Saga Vestmannaeyja I./ XIII. Herfylking Vestmannaeyja, 4. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. ágúst 2011 kl. 18:13 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. ágúst 2011 kl. 18:13 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit




Herfylking Vestmannaeyja 1858.


Herfylking Vestmannaeyja var fullskipuð í október 1858 og voru skráðir í hana nær allir karlmenn vopnfærir á aldrinum 18—42 ára. Frá 1. október þetta ár var Herfylkingin, er hafði verið léttbúin fótgönguliðssveit, gerð að venjulegri fótgönguliðssveit (Linie Infanteri), samsvarandi heræfingarreglunum dönsku frá 1846. Flokkarnir voru 4 eins og áður, en nú var náð því marki, að 15 manns voru í hverjum flokki og fylkt í 3 raðir. Við hvern flokk voru auk þess 3 varaliðsmenn og 1 unglingur til að gefa merki. Með þessari breytingu var herfylkingin nú skipuð sem hér segir:

1. flokkur.
Flokksforingi: Jón Salómonsen (sami og áður).
1. deild 2. deild
1. Ingimundur Jónsson undirforingi (korporal) 6. Þórður Sveinbjörnsson
2. Brynjólfur Halldórsson 7. Sigurður Erlendsson
3. Bjarni Bjarnason 8. Guðmundur Pétursson
4. Jón Steinmóðsson 9. Sæmundur Ólafsson
5. Guðmundur Ólafsson 10. Guðmundur Árnason


3. deild
11. Sveinn Þórðarson undirforingi
12. Eyjólfur Guðmundsson
13. Guðmundur Guðmundsson
14. Ísak Jónsson
15. Magnús Gíslason


Vopnasmiður flokksins var Jón Salómonsen.
Varaliðsmenn voru þessir: Stefán Austmann, Jón Pétursson og Vigfús Jónsson.
Breytingin á flokknum er þessi: Jón Guðmundsson og Einar Guðmundsson eru báðir látnir. Við hafa bætzt: Sveinn Þórðarson á Löndum, undirforingi, áður í 2. flokki, Magnús Gíslason, áður í drengjasveitinni, og Sigurður Erlendsson, 2. deild nr. 7, vinnumaður á Ofanleiti, d. 1876.
Stefán Austmann, sonur séra Jóns Austmanns á Ofanleiti, bóndi í Draumbæ. Hann var kvæntur Önnu Benediktsdóttur ljósmóður, fyrsti maður hennar, en Anna var þrígift. Sonur þeirra og eina barn Önnu, er upp komst, var Jóhann Lárus Austmann, dó ókv. og barnl. Stefán Austmann drukknaði á sexæringnum Gauk 1874. Þau Stefán og Anna bjuggu í Draumbæ.
Jón Pétursson, annar varaliðsmaður, þurrabúðarmaður í Elínarhúsi, d. 1868, kv. Vilborgu Þórðardóttur. Þau áttu 3 dætur og 2 sonu. Vilborg giftist síðar Sigurði Árnasyni í Elínarhúsi og fluttust þau hjón til Ameríku ásamt börnum Vilborgar af fyrra hjónabandi. Annar sona hennar og Jóns Péturssonar, Jóhann, átti Sólrúnu Guðmundsdóttur Guðmundssonar frá Vestmannaeyjum og bjuggu þau í Tabor í Alberta í Kanada. Ein dætranna, Soffía, giftist Pétri Valgarðssyni úr Reykjavík. Bjuggu þau einnig í Alberta.
Vigfús Jónsson þurrabúðarmaður í Hólshúsi, drukknaði á þilskipinu Helgu frá Vestmannaeyjum í apríl 1867. Fyrri kona Vigfúsar var Margrét Skúladóttir, er lærði yfirsetukonufræði. Þeirra börn: 1) Markús, fór til Ameríku, kv. Guðríði Wolf frá Litlabæ í eyjum. — 2) Anders tollþjónn í Kaupmannahöfn, átti norska konu. Voru börn þeirra: Vigfús Vigfússon, framkvæmdarstjóri og meðeigandi vátryggingarfélagsins Trolle & Rothe h.f. í Reykjavík, og Margrét, fósturdóttir Ásgeirs kaupmanns Ásgeirssonar frá Ísafirði, gift kaupmanni í London. — 3) Soffía kona Einars Jónssonar kaupmanns í Garðhúsum í Vestmannaeyjum, nú í Reykjavík. Sonur þeirra Axel Einarsson málari. — Síðari kona Vigfúsar í Hólshúsi var Nikólína Ottadóttir hálfsystir Margrétar fyrri konu hans. Móðir þeirra systra var Sigríður Nikulásdóttir, er Sigurður Breiðfjörð skáld gekk að eiga í Vestmannaeyjum 1826. Sigurður Breiðfjörð var þá beykir í Kornhól hjá A. Petræus verzl.stj. Dóttir Sig. Breiðfjörðs og Sigríðar Nikulásdóttur var Andría Kristín, f. 1827, dó ung. — Börn Vigfúsar og Nikólínu: 1) Sigríður, giftist í Reykjavík, og 2) Dagbjartur, er fór til Ameríku og bjó í Manitoba. Fyrri kona hans var Þórdís Þórðardóttir frá Ísafirði og var sonur þeirra Dagbjartur Andrés, er var í her Kanadamanna í heimsstyrjöldinni. Dagbjartur Vigfússon gekk og í Kanadaherinn 1915, en sýktist áður en hann komst til vígstöðvanna.¹⁸)

2. flokkur.

Flokksforingi: Árni Diðriksson (sami og áður).

1. deild 2. deild
1. Þórður Einarsson 6. Sigurður Jónsson
2. Sigurður Jónsson 7. Magnús Magnússon
3. Eyjólfur Hjaltason 8. Guðmundur Þorkelsson
4. Sveinn Sveinsson 9. Árni Sigurðsson
5. Ísleifur Árnason 10. Ólafur Ólafsson


3. deild
11. Hreinn Jónsson
12. Guðmundur Guðmundsson
13. Þorsteinn Jónsson
14. Erlendur Sigurðsson
15. Ólafur Ólafsson


Vopnasmiður: Ólafur Guðmundsson.
Varaliðsmenn: Hannes Gíslason, Eiríkur Eiríksson og Magnús Oddsson.
Sveinn Þórðarson nú undirforingi í 1. flokki.
Við 2. flokk var þessi breyting orðin: Hannes Sæmundsson dáinn, hrapaði eins og áður segir, og Jón Jónsson genginn úr flokknum. Við höfðu bætzt: Guðmundur Þorkelsson, Árni Sigurðsson, Ólafur Ólafsson yngri, áður í drengjasveitinni, og Erlendur Sigurðsson.
8) Guðmundur Þorkelsson vinnumaður á Ofanleiti, seinna bóndi í Háagarði. Fluttist gamall til Kanada. Kona Guðmundar var Margrét Magnúsdóttir. Börn þeirra: 1) Guðrún, átti Guðmund Ísleifsson járnsmið, bjuggu í Háagarði. Eftir lát hans fluttist Guðrún ekkja hans með dóttur þeirra til Kanada. — 2) Magnús í Hlíðarási hér, kv. Guðbjörgu Magnúsdóttur frá Hofsstöðum við Hafnarfjörð. — 3) Halldóra, gift Gunnari Jónssyni, fóru til Kanada. — 4) Vilhjálmur, kv. Jóhönnu Sveinsdóttur, fóru og til Kanada. Vilhjálmur kallaði sig Goodman. Hann var verkstjóri í Selkirk í Manitoba. Deyði af slysi. — 5) Guðjón Guðmundsson, hraustmenni mikið sem faðir hans, kv. Vilborgu Ólafsdóttur. Þessi hjón fluttust og til Kanada.
9) Árni Sigurðsson í Presthúsum. Fluttist í Vestur-Skaftafellssýslu 1861. Sonur hans og Vilborgar Steinmóðsdóttur Vigfússonar var Ingimundur Árnason. Synir Ingimundar: Konráð, Pálmi, Enok, allir í Reykjavík, Bjarnfreður á Steinsmýri, og dóttir Ingimundar: Brynhildur.
10) Ólafur Ólafssonvinnumaður í Þorlaugargerði, fluttist að Núpakoti undir Eyjafjöllum 1861.
14) Erlendur Sigurðsson vinnumaður í Norðurgarði, seinna húsmaður í Kirkjubæ, d. 1873, kv. Geirlaugu Þorsteinsdóttur. Börn þeirra: 1) Guðmundur, er drukknaði með Bjarna bónda Ólafssyni í Svaðkoti 1883, og 2) Þorsteinn, er hrapaði í Ofanleitishamri 1880.
Hannes Gíslason tómthúsmaður í Grímshjalli, kv. Guðríði Guðmundsdóttur. Dætur þeirra: 1) Andría kona Hjálmars Ísakssonar, sjá áður, og 2) Jóhanna móðir Hannesar Hanssonar útvegsbónda á Hvoli í eyjum. Kona hans er Magnússína Friðriksdóttir Benónýssonar í Gröf.
Eiríkur Eiríksson bóndi á Vesturhúsum, d. 1882, kv. Katrínu Eyjólfsdóttur. Börn þeirra: 1) Magnús, er fór til Alaska. — 2) Valgerður kona Eyjólfs Jónssonar bónda í Vesturhúsum. Synir þeirra: Eiríkur, er fór til Ameríku, Jón Vestmann og Eyjólfur. Dóttir þeirra: Magnússína kona Einars Einarssonar fyrrv. skipstjóra á varðskipinu Ægir, þau skildu. — Sonur Eiríks Eiríkssonar í Vesturhúsum og Guðrúnar Erlendsdóttur var og Jón (John) Eiríksson námamaður í Nevadaríki í Bandaríkjunum. Gekk í Bandaríkjaherinn 1916 og var sendur til herþjónustu í Síberíu. Kom heim aftur til Nevada 1919.¹⁸
Magnús Oddsson, búandi í Kirkjubæ, hafnsögumaður og skipstjóri, kv. Margréti Magnúsdóttur. Þeirra dóttir var Magnússína, giftist og bjó á Austfjörðum. Magnús Oddsson var skipstjóri á þilskipinu Helgu, er fórst í aprílmánuði 1867.

Í 3. flokki eru 12 hinir sömu og áður, en við hafa bætzt þessir: Guðmundur Ögmundsson, Runólfur Eiríksson og Ólafur Magnússon, er áður var í drengjasveitinni, foringi þar.
Vopnasmiðir eru: Jón Salómonsen og Ólafur Guðmundsson.
Varaliðsmenn: Jón Jónsson, Jón Þorkelsson og Björn Sigurðsson.
13) Guðmundur Ögmundsson Ögmundssonar í Auraseli, járnsmiður í Borg, kv. Margréti Halldórsdóttur. Synir þeirra: 1) Júlíus, bjó lengi á Seyðisfirði, seinna í Reykjavík, kv. Sigríði Magnúsdóttur. — 2) Jakob, er lengi var í siglingum og átti heima í Noregi. — Sonur Guðmundar Ögmundssonar í Borg og Guðrúnar Jónsdóttur: Ástgeir Guðmundsson skipasmiður í Litlabæ, kv. Kristínu Magnúsdóttur, systur Sigríðar konu Júlíusar Guðmundssonar. Börn þeirra hjóna Ástgeirs og Kristínar eru mörg búsett hér.
14) Runólfur Eiríksson vinnumaður í Kirkjubæ, drukknaði á þilskipinu Helgu 1867. Sonur hans, Runólfur, mun hafa farið til Ameríku.
Jón Jónsson, seinna bóndi í Gvendarhúsi, sonur Jóns Símonarsonar bónda sama staðar, kv. Sesselju Jónsdóttur frá Kastala. Þau hjón voru barnlaus. Jón Jónsson deyði í eyjum háaldraður 1919.
Jón Þorkelsson vinnumaður í Vesturhúsum, seinna þurrabúðarmaður í Grímshjalli, d. 1864.
Björn Sigurðsson í Götu, drukknaði á þilskipinu Helgu 1867. Kona hans var Helga Jónsdóttir. Dóttir þeirra Þóra Björnsdóttir.

í 4. flokki eru 12 hinir sömu og áður og 3 hafa bætzt við, þeir Guðni Guðnason, Árni Níelsson og Ellert Schram, er áður var í drengjasveitinni.
Varaliðsmenn eru: Brynjólfur Brynjólfsson, Ólafur Einarsson og Finnur Árnason.
13) Guðni Guðnason í Dölum, d. 1875, kv. Vilborgu Guðmundsdóttur. Dætur þeirra: 1) Guðný og 2) Jónína í Haga.
Sonur Jónínu og Þórðar Hjaltasonar á Steinsstöðum, er hrapaði á Dalfjalli 25. ágúst 1897 á fýlaferðum, er Guðfinnur Þórðarson í Reykjavík.
14) Árni Níelsson vinnumaður á Löndum, d. 1864, 22 ára.
Brynjólfur Brynjólfsson, d. í Kirkjubæ 1866.
Ólafur Einarsson, seinna þurrabúðarmaður í Litlakoti, kv. Guðríði Sigurðardóttur, ekkju Ólafs D. Benediktssonar, sjá áður. Börn Ólafs og Guðríðar: 1) Ólafur, kv. Maríu Jakobsdóttur.— 2) Kristín, giftist Ágústi Sveinbjörnssyni. — 3) Jóhanna. — 4) Ingimundur. — 5) Einar, býr í Reykjavík.
Finnur Árnason húsmaður á Steinsstöðum, varð bráðkvaddur á förnum vegi 8. marz 1882. Kona hans var Þuríður Jónsdóttir.

Drengjasveitin 1858.
Foringi: Árni Helgason (sami og áður).
2. deild 2. deild
1. Jósef Sveinsson 7. Rósenkranz Eiríksson
2. Guðmundur Guðmundsson 8. Jónas Helgason
3. Björn Runólfsson 9. Einar Árnason
4. Jón Gíslason 10. Hannes Jónsson
5. Oddur Þórarinsson 11. Sigurður Magnússon
6. Runólfur Runólfsson 12. Sigurður Sigurðsson


Lúðurþeytari: Magnús Jónsson.
Fimm af drengjunum voru valdir til að gefa bendingar og merki til herliðsins eftir skipun fyrirliða. Voru það þeir Jóhann Johnsen, Jón Eiríksson, Jes Abel, Árni Árnason og Bjarni Helgason, sjá hér á undan. Þrír nýsveinar eru nú í drengjasveitinni:
2) Guðmundur Guðmundsson, seinna búandi á Fögruvöllum, kv. Jóhönnu Jónsdóttur. Jóhanna fór eftir lát manns síns til Vesturheims og varð þar þriðja kona Péturs Valgarðssonar bónda í Alberta í Kanada.
11) Sigurður Magnússon, d. 1879 úr holdsveiki. Hann varð miðmaður Önnu Benediktsdóttur ljósmóður. Þau voru barnlaus.
12) Sigurður Sigurðsson, sonur Sigurðar Jónssonar í Stóra-Gerði, nr. 9 í 2. fl. 1857. Sigurður yngri drukknaði með föður sínum á þilskipinu Hansínu 1864.
Herfylkingin var nú skipuð 72 mönnum, 60 fastaliðsmönnum og 12 varaliðsmönnum. 6 undirforingjar. Flokksforingjar voru 4 og æðri foringjar einnig 4. 1 flagg- eða fánaberi. 1 bumbuþeytari og 1 lúðurþeytari. 5 drengir, er voru til vika og gáfu merki. 2 vopnasmiðir. Voru þannig alls 90 manns í Herfylkingunni sjálfri og við drengjasveitina 14. Verða þannig alls 104 manns í Herfylkingunni. En í árslok 1858 voru í Vestmannaeyjum 110 karlmenn á aldrinum 15—40 ára. Alls í sókninni 493.
Yfirmennirnir voru hinir sömu og áður. Flokksforingjarnir og undirforingjar hafa verið nefndir.
Aðalfylkingarstjóri var eins og áður Andreas Aug. von Kohl sýslumaður.
Yfirliðsforingi: Johan Peter Thorkelin Bryde.
Liðsforingi: Jóhann Pétur Bjarnasen.
Yfirflokksforingi: Kristján Magnússon.
Fánaberi: Magnús Austmann.
Bumbuslagari: C. Roed.
Lúðurþeytari: Lars Tranberg.
Herflokkurinn átti vopn og annan útbúnað: 60 riffla af fullkominni gerð með tilheyrandi lagvopnum, byssustingjum. Fyrir byssustingina voru sérstakar skeiðar. 60 leðurtöskur úr leðri. Voru töskurnar hólfaðar innan og ætlaðar til geymslu á skotfærum og ýmsu öðru. Belti, borðar og einkenni. Smáöskjur fyrir skotfæri, skrúfur og lyklar og margs konar smámunir. 5 korðar, mjög vandaðir og skrautlegir, lagðir drifnu látúni. Fánar og stengur, landabréf mörg, uppdrættir og margt fleira. Hans hátign konungurinn hafði gefið sumt af þessu Herfylkingunni (Vestmanö Syssels Milits). Ennfremur var stór trumba og önnur minni látúnsbumba. Lúðrar og blístrur. Flöggin voru stórt hergönguflagg, er borið var fyrir, sérstakur herfáni, svo og flagg það, er Vestmannaeyjasýsla gaf Herfylkingunni, og var það notað, er hermennirnir voru kvaddir saman. Flaggið var hvítt með tveim krosslögðum borðum. Töluvert af bókum hafði Herfylkingin og til afnota handa Herfylkingarmönnum og skrifföng. Um búningana er það að segja, að liðsmenn báru einkennishúfur með rauðri doppu fyrir ofan skyggnið, „Kokorde“, en eigi sérstaka einkennisbúninga. Skotfærahylkin og hulstur voru merkt flokksmerki og tölumerki hvers liðsmanns. Flokksforingjarnir báru einkennisbúninga með merki úr rauðu klæði á öxlunum og korða við hlið, fagurskyggða og skrautlega. Með vissu er einn af þessum korðum enn við líði. Átti hann Árni Einarsson á Vilborgarstöðum. Venjulegast voru við skotæfingarnar notaðar byssurnar. Stundum var við æfingar við Skanzinn skotið af gömlu fallbyssunum, er hér voru frá því á 16. öld.
Vopnin voru öll geymd í sérstöku vopnabúri. Var það sjálfsögð skylda hvers liðsmanns að fara vel með vopn sín, fága þau og hreinsa eftir því, sem þörf gerðist. En viðgerðir önnuðust vopnasmiðirnir og fengu sérstaka borgun fyrir. Það kom fljótt í ljós, að hersveitinni var þörf einhvers styrks af opinberu fé, einkum til þess að standast kostnaðinn af viðgerðunum og viðhaldi vopnanna o.fl. Sótti Kohl því um það til stjórnarinnar að fá að nota í þessu skyni 100 rd. af skipagjöldum sýslunnar. Einnig til að verðlauna fyrir skotfimi, sbr. bréf Kohl til stjórnarinnar 20. apríl 1857 og bréf dómsmálaráðuneytisins 10. ágúst 1858.¹⁹) En þessu vildi stjórnin eigi sinna. Var hirðingu vopnanna fyrst um sinn þannig hagað, að menn önnuðust hana sjálfir, en voru þó eigi allskostar ánægðir með það, því að allmikill tími fór til þess, auk hins mikla tíma, sem til vopnaæfinganna fór, svo að menn þóttust eigi mega missa öllu meiri tíma frá eigin störfum. Kostnaðurinn við Herfylkinguna var árið 1858 um 30 rd., og greiddu hersveitarmenn það sjálfir, en Kohl fékk því loks framgengt, að stjórnin leyfði að lítils háttar upphæð mætti nota til þess af Fátækrasjóði Vestmannaeyja. Þetta tillag reyndist of lágt og varð Kohl sjálfur að kosta til úr eigin vasa. Herfylkingarmenn gerðu því næst þá samþykkt, að vopn öll skyldu afhent vopnasmiðunum, er sæu um þau að öllu leyti, bæði hvað viðgerðir snerti, létu hreinsa þau og smyrja, fyrir 4 skildinga þóknun á ári fyrir hverja byssu. Nokkru síðar buðust mennirnir, er tilheyrðu fyrsta flokki Herfylkingarinnar, til að taka að sér umhirðu á sínum vopnum til þess að létta á, og hið sama gerðu nokkrir menn úr hinum flokkunum tímann fram að vertíð. Fyrsti flokkur innti þessar skyldur vel af hendi fyrir sitt leyti, en hjá 2. og 3. flokki safnaðist skuld rúmir 7 rd. og hjá 4. flokki 2 rd., og í tvo mánuði hafði eigi neitt verið um byssurnar hirt, enda stóð þá vertíð yfir. Þótti auðsætt, að liðsmennirnir myndu eigi greiða fé þetta sjálfir, enda voru þeir margir fátækir. Tók þá Kohl skarið af og ákvað að greiða kostnað allan við aðgerðir og hirðingu vopnanna af fé því, er Herfylkingin fékk til umráða, og sumt greiddi hann sjálfur. Hin mesta regla var hér á öllu. Þannig var sérstakri nefnd falið að hafa á hendi að skoða vopnin og vopnaáhöldin við og við, og sjá um að þau væru æfinlega í góðu standi. Byssurnar áttu að vera fægðar og smurðar og byssustingir í lagi, og allt til taks, svo að hægt væri að grípa til þess fyrirvaralaust. Nefnd þessi annaðist um það, að vopnunum væri raðað niður fyrir hvern flokk sér í lagi og eftir töluröð, svo að enginn glundroði hlytist af. Í hvert sinn, er vopnaskoðunin fór fram, en í nefndinni sátu yfirflokksforinginn og flokksforingjarnir fjórir, bar að gefa um hana skriflega skýrslu yfirfylkingarstjóranum. Hervæðing fór fram, þegar búið var að fylkja liðinu. Taldi þá yfirflokksforinginn mennina í fylkingunni. Gekk síðan hver flokkur undir stjórn flokksforingja síns í röðum að vopnabúrinu. Beið hver flokkur, unz að honum kom eftir tilsvarandi tölu í vopnabyrginu. Hver maður fékk afhent vopn eftir tölumerki sínu. Farið var eins að eftir æfingar, er vopnin voru afhent aftur.
Heræfingarnar stóðu yfir 2—4 klukkutíma í senn. Mest áherzla var lögð á skilmingar og skotfimi. Einnig á líkamsæfingar ýmis konar og kappgöngur og stökk. Tókst með iðulegum æfingum og stöðugri þjálfun fljótlega að koma ágætu skipulagi á hersveitina. Var orð á því gert, hversu eyjamenn væru vasklegir og fljótir að komast niður í heræfingunum. Kohl lét og stundum skipta liðinu og sveitirnar leggja til orustu hvora við aðra við klettaborgir og hóla. Bjó varnarliðið sér þar vígi og víggirti, en sóknarliðið sótti að.

Hér verður lýst einni slíkri orustu eða orustusýningu, er hér fór fram annan jóladag 1858. Hafði verið boðað til orustusýningarinnar með 10 daga fyrirvara með herflokkstilkynningu, er út var gefin 16. des. Liðið var kallað saman með því að sleginn var fótgönguliðsmarzinn þrisvar sinnum og gengið kringum þinghúsið eftir hljóðfæraslættinum.
Liði var skipt þannig:
Varnarliðið undir stjórn Jóns Salómonsens var 2. flokkur hersveitarinnar, flokksforingi Árni Diðriksson, og 4. flokkur, flokksforingi Árni Einarsson. Bumbuslagari Lars Tranberg hafnsögumaður. Táknberar unglingarnir Jóhann Johnsen, 11 ára, Jón Eiríksson, 10 ára, og Jes Abel, 10 ára.
Sóknarliðið var undir stjórn Péturs Bjarnasens liðsforingja. Var sóknarliðinu skipt með nokkrum öðrum hætti en varnarliðinu, eins og hér skal greint:
1. deild undir stjórn yfirflokksforingjans Kristjáns Magnússonar og þar næst 1. skotmannaflokkur undir forustu undirforingjans Sveins Þórðarsonar. Þá kom önnur skotmannasveitin undir forustu undirforingjans Bjarna Ólafssonar.
Merki gáfu Árni Árnason og Bjarni Helgason.
2. deild undir stjórn Gísla Bjarnasens flokksforingja og voru í henni: 1. flokkur undir forustu Ingimundar Jónssonar undirforingja og 3. flokkur undir forustu Guðbrandar Guðbrandssonar undirforingja. Fánaberi Magnús Austmann alþm. Yfirtrumbuslagari C. Roed gestgjafi. Hverjum manni var fenginn sendisveinn (Ordonnanz) úr drengjasveitinni.
Niðurröðun varnarliðsins fór fram milli kl. 4 og 5 síðdegis og með því að flaggið á þinghúsinu sást eigi frá nærri öllum bæjum, þótt ljósker væru látin lýsa, var varnarliðið kallað saman með trumbuslætti og hornablæstri, en sóknarliðið með trumbuslögum einum. Liðssveitirnar fylktu sér í raðir og fengu vopn sín á venjulegan hátt látin af hendi. Hverjum manni voru afhentar 6 patrónur og 10 hvellhettur með byssunum. Færð var góð, tunglsljós og bjart. Varnarliðið hélt inn á Brimhóla og síðan inn í Hraun og bjóst þar um í Hraunskjaftinum í varnarstöðu, skammt frá Brimhólum. Tók varnarliðið sér góða aðstöðu í vígi við hraunhóla. Fyrir framan var hlaðið tunnum og sandpokum til varnar.
Sóknarliðið fór í sömu átt, en er það var komið inn fyrir Tanga var talið, að það væri komið inn fyrir landamæri óvinanna, og gáfu yfirmennirnir nú hinar nauðsynlegustu fyrirskipanir og varúðarreglur. Öllum sóknar- og varnaræfingum stjórnuðu yfirmennirnir. Tók nú sóknarliðið að sækja á af miklum krafti, en hinir að verjast eftir mætti. Hófst áköf skothríð, högl að vísu eigi höfð í byssunum, heldur aðeins púður, stundum handalögmál, þegar sóknarmenn nálguðust vígið, þeir reyna með öllu móti að hrekja hina úr víginu, en varnarmenn yfirgefa ekki vígi sitt fyrr en í ítrustu nauðsyn, því að þá eru þeir yfirunnir, og helzt nógu snemma, svo að hinir fái eigi handsamað þá. Það gat og verið ráðlegt fyrir þá að kveikja í tjörutunnunum, sem var hlaðið fyrir framan til þess að bægja hinum frá um stund. Þegar lítill flokkur var umkringdur af stærra flokki, skyldi sá minni gefast þegar upp, en eigi etja kappi við hina, þegar fyrirsjáanlegt var, að eigi kæmi að gagni.
Slys urðu aldrei við æfingar þessar og sýnir það bezt, hversu vel liðið var æft, enda lét Kohl þess og getið í bréfi til stjórnarinnar, að lið sitt væri vasklegt og vel æft og stæði ekki á sporði hermönnum erlendis. Einu sinni er sagt, að legið hefði nærri í þessum æfingum, að hersveitarmaður yrði öðrum að bana, en varð afstýrt. Fjöldi áhorfenda, einkum konur og eldri menn, nutu þess að horfa á og fylgjast með æfingunum, það er að segja hinum venjulegu æfingum herliðsins, en um orustusýningarnar er sagt, að flestir hafi fengið nóg af að horfa upp á þær. Áhorfendur voru látnir vera á afmörkuðu svæði í nánd við flaggvörðinn, og þar hélt drengjasveitin sig oft. Skotæfingar voru auglýstar sér í lagi. Fóru þær fram á Flötunum frá Skildingafjöru og upp að Brimhólum. Fyrir skotmark var hafður tréhleri, sem dregnir voru á hringar og depill í miðju. Á Flötunum sáust lengi troðningar og smástígar, er fólk sagði, að væri frá heræfingatímunum. Nú er búið að breyta og umturna mjög á þessum slóðum.
Við alla meiri háttar atburði hér lét Herfylkingin til sín taka. Þess er áður getið, að Herfylkingin beitti sér fyrir skemmtisamkomum. Við brúðkaup fylkingarmanna var mikið um dýrðir og þá skotið af fallbyssunum. Herfylkingin setti sinn svip yfir hversdagslífið í Vestmannaeyjum um þessar mundir og gaf drjúgan skerf til aukinnar menningar. Lífsgleðin blómgaðist. Þróttur og glæsimennska dafnaði. Þessara tíma minntist fólkið hér lengi sem eins konar sælutíma.
Herfylkingin lét til sín taka um flest. Um þessar mundir fóru fram alþingiskosningar sunnudaginn 17. apríl 1859. Gekkst Herfylkingin fyrir því, að um leið var haldin hersýning undir stjórn Péturs Bjarnasens. Síðdegis nefndan dag áður en kosningarathöfnin byrjaði mætti liðið á venjulegum stað við þinghúsið og var fylkt þar. Síðan var gengið með fylktu liði til yfirfylkingarstjórans að heimili hans í Landlyst, með blaktandi fánum og hornablæstri. Var svo gengið frá bústað yfirfylkingarstjórans með hann í broddi fylkingar að þinghúsinu, og stjórnaði hann sem sýslumaður kosningarathöfninni. Liðið staðnæmdist í tveim röðum sitt hvorum megin aðaldyra og myndaði göng (Espalier) upp að húsinu. Trumbuslagari og fánaberi, sem nú var Ingimundur á Gjábakka í stað Magnúsar Austmanns, er var einn í kjörstjórninni, stóðu við hægra fylkingararm og flokksforingjarnir hver hægra megin í sínum flokki. Þegar kjörstjórnin kom á kjörstaðinn, tók Herfylkingin við henni með hermannlegri viðhöfn og báru byssur reistar við öxl, bumbur voru barðar og um leið dróst liðið saman og var skipt þannig, að einn flokkur, þ.e. flokkurinn, sem fáninn var borinn fyrir, tók sér stöðu norðan hússins, einn flokkur tvískiptur var við aðaldyr, einn við norðurdyr og sá fjórði við uppgönguna. Þeir, sem eftir voru, héldu vörð og áttu að vera til taks að ganga í skarðið, er liðsmenn gengu til kosninga sjálfir. Sá flokkurinn, sem norðan megin var, átti að vísa þeim af eyjamönnum, sem kosningarrétt höfðu, að vesturdyrunum, en landmönnum að austurdyrum. Þeir af hersveitarmönnum, sem afleystir voru, máttu eigi halda sig fjær en svo, að hægt væri að grípa til þeirra, ef þyrfti, til að standa á verði.
Þegar kosningin var úti var liðinu fylkt aftur á venjulegan hátt, og þeir kallaðir að, sem burtu voru. Gekk fylkingin, er stóð frá norðri til suðurs fyrir neðan uppgönguna, síðan á stað undir hergöngulagi til bústaðar yfirfylkingarstjórans og þaðan aftur að vopnabúrinu.
Herfylkingin gekkst fyrir hátíðahöldum í Herjólfsdal oftast um hvítasunnuleytið. Var gengið í Dalinn fylktu liði með hornablæstri undir fánum. Þessar hátíðir voru nefndar fánahátíðir. Veitingar voru á staðnum.
Við jarðarför Magnúsar Austmanns stúdents og bónda í Nýjabæ, er fór fram sunnudaginn 22. maí 1859 frá Landakirkju, var mikil viðhöfn. Hann var fánaberi Herfylkingarinnar. Hann lézt í Nýjabæ hinn 18. maí nefnt ár. Magnús Austmann var kjörinn á Þjóðfundinn 1851 fyrir Vestmannaeyjar. Sjá um Magnús hér að framan. Jarðarfarardaginn safnaðist Herfylkingin saman við Þinghúsið kl. 9 um morguninn og liðinu fylkt þar og gengið þaðan til bústaðar yfirfylkingarstjórans. Síðan var hafin herganga upp að Nýjabæ. Aðalflaggið var borið fyrir við hægri fylkingararm. Frá Nýjabæ, en þar var dvalið meðan húskveðjan var haldin, fylgdi Herfylkingin á undan líkfylgdinni hinum látna til kirkjunnar. Undirforingjarnir Ingimundur Jónsson á Gjábakka og Sveinn Þórðarson á Löndum gengu á undan kistunni og báru herfánann. Í kirkjunni var hafður flaggvörður yfir kistunni, en hana báru í kirkjugarð flokksforingjarnir Jón Salómonsen, mágur hins látna, Árni Diðriksson, Gísli Bjarnasen og Árni Einarsson, mágur hins látna, og undirforingjarnir Ingimundur Jónsson á Gjábakka, Sveinn Þórðarson á Löndum, Guðbrandur Guðbrandsson formaður, Sighvatur Sigurðsson bóndi á Vilborgarstöðum og Bjarni Ólafsson formaður og bóndi í Svaðkoti.
Á annan jóladag 1859 var haldin heræfing með orustusniði, liðinu skipt og lagt til orustu. Varnarliðið var 1. og 4. flokkur undir forustu Péturs Bjarnasens, er áður stjórnaði sóknarliðinu, er nú var undir stjórn Kristjáns Magnússonar. Á eftir þessari bardagasýningu var haldin hátíð mikil í þinghúsinu, og þangað boðið mörgu fólki.
Flokksforingjastarfinu við 3. flokk í stað Gísla Bjarnasens gegndi við þessa sýningu Carl Ludvig Möller verzlunarstjóri Tangaverzlunar. Carl Möller deyði í Vestmannaeyjum 1861. Kona hans var Ingibjörg Þorvarðardóttir. Börn þeirra: 1) Jóhanna. — 2) Vilhelmína. — 3) Hansína. — 4) Vilhjálmur, er drukknaði í Þorlaugargerðisgrjótum 21. des. 1877, sjá síðar. — 5) Axel símstjóri í Keflavík, d. 1937. — 6) Haraldur kaupmaður í Reykjavík, látinn.
C.H. Bohn verzlunarstjóri aðstoðaði og við þessa sýningu. Bohn dó 29. jan. 1863, ókvæntur. Var lík hans jarðsett í Landakirkjugarði 6. febr. 1863, en það var grafið upp aftur 24. ágúst s.á. og flutt til Kaupmannahafnar.
Meðal þeirra, er stóðu að Herfylkingu Vestmannaeyja, var og Jes Th. Christensen kaupmaður í Vestmannaeyjum og Hafnarfirði, kv. Jensine Marie Andrea Abel, dóttur J. Abels sýslumanns. Kjördóttir Jes Th. Christensens var Anna Cathinka Jörgensen, er varð kona Christians Zimsens kaupmanns og konsúls í Reykjavík. Börn þeirra: Jes Zimsen kaupmaður og konsúll í Reykjavík, d. 1937, Knud Zimsen verkfræðingur, fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík, Christen afgreiðslumaður og konsúll, d. 1932, Cathinka, ekkja Jóhannesar Sigfússonar yfirkennara í Reykjavík, Lára og Louise. Brúðkaup þeirra Jes Christensens og Jensine Abel stóð í Vestmannaeyjum 30. ágúst 1844.
Heræfingar voru haldnar eigi sjaldnar en einu sinni í viku. Aukaæfingar voru haldnar öðru hvoru, og menn þá kallaðir saman í skyndi, oft á næturþeli. Var þá dregið upp ljósker í flaggs stað. Til æfinganna fór mikið af púðri og skotfærum, og það kom fyrir, en þó mjög sjaldan, að fækka varð æfingum vegna þess, að eigi náðist nógu fljótt í nýjar skotfærabirgðir. Kohl var mjög strangur og vandlætingasamur og heimtaði ítrustu nákvæmni og stundvísi af liðsmönnum. Eins og áður er getið, hafði Kohl búizt við að fá fjárhagslegan styrk frá sveitarsjóði eða konungssjóði til að standast straum af ýmsum útgjöldum Herfylkingarinnar, en þetta gekk mjög erfiðlega. Stofnaði Kohl þá svokallaðan hersjóð með frjálsum tillögum til að standast straum af þessum málum. Tillögin greiddust illa og mátti Kohl sjálfur greiða tillög margra.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
18) Minningarrit íslenzkra hermanna í heimsstyrjöldinni 1914—1918, bls. 128. Í því riti er móðir John Eiríkssonar nefnd Guðrún Eyvindsdóttir, en á að vera Guðrún Erlendsdóttir.
19) Ísl. kopíub. 1858 og 1859, nr. 548. — Lovs. XVII, 352.

5. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit