Blik 1950/Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum, tuttugu ára, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. janúar 2010 kl. 18:27 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. janúar 2010 kl. 18:27 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1950




Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum

tuttugu ára

Skýrsla um Vinnuskóla Gagnfræðaskólans 1938.

Frá því að fjárhagskreppan mikla hófst (1930) var oft lítið um atvinnu. Ekki bitnaði atvinnuleysið sízt á unglingunum. Við kennarar Gagnfræðaskólans, ekki síður en aðrir, vissum gjörla og skildum skaðræði athafnaleysisins fyrir hinn uppvaxandi æskulýð og vildum margt reyna og gera til úrbóta. Allar athafnir strönduðu þó á fjárskorti. Loksins fékkst loforð fyrir nokkurri styrkveitingu úr bæjarsjóði veturinn 1938 til að reka vinnunámskeið hér það vor. Jafnframt hét kennslumálaráðuneytið fjárframlagi til jafns við bæjarsjóð. Þess vegna var efnt til námskeiðsins eða vinnuskólans. Ég birti hér útdrátt úr skýrslu um hann. Við fullyrðum, að hann gaf góða raun og hörmuðum, að við fengum ekki að halda því starfi áfram.
Skólinn tók til starfa 24. maí og starfaði til 23. júní eða 24 virka daga.
Í náminu tóku þátt 19 drengir, þá flestir voru, á aldrinum 13—17 ára. Nemendurnir bjuggu í heimavist í leiguhúsnæði Gagnfræðaskólans að Breiðabliki undir eftirliti skólastjóra eða kennara dag og nótt og höfðu til afnota auk húsnæðis Gagnfræðaskólans borðstofu og eldhús á efstu hæð skólahússins.
Hver vinnudagur var notaður sem hér segir:
Kl. 7.30-8.45 klæðzt, iðkaðar morgunæfingar, búið um rúm sitt, þvegið andlit og hendur, snæddur morgunverður.
Kl. 8.45 Gengið til vinnu.
Kl. 9 Vinna hefst.
Kl. 10-10.15 Hvíld.
Borðað brauð, smurt ísl. smjöri.
Kl. 11-11.15 Hvíld.
Kl. 12.30 Gengið frá vinnu til miðdegisverðar.
Kl. 2.15 Gengið aftur til vinnu.
Kl. 4—4.15 Neytt kakaós með smurðu brauði.
Kl. 5.15 Vinnu lokið. Verkfæri hreinsuð og frá þeim gengið.
Kl. 5.30—7 Flutt erindi og iðkaðar íþróttir (knattleikir, hlaup, sund o.fl.).
Kl. 7—7.30 Snæddur kvöldverður.
Kl. 7.30-8.30 Frjáls stund.
Kl. 8.30—9 Þvegið sér og háttað.
Kl. 9-9.30 Nemendur lesa bækur eftir frjálsu vali.
Kl. 9.30-10 Kennarinn les fyrir nemendur.
Kl. 10 Næturró.

Daglegur vinnutími var að jafnaði 6 stundir.
Þetta var unnið:
1. Smíðaðir litlir kassar með lömum og lás handa öllum nemendunum til þess að geyma í smáhluti, sem nemandi hver notaði í skólanum, svo sem sápu, handklæði, inniskó, tannbursta o.fl.þ.h.
2. Útbúin flet úr borðum handa hverjum nemanda í aðalkennslustofu Gagnfræðaskólans.
3. Vinna í ræktunarlandi Skógræktarfélags Vestmannaeyja (nú ræktunarland skátanna).
a) Grjótnám, 70 m³.
b) Garðhleðsla (tvíhlaðinn varnargarður), 64 m á lengd.
c) Lagður vegarspotti 3 m breiður.
d) Gróðursettar 250 furuplöntur.
4. Nemendur gróðursettu við heimili sín 150 furuplöntur samtals.
5. Nemendum voru gefnar alls um 400 kálplöntur (hvítkál og blómkál) og var þeim kennt að búa þeim vaxtarskilyrði og gróðursetja þær.
6. Rofagræðsla.
Upp af íþróttavellinum í Botni var hlaðið fvrir tvö stór rof og lagfærð mörg smárof. Hlaðið við norðurrofið undir L.-Klifi 1. 442.6 m eða 329.8 m² og rofið milli Langabergs og Skiphella, lengd 80,5 m eða 119,58m². Rof uppi á Neðri-Kleifum, lengd 63,25 m eða 81,2 m². Alls 586.35 m eða 530.58 m².
7. Fjarlægt lausagrjót af grasflötum, þar sem almenningur dvelur oft sólríka hvíldardaga.
8. Þrjá óveðursdaga var unnið inni að smíðum og teikningum.
9. Gerðar gróðurathuganir og nemendum kennt að þekkja jurtir og ýmsa hluta þeirra.
10. Stntt erindi flutt um markmið vinnuskólans, gildi vinnunnar, hegðun, gróður og heilsuvernd.
Á kvöldin las kennarinn Grettissögu, nokkra kafla í Egilssögu o.fl.
Hvern virkan dag unnu tveir drengir saman heima hjá matseljunni að ræstingu húsnæðisins, sendistörfum, uppþvotti o.fl. þvíl. Hvert laugardagskvöld fengu nemendurnir heitt og kalt bað. Lýsis neyttu þeir hvern morgun áður en gengið var til vinnu, en kaffi var ekki drukkið í mötuneyti vinnuskólans.
Piltarnir fengu kr. 1.00 í dagkaup eða kr. 30.00 á mánuði auk fæðis, sem nam kr. 1.62 á dag.
Matselja var Júlía Árnadóttir að Breiðabliki.
Daglega stjórn skólans, kennslu og vinnustjórn önnuðust hinir föstu kennarar Gagnfræðaskólans, Þorsteinn Einarsson og undirritaður.
Skólann kostuðu bæjarsjóður og ríkissjóður að hálfu hvort.
Eftir að við höfðum vinnuskólann hér, vorið 1938, höfðu mæður, sem átt höfðu drengi hjá okkur í skólanum, orð á því, hve miklum breytingum hugsun þeirra hefði tekið til vinnu og starfs á svo skömmum tíma. Hjá okkur þvoðu drengirnir gólf og leir, bjuggu um rúmin sín, viðruðu rúmföt sín, þegar veður leyfði, tömdu sér prúðmannlega borðsiðu, rifu upp grjót, hlóðu úr því garð, græddu „foldarsá“, gróðursettu kálplöntur handa heimilum sínum eftir að hafa lært að búa þeim gróðurskilyrði, athuguðu jurtagróður hér á Heimaey o.fl. o. fl.
Eftir skólavistina þóttust drengirnir síður upp úr því vaxnir að rétta mæðrum sínum hjálparhönd við heimilisstörfin, vinna með þeim og fyrir þær hin óþrifalegri verk í heimilinu.
Góða móðirin hefur jafnan næma tilfinningu fyrir því, sem ábótavant er um uppeldi barnsins síns og rétt hugarfar, þó að hún stundum fái þar litlu áorkað vegna annarra aðsteðjandi strauma. Dýrmætasta eign þjóðfélagsins er æskulýður, sem aflað hefur sér hagnýtrar þekkingar og ann vinnu og athafnasemi, gengur hugprúður til líkamlegra átaka og starfs og þykist ekki upp úr því vaxinn að „drepa hendi í kalt vatn“.
Ekki þótti valdamönnum taka því að veita aftur fé til vinnuskólans. Hans ævi var því öll.

Launagreiðslur.

Um margra ára skeið eða fram á styrjaldarárin bjuggu skólastjóri og kennarar Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum við lakari kjör, lægri laun, en flestir aðrir gagnfræðaskólamenn í landinu. Þessi skerðing á launum olli oft deilum milli skólastjóra Gagnfræðaskólans hér, sem barðist fyrir jafnrétti sínu og kennara sinna í launamálunum, — og bæjarstjórnar kaupstaðarins, sem alltaf hélt laununum niðri. Hér skal birt til samanburðar tölur úr símskeyti fræðslumálastjóra til skólanefndar dagsett 5. marz 1940.
Skólastjóralaun Flensborg kr. 4.920,00 og ókeypis húsnæði, ljós, hiti, Ísafirði: kr. 5.600.00, Siglufirði kr. 5.200.00 og Akureyri kr. 5.000.00. Kennaralaun Flensborg kr. 4.920.00. Siglufirði kr. 3.800.00.
Þá voru árslaun skólastjóra Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum kr. 4.200.00 og fastakennara kr. 3.600.00. Um margra ára skeið, allt fram á styrjaldarár, voru greiddar hér kr. 2.50 fyrir hverja kennslustund stundakennara.

Skólanefndir.

Frá stofnun Unglingaskóla Vestmannaeyja hafði skólanefnd barnaskólans yfirumsjón beggja skólanna. Slík skipan hélzt eftir að Gagnfræðaskólinn var stofnaður, eða til ársins 1940. Það ár, 29. jan., kaus bæjarstjórn Vestmannaeyja Gagnfræðaskólanum sérstaka skólanefnd. Hana skipuðu þessir menn: Hinrik Jónsson, bæjarstjóri, Guðl. Gíslason, forstjóri, Haraldur Eiríksson rafvirkjameistari og sr. Sigurjón Þ. Árnason, sóknarprestur. Kennslumálaráðuneytið skipaði formann nefndarinnar, Svein Guðmundsson, forstjóra.
Árið 1948 voru þessir menn kosnir í skólanefndina:
Guðlaugur Gíslason, forstj., Haraldur Eiríksson, rafvirkjameistari, sr. Sigurjón Þ. Árnason og Karl Guðjónsson, kennari. Formaður enn hinn sami.
Árið 1946: Ástþór Matthíasson, iðjuhöldur, Karl Guðjónsson, kennari, Þorvaldur Sæmundsson, kennari og Björn Guðmundsson, kaupmaður.
Síðari hluta þessa árs skipaði kennslumálaráðuneytið Eyjólf Eyjólfsson, kaupfélagsstjóra, formann nefndarinnar.
Árið 1949: Björn Guðmundsson, kaupm., Einar B. Sigurðsson, bóksali, Þorvaldur Sæmundsson, kennari og Ástþór Matthíasson, iðjuhöldur. Sr. Halldór Kolbeins sóknarprestur var nú skipaður formaður nefndarinnar í stað E.E., sem flutti úr bænum haustið 1948.
28. febrúar þ.á. kaus bæjarstjórn Fræðsluráð samkv. ósk fræðslumálastjóra og lögum nr. 34. 29. apríl 1946 um fræðslu barna, 26. gr. Þar með eru skólanefndirnar lagðar niður.
Fræðsluráð Vestmannaeyja skipa nú:
Einar Guttormsson, sjúkrahússlæknir, formaður, Þorvaldur Sæmundsson, kennari, Karl Guðjónsson, kennari, Guðlaugur Gíslason, kaupm., Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri.

Sjóðir Gagnfræðaskólans 31. des. 1949.

A. Minningar- og styrktarsjóður skólans Krónur
a. Minningarsjóður Þórunnar Friðriksdóttur
frá Löndum:
Í bók nr. 24 í Sparisj. Vm. 940,58
Á skírteini nr. 35 í Útvegsb. Vm. 1.506,88
Samtals 2.447,46
b. Minningarsj. Hermanns Guðmundssonar
frá Háeyri:
Bók nr. 25 í Sparisj. Vm. 1.244,31
Bók nr. 4927 í Útvegsb. Vm. 784,51
Samtals 2.028,82
c. Minningarsj. Hauks B. Lindbergs:
Í bók nr. 265 í Sparisj. Vm. 3.541,95
Samtals 3.541,95
d. Aðrar innstæður sjóðsins:
Á skírteini nr. 36 í Útvegsb. Vm 1.469,39
Í bók nr. 4698 í sama banka 1.272,91
Í bók nr. 77 í Sparisj. Vm 397,91
Samtals 3.140,21
B. Smásjársjóður skólans:
Í bók nr. 3306 í Útvegsbanka Ísl., Vestm. 704,72
Samtals 704,72
C. Blaðsjóður skólans:
Í bók nr. 78 í Sparisj. Vm. 1.181,30
Samtals 1.181,30

Vestmannaeyingar!

Hér í þessu 20 ára minningarriti skólans, sem er ársrit hans, er birt skipulagsskrá fyrir minningar- og styrktarsjóð hans, sem tekur til starfa í haust. Í þeim sjóði eru nú samtals kr. 11.158.44. Meginhluti sjóðsins er fé, sem góðir menn og göfgar konur hafa gefið til minningar um látna nemendur Gagnfræðaskólans. Það er hugsjón mín, að þessi sjóður megi eflast sem mest og vaxa og verða til mikils styrktar efnilegum æskumönnum hér, sem halda vilja áfram námi og sérstaklega helga krafta sína í framtíðinni framförum og hagnýtri þróun atvinnulífs Vestmannaeyjakaupstaðar.
Það eru því vinsamleg tilmæli mín, að þið, góðir Vestmannaeyingar, viljið efla þennan sjóð með því að gefa honum peninga, leggja í hann fé, og láta hann njóta áheita. Þegar við aukum hann og eflum, þá leggjum við fé í lófa framtíðarinnar, — ungum og uppvaxandi Vestmannaeyingum til vaxtar og viðgangs og bæjarfélaginu okkar til heilla og hamingju.

Þorsteinn Þ. Víglundsson


Reksrrarreikningar.

Í lögum nr. 48. 1930, um gagnfræðaskóla, 12. gr., var svo kveðið á:
„Fyrir mánaðardvöl hvers reglulegs nemanda í gagnfræðaskóla skal greiða úr ríkissjóði í skólasjóð 16 krónur, gegn 24 krónum lágmarksframlagi úr hlutaðeigandi bæjarsjóði.“ Þannig greiddi ríkissjóður 2/5 kostnaðarins miðað við 40 kr. kostnað á hvern nemanda á mánuði. Ef skólakostnaðurinn varð meiri, borgaði bæjarsjóður „brúsann“. Með fræðslulögunum 1946 urðu skólastjórar og fastir kennarar skólanna embættismenn ríkisins og greiðir ríkissjóður þeim öll föst laun en allan annan rekstrarkostnað skólanna að hálfu leyti móti bæjarsjóði.

1933 1934 1935 1936 1937 1938 1939 1940 1941
Tekjur:
Tillag
bæjar
sjóðs
9.567,71 7.090,07 8.091,89 10.556,00 9.922,79 9.552,84 15.689,23 14.592,31 26.095,04
Tillag
ríkis
sjóðs
3.700,00 3.350,00 3.584,00 4.050,00 5.132,02 9.263,60¹ 7.200,00 9.937,17 10.290,96
Samtals 13.267,71 10.440,07 11.675,89 14.606,00 15.054,81 18.816,44 22.889,23 24.529,48 36.386,00
Gjöld:
Laun
skóla
stjóra
og fastra
kennara
4200,00 4.200,00 5.100,00 7.800,00 7.800,00 7.800,00 7.800,00 9.161,25 9.460,00
Tíma
kennsla
3.333,64 2.500,00 2.741,50 1.744,25 1.694,25 2.312,75 5.484,46 6.379,77 9.807,80
Ræsting,
kynd.
elds-
neyti,
ljós,
húsa-
leiga
5.000,00 5.000,00 3.000,00 3.625,60 3.356,00 4.489,95 7.159,38 6.516,35 8.227,08
Áhöld,
kennslu
söfn
1.000,00 239,00 601,50 731,76 1069.04 814,00 280,00
Vinnuskóli 1.406,14
Mat
sveina
nám
skeið
163,50
Bókasafn 389,10
Verðlagsuppbót 5.757,49
Ýmis
kostn
aður
734,07 600.00 595,39 834,65 1.472,80 157506 1.631,39 2472,11 2.464,53
Samtals 13.267,71 13.300,00 11.675,89 14.606,OO 15.054,81 18.816,44 22.889,23 24.529,48 36.386,00

¹ Þar af kr. 1.200,00 til vinnuskóla.

1942 1943 1944 1945 1946 1947 1948 1949
Tekjur:
Til
lag
bæjar
sjóðs
40.648,78 57.263,05 58.421,81 83.800,10 13.405,67 60.424,10 58.288,06 43.225,83
Til
lag
ríkis
sjóðs
12.540,93 15.287,90 26.776,17 21.315,00 94.573,49 20.000,00 35.000,00 43.225,83
Samtals 53.189,71 72.550,95 85.197,98 105.115,10 107.979,16 80.424,10 93.288,06 86.451,66
Gjöld:
Laun
skóla
stjóra
og fastra
kennara
12.029,94 23.037,17 18.163,20 18.852,50 14.216,72
Tíma
kennsla
11.696.87 6.981.40 9.873.82 28.529.14 37.400,18 41.605.36 43.481,00 38.991,55
Húsaleiga 6.915.00 7.807,50 8.175,00 9.145,00 8.220,00 8.400,00 8.400,00 8.400,00
Ræsting,
kynding,
eldsneyti,
ljós
5.464,71 8.914,60 12.149,23 11.599,78 13.130,89 19.882,0l 21.984,83 21.433,51
Áhöld,
kennslu
söfn
299,35 867,69 4.480,49 3.002,21 4.000,00 3.075,77 3765.61
Bókasafn 561,83 2.330,46 1.112,00 1.537,92 220,85 1.793,50 1.642,60
Tann
viðgerðir
1.136,00 289,00
Verðlagsuppbót 13.696,09 20.870,95 30.234,48 25.292,37 26.798,51
Ýmis
kostnaður
3.387,10 4.078,15¹ 3.404,10 4.967,82 3.383,73 6.315,88 14.552,96² 12.218,39³
Samtals 53.189,71 72.55o,95 85.197,98 105.115,10 107.979,16 80.424,10 93.288,06 86.451,66

¹ Þar af prentun á skólaskýrslu kr. 2.019.95.
² Þar í falin húsal. vegna verknámsdeildar kr. 3.000,00 og prófdómarastörf kr. 4.812,80.
³ Þar í falin húsaleiga vegna verknámsdeildar kr. 3.000,00 og prófdómarastörf kr. 3.524,00.
Þegar nýju fræðslulögin gengu í gildi (1946), urðu skólastjórar og fastir kennarar gagnfræðaskólanna embættismenn ríkisins og fá því laun úr ríkissjóði. Nú greiðir ríkissjóður helming alls annars rekstrarkostnaðar skólans.

Byggingarmál skólans.

Um það mál óska ég að vera fáorður að þessu sinni. Fyrir því eru gildar ástæður; ég óska engum heitt að baka með þessum skrifum mínum. Hins vegar tel ég mér skylt að stuðla að því eftir beztu getu, að eftirkomendurnir geti skyggnzt sem glöggvast inn í það mál.
Í fundargjörð skólanefndar 29. nóv. 1933 er þess getið, að legið hafi fyrir fundinum bréf frá skólastjóra Gagnfræðaskólans þess efnis, að ákveða þyrfti skólanum framtíðarstað og tryggja honum lóð í tæka tíð. Í bréfi þessu var bent á tún Ísleifs Sigurðssonar suður af Landakirkju. Þegar bent var á tún þetta, var það hugsað sem framtíðarleikvangur nemenda skólans, með því að skólahúsið sjálft stæði einhvers staðar á hæðinni austan þess túns. Þetta tún var í skjóli fyrir austanáttinni hvimleiðu hér og skólagarður var fyrirhugaður suður með hæðinni í sunnanverðu túninu. Árið 1934 festi bæjarstjórnin kaup á þessu túni handa skólanum.
Nú hefur þetta tún skólans horfið undir nýja íþróttavöllinn, sem verið er að móta þar. Hins vegar er skólahúsið í byggingu á hæðinni austan við völlinn og verður hann þá leikvangur nemenda Gagnfræðaskólans, þá tímar líða.
Hér skal stiklað á stóru.
Árið 1943, 3. júlí, samþykkti skólanefnd með 3:1 atkv. tillögu frá Sveini Guðmundssyni, form., að leggja til við bæjarstjórn, að undinn yrði að því bráður bugur að byggja gagnfræðaskólahús. Jafnframt var samþ. með þrem atkvæðum að leggja til við bæjarstjórn, að hún tryggi Gagnfræðaskólanum byggingarlóð á túni „austan og ofan við Landakirkju.“
Næsta ár, 1944. 1. júní, lá enn fyrir skólanefnd bréf sama efnis. Í fundargjörð nefndarinnar frá þeim degi stendur skrifað: „Skólanefndin ítrekar samþykkt um það, hvar hún vill láta reisa fyrirhugað skólahús Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, sem gerð var á fundi nefndarinnar 3. júlí 1943. Felur nefndin formanni að fá stað þennan ákveðinn fyrir gagnfræðaskólabyggingu svo fljótt, sem unnt er.“
Á fundi skólanefndar 18. okt. 1944 lá loks fyrir bréf frá bæjarstjóra þess efnis, að byggingarnefnd bæjarins legði til, að fyrirhugaðri gagnfræðaskólabyggingu yrði ætlaður staður á túni Björgvins Jónssonar suður af Landakirkju.
Þessa tillögu samþykkti skólanefnd, enda áður undirbúin af öllum velviljuðum áhugaaðiljum.
Fund skólanefndar 24. maí 1945 sat fræðslumálastjóri, sem hingað hafði komið öðrum þræði vegna fyrirhugaðrar gagnfræðaskólabyggingar.
Á fundi þessum var stærð skólahússins afráðin og útlínur í megindráttum. Þegar hér var komið byggingarmáli skólans, lá næst fyrir að fá húsameistara ríkisins til þess að gera teikningar af skólabyggingunni.
Fullnaðarteikningar lágu loks fyrir á skólanefndarfundi 23. jan. 1947. Fjórum dögum síðar eða 27. jan., samþykkti skólanefndin teikningarnar. Þá daga var þegar hafizt handa um framkvæmdir og ýta látin ryðja mold úr hússtæðinu og létta þannig gröft fyrir undirstöðuveggjum.
21. febr. hófu svo nemendur Gagnfræðaskólans að grafa fyrir undirstöðum byggingarinnar. Grófu þeir öðru hvoru fram í aprílmánuð og vann hver nemandi sem næst þrjú dagsverk frá kl. 9 að morgni til nónbils.
1946, 29. apríl, hafði bæjarstjórn samþykkt að veita kr. 150.000.00 til byggingar Gagnfræðaskólans og hefja framkvæmdir næsta vor. Við það var staðið.
Fyrstu byggingarnefnd skólans skipuðu: Árni Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar, Herjólfur Guðjónsson, verkstjóri og Þorvaldur Sæmundsson, kennari. Nú skipa hana: Ólafur Á. Kristjánsson bæjarstjóri, Herjólfur Guðjónsson og Þorvaldur Sæmundsson. Trésmíðameistari við bygginguna er Einar Sæmundsson, Staðarfelli, og múrmeistari Júlíus Jónsson, Stafholti.
Þegar hér er komið framkvæmdum, hefur kjallari verið steyptur undir sjálfa skólabygginguna og ein hæð á hann. Undir vesturhluta kjallarans er stór vatnsgeymir. Þá eru steyptar undirstöður fimleikasals, sem verður 20x10 metrar að flatarmáli. Grunnflötur sjálfs skólahússins er um 525 m². Kostnaður við bygginguna er nú orðinn kr. 410 þúsundir. Þar af hefur ríkið greitt kr. 50 þúsund, Sparisjóður Vestmannaeyja lánað kr. 100 þúsund út á væntanlegan ríkisstyrk, en annan kostnað hefur bæjarsjóður greitt. Ríkissjóður skal greiða helming byggingarkostnaðar samkv. lögum.
Þess óska ég að geta að lokum, að þeir skólanefndarformenn, sem þokuðu loks byggingarmálum skólans í örugga höfn, voru þeir Sveinn Guðmundsson forstjóri og Eyjólfur Eyjólfsson kaupfélagsstjóri. Sá menntamálaráðherra, sem veitti byggingarmálinu beztan hljómgrunn, var Brynjólfur Bjarnason.

●●●

Fyrir nokkrum árum sendi Loftur Guðmundsson kennari, — nú rithöfundur, blaðamaður og skáld, — Gagnfræðaskólanum þetta erindi:

„Heill hverjum sól- og sumarhug,
sem setur merkið hátt,
sem þroskar vilja, vit og dug,
sem vísar öllu lágu á bug;
en velur sínum vængjum flug
um vorloft draumablátt
í trúnni á guð og trausti á eigin mátt.“

Þetta erindi varð brátt söngur skólans og gáfu þeir Sigurður Þórðarson tónskáld og Helgi Þorláksson kennari skólanum sitt lagið hvort við erindið.
Um leið og ég vil biðja æskulýð Eyjanna að hugleiða vel efni þessa erindis, vil ég minna hann á annað erindi, sem sami höfundur sendi skólaæskunni hér og birt er í Blik í marz 1939:

„Æska, það hlutverk er heilagt og stórt,
sem vor heimur þér leggur í skaut,
að skapa úr arfi frá feigri fortíð
framtíð á vorgeislabraut;
að lyfta þar fána frelsis og dyggða,
sem föllnu hetjurnar þraut.“

Mætti þessi áminning verða æskulýðnum okkar hvöt til framtaks og dáða. Efniviðurinn er góður. Mættum við öll með Gagnfræðaskólanum bera gæfu til að meitla og móta þetta efni þjóðarheildinni til heilla, íslenzku þjóðinni til öruggs frelsis og frama.

Þorsteinn Þ. Víglundsson

Til baka