Blik 1962/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, 3. kafli, síðari hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1962



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga Ísfélags Vestmannaeyja


III. KAFLI
(síðari hluti)



Í byrjun vertíðar 1933 var það stjórninni mikið áhyggjuefni, hvernig hún gæti tryggt félaginu greiðslu útgerðarmanna á þeirri beitusíld, sem hún seldi þeim. Helzta ráðið var að skuldbinda þá til að afhenda Ísfélaginu afurðir upp í andvirði síldar, svo sem lifur, lýsi frá þeim, sem bræddu sjálfir, eða þá saltfisk.
Í marzmánuði á vertíðinni 1933 nam beitusala Ísfélagsins um það bil 5 smálestum á dag eða 50 tunnum. Þá var í alvöru rætt um að hætta rekstri íshússins vegna fjárhagserfiðleika, og afréð þess vegna stjórnin að segja starfsmönnunum upp starfi með þriggja mánaða fyrirvara frá 2. marz að telja, þeim Páli Scheving og Friðriki Þorsteinssyni. Stjórnin sá sitt óvænna um framtíð Ísfélagsins, því að ekki linnti kreppunni og skuldasúpan, sem afskrifa þurfti vegna aflabrests og fátæktar, varð æ meiri ár frá ári. Eftir vertíðina 1933 kom í ljós, að strika varð út skuldir, sem námu kr. 12.809,46 auk þeirra, sem gefnar höfðu verið eftir árið áður, eða samtals kr. 20.329,37. Þetta var í rauninni geysimikið fé á þessum árum. Stjórnin var öll sammála um, að allar þessar innstæður hjá öðrum væru tapaðar.
Fyrri hluta sumars 1933 hafði stjórn Ísfélagsins borizt bréf frá Þorsteini Johnson, kaupmanni, þar sem spurzt var fyrir um það, hvort til mála kæmi, að íshús Ísfélagsins fengist keypt ásamt lóðarréttindum. Í ljós kom, að enskt félag hafði hug á að kaupa íshúsið með öllum lóðarréttindum þess. Í júlí mætti Þorsteinn Johnson síðan á stjórnarfundi Ísfélagsins og reifaði nánar þetta mál. Stjórnin afréð þá, að bera mál þetta undir aðalfund og láta hann skera úr um söluna. Sá fundur var haldinn þá bráðlega. Fund þann sátu um 90 félagsmenn. Mikið var þar rætt efni bréfsins og hvort selja skyldi Ísfélagseignirnar. Helgi Benediktsson bar fram þá tillögu, að íshúsið yrði ekki selt. Nafnakall varð afráðið um tillöguna. Var þar samþykkt með 44 gegn 3 atkvæðum að selja ekki íshúsið. Aðrir fundarmenn virðast hafa setið hjá við þessa atkvæðagreiðslu, þó að það sé ekki tekið fram.
Þegar kosið var í stjórn á fundi þessum, fékk Ólafur Auðunsson um 90 atkv. en aðrir stjórnarmenn um helming atkvæða á við hann og knappt það. Þetta mikla atkvæðamagn, sem Ólafur fékk, sannar enn hið mikla traust, sem félagsmenn báru til hans, hygginda hans og þrautseigju, dugnaðar og gætni. Með þessum fundi var setu Magnúsar Guðmundssonar lokið í stjórn Ísfélagsins. Hafði hann þá setið í stjórn þess um 30 ár.

Hannes Hansson, Hvoli.

Í hans stað hlaut sæti í stjórninni Hannes Hansson, útgerðarmaður á Hvoli, sem varð varaformaður Ísfélagsins. Þegar eftir stjórnarkjör hurfu svo margir menn af fundi, að hann varð ekki ályktunarfær um önnur mál. Gæti það bent til þess, að ýmsir hafi verið óánægðir, enda þótt þeir létu ekki á neinu bera og sætu hjá við atkvæðagreiðsluna um sölu íshússins.
Sumarið 1933 urðu mannaskipti við íshúsið. Í stað Páls Schevings tók nú Bogi Matthíasson á Litlhólum að sér vélgæzluna og honum til aðstoðar Halldór Eyjólfsson.
Þá réði stjórnin framkvæmdastjóra fyrir íshúsið frá 9. ágúst 1933, Jóhannes Brynjólfsson frá Lundi.
Þegar hér er komið sögu, hefur Samband íslenzkra samvinnufélaga eignazt íshús Ástþórs Matthíassonar.
Milli Ísfélagsins og S.Í.S. virðist hafa ríkt hin bezta samvinna um rekstur íshúsanna og sölu síldarinnar og enginn samkeppniskali náð að þróast þar. (Sjá augl. í Víði 27. jan. 1934).
Sumarið 1934 hreyfði formaður Ólafur Auðunsson þeirri hugmynd á stjórnarfundi, að íshús Ísfélagsins væri hinni miklu útgerð í Eyjum ófullnægjandi, svo að nauðsyn bæri til að hefjast handa um nýbyggingu íshúss. Stjórnin var öll á einu máli um það, að rétt væri að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, enda þótt Ísfélagið ætti ekki einn eyri í byggingarsjóði. Formaður arkaði þegar á fund bankastjórans, Viggós Björnssonar, reifaði málið við hann og spurðist fyrir um lán hjá bankanum til byggingarframkvæmda.
Bankastjórinn tók vel í málaleitan þessa og taldi miklar líkur til, að bankinn lánaði fé til framkvæmdanna, ef tök væru á að færa líkur að því, að nýja íshúsið gæti borið sig fjárhagslega.
Umboðsmaður firmans Th. Sabroe í Árhúsum var staddur í Reykjavík um þessar mundir. Formaður náði þegar til hans og fékk hann til Eyja með næstu ferð. Hann hafði með sér teikningar og gat gert kostnaðaráætlun fyrir stjórnina um það, hve þetta fyrirhugaða frystihús mundi kosta. Án véla áætlaði hann byggingarkostnaðinn kr. 25.000,00, eða fimmtungi hærri upphæð en Ísfélagið hafði orðið að afskrifa af skuldum félagsmanna árin 1932 og 1933. Allan kostnað með vélum og öðru áætlaði umboðsmaðurinn kr. 50—60 þúsundir. Stjórnin afréð að leggja málið fyrir aðalfund, sem halda skyldi 23. júní (1934).
Þessi aðalfundur varð hinn markverðasti. Viggó Björnsson bankastjóri lét þar í ljós það álit sitt, að saltfiskmarkaðurinn mundi þrengjast og þess vegna yrði það nauðsynlegt útvegi Eyjamanna að bæta alla aðstöðu til ferskfisksölu, eins og þar var þá komizt að orði. Ísfélagið þyrfti því að hefja ísframleiðslu og byggja ísgeymslu með fullkomnum hraðfrystitækjum. Flestir fundarmenn voru bankastjóra sammála, þó að andstæðar raddir létu til sín heyra á fundinum. Svohljóðandi tillaga kom fram á fundinum frá Georg Gíslasyni kaupmanni, sem þá stundaði útflutning á nýjum fiski í kössum og geymdi vöruna hjá Ísfélaginu milli ferða til Englands:
„Fundurinn felur stjórninni að rannsaka möguleika til þess að byggja við hús félagsins til ísframleiðslu og geymslu á nýjum fiski, og kaupa vélar og annað, sem til þess þarf, og leggja fyrir félagsfund svo fljótt, sem auðið er. Jafnframt að rannsaka kostnað á hraðfrystitækjum.“
Tillaga þessi var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Mjög sérstætt mál lá fyrir fundi þessum. Í ljós hafði komið, að tveir arðmiðastofnar fylgdu sumum hlutabréfum Ísfélagsins og þannig hafði tvöfaldur arður verið greiddur út á sum hlutabréfin. T.d. var því svo varið með bréf Þorsteins Jónssonar í Laufási, sem krafðist rannsóknar á máli þessu. Það gerðu einnig endurskoðendur félagsins. Ástþór Matthíasson bar fram á fundinum svolátandi tillögu:
„Með því að upplýst er, að tvennir arðmiðastofnar fylgja allmörgum hlutabréfum félagsins, samþykkir fundurinn að fela stjórninni að gera tafarlaust gagnskör að því að höfða ógildingarmál gegn handhöfum allra arðmiðastofna, og að því máli gengnu að gefa út nýja arðmiðastofna. Álítist önnur leið heppilegri og ódýrari, en með sömu verkunum, heimilast stjórninni að sjálfsögðu að fara þá leið.“
Tillagan var samþykkt í einu hljóði.
Ennfremur bar Ísleifur Högnason, endurskoðandi félagsins, fram svohljóðandi tillögu:
„Fundurinn samþykkir að fela stjórninni að láta rannsaka og draga til ábyrgðar þá menn, sem með fölsuðum arðmiðum Ísfélags Vestmannaeyja hafa dregið sér fé þess.“
Tillagan var samþykkt.
Einum af stjórnendum félagsins var síðan falið að láta framkvæma rannsókn þessa. Sú rannsókn leiddi það í ljós, að einn af hluthöfum Ísfélagsins hafði stolið arðmiðum til þess, að bezt verður séð, að ná sér í aukaarð af tekjum félagsins og veita öðrum hluthöfum nokkra hlutdeild í þýfi þessu.

Ástþór Matthíasson.
Jónas Jónsson.

Eftir aðalfund þennan skipuðu þessir menn stjórn Ísfélags Vestmannaeyja:
Hannes Hansson, Ólafur Auðunsson, Ástþór Matthíasson, Jón Einarsson og Jónas Jónsson. Stjórn þessi vann nú ötullega að því að breyta og endurbæta þjónustu félagsins við útveg Eyjamanna. Hún vann að því að kynna sér gerð hraðfrystihúsa og rekstur. Einnig að útvega Ísfélaginu lán til byggingarframkvæmda. En nú voru kreppuár í landi og allur rekstur með fádæmum erfiður. Til þess að tryggja Ísfélaginu greiðslu á þeirri síld, sem lánuð var útgerðarmönnum, tók stjórn félagsins tryggingu í allri lifur útgerðarmanna, sem þeir lögðu inn á einum og sama stað, hjá Lifrarsamlagi Vestmannaeyja, sem var eitt af styrkustu stoðum útvegsins í Eyjum frá fyrstu tíð (1932) og ávallt síðan, því vaxið fyllilega að sanna gildi samtaka og samlaga í atvinnurekstri.
Þrátt fyrir þessi tögl og þessar hagldir, sem stjórnin áskildi sér um greiðslur á andvirði beitusíldarinnar, þá þurfti hún að ráða til sín lögfræðing sumarið eða haustið 1934 til þess að innheimta skuldir með málsóknum. Þær námu yfir 20 þúsundum króna, óreiðuskuldirnar, sem stjórnin og lögfræðingur hennar fjölluðu um að þessu sinni, frá 29 krónum upp í 5.500 krónur hjá einstaklingum og hagsmunasamtökum í bænum. Gefið var eftir nokkuð af útistandandi skuldum með því að meirihlutinn fékkst greiddur. Sumum var stefnt og skuldamálin látin ganga sér til húðar. Þetta haust (1934) tryggir stjórnin síldina í íshúsinu fyrir kr. 76.000,00 frá 1. sept. til 1. apríl 1935 og fyrir kr. 36.000,00 frá 15. maí fram á haustið. Í byrjun vertíðar 1935 var síld hvergi að fá innanlands. Þá keypti stjórnin 500 tunnur af beitusíld frá Noregi. Þau viðskipti gátu þá tekið æðilangan tíma, því að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi þurfti með. Formaður Ísfélagsins þekkti Norðmann, búsettan í námunda við Björgvin. Hann hafði dvalizt hér um skeið. Til hans var jafnan leitað til að festa kaup á norsku beitusíldinni, sem oftast var keypt í Björgvin og flutt til Eyja með e/s Lyru.
Á vertíð 1935 skiptu 54 bátar við Ísfélagið. Þá vertíð fékk Ísfélagsstjórnin innflutningsleyfi fyrir 300 tunnum síldar í stað 500, sem hún bað um, og gjaldeyri krónur 5.400,00 til greiðslu á síldinni. Enginn fékk þessa síld keypta nema hann hefði gert fullnægjandi skil við Ísfélagið á fyrri skuldum sínum, eða sett nægilegt veð fyrir þeim í lifur, fiski eða öðrum eignum.
Fyrst gerði stjórnin kröfu til að fá veð í allri lifrinni, líka hlut sjómannanna. Það olli mikilli óánægju, svo að stjórnin varð að láta sér nægja 2/3 af lifrinni til tryggingar greiðslu skulda eða lána.
Á aðalfundi 1935 var stjórnin öll endurkosin. Hún þótti hafa staðið sig vel undir forustu Ólafs Auðunssonar, eins og tímarnir voru þá með afbrigðum viðsjálir og erfiðir.
Hannes Hansson, sem var varaformaður stjórnarinnar, hafði þar sérstöku máli að gegna. Hann var látinn hafa það starf að tala máli félagsins við útgerðarmenn og afla Ísfélaginu viðskipta við þá. Þetta var ekki vandalaust starf, svo að félaginu væri einhver akkur í því, en viðskiptalífið allt „válynt“ á krepputímunum. Hannesi fórst starfið vel úr hendi, enda hygginn og skynsamur, ötull og duglegur.
Í febrúar 1936 var söluverð síldar út af húsinu afráðið 37 aurar.
Þetta vor fékk stjórn Ísfélagsins erfitt mál til úrlausnar. Stjórn Útvegsbændafélags Vestmannaeyja fór þess á flot við Ísfélagsstjórnina f.h. útgerðarmanna, að félagið veitti útgerðinni í heild frest á greiðslum skulda við félagið fyrst um sinn og þá sérstaklega andvirði þeirrar síldar, sem lægi til geymslu í íshúsinu og úthlutað hafði verið hinum mörgu útgerðarmönnum, sem skiptu við Ísfélagið. Andvirði þessarar síldar nam um 45.000,00 króna. Bókun sú, sem formaður Ísfélagsins, Ólafur Auðunsson, lét gera til svars við beiðni þessari, veitir nokkra hugmynd um þá fjárhagserfiðleika, sem stjórn Ísfélagsins átti við að etja. Jafnframt er bókun þessi nokkur lýsing á formanninum, sem aldrei mátti vamm sitt vita í viðskiptum og naut óskoraðs trausts einstaklinga og lánastofnana, sem við Ísfélagið skiptu. Bókun hans er á þessa leið:
,,Í tilefni af framan greindri umleitun vildi ég fyrst taka fram: Eins og stjórn Ísfélagsins er kunnugt hefur félagið sjálft ekki neitt rekstursfé til kaupa á síld eða kjöti. Hinsvegar hefur félagið fyrir mína milligöngu fengið lán í Útvegsbankanum hér til kaupa á síldinni. Jafnframt hefi ég líka fengið Landsbankann til að kaupa víxla til greiðslu á kjötinu. Víxla þessa hefi ég persónulega lofað fyrir hönd félagsins að skyldu greiðast af andvirði seldrar síldar og kjöts. Þessi loforð mín hafa verið tekin gild hjá téðum peningastofnunum, sem bezt sést á því, að ekki hefur verið krafizt frekari trygginga. En samkv. upplýsingum reikningshaldara félagsins nú í dag skuldum við fyrr nefndum peningastofnunum kr. 58.000,00, sem falla og eru fallnar í gjalddaga.
Síld sú, sem útgerðarmenn eiga nú liggjandi hér í húsinu ónotaða, er um 1.500 tunnur. Er því sú eftirgjöf (á greiðslufresti), sem fram á hefur verið farið um 45.000,00 (að krónutali). En þar sem Ísfélagið fyrirsjáanlega getur ekki staðið í skilum á greiðslu á framangreindum víxlum, álít ég ekki, að félagið geti orðið við þeim tilmælum, sem fram á hefur verið farið. Einnig vil ég taka það fram, að ekki muni verða að ræða um nein veruleg síldarkaup á þessu ári, þar sem útvegsmenn eiga nú hér liggjandi um 1.500 tunnur af síld. Því má gera ráð fyrir, að sá tekjumissir muni nema um kr. 24.000,00 fyrir félagið á næsta ári. Er það sá munur, sem lagður er til grundvallar á innkeyptri síld, kominni í hús, og útsöluverði hennar, því að sjálfsögðu verður stjórn félagsins að gera sitt ítrasta til þess að halda síldinni við, svo að hún geti orðið nothæf beita næstu vertíð, og hlýtur það að sjálfsögðu að verða mikill kostnaðarauki fyrir félagið.
Við það að fara yfir hluthafaskrá félagsins kemur í ljós, að af 660 hlutabréfum, eiga útgerðarmenn um 185 hlutabréf eða um 28% af hlutabréfatölunni.
Þá þess er gætt, að það eru aðeins nokkrir útgerðarmenn, sem eru viðskiptamenn félagsins, sem hafa farið fram á framan greinda eftirgjöf, sem gæti leitt til þess, að félagið liði stórtjón af, þá lít ég svo á, að stjórn Ísfélagsins skorti alla heimild til að lána út frá félaginu um 45.000 króna án samþykkis meirihluta hlutabréfaeigenda, því að slíkt fordæmi hefur aldrei verið gefið fyrr. Auk þess álít ég, að félaginu sé komið í svo mikla fjárhagsörðugleika með því að veita þetta lán, að það jafnvel geti tapað því trausti, sem það nú hefur hjá bönkum, sem ekki má koma fyrir.
Með skírskotun til framanritaðs lýsi ég mig mótfallinn framangreindri lánbeiðni ...“
Síðan afréð stjórnin að boða til aukafundar í Ísfélaginu um mál þetta. Þessi aukafundur var haldinn 4. maí 1936. Meiri hluti stjórnarinnar, þeir Ólafur Auðunsson, Hannes Hansson og Ástþór Matthíasson, mæltu á móti því, að útgerðarmönnum yrði veittur greiðslufresturinn, en Jónas Jónsson mælti með því. Allir stjórnarmenn munu ekki hafa setið fund þennan og aðeins 1/3 hluthafanna. Fundurinn fól stjórn Ísfélagsins og Útvegsbændafélagsins að finna lausn á þessu vandamáli útvegsmanna í félaginu. Það munu þær hafa gert án þess að viðskiptatraust Ísfélagsins yrði skert á nokkurn hátt. Ísfélagið fékk síldina greidda og gat staðið í skilum með skuldbindingar sínar, eins og formaður stefndi að og ætlaði sér.
Sumarið 1936 var tvívegis boðað til aðalfundar í Ísfélaginu en án árangurs. Þá tók stjórnin það ráð að skrifa öllum hluthöfunum.
Í marzmánuði 1937 fól stjórnin formanni sínum að fá Ingólf Espólín til Eyja til þess að gera áætlun um endurbætur á íshúsinu, svo að tök yrðu á að hraðfrysta fisk þar og framleiða ís. Seinni hluta júlímánaðar þ.á. dvaldist síðan Ingólfur í Eyjum og gerði þar sínar áætlanir hjá Ísfélaginu. Að loknu verki lagði hann fram ýtarlega skýrslu um kostnað við að fá í húsið 5 smálesta hraðfrystitæki með öllu, sem þar að laut. Allur sá kostnaður var áætlaður 63 þúsundir króna. Var þá gert ráð fyrir endurbótum á ýmsu, svo sem einangrun, leiðslum o.fl. og smíði á nýjum vinnuborðum. Þá var gerð áætlun um viðbyggingu, sem mundi kosta kr. 27.000,00 Alls var kostnaður því áætlaður kr. 90.000,00.
Hvar stóðu svo vonir til að fá fé lánað til þessara nauðsynlegu framkvæmda? Formaður Ísfélagsins hafði öðru hvoru ámálgað það við Fiskimálanefnd, að hún lánaði Vestmannaeyingum fé til þessara framkvæmda, eins og hún hafði lánað fé í sama skyni til Bíldudals, Ísafjarðar og Norðfjarðar. Aldrei hafði formanni tekizt að fá heit nefndarinnar um það lán. Nú þegar áætlun Ingólfs Espólíns lá fyrir, samþykkti stjórn Ísfélagsins að sækja um lán, kr. 75.000,00 til Fiskimálanefndar í því skyni að hrinda þessum verkum í framkvæmd.
Haustið 1937 ríkti mikil deyfð yfir atvinnulífinu i Eyjum. Fjárhagskreppan, sem þá hafði hert að útveginum í 7 ár, var enn í algleymingi. Enginn útgerðarmaður treystist til að festa sér beitusíld um haustið, þeir gerðu enga pöntun á þeirri vöru til vertíðarinnar, og ekkert frystihús í Eyjum hafði síld til sölu eða gaf kost á henni á vertíð. Þetta ástand í bæjarfélaginu sannar betur en flest annað, hversu stjórn Ísfélags Vestmannaeyja bar útveginn mjög fyrir brjósti og starfaði af ríkri ábyrgðartilfinningu fyrir hag hans og um leið alls almennings. Þótt enginn vildi panta síld eða binda sig síldarkaupum hjá Ísfélaginu og hvergi von um síld í bænum frá öðrum íshúsum, þá afréð stjórn Ísfélagsins samt að festa kaup á beitusíld til Eyja. Annað fannst stjórninni „óforsvaranlegt,“ þrátt fyrir fjárhagsörðugleika félagsins.
Loks 10 okt. 1937 tókst að ná saman aðalfundi til þess að ræða og leggja blessun yfir reikninga félagsins 1935 og 1936. Engan arð treystist stjórnin til að greiða félagsmönnum eftir þessi ár.
Áætlun Ingólfs Espólíns um kostnað við að byggja við íshúsið og kaupa í það hraðfrystitæki, sem afköstuðu 5 smálestum af fiski á sólarhring, var mikið rædd á fundi þessum. Þar kom fram tillaga um að fresta þessum framkvæmdum. Stjórnin bar fram breytingartillögu svo orðaða:
„Félagsfundur samþykkir að fela væntanlegri stjórn að halda áfram að vinna að því að fá lán hjá Fiskimálanefnd til endurbóta og breytinga á húsinu í þá átt, sem skýrsla Espólíns leggur til.“
Tillaga þessi var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur. Með því að samþykkja þessa tillögu stjórnarinnar, markaði þessi aðalfundur mikilvægt spor um framtíð Ísfélags Vestmannaeyja, varð upphaf að nýtízku fiskiðnaði félagsins í stórum stíl.
Á þessum aðalfundi voru þessir menn kosnir í stjórnina:
Ólafur Auðunsson, Ástþór Matthíasson, Eiríkur Ásbjörnsson, Ársæll Sveinsson og Tómas Guðjónsson. Þrír hinir síðast töldu höfðu ekki verið í stjórn Ísfélagsins áður. Varamaður var kosinn Helgi Benediktsson. Ólafur Auðunsson varð formaður félagsstjórnar framvegis, og nú varð Ársæll Sveinsson varaformaður.
Hinn 26. marz 1938 skýrði formaður félagsins frá því, að hann hefði setið fund Fiskimálanefndar í Reykjavík þá nýlega. Þar hafði komið í ljós, að lánbeiðni sú, sem Ísfélagsstjórnin sendi nefndinni fyrir ári, hafði ekki verið tekin fyrir til afgreiðslu í nefndinni. Hafði formaður látið í ljós megna óánægju yfir slíkum og þvílíkum vinnubrögðum og ekki sízt, er í hlut átti elzta vélknúna íshúsið á landinu og stærsta verstöð landsins. En Fiskimálanefnd hafði þá stefnu yfirleitt að lána ekki fé til þess að endurbæta eða breyta gömlum íshúsum í nýtízku hraðfrystihús, heldur veita lán til bygginga á nýjum frystihúsum. Þó höfðu sérfræðingar Fiskimálanefndar sagt nefndinni, eftir að þeir höfðu verið í Vestmannaeyjum haustið 1937, að íshús Ísfélagsins væri það eina frystihús í Eyjum, sem kæmi til mála að lána fé til nýbyggingar og breytinga á því, sem fyrir væri. Formaður lýsti yfir því á stjórnarfundi þessum, að skeyti Fisksölusamlags Vestmannaeyja til Fiskimálanefndar sent í apríl 1937 hafi komið í veg fyrir, að lánbeiðni Ísfélagsins var tekin til afgreiðslu í Fiskimálanefnd, því að í skeytinu hafi verið beiðni um styrk til að koma upp nýju hraðfrystihúsi í Eyjum. Jafnframt hefðu tveir kunnir Vestmannaeyingar spillt því í viðtali við skrifstofustjóra Fiskimálanefndar, að lánbeiðni Ísfélagsins yrði sinnt.
Annar þessara manna sat stjórnarfund Ísfélagsins, þegar formaður lét þessa vitneskju sína í ljós, og mótmælti hann því þegar, að þessi áburður væri sannur. Hins vegar viðurkenndi hann, að hann hefði lýst yfir hlutleysi sínu í málinu. Kemur það æði kynlega fyrir, þar sem hann var einn af stjórnendum Ísfélagsins og bar að gæta hagsmuna þess.
Eftir nokkra daga var nú hafizt handa um byggingarframkvæmdir. Ólafur Á. Kristjánsson hafði áætlað, að kostnaður við að steypa eina hæð á kjallarann, sem þegar hafði verið steyptur, mundi kosta kr. 20.000,00 alls. Ársæli Sveinssyni og Eiríki Ásbjörnssyni var falið að hafa á hendi umsjón byggingarframkvæmdanna fyrir hönd stjórnarinnar. Guðmundur Böðvarsson var ráðinn timburmeistari og Óskar Kárason múrarameistari.
Meðan á byggingarframkvæmdum stóð var skrifstofa Ísfélagsins flutt að Mandal. Verkinu skyldi lokið fyrir miðjan maímánuð s.á. eða eftir rúman hálfan annan mánuð. Að mestu var þeim framkvæmdum lokið mánuði síðar en ætlað var. Ingólfur Espólín mun hafa haft á hendi eftirlit með byggingunni f.h. Fiskimálanefndar, en aðaltrúnaðarmaður hennar var Axel Kristjánsson, ráðunautur nefndarinnar.
Í októbermánuði 1938 lá loks fyrir skýlaust heit Fiskimálanefndar um 25 þúsund króna lán til Ísfélagsins, gegn því skilyrði m.a. að nefndin sjálf fengi einkarétt til að selja þann fisk, sem hraðfrystur yrði í íshúsi Ísfélagsins á þess eigin kostnað.
Útvegsbankinn hér lánaði Ísfélaginu rekstrarfé eins og svo oft áður, þegar innheimta þess á útistandandi skuldum gekk erfiðlega. Svo var það haustið 1938. Einnig veitti Útvegsbankinn hér tíðum bankaábyrgð fyrir greiðslu á beitusíld, þegar hún var keypt frá Noregi. Þannig var sú stofnun oftast þrautalendingin, þegar á reyndi.
Fyrir stjórnarfundi 23. sept. 1939 lá bréf frá Ársæli Sveinssyni, þar sem hann spyrst fyrir um það, hvort fasteignir Ísfélagsins með vélum muni vera falar fyrir kr. 92.500,00. Meirihluta stjórnarinnar þótti verðtilboðið allt of lágt. Þó samþykkti stjórnin að leggja málið fyrir aðalfund, sem halda skyldi þá á næstunni.
Þrem dögum síðar var svo haldinn aðalfundur félagsins í Samkomuhúsi Vestmannaeyja. Þar voru m.a. lagðir fram reikningar fyrir árin 1937 og 1938. Áhugi félagsmanna þá á tilveru og hag Ísfélagsins virðist hafa verið mjög lítill, enda fjárhagur þess þröngur og rekstur þess ákaflega erfiður. Svo hafði það verið s.l. 9 ár eða frá upphafi kreppunnar. Þó verður ekki sagt, að efnahagur þess hafi staðið sérstaklega höllum fæti, því að eignir félagsins voru miklar og mun meiri en skuldirnar. En mikið hafði verið afskrifað af eignum félagsins undanfarin ár, og mest af þeim sökum sýndu reikningar félagsins töluverðan halla á rekstrinum, enda mikið tapazt af útistandandi skuldum, eins og áður er drepið á. Þegar reikningar félagsins 1937 voru bornir undir atkvæði, sátu flestir fundarmenn hjá og greiddu ekki atkvæði. Þeir voru samþykktir með fáum atkvæðum.
Miklar umræður urðu um reikningana 1938 og deilt fast á stjórnina fyrir störf hennar, en fullyrða má, að formaður fékk ekki haldið stefnu sinni um hag og rekstur félagsins sökum eiginhagsmunabaráttu og hlutdrægni vissra áhrifamanna í félaginu. T.d. fékk hann því ekki ráðið, að félagið mætti taka geymslugjald fyrir síldina, sem vissir félagsmenn áttu mánuðum saman í íshúsinu.
Þegar reikningarnir 1938 voru fyrst bornir undir atkvæði, fékkst ekkert atkvæði greitt. Við aðra tilraun voru þeir samþykktir með 5 atkvæðum gegn engu. Stjórnin hafði nokkur undanfarin ár fengið að launum kr. 1.000,00 á ári. Á fundi þessum var samþykkt með 4 atkvæðum samhljóða, að laun stjórnarinnar yrðu felld niður, þó voru 65 atkvæðisbærir menn á fundi. Þessi deyfð og þumbaraskapur á fundinum sannar okkur hinn neikvæða anda, sem nú ríkti orðið í félagsskapnum. Enda voru nú komnir til ýmsir þeir menn í félagsskapinn, sem okkur koma kynlega fyrir í þessum félagssamtökum, og reyndu þeir sumir hverjir að „fiska“ eftir mætti í hinu ,,óhreina vatni.“
Ólafur Auðunsson lýsti yfir því á fundinum, að hann tæki ekki við endurkosningu í stjórn félagsins. Það gerði einnig Eiríkur Ásbjörnsson. Kosningu hlutu að þessu sinni:
Tómas M. Guðjónsson, Helgi Benediktsson, Kjartan Guðmundsson, Ársæll Sveinsson og Eiríkur Ásbjörnsson. Þeir fengu 38—50 atkvæði. Varamaður varð Georg Gíslason með 16 atkvæðum. Eiríkur endurtók yfirlýsingu sína, að hann tæki ekki við kosningu í stjórn.
Varðandi kauptilboð Ársæls Sveinssonar kom fram sú tillaga frá Guðlaugi Gíslasyni, að kosin yrði þriggja manna nefnd til þess að athuga fjárhag félagsins og rekstur, hvort tök væru á að koma honum í betra horf eða hverfa að því ráði að selja fyrirtækið, ef viðunandi boð fengist. Tillaga þessi var samþykkt með öllum þorra atkvæða mótatkvæðalaust.
Í þessa rannsóknarnefnd voru kosnir þeir Guðlaugur Gíslason, Ísleifur Högnason og Páll Þorbjörnsson.
Látum við svo lokið 3. kafla sögunnar, með því að þáttur Ólafs Auðunssonar er á enda og hann meðtekið umbun fyrir vel unnin störf, mikla fórnfýsi og brennandi áhuga á framtíðarhag félagsins.

Þ.Þ.V.


Til baka