Árni J. Johnsen

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. ágúst 2013 kl. 22:44 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. ágúst 2013 kl. 22:44 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Sjá greinina um Árna Johnsen fyrir Alþingismanninn.


Árni Johnsen og fjölskylda

Árni Hálfdán Jóhannsson Johnsen fæddist í Vestmannaeyjum 13. október 1892 og lést árið 1963. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Árnadóttur og Jóhanns Jörgens Johnsen útvegsbónda og hótel- og sjúkrahúshaldara í Vestmannaeyjum. Fyrri kona Árna var Margrét Marta Jónsdóttir. Eignuðust þau 6 börn, Svölu húsfreyju í Suðurgarði, Ingibjörgu kaupkonu, Áslaugu hjúkrunarkonu og trúboða, Gísla sjómann, Hlöðver bankafulltrúa og Sigfús sem var kennari og formaður ungra Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum. Margrét lést eftir 30 ára sambúð þeirra. Seinni kona Árna var Olga Karlsdóttir. Þau eignuðust Guðfinn og Jóhannes auk þess sem Olga átti fjögur börn fyrir.

Árni ólst upp á fjölmennu athafnaheimili. Faðir Árna hafði mörg járn í eldinum. Auk þess að halda hótel og sjúkrahús í Eyjum og einnig var á heimilinu bæði stunduð útgerð og landbúnaður.

Framan af stundaði Árni kaupmennsku, útgerð, búskap og margs konar umboðsstörf. Árni var félagslyndur og hjálpaði bágstöddum mikið. Árni var bindindismaður síðari hluta ævinnar og var hann æðsti templari í stúkunni Sunnu samfleytt í 25 ár. Einnig var hann í forystusveit Sjálfstæðisflokksins um margra ára skeið. Árni var í fyrstu Lúðrasveit Vestmannaeyja og söng í kórum um 60 ára skeið.

Árni bjargaði alls 8 mönnum frá drukknum. Hann var sæmdur mörgum heiðursmerkjum og meðal annars fékk hann fjórum sinnum verðlaun úr Carnegie-sjóðnum og var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar.


Heimildir

  • Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. 1963.

Frekari umfjöllun

Árni Hálfdán Johnsen kaupmaður frá Frydendal, fæddist 13. október 1892 og lést 15. apríl 1963.
Foreldrar hans voru Jóhann Jörgen Johnsen veitingamaður í Frydendal f. 9. október 1847, d. 11. maí 1893 og kona hans Anna Sigríður Árnadóttir Johnsen húsfreyja, f. 4. júní 1855, d. 30. ágúst 1930.

Árni var tvíkvæntur:
I. Fyrri kona hans var Margrét Marta Jónsdóttir frá Suðurgarði, f. 5. mars 1895, d. 15. maí 1948.
Börn Árna og Margrétar voru:
1. Gísli, f. 18. október 1916, d. 8. janúar 1964.
2. Svala, f. 19. október 1917, d. 16. janúar 1995.
3. Hlöðver, f. 11. febrúar 1919, d. 10. júlí 1997.
4. Ingibjörg, f. 1. júlí 1922, d. 21. júlí 2006.
5. Áslaug Johnsen, f. 10. júní 1927, d. 25. mars 1986.
6. Sigfús, f. 25. nóvember 1930, d. 2. nóvember 2006.

II. Síðari kona hans var Olga Karlsdóttir, f. 26. mars 1917, d. 12. apríl 1976. Árni var síðari maður hennar.
Börn Árna og Olgu eru:
7. Guðfinnur Johnsen, f. 1949.
8. Jóhannes Johnsen, f. 27. júlí 1953.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Árni er hár maður vexti, þrekinn og herðabreiður, síðari árin feitlaginn um of. Hann er svarthærður, glaður í lund, skemmtilegur, ræðinn og veitull vel gestum og gangandi. Hann er ágætur félagi, styrkur vel og var mesti kraftamaður, meðan hann var í þjálfun vegna erfiðisvinnu, duglegur og fylginn sér. Árni var ágætur veiðimaður og mikið við þau störf sem og aðrar eggja- og fuglaveiðar í ýmsum björgum Eyjanna og hvarvetna dugandi liðsmaður.
Sundmaður var Árni með afbrigðum góður og hefir bjargað 5-6 manns frá drukknun. Lífsstörf Árna hafa verið margþætt, kaupmennska, útgerðarvinna, hvers konar búhættir, sjómennska, togaraafgreiðsla og umboðsmennska. Síðast hefir hann unnið í Keflavík, skrifstofumaður hjá setuliðinu þar, nú vigtarmaður í Eyjum.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Myndir