Saga Vestmannaeyja I./ I. Landfræðileg ágripslýsing

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. júlí 2011 kl. 22:17 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. júlí 2011 kl. 22:17 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit


I. Landfræðileg ágripslýsing


Vestmannaeyjar liggja rúma mílu undan Eyjasandi, 7 ½ mílu vestur frá Dyrhólaey. Þær rísa hátt úr sjó og sjást langt að, bæði utan frá hafi og af landi og hyllir oft uppi við hafsbrún. Þær eru mestmegnis af móbergi og hæstar af móbergseyjunum hér við land. Mjög stórgerðar sjávarmenjar eru í Vestmannaeyjum, háir drangar, skvompur, kórar og hellar. Eyjarnar eru 15 að frátöldum skerjum, stöpum og smáhólmum. Heimaey, Heimalandið, er langstærst, 1125 hektarar. Eyjan er mjög fjöllótt og ganga víða standberg og móbergshamrar í sjó fram. Nyrzt og austast er Yztiklettur, þá Miðklettur og Heimaklettur með Hákollum, 283 m. að hæð, hæsta fjall eyjanna. Mjótt eiði alllangt skilur Heimaklett frá Stóra-Klifi, vestar og sunnar er Háin, Háháin, Dalfjallshryggur, Dalfjall með Blátindi og Upsaberg. Að sunnan eru fjöllin með grasbrekkum og hvömmum, þótt allvíða sé samt sand- og skriðurunnið. Skjól er hér ágætt fyrir norðanvindum. Milli Háar og Dalfjalls er dalskvompa lítil, er nefnist Herjólfsdalur. Helgafell er eldfjall, mjög reglulega lagað, austan við miðbik Heimaeyjar, 226 m. að hæð. Í Helgafelli er stór gígskál. Norðvestur af Helgafelli eru Agðir. Vesturströnd eyjarinnar gengur til SSA, og eru þar sjávarhamrar, Ofanleitishamar, sem veggur alla leið frá Torfmýri og suður undir Kinn við Vík hjá Stórhöfða og ber hæst við Háu-Foldir. Með austurströndinni eru líkir vegghamrar, Flugur, suður fyrir Foldir og svo tekur við Sæfjall með Háu-Búrum. Þar eru snarbrattar grasbrekkur niður undir bergfláa næst sjónum. Sunnar er Kervíkurfjall og Litlhöfði. Sunnar og vestar Stórhöfði. Þar er aðalviti eyjanna. Milli fjallanna er landið mishæðótt, hólar og lautir, sums staðar sendnar valllendisflatir. Víðast smáþýft, grösugt móalendi, sem hér eins og víða á Suðurlandi kallast heiði. Aurar og moldarbörð sjást innan um graslendið og sandrof. Jarðvegur er víða djúpur og frjór. Hraun þekur mikinn hluta af yfirborði eyjarinnar vestan til. Þar er gras töluvert í lautum. Búið er að breyta miklu af yfirborði hraunsins í tún og kálgarða.
Gróðrarfar er líkt hér að mörgu og í Færeyjum, einkum hlíðargróður og við fuglabjörg. Hér hefir ein grastegund fundizt, sem eigi vex annars staðar hér á landi. Í björgunum á Heimaey verpir mikið af fýl og lunda.
Úteyjunum, af þeim eru 9 eiginlegar graseyjar, en gras að vísu nokkuð á 13 eyjum, er skipt milli jarðanna. Þar sem í Lýsingu Íslands er talað um 8 graseyjar, mun vera átt við eyjar þær, sem sauðfé nú er beitt í, en sauðfé var fyrrum haft í fleiri eyjum. Úteyjarnar eru grasgefnar mjög, svo að sumar framfleyta til ársbeitar, útigöngu, 4—5 fullorðnum sauðum á ha. Eyjarnar eru allar háar og brattar klettaeyjar, í þeim er ógrynni af fugli. Elliðaey er stærst af úteyjunum, 52 ha. Þar sem hún er hæst heitir Hábarð. Bjarnarey er þar nokkru sunnar og vestar. Suðurey er 1/6 úr mílu frá Stórhöfða, Brandur og Álfsey þar vestur af, Hellisey sunnar. Um það mílu í suður frá Heimaey er Súlnasker og Geldungur, og rúmri 1/2 mílu sunnar er Geirfuglasker. Smáeyjar eru suðvestur af Dalfjalli. Eyjarnar eru allar eldbrunnar til forna, enda liggja þær í röð frá útsuðri til landnorðurs, eins og eldfjallaraðir um miðbik Íslands. Langt vestur af Heimaey eru Einidrangur og Þrídrangar. Á Þrídröngum var reistur viti nýlega.
Kringum Vestmannaeyjar eru ágæt fiskimið svo sem kunnugt er, svo óvíða munu þau eins góð eða betri. Hér hafa eyjamenn stundað fiskveiðar sínar, sem frá fyrstu byggingu Eyjanna hefir verið aðalatvinnuvegur eyjabúa. Hingað sækir og mikill fiskifloti hérlendur árlega og um margar aldir hefir öflugur útlendur fiskifloti stundað hér veiðar.
Vestmannaeyjar eru syðsta byggð landsins. Samkvæmt veðurathugunum 1877—1906 eru Vestmannaeyjar heitasti athugunarstaðurinn hér á landi. Þar er ekki að meðaltali frost í neinum mánuði.¹)

Heimildir:
1) Sjá Uppdrátt herforingjaráðsins danska af Vestmannaeyjum 1905.
Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands I, aðall. bls. 119—122; Landfr.s. Íslands IV, bls. 237—239.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit