Sigurður Gunnarsson (Vík)
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Sigurður Gunnarsson“
Sigurður Ásgeir Gunnarsson kaupmaður fæddist í Vík í Mýrdal 18. febrúar 1901 og lést 12. október 1941. Hann var sonur þeirra hjóna Jóhönnu Eyþórsdóttur og Gunnars Ólafssonar, er þá var verslunarstjóri í Vík. Til Vestmannaeyja fluttist Sigurður með foreldrum sínum 1908 og ólst þar upp síðan.
Sigurður kvæntist Sigríði Geirsdóttur frá Kanastöðum í Landeyjum árið 1926. Þau eignuðust tvö börn.
Sigurður vann við verslunar- og útgerðarfyrirtæki föður síns og var þar meðeigandi frá árinu 1925, en verslunarmenntunar hafði hann aflað sér á Verslunarskólanum í Björgvin. Sigurður sá um útgerð verslunarinnar. Útgerðin hafði marga báta og starfsfólk var mjög margt þegar mest lét.
Í félagsmálum útgerðarmanna stóð Sigurður framarlega. Hann var formaður Útvegsbændafélagsins nokkur síðustu árin.
Jóhann Þ. Jósefsson lýsir Sigurði svo í minningargrein: ,,Sigurður Gunnarsson var maður yfirlætislaus og hæglátur í öllu dagfari, dulur í skapi en skapmaður, þótt hann stilti vel skap sitt alla jafna. Hann var maður drenglyndur og vildi hvers manns götu greiða, en ekki síst þótti hinum minni máttar gott til hans að leita."
Myndir
Heimildir
- gardur.is
- Minningargrein í Morgunblaðinu, 23. október 1941.
- Minningargrein í Víði, 14. nóvember 1941.