Blik 1969/Kafli úr ævisögu
Á öðrum stað hér í ritinu birti ég kafla um Magnús Guðmundsson, bónda og formann á Vesturhúsum. Hér óska ég að birta eilítinn kafla úr annarri ævisögu. Þennan kafla gæti ég líka kallað: Þegar Magnús Guðmundsson fann til með mér.
Við skulum leitast við að skoða söguna í réttu ljósi, - einnig þá kafla hennar,
sem kynnu að vera okkur hvimleiðir.
Ég skírskota til 1. bindis bókarinnar Fagurt er í Eyjum eftir Einar ríka og Þorberg. Þar drepa höfundar frásagnarinnar á tvo þætti í menningarsögu Vestmannaeyja á vissu árabili eftir aldamótin síðustu. Þessi bókarhluti eða frásögn þeirra félaga vakti óskipta athygli mína. Atburðirnir standa mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, því að þessir þættir eða þessi fyrirbrigði bæjarlífsins voru í algleymingi, er ég hóf lífsstarf mitt hér í Eyjum fyrir meira en 40 árum og kynntist bezt Magnúsi Guðmundssyni bónda á Vesturhúsum, bindindismanninum drenglynda, gæddum mikilli mannlund og félagsþroska.
Þar hefst þá frásögn mín að þessu sinni.
Þessir tveir áberandi þættir í bæjarlífinu á valdatímum konsúlanna fyrir 40 árum og svo fyrr og síðar, sem Einar vinur minn drepur á, voru skattgreiðslan til páfans undir Pöllum, eins og nokkur hluti íslenzku þjóðarinnar kallaði athöfnina á tímum siðbótarinnar og lengi eftir það páfanum í Róm til háðungar, og svo lifrartínsla barna og unglinga og prang þeirra með lifrarbroddana í hinum mörgu, smáu lýsisbræðsluskúrum eða lifrarbræðslum, er stóðu við Strandveginn. Fiski af bryggju var þá einnig hnuplað til sölu.
Öðrum þræði átti lifrartínslan sér stað undir fiskkróapöllunum niður við höfnina, er lágsjávað var, innan um „skattana“. Þannig eignuðu börn og unglingar sér lifrarbrodda þar, og svo um bryggjur og bólverk og palla, - stundum fisk líka að næturlagi - og seldu. Þetta lifrarbroddasnudd og stundum ómengað hnupl var geigvænlegur þáttur í uppeldi æskulýðsins í byggðarlaginu á valdatímum
konsúlanna, sem virtust hafa einskonar alveldi í bænum, voru alls ráðandi í umboði fjölmennrar útgerðarmannastéttar og í skjóli fjármagns, er þeir ýmist áttu sjálfir eða höfðu að láni frá bönkum og öðrum fjármagnsstofnunum.
Allt er þetta starf barnanna virðingarverð sjálfsbjargarviðleitni, var jafnan viðkvæðið hjá konsúlavaldhöfunum og nánustu fylgifiskum þeirra og bölvaður kommúnismi að vilja skjóta loku fyrir það starf æskulýðsins, - blindir fyrir þeirri staðreynd, að á mjóu þvengjunum ...
Lifrartínsla barnanna og unglinganna jók útflutningsmagn konsúlanna á lýsi, þótt í smáu væri.
Þessu kynntist ég öllu persónulega fyrstu árin, sem ég dvaldist hér, með því að ég vann í aðgerð síðari hluta vertíðar ár eftir ár, eftir að skólastarfi mínu við Unglingaskóla Vestmannaeyja lauk á veturna, í marzlokin. Þá öðlaðist ég líka skilning á ástæðunum fyrir slorlyktinni, sem lagði daglega af sumum drengjunum í barnaskólanum, þar sem ég kenndi lestur til þess að bæta auman fjárhag minn lítilsháttar. Þá hjálp veitti barnaskólastjórinn mér sjálfur persónulega, Páll heitinn Bjarnason. - Þá varð ég líka þess áskynja, hvers kyns ljósu blettirnir voru, sem sáust á boðöngrum og krögum drengjanna. Þetta voru sem sé slormengaðar minjar eftir að hafa hrært í slorkörum og slógstömpum á morgnana í leit að lifrarbroddum, áður en farið var í skólann.
Hér hlýt ég að minnast hins mæta manns, Viggós Björnssonar bankastjóra, sem enn hefur legið óbættur hjá garði öll þessi ár, síðan hann
lézt. Þó beitti hann valdi sínu og fjármagni bankans iðulega byggðarlaginu til ómetanlegs hagnaðar, - líka á sviði menningarmála, - sérstaklega félagssamtaka. Hans var verkið að útrýma ósóma lifrartínslunnar með því að beita sér fyrir
stofnun Lifrarsamlags Vestmannaeyja, eftir að beinamjölsverksmiðja Th. Thomsens „setti upp tærnar“, varð gjaldþrota eða eitthvað í þá áttina.
Með stofnun Lifrarsamlagsins féll lifrartínslan niður af sjálfu sér, með því að hinar mörgu smáu lifrarbræðslur hurfu þá af yfirborði Heimaeyjar - voru úr sögunni, - og Lifrarsamlagið neitaði að kaupa tínslulifur af börnum og unglingum. Þannig varð þessum ósóma útrýmt til léttis öllum þeim, sem unnu uppeldismálum bæjarfélagsins og vildu að þeim vinna, efla þau og bæta. Þannig átti bankastjórinn drjúgan þátt í því mikilvæga uppeldisatriði. Hann var vel menntaður maður, sem skildi, hvar skórinn kreppti að.
Á þessum árum beitti Viggó bankastjóri sér einnig fyrir aukinni verkmenningu og vinnuhagræðingu í eina frystihúsinu hér þá, frystihúsi Ísfélags Vestmannaeyja, og svo hinum yngri hraðfrystihúsum hér, þegar rekstur þeirra hófst. Fyrir öll þessi markverðu menningaratriði ber að þakka bankastjóranum og minnast
hans.
En „skattgreiðslan“ undir Pöllum hélt áfram um árabil. Þar gætti ekki áhrifa bankastjórans. Þar var hann enginn kyndilberi. Þar voru það fulltrúar konsúlamenningarinnar eða undirpallamenningarinnar, eins og við getum líka kallað þetta fyrirbrigði, sem gengu á undan „með góðu eftirdæmi“, eins og nefndir bókarhöfundar drepa á.
- - -
Þingmaður kjördæmisins, Jóhann Þ. Jósefsson, hafði haldið þingmálafund í „Nýja-bíó“, nú vörugeymsluhúsi Heildverzlunar Heiðmundar Sigurmundssonar við Vestmannabraut. Þetta gerðist síðari hluta vetrar 1929.
Á fundi þessum tók ég til máls fyrsta sinni hér í bæ á opinberum vettvangi. Í ræðu minni hélt ég fram þeirri sannfæringu minni, að einkasala á sjávarafurðum myndi farsælasta leiðin og öruggasta til þess að tryggja útvegsbændum og sjómönnum hæsta heimsmarkaðsverð fyrir sjávarafurðirnar. Þingmaður kjördæmisins tók þessari hugsun minni víðs fjarri, taldi hana í alla staði mikla meinloku og kommúnistiskan heilaspuna „barnafræðarans“.¹ Ég undraðist það ekkert, eins og á stóð og allt var í pottinn búið.
Mætti ég spyrja nú eftir 40 ár: Hvað hefur orðið uppi á teningnum? Hvað er Sölusamband frystihúsanna? Hvert er meginhlutverk síldarútvegsnefndar?
Þó var þessi „meinloka“ mín ekki stærsta syndin mín á þessum fundi. Ég lét nokkur hlýleg orð falla um samvinnuhreyfinguna og nauðsyn þess, að sjómenn og verkafólk um land allt stæði saman, tæki höndum saman til eflingar verzlunarsamtökum almennings í landinu og um leið til styrktar sínum eigin hagsmunum. Þá gat ég þess, að ekki mundi það skaða útgerðarmennina að nota samvinnusamtökin útgerð sinni og atvinnurekstri til eflingar, vaxtar og
viðgangs.
Þegar hér var komið ræðu minni, var tekið til að æpa í fundarsalnum. Síðan stappaði meiri hluti „þingheims“, svo að glumdi í, því að þar var þá timburgólf. Hávaðinn var ógurlegur. Minnisstæðastur er mér þó gamall, kunnur alskeggur, sem sat á fremsta bekk í húsinu, rétt við fætur mér, þar sem ég stóð á gólfinu. Hann
stappaði ákaft og skalf og nötraði nú meir en venjulega, enda þótt hann skylfi jafnan mikið sökum einhverrar bilunar, sem átti sér stað í útey, er hann var þar við fuglaveiðar.
Ég stóð þarna á gólfinu fyrir framan stappendurna, auðvitað ánalegur, og beið eftir að stappinu linnti og brigzlyrðin í minn garð tækju enda, því að ekkert hafði ég gert þessu fólki nema láta í ljós fjarstæðukenndar hugsanir af þess sjónarhóli séð, gagnstæðar uppeldi þess og kenningum valdhafa bæjarfélagsins, konsúlanna og stærstu kaupmannanna í bænum fyrst og fremst. Öðrum þræði
hafði ég ánægju af þessu fyrirbrigði. Hugurinn hvarflaði til ótaminna unglinga, skólanemenda, með lifrardollur milli handanna.
Loks komst kyrrð á aftur í salnum,og ég fékk að ljúka máli mínu.
Var þá samvinnuhreyfingin þessi óskaplegi þyrnir í augum þessa fólks? Það vissi ég ekki fyrr. Þó starfræktu verkamenn hér Kaupfélagið Drífanda. Og útgerðarmenn ráku hér tvö kaupfélög sér til hagsbóta, að þeir töldu: Kaupfélagið Fram og Kaupfélagið Bjarma. Hvernig stóð þá á öllum þessum æsingi?
„Klappliðið, maður, klappliðið, klapplið konsúlanna, maður,“ sagði léttur Eyjabúi, fæddur í Litlabæ í Eyjum, seinna í eyru mér, er við ræddum þetta fyrirbrigði á fundinum. „Og svo stappliðið, maður, stappliðið, þegar þess þarf með.“
Jæja þá, svo að þeir áttu klapplið líka ! Og svo létu þeir það stappa, þegar það átti við. Bara hringið, og svo kemur það! Gefið merki, víst merki, og þá var stappað! Vel upp alinn og vel taminn lýður! Uppeldishættir undirpallamenningarinnar í kaupstaðnum!
Þingmaðurinn tók næst til máls. Megin uppistöður í ræðu hans voru þær, að ég, þessi „barnafræðari“, væri „útsendari“ dómsmálaráðherrans, sem einnig var þá kennslumálaráðherra, til þess að túlka þar á fundinum og í bænum málstað hans
og hugsjónir, en ráðherrann var á þeim árum og lengi síðan kunnasti og skeleggasti málsvari samvinnuhreyfingarinnar í landinu. Fyrir það m.a. hafði hann áunnið sér brennandi óvild eða hatur vissra manna og eiginhagsmunasamtaka í íslenzka þjóðfélaginu. Og nú átti ég sem sé að hafa „flett af mér gærunni“ og
gerzt opinberlega þjónn hins vonda manns og hinna fráleitu hugsjóna hans. Mikil var synd mín! Ég minnist þess, þegar þingmaðurinn útskýrði sekt mína með sínum innfjálgu orðum, hve hinir „sanntrúuðu“ fundarmenn voru fullir vandlætingar og
hneykslunar. Hugsa sér að hafa slíkan mann hér í kennarastöðu! Nei, það skyldi ekki þolað. Vissulega hafði bæjarfélag þetta komizt af án mín til þessa. Það tilkynnti aðalkonsúllinn mér með háðskum orðum í ræðu sinni á eftir þingmanninum. Hann var jafnframt kaupmaður og útgerðarmaður. Hann tók það skýrt fram, að Eyjafólk óskaði vissulega ekki eftir að ala við brjóst sér kennara, sem þjónaði verstu og óbilgjörnustu niðurrifsmönnum íslenzka þjóðfélagsins. Þá fyllti dynjandi lófatak allan salinn.
Ég undraðist mest, hve mikinn úlfaþyt ræða mín, þessi fátæklegu orð mín, höfðu valdið konsúlaliðinu í bænum og öllum fylgifiskum þess.
Þó undraðist ég fyrst stórlega, er ég fékk að kenna á eftirköstum þessarar viðvaningslegu fundarræðu minnar, af því að ég þekkti ekki hinn ríkjandi anda umhverfisins, þekkti ekki alla þætti bæjarlífsins og sögulega myndun bæjarins sjálfs og mótun. Nokkrir menn áttu bæinn í hróksvaldi fjár og atvinnurekstrar. Þeir hinir sömu höfðu næsta ótakmarkað vald yfir 6 fulltrúum af 9 í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Helzt var það Kolka læknir, sem eitthvað var ekki ánægður og steytti görn endur og eins. Þá fékk hann líka að vita, hver hann var og hvar hann Davíð keypti ölið.
Eftir fundinn skrifaði þingmaðurinn í blað sitt Víði og sendi almenningi þessi orð um innræti mitt: „Flestir ungir menn eru svo vandaðir að upplagi, að þeir ættu skilið að hafa þá eina menn til fræðslu og vegsögu, sem eru vandir að hlut sínum“.
Þarna fékk ég það óþvegið. Ég var sem sé ekki vandur að hlut mínum. Þetta áttu foreldrar þeir að vita hér eftir, sem trúðu mér eða höfðu trúað mér til þess að annast með þeim uppeldi unglinganna, þeirra, sem vildu læra hjá mér í Unglingaskóla Vestmannaeyja, eins og skólinn hét þá og fram til 1930.
Eitt bréf barst mér strax. Það var þess efnis, að unglingurinn væri „hér með“ tekinn úr skólanum frá mér til þess að firra hann grandi. Meiri varð nú ekki árangurinn að því sinni. Bréfið á ég enn. Það er mér gimsteinn.
Og meira fékk ég: „Bolsaklíkan getur hrósað happi yfir því að hafa nú fengið þennan afdankaða leiðtoga af Norðfirði til þess að flónskast hér á opinberum fundum“. - Minna mátti það ekki kosta. Afkvæmið er skilgetið, sögðu kunnugir.
Og meira fékk ég í blaði þingmannsins eftir fundinn: „Allir, sem til þekkja, vita, að viðtal við „skynsaman útgerðarmann“ er ekki annað en heilaspuni hins nauðaómerkilega barnakennara, því að alls enginn meðal útgerðarmanna hér mun hugsa eða tala þessu líkt. Er það í þessu sem öðru, að maðurinn veit fátt og
skilur lítið í þessum efnum, svo að fávizka og öfund til þeirra, sem honum eru fremri, hlaupa með hann í gönur.“
Hér var ég þó titlaður barnakennari. Venjulegur titill þingmannsins á mér var „barnafræðari“, „ungmennafræðari“, „unglingafræðari“. Í þeim titlum fannst mér, að fælist spottið og fyrirlitningin mesta í eyru fólksins á starfi mínu.
Mér hafði orðið það á að bera fyrir mig orð virðulegs útgerðarmanns í Eyjum um nauðsyn þess að skipuleggja afurðasölu þjóðarinnar, því að þar gæti ekki gilt lögmál hinnar skefjalausu samkeppni. - En kyndilberinn taldi sem sé mjög ólíklegt, að nokkur útgerðarmaður í Eyjum léti slíka heimsku (!) í ljós eða
hugsaði þannig um afurðasölumálin.
Á. Ó. blaðamaður í Reykjavík sat þennan þingmálafund í Nýjabíó.
Hann skrifaði síðan langa grein um hann í blað þingmannsins. Þar lét blaðamaðurinn þessi orð falla um mig persónulega: „Öllum er sýnilegt, að hann er nokkurs konar tilberi, sem fengið hefur í belg sinn með góðu móti, en farið húsavillt, þegar hann ætlaði að losa sig við það ...“ (Víðir 1929, 15., 18 og 20. tbl.).
Hvað þýðir svo orðið tilberi? Það er þjóðsagnarkvikindi, sem galdrað er fram til þess að mjólka kýr og ær annars fólks. Þess háttar þjófnaðarkvikindi var ég þá að mati og á máli Á. Ó. og konsúlamenningarinnar í Vestmannaeyju fyrir 40 árum.
Á. Ó. blaðamaður var gestur hér í bænum, er hann skrifaði þessar svívirðingar um mig. Hann hafði ég aldrei talað við, aldrei séð hann fyrr en á fundinum, og engin deili á honum vitað.
Auðheyrilega hafði kyndilberum undirpallamenningarinnar í bæjarfélaginu eða konsúlnum tekizt að veita honum rækilegan „heilaþvott“, áður en hann gekk á fundinn eða þá eftir hann, áður en hann hellti svívirðingunum yfir mig, - ungan mann, sem hann hafði aldrei fyrr hvorki séð né heyrt. Öllu skal fórnað í þágu hugsjónanna og málstaðarins! „Mikil er trú þín kona“, stendur þar.
- Eitt sinn þóttist ég lesa grein í Lesbók Morgunblaðsins eftir þennan sama blaðamann, þar sem hann ræddi huglækningar, - dulrænar huglækningar. Það er vissulega ánægjulegt til þess að hugsa, þegar fólk öðlast loks vit og þroska til þess að veita sér ákjósanlegar lækningar og sálubót eftir miður sæmandi þjónustustörf, eins og hér voru af hendi innt. -
Þetta voru þá fyrstu kynni mín af kyndilberum undirpallamenningarinnar í Vestmannaeyjum fyrir 40 árum og skeleggustu þjónum þeirra, en ekki þau síðustu, því að hér hófst með þessum umrædda fundi „styrjöld“, sem stóð með nokkrum hvíldum í nálega aldarfjórðung.
Ekki áttu kyndilberar ríkjandi menningar eða ómenningar alla sök á styrjöld þessari, því að mér var friðurinn vís, og svo nokkur frami og hærri laun, - til jafns við aðra gagnfræðaskólastjóra í landinu, hefði ég beygt hálsinn eins og hinir, lotið og sýnt fullkomna fylgispekt í einu og öllu, ekki sízt við
kjörborðið, sætt mig við menningarástandið, eins og það var, aðbúnað allan að
skóla mínum og starfsaðstöðu alla. „Fylgir þú okkur,“ sagði hann „skaltu hljóta gull og græna skóga“.
Aðeins ein af þessum persónulegu svívirðingum snart mig: Orðin þau, að ég væri svo illa gerður maður að manngerð eða sálarlífið, að unglingunum gæti stafað hætta af mér, samstarfi við mig, leiðsögn minni í skólanum. Þau orð þingmannsins skildi ég á þá lund, að foreldrunum bæri að gæta unglinganna, svo að ég næði
ekki að spilla þeim, - sem sé, láta ekki unglingana í skólann til mín. Þannig varð það auðveldast að drepa niður skólastarf mitt eins og allra hinna og þannig varð áfram setið að vinnuafli unglinganna í beituskúrum og aðgerðarkróm eins og alltaf áður um tugi ára konsúlunum og nánustu fylgifiskum þeirra og andans bræðrum til hagsældar.
Og svo voru það orðin, að ég væri nauða-ómerkilegur barnakennari. - Þessu var foreldrunum ætlað að trúa. Orðin vöktu mér íhugun. Hvað skyldu fyrrverandi kennarar mínir, sem kynnu að lesa þennan vitnisburð, hugsa um mig? Ef til vill bárust þessi ummæli kennurum Kennaraskólans og fræðslumálastjóra, sem var einn af fyrrverandi kennurum mínum og nú raunverulegur húsbóndi í skólastarfinu. Hvað skyldi skólastjórinn Magnús Helgason hugsa um mig? - Þetta var svo sem enginn ómerkingur, sem kvað upp þennan dóm, sjálfur þingmaðurinn. Og ég var ungur og óreyndur, þekkti ekki að fullu sjálfan mig í vandasömu starfi, aðeins á öðru ári lífsstarfs míns.
Í fyrstu vissi ég satt að segja ekki, hvaðan á mig stóð veðrið. Eins og ég hefi drepið á, þekkti ég ekki anda umhverfisins, ekki sögu þess, ekki mótun. Vissi aðeins, að það hafði orðið til að megin hlut við snögg brigði í atvinnulífinu, með vélbátaútveginum. Var „snöggsoðið“ og „nýríkt“ og nokkrir menn notað aðstöðu
sína strax í upphafi „uppgangsaldar“ til þess að ná tangarhaldi á verzlunaraðstöðu allri og fjármagni eða lyklum að fjármagni. Sízt gat ég látið mér til hugar koma, að slíkt hugarástand gæti þróazt með ábyrgum mönnum orða sinna og gjörða.
Vissulega veitti meiri hluti fólksins valdamönnum þessum, kyndilberum sínum, brautargengi á vissum úrslitadögum. Átti það þá ekki sinn hlut í ósómanum? Fylgdi þar enginn hugur máli? Var fylgispekt þess við ósómann algjörlega utan garna? -
Já, ótrúlega mikið utan garna. Það reyndi ég persónulega bæði fyrr og síðar. Fólkið í heild átti ekkert skylt við þennan hroða í hugsun og athöfnum. En það lét reka sig á vissum dögum eins og fé til slátrunar.
Hér, eins og svo oft fyrr og síðar, var ungur maður að velta fyrir sér atburðunum og fyrirbrigðunum í tilverunni. Hann var að hefja lífsstarf sitt og stóð á krossgötum. - Vegir til allra átta, allra meginátta. Yfir hann dundi beljandi foraðsveður úr einni áttinni, - einmitt þeirri, sem hann varð að arka í, ef settu marki skyldi náð.
Hugurinn reikaði víða. - Ungi Íslendingurinn hafði lesið mörg spekiorð fornritanna í lestrarfýsn sinni og bókhneigð. Hann tók að hugleiða hið forna orð gifta og merkingu þess. Það er samstofna með orðunum gjöf og gæfa. Víst er gæfan gjöf. Og gifta manna er mismunandi sterk, fullyrtu forfeður okkar. Fólst hér ekki vísdómur? Víst vegnar mönnum mismunandi vel í lífinu. Vissulega er mönnum það mismunandi gefið að sigrast á ýmiskonar erfiðleikum. Giftan eða gæfan virðist fylgja sumum, öðrum ekki. Hér var það máttur giftunnar, sem reið baggamuninn, réð úrslitum. Hvað skyldi það vera með manninum, sem býr honum eða skapar honum hina máttugu giftu - ósigrandi giftu? Var það hin sterka trú á „handleiðsluna“, hina „sterku hönd“ , eða var það máttur viljans einn sveipaður hugsjónaeldinum? Ef til vill hvorttveggja.
Í leyndum átti ég í baráttu við sjálfan mig og umhverfið. Fávizka var mér sárasta fátæktin. Það fann ég bezt, þegar ég þurfti að kryfja sjálfan mig til mergjar, ef ég mætti orða það þannig.
Þetta voru einskonar „Einræður Starkaðar“, eins og skáldið Einar Benediktsson kallar slíkar hugleiðingar, uppgjör við lífið sjálft, tilveruna og sjálfan sig. Smámsaman fann ég það æ glöggar, að leynd áhrif hins mennilega æskuheimilis míns orkuðu á viljann og hugsunina. Þar ríkti alltaf trúarhiti án alls þröngsýnis eða ofstækis, heilbrigður og víðsýnn trúarhiti, heiðarleiki, víðsýni og sannleiksást. Aldrei að víkja frá góðum málstað!
Hér skyldi til stáls sverfa og giftuna reyna til hins ýtrasta. Mér var nú satt að segja ekkert að vanbúnaði lengur. Þetta var árangurinn af einræðum mínum við lífið sjálft, tilveruna og umhverfið. Og ég hafði tekið mínar ákvarðanir. Gegn því að verða samdauna umhverfinu skyldi ég spyrna af ýtrasta mætti. Engan frið
skyldi ég bjóða þeim.
Allt tók þetta miklu lengri tíma en það tekur að segja frá því. Ungur maður óreyndur á vegamótum. Þá er skorturinn á sjálfsþekkingu tilfinnanlegasti skorturinn. Engin lög voru þá í gildi um unglingaskóla í kaupstöðum. Auðvitað
var alveldinu í bænum í lófa lagið að klippa á þráðinn, taka fyrir allar
fjárveitingar til skólans undir minni stjórn. Hvað var annað líklegra? Þessir herrar valdsins áttu þá 6 fulltrúa af 9 í bæjarstjórn Vestmannaeyja, en þar voru manngerðirnar vissulega ekki steyptar í sama mót. Þess naut ég víst, - stundum að minnsta kosti.
Mitt í þessum einræðum mínum var drepið á dyr hjá mér. Komumaður var Magnús bóndi Guðmundsson á Vesturhúsum og skrifstofumaður hjá Kaupfélaginu Bjarma hér í
bæ, þegar hér var komið hinni löngu starfsævi hans.
Við Magnús höfðum kynnzt lítilsháttar í bindindisstarfinu í bænum. Báðir vorum við áhugasamir bindindismenn. Bindindi var okkur báðum hugsjón. Hann hafði þá starfað í stúkunni Báru nr. 2 áratugum saman og verið þar í fararbroddi oft og
tíðum öll þau ár. Ég beitti hins vegar áhrifum mínum af fremsta megni gegn tóbaks- og áfengisnautn unglinganna, sem hjá mér gengu í skólann. Ekki fór ég þó nærri strax að vilja Magnúsar Guðmundssonar og fleiri áhugasamra stúkumanna um að ganga í stúkuna með hóp nemenda með mér, ekki fyrr en eftir 10 ár. Þá loks, 19. febrúar 1939, gekk ég í stúkuna Báru nr. 2 með 32 nemendur mína með mér. Það fannst mér ljóssins dagur í lífi mínu og starfi. Æðsti templar lýsti þá yfir
því, að þetta væri stærsti sigur og stærsti hópur innsækjenda þau 50 ár,
er stúkan hafði þá starfað. Séra Jes A. Gíslason hafði orðið.
Á fertugsafmæli mínu um haustið heiðruðu nemendur mínir mig með því, að 20 af þeim gengu í stúkuna til samstarfs við okkur hin, sem þar voru fyrir. Meiri heiður gátu þeir naumast sýnt mér, að mér fannst. Enn ylja þessi minni mér.
Nokkru síðar skrifaði sér Jes A. Gíslason, sem var forustumaður bindindisstarfsins í bænum þá og naut almenns trausts og tillitssemi, - líka konsúlavaldsins -, skelegga grein í skólaritið Blik, sem birtist öllum í bænum. Þar skrifar hann:
- „Hvernig á að bjarga þeim yngri, hinni uppvaxandi kynslóð, svo að hún farist ekki í þessu syndaflóði? Það verður að byggja vígi, og það verður jafnframt að verja þessi vígi fyrir árásum hinna mörgu, sem ekki hafa opin augu fyrir háskanum. Fornþjóðirnar áttu slíkar háborgir, sem þær vörðust úr.
- Við hér í Vestmannaeyjum eigum slíkar háborgir til skjóls og varnar þeim, sem við viljum sérstaklega forða frá glötun áfengisnautnarinnar, og þessar háborgir eða vígi eru skólarnir okkar, þar sem kennararnir hafa tekið höndum saman um að bægja hættunni frá æskulýðnum með áminningum og góðu eftirdæmi.
- Verður hér í þessu sambandi hvarflað huganum til Gagnfræðaskólans hér, því að í þeim skóla eru nemendurnir komnir nær hættunni en í barnaskólanum ... Þessi skóli er því sjálfkjörið vígi í þessu efni þeim, sem þangað hafa leitað. Og reynsla undanfarinna ára hefur sýnt það. Þar er sú bindindisstarfsemi gróðursett og ræktuð, að slíks munu eins dæmi í skólum landsins, því að hver einasti nemandi þar er félagsbundinn í bindindisfélagi innan skólans og meiri hlutinn auk þess félagsbundinn í stúkum I.O.G.T. hér í Eyjum. Og starfsþrekið og starfsviljinn í skóla þessum fer einnig þar eftir. Glaðir og ákveðnir mæta nemendurnir til starfa á hverjum morgni, hresstir og endurnærðir af heilnæmustu svalalind lífsins, svefninum.
- Þakklátir megum við Eyjabúar vera fyrir það, að hópur æskumanna vorra á kost á því að dvelja í þessu vígi sér til andlegrar og líkamlegrar hressingar ... Það er því engin furða, þótt þeir, sem næstir standa þessari stofnun og finna til þeirrar ábyrgðar, sem á þeim hvílir í sambandi við hana, reyni af fremsta megni að verja þetta vígi og beita öllum kröftum og meðulum til þess ... reyni af alefli að slá vopnin úr höndum þeirra og rjúfa skjaldborg þeirra allt of mörgu manna hér sem víðar, sem vilja verja ósómann ...“
Þetta voru orð séra Jes A. Gíslasonar, eins og þau eru birt í riti skólans, prentuð þar á sínum tíma og lesin um allan bæ, líka af konsúlunum og nánustu fylgifiskum þeirra. Enginn var ber að baki í skóla- og uppeldisstarfi, sem átti vild og fylgd manna eins og Magnúsar Guðmundssonar og séra Jes A. Gíslasonar, -
engin ástæða til að kveinka sér eða örvænta í lífsstarfinu á meðan. Þessir
menn voru alltaf taldir í hópi merkustu borgara bæjarins á sínum tíma
og viðurkenndir hugsjónamenn í menningarlegu tilliti.
Og nú voru góð ráð dýr hjá kyndilberum undirpallamenningarinnar í verstöðinni, þar sem þessir tveir góðborgarar stóðu svo fast með mér og málstað mínum í skólastarfinu, eins og flestir hinna, sem unnu hugsjóninni. Nú þurfti sannarlega að vekja upp og senda á mig magnaða sendingu. Öflugt þurfti það rifbein að vera. Já, þar þurfti að vanda valið verulega vel, - manngerðina og vitsmunina! Og sjá, konsúlarnir fundu það, sem þeir leituðu að!
Nokkru síðar birtist í blaði þingmannsins og annarra valdhafa andspyrnuaflanna í bænum 6-dálka grein um mig og skólastarf mitt. Þar svaraði greinarhöfundurinn, Guðlaugur nokkur Gíslason, sem þá var ein af upprennandi stjörnum andspyrnunnar og flokksvaldsins í bænum, grein séra Jes A. Gíslasonar í Bliki og svo sinni eigin spurningu: „Er Þ.Þ.V. starfi sínu vaxinn?“ Þar komst greinarhöfundur að þeirri niðurstöðu, að ég væri óalandi og óferjandi skólamaður og skólastjóri, og skyldist því sviftast öllum bjargráðum. Til þessa hafði konsúlavaldið í bænum skammtað mér rúmlega hálf laun miðað við árslaun annarra skólastjóra í landinu, en þá voru þessar launaákvarðanir í höndum valdhafa bæjar- eða sveitafélaganna.
Þessari launakúgun hafði Kristinn Ólafsson, lögfræðingur og skólanefndarformaður mótmælt: Sú afstaða hans til mín og launakúgunarinnar kostaði skólanefndarformanninn formennskuna í skólanefnd Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. Þannig voru þessi átök illrætin eins og mannssálirnar. (Ég skírskota til fundargerðabókar skólanefndar Vestmannaeyja frá þessum árum til sönnunar þessum ótrúlegu atburðum).
En grein Guðlaugs Gíslasonar um það, hvort ég væri starfi mínu vaxinn, varð mér til góðs: Hún sannfærði mig um það, að ég var á réttri leið í starfinu. Hún jók mér þannig mátt, baráttukjark og trú á eigin málstað; efldi með mér baráttuhug gegn undirpallamenningunni og kyndilberum hennar.
Undirpallamenningin í kaupstaðnum hafði nú eignazt nýja, rísandi sól, sem varpaði skærum geislum sínum óspart undir pallana eins og annars staðar um hauður og haf konsúlamenningarinnar í kaupstaðnum. Þessi rísandi sól var höfundur 6 dálkagreinarinnar, þingmannsefni Flokksins og konsúlsefni, - arftakinn mikli.
Alda reis og alda hneig og ég skemmti mér konunglega. Ekkert kom mér nú lengur á óvart. Víl var mér nú jafn fjarri og brennivínspelinn.
Enn stend ég í þakklætisskuld við sendingu þessa, arftakann skilgetna, fyrir 6-dálkagreinina, því að nokkru síðar tók sjálfur fræðslumálastjóri svari mínu og lýsti yfir því, að við almenna prófun á kunnáttu nemenda í gagnfræðaskólum landsins, yrði Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum skipað á bekk með beztu gagnfræðaskólunum í landinu. (Sjá Vikublaðið Víði, 11. tbl. 1944, eina blaðið þá í Vestmannaeyjum).