Sigurður Breiðfjörð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurður Eiríksson Breiðfjörð skáld og beykir fæddist 4. mars 1798 á Rifgirðingum á Breiðafirði og lést 21. júlí 1846 í Reykjvík.
Foreldrar hans voru Eiríkur Sigurðsson bóndi þar, f. 1767, og kona hans Ingibjörg Bjarnadóttir húsfreyja, f. 1775.

Sigurður var með foreldrum sínum á Rifgirðingum 1801.
Hann fór til Danmerkur 1814 til að nema beykisiðn, kom þaðan 1818, fluttist til Ísafjarðar og vann þar að iðninni til ársins 1822, fór þá til Reykjavíkur.
Sigurður fluttist til Eyja 1824 og vann við iðnina hjá Andreas Petreus í Danskagarði. Hann var í Kornhól 1825.
Í Eyjum eignaðist hann barn með Guðríði Sigurðardóttur vinnukonu í Kornhól í október 1826, en það dó úr ginklofa. Nokkrum mánuðum áður hafði hann gengið að eiga Sigríði Nikulásdóttur vinnukonu í Kornhól. Var talið, að það hefði hann gert fyrir Andreas Petreus kaupmann vegna þungunar Sigríðar af völdum hans.
Barn þeirra fæddist í nóvember á því ári.
Sigurður eignaðist blásnauður hús, sem kallað var Beykishús, Beykishjallur, Breiðfjörðshús, síðar Ottahús.
Hann fluttist frá Eyjum 1828 og skildi konuna eftir. Hún tók síðar saman við Otta Jónsson verslunarmann, sem keypti húsið, og var það þá nefnt Ottahús.
Sigurður fór vestur á Snæfellsnes og var um skeið í Helgafellssveit, en var síðan beykir í Flatey 1829-1830, var iðjumaður mikill, kenndi beykisiðnina, kenndi sund, stundaði sjóróðra og jafnvel málflutning og þótti það fara vel úr hendi. Var hann hvattur til laganáms í Kaupmannahöfn og skotið saman fé honum til styrktar.
Hann fór utan, en minna varð úr náminu, en ætlað var, eyddist honum féð í óreglu.
Þá réðst hann beykir við konungsverslunina á Grænlandi og dvaldi þar 1831-1834.
Hann kom aftur og nú til Stykkishólms, bjó þar um tveggja ára skeið. Hann dvaldi hjá Árna Thorlaciusi kaupmanni, orti og skrifaði í skjóli hans.
Sigurður bjó síðan á Grímsstöðum í Breiðavík á Snæfellsnesi hjá Kristínu Illugadóttur 1836-1842, er þau fluttust Suður og bjuggu á Seltjarnanesi og í Reykjavík síðustu ár Sigurðar.
Þau Kristín giftust 1837 og varð Sigurður af því sekur um tvíkvæni, þar sem hann hafði ekki skilið við Sigríði lögformlega.
Átti hann lengi í vörnum og slapp furðu vel að lokum, slapp við 20 vandarhögg fyrir náð Danakonungs, en missti það litla sem hann átti af veraldlegum eignum. Presturinn, sem gifti þau, sr. Jóhann Bjarnason móðurbróðir skáldsins, var hinsvegar dæmdur frá kjóli og kalli á æðsta dómstigi 1841.

Mikið liggur eftir Sigurð í ljóðum, einkum rímum, og var hann eitt vinsælasta rímnaskáld þjóðarinnar. Mest af því efni hefur verið gefið út.
1831 komu út rímur af Tistran og Indíönu og 1833 rímur af Svoldarbardaga,1835 voru Númarímur útgefnar. Þær tileimkaði hann Arna Thorlaciusi.
Eftir dvölina í Stykkishólmi komu út á einu ári, 1836, fimm bækur:
Frá Grænlandi, Ljóðasmámunir, rímur af Aristómenes og Georgi, rímur af Fertram og Plató, rímur af Jómsvíkingasögu.
Þetta er aðeins hluti heildarinnar, sem Sigurður samdi og út var gefin.
Margt var gefið út að Sigurði látnum. Einar Benediktsson skáld sá um útgáfu Úrvalsrita 1894, endurútgefið af Snæbirni Jónssyni 1939.
Sumt er óprentað og liggur í handriti hjá Þjóðarbókhlöðu.
Sigurður varð útbreiddasti og mest lesni rithöfundur þjóðarinnar um skeið.
Hann lést 1846 í Hákonsenshúsi í Reykjavík.

I. Barnsmóðir Sigurðar var Guðríður Sigurðardóttir, þá vinnukona í Kornhól, f. 1788, d. 8. júní 1866.
Barn þeirra var
1. Sigurður Sigurðsson, f. 20. október 1826, d. 19. nóvember 1826 úr ginklofa.

II. Kona hans, (1. maí 1826), var Sigríður Nikulásdóttir húsfreyja, vinnukona, f. 12. nóvember 1788, d. 16. maí 1859.
Barn þeirra var
2. Andría Kristín Breiðfjörð, f. 24. nóvember 1826, d. 1. desember 1826 úr „Barnaveiki“.

III. Önnur kona hans, (7. janúar 1837), meðan Sigurður var enn í formlegu hjónabandi með Sigríði, var Kristín Illugadóttir húsfreyja, f. 1797, d. 14. febrúar 1852.
Börn þeirra voru
3. Jens Baggesen Breiðfjörð, d. á 1. aldursári.
4. Jens Baggesen Breiðfjörð, f. 27. janúar 1839. Hann fór í siglingar.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
  • Í veraldarvolki – Íslenskir örlagaþættir. Ástmögur Iðunnar. Sverrir Kristjánsson. Forni-Reykjavík 1966.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.