Blik 1974/Bréf til vinar míns og frænda, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. apríl 2010 kl. 10:21 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. apríl 2010 kl. 10:21 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



Bréf til vinar míns og frænda
(II. hluti)



Ný lög — Nýr skóli
Árið 1930 samþykkti alþingi Lög um gagnfræðaskóla í kaupstöðum. Þar með skyldi stofnaður og starfræktur gagnfræðaskóli í Vestmannaeyjum eins og í öðrum kaupstöðum landsins. Þarna var sem sé brátt starfi mínu lokið við unglingaskólann. Nú var framundan að ráða skólastjóra að hinum nýja gagnfræðaskóla, þegar til kæmi. Ég var þó settur skólastjóri fyrsta árið (1930 -1931) samkvæmt samkomulagi við fræðslumálastjóra. En næsta ár skyldi staðan auglýst til umsóknar, og þá skyldi til skarar skríða um þessa „illu sendingu Jónasar frá Hriflu,“ eins og það hét á máli þingmannsins. Þá skyldi „barnafræðarinn,“ eins og þingmaðurinn titlaði mig í blaðagrein, fá makleg málagjöld fyrir stuðninginn við hinn „vinnandi lýð,“ eins og sumir komust að orði um undirokuðu stéttina í bænum.
Auglýst var til umsóknar skólastjórastaðan við hinn nýstofnaða gagnfræðaskóla í Vestmannaeyjum.
Ásgeir Ásgeirsson fræðslumálastjóri tjáði mér, að hann skyldi styðja mig til starfsins og stöðunnar gegnum þykkt og þunnt, því að mér hefði lánazt að skapa unglingaskóla, þar sem svo að segja enginn var fyrir þrátt fyrir strit og starf að því marki um árabil. En eitt átti ég að gera fyrir hann! Ég skyldi fara til Englands um vorið (1931) og kynna mér enska verknámsskóla. Hann bauðst til að gera mig vel úr garði með vottorð, sem greiddu götu mína að merkum verknámsskólum. Og ókeypis far fékk ég líka hjá Eimskip fyrir atbeina fræðslumálastjórnarinnar. Síðan hvatti hann mig eindregið til að sækja um skólastjórastöðuna.
Allt fór þetta eftir settu marki og áætlun. Ég dvaldist í Englandi fram á sumarið 1931 og kynnti mér verknámsskóla, þar sem þeir voru taldir beztir þar í landi, en það var í Leeds og umhverfi hennar. Jafnframt las ég ensku hjá fræðimanni við háskóla borgarinnar og kenndi honum jafnframt íslenzku, sem hann hafði lengi þráð að kynnast, eftir því sem hann tjáði mér. Lífið lék við mig.
Svo sóttu menn um stöðu þessa, skólastjórastöðuna við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum sumarið 1931. Þá tók að kvisast, að meiri hluti skólanefndarinnar hefði ráðið ungan guðfræðikandidat til þess að sækja um stöðuna gegn mér og verða þannig valdur að því, að ég yrði sviftur því starfi, sem ég hafði unnið að sleitulaust á undanförnum árum. Þessi guðfræðingur hafði aldrei ætlað sér annað en að verða þjóðkirkjuprestur, - aldrei skólamaður. En hann lét nú sem sé til leiðast að bregða sér kippkorn frá marki sínu og hjálpa flokksbræðrum sínum til þess að svifta þennan óæskilega fjölskyldumann stöðu sinni og lífsstarfi, sem hann hafði í rauninni skapað sjálfur með takmarkalausri vinnu. Guðfræðingnum var í rauninni vorkunn. Og við megum ekki dæma hann hart. Hann hafði ekki lesið guðfræði og kristin siðfræðileg vísindi nema átta ár við Háskóla Íslands og erlenda háskóla. A ekki lengri tíma lærist knapplega svo að haldi komi gegn freistingum hin kunnu orð Krists: „Það, sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ Ég geri ráð fyrir, að mér sjálfum hefði ekki veitt af 16 ára guðfræðinámi til þess að læra þessa lífsspeki og verða öruggur gagnvart henni, ef mér hefði til dæmis áskotnazt vinfengi voldugra peningamanna og virðulegra þingmanna og orðum skrýddra konsúla! Þá hefði ég að öllum líkindum látið freistast og lagt þessa kenningu Krists á hilluna, í bili a. m. k. Svona erfið hefur hún reynzt mér um dagana, þegar freistingarnar steðja að! Vei okkur, vesölum.
Lífsreynsla mín er sú, að guðfræðinám og kristilegt stagl bætir lítið mannskepnuna, veldur lítilli mannrækt eða sönnum þroska, sé hjartað, sem undir slær, ekki með.

Umsókn minni stungið undir stól
Og nú hófust átökin. Guðfræðikandidatinn hlaut fjögur atkvæði í skólanefndinni til starfans en ég aðeins eitt, atkvæði sóknarprestsins.
Svo sem hálfum mánuði eftir að gert var út um umsóknirnar í skólanefndinni, hringdi fræðslumálastjórinn, Ásgeir Ásgeirsson, til mín og spurðist fyrir um það, hvers vegna ég hefði ekki sótt um skólastjórastöðuna við Gagnfræðaskólann. Mér brá. Vissulega hafði ég sótt um hana og atkvæði sóknarprestsins var bókað mér til stuðnings.
Við rannsókn málsins kom í ljós, að skólanefndarformaðurinn hafði aldrei sent fræðslumálaskrifstofunni umsókn mína, heldur blátt áfram stungið henni undir stól. Hann mun ekki hafa talið það nauðsynlegt, þar sem hið alls ráðandi vald í kaupstaðnum átti einnig skilyrðislaust vald sitt í þessum efnum eins og annars staðar, og það hafði ótvírætt sýnt vilja sinn með fjórum atkvæðum gegn einu. Valdið var þeirra. Og guðfræðingurinn var þeirra. Allt var þeirra, og gegn því valdi hafði enginn til þessa leyft sér að rísa. Það var óþekkt fyrirbrigði í bænum.
Von bráðar fékk ég svo skipunarbréfið fyrir skólastjórastöðunni. Þá var Jónas Jónsson frá Hriflu kennslumálaráðherra. Hann undirritaði sjálfur skipunarbréfið, sem ég geymi eins og sjáaldur auga míns. Það er dagsett 9. september 1931.
Sökum þeirrar áráttu árásarmanna minna í Eyjum, að stöðuveiting þessi hafi verið pólitísk, þá leyfi ég mér að minna á þá staðreynd, að ég var þá Alþýðuflokksmaður en Ásgeir Ásgeirsson og Jónas Jónsson báðir í forustuliði Framsóknarflokksins. Um pólitíska veitingu var því ekki að ræða.
Margt lastyrðið hlaut Jónas Jónsson hér í kaupstaðnum fyrir þá bíræfni að skipa mig skólastjóra í Vestmannaeyjum gegn vilja alls ráðandi meiri hluta í skólanefnd og bæjarstjórn. „Það hefði ég aldrei vogað, ekki þorað það þín vegna, því að ég þekki öflin þar, ef fræðslumálastjóri hefði ekki sótt þetta svona fast. Hann tók ábyrgð á þér.“ Þessi orð lét Jónas Jónsson mig heyra mörgum árum síðar. Fræðslumálastjóri var aldrei nefndur á nafn í sambandi við stöðuveitinguna og ég steinþagði. Hótanir dundu yfir, og konan þorði naumast að vita af mér einum á götum bæjarins, þegar skyggja tók.
Guðfræðikandidatinn sótti brátt um prestsstarf og tók vígslu. Kunnugur tjáði mér, að við það tækifæri hefði hann flutt innfjálga ræðu og lagt út af þeim orðum Krists, sem ég hafði eftir hér að framan. Þannig var hann kominn í heila höfn!
Og nú var tekið að hugsa mér þegjandi þörfina og svo prestinum, sem hafði dirfzt að fylgja fram sannfæringu sinni eins og Kristur sjálfur gerði. Aldrei fyrr hafði það átt sér stað í Eyjum, að valdið einráða væri hunzað svo gjörsamlega. Sá, sem því olli, skyldi svo sannarlega fá makleg málagjöld. Starfsfrið skyldi hann engan fá í kaupstaðnum. Þetta var glæpur, sem skyldi hefna sín grimmilega, svo að eftirminnilegt yrði þeim, sem drýgstan átti þáttinn í honum. Það var ég auðvitað, vesalingur minn. Og skyldi sú húðstrýking öll verða öðrum til aðvörunar!
Mér er enn í fersku minni fyrsti skólanefndarfundurinn eftir að skipunarbréfið barst mér í hendur. Þingmaðurinn, sem var líka kaupmaður og konsúll, sat fund þennan. Hann hafði hátt og fór mörgum orðum um það óþolandi ástand, sem nú ríkti í þessu landi um allar stöðuveitingar. Hann nefndi sem dæmi stöðu rektors við Menntaskólann í Reykjavík, þar sem Pálmi Hannesson hafði hlotið þá stöðu gegn vilja allra kennara skólans og meginþorra Reykvíkinga og svo margra annarra málsmetandi manna bæði utan þings og innan. -Enginn hreyfði orði annar á skólanefndarfundinum um þessi mál. Síðast skammaði þingmaðurinn skólanefndarformanninn fyrir þá smán og sneypu, sem hann hefði bakað þeim öllum með því að stinga umsókn minni undir stól. Þá uppgötvaði ég þá staðreynd, að þingmaðurinn hafði ekki verið við þær gjörðir riðinn. En í viðtölum í sölum alþingis hafði Ásgeir fræðslumálastjóri haft gaman af að brýna þingmann kjördæmisins á þessu einstæða fyrirbrigði í skólasögu þjóðarinnar um veitingu skólastjórastöðunnar í Vestmannaeyjum. Svo kímdi fræðslumálastjóri og krimti, eins og hans var vani, þegar sá gállinn var á honum. Þeir sátu sem sé báðir á alþingi samtímis.
Þingmaðurinn hvarf brátt úr skólanefndinni. Áhuga hans fyrir verkefni hennar var lokið. - Hlutverki hans þar var lokið. Nú skyldi áhrifa hans gæta svo að um munaði utan við þá klíku fáráðlinga, sem hafði valdið honum sársauka og álitshnekkis meðal málsmetandi manna í þingi þjóðarinnar.
Ýmislegt óvænt og sérlegt tók að bæra á sér í sambandi við þetta „hneykslismál“ í bænum, eftir að bæjarvaldið mikla hafði verið hunzað með því að ráða mann til starfa gegn vilja þess. Starfsfrið skyldi sá maður aldrei fá!

Ég stofna iðnskóla í Eyjum
Á þessum árum var byggingarfulltrúi í Vestmannaeyjum Sveinbjörn Gíslason. Hann var maður vel að sér í sinni grein, samvizkusamur með afbrigðum í starfi sínu og hafði mikinn hug á að bæta úr brýnni þörf með iðnnemum í kaupstaðnum. Þeir þurftu og áttu að njóta fræðslu, bæði verklegrar á skólabekk (teikninám) og munnlegrar. Það þurfti sem sé nauðsynlega að kenna iðnnemunum þar ýmislegt, sem laut að iðnaðarstarfi umfram það sem lært var t. d. við hefilbekkinn eða rennibekkinn. -Byggingarfulltrúinn auglýsti iðnnámsskeið í blöðum í kaupstaðnum haustið 1929 og vildi þar með hefja þetta áhugastarf sitt. Þessu boði hans var lítið sinnt. Mér er ekki kunnugt um, að námskeið þetta hafi nokkru sinni verið starfrækt.
Haustið 1930 kom þessi mæti maður til mín og færði það í tal, að ég stofnaði vísi að iðnskóla í kaupstaðnum. Hann færði fram skýr rök fyrir þörf hans. Jafnframt skoraði hann á mig, að ég hæfist þá þegar handa, auglýsti skólastofnunina og skipulegði kennsluna í samráði við hann. Þetta gerðum við. Ég auglýsti skólann, hinn nýstofnaða iðnskóla í Vestmannaeyjum. Auglýsingin birtist í Víði, „Flokksblaðinu,“ og hljóðaði þannig: Iðnskóli Vestmannaeyja verður settur 1. okt. n. k. Námsgreinar: Teikning, íslenzka, danska, bókfærsla og enska (með undanþágu).
Við höfðum nokkra iðnmeistara í bænum í ráði með okkur. Þar minnist ég Magnúsar bakarameistara Bergssonar og Karls Gränz trésmíðameistara. En ráðgjafi minn í því brautryðjandastarfi var Helgi Hermann Eiríksson skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík og fyrrv. kennari minn veturinn, sem ég stundaði námið í Kennaraskólanum.
Nokkra nemendur fengum við í iðnskólann og héldum námskeið þetta fram á vetur. Skýrslu um þetta starf á ég í fórum mínum. - Ég kenndi móðurmálið í skóla þessum og byggingarfulltrúinn teikningu og e. t. v. fleira. Báðir kenndum við endurgjaldslaust, auðvitað, því að fjárframlög til starfsins voru engin.
Við fengum þó að nota ókeypis kennslustofu Gagnfræðaskólans í austurálmu barnaskólans handa iðnskólanum.
Smávegis skólagjald greiddu iðnnemarnir eða meistarar þeirra og fengu aðrir kennarar það fyrir kennslu sína.
Við entum svo námsskeiðið með samsæti og góðum kveðjuorðum. Iðnnemarnir lýstu þá yfir ánægju sinni með námið og við byggingarfulltrúinn vorum þakklátir forsjóninni fyrir það, að geta komið svona góðu starfi til leiðar.
Árið 1930 stofnuðu iðnaðarmenn í kaupstaðnum félag með sér, - Iðnaðarmannafélag Vestmannaeyja. Þegar ég hafði lokið hinum fyrsta vetri þessa nýstofnaða iðnskóla, afhenti ég hann hinu nýstofnaða Iðnaðarmannafélagi í bænum.
Ég uppgötvaði það bráðlega við kennslustörf í hinum nýstofnaða iðnskóla mínum, að ég mundi aldrei hafa ánægju af að kenna þar eða annast skólastjórn. Og hver var ástæðan, eins og ég hafði mikla ánægju að hinu skólastarfinu? Já, mér féll illa þetta starf með iðnnemunum, þó að ég hefði ekki orð á því við nokkurn mann út á við. Þarna hafði ég í tímum tóbaksneytendur og suma í stórum stíl, og svo áfengisneytendur, svo að almennt var vitað í bænum.
Iðnaðarmannafélag Vestmannaeyja réð einn af kennurum barnaskóla kaupstaðarins, Halldór Guðjónsson, til þess að stjórna skólanum, annast iðnskólareksturinn. Það gerði hann síðan í mörg ár. Þennan iðnskóla sinn reka iðnaðarmenn í Eyjum enn þann dag í dag, eins og sjálfsagt er.
Ég get þessa skólastarfs míns hér sökum þess, að Kvöldskóli iðnaðarmanna í bænum var notaður um árabil til þess að þrengja kosti Gagnfræðaskólans, sem þurfti að leigja húsnæði hjá iðnaðarmönnum að Breiðabliki og hafa Kvöldskóla iðnaðarmanna sem möru á sér í sama húsnæðinu. Jafnframt var kostað kapps um að ginna unglingana til þess að sækja fremur Kvöldskólann en Gagnfræðaskólann. Þessi áróður dró úr aðsókn að Gagnfræðaskólanum. Sú staðreynd var síðan notuð til árásar á mig persónulega. Ég mun finna þessara orða minna stað hér á eftir með því að vitna í Flokksblaðið í kaupstaðnum, þegar að því kemur í bréfi þessu. Vertu þolinmóður við mig, frændi minn góður, mér er mikið niðri fyrir.

Samvinnuskólapilturinn sannar ágæti sitt
Árið 1931 mun það hafa verið, sem ungur Vestmannaeyingur lauk einhverju prófi við Samvinnuskólann. Hann var sonur meðhjálparans við Landakirkju í Eyjum. Sá maður hafði lengi lifað þar og dafnað við margvísleg störf um langt árabil, enda orðinn aldraður, þegar hér er komið sögu. Hann var af kunnugum talinn sómamaður, og góður Flokksmaður var hann með hreinustu afbrigðum. Þess vegna gátu valdsmennirnir í kaupstaðnum illa í því skilið eða sætt sig við það, að hann skyldi endilega þurfa að senda son sinn í skóla til hins hættulegasta andstæðings Flokksins, Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Forustuliðið tortryggði þessar gjörðir um nám og skólagöngu hins unga manns. Hafði hann smitazt hættulega?
Ungi maðurinn hins vegar sór og sárt við lagði, að hann á engan hátt væri minni fylgismaður Flokksins nú en fyrir dvöl sína í Samvinnuskólanum. Jafnvel væri hann nú harðari til sóknar fyrir málstað hinna allsráðandi í bænum. Það skyldi hann sýna og sanna, þegar tilefni gæfist til. Forstöðumönnunum þótti nú þetta trúlegast, þrátt fyrir allt, þar sem piltur þessi var alinn upp í guðsótta og góðum siðum á sjálfu meðhjálparaheimilinu! Jú, þess var vænzt í lengstu lög, að hið góða uppeldi hans og svo manndómur hans sjálfs, sem hann átti kyn til, hefði hamlað því, að hinn vondi maður hefði náð nokkru tangarhaldi á sálarlífi piltsins, sem hét og heitir Sigurður S. Scheving.
Loks kvaðst ungi Samvinnuskólapilturinn skyldi sýna það og sanna á næsta þingmálafundi í bænum, og svo í skrifum sínum og blaðagreinum, að sálarlífið væri gjörsamlega óspillt eftir námið í Samvinnuskólanum. Hann bað þingmanninn að veita sér orðið á næsta þingmálafundi, svo að hann gæti þar sannað, hvers hann dygði til. Fundur sá var skammt undan. Þar skyldi hann vissulega taka til bæna tvo bæjarmenn alveg sérstaklega, nefnilega Ísleif (Högnason kaupfélagsstjóra og bæjarfulltrúa verkamanna í bæjarstjórn) og Þorstein, „handbendi Hriflons.“ Og brátt hélt þingmaðurinn þennan þingmálafund í Nýjabíó, húseigninni nr. 28 við Vestmannabraut, því að hann var að hverfa til þingsetu. Fundur þessi hefur verið mér æ síðan eftirminnilegur. Aldrei minnist ég þess að hafa setið aðra eins skrílsamkundu.
Þegar þingmaðurinn hafði talað lengi og skýrt fyrir fundarfólki gildi og starf Flokksins fyrir land og lýð og þá alveg sérstaklega útvegsbændur í Eyjum, gaf hann Samvinnuskólapiltinum orðið. Hann reyndist töluvert tölugur og bunan stóð úr honum. Allt, sem hann sagði, voru persónulegar svívirðingar á okkur Ísleif Högnason og verkalýðssamtökin í kaupstaðnum. Hann fór mörgum orðum um það ofbeldi og þá smán, sem bæjarfélaginu í heild var sýnd, þegar ég var skipaður skólastjóri Gagnfræðaskólans í kaupstaðnum. Og meira sagði hann í þeim dúr. Fundarmenn klöppuðu einhver ósköp fyrir ræðumanninum. Hann var nánast hylltur. Sumir héldu því fram eftir á, að ræðan hans hefði að einhverju leyti verið samin handa honum til flutnings. Þar drap hann á atriði, sem hann naumast gat vitað sjálfur.
Þegar leið á þennan eftiriminnilega fund og ýmsir „góðir Flokksmenn“ höfðu tekið til máls, reis þingmaðurinn úr sæti sínu. Hann þakkaði „unga Vestmannaeyingnum“ fyrir hina skeleggu og skörulegu ræðu og klingdi út með þessum orðum: „Ég hefði ekki getað gert það betur.“ Þá kvað við dynjandi lófaklapp í salnum. Aðrir hlógu svo hátt, að gall við gegnum hávaðann af lófaklappinu. Sumir æptu.
Þegar faðir Samvinnuskólapiltsins gekk út úr fundarsalnum, sagði hann við kunningja sinn hreykinn mjög og lyfti höfði og höku, svo að rauðu skeggbroddarnir teygðu á sér fram og upp-á-við: „Það sé ég, að þegar Jóhann fellur frá, þá verður Sigurður minn þingmaður.“ Ungi ræðumaðurinn var sem sé Sigurður S. Scheving frá Hjalla í Eyjum. Svona gagntekinn var gamli maðurinn af getu sonar síns.
Þegar ég les dagbók mína frá þessum árum, þá minnist ég jafnan þessa fundar með kátínu og glettni og um leið auknum skilningi á menningarástandinu í Vestmannaeyjakaupstað. Hvað hefði Eyjafólk álitið um slíka samkundu svo sem 20 árum síðar? Hún hefði tæpast verið metin mikils, - talin skrílssamkunda og skoplegt fyrirbrigði.

Presturinn fær ádrepu
En nú þurfti að hirta sóknarprestinn fyrir atkvæði hans mér til stuðnings í skólanefndinni. Bezt þótti að gera það undir dulnefni, því að verknaður sá varð eflaust illa séður af mörgum, líka Flokksmönnum, svo vinsæll sem sóknarpresturinn var í sókn sinni. Hann naut trausts og virðingar allra Eyjamanna, og það var ekki vandalaust verk að mæla honum út þann skammt, sem hann þó áleizt hafa unnið til með atkvæði sínu í skólanefnd.
Í Víði, Flokksblaðinu, 19. sept. (1931) birtist klausa, sem kölluð var Ráðgáta. Allir skynigæddir Eyjabúar þekktu orðalagið á henni og vissu þess vegna, hver sá huldumaður var, sem nú kallaði sig Örn. Hér birti ég klausu þessa orðrétta.

Grein huldumannsins og 10 sálmabækur
„Nýlega hefur skólastjórastaðan við gagnfræðaskólann hér verið veitt. Voru tillögur mikils meiri hluta skólanefndar að engu hafðar og staðan veitt eftir duttlungum kennslumálaráðherrans, og kemur þar í ljós enn sem fyrr ranglæti hans, lítilsvirðing hans á lögum og rétti, fjandskapur hans gegn skólum og menntun landsmanna og persónuleg óvild hans gegn Vestmannaeyjum.
En tillögur skólanefndar hér leiddu enn fremur í ljós merkilegt fyrirbrigði.
Um skólastjórastöðuna sóttu fjórir menn, þrír þeirra höfðu lokið háskólaprófi en einn kennaraprófi.
Milli þessara manna átti skólanefnd að velja. Gera má ráð fyrir, að þeir þrír, sem lokið höfðu háskólaprófi, hefðu allir verið vel hæfir til þess að veita skólanum forstöðu, enda mun það hafa verið álit meiri hluta skólanefndar, og hún því mælt með því, að einum þeirra yrði veitt staðan.
Einn skólanefndarmanna mælti samt ekki með neinum þessara þriggja, heldur með þeim umsækjandanum, sem stóð hinum skör lægra að menntun, og sá, sem þetta gerði, var sóknarpresturinn.
Nú er þess að gæta, að tveir af umsækjendunum voru guðfræðingar, báðir með háu prófi, og höfðu auk þess siglt til framhaldsnáms. Samt munu þeir í augum prestsins hafa verið ver til þess fallnir að veita skólanum forstöðu en sá, sem lokið hafði kennaraprófi.
Af þessu verður ekki annað séð, en að lítilsvirði sé menntun guðfræðinga, eða a.m.k. sé hún það í augum prestsins. Hér er því vart hægt að sýna sinni eigin menntun meiri lítilsvirðingu en sóknarprestur hefur gert með framkomu sinni gagnvart þessum tveimur umsækjendum.
Undarlegri er framkoma klerks, þar sem hefði mátt ætla, að honum hefði verið það sérstakt ánægjuefni að fá í plássið guðfræðing eða prest, sem ef til vill hefði getað orðið honum til styrktar í starfi hans, sem báðir umsækjendurnir voru líklegir til að verða. Auk þess hefði presti átt að vera það áhugamál, að guðfræðingur starfaði við skólann og reyndi að hafa þar kristileg áhrif á nemendur.
Afstaða prests til þessara umsækjenda hlýtur því að vera öllum hugsandi mönnum hér ráðgáta.
En fróðlegt væri að vita, hvaða álit prestur hefur á menntun guðfræðinga?

Örn.“

Og nú varð kurr sumstaðar í bænum og pilsaþytur mikill. Kristilegur flokkur karla og kvenna, sem presturinn hafði fórnað miklu starfi, lét til sín heyra, þó ekki í blöðum bæjarins, en á fundum sínum og víðar. Höfundur greinarinnar varð kuldans var og tók að hugsa ráð sitt, því að „góðir Flokksmenn“ og „sterkar konur“ áttu hlut að máli, þegar presturinn sjálfur var óvirtur. Og greinarhöfundurinn fann ráðin: Hann sendi þeirri konunni, sem hæst hafði, tíu sálmabækur handa félagsskap þeirra, og allt féll í ljúfa löð. „Gefur hann enn, blessaður!“ Og við hlógum. Þessa sögu sagði bóksalinn mér sjálfur, en hann tók það að sér að senda bækurnar til konunnar, sem mest lét þjóta í pilsum sínum vegna ádeilunnar á prestinn. Og svo hló bóksalinn hjartanlega og við hlógum báðir.
Meðan þessu fór fram, skrifaði prestur langa blaðagrein sér til varnar og mér til sóknar. Greinina birti hann síðan í Flokksblaðinu. Þessa grein sendi ég þér hér með, frændi minn góður, af því að mér þykir vænt um hana. Höfundur hennar er líka einn hinna heiðarlegustu og heilsteyptustu manna og trúmanna, sem ég hef kynnzt á lífsleiðinni, sannkristinn maður, eins og við ófullkomnir menn getum bezt gert okkur grein fyrir hugtaki því.
Og hér kemur svo greinin birt í Flokksblaðinu 26. sept. 1931.

Hversvegna ég mælti með Þorsteini Þ. Víglundssyni

Sökum þess að í blaði þessa bæjar hefur verið átalið all harðlega, að ég skyldi mæla með Þorsteini Þ. Víglundssyni sem skólastjóra við gagnfræðaskólann hér, tel ég rétt að gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég mælti með honum.
Þegar meta skal kosti manns til skólastjórastöðu, kemur að mínum dómi til greina bæði menntun og kennarahæfileikar.
Einn umsækjandinn um stöðu þá, sem hér er um að ræða, hafði lokið háskólaprófi í tungumálum. Tveir umsækjendurnir höfðu lokið guðfræðiprófi með hárri einkunn við Háskóla Íslands. Báðir höfðu þeir hlotið styrk til framhaldsnáms í guðfræði, dvalið við nám í Englandi og lagt sig eftir enskri tungu, meðan þeir voru þar. Annar getur þess í umsókn sinni, að hann hafi kynnt sér nokkuð enska skóla. Fjórði umsækjandinn, Þorsteinn Þ. Víglundsson, hafði lokið prófi við Kennaraskólann og vantaði aðeins brot úr stigi til þess að hann hlyti 1. ágætiseinkunn. Hann hafði lokið prófi við búnaðarháskólann á Hvanneyri, þar sem lært er a. m. k. jafnmikið í náttúrufræði og krafizt er til stúdentsprófs í máladeild. Hann hafði stundað nám í tvo vetur í Lýðháskólanum í Voss í Noregi undir handleiðslu þekktasta lýðháskólamanns Norðmanna, Lars Eskelands. Hann hafði lokið stúdentsprófi í stærðfræði, sögu og norsku við menntaskólann í Volda í Noregi og hann hafði lokið gagnfræðaprófi í ensku og þýzku við sama skóla. Loks hafði hann dvalið í sumar í Englandi til þess að nema ensku og kynna sér ungmennafræðslu.
Ég leit svo á, að umsækjendurnir hefðu allir næga menntun til þess að gegna skólastjórastarfi við gagnfræðaskólann. Og mér virtist munurinn á gildi menntunar þeirra fyrir skólastjórastarf við ungmennaskóla ekki vera svo mikill, að hann einn geti skorið úr um það, hvern ætti að velja. Lærdómur þeirra virðist vera svipaður í flestum þeim námsgreinum, sem ber að kenna við skólann. Fræðigreinar þær, sem háskólagengnu mennirnir hafa tekið háskólapróf í, eru ekki kenndar við skólann, og guðfræðideildin veitir sérstakan undirbúning undir prestsstörf en ekki ungmennaskólastarf. Þó hlýtur sérmenntun hinna háskólagengnu manna að vera nokkurs virði fyrir skólastjórn við ungmennaskóla, sérstaklega sérmenntun guðfræðinga. En hins vegar hefur Þorsteinn Þ. Víglundsson mesta þekkingu í skólamálum, að því er varðar ungmennaskóla. Hann einn hefur kynnzt til hlítar fyrirmyndar ungmennaskóla erlendis og starfsaðferðum skólamanns, sem er viðurkenndur afburðamaður á því sviði, og hann einn á nokkuð að ráði af þeirri þekkingu í skólamálum, sem reynslan veitir.
Kennsluhæfileikar þriggja umsækjendanna virðist vera frekar lítið reyndir og voru mér algjörlega ókunnir.
Þorsteinn Þ. Víglundsson hefur aftur á móti verið skólastjóri unglingaskólans hér í Vestmannaeyjum í 3 ár og gagnfræðaskólans í eitt ár. Hann hefur sýnt dugnað í því starfi. Undir stjórn hans hefur nemendafjöldinn í skólanum vaxið jafnt og þétt, þrátt fyrir það að ytri aðstæður hafa að ýmsu leyti verið erfiðar. T.d. hefur húsrúm verið mjög af skornum skammti og að sumu leyti óhentugt. Í unglingaskólanum voru næsta skólaár, áður en Þorsteinn tók við skólastjórn, 19 nemendur þegar flest var þar, en síðastliðið ár voru 47 nemendur í skólanum, þá flestir voru.
Þau ár, sem Þorsteinn hefur starfað hér, hef ég haft allgóða aðstöðu til þess að kynnast kennarahæfileikum hans, líklega betri aðstöðu en flestir aðrir í þessum bæ, þar sem ég hef verið prófdómari við skólann flest árin. Ég hef af þeim kynnum sannfærzt um það, að skólastjórn fari Þorsteini vel úr hendi, og að hann sé gæddur mjög góðum hæfileikum til að halda aga og fá aðra til að nema.
Um atkvæði mitt réði það úrslitum, að kennarahæfileikar Þorsteins voru fullreyndir, og ég þekkti þá af reynslu, en kennarahæfileikar hinna eru ýmist lítið reyndir eða alveg óreyndir að því er varðar kennslu í ungmennaskóla og skólastjórn.
Háskólamenntun veitir ekki tryggingu fyrir dugnaði í skólastjórn, lægni til að halda góðum aga og góðum hæfileikum til að láta unglinga nema. Háskólagengnu mennirnir geta vel verið ágætum hæfileikum búnir í þessum efnum, allir saman, en það var ekki unnt að vita það með vissu. Eg taldi hins vegar vissu í þessum efnum svo mikils virði, að þeim manninum bæri að veita stöðuna, sem reynsla var fengin fyrir, að er prýðilegur unglingakennari og góður skólastjóri. Að vel athuguðu máli virðist mér sú reynsla meira virði en menntun sú, sem hinir umsækjendurnir hafa fram yfir Þorstein.
Ég gat því ekki lagt til, að Þorsteinn Þ. Víglundsson yrði látinn hætta að veita forstöðu unglingaskóla í þessum bæ, og einhver hinna umsækjendanna fenginn í staðinn. Ég hlaut að mæla með Þorsteini Þ. Víglundssyni.
Ég veit, að margir menn hér í bæ líta öðrum augum á þetta mál en ég. Það er svo í flestum málum, að skiptar eru skoðanir. En ég vona, að flestir menn sjái af því, sem ég nú hef sagt, að það var ekki eins auðvelt að velja milli umsækjendanna og ónafngreindu höfundarnir, sem skrifuðu um þetta mál í síðasta tölublaði Víðis, virðast ætla, og það var engin óskiljanleg fjarstæða að mæla með Þorsteini Þ. Víglundssyni. Ég veit, að allir sanngjarnir menn skilja þetta, hvort sem þeir álíta mig hafa gert rétt eða rangt, að það var hvorki illvilji við æsku þessa bæjar né óvild til kristindómsmála, sem réði atkvæði mínu, eins og greinarhöfundur virðist helzt hafa viljað fá fólk til að trúa, heldur greiddi ég atkvæði eftir því sem sannfæring mín og samvizka bauð mér. Ég mun því láta mér í léttu rúmi liggja, þótt einhverjir verði framvegis út af þessu máli með ónot í minn garð, sem þeir vilja ekki setja nafn sitt undir.
Ég vil svo benda á, að það er meira en hæpinn greiði, sem æskulýð þessa bæjar er gjörður með því að flytja rangar frásagnir um menntun Þorsteins Þ. Víglundssonar og lítilsvirða hann í ræðu og riti, því að vel mætti það verða til þess, að starf hans í skólanum yrði áhrifaminna og um leið gagnsminna en ella, og til þess að hindra einhverja unglinga frá því að koma í skólann, sem misstu þannig af menntun ,sem gæti komið þeim að gagni síðar í lífinu.
Menn verða að muna, að Þorsteinn Þ. Víglundsson er skipaður skólastóri við Gagnfræðaskólann, og því verður tæplega breytt að sinni. Æskulýður þessa bæjar á að búa að starfskröftum hans um skeið. Allir hugsandi menn hljóta því að æskja þess, að hann fái notið sín, svo að hann fái unnið æskulýð þessa bæjar allt það gagn, sem frekast má verða, líka þeir, sem frekar hefðu kosið, að skólastjórinn hefði orðið annar.

Sigurjón Árnason.

Samvinnuskólapilturinn svaraði fyrir huldumanninn
Í fjarveru árásarmannsins á sóknarprestinn tók nú samvinnuskólapilturinn að sér það hlutverk að svara fyrir huldumanninn, sem kallaði sig Örn.
Veittu því athygli, vinur minn, að piltur þessi fullyrðir, að nemendur Gagnfræðaskólans eigi að geta numið eða tileinkað sér þá þekkingu á tveim vetrum, sem ég hafði baslað við að nema á 6-8 árum, ef bókleg kennsla í Gagnfræðaskólanum væri með eðlilegum hætti. Taktu vel eftir þessu, því að síðar í fjármálastússi þessa sama manns í kaupfélagsstjórastöðu fór allt hans brak og braml á einn og sama veg, sökum skorts á ályktunargáfu. Allt fór það á hausinn og hann með. Þroskuð ályktunargáfa er hverjum manni mikil nauðsyn, eigi hann að annast fjármál.
Hér birti ég þér svo nokkuð af hreytum piltsins í sóknarprestinn. Þær sanna að töluverðu leyti menningarástandið í bænum þeim, þar sem mammon réði öllum ríkjum, sýna og sanna, hve ömurlegt það var, sem fólkinu var boðið að lesa um mann eins og séra Sigurjón Árnason, sóknarprest. Enda liðu ekki mörg ár, þar til Eyjabúar reyndust vaxnir upp úr þessu foræði öllu.
Svo færðu hér grein Samvinnuskólapiltsins, Sigurðar S. Schevings:
„Presturinn hefur nú fært fram ástæðurnar fyrir því, hvers vegna hann mælti með Þorsteini Þ. Víglundssyni. En þar sem hann hefur orðið svo óheppinn að byrja grein sína á því að segja það, að aðeins kennarahæfileikar og menntun eigi að ráða við val skólastjórans, þá þykir blaðinu rétt lesendanna vegna að sýna fram á það með rökum, að presturinn hefur, með því að mæla með Þorsteini alls ekki farið eftir því. Og skulu hér nefnd dæmi:
1. Presturinn vissi alls ekki, hvort hinir umsækjendurnir væru gæddir verri kennarahæfileikum en Þorsteinn. Miklu fremur mátti búast við því, að þar sem þeir eru betur menntaðir, þá muni þeim hægar að láta góða menntun í té. Hefur hann því eftir þessu alls ekki dæmt eftir kennarahæfileikum mannanna. Enda liggur það í augum uppi, að þar sem hann, eftir því sem hann sjálfur segir, þekkti ekki hæfileika þeirra, þá gæti hann ekki dæmt eftir þeim.
2. Hvað menntuninni viðvíkur, þá hefur hann viðurkennt það, að hinir umsækjendurnir hafi meiri menntun. Hann hefur þá í þessu tilfelli farið eftir því, hver hefur minnsta menntun.
Þetta er nú byrjunin. Og þess vegna mátti svo sem búast við, að ekki tæki betra við, þegar að framhaldinu kom. Og sú varð raunin á, því að það er ekki annað en oflof um Þorstein, sem varla hefði verið takandi í útfararræðu, hvað þá heldur í rökræðu um kosti og galla manna. Presturinn verður að viðurkenna það, að hinir þrír, sem hafa aflað sér sérmenntunar og framhaldsnáms, muni frekar látið ungmennum þessa bæjar menntun í té, heldur en maður, sem hefur gengið i lýðháskóla og kennaraskóla, því að sú menntun er ekki meiri en það, að hver duglegur nemandi ætti að hafa hana eftir tveggja ára nám í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, ef á annað borð skólinn léti þá menntun í té, sem hann ætti að geta með því að hafa sæmilega góða kennara. (Leturbreytingin er mín til þess að vekja athygli á þekkingu þeirri og dómgreind um fræðslumál, sem þessi orð bera vitni um. Þ. Þ. V.).
Og að síðustu: „Það er enginn efi á því, að presturinn getur kennt Þorsteini mikið, enda þótt hann veitti honum aðeins tilsögn í því, er hann hefur lært af því að vera í hinum almenna menntaskóla, enda þótt hann sleppti með öllu því, sem hann hefur lært í Háskóla Íslands . ..“ Og að lokum: „Presti þýðir ekkert að fara þess á leit, að Víðir þegi yfir þessu gönuhlaupi hans og Jónasar, því að Víðir vill gera það, sem hann getur, til þess, að þeir, sem fara í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja hljóti sem bezta menntun þrátt fyrir það, þó að til séu menn, sem setja vilja fótinn fyrir það, - já, jafnvel menn, sem hugsa eiga um það eingöngu, að sálin verði sem þroskuðust í hverjum einstaklingi. Og þar með er ástæðulaus aðdróttun prestsins um það, að nokkuð hafi verið gert til þess, að nemendur hættu við að fara í skólann. Þeir einir eiga sök á slíku, sem af pólitískum ástæðum hafa sett óhæfari kennara í skólann en annars þyrfti að vera. Það er þeirra að biðja um fyrirgefningu synda sinna.“

S.S.S.


Þessum íhreytum anzaði presturinn ekki. Hann bað því aldrei um fyrirgefningu þessara synda!
Og blessaður tíminn leið og hver atburðurinn rak annan.
Samvinnuskólapilturinn (S. S. S.) hafði nú sannað forustumönnum Flokksins, hvaða töggur voru í honum til ræðumennsku og skrifa, svo að eitthvað varð fyrir hann að gera í bænum. Honum voru nú útvegaðir fjármunir til þess að geta stofnað kaupfélag. Það skyldi draga úr vexti og viðgangi hinna tveggja „vinstri“ kaupfélaga, sem starfrækt voru í bænum, Kaupfélag alþýðu og Kaupfélag verkamanna. Og ekki stóð á því að fá trausta ábyrgðarmenn á víxlana fyrir þetta kaupfélag Flokksins.
Jafnframt þessum glæsileik öllum hélt samvinnuskólapilturinn áfram að skrifa í flokksblaðið og varð nú brátt aðstoðarritari þess. Flokksforustunni fannst hann alveg bráðefnilegur og upprennandi baráttumaður flokksins og foringjaefni. Allt, sem hann skrifaði, var svo vel og skynsamlega orðað og hugsað!
Hver rógsgreinin á fætur annari birtist í blaði Flokksins eftir þennan pilt. Þannig var það viku eftir viku. En sumum óbreyttum flokksmönnum fannst þó lítið til þessara skrifa komið. Þeir voru byrjaðir að hugsa. Ef til vill var það þroskamerki. Voru þeir að vaxa frá Flokknum? Var ekki eitthvað gruggugt í þessu öllu saman? Samræmdist það innra manni þeirra lengur og lífshugsjón að efla þetta vald í bænum, þar sem eiginhagsmunir voru settir ofar öllu og fáráðlingar keyptir til skítverkanna?
Fólkið var farið að hugsa og forustuliðið varð þess vart.
Og svo leið að næstu bæjarstjórnarkosningum. Þær áttu fram að fara 1934.
Þess vegna reið á því að halda áfram að skrifa. Það gerði samvinnuskólapilturinn og dró hvergi af sér, enda hvattur til þess óspart. Skammirnar dundu á okkur hinum vikulega.
Eg má til með að skrifa hér upp nokkrar glefsur úr greinum hans, sem leiddu til þess, að hann gekk sér gjörsamlega til húðar í þessu starfi sökum skorts á dómgreind og eigin vitund um takmörk sín. Hinir hógværari og skynsamari menn í Flokknum mótmæltu og hótuðu. Aðrir tóku sínar ákvarðanir þegjandi og hljóðalaust. Við fundum hin hallkvæmu áhrif af skrifum þessum. Fylgi Flokksins fór minnkandi. Fólkið þroskaðist og óx frá ósköpum þessum.
Við bæjarstjórnarkosningarnar árið 1934 tapaði Flokkurinn sjötta fulltrúanum í bæjarstjórn kaupstaðarins. Þá þegar hafði mikið áunnizt, fannst okkur. Stórt skarð var brotið í valdavegg eiginhagsmunaklíkunnar í bænum, konsúlanna og kaupmannanna með nánustu fylgifiskum. Enn var það verk óunnið að fella fimmta fulltrúann þeirra frá setu í bæjarstjórn, svo að Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum gæti eignazt veglega byggingu fyrir starfsemi sína. Gegn þeirri hugsjón minni stóð öll þessi eiginhagsmunaklíka sem samfelldur múrveggur. Það skyldi aldrei gerast í minni skólatíð þar, sögðu þeir. - Við sjáum hvað setur.
Nú skaltu bráðum fá nasasjón af skrifum samvinnuskólapiltsins í minn garð og skólans, áður en Flokkurinn tapaði sjötta sætinu í bæjarstjórninni.

Honum bauð í grun
Þegar „gamli maðurinn á Tanganum,“ Gunnar Ólafsson, kaupmaður og konsúll, tók að hugleiða tilveruna og umhverfið sumarið 1933, árið fyrir fyrsta tapið, komst hann að þeirri niðurstöðu, að mikil hætta væri í aðsigi um völd þeirra Tangamanna í bænum, ef ekkert yrði að gert. Hann var skynugur, gamli maðurinn, og skildi, að með kynslóðaskiptum gat jafnvægið raskazt í bænum þeim í óhag. Svo voru „vondir menn“ starfandi við skóla bæjarins, að minnsta kosti einn við gagnfræðaskólann.
Já, víst var um það, að þar starfaði vondur maður „með svartan blett á tungunni.“ - Já, hörmulegt var þetta allt saman og mikil þörf á að taka nú til að skrifa og reyna að hamla gegn þróuninni - benda fólki á „svörtu blettina“ á tungu þessara manna og margskonar mannlýti, sem nú virtust til skýja hafin á þessum tímum hinna andsnúnu stöðuveitinga í þjóðfélaginu.
Og kaupmaður þessi og konsúll lét sannarlega ekki sitja við hugsunina eina. Hann var atorkumaður að hverju sem hann gekk. Nú tók hann að skrifa í flokksblaðið skammargreinar, svo að um munaði. Í einni þeirra stóð þessi klausa: „Þegar mér verður hugsað til þeirra manna, sem með ósannindum og hatursfullri framkomu í ræðu og riti hafa safnað svo mörgum svörtum blettum á tungu sér, að tungan hlýtur að vera orðin alsvört, þá get ég helzt ekki varizt því, að mér dettur sérstaklega einn maður í hug, sem hefur skólastjórastörf með höndum . . .“
Þarna fékk ég það óþvegið og meira í þessari grein, sem ég þreyti þig ekki á að hafa hér eftir. — Veslingurinn ég, sem hélt mig aldrei hafa sagt ósatt orð vísvitandi. Hitt gat ég fallizt á að taka við töluverðu af pólitískum skömmum, því að ég hafði skrifað um þörf þá að byggja gagnfræðaskólahús í bænum o. fl. í þeim dúr, en þær framkvæmdir vildu bæjarvöldin ekki sökum þess, að þá hlutu útsvörin að hækka að mun, og ekki gátu hinir kúguðu greitt nokkur útsvör að ráði.
Það hlaut að vera hlutskipti þeirra ríku, og það var bölvað hlutskipti, sem ekki mátti eiga sér stað!

III. hluti

Til baka