Blik 1956/Gamla athafnasvæðið um stórstraumsfjöru

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1956



Gamla athafnasvæðið um
stórstraumsfjöru


Byggðarsafn Vestmannaeyja hefur fengið gamlan og glöggan Vestmannaeying, Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ, til þess að teikna eftir minni hið gamla athafnasvæði Eyjanna, hinn svo kallaða Læk, sem var svæðið milli Stóru-Stokkhellu og Nausthamars. Þetta svæði mun verið hafa um margar aldir eitt allra mesta athafnasvæði landsins, svo að ekki sé of djúpt í árinni tekið. Nú er þetta svæði horfið. Þar eru nú uppfyllingar og bryggjur.
Í Læknum lögðu flest opnu skipin hér í Eyjum upp afla sinn árið um kring.

ctr


Myndin á bls. 73 er af athafnasvæði þessu um stórstraumsfjöru, og eru helztu örnefni þess einkennd tölum til hægðarauka.
Nr. 1 Stóra-Stokkhella. Svo hét hraungrýtisklöpp þessi frá fornu fari.
Nr. 2 Litla-Stokkhella. Árið 1907 var byggð bryggja frá Strandvegi yfir Litlu-Stokkhellu. Mun norðurbrún hennar hafa náð það langt norður, að nema mundi við suðurhlið Fiskiðjubyggingarinnar nú. Bryggja þessi var hlaðin úr höggnu grjóti. Hún var fyrsta hafnarmannvirki í Vestmannaeyjum, sem því nafni gæti nefnzt og var í daglegu tali ýmist nefnd Stokkhellubryggja, Steinbryggja eða Sýslubryggja.
Þessi vísir að bæjarbryggjunni var stækkaður árið 1911.
Var sá viðauki gjörður úr steini og timbri. Við vesturbrún Stóru-Stokkhellu var rekin niður stauraröð, sem myndaði vesturbrún bryggjunnar.
Árið 1925 var bryggja þessi aukin og endurbætt. Fékk hún þá mót það, er hún hefur nú. Var hún þá öll byggð úr steini og steinsteypu. Útveggir bryggjunnar að vestan og norðan voru gerðir úr járnbentum steinsteypukerjum, og þau síðan fyllt grjóti. Síðan var gert við þessa viðbyggingu árið 1927. Síðan hefur bryggjan haldið þeirri stærð og gerð, er hún nú hefur.
Austurbrún Bæjarbryggjunnar var látin fylgja austurbrún Stóru-Stokkhellu.
Nr. 3 Stokkalón. Í lóni þessu var tíðum þveginn saltfiskur. Elztu menn í Eyjum minnast þess, er sjómenn sátu í skinnbrókum sínum nær flötum beinum í lóni þessu eða í jöðrum þess og þvoðu fiskinn á kné sér. Var það háttur margra þá að vefja fiskmottu um vinstra læri til að hlífa sjóbrók sinni og þvo þar á fiskinn.
Nr. 4 Sliskar. Þessu nafni voru nefndar tvær brýr, sem lágu af Strandveginum niður í Stokkalónið. Myndin sýnir aðeins eina. Allt að eins metra hæð var þarna úr Stokkalóni upp á brún Strandvegarins.
Nr. 5 Hrófin. Þau voru aðalnaust Eyjabúa um 900 ára skeið eða frá lokum landnámsaldar að Vestmannaeyjar byggðust til vorra tíma.
Kristinn Ástgeirsson gefur hugmynd um stöðu opnu skipanna í Hrófunum, þegar hvert þeirra var komið á sinn stað. Um flæði flutu skipin upp undir Hrófin, og var þá setningur stuttur. Leirurnar niður af Hrófunum voru kallaðar Skipasandur einu nafni. Sigfús M. Johnsen fyrrv. bæjarfógeti, höfundur Sögu Vestmannaeyja, segir svo um skipahróf í Skipasandi:
Bjargarhróf hét vestasta hrófið í Sandinum við Stokkalónið... Næst fyrir austan Bjargarhróf var Haffrúarhrófið. Þá Lisebetarhrófið, svo Gnoðarhrófið, næst þar fyrir austan Gideonshrófið (leiðr.), þá Áróruhrófið, svo Enokshróf, Farsælshróf og Blíðuhróf. Þá Mýrdælingshrófið, Svanshróf og Friðarhrófið og austast Bjargarhrófið, yngri Bjargar Ingimundar á Gjábakka við Mibúðarbryggju.“
Bæði Vestmannaeyingar sjálfir og formenn af landi settu skip sín upp í Fúlu.
Nr. 6 Fúla. Þarna myndaðist sandvik austan og sunnan við Nausthamar. Hér safnaðist fyrir þari og ýmiskonar úrgangur eða drasl, sem rotnaði þar og lagði af fýlu. Þannig mun nafnið hafa myndast.
Nr. 7 Fúlugarður. Í austanveðrum gekk sjór yfir Fúlu vestur í Hrófin og olli hættu skipum þar. Þess vegna var hlaðinn grjótgarður milli landklappa og Nausthamars, nefndur Fúlugarður. Hann var hlaðinn úr stóru grjóti en úr smærra grjóti ofar miðju. Sjórinn braut brátt garð þennan, og var hann þá ekki hlaðinn upp aftur, en rúst hans varnaði að nokkru aflsjóum að flæða inn í Fúlu, þar sem skipin stóðu.
Nr. 8 Nausthamar. Þetta var hraungrýtishamar 3—4 mannhæða hár. Sunnarlega á hamrinum var grastorfa. Hann var sprunginn mjög, og flæddi sjór inn í sprungur þessar í flæði. — Menn gengu örna sinna í sprungurnar, þegar sjór hamlaði ekki.
Árið 1908 eða 1909 lét Gísli J. Johnsen kaupmaður hefja bryggjugerð vestan við Nausthamar. Var hún fullbyggð í áföngum á næstu árum. Síðar var brotið ofan af Nausthamri og hann sléttaður. Þar standa nú byggingar, sem felast í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Þessi bryggja Gísla kaupmanns var kölluð Edinborgarbryggja. Því nafni hefur hún haldið til þessa dags. Hún var fyrsta hafskipabryggjan í Eyjum. Norður og vestur frá henni hefur nú verið byggð Nausthamarsbryggjan nýja.
Nr. 9 Brúnkolla, klapparhali norður og vestur úr Nausthamri.
Nr. 10 Skata. Sker austur af Brúnkollu. Það sést enn norður af olíugeymum Shell, er standa norðan vert við Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Á Skötu er nú stórt skipsanker til þess að vara skipshafnir við skerinu.
Nr. 11 Strandvegur.
Nr. 12 Skipasund, nú Sjómannasund, austan við Björgvin.
Nr. 13 Formannasund, nú Formannabraut.
Nr. 14 og 15 Króasund.
Nr. 16 Miðbúðarlóð.
Nr. 17, 18, 19, 20 Fiskkrær.
Nr. 21 Lækir, sem runnu undan klöppum við Strandveg, en þó mest úr uppsprettuaugum í Læknum. Stundum var stærsti lækurinn svo vatnsmikill, að skipunum var fleytt þar upp til þess að stytta setningu þeirra, er lágsjávað var.
Nr. 22 Slýklappir. Þetta voru lágar hraunklappir, er stóðu upp úr leirnum í Læknum, allar vaxnar slýi og hálar mjög.
Nr. 23 svo kölluð Brúsaklöpp á seinni tímum. Þar biðu konur og börn með kaffibrúsana handa sjómönnunum, eftir að þeir komu að, þar til þeir gáfu sér tíma til að fá sér hressingu.
Oftast var allur fiskur dreginn á seilar úr skipunum, þegar landað var, og dreginn þannig upp í fjöru, því að útfiri var mikið í Læknum. Síðan unnu konur æði oft að því að draga fiskinn úr Sandi til aðgerðar. Við fiskdráttinn notuðu þær svo nefnda fiskkróka, sem voru tveir í hvorri hendi þannig gerðir, að þeir voru beygðir á sinn hvorn enda sama járns og höfð handarbreidd á milli þeirra. Var þar tré um járnið, sem hendin hélt um.
Nú er allur Lækurinn falinn undir nýjum mannvirkjum, sem gerð voru þar á s.1. ári, er bygging Nausthamarsbryggjunnar hófst. Svo er og um Hrófin.

Þ.Þ.V.









Efri myndin: Séð suður í Hrófin af eystri brún bæjarbryggjunnar. Þannig litu þau út síðustu 30-40 árin. Þar voru skjögtbátar geymdir eftir að vélbátaútvegurinn hófst.
Neðri myndin: Séð norður yfir Hrófin af Strandveginum, háflæði. Bæjarbryggjan til vinstri. Edinborgarbryggjan til hægri. Grafskipið „Vestmannaey“ liggur milli bryggjanna. Um flóð var setningur skipa stuttur úr Læknum upp í Hrófin, eins og myndin sýnir glögglega.