Blik 1962/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, III. kafli, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1962



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga Ísfélags Vestmannaeyja


III. KAFLI
(fyrri hluti)



Þar var frá horfið við enda annars kafla í sögu Ísfélags Vestmannaeyja, að Gísli J. Johnsen baðst undan stjórnarstörfum fyrir félagið. Bréf hans þess efnis lá fyrir stjórnarfundi 3. sept. 1927.

Jón Hinriksson, kaupfélagsstjóri.

Jón Hinriksson, kaupfélagsstjóri, var nú kjörinn formaður Ísfélagsins. Jón var áhrifaríkur persónuleiki, hygginn fjárveltumaður og ötull. Hann rak kaupfélagið Fram í Eyjum fyrir marga útgerðarmenn, sem að því stóðu.
Útgerðin í Vestmannaeyjum hafði tekið örum vexti. Þess vegna var það stjórnendum Ísfélagsins áhyggjuefni, hversu íshús félagsins var enn á ný orðið ófullnægjandi, of lítið, svo að síld varð ekki keypt í hvert sinn nema í allt of litlum mæli. Af þeim sökum þurfti stjórnin að gera svo tíð síldarkaup, og oft var beitusíldin þá ófáanleg, þegar hana skorti tilfinnanlegast. Þetta olli stjórninni mestum erfiðleikum. Síldarkaupin voru í rauninni aðalstarf stjórnarinnar og svo innheimtan á andvirði beitunnar, sem öll var lánuð út af íshúsinu.
Í febrúarmánuði 1927 höfðu verið samin ný lög fyrir Ísfélag Vestmannaeyja, sem stjórnin lét prenta. Breytingar á fyrri lögum voru þar ekki stórvægilegar. Helztar breytingarnar voru þessar:
Hlutaféð er hækkað úr kr. 12.000,00 í kr. 16.500,00, sem skiptast í 660 hluti. Arðmiði heldur gildi sínu í þrjú ár frá því að arðurinn var afráðinn. Aðalfund skal halda fyrir maímánaðarlok í stað marzmánaðarloka áður. Til félagsfunda skal stjórnin boða skriflega, en áður með auglýsingu eða kalli.
Hert var á ákvæðum varðandi skyldur formanns til að hafa aðalumsjón með rekstri félagsins. Vald hans er aukið, en þó þarf hann samþykki meðstjórnenda sinna, þegar um meiri háttar ráðstafanir er að ræða, svo sem um innkaup á beitu, kjöti, byggingarefnum, vélum og eldsneyti. Ennfremur skal stjórnin í heild fjalla um útlán, og svo innheimtu útistandandi skulda, sem erfitt er að fá greiddar.
Ársreikningar félagsins skulu vera fullgerðir fyrir lok aprílmánaðar í stað febrúarmánaðar áður.
Í jan. 1928 herti mjög að félaginu um skuldaskil. Félagið átti stórfé útistandandi hjá viðskiptavinum sínum, sem að langmestu leyti voru félagsmenn.
Til þess að standa straum af aðkallandi skuldaskilum, hljóp einn starfsmaður Ísfélagsins, Kristmann Þorkelsson, undir bagga og lánaði félaginu nokkurt fé. Bankinn kom á móti og allt bjargaðist.
Þegar leið á vertíðina 1928, tók beitusíld að ganga mjög til þurrðar í íshúsinu og lítið um nothæfa beitusíld í landinu. Var þá gripið til þess ráðs að skammta síldina. Bátar 10 smálestir og stærri fengu 60 kg. í róður hvern, en minni bátar 50 kg. En tveim dögum eftir þessa skömmtunarákvörðun stjórnarinnar, veiddist nóg loðna við Eyjar og öllu varð vel bjargað. Þá átti Ísfélagið eftir um 10 smálestir af beitusíld handa öllum bátaflotanum.
Þær smálestir entust fram á sumar, þar sem nú tóku netin við á stærri bátunum og handfæraveiðarnar á þeim smærri. Sumir héldu áfram að veiða með línu.
Þegar stjórnin vildi leita eftir hagfelldustu síldarkaupunum í stærri stíl, sendi hún skeyti til síldarseljendanna og bað um tilboð. Á fundi sínum t.d. 14. júlí 1928 afréð hún að leita eftir beitusíld víða um land til að birgja upp íshúsið fyrir næstu vertíð, eftir því sem frystirúmið leyfði. Sendi þá stjórnin svo hljóðandi skeyti til Gísla J. Johnsen, sem oft hafði sambönd um sölu síldar fyrir Bakka h.f. í Reykjavík (þ.e. Óskar Halldórsson, útgerðarmann), bæjarstjóra Ísafjarðar til fyrirgreiðslu síldarseljendum þar og Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri.
Símskeyti stjórnarinnar hljóðaði svo:
„Viljum kaupa 10—12 hundruð tunnur af góðri, frosinni beitusíld, veiddri eftir miðjan ágúst. Tilboð óskast innan þriggja daga um ákveðið tunnutal og verð við bryggju hér.“
Viggó Björnsson, bankastjóri, var hér umboðsmaður hlutafélagsins Glámu á Ísafirði um sölu síldar. Hann var einnig beðinn um að útvega tilboð frá umbjóðendum sínum, og fleiri komu til greina. Þannig reyndi stjórnin jafnan að ná hagkvæmustu síldarkaupunum.
Þegar hér er komið sögu, fást orðið skip til síldarflutninga, sem hafa frystirúm og skila því síldinni mun betri og óskemmdri að bryggju í Eyjum. En tilviljun var það, að fá þessi skip til síldarflutninga, svo fá voru þau. — Að þessu sinni reyndist Gísli J. Johnsen geta boðið félaginu hagstæðustu síldarkaupin. Stjórnin keypti af honum 600 tunnur og aðrar 600 af hlutafélaginu Glámu á Ísafirði. Verðið var 38 aurar hvert kg. hér á höfn. Aðrir síldarseljendur vildu fá 40 aura fyrir hvert kg. síldar.
En stjórnin hafði ekki bitið úr nálinni með þessi síldarkaup fremur en oft áður. Þegar síldin kom og lest var opnuð, sýndi það sig, að síldin var þíð og farin að skemmast, að minnsta kosti það, sem efst var í lestinni. Þá tók þjarkið við. Síldin skyldi metin, og þíð og skemmd síld tekin frá. Oft kom til þess að bæjarfógeti nefndi út matsmenn til þess að inna þetta mat af hendi. Að þessu sinni flutti v/s Dronning Alexandrine nokkuð af síldinni frá Ísafirði til Vestmannaeyja. Skipið hafði kælirúm, og var hún því góð vara. En vandhæfi voru á samt, því að skipið komst ekki inn á innri höfnina. Hver átti þá að greiða uppskipunina, sem fór fram á uppskipunarbátum, sem vélbátur dró að bryggju. Að þessu sinni varð það að samkomulagi á milli Viggós bankastjóra f.h. hlutafélagsins Glámu og Ísfélagsstjórnarinnar, að hún greiddi uppskipunina að öðru leyti en því, að Gláma greiddi togbátunum, sem drógu uppskipunarbátana frá skipi að bryggju.
Bankinn lánaði Ísfélaginu kr. 17.000,00 til allra þessara síldarkaupa. Verður ekki annað séð, en á milli bankastjóra og Ísfélagsstjórnarinnar hafi ríkt gagnkvæmt traust, enda allir þessir menn hinir mestu drengskaparmenn, sem þekktust vel og vissu, að svik í tafli kæmu þar ekki til greina í viðskiptum.
Oft varð það úr, að Ísfélagsstjórnin keypti ófrosnu síldina, sem efst var í lestum þessara flutningaskipa, fyrir hálfvirði eða svo eftir samkomulagi.
Ég hefi eytt nokkrum orðum að þessum síldarkaupum til þess að gefa lesanda hugmynd um þessi viðskipti, hvernig þau í rauninni áttu sér stað ár eftir ár, sjaldnast án ýmiskonar erfiðleika og vanda.
Á haustin leitaði síðan stjórnin eftir hagkvæmustum kaupum á kindakjöti í búð Ísfélagsins. Oft voru þau kaup gjörð við Kaupfélag Borgfirðinga í Borgarnesi. Greiðsla fyrir þær ferðir var afráðin fyrirfram.
Haustið 1928 var útsöluverð á dilkakjöti í Eyjum kr. 1,50 í framhlutum og kr. 1,70 í lærum. Í nóvember þetta haust hækkaði útsöluverðið í samræmi við verðið í Reykjavík og varð kr. 1,70 og 2,00 krónur.
Þetta haust (1928) afhenti stjórnin lögfræðingi útistandandi skuldir til innheimtu, samtals kr. 18.491,20.
Í jan. 1929 festi stjórnin kaup á mikilli síld bæði frá Norðurlandi og frá Noregi. Norska e/s Lyra var þá í föstum ferðum milli Noregs og Íslands, frá Björgvin til Reykjavíkur um Vestmannaeyjar, hálfsmánaðarlega allt árið. Skipið hafði góðan útbúnað til að flytja síld, og fékk því Ísfélagið síld frá Noregi með ferðum Lyru.
Fyrri hluta vertíðar 1929 voru mjög góðar gæftir í Eyjum og mikil útgerð þar. Beitusíld gekk því mjög til þurrðar. Áður en liðið var fram í miðjan febrúarmánuð hafði Ísfélagið afhent bátum beitu sem hér segir:
Frosna síld innlenda 61.117 kg., kolkrabba 16.769 kg. og 19.875 kg norska síld, samtals nær 98 smálestir af beitu. Þetta magn nam hálfum beitubirgðum íshússins. Þá var tekið að skammta beituna. Skyldi hver bátur fá 100 kg í róður. Jafnframt voru fest kaup á beitusíld frá Noregi.
Vorið 1929 veiddist töluverð síld í net við Eyjar og keypti Ísfélagið nokkurt magn af henni, fyrst á 50 aura hvert kg og síðan á 24 aura, þegar leið fram í aprílmánuð. Síldin veiddist fram eftir sumri, a.m.k. fram í júlímánuð.
Þetta vor, 15. maí, lézt Jón Hinriksson, kaupfélagsstjóri og formaður Ísfélags Vestmannaeyja.

Ólafur Auðunsson.

Eftir fráfall hans var Ólafur Auðunsson, útgerðarmaður í Þinghól, kosinn formaður Ísfélagsins. Hann var með afbrigðum glöggur maður á fé sem annað, ötull maður og búhygginn, gætinn og athugull.
Haustið 1929 fluttu fjáreigendur í nálægum byggðum á Suðurlandi þó nokkurt fé á fæti til Vestmannaeyja og seldu kjötið Ísfélaginu á 96 aura 1. flokks og 88 aura 2. flokks kjöt.
Eftir tillögu Kristmanns Þorkelssonar, afgreiðslumanns Ísfélagsins, var syðsti klefinn í íshúsinu gerður að búð. Áður var búðin í eilitlu herbergi nálægt miðju húsi. Klefi þessi var í suðausturhorni íshússins suður við Strandveg. Þar var settur á gluggi og búðardyr 1929. (Sjá Blik 1961, bls. 89).
Eftir að flutt var í nýju búðina, gafst kostur á að hafa þar fjölbreytilegri kjötvörur en Ísfélagið hafði áður verzlað með, svo sem pylsur, rúllupylsur, kæfu o.fl.
Haustið 1929 höfðaði Ísfélagið mál á Óskar Halldórsson, útgerðarmann, fyrir meint svik í viðskiptum varðandi síldarkaup.
Í byrjun janúar 1930 lágu loks fyrir endurskoðaðir reikningar Ísfélagsins fyrir árin 1927 og 1928. Var þá þegar boðað til aðalfundar og hann haldinn 7. jan. Hluthafar fengu 6% arð árið 1927 og 8% 1928. Stjórnin afskrifar gamlar skuldir samkvæmt áliti endurskoðenda, alls kr. 11.480,00, sem áleizt tapað fé. Skyldu þær afskriftir skulda skiptast niður á þrjú næstu árin.
Eftir aðalfundinn í jan. 1930 skipa þessir menn stjórn Ísfélagsins:
Ólafur Auðunsson, sem varð formaður framvegis, Jón Ólafsson, útgerðarmaður á Hólmi, varaformaður, Magnús Guðmundsson bóndi á Vesturhúsum, Gísli Magnússon útgerðarmaður í Skálholti og Árni Filippusson, gjaldkeri, sem alltaf áður.
Í byrjun marzmánaðar 1930 tilkynnti Kristmann Þorkelsson stjórninni, að ekki væri nema svo sem vikuforði eftir af síld í íshúsinu. Beituneyzlan var þá meiri en dæmi voru til áður eða allt að 200 kg á bát í róðri. Þá var gripið til skömmtunar á síld og fékk hver bátur, sem var 10 smálestir og stærri, aðeins 100 kg. í róður hvern og minni bátar 80 kg. Bjóðamenn, sem enn voru algengir þá í Eyjum, fengu 5 kg. síldar í róður. Opnir bátar, trillubátar, fengu 25 kg. Auðvitað var beituskömmtunin óvinsæl með sjómönnum, og fékk stjórn Ísfélagsins oft hnjóðsyrði sökum hennar og þó líklega meira last á bak en brjóst, því að sjómenn og ýmsir útgerðarmenn gerðu sér ekki fulla grein fyrir þeim erfiðleikum, sem stjórnin átti við að etja um útvegun síldar og svo að hafa ávallt nægar birgðir í íshúsinu, hvernig sem allt gekk. Væru birgðirnar alltof miklar, þegar loðnan tók að veiðast, mátti búast við stórhalla á síldarkaupunum og rekstrinum í heild. Til þessa tók almenningur ekki tillit eða lítið, gerði aðeins kröfur, þakkaði lítið, þegar vel gekk, en vanþakkaði mikið og með stórum orðum, þegar allt gekk ekki að óskum um þjónustu Ísfélagsins við útgerðina.
Síldarverð þessa vertíð var hærra en oftast áður m.a. vegna þeirra tapa á skuldum, sem félagið hafði orðið fyrir.
Vorið 1930 hreyfði formaðurinn, Ólafur Auðunsson, fyrst því máli, að stækka þyrfti Ísfélagshúsið sökum síaukinnar útgerðar í Eyjum, þar sem vélbátarnir voru nú á vertíð nær 100 og línulengd fór einnig vaxandi á hverjum báti, — ef tök ættu að vera á að fullnægja beituþörf útvegsins.
Í júní 1930 var síðan haldinn sameiginlegur fundur tveggja félagsstjórna í bænum, stjórnar Ísfélagsins og Útvegsbændafélagsins, og þar rætt um fjármagnssöfnun til að byggja við íshúsið. Málshefjandi var formaður Ísfélagsins, Ólafur Auðunsson. Endalyktir urðu þær, að stjórn Útvegsbændafélagsins hét að kalla útgerðarmenn á fund og fá þá til að fallast á fjárframlög til viðbótarbyggingar. Rætt var um, að hver bátur legði fram kr. 250.00 til stækkunar íshúsinu.
Stjórn Ísfélagsins afréð að byggja álmu vestur af gamla íshúsinu nyrzt í mörkum, stærð 22x10 m. að flatarmáli. Þetta hús skyldi byggt úr steinsteypu. Jafnframt var tekið tilboði Gísla J. Johnsen um frystivélar frá Sabroe í Árhúsum, sem selt hafði fyrstu frystivélarnar í íshúsi (1908). Höfðu þær ávallt reynzt vel.
Þessi nýja viðbygging kostaði kr. 44.144,11. Við áramótin 1930—1931 námu víxilskuldir Ísfélagsins kr. 125.672,47 þar af víxilskuld við Útvegsbankann kr. 50.947,00 og við Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja kr. 40.000,00. Á sama tíma neyddist félagið til að strika út kr. 10.000,00, gamlar útistandandi beituskuldir, sem vonlaust var orðið að fá greiddar. Var það gert samkv. tillögu endurskoðenda. Sökum þessara tapa á gömlum skuldum, sýndu reikningar Ísfélagsins halla á árinu 1929, og nam hann kr. 4.182,43. Varð því enginn arður greiddur félagsmönnum eftir það ár.
Á aðalfundi 12. febrúar 1931 hreyfði Jóhann Þ. Jósefsson nýmæli. Hann reifaði það mál, hvort ekki væru tök á, að Vestmannaeyjabátar, sem stunduðu síldveiðar fyrir Norðurlandi á sumrum, seldu Ísfélaginu síld, sem félagið fengi síðan geymda fyrir norðan þar til eftir síldarvertíð. Þessi hugmynd var samþykkt einróma á fundinum.
Á þessum fundi var sama stjórnin kosin með 24—28 atkvæðum.
Deilt hafði verið á stjórnina fyrir of mikið mannahald við rekstur íshússins. Það leiddi m.a. til þess, að stjórnin afréð á fundi sínum 7. marz 1931 að segja upp öllum starfsmönnum Ísfélagsins með þriggja mánaða fyrirvara. Síðan voru þeir Páll Scheving, annar vélstjóri við íshúsið, og Kristmann Þorkelsson, afgreiðslumaður, ráðnir framvegis, en Högni Sigurðsson í Vatnsdal, sem verið hafði starfsmaður Ísfélagsins frá stofnun þess og fyrsti vélstjóri frá 1908, látinn hverfa frá störfum að öllu leyti í þágu félagsins.
Það þótti bera vott um framfarir og endurbætur á daglegum vinnuháttum í íshúsinu, er stjórnin keypti járnvindu til þess að lyfta upp á götuhæð (aðalhæð) hússins síld þeirri, sem fryst var í kjallara. Áður hafði henni verið lyft upp á handafli, er hún var afgreidd til báta.
Á vertíð 1931 lét stjórn Ísfélagsins kaupa lifur af bátum upp í beituskuldir eða daglega úttekt á beitu. Gafst það vel. Þannig grynntu ýmsir á skuldum sínum við félagið. Tveir stjórnarnefndarmenn Ísfélagsins áttu saman bræðsluskúr, og þar var brædd lifur sú, sem félagið keypti. Kaupverðið var 20 aurar líterinn af lifrinni.
Í ágústmánaðarlok 1931 réði stjórnin Friðrik Þorsteinsson, bókhaldara Ísfélagsins, gjaldkera og afgreiðslumann. Hann átti að annast afgreiðslu í búð félagsins frá kl. 9 að morgni til 7 að kvöldi, afgreiða síld, annast dagleg fjármál félagsins og reikningshald. Ef hann kæmist ekki yfir allt þetta starf, átti hann að hafa leyfi og vald til að kalla til hjálpar sér vélgæzlumennina. Einnig átti hann að hafa aðstoðarmann fastan einhvern hluta af síldarvertíðinni, meðan mest var að gera. Nú var hin herfilegasta kreppa í öllu viðskiptalífi ríkjandi, sem vitað er, og var þessi samdráttur í mannahaldi Ísfélagsins ein af kreppuráðstöfunum stjórnarinnar. Fleira kom einnig til.
Fyrr er þess getið, að stjórnin lét höfða mál á Óskar Halldórsson vegna meintra svika varðandi síldarviðskipti. Nokkru síðar stofnsetti Óskar íshús í Eyjum og rak í samkeppni við Ísfélagið. Einnig spratt upp annað íshús, sem Ástþór Matthíasson var talinn eigandi að. Ísfélagið átti því við keppinauta að etja. Þess vegna þurfti að spara á sem flestum sviðum í rekstrinum. T.d. var aðstoðarvélgæzlumaður Ísfélagsins aðeins ráðinn, meðan annir voru mestar í íshúsinu. Jóhann Bjarnason var ráðinn til þess starfs frá 1. sept. 1931—15. maí 1932 fyrir kr. 1.200,00 allan tímann.
Á miðju sumri 1932 bauðst Eggert Jónsson frá Nautabúi til þess að taka íshús Ísfélagsins á leigu til 5 ára og bauðst til að greiða kr. 7.200,00 í ársleigu. Jafnframt fullyrti Eggert Jónsson við stjórnina, að hann hefði ráð yfir frystivélunum í húsi Óskars Halldórssonar og gæti stöðvað rekstur þess, þegar honum sýndist. Boðað var til almenns fundar í Ísfélaginu til þess að ræða boð Eggerts Jónssonar við félagsmenn. Á þeim fundi var samþykkt einróma sú tillaga frá Gunnari Ólafssyni að leigja ekki íshúsið. Engin rödd heyrðist í þá átt á fundi þessum.
Síðar um sumarið (1932) bauð bankinn í Eyjum stjórn Ísfélagsins íshús Ástþórs Matthíassonar til kaups fyrir kr. 40.000,00. Jafnframt bauðst hann til að stöðva rekstur á íshúsi Óskars Halldórssonar um eitt ár.
Ýmis boð og umræður varðandi rekstur íshúsanna í Vestmannaeyjum um þessar mundir benda til þess, að rekstur þeirra væri að komast í öngþveiti. Ísfélag Vestmannaeyja átti vissulega í vök að verjast ekki minnst sökum hinnar hörðu samkeppni. Og þegar keppinautarnir voru að komast í mát, skyldi reyna að velta öllu yfir á Ísfélagið (samanber boð bankans um sölu á íshúsi Ástþórs Matthíassonar).
Hér birti ég skeyti, sem miðar að sama marki. Fyrir stjórnarfundi 24. júlí 1932 lá skeyti frá Óskari Halldórssyni svohljóðandi:
„Ef þér skuldbindið yður leigja íshús Ástþórs fyrir 6.000 kr. ársleigu og bankinn samþykkir það boð, skuldbindum vér oss að afhenda yður umráðarétt yfir okkar íshúsi til 11. maí 1933 gegn því að þér notið það ekki, — vélar afhendast ekki fyrr en að undangengnum hæstaréttardómi. Stopp. Þar með bjóðumst vér til selja yður 2.000 tunnur beitusíld 25 krónur tunnuna gegn þriggja mánaða víxli. Vér lofum yður allra fyrstu síld, ennfremur að frysta 250 tunnur — greiðist ekki fyrr en allt er afhent. Vér áskiljum oss rétt að Gunnar Ólafsson og Co. fái 350—550 tunnur geymdar gegn 5 aura gjaldi frá þeim og 5 aura gjaldi í síld frá okkur.“
Nú reyndi á hyggindi og vit stjórnar Ísfélags Vestmannaeyja. Hér var teflt um hagsmuni og enginn vafi er á því, að Útvegsbankinn var með í taflinu. Hann var að reyna eftir megni að bjarga verðmætum sínum, sem hann átti í íshúsum þessum bæði hér og á Siglufirði. Aðilarnir gera kröfur hvor til annars eftir boðum Útvegsbankans, bæði aðalbankans í Reykjavík og útibúsins hér. Ísfélagsstjórnin á í vök að verjast, og þeir sem þekktu vel Ólaf Auðunsson, formann Ísfélags Vestmannaeyja, gætni hans, hyggindi og tortryggni í viðskiptum, þegar því var að skipta og hann hafði ástæðu til, spá honum sigri og Ísfélagsstjórninni í þessum hráskinnaleik.
Svarskeyti, sem Ísfélagsstjórnin sendi Óskari Halldórssyni h.f. eftir fund sinn 25. júlí 1932, er þrungið af tortryggni og gætni, enda hafði stjórnin ástæðu til að vera það gagnvart þessum aðila. Þó vildi hún ekki afsala sér öllum viðskiptum við hann sökum aðildar Útvegsbankans að tafli þessu. Stjórnin svaraði Óskari Halldórssyni h.f., Reykjavík, með þessu skeyti:
„Samþykkjum síldarkaupin samkvæmt gærskeyti yðar með öllum þargreindum skilyrðum og ákvæðum, að því tilskyldu, að Útvegsbankinn leigi yður frystihúsið Bakka Siglufirði þetta ár, að síldin verði afhent við bryggju hér og flutt með kæliskipi, og greiðist síldin með þriggja mánaða víxli vaxtafríum ásamt vigtarvottorði og farmskírteini hér, þó að tilskildu vottorði umboðsmanns vors á Siglufirði um að síldin sé góð vara, enda hafi umboðsmaður vor á Siglufirði rétt til eftirlits með, að öll síld, sem vér kaupum af yður sé fyrsta flokks vara, vel fryst og veidd fyrir Norðurlandi. Klaki á síldinni sé ekki yfir 8 mest 10 prósent. — Við fáum nú þegar endurgjaldslausan umráðarétt og lyklavöld að frystihúsi yðar hér. Áskiljið okkur rétt til þér geymið fyrir oss 500 tunnur af hinni keyptu síld til febrúarloka endurgjaldslaust, en síld þessa greiðum vér gegn greiðsluvottorði, eftir að afhending á þessum 1.500 tunnum hefur farið fram að frádregnum kr. 3.000,00, sem greiðast við afhendingu síldarinnar. Í leigusamningi yðar um Bakkahúsið við Útvegsbankann sé sett ákvæði um, að þér séuð skuldbundinn til að frysta fyrst af öllu þær 2.000 tunnur, er þér seljið oss, og að þér hafið ekki heimild til að ráðstafa þeim til annarra. Samningur þessi um síldarkaup er bundinn því skilyrði, að við náum samningum við Útvegsbankann um leigu á frystihúsi Ástþórs hér.
Morgunsvar.
Ísfélag Vestmannaeyja.“

Jafnframt þessu skeyti sendi Ísfélagsstjórnin Útvegsbankanum í Reykjavík svohljóðandi skeyti:
„Útvegsbankinn, Reykjavík.
Samþykkjum leigja af yður frystihús Ástþórs Matthíassonar hér fyrir ársleigu 6.000 krónur reiknað frá 1. sept. þetta ár til jafnlengdar 1933. Leigan greiðist helmingur kr. 3.000,00 20. jan. 1933. Eftirstöðvarnar 20. júní sama ár. Tilboð þetta er bundið því skilyrði, að samningar takist við Óskar Halldórsson h.f. samkvæmt skeyti hans dags. 24. þ.m. og voru skeyti dags. í dag viðvíkjandi síldarkaupum. Morgunsvar.
Ísfélag Vestmannaeyja.“

Jón Einarsson, kaupm., varamaður í stjórn Ísfélagsins um árabil.

Í september um haustið kom í ljós, að Óskar Halldórsson h.f. stóð ekki við tilboð sitt um sölu síldarinnar samkv. skeytunum og ráðstafaði annað allri þeirri síld, sem hann hafði ráð á.
Að þessu sinni voru mestu síldarkaupin gerð við Ásgeir Pétursson, Siglufirði, sem jafnan reyndist traustur viðskiptavinur Ísfélagsins um sölu beitusíldar. Þar ríkti gagnkvæmt viðskiptatraust.
Á aðalfundi Ísfélagsins 17. sept. 1932 voru reikningar ársins 1931 lagðir fram í tvennu lagi. Árni Filippusson, gjaldkeri, sem lézt í jan. 1932, hafði lokið reikningsuppgjöri frá 1. jan. til 31. ágúst 1931. Síðan hafði Friðrik Þorsteinsson samið reikningana til áramóta. Ekki urðu fundarmenn á eitt sáttir um reikningana og kusu því yfirendurskoðendur, sem skyldu ljúka verki sínu og skila áliti eftir mánuð. Vegna þessa var aðalfundi frestað. Framhald hans fór síðan fram 30. des. um veturinn og voru þá reikningarnir samþykktir einróma, eftir að yfirendurskoðendur höfðu skýrt sjónarmið sín og athugasemdir.
Á kreppuárunum féll kjöt mjög í verði á erlendum markaði. Haustið 1932 keypti Ísfélagið 15—20 smálestir af 1. og 2. flokks dilkakjöti af Kaupfélagi Borgfirðinga eins og svo oft áður, á 63 aura 1. flokks kjöt og 54,6 aura 2. flokks kjöt. Er þá afsláttur reiknaður, en hann nam 16% af eiginlegu verði kjötsins, sem var 75 aurar og 65 aurar.
Á þessum aðalfundi voru þessir menn kosnir í stjórnina:
Ólafur Auðunsson með 86 atkvæðum, Magnús Guðmundsson með 76 atkv., Gísli Jónsson með 62 atkv., Jón Einarsson með 60 atkv. og Þorsteinn Jónsson með 51 atkv. Atkvæðatalan sannar, hve mikið traust Ólafur Auðunsson hafði flestallra félagsmanna til þess að glíma við viðskiptaerfiðleikana og ráða viturlega fram úr vandamálunum. Þá er einnig atkvæðamagn það, sem Magnús Guðmundsson fær á fundinum, eftirtektarvert, því að hann hafði verið í stjórn Ísfélagsins árum saman. Ekki voru þó allir ánægðir. Sigurður Gunnarsson lýsti t.d. yfir því og bað bókað, að hann „áliti kosninguna ólögmæta og falska.“

Síðari hluti