Blik 1963/Saga séra Brynjólfs Jónssonar, I.
Uppruni og uppeldi.
Á 18. öldinni voru ýmsir nafnkunnir klerkar starfandi á Suð-Austurlandi mann fram af manni. Þar fór t.d. orð af séra Magnúsi Ólafssyni í Bjarnarnesi, sem kvæntur var Guðrúnu Bergsdóttur prests í Bjarnarnesi Guðmundssonar.
Séra Magnús var vel að sér og skáld gott, en deilugjarn og óvæginn.
Börn þeirra prestshjóna vora m.a. séra Bergur að Hofi í Álftafirði eystra. Hann var kvæntur Guðrúnu eldri Jónsdóttur sýslumanns að Hoffelli Helgasonar.
Séra Bergur Magnússon vígðist aðstoðarprestur séra Árna Gíslasonar að Stafafelli í Lóni veturinn 1797 og fluttist þangað um vorið. Sumarið 1822 fékk hann síðan brauð þetta. Hafði hann þá verið prófastur í Austur-Skaftafellssýslu í 8 ár, enda þótt hann væri aðeins aðstoðarprestur. Tveim árum síðar eða 1824 fékk séra Bergur veitingu fyrir Hofi í Álftafirði. Þar var hann síðan prestur til dauðadags 1837.
Hann þótti hinn merkasti klerkur og læknir góður.
Börn séra Bergs og Guðrúnar voru prestarnir séra Jón, er vígðist aðstoðarprestur föður síns að Stafafelli í Lóni, f. 1798 að Stafafelli, — séra Magnús í Heydölum og Sigríður, sem giftist Jóni Eiríkssyni frá Hoffelli.
Séra Jón Bergsson vígðist aðstoðarprestur föður síns 21. sept. 1823 eða árið eftir að hann lauk stúdentsprófi. Árið 1824 fluttist hann með föður sínum að Hofi í Álftafirði. Þar var hann aðstoðarprestur hans í 13 ár, en fékk prestakallið að föður sínum látnum og hélt það til æviloka (1843).
Séra Jón Bergsson bjó sig undir skóla hjá séra Brynjólfi Gíslasyni presti í Heydölum og nam þar þrjá vetur í heimilisskóla hans. Á þeim skólaárum felldi prestssonurinn frá Hofi hug til Rósu, dóttur prestshjónanna í Heydölum. Þau giftust síðar, er hann hafði lokið námi.
Börn séra Jóns Bergssonar að Hofi og k.h. mad. Rósu Brynjólfsdóttur voru m.a. Nikulás trésmiður og Gísli gullsmiður, báðir búsettir í Seyðisfirði eystra, séra Bergur prestur í Vallanesi, Jón bóndi og hreppstjóri að Hólum í Hornafirði (faðir Þorleifs alþingismanns og bændahöfðingja að Hólum) og séra Brynjólfur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum, sem hér verður skrifað um.
Séra Jón Bergsson að Hofi var talinn hygginn búmaður, höldur góður og smiður ágætur. Sá eiginleiki erfðist til barna hans í ríkum mæli.
Séra Jón Bergsson andaðist að Hofi 16. ágúst 1843. Þá var Brynjólfur sonur hans 17 ára að aldri. Mad. Rósa Brynjólfsdóttir, ekkja séra Jóns, giftist síðar (1845) séra Bjarna Sveinssyni, presti að Kálfafelli, síðar að Þingmúla og síðast að Stafafelli (1862-1878). Sonur þeirra hjóna var séra Jón Bjarnason, dr. phil., hinn kunni prestur og fræðimaður í Winnipeg. (F. 15. nóv. 1845, d. 2. júní 1914). Þeir voru því hálfbræður séra Brynjólfur Jónsson að Ofanleiti og séra Jón Bjarnason í Winnipeg.
Frú Rósa Brynjólfsdóttir, móðir þeirra, lézt 2. júní 1856.
- ----------------
Séra Brynjólfur Jónsson, aðstoðarprestur í Vestmannaeyjum 1852—1858, settur sóknarprestur þar 1858—1860 og sóknarprestur 1860-1884, fæddist að Hofi í Álftafirði 8. sept. 1826. Hann ólst upp á prestssetrinu hjá foreldrum sínum til 17 ára aldurs og lærði snemma að vinna öll algeng sveitastörf, hirti lambfé á vorin, stundaði slátt að sumrinu og smalamennsku á haustin með öllu öðru, sem kallar að og krefst framkvæmda árið um kring á fjölmennu sveitarheimili.
Á vetrum mun prestssonurinn hafa notið tilsagnar föður síns í foreldrahúsum, því að snemma var honum fyrirhugað langskólanám. Síðustu veturna heima mun hann hafa numið nauðsynlegustu undirstöður að námi í Latínuskólanum, Bessastaðaskóla. Þangað var hann sendur haustið 1843, nokkrum vikum eftir jarðarför föður síns, þá 17 ára að aldri.
Í skóla.
Á skólaárum séra Brynjólfs gerðist Sveinbjörn Egilsson rektor Bessastaðaskóla (1846) og var hann því einn af nemendum hans, er skólinn var fluttur til Reykjavíkur og tók til starfa í hinu nýbyggða stórhýsi (haustið 1846). Þar var séra Brynjólfur síðan nemandi næstu tvö árin og lauk stúdentsprófi 1. júlí 1848 með lofsamlegum vitnisburði, 1. eínkunn eða 90 stigum.
Í námsvottorði, sem Sveinbjörn rektor afhenti sér Brynjólfi við burtför úr skólanum, segir hann þennan prestsson frá Hofi gæddan góðum gáfum. Einnig hafði iðni hans og framkoma í skólanum verið með ágætum. Til fróðleiks um námsgreinar í skólanum þá, einkunnagjöf og heildargerð vottorða frá þessum einkaskóla þjóðarinnar, kýs ég að birta hér stúdentsprófsvottorð séra Brynjólfs, sem er skrifað á móðurmáli konungsins:
Brynjulv Jonsson, en Sönn af afgengne Jon Bergsson, Prest til Hof i Alptefjord i Sönder-mulesyssel, födt paa Hof i Alptefjord den 8. Sept. 1826, blev efter at have nydt privat Undervisning, i Aaret 1843 optagen i Bessestædskoles 1. Klasses anden Afdeling. Hans naturgaver er gode, hans flid og Opförsel udmærket god. Ved den i Juli 1848 afholdte Afgangsexamen tildeltes ham i de forskellige Sprog og Videnskaper fölgende Specialkarakterer:
Islandsk | godt |
Dansk | mg (meget godt) |
Tydsk | mg |
Latin skriftl. | mg |
Latin mundtl. | godt |
Græsk | mg |
Religion | mg |
Historie | mg |
Geographi | mg |
Arithmetik | mg |
Geometri | udm. godt |
Naturlære | udm. godt |
hvorefter han til Hovedkarakter erholdt anden¹ Karakter. For Hebraisk tilkjendtes ham Karakteren udm. godt.
I fölge overnævnte aflagte Pröve afgaar han nu fra Skolen, der herved meddeler ham sit Vidnesburd om, at han er i Besiddelse af den almindelige Dannelse og aandelige Modenhed som udfordres til at antages ved den i Reikevig oprettede Danelsesanstalt for vordende Geistlige paa Island.
Reikevig den 24. Juli 1848.
S. Egilsson.
Skolens Rektor.
¹ Þetta mun eiga að vera 1. einkunn, ef álykta skal af hinum háu einkunnum í einstökum námsgreinum.
Árið 1844 stofnuðu nemendur Bessastaðaskóla með sér bindindisfélag. Venjulega eru slík félög stofnuð fyrst af knýjandi nauðsyn og sárri þörf. Svo mun það hafa verið í Bessastaðaskóla, þar sem nautn áfengra drykkja mun hafa legið í landi og háð námi sveina.
Í bindindisfélagsskapnum í Bessastaðaskóla varð almenn þátttaka skólasveina. Áhrifa bindindisfélagsins gætti þegar í skólanum, bætti allan skólabraginn, hafði mennileg áhrif á framkomu nemenda og jók ástundun þeirra og kostgæfni, svo að kennararnir dáðust að. Leiddi þetta til þess, að flestir ef ekki allir kennarar skólans gengu í félagsskap þennan á næsta ári (1845) og störfuðu þar með nemendunum. Ekki er mér kunnugt um, hvort nemendur sjálfir áttu upptök að þessu menningarfélagi skólans eða einhver kennarinn, t.d. Sveinbjörn Egilsson.
Séra Brynjólfur Jónsson hafði ekki dvalizt einn vetur í Bessastaðaskóla, er bindindisfélagið var stofnað þar. Hann tók þegar þátt í félagsskapnum, tileinkaði sér hugsjón félagsins og var trúr málefninu og bindindishugsjóninni alla tíð síðan til æviloka. Svo djúpum rótum náði bindindishugsjónin að standa í hugskoti og lífi séra Brynjólfs, enda var skapgerðin traust og viljalífið fast mótað og sterkt. Uppeldið hafði orkað þar á góða manngerð, svo að sálarlífið varð heilsteypt.
Bindindisheitið, er séra Brynjólfur vann í Bessastaðaskóla, og það spor, er hann þá steig, taldi hann sér ávallt annað mesta gæfuspor sitt í lífinu, og það varð honum til mikilla heilla og sóknarbörnum hans, og honum sjálfum til ævarandi sæmdar.
Aðeins einn skólabróðir séra Brynjólfs frá Latínuskólanum í Reykjavík
(1846-1848) er talinn hafa haldið bindindisheit sitt alla ævi eins og hann. Það var séra Magnús Jónsson, hinn merki prestur á Skorrastað í Norðfirði og síðar í Laufási við Eyjafjörð (faðir Jóns Magnússonar sýslumanns í Vestmannaeyjum og síðar forsætisráðherra).
Séra Magnús Jónsson var merkur bindindisfrömuður á Austur- og Norðurlandi.
Haustið 1848 hóf séra Brynjólfur nám í prestaskólanum í Reykjavík. Hann lauk þar námi að tveim árum liðnum. Við embættisprófið varð hann efstur þeirra, sem þá luku kandidatsprófi í guðfræði og hlaut 50 stig. Aðeins 5 guðfræðingar frá Hinum íslenzka prestaskóla hlutu hærri einkunnir við embættispróf en séra Brynjólfur þau 48 ár, sem skólinn var starfræktur, (1849-1897). Til áþreifanlegri kynna af prestsefninu birti ég hér kandidatsvottorð séra Brynjólfs, sem var skrifað á móðurmáli hans.
„Kandidat Brynjólfur Jónsson kom í Prestaskólann haustið 1848. Hefur hann síðan með sérstakri ástundun lesið guðfræði í tvö ár og með stöðugri kostgæfni hlýtt fyrirlestrum okkar og tekið þátt í þeim skriflegu og munnlegu æfingum, sem við höfum haldið. Á þessu tímabili hefur hann náð þvílíkum framförum í guðfræðinni, að í burtfararprófi því, sem hann tók í næstliðnum mánuði, fékk hann fyrstu aðaleinkunn, og í hverri kennslugrein sérílagi svolátandi vitnisburð:
biblíuþýðing | dável |
trúarfræði | afbragðsvel |
siðfræði | dável |
kirkjusaga | dável |
prédikun | dável |
framburður | dável |
barnaspurning | dável |
og varð hann að öllu samantöldu efstur þeirra, sem í þetta sinn útskrifuðust.
Í sálarfræði fékk hann og dável.
Hann hefur drjúgar og farsælar gáfur og er í allri umgengni sinni stilltur og siðprúður. Þannig er hann með lofi útskrifaður úr Prestaskólanum.
Þessu til staðfestingar eru nöfn okkar og innsigli Prestaskólans.
- Reykjavík, dag 23. ágústmán. 1850.
- P. Pétursson -- S. Melsted
- H. Árnason
- (Innsigli hins íslenzka
- prestaskóla).
- P. Pétursson -- S. Melsted
- Reykjavík, dag 23. ágústmán. 1850.
- Vitnisburðarbréf gefið kandidat Brynjólfi Jónssyni.
Þannig höfum við þá kynnzt hinu unga prestsefni, sem síðar varð andlegur höfðingi Vestmannaeyinga, fórnfús fræðslu- og félagsmálaleiðtogi þeirra um þriðjung aldar og styrkur og stoð fátækra, sjúkra og snauðra þar öll sín starfsár.
Eftir að hafa lokið guðfræðiprófi vorið 1850, réðst Brynjólfur kandidat heimiliskennari að Nesi við Seltjörn hjá Þórði yfirdómara Sveinbjarnarsyni. Þar dvaldist kandidatinn við kennslu störf veturinn 1850—1851.
Næsta haust réðst hann aftur heimiliskennari, og þá að Hjálmholti í Árnessýslu til Þórðar sýslum. Guðmundssonar, föður séra Oddgeirs, er prestur varð að Ofanleiti 5 árum eftir dauða séra Brynjólfs (sjá Blik 1962). Þegar Brynjólfur kandidat var kennari á sýslumannssetrinu, var Oddgeir prestsefni Þórðarson Guðmundsen aðeins tveggja ára gamall. Jafnframt því að vera heimiliskennari hjá sýslumannshjónunum var Brynjólfur kandidat sýsluskrifari. Nemendur hans á heimilinu voru m.a. Margrét Andrea, dóttir sýslumannshjónanna, þá 10 ára gömul, sem varð kona hins landkunna prests og gáfumanns séra Páls Sigurðssonar í Gaulverjabæ. Með henni nutu kennslunnar nokkur börn frá nágrannabæjunum.
Veturinn, sem séra Brynjólfur Jónsson dvaldist heimiliskennari og sýsluskrifari í Hjálmholti, sótti hann um Reynistaðarklaustur í Skagafirði. Hann fékk veitingu fyrir brauði þessu 17. apríl um vorið. Sama vor, 9. maí, vígði biskupinn, herra Helgi Thordersen, hann til Reynistaðarprestakalls. Til þessa hefur nokkur vafi leikið á því, hvort séra Brynjólfur fluttist nokkru sinni norður í Skagafjörðinn. Í ísl. æviskrám fullyrðir Páll Eggert Ólason, að prestur hafi aldrei þangað flutzt. Ég dreg í efa, að það sé rétt fullyrðing.
Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir í Vestmannaeyjum 1865—1905, var nákunnugur séra Brynjólfi Jónssyni, enda störfuðu þeir saman að opinberum málum í Eyjum í 19 ár. Í ræðu, sem Þorsteinn læknir flutti við kistu prestsins, fullyrðir hann, að séra Brynjólfur hafi flutzt í Skagafjörðinn og tekið við Reynistaðarklaustri, er hann fékk bréf frá yfirvöldum landsins, sem varð þess valdandi, að „þar dvaldi hann aðeins stutta stund,“ eins og læknirinn orðar það. Þessi orð hans, hins gagnmerka manns, taka af öll tvímæli.
Áfengisbölið og Eyjabúar.
Nú víkur sögu minni til Vestmannaeyja.
Þegar henni er hér komið, hefur séra Jón Jónsson Austmann verið prestur í Vestmannaeyjum í 25 ár, (frá 19. júlí 1827). Hann var nú orðinn 65 ára. Hann var sjóndapur, og á hann sótti mikil fita, svo að hann átti erfitt með gang. Helzt bar hann enginn hestur til kirkju. Af þessum sökum reyndist honum erfitt að fullnægja kröfum prestsembættisins í Eyjum, en þar hafði hann verið einn prestur síðan 1837, er Ofanleitis- og Kirkjubæjarprestakall voru sameinuð í eitt, Vestmannaeyjaprestakall. Af þessum sökum beiddist séra Jón Austmann að fá kapellan sér til aðstoðar og hjálpar. Biskupinn yfir Íslandi, herra Helgi Thordersen, tók beiðni séra Jóns vel og drengilega.
Orð hafði af því farið, hversu drykkjuskaparbölið væri almennt og átakanlegt í Vestmannaeyjum um þessar mundir, og presturinn þar sízt nokkur eftirbátur, nema síður væri, enda kom til tals að setja hann af embætti eitt sinn sökum drykkjuskapar, en sóknarbörn hans báðu gott fyrir hann, og fékk hann þá að halda embættinu með áminningu.
Í kjölfari áfengisnautnarinnar þróaðist margs konar önnur ómenning eins og enn á sér stað og alltaf hefur við gengizt, svo sem lauslifnaður, hnupl, gripdeildir, framtaksleysi, sóðaskapur og illindi, sem stundum leiddu til handalögmála á almannafæri eða í búðum selstöðukaupmanna. — Guðsþjónustur urðu iðulega fyrir truflunum af ölvuðum kirkjugestum, sem sumir hverjir hétu að vera mektarbændur í Eyjum. Af þeim ástæðum var sumum Eyjamönnum gjörsamlega bönnuð kórseta í Landakirkju.
Auðvitað tók enginn tillit til orða prestsins eða kenningar, þar sem hann var sjálfur kunnur að því að „þramma hinn breiða veginn“ Bakkusar, svo að orð fór af utan Eyja. Manngæzka prestsins orkaði ekki þar á móti að vinna, þó að hann ætti hana í ríkum mæli og nyti þess vegna mikillar velvildar og hlýhuga sóknarbarna sinna.
Um allt þetta hörmulega ástand í Eyjum, drykkjuskaparbölið og framtaksleysið, fátæktina og sóðaskapinn, virðingarleysið fyrir kirkju og kennimennsku, vissu biskup og önnur stjórnarvöld.
Mikils þótti því um vert, að til Vestmannaeyja veldist áhrifaríkur aðstoðarprestur, sem væri því vaxinn að vera fyrirmynd fólksins um bindindi og aðra mennilega hætti, sannur leiðtogi þess og forustumaður í félagsmálum og öðrum menningarmálum Eyjabúa, ef það orðaval á rétt á sér um þessa tíma, miðja 19. öldina.
Séra Brynjólfur Jónsson valinn.
Æðstu embættismenn þjóðarinnar, biskupinn og stiftamtmaðurinn, höfðu glöggt yfirlit um alla þá menn, sem lokið höfðu guðfræðiprófi frá Prestaskólanum í Reykjavík síðustu árin. Biskup þekkti þá flesta persónulega, bar glöggt skyn á gáfur þeirra og skapfesti, siðgæðisvitund og viljalíf.
Eftir nána athugun og umþenkingar urðu þessir tveir æðstu embættismenn þjóðarinnar á eitt sáttir um valið á manninum í kapellánsembættið í Vestmannaeyjum. Fyrir valinu varð hinn nývígði sóknarprestur til Reynistaðarklausturs í Skagafirði, séra Brynjólfur Jónsson.
Hinn 23. júní 1852 skrifuðu svo hinir háu herrar í sameiningu séra Brynjólfi svolátandi bréf:
„Kirkjuráðið hefur með bréfi frá 13. maí þ.á. falið oss á hendur að setja prestinum í Vestmannaeyjum, séra Jóni Austmann, kapellán með fullri ábyrgð (Cappellan paa eget An- og Tilsvar), samt að ákveða honum tilhlýðileg laun. Þessi laun getum við ekki að sinni nákvæmlega ákveðið öðru vísi en að þau í engu tilfelli verði undir helming allra teknanna af þessu brauði, sem almennt er álitið eitt af hinum beztu í landinu.
Þar eð oss liggur í miklu rúmi að geta fengið sem efnilegastan mann til að taka þessa köllun á hendur, og vér höfum það álit á yðar velæruverðugheitum, að þér séuð þeim kostum búinn, sem gjöri yður þar til vel hæfan, þá viljum vér hér með bjóða yður áður nefnda kapellánsþjónustu í Vestmannaeyjum með þeim kostum, sem fyrr er að vikið, sem seinna skulu nákvæmar verða til teknir, og bætum vér því við, að ef yður í þessari stöðu, sem vér engan veginn efumst um, skyldi auðnast að rækja vel embætti yðar með því að efla siðgæði og reglusemi safnaðarins, mundi það líklegast, að yður seinna yrði veitt Vestmannaeyjabrauð, en sjálfsagt að þér með því ávinnið yður meðmæli til einhverra hinna betri brauða.
Svars yðar upp á þetta vort bréf væntum vér við fyrstu hentugleika og óskum, að það verði skýlaust.
- Íslands Stiptamtshúsi og Laugarnesi dag 23. júní 1852.
- Í Stiptamtsmannsfjarveru, hans og mín vegna
- H.G. Thordersen.
- H.G. Thordersen.
- Til
- herra prestsins
- séra Brynjólfs Jónssonar.
Þetta bréf frá yfirvöldunum fékk séra Brynjólfur Jónsson í hendur 12. júlí um sumarið, enda samgöngur mjög strjálar þá við Norðurland.
Bréfinu svaraði séra Brynjólfur játandi þá þegar.
Síðan gáfu stjórnarvöldin út skipunarbréf til handa prestinum fyrir kapellánsstöðunni í Vestmannaeyjum. Það er dags. 18. sept. og hljóðar þannig:
- Stiptamtmaðurinn og biskupinn
- yfir Íslandi:
- yfir Íslandi:
Gjörum kunnugt: að vér samkvæmt þeim myndugleika, sem oss er gefinn í bréfi ráðherrans yfir kennslu- og kirkjumálefnunum dags. 13. maí þ.á., skipum og setjum prestinn til Reynistaðarklausturs, herra Brynjólf Jónsson, til að vera kapellán í Vestmannaeyjabrauði og hafa alla ábyrgð brauðs þessa. Hann skal vera Danmerkurkonungi trúr sem sínum rétta erfðakonungi og með trúmennsku og árvekni gegna embættisskyldum sínum samkvæmt eiði þeim, sem hann unnið hefur.
Samt ber þess að geta, að presturinn Jón Austmann hefur til dauðadags helming af öllum tekjum brauðsins og jörðina Ofanleiti afgjaldsfrítt, og er hann skyldur til að sjá um, að jörð þessi sé ætíð í forsvaranlegu og góðu standi. Þar á móti nýtur velnefndur prestur Brynjólfur Jónsson sem kapellán allra hinna annarra tekna brauðsins og þar á meðal afgjalds og nota Kirkjubæjar að öllu leyti.
Þessu til staðfestu eru nöfn og innsigli.
- Ísl. Stiptamtshúsi og Laugarnesi 18. sept. 1852.
- J.D. Trampe. -- H.G. Thordersen.
Skikkunarbréf handa Brynjólfi presti Jónssyni, að hann sé kappelán í Vestmannaeyjabrauði í Suðuramtinu.
Teiknimynd af innsigli Íslands frá 1593. Innsiglið var úr silfri 3.5 sm. að þvermáli. Á skildinum er flattur afhausaður þorskur krýndur (danskri) kórónu: Sigillum — Insulæ — Islandiœ = Innsigli eyjunnar Íslands. M.a. var þetta innsigli Prestaskólans og stiptyfirvaldanna. Sjá Sögu séra Br. Jónssonar.
Þetta skipunarbréf tók séra Brynjólfur Jónsson með sér á leið sinni til Eyja haustið 1852.
Þegar til Eyja kom, fékk prestur inni í Stakkagerði eystra hjá ekkjunni Ásdísi Jónsdóttur, sem misst hafði mann sinn, Anders Asmundsen, skipstjóra, í sjóinn árið áður ².
Frá fyrstu tíð sinni í Vestmannaeyjum bar séra Brynjólfur Jónsson algjöra ábyrgð á sálusorgarstarfinu og öllu prestsembættinu, þar sem séra Jón Austmann taldist með öllu óstarfhæfur, þegar séra Brynjólfur kom til Eyja.
² Frú Ásdís Jónsdóttir og m.h. Anders skipstjóri, norskur að ætt, voru móðurforeldrar séra Jes A. Gíslasonar og þeirra systkina, sem kunnugt er.
Prestur kvænist.
Ekki hafði séra Brynjólfur dvalizt lengi í Eyjum, er hann vildi staðfesta ráð sitt þar.
Þar í Eyjum var þá verzlunarstjóri við Júlíushaabverzlunina, er hét Jón Jónsson og kenndi sig á danska vísu við afa sinn, Salómon Jónsson bónda í Vík og Hraunkoti í Lóni. Nafn verzlunarstjóra þessa varð því Salómonsen. Danskara gat það naumast orðið.
Jón verzlunarstjóri Salómonsen var sonur Jóns kaupmanns Salómonssonar í Kúvíkum við Reykjarfjörð á Ströndum. Þar var hann kaupmaður frá 1821 til dauðadags (27. júlí 1846). Hann var talinn vitur maður og vel að sér, svo sem orð falla um hann í merkri heimild.
Jón kaupmaður var bróðir Sigríðar Salómonsdóttur, er varð 3. kona Hermanns bónda Jónssonar í Firði í Mjóafirði og þannig formóðir svokallaðrar Brekkuættar þar í firðinum.
Jón kaupmaður í Kúvíkum var tvígiftur. Síðari kona hans var Sigríður Benediktsdóttir frá Dvergstöðum í Eyjafirði Þorvaldssonar. Börn þeirra voru þessi: Sigríður, gift Jóhanni Bjarnasen í Vestmannaeyjum, Jóhanna, gift Chr. Abel yngra, verzlunarstj. í Eyjum, Kristín, gift Jóni Ólafssyni í Finnbogabæ í Reykjavík, Sigvaldi, verzlunarstjóri í Kúvíkum, Benedikt í Skjaldarvík við Eyjafjörð, Jón verzlunarstj. við Júlíushaabverzl. í Vestmannaeyjum og Ragnheiður, „jómfrú í Godthaab“ s.st.
Ragnheiður Jónsdóttir var fædd í Reykjarfirði á Ströndum 27. júní 1829, nett stúlka, blíðlynd og siðprúð. Þessarar stúlku bað séra Brynjólfur sér til handa og fékk hennar. Þau giftust 19. júní 1853 eftir þrjár hjónalýsingar í Landakirkju.
Ungu prestshjónin hófu búskap sinn í danska embættismannabústaðnum í Vestmannaeyjum, Nöjsomhed (sjá Blik 1960), sem þá var 20 ára gamalt timburhús í eigu N. N. Bryde selstöðukaupmanns í Danska-Garði. Nokkru síðar festu þau kaup á húsi þessu og bjuggu í því í 7 ár.
Með kaupbréfi dags. 31. maí 1861 seldu þau húsið fyrrv. eiganda þess fyrir 460 ríkisdali.
Eins og tekið er fram í veitingarbréfinu fyrir kapellánsstöðunni, þá fékk séra Brynjólfur Jónsson prestssetursjarðirnar að Kirkjubæ til afnota og nytja, er hann gerðist ábyrgur aðstoðarprestur í Vestmannaeyjum. Þær nytjaði hann þegar sumarið 1853, fyrsta sumarið sem hann dvaldist í Eyjum, enda þótt prestshjónin byggju í Nöjsomhed, sem stóð kippkorn suður af verzlunarhúsunum í
Danska-Garði³.
Brátt kom í ljós, að séra Brynjólfur var hinn mesti og bezti verkmaður, sem hlífði sér hvergi við erfiðisvinnunni. Hann vann að heyskap sínum og hirðingu búsins eftir því sem tími hans hrökk til. Uppeldi hans við búskaparstörfin í foreldrahúsum að Hofi í Álftafirði varð honum nú affarasælt og happadrjúgt.
Madama Ragnheiður reyndist einnig mikil dugnaðarkona, heimilisleg, búhyggin og hjálpfús við sjúka og fátæka. Bráðlega varð heimili ungu prestshjónanna í Eyjum á orði haft fyrir myndarskap, hreinlæti og aðra fyrirmynd um allan heimilisbrag og mennilega hætti. Hljóðalaust og kyrrlátt tók það þegar að hafa áhrif á umhverfið og heimilishætti a.m.k. hinna betur megandi sóknarbarna prestsins.
Búskapur hinna ungu og dugmiklu prestshjóna færðist brátt í aukana, og þeim græddist fé, þrátt fyrir lítil efni í fyrstu, enda voru nú í Eyjum góð aflaár, svo að fisktíundarhlutar séra Brynjólfs námu um 4.000 þorskum til jafnaðar á ári hverju fyrstu 2—3 árin hans í sókninni. Hann bar úr býtum helming fisktíundarinnar móti séra Jóni sóknarpresti samkvæmt skipunarbréfinu.
³ Jarðir þær, sem séra Brynjólfur Jónsson hafði til ábúðar á Kirkjubæ voru: Garðar, Syðstibær og Bænhúsbær. Hina síðastnefndu fékk Magnús Eyjólfsson, hagleiksbóndinn kunni, til ábúðar löngu seinna og Pétur Guðjónsson eftir hans dag.
Séra Jón Austmann fellur frá.
Séra Jón Austmann lézt 20. ágúst 1858 eins og áður getur. Þá hafði hann verið sóknarprestur Eyjamanna 31 ár. Kona hans var Þórdís Magnúsdóttir, systir séra Benedikts að Mosfelli í Mosfellssveit. (Sjá Blik 1961: Anna Benediktsdóttir ljósmóðir). Heimili prestshjónanna var orðlagt fyrir gestrisni og myndarskap, hjálpsemi við nauðstadda, umhyggju fyrir fátækum, viðkvæmni og góðvild gagnvart nauðleitarfólki og syrgjandi. Meðan heilsa prests leyfði, hafði hann rækt störf sín af mikilli samvizkusemi og skyldurækni. Hann naut virðingar og álits sem kærleiksríkur kennifaðir, gáfumaður, lesinn og fróður, listrænn, söngvinn og góður ræðumaður. Hann hafði verið mikið hraustmenni á yngri árum. Tvennt var það, sem lamaði alla þessa góðu eiginleika prestsins og gerði hann óstarfhæfan, þegar á ævina leið: fita og drykkjuskapur, því að hann var matmaður mikill og skilgetið barn síns tíma um nautn áfengra drykkja.
Prestskonan á Ofanleiti, frú Þórdís Magnúsdóttir, átti fáar líkar sér um hjartagæzku, góðsemi og drenglund. Margt snautt barnið í Eyjum naut þeirra ríku eiginleika prestsfrúarinnar, sem var hugljúfi hvers þess, sem kynntist henni.
Séra Brynjólfur Jónsson jarðsöng séra Jón Austmann. Þá flutti hann ræðu, er mörgum stóð í minni, sem í Eyjum bjuggu síðari hluta 19. aldarinnar og lifðu fram undir aldamótin. Mér hefur ekki tekizt að finna ræðu þessa eða fá að lesa hana, en geymzt hafa og mér borizt nokkur minningarorð úr ræðu þessari, bæði í bundnu og óbundnu máli. Þau orð gat séra Brynjólfur hugsað sér grafskrift eftir sóknarprestinn séra Jón Austmann. Þau hljóða svo:
„Látinn hér geymist líkami velæruverðugs herra prests séra Jóns Jónssonar Austmanns, hirðis og sálusorgara Vestmannaeyjasafnaðar. Hann var fæddur 13. maí 1787 en burtkallaður til sælli heima 20. ágúst 1858 eftir liðugra 71 árs dvöl í heimi þessum. Vígður til prestslegrar þjónustu 11. okt. 1812. Þjónaði hann því embætti í nærfellt 40 ár með árvekni og skörungsskap, meðan kraftar tilentust. Í ástríku 47 ára hjónabandi með sinni nú eftirþreyjandi, sártharmandi ekkju, Þórdísi Magnúsdóttur, varð honum 9 barna auðið. Eru 3 þeirra farin á undan föður sínum til friðarins heimkynna, en 6 þeirra lifa eftir særð sorg af föðurmissi.
- Sárt mundi þykja,
- ef sól um miðdegi
- birtu sneydd
- að beði legðist.
- En þótt að kvöldi
- röðull renni,
- reynist það samt
- að daprast gleði.
- Sárt mundi þykja,
- Svo veit ég hér,
- að sorg um spennir
- maka mætan
- og mörg afkvæmi,
- þótt Austmann prestur
- aldurhniginn
- heim sé fluttur
- til himna ranns.
- Svo veit ég hér,
- Hér má maki
- maka sakna,
- og sárt harma föður
- synir og dætur,
- því allra þeirra
- aðstoð reyndist,
- og mein ei þeirra
- hann mátti vita.
- Hér má maki
- Hér mega sannir
- sakna hirðis,
- ef sjá þeir kunna,
- hve vel þeim vildi,
- þar lífi sínu
- löngum varði
- sauði drottins
- til sælu að leiða.
- Hér mega sannir
- Misst hafa snauðir
- mæta styttu,
- marga hungraða
- gjörði hann metta,
- og drykk þyrstum
- þeigi sparði
- því aumt svo ei sá,
- að ei aumur á sæi.
- Misst hafa snauðir
- Því hefur miskunn
- miskunnsamur
- hlotið af föður
- frægstum himna
- og laun trúrra
- að lyktum þjóna
- tekið arfleifð,
- þau týnast eigi.
- Því hefur miskunn
- Lof sé drottni,
- þeim leitt hann hefur
- heims úr böli
- til helgra sala.
- Sá tók, sem gaf
- af sannri mildi,
- huggarinn bezti
- harmþrunginna.
- Lof sé drottni,
- Hans verði vild,
- því viljum sæta.
- Ástin er sönn,
- þótt augun græti.
- Skildir með harmi
- skulu aftur
- fögnuði með
- í friði búa.
- Hans verði vild,
- Veit oss drottinn
- vonglöðum þreyja
- vært í þér
- svo héðan burt deyja.
- Öll þá hryggð
- í eilífan fögnuð
- umbreytt er
- og harmakvein þögnuð.
- Veit oss drottinn
Árið 1843 skrifaði séra Jón Austmann hina kunnu „Útskýringartilraun yfir Vestmannaeyjar“. Þar segir sóknarpresturinn um siðferði Eyjamanna 9 árum áður en séra Brynjólfur Jónsson fluttist til Eyja og settist þar að:
„Siðferðinu er hér eins og annars staðar mikið ábótavant, þó er það ekki nærri eins vont eins og (jafnvel) lærðustu menn nú á dögum hafa ritað og talað, og er það mikið íhugunarvert að tala svo um sína eigin landa að orsakalausu, eður þá eftir einberri sögusögn og hleypidómum, því að hinir siðferðilegu lestir, svo sem þjófnaður, hórdómur, frillulifnaður, þrætur og fjandskapur o.s.frv. eru hér engan veginn algengari en í hverri annarri sveit. En það er auðvitað, að þessir lestir stinga sér hér niður, eins og annars staðar, einkum drykkjuskapur og frillulifnaður, því að hér eru syndum spilltir menn eins og alls staðar annars staðar, og hafa máske þeir stóru og háu herrar, sem fellt hafa og fella svo þunga dóma um oss, ekki gætt að þessu eða ætlazt til að svo væri.“
Prestur heldur því fram, að þekking Eyjamanna á trúarbrögðunum sé mun meiri en áður, og hafi siðgæðið farið batnandi í hlutfalli við þá auknu þekkingu.
Vissulega reynir prestur að fegra fuglinn sinn, eins og honum stóð næst. Naumast gat hann sjálfur haft góða samvizku, þegar hann skrifaði þessi varnarorð, svo mjög var honum sjálfum ábótavant varðandi neyzlu áfengra drykkja, þó að hann að öðru leyti væri siðprýðismaður og umhyggjusamur sálusorgari.
Um það siðferðilega ástand Eyjamanna, sem séra Jón Austmann er að reyna að fegra, sagði Aagaard sýslumaður 40 árum síðar við kistu séra Brynjólfs:
„... þegar hið siðferðilega ástand hér var mjög hryllilegt og dimmt...“
Þannig var þá ástatt í siðgæðismálum Eyjamanna, þegar séra Brynjólfur Jónsson fluttist til Vestmannaeyja og gerðist þar ábyrgur kapellán í prestakallinu. Að sjálfsögðu amaði það prestunum mest og hryggði þá, þegar guðsþjónustur í Landakirkju urðu fyrir truflunum af ölvuðum kirkjugestum, eins og iðulega átti sér stað, svo að hneyksli vakti í söfnuðinum.
Séra Jón J. Austmann lézt sem fyrr segir sumarið 1858. Mad. Þórdís Magnúsdóttir kona hans lézt ári síðar eða 3. sept. 1859.
Vestmannaeyingar ályktuðu þá, að séra Brynjólfur Jónsson stæði næstur að verða sóknarprestur þeirra, bæði sökum verðleika og svo hins, að hann hafði verið aðstoðarprestur í söfnuðinum undanfarin 6 ár, mikils metinn og mikilhæfur í prestsskapnum. Einskis prests óskuðu Eyjamenn sér fremur en hans. En hin háu yfirvöld voru ekki á sama máli, töldu aðra standa sér nær, hvað svo sem vilja safnaðarins liði.
Sjálfur vildi séra Brynjólfur ógjarnan þurfa að flytja burt úr Eyjum. Bar þar ýmislegt til. Um þessar mundir voru tekjur hans mjög rýrar sökum óvenjulegrar aflatregðu síðustu 2—3 árin. Hann safnaði skuldum við dönsku selstöðuverzlunina í Danska-Garði. Flutningur frá Eyjum hlaut að verða kostnaðarsamur. Samgöngur voru engar 3—4 mánuði ársins við aðra staði á meginlandinu og mjög strjálar ella, aðeins ferðir bænda á opnum skipum haust og vor milli lands og Eyja í verzlunarerindum.
Sökum einangrunarinnar átti prestur einnig mjög bágt með að fylgjast með því, þegar prestaköll losnuðu til umsóknar.