Blik 1936, 2. tbl./Örnefni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Blik 1936/Örnefni)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1936


Örnefni


Eftir JÓH. GUNNAR ÓLAFSSON bæjarstjóra


HVERGI á landinu mun vera jafn margt örnefna og hér í Vestmannaeyjum, á ekki stærra bletti. Má heita, að hver hóll og hæð á Heimalandi, og hver snös og skúti í björgum og úteyjum eigi sér nafn.
Við atvinnu sína hafa eyjarskeggjar farið um fjöll og eyjar, og ekki sízt sjóinn kringum eyjarnar. Öllum kennileitum hafa þeir gefið nafn til þess að miða við athafnir sínar, og er mikill hluti örnefnanna af þeim toga spunninn. En margt örnefnanna á rót sína að rekja til ýmsra annara ástæðna eða atvika.
Skipasand kölluðu þeir, þar sem þeir komu að landi á skipum sínum. Þar voru líka Hrófin, Nausthamar, Stokkhella, Stokkalón og Haffrúarklöpp. Við Tangavik var Sjóbúðarhóll. Áður fyrri hét þar Básar, sem skerin fengu nafn af: Innra-og Ytra-Básasker. Næstum því hvert sker og klöpp, sem liggur að eða á Botninum, á sitt nafn. Í Hringsker voru fyrrum legufestar hafskipanna festar. Skata og Brúnkolla voru varasöm sker, og slæm brot voru oft á Hnyklinum. Þess vegna var nauðsynlegt að leggja rétt á Leiðina. Auk þess varð að varast Steininn og Eyrarhálsinn. Þetta og fleira urðu formennirnir að hafa hugfast, svo vel færi. Á Sólboða var tekið lagið á Leiðina. Þegar ólag gekk á Sólboða, átti að róa á Leiðina, því að of seint var að taka Leiðarróðurinn, ef ólaginu var sleppt inn af boðanum.
Um alla Heimaey eru örnefni dregin af aðalatvinnuvegi eyjarskeggja, fiskveiðunum.
Í Fiskhellum og Fiskiklettum var matfiskur hertur, og hafa þeir nafn af því. Undir Skiphellum var gert við vertíðarskipin. Á Kvíslarhól var sjófatnaðurinn þurkaður. Svona mætti lengi telja. Þá eru á hinu leitinu nöfn, sem rót sína eiga að rekja til landbúnaðarins. Kvíalágar, Ömpustekkir, Staðarstekkir, Helgustöðull, Lambhilla, og Sauðatorfa eru meðal þeirra nafna. Kaplapyttir og Kaplagjóta, þar sem lógað var hrossum, er voru umfram ákveðna tölu (16), minnir á hrossaeignina. Gyltu­stígur í Yztakletti bendir til þess að svínarækt hafi verið hér, og Hafursdalur eða Hafursdæl, geitnarækt. Meginhluti örnefnanna er þó til komin við fuglaveiðarnar. Hver veiðistaður, og svo að segja hver lundabyggð, svartfuglsbæli og fýlavarp á sitt nafn. Flest eru þau örnefni dregin af landslagi, legu og öðrum einkennum, eða hafa nafn sitt af þeim manni, sem fyrstur klifraði þangað eða seig, en þó eru nokkur þeirra dregin af fuglsheiti eða einhverju tæki til veiðinnar. Í þessu efni má nefna þessi fáu dæmi:
Brattató, Grafningsskora, Sléttimoldi, Hurðarnef, Háubæli, Blöðkutó, Baldurbráarhillur, Blábringur, Bjarnabæli, Halldórsskora, Álkustallur, Fýlagýpur, Geirfuglasker, Súluhellir og Kepptó.
Hér er ekki rúm til að rekja þetta efni til hlítar. Ég vil aðeins nefna nokkur dæmi um örnefni, sem sprottin eru af öðrum atvikum en þegar hafa verið nefnd. Skammt ofan við Hvíld, vestan við Leyni, eru klettar, sem nefndir eru Rýnisklettar. Er það sögn manna, að þaðan hafi landmenn „rýnt“ á Nafarinn, til þess að aðgæta, hvort fær mundi sjór við Sandinn. Allmargir staðir hafa verið notaðir sem eyktamörk frá bæjunum. Þaðan eru komin örnefnin Hádegisklettar, Nónhóll, Nóngil og Náttmálaskarð. Lauphöfðar draga nafn sitt af hrafnshreiðri, Mormónalón eða Skírnarlón af því, að þar skírðu mormónarnir, um miðja síðustu öld, þá, sem tóku trú þeirra. Sölvaflá af sölvatekju, Rosahóll, vegna þess að bregða þótti til óveðráttu, þegar hóllinn hafði verið sleginn.
Ég gat þess áður, að á sjónum kringum Eyjarnar væri einnig margt örnefna, ef svo mætti segja. Átti ég þar við miðin. Á sjóferðum sínum til aflafanga veittu eyjarskeggjar því fljótt athygli, að betur fiskaðist á einum stað en öðrum. Miðuðu þeir þá staði niður við einhver kennileiti í Heimaey, úteyjum eða jafnvel uppi á meginlandi og gáfu þeim nafn. Af þeirri ástæðu eru þær fiskislóðir kallaðar mið. Þekkjast nú nálægt 140 mið í námunda við Eyjarnar, þar sem handfæraveiði var áður stunduð. Oft drógu miðin nafn af þeim stað, sem þau voru miðuð við, eins og t.d. Mannklakkurinn, Oddsstaðaklakkur, Freikjuklakkur o.fl. Á hinu leitinu eru mið eins og Bessi, Breki, Glóri og Ledd. Það er ekki óalgengt, að ýmsir þeir staðir, sem við er miðað, hafi annað nafn af sjó. Meðal þeirra eru Fiskhellanef, sem kallað er Vaðhorn, þegar miðað er við það, Veðurvitarnir og Búrin á Elliðaey, sem áður voru kölluð Hesteyra. Af miðunum má ráða, hvernig sjósókn hefir verið háttað áður.
Örnefnin eru fyrir margra hluta sakir merkileg. Veita þau oft fræðslu um störf og lifnaðarháttu fyrri alda manna, sem ekki er hægt að fá annars staðar.
Á örnefnum í Vestmannaeyjum hefir farið fram rækileg söfnun. Næsta haust koma þau sennilega út í bókarformi með skýringum og athugunum. Dr. Þorkell Jóhannesson, sem tekið hefir sér fyrir hendur söfnunina, mun standa fyrir þeirri útgáfu.

Jóh. Gunnar Ólafsson.