggja 27. júlí 1918:
,,Ég stóð alveg höggdofa. Veslings móðirin var að draga ljóshærðan drenghnokka upp úr sorprennu einni hér við aðalgötu þorpsins. „Það er laglegt að sjá verkunina á þér núna,“ sagði veslings konan, um leið og hún fór heim með drenginn sinn forugan og svo þefillan, að fyrir lagði ódauninn langa leið.
Og það var von, að konunni gremdist. Auðvitað var ekki réttmætt að gremjast barninu, því að þau geta aldrei afneitað barnseðlinu, og ösla og sulla í því, sem hendi og fæti er næst. En það er ástæða fyrir hana að snúa gremju sinni að þeim, sem láta opnar skólprennur meðfram aðalvegum þorpsins standa fullar af ýldu og allskonar óþverra ár eftir ár. Þetta er til stórheilsuspillis, auk þess sem það er til háborinnar minnkunar fyrir þorpið, og er einn sýnilegur vottur hins sérstaka framkvæmdaleysis og athugaleysis, sem hér er ríkjandi og ráðandi hjá þeim, sem annast eiga þessi mál. Hvar er heilbrigðisnefnd þessa þorps? ... Hvers vegna fyllir hún ekki eða lætur fylla upp þessar hneykslisrennur, t.d. hina síúldnu og fúlu rennu hjá Vík og fram í sjó, en þó sérstaklega rennuómyndina fyrir austan Dagsbrún, sem er svo meistaralega í sveit komið, síðan mokað var ofan í „gullrennuna“ sælu þar, að það er lokað fyrir þann enda hennar, sem skólpið og vatnið rennur að. Rennustúfur þessi hallar upp í þorpið. Það er auðvitað alveg nýmóðins að haga skólprennum þannig ... Því að í rennu þessari er það allra fúlasta af öllu fúlu og sá allra viðbjóðlegasti lögur af öllu viðbjóðslegu af því tagi ... Í sambandi við þetta væri ekki óþarfi að geta þess, að börnin hér hafa engan leikvöll í þorpinu sjálfu. Það er einungis gatan, sorpið og pyttirnar meðfram götunum, sem er þeirra eina athvarf. Það er ekkert gert fyrir börnin hér, alveg ekkert. Þeim er enginn blettur ætlaður, enginn afvikinn staður, þar sem þau geta velt sér eða bylt ... Og þetta er kynslóðin, sem við erum að ala upp til þess að taka við starfinu að okkur frágengnum. Hvílíkar syndir eru það ekki, sem við fremjum gagnvart þessari kynslóð, og hvílíkan kinnroða megum við ekki bera, er við hugsum til þess skeytingarleysis og miskunnarleysis, sem við sýnum smælingjunum á þessu sviði ... Ég á börn eins og hinir og þykist því hafa rétt til að hreyfa þessu máli, og ég vona, að þessi hvatning mín verði til þess að vekja hina sofandi, svo að þeim verði úr þessu værðin óhæg, en kröfur almennings svo ákveðnar, að þeir sjái sér ekki annað fært en framkvæma. Faðir.“
Þarna var ömurleg lýsing á þorpinu í Vestmannaeyjum árið 1918.
Og fleiri fundu til þess en „Faðir“ þessi.
Sigurður skáld frá Arnarholti, lyfsalinn í Vestmannaeyjum, skrifaði grein sumarið 1918 um sóðaskapinn í þorpinu. Hann var hið mesta snyrtimenni og fann til, er hann hugleiddi óþverran um allt þorpið og mengunina, sem af honum stafaði. Lyfsalinn og skáldið skrifaði í Skeggja: „ Það er ekki nóg, að göturnar niðri við höfnina eru í hverri gæftahrotu einn syndandi viðbjóður og hrúgur í hverju skoti, heldur berast sletturnar úr slorvögnunum út um allt þorpið, og síðan bera menn þetta á fótum sér inn í húsin. Ástand þetta er ekki siðuðum mönnum samboðið, og er það vitanlega vaninn einn, sem smátt og smátt hefur sljóvgað tilfinningu manna, svo að sama ástandið og það versnandi, er látið drasla svona ár frá ári, en alls ekki það, að hver maður hér sjái ekki þetta og viðurkenni í viðtali ... Hér mun síðar verða reynt að gera grein fyrir, með hverjum hætti hugsanlegt væri að útrýma gegndarlausum óþrifnaði úr þorpinu ...“
Skáldið og lyfsalinn benti síðan á, að breyta mætti óþverranum öllum í „barnamjólk“ með því að hefja ræktun á Heimaey í stórum stíl og nota allt fiskslógið, sem mestum sóðaskapnum olli, til áburðar. Þessi hugsjón skáldsins átti vissulega eftir að rætast. En það dróst enn í 8-9 ár, að ræktunaröldin hæfist í Eyjum.
Öll tök og öll tækni til erfiðra framkvæmda á landi voru var á lágu stigi í Eyjum á þessu tímaskeiði eins og svo víða þá á landinu. Þá var ekkert áhlaupaverk að leggja skólpveitur frá húsum fólksins til sjávar. Til dæmis var það alveg frágangssök að leggja skólpveitur frá húsum í vestanverðu þorpinu með þeim tækjum, sem þá voru tiltæk, þar sem blágrýtishraunið náði svo að segja alls staðar upp í yfirborð jarðvegsins.
Og árin liðu og skólpið og ýldan fékk að ilma óhreyft að mestu í pollunum og rennunum meðfram aðalgötum bæjarins, t.d. Bárustígnum, þar sem einn af valdamestu mönnum bæjarins átti setrið sitt.
Sumarið 1923 gaus upp taugaveiki í Vestmannaeyjum. Olli hún þar margskonar harmi og hörmungum og manndauða. Eftir allar þær þrautarstundir tók Páll Bjarnason skólastjóri að beita áhrifum sínum til þess, að þrifnaður mætti fara vaxandi í bænum, göturæsi hreinsuð og lóðir húsa girtar og lagfærðar, og þeim svo haldið hreinum. Áfall það, sem taugaveikin olli bæjarbúum, hafði þau áhrif, að hugir fólksins voru svo sem eins og meðtækilegri fyrir hreinlætiskenningar skólastjórans, svo að allt horfði þetta til framfara og batnaðar.
Veturinn 1924 skrifaði skólastjórinn grein um hreinlætismálið í blað það, sem Kolka læknir gaf þá út í Eyjum og hann nefndi Skjöld. Grein þessa kallaði skólastjórinn Öskudagshugleiðingar. Grein þessi hafði söguleg áhrif og því sögulegt gildi. Hún greindi frá ömurlegum staðreyndum, sem Eyjabúar sjálfir höfðu fengið að þreifa á, og markaði spor fram á við í hreinlætismálunum, vakti fólk til umhugsunar og ráðandi menn loks til framtaks og dáða í þessum efnum. Ég birti greinina hér í meginmáli, af því að hún orkaði til átaka þessu mikla velferðarmáli Vestmannaeyinga. Ýmist greini ég skrif höfundarins orðrétt eða í óbeinu máli.
Greinina nefnir hann „Öskudagshugleiðingar“.
„Það er öskudagur, og því þá ekki að helga deginum það hugðarefni að svipast um eftir sorpi og ösku sem víðast um bæinn? Það þarf enginn langt að leita, því að á nógu er að taka. Og því skyldi það ekki vera, því að hvar eru tækin til að ræsta bæinn? ...“
Svo bendir höfundur á, að ekki sé að vænta þess, að Eyjabúar fái ókeypis hreinsun á lóðum sínum og ókeypis flutning á sorpi frá húsum sínum. Bifreiðar séu nógar í bænum til þess að safna sorpinu á. En hvert á að koma því frá húsum manna og vitum? Hann bendir á Urðaveginn: „Urðavegurinn yrði framtíðarbraut sorpsins og sjórinn samastaður þess.“ En það finnst honum vera „grátleg forlög“ svo dýrmætrar vöru, sem sorpið er til áburðar. Ræktun skyldi auka í Eyjum og nota sorpið til áburðar. Þá yrðu þar með slegnar tvær flugur í einu höggi: Sorpið fjarlægt úr bænum og mjólkurframleiðslan aukin að miklum mun í byggðarlaginu til heilsubóta og hamingju öllum þar, ekki sízt hinni uppvaxandi kynslóð. „Vestmannaeyingar hafa ráðizt í það, sem stórfelldara er, en að breyta þessu og borið sigur af hólmi. Móarnir og moldarflögin bíða eftir kjarngóðri næringu. Og það er hún, sem liggur víða um bæinn óhirt fjölda manns til ásteytingar...“
,,Menn tala mikið um það, hve lóðir eru illa hirtar hér í bænum og dæma hver annan hart fyrir það, enda er það illt satt mál að verja að nokkru leyti ... Bær, sem ekki er skipulegar byggður en þessi bær er, hlýtur að þurfa fleira en aðfinnslur og fyrirskipanir til að geta haldið sér hreinum. Hann þarf hjálp. Hjálpin getur komið úr tveim áttum, annað hvort að ofan frá bæjarstjórninni, og þá hlyti að fylgja nýtt gjald, þ.e. hreinsunargjald, eða þá frá bæjarbúum sjálfum, þ.e. með samtökum milli nágranna, að hver flokkur hreinsi og hirði sitt hverfi.“
Og pyttir og pollar mynduðust um allan bæ, þegar rigndi nokkuð að ráði. Þar í safnaðist alls kyns óþverri. Skólastjórinn sá, hve þessir söfnunarpollar gátu verið hættulegir heilsu bæjarbúa. Hann skrifar: „Það eru þessar mörgu smátjarnir, sem myndast til og frá um bæinn, þegar rignir, með öllum regnbogans litum, þegar upp styttir og sólin stafar geislum sínum á þær. Ævi þeirra er skammvinn í hvert sinn. Þær láta ylinn lyfta sér til himinskýja. Svo vitja þær jarðlífsins aftur, oftast eftir nokkra daga. En á þeim fáu dögum leikur þurrkurinn sér að því, sem á botninum sat. Þar kennir margra grasa. Það verður allt að fínu dufti og svífur í loftinu, sezt á hvern stein, sem fyrir verður, og svo húsaþökin. Þaðan er svo greið gata niður í brunnana svokölluðu. Við tökum svo óþverrann inn í tæru drykkjarvatninu, hvað með öðru upp og ofan: bakteríur af ýmsu tagi, rotnaðar jurtaleifar, rotið slóg og svo ýmislegt, sem er saman við skólpið, sem hellt er út úr húsum. Meinið er eitt: Frárennslið vantar ...“
Hvergi var skólpveita í bænum. Þess vegna var sóðaskapurinn oft óskaplegur. Taugaveiki og berklar herjuðu stundum heimilin í Eyjum. Átti ekki skorturinn á frárennslinu og skólpveitunni frá húsunum sinn þátt í þeim sjúkdómum? P.B. skrifar:
,,Annars er þessi fráræsla í bænum vandræðamál, og má ekki lengur svo til ganga, að því sé ekki sinnt. Óheilnæmið og óþrifnaðurinn, sem af því hlýzt, er óhafandi. Gjalda þar margir saklausir. Rennurnar meðfram vegunum tala sínu máli, þar sem krökkt er af óþverra og ýldu ... Mönnum er víst enn í fersku minni vandræðin s.l. vor, þegar taugaveikin gekk. (Vorið 1923). Þá skildist víst hverjum manni, að hér er ekki um neitt hégómamál að ræða ...
Mér rennur oft til rifja, þegar ég sé, hvern leikvöll börn bæjarins eiga við að búa. Það fer ekki hjá því, að einhver þeirra drekki í sig óheilnæmið. Þau eru svo að segja dæmd til að hafast við á þessum blettum, þar
sem hvergi er hreinn blettur í grenndinni ...
Þá munu flestir kannast við ilminn í bænum, þegar hlýnar í veðri á vorin og allir garðar í bænum eru orðnir fullir af úldnu slógi ...
Það bar við í fyrra, að stórri kös af slógi og þorskhausum var safnað mjög nálægt kirkjunni, og víða lágu kasirnar með vegunum ...
Það er fagurt verk og gott að prýða þennan bæ. Náttúrufegurð Eyjanna er orðlögð. Byggðin þarf að vera fögur líka, ef allt á að svara sér ...“
Höfundur vildi alls ekki láta allan óþverran safnast í Höfnina, veita skólpinu, frárennslinu frá húsunum í Höfnina, það fannst honum fjarstæða. ,,Og hvað væri svo unnið? (ef öllum óþverranum væri veitt í Höfnina) spyr skólastjórinn. ,,Öllum óþverra bæjarins væri safnað á einn stað, einmitt í höfnina, þar sem flestir vinna.“ Og hver getur svo ímyndað sér fjöruborðið í Botninum, undir Pöllum, kringum bryggjurnar og allt það góðgæti, sem þar væri að finna. Bærinn þar að auki vatnslaus. Rigningarvatn, sem nú rennur ofanjarðar, flytur óhreinindin af einni lóðinni á aðra ... Víðast hvar verður að brjóta þykka klöpp til þess að ná góðum svelg ... Annars er þessi fráræsla í bænum vandræðamál og má ekki lengur svo til ganga, að því sé ekki sinnt. Óheilnæmið og óþrifnaðurinn, sem af því hlýzt, er óhafandi. Gjalda þar margir saklausir ...
Þannig sló höfundurinn á vissa strengi innra með Eyjabúum í skrifum sínum um þessi hreinlætismál. Og sjá! Framtak og framfarir gerðust. Hreinsunargjald var lagt á almenning í bænum og sorpinu ekið frá húsunum austur Urðarveginn og steypt í sjóinn austur á Urðunum. Þannig hélzt það um árabil, þar til Sjóveita bæjarins tók til að veita sjónum austan frá Skansi inn í bæinn, inn í aðgerðarhúsin. Þá var breytt til og sorpinu ekið vestur á Hamar.
En skolpveiturnar voru lagðar frá húsunum að Höfninni og í hana. Nú er það mesta og dýrasta vandamálið okkar að bæta úr því axarskafti, sem þar var gert, af því að í þeim efnum var ekki hlustað á Pál Bjarnason skólastjóra.
Ég hef eytt nokkru rúmi til þess að skýra og skilgreina þetta mikilvæga mál, hreinlætismálið. Og við megum gleðjast, Eyjabúar, við að íhuga þær miklu framfarir, sem orðið hafa í bænum okkar í þessum efnum. Ekki er langt síðan, að orð var á því haft í fjölmiðlunartæki, sem öll þjóðin hlustar á, að Vestmannaeyjakaupstaður bæri af flestum eða öllum kaupstöðum landsins um hreinlæti á götum og lóðum bæjarins. Ég hygg nokkuð til í þeim fullyrðingum og vona, að sá heiður, sem þær hafa fært okkur í skaut, eigi eftir að hvetja okkur öll, sem byggjum þennan bæ, til þess að stuðla að því framvegis sem hingað til, að bærinn haldi hreinlætissvip sínum.
Eykyndill í Eyjum
Samtök kvenna, unglinga oq barna
til slysavarna
Slysavarnamálin voru ávallt Páli Bjarnasyni og konu hans hjartfólgin mál, sem þau vildu fórna miklu fyrir. Við greinum hér á öðrum stað frá aðild hans að stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja, sem mun svo hafa átt sinn þátt í stofnun Slysavarnafélags Íslands (1928).
Hinn 9. nóvember 1934 birti Vestmannaeyjablaðið Víðir grein eftir Pál skólastjóra. Greinina nefndi hann S.O.S., sem er heimskunn skammstöfun.
Í grein þessari segir skólastjórinn meða1 annars:
„Hjálparhvötin liggur djúpt í brjósti mannsins, og ber snemma á henni hjá börnum. Mest ber á henni á alvarlegustu stundum lífsins, þegar smámunir daglega lífsins gleymast í bili. Þeir, sem við sjóinn búa, fá oft tækifæri til að kynnast hverflyndi hafsins. Aðra stundina laðar það blikandi og brosandi og er örlátt á auðæfi, en litlu síðar ógnar það með skelfingu og dauða ... Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessu, því að enn mun Ísland vera mesta sæslysalandið, þegar miðað er við mannfjölda.
Ráðstafanir, sem gjörðar hafa verið til að draga úr slysunum, hafa borið mikinn og góðan árangur og sýna það, að meira þarf að gera en gert er í því efni. Slysavarnafélag Íslands hefur þegar gert mikið gagn, þó að ungt sé og lítið til þess lagt, þegar litið er á verkefnið. Það rekur starfsemi sína víða um land, því að víða er þörfin mikil og ekki er vitað, hvar menn kann að bera að landi. Það ráð hefur verið tekið, að félagið hefur sveitir sínar víðsvegar um landið, og fer þeim fjölgandi, þótt hægt fari ... Sumstaðar hafa konur myndað sérstakar deildir til eflingar starfsemi félagsins, enda tekur málið mjög til þeirra. Flestar konur við sjó eiga einhverja nákomna vini og vandamenn á sjónum, og ekki er þeirra hlutur léttbær, þegar slysin ber að höndum. Kvennadeildirnar hafa þótt gefast félaginu vel ...
Einhver hreyfing er komin með að mynda hér kvennadeild slysavarnafél. og vonandi ferst það ekki fyrir úr þessu ...
Það hefur gefizt vel mörgum mannúðarmálum, að konur og börn taki virkan þátt í þeim frá byrjun, það er nokkur trygging fyrir varanlegum stuðningi við verkefnið.
Margt hið fegursta og bezta byrjar smátt og lætur lítið yfir sér, en safnar orku með tímanum, og vinnur marga sigra, þegar frá líður. Þetta hefur Björnson orðað svo:
- „Það byrjar fyrst með blænum,
- sem bylgjum slær á rein,
- en brýzt fram sem stormur,
- svo hriktir í grein.“
- „Það byrjar fyrst með blænum,
Þess væri óskandi, að hið góða málefni Slysavarnafélags Íslands ætti slíkum sigri að fagna.“
Þetta var fyrsta greinin, er skólastjórinn birti til eflingar þeirri hugsjón að stofna kvennadeild Slysavarnafélags Íslands í Vestmannaeyjum.
Þegar hér var komið þessum málum, hafði verið stofnuð barna- og unglingadeild við barnaskólann í Vestmannaeyjum til eflingar slysavörnunum og slysavarnastarfinu í landinu í heild. Auðvitað var sú deild stofnuð fyrir atbeina skólastjórans og samkennara hans. Ekki er mér kunnugt um starf þeirrar deildar. Sennilega hefur hún koðnað niður bráðlega.
Hinn 16. marz 1934 birtist í Víði önnur grein, sem skólastjórinn skrifaði til hvatningar framkvæmdum í slysavarnarmálunum í kaupstaðnum.
Í grein þessari gefur höfundurinn nokkrar bendingar frá Slysavarnafélagi Íslands um hina miklu þörf á almennum samtökum í slysavarnamálunum, og hversu starf félagsins víðsvegar um landið hefur borið mikinn og góðan árangur. Og segir hann síðast orðrétt:
,,Sveitir Slysavarnafélagsins eru ætlaðar til að vinna fyrir þetta málefni. Um þessar mundir eru konur hér í bænum að mynda með sér eina slíka sveit til að vinna að þessu mannúðarmáli. Ungmennadeild er þegar komin á fót. Það líður varla á löngu, áður en sjómannastéttin skipar sér í sveit um þetta málefni, og um það munar auðvitað mest.“
Fáum dögum eftir að grein þessi birtist, var lokið undirbúningsstarfi að stofnun kvennadeildar slysavarnafélags í Vestmannaeyjum. Listar höfðu þá gengið um bæinn, og yfir 200 konur gefið kost á þátttöku sinni í slysavarnadeildinni, yrði hún stofnuð. Hinn 25. marz (1934) var boðað til stofnfundarins og þar endanlega gengið frá stofnun deildarinnar, sem heita skyldi Eykyndill. Nær 200 konur sátu stofnfundinn. Árstillag var afráðið 2 krónur, en þá þegar fyrirhugað víðtækt starf í bænum til þess að safna fé til slysavarnastarfseminnar.
Stjórn Eykyndils skipuðu 7 konur. Þær voru þessar: Frú Sylvía Guðmundsdóttir, formaður, frú Dýrfinna Gunnarsdóttir, ritari, frú Katrín Gunnarsdóttir, gjaldkeri og meðstjórnendur: Frú Magnea Þórðardóttir, frú Elínborg Gísladóttir, frú Soffía Þórðardóttir og frú Þorgerður Jónsdóttir.
Þessi stjórnarkosning vitnar um það, hversu ríkan þátt „barnaskólafjölskyldan“ átti í stofnun Eykyndils, þar sem kona skólastjórans, frú Dýrfinna, var kosin ritari og mágkona skólastjórans, frú Katrínu, var falið gjaldkerastarfið.
Frú Sylvía Guðmundsdóttir var, svo sem kunnugt er eldri Vestmannaeyingum, kona Ólafs héraðslæknis Lárussonar.
Slysavarnadeildin Eykyndill er enn starfandi í Eyjum og hefur unnið þar mikið og göfugt starf fyrir slysavarnirnar undanfarin 36 ár, þegar þetta er skrifað. Þar hefur vissulega verið vel starfað og fast staðið að málefninu og merki brautryðjendanna vel á loft haldið. Enda fór það félag vel á stað og hefur jafnan haft þróttmiklum og félagslyndum mætiskonum á að skipa í fararbroddi.
Eftir fyrsta starfsárið voru „Eykyndilskonur“ orðnar 300. Allt starf þessa markverða félagsskapar var Páli skólastjóra og fjölskyldu hans mikið ánægjuefni og giftukrans þau ár, sem hann átti þá eftir ólifuð.
Svo sem fram er tekið, verður 6. kafli fræðslusögu Vestmannaeyja birtur í næsta hefti Bliks (1972) og sagt frá skólastarfi Páls Bjarnasonar hér í kaupstaðnum.