Blik 1980/Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum, VII. hluti
Búnaðarfélag Vestmannaeyja. Ræktun matjurtagarða. Árlegur viðauki.
Ár | Fjöldi félagsmanna |
Flatarmál í ferm. |
Ár | Fjöldi félagsmanna |
Flatarmál í ferm. |
Ár | Fjöldi félagsmanna |
Flatarmál í ferm. |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1924 | 22 | 844 | 1938 | 105 | 64500 | 1952 | 7 | 7500 |
1925 | 22 | 756 | 1939 | 94 | 65400 | 1953 | 15 | 5600 |
1926 | 19 | 2819 | 1940 | 71 | 41200 | 1954 | 10 | 2200 |
1927 | 58 | 885 | 1941 | 27 | 31200 | 1955 | 4 | ? |
1928 | 63 | 1980 | 1942 | 27 | 25700 | 1956 | 6 | 1000 |
1929 | 97 | 1943 | 15 | 4100 | 1957 | 6 | ? | |
1930 | 97 | 4470 | 1944 | 15 | 3400 | 1958 | 11 | 19700 |
1931 | 48 | 13290 | 1945 | 11 | 1200 | 1959 | 3 | ? |
1932 | 88 | ? | 1946 | 12 | 13800 | 1960 | 3 | 3700 |
1933 | 49 | 2190 | 1947 | 9 | 500 | 1961 | 4 | 9200 |
1934 | 50 | 2400 | 1948 | 9 | 2500 | 1962 | ? | ? |
1935 | 83 | 31220 | 1949 | 6 | 7300 | 1963 | 8 | 8500 |
1936 | 52 | 32800 | 1950 | 8 | 10700 | |||
1937 | 64 | 7200 | 1951 | 13 | 900 |
Á bls. 14 í Þrjátíu ára minningarriti Búnaðarsambands Suðurlands (1938) er þennan fróðlega samanburð að finna milli þeirra sýslna, sem Búnaðarsambandið skipa. Uppskeran er mæld í tunnum. Hver tunna er 100 kg.
Sýslur | Ár | Ræktaðar kartöflur |
Ræktaðar rófur og aðrir ávextir |
Meðaltal á hvert býli |
Flatarm. kálg. Ferf. |
---|---|---|---|---|---|
V.-Skaftafellss. | 1889 | 515 | 499 | 2,3 | 24.706 |
Rangárvallas. | 616 | 326 | 0,5 | 60.620 | |
Árnessýsla | 720 | 735 | 1 | 136,448 | |
Vestmannaeyjar | 77 | 261 | 3,4 | 14.431 | |
V.-Skaftafellss. | 1899 | 894 | 774 | 3,5 | 34.275 |
Rangárvallas. | 2686 | 3220 | 4,6 | 152.725 | |
Árnessýsla | 2468 | 2192 | 2,7 | 151.499 | |
Vestmannaeyjar | 379 | 232 | 6,7 | 16.301 | |
V.-Skaftafells. | 1908 | 1724 | 739 | 8,5 | 50.893 |
Rangárvallas. | 3215 | 2482 | 6,2 | 153.582 | |
Árnessýsla | 3815 | 2716 | 6,3 | 171.710 | |
Vestmannaeyjar | 614 | 278 | 6,6 | 15.519 |
Á bls. 51 í sama riti er getið um stækkun eiginlegra garðlanda í þessum fjórum sýslum Búnaðarsambandsins á árunum 1909-1918. Á þessum 9 árum stækka garðlönd í þessum sýslum Búnaðarsambandsins sem hér segir: Í Vestur-Skaftafellssýslu 3,24 sinnum; í Rangávallasýslu 3,64 sinnum; í Árnessýslu 3,7 sinnum; í Vestmannaeyjum aðeins 1,8 sinnum. - Rétt er að geta þess hér til skýringar, að á árunum 1906-1918 stofnuðu Eyjamenn til útgerðar á 95 vélbátum. Sá öri og mikli vöxtur vélbátaútgerðarinnar hafði auðvitað neikvæð áhrif á þróun landbúnaðar í byggðarlaginu, þar sem hugur og hönd hvers Eyjamanns, ef svo má segja, einbeitti sér að uppbyggingu sjávarútvegsins með fullkomnu valdi yfir hinni nýju tækni.
Eins og skráin hér í skrifum þessum um búpening Eyjamanna ber með sér, þá fór kúafjöldi þeirra minnkandi ár frá ári á árabilinu 1941-1947. Ástæðurnar fyrir þessari rýrnun mjólkurframleiðslunnar í byggðarlaginu voru aðallega tvær, og hefi ég lauslega getið um þær: Aukin atvinna á styrjaldarárunum við öflun fisks og fisksölu með miklum fisk-útflutningi og stórhækkuðu fiskverði og þar með auknum tekjum almennings annars vegar og lágu mjólkurverði hinsvegar, sem haldið var niðri af sérstökum verðlagsvöldum, sem ekki virtust gera sér hina minnstu grein fyrir kostnaðaraukanum mikla við að framleiða mjólk í Vestmannaeyjum.
Í janúar 1941 stofnuðu mjólkurframleiðendur í Eyjum með sér samtök til þess að gæta hagsmuna sinna og fá viðunandi verð fyrir mjólk sína, sem seld var bæjarbúum. Þessi hagsmunasamtök mjólkurframleiðenda kusu sér baráttunefnd, sem þeir kölluðu Mjólkurverðlagsnefnd Vestmannaeyjakaupstaðar. Formaður þeirrar nefndar var kjörinn Þorbjörn bóndi Guðjónsson á Kirkjubæ. Hann rak annað stærsta kúabú í Eyjum þá og var sá einstaklingurinn, sem mestar jarðabætur og ræktunarframkvæmdir hafði innt af hendi í byggðarlaginu á undanförnum árum.
Við upphaf styrjaldarinnar var söluverð mjólkurlítrans 40 aurar. Árið 1940 var söluverðið 48 aurar. Veturinn 1941 hækkuðu samtök mjólkurframleiðenda mjólkina í 48 aura lítrann, og svo 65 aura, þegar leið fram á vorið. Í júnímánuði um sumarið var gerð sú sambykkt að hækka mjólkurverðið í 75 aura lítrann frá 1. júlí n.k. „með tilliti til heyverðs, vinnuverðs og verðs á „fóðurmjöli“, eins og segir í fundargjörð mjólkurverðlagsnefndarinnar.
Í september 1942 hafði átt sér stað gífurleg verðhækkun á öllum þessum nauðþurftum til mjólkurframleiðslunnar. Afréð þá Mjólkurverðlagsnefndin að hækka
verð á hverjum mjólkurlítra í kr. 1,50. Tekur nefndin það fram í samþykkt sinni, að þetta verð sé í fullkomnu samræmi við þá hækkun kaupgjalds, sem þá hafði átt sér stað, og svo hækkun á verði heys og fóðurvara frá fyrra ári, og þá sé mjólkurverðið í Eyjum í samræmi við gildandi mjólkurverð í Reykjavík.
Þrátt fyrir þessa hækkun á mjólkurverðinu fór mjólkurframleiðsla Eyjamanna rýrnandi ár frá ári, svo að til vandræða horfði. Allt annað var arðvænlegra en mjólkurframleiðslan á þessum miklu ólgutímum styrjaldaráranna.
Á fundi sínum 14. janúar 1944 afréðu mjólkurframleiðendur að hækka mjólkina í kr. 1,70 hvern lítra. Þann fund sátu 33 mjólkurframleiðendur og skrifuðu allir undir samþykkt þessa. Þessi samþykkt þeirra virðist hafa leitt til þess, að
umboðsmenn „ríkisvaldsins“ í Eyjum sendu verðlagsstjóra ríkisins í Reykjavík þessa bágu fregn og óskuðu afskipta hans af mjólkurverðinu. - Eftir 4 daga var boðað til fundar með mjólkurframleiðendum. Fund þann sat fulltrúi eða trúnaðarmaður verðlagseftirlits ríkisins í umboði verðlagsstjóra. Á fundi þessum tilkynnti hann fundarmönnum, að verðlagseftirlit ríkisins mótmælti verðhækkun þeirri á nýmjólk, sem þeir höfðu samþykkt á fundi sínum 14. s.m. Jafnframt var mjólkurframleiðendum tilkynnt, að verðlagsstjóri myndi nú skerast í málið.
Í ræðum fundarmanna kom berlega í ljós, að þeir ætluðu sér að standa saman og bjóða valdinu birginn, standa fast saman um hagsmuni sína. Var sú samþykkt gjörð og skráð og undirrituð af öllum fundarmönnum, en verðhækkunin skyldi ekki taka gildi fyrr en 29. s.m. En þann dag birti Þorbjörn bóndi grein í blaðinu Víði í Vestmannaeyjum. Hann hafði þá haldið búreikninga í nokkur ár og skrifaði greinina með tilliti til reynslu sinnar af rekstri kúabús í Eyjum.
Þarna segir greinarhöfundur: „...Í haust ákvað mjólkurverðlagsnefnd (í Eyjum), að útsöluverð mjólkur skyldi vera kr. 1,75 hver lítri, en um sama leyti ákvað ríkisstjórn, að verðið skyldi vera kr.1,45 og við þetta hefur verið setið. Það eru allar líkur fyrir því, að Samsalan í Reykjavík fái verðbætta mjólk frá tímabilinu 15. sept. f.á.
Þar sem verðlag á mjólkurvörum hækkaði mjög á s.l. sumri, t.d. heyhestur úr 40 kr. í 55 kr., maismjöl úr 38 kr. í 45 kr., síldarmjöl úr 32 kr. í 52 kr., þá hækkaði framleiðsluverð mjólkurlítrans um 26 aura. Og nú er svo komið, að þeir sem þessa vinnu stunda, bera mjög lítið úr býtum fyrir vinnu sína, eins og eftirfarandi áætlun sýnir, sem styðst við margra ára reynslu og búreikninga.
Kostnaður við að fóðra eina kú árið um kring:
- Gjöld:
35 hestburðir af heyi á 55/-...................kr. 1925,00
600 kg. fóðurmjöl á 85 aura ....................... 510,00
4 hestb. hey, sumarfóður á 55/-................... 220,00
Vextir .........................................................60,00
Húsleiga fyrir hey og kýr ..............................90,00
Hreinlætisvörur og áhöld(verkf.).....................75,00
Vanhöld og fyrning......................................250,00
265 vinnustundir virka daga, á 5 kr..............1325,00
100 vinnustundir helgidaga og eftirvinna á 7/- 700,00
Áburður á sumarhaga..................................150,00
Leiga fyrir sumarhaga..................................150,00
Nautstollur....................................................35,00
Gjöld alls .............................................kr. 5.490,00
- Tekjur:
- Tekjur:
2600 lítrar mjólk á 1/45..........................kr. 3.770,00
Ungkálfur.......................................................45,00
Tap á rekstrinum........................................1.675,00
Tekjur alls..............................................kr.5.490,00
.................“
Greinarhöfundur fullyrðir, að mjólkurverð þurfi að vera kr. 2,00 á lítir, eigi mjólkurframleiðslan að skila tilsvarandi arði við þau vinnulaun, sem greidd eru í kaupstaðnum og þann kostnað, sem rekstur kúabús hefur í för með sér.
Þá segir hann: „Eina ráðið til að nægileg mjólk sé hér á markaði er, að fólk það, sem þessa vinnu stundar, fái ekki lægri laun en annar atvinnurekstur borgar.“
„Þá er rétt að benda á það,“ segir höfundur, „að það er meiri arðsvon að fóðra hér sauðfé en kýr. Eru nú hér á fóðrum um 1000 fjár og þarf það fé fóður, sem nægja mundi 40-50 kúm. Hér í Eyjum verður mjólkurframleiðslan alltaf miklu dýrari en annars staðar á landinu. Það sýna niðurstöðutölur búreikninga, sem Búreikningaskrifstofa ríkisins birti rétt fyrir stríðið. Framleiðsluverð hér var þá 34 aurar á hvern mjólkurlítir, en 18 aurar að meðaltali í búreikningunum, og munu þau hlutföll nálega óröskuð, a.m.k. hjá þeim bændum, sem sjálfir flytja eða láta flytja mjólkina heim til kaupendanna og leggja sjálfir til flöskurnar, en sá kostnaður er ekki talinn með í framangreindri áætlun ...“
Þetta voru þá rök Þorbjarnar bónda í Kirkjubæ fyrir því, að mjólkurverð í Eyjum væri of lágt til þess að nokkur sæktist eftir að framleiða þar mjólk. Þarna voru
mjólkurframleiðendur í Eyjabyggð á sama máli. Og þarna voru þeir sameinaðir í andstöðu við ríkisvaldið eða verðlagsnefnd ríkisins, sem ekkert hafði fyrir því
að grandskoða þetta mál niður í kjölinn. - Afleiðingar þessarar deilu og þvermóðsku létu heldur ekki á sér standa. - Árið 1941 voru 320 mjólkandi kýr í Eyjum. Árið 1947 voru þær aðeins 207 talsins. Og tveim árum síðar (1949) aðeins
196 kýr alls. Þá hafði kúaeignin færst á hendur fárra aðila. Um þetta bil átti kaupstaðurinn sjálfur um 50 kýr í fjósi sínu, Helgi kaupm. Benediktsson um 30 kýr, Þorbjörn bóndi Guðjónsson um það bil 20 kýr og búið að Lyngfelli 15 kýr. Þá hafa sem sé um það bil 80 kýr verið í eigu annarra einstaklinga í Eyjabyggð, flestar í eigu bændanna.
Á sama tíma tók fólki að fækka í kaupstaðnum. Hversu ríkan þátt mjólkurskorturinn átti í því fyrirbrigði, vitum við ekki. (Sjá hér í ritinu skrá um íbúafjölda í Eyjabyggð á þessum árum).
Mjólkurverðlagsnefnd mjólkurframleiðenda í Vestmannaeyjum boðaði til fundar 30. janúar 1944 samkvæmt ósk bæjarstjórnar kaupstaðarins og fulltrúa verðlagsstjóra
ríkisins í Eyjum. Þar urðu miklar umræður um mjólkurverðið. Þar leiddu saman hesta sína mjólkurframleiðendur annars vegar og valdamenn hins vegar. Fundi þessum lauk með tillögu, sem allir mjólkurframleiðendur samþykktu einróma. Hún hljóðaði þannig:
„Fundur mjólkurframleiðenda í Vestmannaeyjum, haldinn í Akógeshúsinu 30. janúar 1944, samþykkir að hætta mjólkursölu frá og með 15. febrúar n.k., meðan ekki er leyft að selja mjólkina á framleiðslukostnaðarverði.“
Þegar tillaga þessi hafði verið samþykkt, gengu gestirnir af fundi.
Nokkrum dögum síðar kom sú orðsending frá verðlagsstjóra að láta það óátalið, þó að mjókurkaupandinn yrði látinn greiða 25 aura aukreitis fyrir það að fá mjólkina flutta heim til sín. Þannig fékk seljandinn kr. 1,70 fyrir mjólkurlítrann með því að verð verðlagsstjórans var kr. 1,45. Fulltrúi verðlagsstjóra færði bæjarfógeta þessa orðsendingu herra síns, svo að ekki varð frekar úr málsókn. En þá höfðu þegar hafizt sektardómar á nokkra mjólkurframleiðendur til að greiða í sameiningu. „Þannig fór um sjóferð þá“.
Í deilu þessari höfðu rökföst bréf verið send landbúnaðarráðuneytinu og búnaðarmálastjóra. Þeir háu herrar höfðu ýmislegt við málflutning og rök Eyjabænda að athuga. T.d. höfðu þeir ekki reiknað áburðinn undan kúnum til verðs. Málsvarar Eyjabænda svöruðu þeim aðfinnslum á þá lund, að búfjár áburðurinn yrði svo dýr kominn á túnið, að ekki svaraði kostnaði að nota hann borinn saman við tilbúinn áburð. Og spurt var, hver ástæðan mundi fyrir því, að áburðarhaugar liggja árum saman við fénaðarhús bænda úti um allt land, án þess að sá áburður sé notaður. Svör valdsmanna komu engin við þeim spurningum.
Eftir að heimsstyrjöldin síðari hófst árið 1939, tók útvegur Eyjamanna mikinn vaxtakipp. Flutningur fisks á Englandsmarkað fór vaxandi öll styrjaldarárin og nýtt líf færðist mjög í atvinnulífið í Vestmannaeyjakaupstað. Fólk streymdi
þar að til dvalar og vinnu. Mörg erlend skip lágu þar oft í höfn, sérstaklega færeysk, til þess að taka fisk til útflutning fyrir Eyjamenn. Hin mikla atvinna í bænum leiddi til þess, að búsettu fólki fór fjölgandi. Hún hafði líka þær afleiðingar, að mjólkurframleiðslan í byggðarlaginu fór minnkandi ár frá ári sökum þess, að önnur atvinna gaf meiri arð í aðra hönd. T.d. fækkaði mjólkurkúm í Eyjum um 41 frá árinu 1941-1942. Í óefni var komið með þessa framleiðslu. Af
leiðingar mjólkurskortsins leyndust ekki.
Þegar hér var komið þessum málum, afréð bæjarstjórn kaupstaðarins að láta bæinn stofna til mjólkurframleiðslu. Fengin var til þess ábúð á Dalajörðunum tveim og
brátt hafin þar bygging fjóss og hlöðu. Bráðlega var lokið við að byggja þar 60 bása fjós og stóra þurrheyshlöðu. Hún var 638 rúmmetrar. Þá var þar byggt áburðarhús, sem var að stærð 567 rúmmetrar, og safnþrær yfir 300 metrar að rúmmáli. Einnig var þar byggð votheyshlaða 113 metrar að rúmmáli. Jafnframt þessum byggingarframkvæmdum hóf bæjarfélagið ræktun í stórum stíl. Árið 1944 var mæld hjá því nýrækt 8,5 ha. Áður hafði bæjarfélagið ræktað 4,7 ha. sáðsléttur, og látið rífa upp hundruð rúmmetra af grjóti úr því landi.
Fyrsti bústjórinn var ráðinn Ársæll Grímsson, sem síðustu árin hafði haft Dalajarðirnar til ábúðar. Hann stjórnaði búrekstri bæjarins í Dölum fyrstu tvö árin. Í byrjun maímánaðar 1946 tók Guðjón Jónsson frá Gunnlaugsstöðum í Þverárhlíð í Borgarfirði við bústjórninni í Dölum. Hann hafði þar um 50 mjólkandi kýr og 10-12 geldneyti.
Þegar kaupstaðurinn tók að reka kúabúið í Dölum, fékk hann til afnota m.a. nokkur tún, sem þurrabúðarmenn höfðu ræktað og haft til nota, en voru nú hættir allri mjólkurframleiðslu. Mjólk sú, sem kaupstaðurinn framleiddi þannig sjálfur til öryggis skjólstæðingum sínum fyrst og fremst, var flutt daglega í sjúkrahús
bæjarins, í elliheimili hans og barnaheimili. Það sem afgangs var þörfum þessara stofnana var selt í tveim búðum, sem bærinn lét reka, önnur að Hásteinsvegi 4 en hin í Gimli við Kirkjuveg. Eftir að Mjólkursamsalan hóf verzlun með mjólkurvörur í Eyjum árið 1954 fékk bærinn að selja mjólk sína í búðum hennar og hætti þá mjólkursölu í sínum eigin búðum, - gaf frá sér rekstur þeirra.
Árið 1962 seldi kaupstaðurinn Dalabúið úr eigu sinni. Kaupendur voru þeir Magnús Magnússon frá Kornhól og Daníel Guðmundsson, bifreiðarstjóri. Ekki leið á löngu þar til M.M. var einn orðinn eigandi kúabúsins.
Mjólkin var flutt til neyzlu á sömu staði og áður. Sú mjólk, sem umfram var, seldi Mjólkursamsalan fyrir eiganda kúabúsins í Dölum eins og áður. Mjókurkaupendurnir munu hafa kosið aðfluttu mjólkina fremur en Dalabúsmjólkina sökum þess, að Samsölumjólkin var gerilsneydd. Kúabúið í Dölum dróst því saman, en hænsnabú eigandanas óx að sama skapi eða meir. Jafnframt hafði M.M. Dalabúseigandi sauðfjárrækt (30-40 kindur) og hrossarækt. - Svo kom að því að kúabúið í Dölum hætti að vera til. Þá voru yngstu kýrnar seldar til sumra sveita Suðurlandsins en eldri kúnum lógað.
Svo dundi eldgosið yfir og allt varð að litlu eða engu.
Þeim eilitla atburði gleymi ég aldrei. Rétt eftir áramótin 1952/1953 mættumst við Einar Guttormsson, sjúkrahússlæknir okkar Eyjamanna, efst á Heimagötunni.
„Hér er illt í efni, Þorsteinn, sagði læknirinn, „börn og aldrað fólk hér í bæ líður stórlega sökum of lítillar mjólkurneyzlu. Mjólkurskorturinn í bænum er nú mjög alvarleg staðreynd, sem við verðum að bæta úr á einhvern hátt. Þið í bæjarstjórninni verðið að gera eitthvað til bóta í þessum efnum, ella er voðinn vís. Heilsa fólks er í hættu.“ Læknirinn var óvenju þungur á brún, þegar hann sagði þetta og viðkvæmnin og áhyggjurnar leyndu sér ekki.
Orð læknisins settust að mér. Ég tók að leggja höfuðið í bleyti. Hvað gátum við gert? - Bærinn sjálfur rak kúabú til þess að bæta úr bráðri þörf i þessum efnum. Þar voru þá 50-60 mjólkandi kýr. - Ógæfan var sú, að bændur og aðrir heimilisfeður í byggðarlaginu, sem juku mjókurframleiðslu sína á krepputímunum, höfðu dregið stórlega úr mjólkurframleiðslunni og margir þeirra hætt gjörsamlega þessari framleiðslu. Á sama tíma hafði fólksfjölgunin í bænum farið vaxandi ár frá ári með aukinni útgerð og fiskvinnslu. Hvernig varð sigrast á þessum erfiðleikum?
Ég íhugaði skrár og skýrslur varðandi mannfjölda i Eyjum sl. 29 ár og svo rýrnun mjólkurframleiðslunnar á sama tíma. Hér birti ég örfáar tölur:
Ár | Búsettir Eyjamenn |
Mjókurkýr |
---|---|---|
1930 | 3380 | 221 |
1940 | 3584 | 303 |
1945 | 3588 | 280 |
1950 | 3699 | 214 |
1951 | 3737 | 233 |
Kaupstaðurinn sjálfur rak 50-60 kúa bú á Dalajörðunum, til þess að bæta úr sárustu neyð vissra stofnana í bænum. Með þessum búrekstri fullnægði bærinn mjólkurþörf sjúkrahússins, elliheimilisins og barnaheimilis kaupstaðarins.
Mjólk sú, sem þessar stofnanir bæjarins höfðu ekki þörf fyrir, var seld í sérstökum mjólkurbúðum í bænum, eins og ég hefi getið um. Sú mjólk hrökk skammt.
Hinn 15. janúar 1953 eða nokkrum dögum eftir að læknirinn tjáði mér mjólkurhungrið í bænum, var haldinn fundur í bæjarstjórn kaupstaðarins. Þar bar ég fram tillögu, sem hlaut samþykki bæjarfulltrúanna, svo að mikið og gott spannst af þeirri samþykkt. Þá hófst sérlegur kafli í sögu búsetunnar og bæjarlífsins í Vestmannaeyjum, og er við hæfi að gera honum nokkur skil hér.
9. mál. Fundargerð Dalabúsnefndar frá 16/12 1952, 3. liður.
Í sambandi við liðinn bar Þorsteinn Þ. Víglundsson fram þá tillögu að bæjarstjórn sendi tafarlaust 2 (tvo) bæjarfulltrúa til Reykjavíkur til þess að fá mjólkurmálin leyst. Tillagan samþykkt samhljóða.
Kosnir voru til fararinnar Þorsteinn Þ. Víglundsson og Magnús Bergsson, með 7 atkvæðum.
.....
Fleira var ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Helgi Benediktsson, Gísli Þ. Sigurðsson, Magnús Bergsson, Björn Guðmundsson, Guðlaugur Gíslason, Þorsteinn Þ. Víglundsson, Þorbjörn Guðjónsson, Hrólfur Ingólfsson, Þorsteinn Sigurðsson,
Ólafur Á. Kristjánsson.
Satt að segja þótti mér það dálítið kynlegt, að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skyldu velja Magnús Bergsson, bakarameistara, og bæjarfulltrúa flokksins, til þess að fara með mér til Reykjavíkur til þess að fá flutta mjólk þaðan til Vestmannaeyja. Við Magnús höfðum þá nýlega staðið í persónulegum deilum og hann höfðað á mig meiðyrðamál. En mér er ánægja að segja frá því, að við bárum þroska til að leggja þau deilumál algjörlega á hilluna og einbeita okkur að þessu velferðarmáli bæjarbúa. Magnús Bergsson var drengskaparmaður og við unnum saman af einlægni og heilum hug.
Við urðum undir eins á eitt sáttir um það að hitta fyrst að máli Svein Tryggvason, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Hann tók okkur hið bezta og reyndist okkur síðan hinn viljagóði og hallkvæmi áhrifamaður í hvívetna í þessu mikilvæga velferðarmáli Vestmannaeyinga. Frá honum lá leið okkar Magnúsar til forstjóra Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, Árna Benediktssonar. Þar mættum við einnig velvilja og skilningi. Síðan urðu ferðir okkar Magnúsar Bergssonar til Reykjavíkur margar til þess gjörðar að leysa þessi mál fyrir bæjarstjórn og Eyjamenn í heild. Og við vorum orðnir vinir að ferðunum loknum.
Í upphafi ársins 1954 gerðist Stefán Björnsson frá Hnefilsdal í Norður-Múlasýslu forstjóri Mjólkursamsölunnar. Hjá þeim manni mættum við sama velvilja og skilningi á vandamálum okkar Eyjabúa og hjá fyrri forstjóranum. Allt hlaut þetta velferðarmál þess vegna að fá góðan endi. Trúin flytur fjöll, segir einhvers staðar.
Rétt er að geta þess, að Helgi Benediktsson, kaupmaður, hafði á undanförnum árum flutt eitthvað af mjólk til Vestmannaeyja frá Reykjavík og selt hana í búðum sínum. Þá hafði hann vélskipið Skaftfelling í förum milli Reykjavíkur og Eyja. Í skipi þessu voru lítil tæki eða tök á að flytja mjólkina svona langa leið svo að öryggi væri fyrir því, að hún skemmdist ekki á leiðinni.
Árið 1965 gaf Mjólkursamsalan Reykjavík út stóra bók, sem heitir Saga Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Þetta er 30 ára saga fyrirtækisins.
Á bls. 176-179 í bókinni er skráður kafli, sem heitir Mjólkursamsalan í Vestmannaeyjum. Vel fer á því að taka hér upp nokkurn hluta þessa kafla úr bókinni.
„Snemma árs 1953 leitaði bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrst eftir því við stjórn Mjólkursamsölunnar, að hún tæki að sér mjólkursölu í Vestmannaeyjum. Ástæðan var stöðugur skortur mjólkur í Eyjum og erfiðleikar að fá úr því bætt.
Þessum viðræðum bæjarstjórnar Vestmannaeyja og stjórnar Mjólkursamsölunnar lauk í maí 1954 með því samkomulagi, að Mjólkursamsalan skuldbatt sig til þess að hafa jafnan næga og góða mjólk til sölu í Vestmannaeyjum og annast dreifingu hennar þar í að minnsta kosti tveim útsölum, gegn því að bæjarstjórnin útvegaði bát til mjólkurflutninga milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, og sæi
um, að þeim ferðum yrði haldið uppi alla virka daga ársins nema veður hamlaði.
Fyrsta útsala Mjólkursamsölunnar var síðan innréttuð í skyndi í bráðabirgðahúsnæði og opnuð 15.júlí 1954. Áður um skeið höfðu verzlanir í Eyjum keypt mjólk í Reykjavík og flutt einu sinni til tvisvar í viku til Eyja ýmist í ókældri bátslest eða á þilfari. Mjólkin var því einatt léleg, þegar hún kom til Eyja, og oft hafði jafnvel sjór komizt í hana. - Mjólkurskortur var því mikill, því að heimaframleiðslan nægði aldrei og vantaði oft mikið á.
Meðan þessi háttur var á, var flutningsgjaldi bætt við mjólkurverðið, og mun það hafa verið 25-30 aurar á lítra ... Mjólkursamsalan bar kostnað af flutningi mjólkurinnar frá Selfossi til Þorlákshafnar.
Á árinu 1955 féllst Samsalan á að selja mjólk sama verði í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Var það gert fyrir tilmæli ríkisstjórnarinnar til lausnar vinnudeilu, sem þá var í Eyjum. Til skýringar má geta þess, að Vestmannaeyjar voru ekki á sölusvæði Mjólkursamsölunnar samkvæmt lögum.
Á árinu 1954 var keyptur húsgrunnur að Vestmannabraut 38 og byggt þar tveggja hæða hús. Var íbúð verzlunarstjóra á efri hæð, en mjólkurbúð niðri og nokkurt rými leigt Sparisjóði Vestmannaeyja til ársins 1963. Var mjólkurbúðin að Vestmannabraut opnuð fyrri hluta árs 1955...
Önnur útsala Mjólkursamsölunnar var byggð að Hólagötu 28 og opnuð 1958. Þriðja útsalan er nú í byggingu við Austurveg. (Hér er víst átt við verzlunarhúsið, sem Mjólkursamsalan var hluthafi í við Heimagötu, nr. 35-37. Þ.Þ.V.)
Á fyrstu árunum, sem Mjólkursamsalan rak útsölu sína í Eyjum, gekk oft erfiðlega að halda bát í förum milli Þorlákshafnar og kaupstaðarins allt árið. En eftir að Herjólfur hóf fastar ferðir milli staðanna í ársbyrjun 1960 og svo til Hornafjarðar aðra hvora viku, þá gengu þessir mjólkurflutningar snurðulaust ...“
Þetta voru nokkur söguleg atriði úr bók Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, sem varða mjólkursölu hennar í Vestmannaeyjum.
Árið 1953 eða árið áður en Mjólkursamsalan í Reykjavík hóf mjólkursölu í Eyjum í eigin búðum, seldi hún til Eyja 317.084 lítra af nýmjólk, 5.605 lítra af rjóma og 13.005 kg. af skyri. Síðan var þróunin þessi næstu árin:
Ár | Nýmjólk l. | Sýrð mjólk l. | Rjómi l. | Skyr kg. | Undanr. l. | Mysa l. |
---|---|---|---|---|---|---|
1957 | 622.760 | 2.362 | 23.078 | 29.920 | 0.00 | 1.950 |
1958 | 702.650 | 2.046 | 24.575 | 37.605 | 0.00 | 2.000 |
1959 | 827.200 | 8.617 | 26.759 | 43.183 | 133 | 2.800 |
1960 | 939.422 | 7.238 | 29.725 | 40.170 | 974 | 1.950 |
1961 | 961.406 | 12.394 | 27.571 | 40.420 | 1.000 | 2.087 |
1962 | 987.108 | 16.443 | 29.977 | 44.525 | 1.260 | 1.500 |
1963 | 944.185 | 21.683 | 30.785 | 42.640 | 1.750 | 1.250 |
1964 | 962.196 | 33.138 | 30.012 | 39.245 | 2.570 | 1.600 |
1965 | 1.055.453 | 46.458 | 31.953 | 40.770 | 4.450 | 2.834 |
1966 | 985.397 | 52.720 | 32.536 | 34.935 | 4.390 | 2.634 |
1967 | 986.911 | 55.424 | 32.732 | 33.732 | 6.460 | 2.446 |
1968 | 927.346 | 53.784 | 28.652 | 37.582 | 10.570 | 4.370 |
1969 | 965.982 | 56.841 | 25.169 | 38.870 | 12.080 | 3.650 |
Heildarsala Mjólkursamsölunnar
í Vestmannaeyjum fyrstu 16 árin
sem hún var starfrækt þar.
Ár | Kr. |
---|---|
1954 | 692.834,oo |
1955 | 2.064,685,67 |
1956 | 2.736.459,oo |
1957 | 2.828.399,76 |
1958 | 3.431.693,18 |
1959 | 5.331.538,03 |
1960 | 7.054.769,36 |
1961 | 7.770.846.74 |
1962 | 8.761.043,35 |
1963 | 10.953.396,27 |
1964 | 15.081.455,27 |
1965 | 16.984.494,56 |
1966 | 18.482.189,29 |
1967 | 17.842.782,87 |
1968 | 22.128.607,27 |
1969 | 28.438.207,18 |
Árið 1954, fyrsta ár Samsölunnar Eyjum, var verzlun þessi rekin frá júlí til 31. desember.
Ég skírskota til 30 ára sögu Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem birt er í 30. árg. Bliks 1973. - Árið 1953 var Sparisjóðurinn 10 ára og hafði þá flækzt úr einum stað í annan í bænum á undanförnum árum. Peningastofnun þrífst ekki með eymdarblæ yfir sér. - Ég afréð að beita mér fyrir því, að Sparisjóðurinn eignaðist eigið hús á góðum viðskiptastað í bænum.
Veturinn 1953 festi ég kaup á húslóðinni nr. 38 við Vestmannabraut fyrir eigið fé og hóf þar húsbyggingu vorið 1953. Þegar ég hafði lokið við að byggja grunninn um haustið, bauð ég stjórn Sparisjóðsins að kaupa af mér grunninn á kostnaðarverði, sem mig minnir að væri um kr. 41.000,oo. Því boði hafnaði sparisjóðsstjórnin. Þessi neitun hennar leiddi til bess, að Mjólkursamsalan í Reykjavík fékk keyptan húsgrunninn á kostnaðarverði með því skilyrði þó, að Sparisjóðurinn fengi þar leigt viðunandi húsnæði næstu 5-6 árin. - Allt féll þetta í ljúfa löð. - Kaupsamningur þessi var undirritaður 5. júlí 1954. Hófust þá þegar byggingarframkvæmdir að nýju. - Byggingarmeistari var Einar húsasmíðameistari Sæmundsson að Staðarfelli við Kirkjuveg. Í október um haustið lukum við þeim áfanga að steypa upp allt húsið. Fyrri hluta ársins 1955 hóf síðan Mjólkursamsalan í Reykjavík að selja Eyjafólki mjólk í þessu nýja húsi sínu.
Allt tókst þetta giftusamlega, enda við heiðarlega menn að skipta í forustuliði fyrirtækisins í Reykjavík.
( Í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeta, er kafli um landbúnað í Vestmannaeyjum, 2. bindi, bls. 25-43. Af gildum ástæðum er fátt hér endursagt af því, sem þar er skráð um jarðanot og landbúnað í Vestmannaeyjum, en vísað til þess fróðleiks. Þ.Þ.V.)