Jón Jónsson Salomonsen (hafnsögumaður)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Jón Jónsson Salomonsen verzlunarstjóri, bókhaldari og hafnsögumaður fæddist 1830 í Kúvíkum á Ströndum og lést 5. nóvember 1872.
Foreldrar hans voru Jón Salómonsson verslunarstjóri í Vopnafirði, bóndi í Ási í Kelduhverfi og síðast verslunarstjóri í Kúvíkum við Reykjarfjörð í Strandasýslu, f. 1771, d. 27. júlí 1846, og síðari kona hans Sigríður Benediktsdóttir húsfreyja, f. 1789, d. 6. desember 1859.

Systur Jóns í Eyjum voru:
1. Jóhanna Jónsdóttir Abel húsfreyja, f. 4. júní 1819, kona Jens Kristján Thorvald Abel kaupmanns í Godthaab.
2. Ragnheiður Jónsdóttir húsfreyja á Ofanleiti, f. 27. júní 1829, kona sr. Brynjólfs Jónssonar.
3. Sigríður Jónsdóttir Bjarnasen, f. 1816, kona Jóhanns Bjarnasens verslunarstjóra.

Jón var með foreldrum sínum í Reykjarfirði 1835 og 1845, vinnumaður í Árnesi 1850.
Hann var kominn til Eyja 1856 og dvaldi þá hjá Jóhönnu systur sinni í Godthaab.
Þau Jórunn voru nýgift á Ofanleiti 1858, bjuggu í Ottahúsi 1859 og hann orðinn hafnsögumaður 30 ára. Gísli kom til þeirra í fóstur tveggja ára 1860. Jón var assistent 1863, búsettur í Ottahúsi, verslunarþjónn 1865, verslunarmaður í Jómsborg 1866-1868, verslunarþjónn og bókhaldari í Juliushaab 1869, varð verslunarstjóri um skeið 1869, sjávarbóndi og hafnsögumaður í Jómsborg 1870.
Jón var flokksforingi og vopnasmiður í Herfylkingunni.
Hann lést 1872.

Kona Jóns, (6. nóvember 1858), var Jórunn Jónsdóttir Austmann húsfreyja frá Ofanleiti, f. 1821, d. 27. október 1906. Jón var fyrri maður hennar. Síðari maður hennar var Engilbert Engilbertsson verslunarmaður.
Þau Jórunn voru barnlaus, en þau fóstruðu
1. Gísla Gíslason Bjarnasen beyki og smið, f. 27. júlí 1858, d. 6. maí 1897. Hann var sonarsonur Sigríðar Jónsdóttur Bjarnasen, systur Jóns hafnsögumanns og verslunarstjóra.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.