Heilbrigðissaga Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Læknisembætti stofnað í Vestmannaeyjum

Íbúar Vestmannaeyja sendu beiðni til yfirvalda árið 1820 um að þeim væri sendur læknir og var íslenskur læknir, Ólafur Thorarensen, sendur. Hann vildi hins vegar ekki setjast að í Vestmannaeyjum en skrifaði skýrslu til yfirvalda um hvað bæri að gera til að bæta ástandið. Tillögur hans voru á sömu nótum og tillögur Klogs en sem fyrr var ekki farið eftir þeim. Landlæknir, Jón Thorstensen og stiftamtmaður Hoppe, gerðu þá tillögu til yfirvalda um að stofnað yrði sérstakt læknisembætti í Vestmannaeyjum og var það samþykkt af konungi 6. júní 1827. Þar sem erfiðlega gekk að fá lækni var ákveðið að ef danskur læknir fengist til starfans og sæti í sex ár fengi hann embætti í Danmörku að því loknu. Fyrsti héraðslæknirinn, Carl Ferdinand Lund, kom til starfa árið 1828 en síðan komu þeir hver af öðrum, Carl Hans Ulrich Balbroe, Andreas Steener Iversen Haaland, August Ferdinand Schneider og Philip Theodor Davidsen, sem lést í embætti árið 1860 eins og Lund hafði gert tæpum 30 árum fyrr. Ekkert hafði breyst í Vestmannaeyjum þrátt fyrir komu læknanna en þeir gerðu sér betur grein fyrir vandamálinu og voru með tillögur til úrbóta. Davidsen var læknir á því tímabili sem Schleisner kom og gerði úrbætur á ginklofavandamálinu. Hann vildi að sú fæðingaraðstaða sem komið hefði verið upp í Landlyst væri betur nýtt og jafnvel notuð til almennrar hjúkrunar. Danska stjórnin studdi Davidsen í sjúkrahúsbyggingu en landsmenn og eyjamenn stóðu gegn honum, og varð því ekkert úr sjúkrahúsbyggingu á sjötta áratug 19. aldar.

Ginklofinn í Vestmannaeyjum

Sjá aðalgrein:Ginklofi

Eitt mesta heilbrigðisvandamál í sögu Vestmannaeyja er ginklofinn. Í áraraðir dó meirihluti ungbarna úr ginklofa og það var ekki fyrr en Danir sendu ungan lækni til Eyja, sem að lausn fannst á þessum hræðilega sjúkdómi. Á tiltölulega stuttum tíma var sjúkdómnum útrýmt. Læknirinn Peter Anton Schleisner kom árið 1847 og fann hann fljótlega rót vandans.

Ígerðir hjá fiskverkunarfólki

Eftir 1906, er vélbátaútgerð hófst, batnaði afkoma fólks og húsakostur einnig, en þá bættist við nýtt vandamál. Fylgifiskur velmegunar var fiskúrgangur sem erfitt var að kom í lóg. Fiskhús voru reist á pöllum út í höfnina. Voru þau hús kölluð Pallakrær. Menn gengu örna sinna undir pöllum. Háflæðið sá svo um hreinsunina. Sjór til þvotta á fiski var dreginn upp um gat á króargólfi. Engan þarf að undra að menn voru meira og minna frá vinnu vegna ígerða og handarmeina.

Einhæf fæða og skortur á vatni

Árið 1911 voru helstu dánarorsakir drukknun, berklar og lungnabólga. Fæða var einhæf því nýmeti og fiskur var ekki alltaf fáanlegt og því skortur, bæði á B og C vítamíni. Vestmannaeyjar voru Klondyke Islands og þar var ausið milljónaverðmætum úr hafi. Fólk fluttist úr nærsveitum og víðar að og nokkur hundruð aðkomumenn voru í bænum á vertíðum. Húsnæðisskortur og þröngbýli var gífurlegt. Var barátta við óþrif og skortur á vatni alvarlegt vandamál.

Grútarskolp olli óþrifnaði

Ástandi ársins 1918 er lýst á eftirfarandi hátt:

Meðfram sumum aðalgötunum eru ræsi full af ýldu, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Slettur úr slorvögnum úti um allt þorp og ber fólkið óþverrann á fótum sér í hús. Grútarbræðslur menga loftið. Grútarskolpspollar maðka svo tæpast er unnt að stíga fæti á hreina jörð kringum skúrana sem notaðir eru til lifrarbræðslu.

Tæring var viðloðandi og 1923 gaus upp taugaveiki og var þá bent á óhollustu brunnvatns.

Heilsuverndarstöð

Heilsuverndarstöð var komið á laggirnar árið 1938 og var það héraðslæknirinn Ólafur Ó. Lárusson sem kom því að. Á stöðinni fór fram berklaeftirlit. Bágt húsnæði háði lækninum og hjúkrunarkonu, en lítið var gert í aðstöðuleysinu. Það var ekki fyrr en bæjarráð samþykkti að kaupa Arnardrang að hjólin fóru að snúast. Arnardrangi var breytt og voru íbúðir lækna og hjúkrunarfræðinga í rishæð, heilsuvernd á miðhæð og nuddstofa á neðstu hæð. Þar hafði Emma á Heygum nuddstofu ásamt íbúð. Í Arnardrangi fór fram heilsuvernd og almenn lækningastarfsemi til 30. maí 1971, þegar starfsemin var flutt í nýja sjúkrahúsið.

Læknatal

Héraðslæknar

  1. Carl Ferdinand Lund 23. janúar 1828 - 4. desember 1831
  2. Carl Hans Ulrich Balbroe 7. desember 1832 - 30. september 1839
  3. Andreas Steener Iversen Haaland 1. febrúar 1840 - 27. apríl 1845
  4. August Ferdinand Schneider 28. júlí 1845 - 2. september 1848
  5. Philip Theodor Davidsen 30. júlí 1852 - 1860
  6. Magnús Stephensen 11. október 1863 - 12. febrúar 1865
  7. Þorsteinn Jónsson 21. september 1865 - 30. september 1905
  8. Jón Rósenkranz 1. október 1905 - 30. júní 1906
  9. Halldór Gunnlaugsson 1. júlí 1906 - 16. desember 1924
  10. Páll V. G. Kolka 17. desember 1924 - 30. júní 1925
  11. Ólafur Ó. Lárusson 1. júlí 1925 - 1. júlí 1951
  12. Baldur Johnsen 1. júlí 1951 - 1. október 1960
  13. Henrik Linnet 1. október 1960 - 1. ágúst 1964
  14. Þórhallur B. Ólafsson 1. ágúst 1964 - 1. júní 1966
  15. Örn Bjarnason 1. júní 1966 - 1. ágúst 1974

Læknar Franska Spítalans

  • Halldór Gunnlaugsson 1907-1924
  • Páll V. G. Kolka desember 1924 - 1. júlí 1925
  • Ólafur Ó. Lárusson 1925 - 1928

Læknar Gamla Spítalans


Sjá einnig



Heimildir

  • Haraldur Guðnason. Við Ægisdyr: Saga Vestmannaeyjabæjar í 60 ár. I. bindi. Reykjavík: Vestmannaeyjabær, 1982.