Blik 1965/Árni Árnason, símritari, - Minningarorð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. desember 2012 kl. 22:00 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. desember 2012 kl. 22:00 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Árni Árnason,
símritari


MINNINGARORÐ


Árni Árnason, símritari.


Hinn 13. október 1962 lézt Árni Árnason, símritari, eftir langvarandi veikindi. Skarð er fyrir skildi í bæjarfélaginu, er þessi trausti og hugljúfi sonur Eyja er fallinn frá. Það finnst okkur a.m.k., sem með honum unnu að þeim menningarmálum hér í bæ, sem byggðarsafnsnefnd bæjarins hefur til þessa haft á prjónunum og beitt sér fyrir, en þar var Árni ötull og áhugasamur starfskraftur frá upphafi eða um tug ára.
Enginn hefur betur til þess unnið en hann, þó að margir hafi það gert, að ársritið okkar Blik geymi nokkur minningarorð um Árna, störf hans í þágu lífs og starfs Eyjamanna bæði á landi og sjó.
Árni Árnason, símritari, fæddist að Búastöðum 19. marz 1901. Hann var dóttursonur hreppstjórahjónanna þar, Lárusar Jónssonar og Kristínar Gísladóttur, hinna mætustu hjóna, sem margt gott dugnaðarfólk í Eyjum og utan þeirra er sprottið af. Margt það fólk ber einkenni þeirra hjóna um gáfnafar og manndómsblæ. Svo var um Árna Árnason.
Jóhanna Lárusdóttir, systir Gísla gullsmiðs í Stakkagerði, — bónda þar og útgerðarmanns, fræðimanns og bindindisfrömuðar hér í bæ, — og þeirra merku systkina, giftist Árna Árnasyni frá Vilborgarstöðum 29. júní 1893.
Árni, faðir Árna símritara, var alinn upp á einu myndarlegasta og mennilegasta heimili hér á Heimaey á sínum tíma, heimili hinna hreppstjórahjónanna hér í byggð, Árna Einarssonar á Vilborgarstöðum og konu hans Guðfinnu Jónsdóttur prests Austmanns að Ofanleiti.
Allt hefur sínar orsakir. Einnig það, að Árni á Vilborgarstöðum, faðir Árna símritara, hlaut uppeldi sitt hjá þessum mætu hjónum.


Afinn og amman

Árið 1874, 13. marz, fórst sexæringurinn Gaukur við Klettsnef. Formaður á bátnum var einn af bændunum á Vilborgarstöðum, Sighvatur Sigurðsson, en þar var margbýli, því að Vilborgarstaðajarðirnar voru 8 að tölu. Einn af hásetunum á Gauk var Árni bóndi Árnason, einn af Vilborgarstaðabændunum, föðurafi Árna símritara. Kona hans hét Vigdís Jónsdóttir. Ekkjan Vigdís Jónsdóttir hafði misst mann sinn frá 4 ungum börnum. Systurnar voru þrjár: Jóhanna, Ingveldur og Hilda. Ein dóttir¹) Vigdísar ekkju var ekki dóttir Árna bónda Árnasonar. Hún hafði átt hana áður en hún giftist með Árna skálda Níelssyni. Árni sonur hennar var á 4. árinu (f. 14/7 1870) er faðirinn drukknaði.
Hagur ekkjunnar var mjög bágborinn. Hún stóð í rauninni uppi á miðjum vetri bjargarvana með 4 börn í ómegð. Hreppstjórahjónin á Vilborgarstöðum fundu til með sambýliskonu sinni og buðust til að taka Árna litla í fóstur. Á síðustu áratugum 19. aldarinnar var framinn hér á landi mikill áróður fyrir flutningi fólks til Vesturheims. Los komst á hugi margra manna, sem hugðu á flutning til Ameríku. Fátækt og vonleysi, einokunarverzlun, úrræðaleysi og illt árferði olli mestu um fólksflutningana vestur. Margir yngri mennirnir hugðu á staðfestu hér heima um kvonfang en freista síðan gæfunnar í Vesturheimi, búsetja sig þar og skapa sér framtíð.
Árið 1877 komu mormónatrúboðar til Vestmannaeyja. Á meðal þeirra var Jón Eyvindsson mormónatrúboði, er síðar varð mormónabiskup í Utah. Létu þá nokkrir skírast til hinnar mormónsku trúar. Meðal þeirra var ekkja Árna bónda Árnasonar á Vilborgarstöðum, Vigdís Jónsdóttir, og dætur hennar allar. Vigdís Jónsdóttir trúlofaðist Jóni Eyvindssyni, mormónatrúboða, og fór með honum til Ameríku með dætur sínar. Þrátt fyrir skipanir, bænir og fortölur, fékkst drengurinn Árni Árnason, sonur Vigdísar og fóstursonur hreppstjórahjónanna, þá 7 ára, ekki með nokkru móti til að fara vestur með móður sinni. Enda vildu fósturforeldrar hans ekki sleppa honum.


Faðirinn og móðirin

Árið 1879 komu enn mormónskir trúboðar til Eyja. Með þeim komu ströng fyrirmæli til Árna hreppstjóra Einarssonar að senda drenginn tafarlaust með þeim til Ameríku. — Þar sem mormónska kirkjuvaldið stóð bak við fyrirmæli þessi, þorði Árni hreppstjóri ekki að þverskallast við fyrirmælunum. Fór því Árni litli með mormónunum burt úr Eyjum, þrátt fyrir blíðar bænir hans, Guðfinnu fóstru hans og fleiri mætra manna.
Þegar mormónarnir komu til Reykjavíkur héðan frá Eyjum, voru þeir allir fluttir inn að Elliðaám, þar sem þeir bjuggu í tjöldum og biðu Ameríkuskipsins.
Líðan litla Árna var mjög slæm hjá Ameríkuförunum, en tár og söknuður hins 9 ára gamla drengs hafði engin áhrif á hjartataugar hinna heitttrúuðu.
Árni litli hugsaði ráð sitt gaumgæfilega. Hann svaf í tjaldi með tveim mormónum, sem gæta skyldu hans. Eina nóttina þóttist hann sofa en hélt sér vakandi til þess að kanna hversu fast þeir svæfu hinir réttlátu gæzlumenn. Drengur uppgötvaði, að þeir hrutu fast, þegar nálgaðist lágnættið. Hann svaf fyrir ofan annan gæzlumanninn í tjaldinu. Tjaldhæll var við miðju á flatsæng þeirra, en undir tjaldskörina hugðist hann skríða, þegar hann hefði undirbúið flóttann.
Næsta kvöld var blíðskaparveður, þegar þeir lögðust til hvíldar í tjaldinu. Drengnum hafði tekizt að losa um tjaldhælinn, svo að hann gæti lyft upp tjaldskörinni og velt sér út undan henni, þegar til kæmi. Fötin sín hafði hann fyrir ofan sig í flatsænginni.
Undir lágnættið sváfu mormónarnir fast, eins og vænta mátti af svo réttlátum mönnum og þá fannst Árna litla stundin komin. Hann lyfti upp tjaldskörinni, og það tókst vel, því að hællinn stóð laus í holu sinni. Svo velti hann sér fáklæddur eins og hann var út í næturloftið, dró síðan fötin til sín undan tjaldskörinni, klæddi sig í skyndi og tók síðan til fótanna allt hvað af tók. Hroturnar drundu í tjöldunum og þúfutittlingur tísti í móanum, seinni en bræður hans til að taka sér miðnæturblundinn, eins og hann hefði haft hugboð um flótta drengsins og fýsti að vita hvernig tiltækist með fyrsta sprettinn.
Árni litli hljóp sem fætur toguðu yfir hollt og hæðir, móa og mela áleiðis til bæjarins. Snemma um morguninn settist hann aðframkominn af þreytu og svefnleysi á tröppur á húsi einu í Reykjavík og sofnaði.
Þegar á morguninn leið, fann stúlka nokkur drenginn sofandi þarna á tröppunum. Hún vakti drenginn og leiddi hann inn í húsið. Þetta reyndist vera íbúðarhús biskupsins yfir Íslandi, hr. Péturs Péturssonar, og stúlkan, sem fann drenginn á tröppunum, var Þóra biskupsdóttir. Að hvatningu biskups sagði Eyjadrengurinn honum hvernig á ferðum hans stóð. Þá varð biskupi að orði:
„Guð hefur leitt þig til húss míns, drengur minn, og ég mun fúslega hjálpa þér með góðum ráðum.“
Þarna dvaldist svo Árni litli um tíma, meðan biskup vann að málum hans í samráði við landshöfðingja. Ekki er vitað, hvað fram fór þar að tjaldabaki, en þegar skipið fór vestur með mormónana, varð Árni litli eftir hjá biskupi. Bauð hann þá drengnum að taka hann í fóstur, ef fólk hans í Eyjum samþykkti það. Drengurinn óskaði eindregið að mega hverfa heim til fósturforeldra sinna í Eyjum.
Biskupinn skrifaði síðan Árna hreppstjóra, fósturföður drengsins, bréf og tjáði honum allt, sem gerzt hafði um mál drengsins gagnvart mormónakirkjunni, gerðir hans og landshöfðingja.
Árni litli fékk ríflegan farareyri til Eyja og bað biskup honum allrar blessunar. Þóra biskupsdóttir gaf Eyjadrengnum að skilnaði fagra íslenzka biblíu áritaða af biskupi, sem kvaddi Árna litla á þessa lund:
Guð leiddi okkur saman á undursamlegan hátt, og hefði ég kosið að mega ala önn fyrir þér í lífinu, en guð veri með þér, vinur minn, hér eftir sem hingað til. Vona ég og bið guð, að þú verðir alla tíð jafnstöðugur í trú þinni á Guð og kærleikann til fósturforeldra þinna, sem þú hefur nú sýnt og reynzt, ekki eldri en þú ert.
Þannig lauk þvingunarvaldi mormónsku kirkjunnar gagnvart Árna Árnasyni frá Vilborgarstöðum.
Biblíuna geymdi hann síðan ávallt sem dýrmætasta helgidóm til minningar um vini sína og hjálparhellur í hinum óvenjulegu erfiðleikum.

ctr

Opna í biblíunni, sem Þóra biskupsdóttir gaf Árna Árnasyni
frá Vilborgarstöðum, Eyjadrengnum, sem strauk frá mormónunum.
Lesari: Reyndu að lesa blaðsíðurnar með stœkkunargleri.

Biblían er nú í geymslu Byggðarsafns Vestmannaeyja.
Árin liðu.
Fóstursonur hreppstjórahjónanna á Vilborgarstöðum var nú orðinn tvítugur piltur og trúlofaður einni heimasætunni á Búastöðum, Jóhönnu Lárusdóttur.
Eftir langa umhugsun og bollaleggingar um framtíðina afréðu þau hin heitbundnu að flytja til Ameríku og búsetja sig þar, eins og svo margir Vestmannaeyingar höfðu gert á undanförnum árum. Mörgum þeirra hafði farnazt vel, eftir því sem þeir tjáðu vinum og frændfólki í bréfum.
Árið 1891 hleypti Árni Árnason, unnusti hreppstjóradótturinnar á Búastöðum, heimdraganum og fór alfarinn til Vesturheims. Ráð var fyrir gert, að Jóhanna unnusta hans kæmi árið eftir.
Þegar Árni fór vestur, hafði unnusta hans alið honum dóttur, sem aðeins var nokkurra mánaða gömul, þegar faðirinn yfirgaf þær mæðgur. Áður hafði barnið hlotið skírn og var skírt Ástrós.
Vigdís Jónsdóttir, móðir Árna á Vilborgarstöðum, hafði eignazt son með seinni manni sínum, Jóni Eyvindssyni, mormónatrúboða. Sá hlaut nafnið Eyvindur eftir föðurafa sínum. Hann fór vestur með mormónahópnum. Árið 1892 fór svo Jóhanna Lárusdóttir vestur yfir haf til unnusta síns, Árna Árnasonar, og hafði auðvitað litlu Ástrós með sér. Þau Árni og Jóhanna giftust síðan vestra 29. júní 1893, eins og áður segir. Litlu stúlkuna sína misstu þau árið eftir. Hún lézt í Spanish Fork rúmlega þriggja ára gömul 1894.
Ungu hjónin dvöldust lengst af í Utah í námunda við móður Árna, Vigdísi Jónsdóttur, og systurnar.
Smám saman tóku mormónarnir að sverfa fast að ungu hjónunum að taka mormónatrú, láta skírast. Það vildu þau með engu móti, Árni og Jóhanna.
Árið 1895, 9. febrúar, hlekktist sexæringnum Hannibal á í hafnarmynninu (Leiðinni). Tveir menn drukknuðu af bátnum. Annar þeirra var Lárus Jónsson, hreppstjóri á Búastöðum, faðir Jóhönnu.
Þegar ungu hjónin, Árni og Jóhanna, fréttu um slys þetta, greip þau brennandi heimþrá. Áhyggjur af móðurinni og tengdamóður, Kristínu Gísladóttur, hugsunin um hana, sorg hennar og áfall, leitaði mjög á ungu hjónin vestra. Ásókn mormónanna annars vegar og áhyggjur af heimilinu heima hins vegar varð þess valdandi, að þau afréðu að hverfa aftur heim til Eyja.
Þau Árni og Jóhanna fluttu heim árið 1898 og settust þá að á Búastöðum hjá Kristínu og börnum hennar. Þar bjuggu þau síðan þrjú ár.
Árið 1901 byggðu hjónin sér lítið íbúðarhús í nánd við Stakkagerði, þar sem Gísli bróðir Jóhönnu bjó. Það hús stendur enn, Grund við Kirkjuveg (nr. 31).
Þegar hjónin fluttu frá Búastöðum í nýja húsið sitt, var Árni sonur þeirra missirisgamall. Síðan ólst hann þarna upp hjá foreldrum sínum. Árni faðir hans stundaði sjó lengstan tíma ársins, en nokkurn hluta sumarsins bjargveiðar og var um árabil einn hinn slyngasti og kunnasti bjargveiðimaður Vestmannaeyja, - Árni á Grund. Hann lézt 18. jan. 1924.
Árni yngri á Grund, sonurinn, sem oftast mun hafa verið nefndur með gælunafninu Addi á Grund, til aðgreiningar frá föður sínum, tók snemma þátt í lífsbaráttu foreldra sinna, eins og allur þorri barna og unglinga hér á uppvaxtarárunum. Börnin voru notuð til þess að færa mat á vinnustað, reyta kálgarða, breiða fisk og taka saman á stakkstæðum, reyta fugl á bjargveiðitímunum og létta undir við beitningu línubjóðsins, sérstaklega að vorinu og á sumrin.


Símritari og fræðimaður

Þessi orð um uppruna Árna Árnason, símritara, sanna okkur, hversu ramar taugar eða ættarrætur hnýttu hann Vestmannaeyjabyggð, fólkinu þar, félagslífi, atvinnulífi og sögu. Þessi traustu tengsl fann hann mæta vel í sálarlífi sínu og veitti sú tilfinning honum mikla ánægju. Árni Árnason, símritari, ól þannig með sér heilbrigðar tilfinningar fyrir framförum í Eyjum, metnaði fólksins og sóma.
Þannig fann hann til og hugsaði t.d. sem ötull og fórnfús starfsmaður í byggðarsafnsnefnd Vestmannaeyja.
Á veturna gekk Árni í barnaskólann frá 10—14 ára aldri og stóð sig þar mjög vel, því að hann hafði farsælar og góðar námsgáfur. Hann lauk fullnaðarprófi barnafræðslunnar hjá Birni H. Jónssyni, skólastjóra, í febrúarlokin 1915 með aðaleinkunn 7.19, en hæst var þá gefið 8. Einkunnina 8 hlaut hann í 5 námsgreinum af 8, er börn þá tóku fullnaðarpróf í.
Árið 1920, er Árni símritari var 19 ára, réðist hann starfsmaður hjá landssímanum í Eyjum. Næstu tvö árin stundaði hann nám í símritun, ef til vill mest hjá A.H. Petersen, símstöðvarstjóra hér, og varð síðan fastur starfsmaður ritsímans hér í bæ 1921. Þar hafði hann valið sér lífsstarf og búið sig undir það. Símritarastarfið hafði hann síðan hér á hendi samfleytt í 40 ár eða til ársins 1961, en þá var heilsu hans tekið mjög að hraka.
Í símritarastarfinu innti Árni Árnason af hendi mikið og markvert björgunarstarf, sem oft var einvörðungu árangur af þrotlausri vinnu — vaktastörfum langt umfram skylduvinnu á símstöðinni.
Svo samvizkusamur og skyldurækinn var Árni Árnason gagnvart sjómönnum í Vestmannaeyjum eða skipum og bátum á hafinu fjær og nær Eyjum, að hann gat helzt ekki slitið sig frá starfinu, hefði hann grun um, að einhver þyrfti hans stuðnings við, sem vildi ná til hafnar í vondu veðri eða eitthvað bjátaði á, t.d. vélarbilun, er var svo mjög algeng á vissu skeiði vélbátaútvegsins. Um margra ára skeið eftir að vélbátaútvegurinn hófst, var enginn loftskeytastöð í Eyjum. Ef bát vantaði, var eina leiðin sú, að arka norður á Eiði eða vestur á Hamar með lukt og „morsa“ á togara, er „lágu undir“, og gefa þeim til kynna vöntun á bátnum eða bátunum og fá þá til að leita.
Þannig varð þá lífi margs sjómannsins hér bjargað. Sá maðurinn, er lengst starfaði hér með Árna Árnasyni, símritara, að slíkum björgunarstörfum, er einnig fallinn frá. Það var Jón heitinn Hinriksson, kaupfélagsstjóri, er þá var hér í fararbroddi björgunarmálanna. Marga óveðursnóttina röltu þessir tveir menn á útjöðrum Heimaeyjar til þess að reyna að ná sambandi við togara og fá þá til að leita að bátum, sem ekki höfðu skilað sér til hafnar á eðlilegum tíma. Hér þurfti oft skjótra ráða við og snjöll úrræði. Þau fundu þeir og tjáðu togurum með ljósum, hvað gera þyrfti. Þá reyndi fyrst á kunnáttu Árna Árnasonar og þrautsegju. Mörg dæmi finnast þessa:
V/b Sigrún er á leið til Eyja frá Reykjavík. Löngu var liðinn sá tími, er hún var væntanleg heim í Höfn. Meginhluta nætur vann Árni Árnason að því með ljósmerkjum að fá togara eða annað skip til þess að leita bátsins. Loks fannst Sigrún vestur í hafi með bilaða vél, ljóslaus í vonzkuveðri.
Eitt sinn fékk Árni Árnason 5 togara, er lágu undir Eiðinu, til þess að létta akkerum og leita að v/b Goðafoss. Þeir leituðu langt fram á nótt og stóðu alltaf í ljósasambandi, ef svo mætti kalla það, við Árna, meðan á leitinni stóð. Hún bar engan árangur. Báturinn fórst. Sama sagan endurtók sig, þegar v/b Mínerva fórst. Tveim sólarhringum síðar var tilkynnt frá bæ fyrir ofan Hraun, að ljós sæist nálægt Smáeyjum. Þá hljóp Árni af stað frá ritsímanum með ljósmerkjaluktina sína. Hann fékk togara til að leita. Ljósið reyndist vera á skútu, sem þar „hélt sjó“.
Þegar v/b Sigríður brotnaði við Hamarinn, var Árni látinn starfa að því alla þá nótt í kafsjó að fá skip til að leita bátsins.
Menn óttuðust, að v/b Freyja væri að reka upp að Suðurströndinni, upp í brimgarðinn þar. Með ljósmerkjum fékk Árni Árnason enska togarann „Embassy“ til þess að leita bátsins og hafa hraðan á. Togarinn fór að leita og fann bátinn. Þá mátti ekki tæpara standa. Einn mann hafði tekið út af bátnum og hann drukknað. Að öðru leyti varð skipshöfninni bjargað á síðustu stundu og svo bátnum.
Mörg fleiri dæmi um gifturíkan árangur, já, blessun, hef ég heyrt frá starfi eða um störf Árna Árnasonar, símritara. Enginn mun hafa grætt meir fjárhagslega á þessum störfum hans en Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja. Ég læt lesendur mína um það að hugleiða blessun og gæfu fjölmargra sjómannaheimila af starfi og fórnfýsi þessa manns í símritarastarfinu, meðan engin var loftskeytastöðin í Eyjum. Sendistöð var tekin þar í notkun 1. marz 1921. Og Vestmannaeyjaradio (einkennisstafir P.F.V.) árið eftir eða 1922.
En þetta gagnmerka framtak í tækni leiddi það ekki af sér, að Árni slyppi við að fara um yztu jaðra Heimaeyjar í vondum veðrum og morsa til skipa beiðni um aðstoð við báta og menn, af því að allur fjöldi fiskiskipanna þá hafði ekki móttökutæki og voru því í þeim efnum enn utan við tækni tilverunnar, ef svo mætti orða það. Þess vegna varð Árni Árnason nokkur ár enn að tala við skipin með ljósmerkjum og biðja þau hjálpar — eða aðstoðar, þegar óhöppin steðjuðu að.
Átthagaást Árna símritara var einlæg og virk. Fáir reyndust honum fróðari um ýmsa þætti í sögu byggðarlagsins, sérstaklega í ættfræði og um líf einstaklinga og atvinnuhætti á síðari hluta síðustu aldar og það sem af er þessari. Og það sem meira var. Árni hafði hug og dug til þess að skrá mikið af þeim fróðleik seinni tíma kynslóðum til fræðslu og hvatningar með þeirri von og ósk að spakmæli sagnfræðingsins sannaðist á sem flestu ungu Eyjafólki, að „minning feðranna er framhvöt niðjanna“. Margan slíkan skráðan fróðleik átti Árni í fórum sínum, er hann féll frá.
Ráðandi menn í kaupstaðnum lærðu á seinni árum að meta fróðleik Árna Árnasonar og sögulegar heimildir, og mun hann hafa notið nokkurs styrks úr bæjarsjóði til ritstarfa, eftir að heilsu hans tók að hraka og hann gat ekki lengur innt af hendi skyldustörf sín hjá Ritsímanum.
Árni Árnason kom í verk að skrá mikinn sögulegan fróðleik síðustu æviárin, a.m.k. að meira eða minna leyti, svo að vinnandi vegur er að búa það margt undir prentun með velvilja og fórnfúsum hug. Ætlan Árna og þess, sem þetta ritar var það, að Bliki entist aldur og efnalegt megin til að geta flutt almenningi hér megnið af þeim fróðleik, sem hann hafði skráð.
Á yngri árum var Árni Árnason virkur þátttakandi í íþróttalífi byggðarlagsins, og þótti rúm hans jafnan vel skipað í kappliðum Eyjadrengja. Þannig var Árni t.d. í knattspyrnuliðinu fræga, sem Eyjamenn sendu til Reykjavíkur 1920 til þess að keppa við Val. Sá kappleikur vakti mikla athygli á sínum tíma og snerpa, leikni og harka hinna ungu Eyjamanna kom hinum reyndu og þjálfuðu Valsmönnum á óvart, svo að „heimsóknin“ vakti umtal og ávann drengjum úr Eyjum traust og álit. Þær íþróttir, er Árni lagði mesta rækt við á yngri árum, voru knattspyrna, spjótkast og spretthlaup.
Um nokkurt skeið tók Árni Árnason virkan þátt í leiklistarstarfi í bænum og unni leiklistarstarfi Leikfélags Vestmannaeyja og Kvenfélagsins Líknar af heilum hug og aflaði mikils fróðleiks um öll þau störf frá upphafi, mest í viðtölum og frásögnum fólks, sem fyrrum hafði verið með í því merka menningarstarfi. Það voru Árna og fleirum mikil og sár vonbrigði, er það uppgötvaðist, að hvergi fundust skráðar heimildir svo sem fundargjörðarbækur um starfsemi leiklistarfólks hér í Eyjum um aldarskeið.
Árni Árnason var gæddur hljómlistargáfu í ríkum mæli og var félagi og starfskraftur góður í lúðrasveit hér um skeið. Sjálfur lék hann á önnur hljófæri en horn, t.d. harmóniku og var eftirsóttur harmonikuleikari hér áður fyrr, þegar enginn var kostur hljómsveita til að leika fyrir dansi.
Þá var það flestum hér kunnugt, að Árni Árnason var bjargveiðimaður ágætur. Ungur að árum fór hann í Úteyjar með föður sínum og lærði af honum bjargveiðimannalistirnar. Flest öll sumur mun Árni hafa legið við í Úteyjum einhvern tíma við lundaveiðar, oftast í Álsey, en einnig um tíma í Suðurey. Hann þótti þar skemmtilegur og góður félagi, eins og alls staðar annars staðar, glaður, hnyttinn, gamansamur, en græskulaus og hagmæltur, þegar hann vildi það við hafa. Hann gerði oft vísur til félaga sinna eða samstarfsfólks og vafði stundum inn í þær frásagnir um broslega viðburði:

Ég fór á trillu með „Trana“
túr einn í Elliðaey
af góðum, gömlum vana
með grogg og væna mey;
ég vissi að Tóti vinur
var alveg orðinn þurr
og Pétur líka linur
og lyst hafði ekki á „Spur“.

Símastúlkurnar fá vísur (VM = símakerfið í Vestmannaeyjum).

VM hefur ávallt átt
ástarþekka svanna
gamall margur dregur drátt
úr djúpi minninganna.
Nýjar koma helzt um haust,
hinar bauga prýða;
þessu veldur vafalaust,
viðmót þeirra og blíða.

Til Jónasar Sigurðssonar frá Skuld, sem var vökumaður Vestmannaeyjaradíós í 18 ár:

Fáum öðrum ertu líkur
í orði, hug og sjón,
gleðihrókur gæfuríkur,
gjörir engum tjón.
Aldrei varstu meðalmaður,
mæddur fáa stund;
sigurviss og sigurglaður,
sóknarhörð er lund;
stæltur, ör og starfahraður,
styrk er öðlings mund;
flestum betri samstarfsmaður
símans ... Addi á Grund.

Og svo minnist Árni stundum í ljóði yndisstundanna í Úteyjum:

Þá lagt skal upp til lunda
í langa veiðiför
til frjálsra fjallastunda,
er fleyi ýtt úr vör.
Oss útilífið lokkar,
þá ljómar ey og sær,
og innst í huga okkar
er endurminning kær.


Þar er oft kátt í kofa
um kvöld við sólarlag,
þá lífsins sorgir sofa
og sveinar taka lag.
Þá streymir hlýja um hjarta
við hægan öldunið,
er haf og himinn skarta
í hljóðrar nætur frið.

Við látum þetta nægja hér, en munum birta meira af ljóðum Árna Árnasonar annars staðar í ritinu.

Byggðarsafnsnefnd Vestmannaeyja varð til 1952. Hún hefur starfað ötullt síðan. Hún var, þar til Á.Á. féll frá, skipuð 5 mönnum. Vestmanneyingafélagið Heimaklettur átti frá upphafi tvo fulltrúa í nefndinni. Annar þeirra var Árni Árnason. Með sanni má segja, að þar var réttur maður á réttum stað. Árni starfaði þar af miklum áhuga, fórnfýsi og getu, meðan heilsan leyfði, glöggur á söguleg gildi og menn, þegar t.d. unnið var að ljósmyndaskýringum. Byggðarsafn Vestmannaeyja var Árna metnaðarmál samtvinnað hlýhug hans eða ást á menningu og sóma byggðarlagsins og góðvild og virðingu fyrir því fólki, er hér býr. Ekkert særði meir tilfinningalíf Árna en það, ef hann varð var við hirðuleysi eða tómlæti ráðandi manna hér um þessi menningarmál öll.
Við, sem vinnum enn í Byggðarsafnsnefndinni, söknum vinar í stað og verlega góðs og hugljúfs starfskrafts, þegar Árni Árnason er horfinn okkur.

Árni Árnason var félagslyndur maður í eðli sínu og skyldurækinn í félagsskap. Hann var félagsmaður ýmissa félaga í þessum bæ. Á sínum tíma beitti hann sér fyrir stofnun félags bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum og var formaður þess frá stofnun. Hann mun hafa lokið við að skrifa sögu fuglaveiða í Eyjum, þegar hann lézt.
Þá var Á.Á. ritari í Vestmannaeyingafélaginu Heimakletti og vann þar að merku menningarstarfi um sinn, meðan það félag lét á sér kræla í þessum bæ.
Árið 1926, 17. sept., kvæntist Árni Árnason Katrínu Árnadóttur Filippussonar í Ásgarði, og lifir hún mann sinn.
Þau eignuðust eina dóttur barna, Hildu, sem búsett er á Akureyri, gift Herði Svanbergssyni, yfirprentara í Prentverki Odds Björnssonar, hinnar kunnu prentsmiðju í höfuðstað Norðurlands. Þessi mætu hjón ólu upp tvö börn: Þórarinn Guðmundsson, frænda Katrínar, og dótturdóttur sína, Katrínu Gunnarsdóttur.
Árið 1956 kenndi Árni Árnason þess sjúkdóms, sem að lokum dró hann til bana. Í jan. 1957 gekk hann undir ítarlega læknisrannsókn og naut ráða sérfræðinga. Lítinn árangur báru þær læknisaðgerðir. Tók þá Árni að örvænta um framtíðina. Eitt af því sem þrengdi að í heilsuleysinu var hugsunin um það, hversu litlu hann til þessa hafði fengið áorkað að skrá eitthvað af þeim mikla fróðleik um Eyjar og fólk þar, er hann átti í minni sínu og lausum heimildum. Honum fundust veikindi hans, ekki eldri en hann var, leiða til skipbrots í vissum skilningi í lífi hans. Hann orti:

Það er breyting orðin á
ævigöngu minni;
útskúfaður flestu frá,
fjærst í þyrpingunni.

Hann, sem einskis æskti fremur en að halda hvarvetna velli, standa hvarvetna á sporði öðrum í daglegum skyldustörfum og hafa þar að auki eitthvað til brunns að bera öðrum til fræðslu og menningar, varð nú þess meðvitandi, að hann fékk ekki uppfylltar óskir sínar í þessum efnum sökum heilsubrests, var dæmdur úr leik, útskúfaður, ýtt til hliðar og staðsettur fjærst í fylkingunni, fannst honum.
En allt þetta lagaðist um skeið. Heilsan styrktist um stund, og vinir Árna beittu sér fyrir því, að hann fékk mörgu áorkað og komið í verk um skrásetningu eins og annars, er hann hafði hug á að skrifa. Þessar gjörðir styrktu sálarlífið og efldu líkamsstyrkinn. Síðustu árin, sem Árni lifði, kom hann alveg ótrúlega miklu í verk um skrásetningu margs konar fróðleiks, er hann bjó yfir. Það er skylda okkar vina Árna, sem hvöttu hann mest og bezt til þessara dáða, að vinna að því af fremsta megni, að sem mest af því komist á prent meðan okkur endist aldur. Það starf mun honum hugþekkast.

BJARNAREYJARLJÓÐ
(Lag: Hreðavatnsvalsinn).
Hátignarfrjóland fríða,
friðsæla vanadís,
með skrúðgræna brekku blíða,
blómanna Paradís.
Hún glóir í glitvefsklæðum
og gullhlað um enni ber;
í kvöldroðans kynjaglæðum
hún kallar mig að sér.
Í Bjarnarey gisti og böl af mér hristi
um bjartan sumardag;
eykur yndishag.
auðugt vængjaslag.
Útsýni fegra, allt stórglæsilegra
ég aldrei fann um kring, —
fegri fjallahring, —
fyllri algleyming.
Ást-söngur hljómar með yndi og ómar
frá eyjunnar fuglakór.
Blóm dansa á hillum, bekkjum og syllum!
brunar svo undir sjór.
Lognsærinn glitrar, í tíbránni titrar
hver tindur Eyjalands, —
heillar huga manns
Heimeyjarglans.
Árni Árnason.
ÁLSEYJARLJÓÐ
(Lag: Ennþá er fagurt til fjalla).
Í vestrinu hátt móti hæðum
heillar mig draumfögur sýn:
Álsey í sefgrænum sænum
og sindrandi kvöldroðalín.
Og draumsýnin fagra mig dregur
sem drjúpandi ungmeyjartár;
þar hefur og verið minn vegur
og velferð um daga og ár.
Ég hleyp þar um bríkur og bekki,
bringi og rótfúnar tær, —
flughratt um fláka og kekki,
flesin og brekkurnar tvær ¹.
Hér finn ég þann unað og yndi
og annað, er veitir mér þor; —
fegurð og lífið í lyndi
leikandi um sólbjartast vor.

¹ Bólbrekka og Lækjarbrekka.

Árni Árnason.


Til Jónasar í Skuld, samstarfsmanns á Símstöðinni:

Þú ert karla klókastur,
klækjarefur magnaður,
fiskimanna fræknastur
fullhugi og sigmaður.

Sent Margréti Ólafsdóttur í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, er hún var 100 ára (1/6 1954):

Þú hefur átt við tímann töfl,
teflt í 100 vetur.
Þú hefur strítt við ótal öfl
öðrum mörgum betur.
Á.Á.

¹) Það var Jóhanna, f. 1864, d. 7. febrúar 1938.


ctr