Þórunn Pálsdóttir (Presthúsum)
Þórunn Pálsdóttir húsfreyja í Presthúsum, fæddist 12. nóv. 1879 í Vesturholtum undir Eyjafjöllum og lézt 15. marz 1965 í Reykjavík.
Ætt og uppruni
Foreldrar hennar voru Páll bóndi í Vesturholtum, f. 29. apríl 1838, d. 5. apríl 1881, Einars bónda í Forsæti, f. 1798, d. 1876, Jónssonar og konu Einars bónda, Guðrúnar Ísleifs bónda í Ytri-Skógum, Jóns Ísleifssonar lögréttumanns á Lambafelli og síðar í Selkoti. Móðir Þórunnar og kona Páls bónda var Þóra húsfreyja, f. 7. marz 1836, d. 9. september 1918, Magnúsar bónda í Syðri-Vatnahjáleigu Guðlaugssonar, Bergþórssonar að Hemlu í Landeyjum og konu Magnúsar bónda, Þuríðar Ólafsdóttur.
Lífsferill
Páll faðir Þórunnar drukknaði, þegar hún var á öðru ári. Hún var þá tekin í fóstur að Önundarstöðum í A-Landeyjum til föðurbróður síns Ísleifs Einarssonar bónda, f. 23. janúar 1831, og konu hans, Ingibjargar Jónsdóttur húsfreyju, f. 24. desember 1824.
Þau Kári Sigurðsson giftust 1902. Þau bjuggu í Vesturholtum undir Eyjafjöllum frá 1904. Markarfljót braut þá mjög lönd bænda á svæðinu. Þetta varð til þess, að þau Kári fluttust að Voðmúlastaða-Suðurhjáleigu (nú Bólstaður) í A-Landeyjum og bjuggu þar 1910-1913.
Kári var um skeið formaður á Björgu við Landeyjasand og síðan á vertíðum í Eyjum á þessum árum, og sá Þórunn þá ein um búreksturinn og barnahópinn.
Þau fluttust til Eyja 1913. Bjuggu þau í fyrstu í Hvíld, en síðan í Presthúsum (Eystri-Presthúsum). Þau vildu hafa búrekstur sér til þarfa og skiptu bústöðum við ábúanda þar, Arnbjörn Ögmundsson.
Eftir lát Kára 10. ágúst 1925 bjó Þórunn lengi með börnunum. Hún flutti til Reykjavíkur 1950 og bjó þar hjá börnum sínum. Þórunn dó í Reykjavík 15. marz 1965 af afleiðingum beinbrots.
Þau Kári eignuðust 17 börn. Þau voru:
- Ingileif, f. 10. júní 1903, d. 16. júní 1903;
- Helga húsfreyja á Önundarstöðum í A-Landeyjum, f. 30. maí 1904, d. 13. júní 1999;
- Óskar byggingafulltrúi í Eyjum, f. 9. ágúst 1905, d. 2. maí 1970;
- Ingileif húsfreyja í Reykjavík, f. 21. október 1906, d. 29. ágúst 2003;
- Sigurbjörn kaupmaður í Reykjavík, f. 31. maí 1908, d. 21. apríl 1997;
- Þórður sjómaður í Reykjavík, f. 10. ágúst 1909, d. 20. febrúar 1933. Hann ólst upp hjá föðursystur sinni Önnu Sigurðardóttur og Jóni Jónssyni að Syðri-Úlfsstöðum í A-Landeyjum. Hann drukknaði, er línuveiðarinn Papey fórst eftir árekstur á Sundunum hjá Reykjavík.
- Guðni bakari og lengst skrifstofumaður og verzlunarmaður í Reykjavík, f.10. september 1910, d. 18. ágúst 2004;
- Nanna saumakona í Reykjavík, f. 1. marz 1912, d. 14. júní 1978;
- Sölmundur, f. 23. apríl 1913, d. 7. apríl 1914;
- Laufey, f. 10. marz 1914, d. 14. ágúst 1917;
- Arnkell, f. 4. apríl 1916, d. 12. marz 1917;
- Rakel húsfreyja í Reykjavík, f. 4. september 1917, d. 10. ágúst 1980;
- Jón Trausti aðalbókari í Reykjavík, f. 9. febrúar 1920, d. 24. nóvember 2011;
- Kári, f. 4. júlí 1921, d. 27. febrúar 1924;
- Guðríður Svala, sjúklingur, f. 16. júlí 1922, d. 13. desember 2005. Hún dvaldi lengst af ævinnar á sjúkrahúsum;
- Kári Þórir Kárason|Kári Þórir múrari í Reykjavík, f. 9. maí 1924, d. 10. maí 2009;
- Karl, f. 24. júlí 1925, d. 16. febrúar 1935.
Myndir
Heimildir
- Upphaflega grein skrifaði Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Legstaðaskrá.
- Manntal 1910 og 1920.
- Valgeir Sigurðsson, Ragnar Böðvarsson og fleiri. Landeyingabók, Austur-Landeyjar. Gunnarshólmi: Austur-Landeyjahreppur, 1999.
- Þorsteinn Einarsson kennari, íþróttafulltrúi: Þórunn Pálsdóttir, minning. Morgunblaðið 23. marz 1965.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.