Hlöðver Johnsen
Jón Hlöðver Á. Johnsen fæddist í Vestmannaeyjum 11. febrúar 1919 og lést 10. júlí 1997, 78 ára gamall. Hann var sonur hjónanna Árna J. Johnsen og Margrétar Mörtu Jónsdóttur frá Suðurgarði. Súlli, eins og Hlöðver var jafnan kallaður, ólst að miklu leyti upp hjá móðurafa sínum og ömmu í Suðurgarði, þeim Jóni Guðmundssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur.
Hann lauk prófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, iðnskóla og matsveinaskóla. Hann var sjómaður í nokkur ár og útgerðarmaður, gerði m.a. út hið þekkta skip Gottu VE sem áður hafði farið í frægan leiðangur til Grænlands að sækja sauðnaut. Hann starfaði við verslunarstörf um hríð og var bankastarfsmaður í 12 ár.
Hann starfaði með vísindamönnum við rannsóknir á nýja hrauninu á Heimaey og síðar við hraunhitaveituna.
Hann var landskunnur fuglafangari og kleif m.a. Eldey fjórum sinnum. Hann stundaði lundaveiði og eggjatöku frá unga aldri til dauðadags, aðallega í Bjarnarey. Hlöðver skrifaði bókina Bergið klifið, en það eru minningar hans frá æskuárum þar sem lýst er lífinu í byggðinni fyrir ofan hraun auk þess sem veiðimennsku í úteyjum eru þar gerð góð skil.
Hlöðver var kvæntur Sigríði Haraldsdóttur frá Garðshorni og áttu þau fimm börn saman, en fyrir átti Sigríður eitt barn. Börnin eru: Ágústa Guðmundsdóttir, Margrét, Sigríður, Anna Svala, Haraldur og Svava. Árið 1952 byggðu þau sér húsið Saltaberg og þótti arkítektúr þess á þeim tíma mjög sérstakur og þykir raunar enn.
Frekari umfjöllun
Jón Hlöðver Árnason Johnsen frá Suðurgarði fæddist 11. febrúar 1919 og lést 10. júlí 1997.
Forelldrar hans voru Árni Hálfdán Johnsen frá Frydendal, f. 13. október 1892, d. 15. apríl 1963, og kona hans Margrét Marta Johnsen frá Suðurgarði, f. 5. mars 1895 á Kirkjulandi í A-Landeyjum, d. 15. maí 1948.
Kona Hlöðvers var Sigríður Haraldsdóttir, f. 29. júní 1916 að Strandbergi, d. 17. febrúar 1993.
Börn Hlöðvers og Sigríðar eru:
Margrét, f. 7. nóvember 1942.
Sigríður, f. 28. júlí 1948.
Anna Svala, f. 3. janúar 1955.
Haraldur, f. 24. júlí 1956.
Svava Björk, f. 7. ágúst 1959.
Fósturdóttir Hlöðvers og dóttir Sigríðar er Ágústa Guðmundsdóttir, f. 5. janúar 1936, kona Guðna Pálssonar frá Þingholti. Faðir hennar var Guðmundur Óskar Ólafsson Lárussonar, f. 14. júní 1914, d. 18. mars 1981.
Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.
Hlöðver er maður í hærra lagi og samsvarar sér vel, en fremur magur hin síðari ár vegna lasleika. Hann er dökkhærður (skol), en ljós í andliti, fríður í andliti og sviphreinn, léttur á velli og skapléttur, prúður og stilltur í umgengni, broshýr og kátur. Hann er úræðagóður og prýðis félagi, söngvinn og veitull, góður heim að sækja.
Hlöðver hefir aðallega verið til lundaveiða í Bjarnarey, en var þó líka í Álsey til viðlegu. Hann hefir verið mjög mikið við alls konar fuglaveiðar og bjarggöngur og getið sér góðan orðstír meðfélaga sinna, sem duglegur í hvívetna við bjarggöngur og prýðilega góður veiðimaður á lunda og sigmaður.
Bjargmaður er hann ágætur, snar og gætinn og hvarvetna afbragðs liðsmaður. Hann hefir verið mjög við eggja- og fuglatekju, ágætur veiðimaður og talinn í fremstu röð nútíma veiðimanna.
Í sambandi við veru Hlöðvers í Álsey, má geta þess að kona hans Sigríður lá við í eynni með veiðimönnunum. Vann hún að matargerðinni og var þetta þægilegt og vel þegið af veiðimönnunum. En slíkar kvenmanns-viðlegur eru nýtt fyrirbrigði í sögu úteyjaviðlegu, en hefir þó ekki náð neinni útbreiðslu þrátt fyrir þægilegheitin við húslega hjálp þeirra.
Lífsstarf hans hefir verið sjómennska, verslunarstörf og nú bankaritari hér í bæ. Hann er vellátinn og vinmargur sem hann á ættir til og drengur hinn besti. Hann er Bjarnareyingur af lífi og sál, þótt víðar hafi hann verið.
Hann er ritari Bjargveiðimannafélagsins.
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestm nnaeyja 2012.
- Garður.is.
- Íslendingabók.is.
- Magnús Bjarnason.
- Manntöl.