Blik 1960/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, I. kafli, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. janúar 2010 kl. 18:35 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. janúar 2010 kl. 18:35 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON

Saga Ísfélags Vestmannaeyja


I. KAFLI

Árið 1887 flúðu fleiri Íslendingar land sitt en nokkru sinni fyrr eða um 2000 manns. Allur þessi fólksstraumur fluttist vestur um haf til þess að leita sér gæfu og gengis þar vestra eftir stríðið við harðindin og sultarhörmungarnar hér heima.
Einn af vesturförunum þetta árið var Húnvetningurinn Jóhannes Guðmundsson Nordal.
Lífið og reynslan átti eftir að sýna það og sanna, að ekki fóru allir þessir Íslendingar forgörðum landi sínu og þjóð. Þegar vestur kom, kynntust þeir ýmsum nýjungum í tækni, sem þekktust ekki hér heima í umkomuleysinu og allsleysinu. Sjóndeildarhringurinn víkkaði. Augu þeirra opnuðust fyrir tækni og tökum, sem þeim var áður með öllu hulið. Með aukinni þekkingu sáu þeir möguleika og kosti heima, sem áður voru huldir og óþekktir.
Þegar Jóhannes G. Nordal kom til Kanada, öðlaðist hann m.a. þekkingu á því, hvernig Kanadamenn notuðu ísinn til matvælageymslu. Þeir byggðu íshús eða frosthús, eins og þau stundum voru kölluð síðar hér á landi, og framleiddu kulda í þau með ís og salti.
Margir framsæknir og dugmiklir Íslendingar, sem kynntust framförum og tækni Vesturheimsbúa á þessum fólksflutningatímum, óskuðu einskis fremur en að hverfa heim aftur og mega þar fá tök á að beita nú víðsýnni hug og hagleikshönd til framfara og hagnaðar íslenzku þjóðinni. Það var sem ættjarðarástin glæddist við aukna víðsýni og þekkingu.
Árið 1893 kom Jóhannes G. Nordal aftur heim til Íslands fullur áhuga og vilja til að leggja fram sinn skerf til framfara og batnandi afkomu landi og lýð. Hann hafði eins og svo margir aðrir íslenzkir vesturfarar svo að segja þreifað á því, að „hver, sem kunni hversdagstök á náttúrunni, gæti léttar lífsins starfa lokið og til meiri þarfa,“ eins og Stefán G. segir í kvæði sínu um Jón hrak.
Árið eftir heimkomu Jóhannesar Nordals beitti hinn mikli framfara- og framtaksmaður, Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri, sér fyrir, að þjóðin mætti sem fyrst njóta þekkingar íslenzka vesturfarans á því, hvernig Kanadamenn notfærðu sér ís og salt til matvæla- og beitugeymslu. Þetta var á „skútuöldinni“, og löngum höfðu „skútukarlarnir“ átt í erfiðleikum með að halda beitunni, sem þeir notuðu á færaönglana sína til að ginna „þann gula“, sem lengst óskemmdri.
Blaðið Fjallkonan mun fyrst íslenzkra blaða hafa vakið máls á því, hve brýn nauðsyn bæri til, að Íslendingar tækju sér framtak Kanadamanna í þessum efnum til fyrirrmyndar og notfærðu sér þekkingu þeirra og reynslu. Ritstjóri Fjallkonunnar var þá Valdimar Ásmundsson.
Tryggvi Gunnarsson bankastjóri beitti sér fyrir félagsstofnun, sem skyldi byggja íshús í Reykjavík. Þetta félag hét „Ísfélagið við Faxaflóa“. Íshúsið reis af grunni, og Jóhannes Nordal var ráðinn forstjóri þess. Það var hann síðan í nærfellt 40 ár.
Tilgangur „Ísfélagsins við Faxaflóa“ var sá, „að safna ís og geyma hann til varðveizlu matvæla og beitu, verzla með hann og það, sem hann varðveitir, og styðja að viðgangi betri veiðiaðferðar við þær fisktegundir, sem ábatasamast er að geyma í ís“.
Um líkt leyti og Jóhannes Nordal kom heim til landsins aftur, kom annar Íslendingur heim frá Vesturheimi. Hann hét Ísak Jónsson. Einnig hann hafði kynnzt frosthúsum Ameríkumanna. Ísak Jónsson hafði einnig brennandi áhuga á því að láta gott af þessari þekkingu sinni leiða hér heima.
Blöðin báru fregnir út um landið af framtaki Tryggva Gunnarssonar og samstarfsmanna hans um stofnun „Ísfélagsins við Faxaflóa“ og byggingu íshússins í Reykjavík.
Framtakssamir Íslendingar sáu hilla undir nýja tíma, þar sem beituleysið hafði til þessa hamlað fiskveiðum nema þann stutta tíma úr árinu, er síld veiddist í lagnet.

Vigfús Jónsson, Holti.
Jón Jónsson frá Brautarholti. Myndin tekin af honum níræðum.
Magnús Guðmundsson, bóndi, útgerðarmaður og formaður að Vesturhúsum.
Gísli Lárusson, bóndi, útgerðarmaður, formaður og gullsmiður í Stakkagerði í Eyjum, f. 16. febr. 1865 að Búastöðum í Eyjum, d. 27. sept. 1935.
Hannes Jónsson.
Magnús Jónsson, sýslumaður í Vestmannaeyjum 1896-1909, f. 27. des. 1865, d. 27. des. 1947. Annar aðalfrumkvöðull að stofnun Ísfélags Vestmannaeyja.
Árni Filippusson, annar aðalfrumkvöðull að stofnun Ísfélags Vestmannaeyja og fyrsti athafnasami formaður þess, f. 17. marz 1896, d. 6. jan. 1932.
Myndin mun tekin fyrir aldamót.

Þegar hér er komið sögu, hafa Norðmenn stundað síldveiðar fyrir Austfjörðum á sumrum um margra ára skeið, og sumir jafnvel búsett sig þar. Þeir kenndu Austfirðingum að veiða fisk á línu. Til þeirra veiða þurfti mikla beitu og örugga geymslu á henni. Sú tækni og þau tök hlutu að lengja veiðitímann að miklum mun. Næg og góð beita var, og er, undirstaða fiskveiða með línu.
Austfirðingar fengu brátt Ísak Jónsson þangað austur til þess að leiðbeina þeim um byggingu frosthúsa og geymslu á snjó og ís yfir sumarmánuðina.
Á árunum 1894—1896 vann síðan Ísak Jónsson að því að leiðbeina við byggingu frosthúsa á Austur- og Norðurlandi og hafa umsjón með framkvæmdum þessum. Landsstjórnin viðurkenndi síðar þetta þjóðhagslega starf hans með því að greiða honum úr landssjóði 500 krónur á ári fyrir umsjón þessa og leiðbeiningar.
Árið 1896 höfðu a.m.k. 9 íshús verið reist á Austfjörðum og 3 á Norðurlandi. Á þessum fjörðum eystra höfðu húsin verið byggð: Eitt í Mjóafirði, eitt í Norðfirði, þrjú við Seyðisfjörð, eitt í Vopnafirði, eitt í Borgarfirði, eitt í Reyðarfirði og eitt við Fáskrúðsfjörð.
Eyfirðingar og Húsvíkingar urðu brautryðjendur á Norðurlandi í þessum efnum, því að árið 1896 voru byggð tvö frostgeymsluhús (íshús) við Eyjafjörð og eitt á Húsavík.
Þegar líða tók á síðasta tug 19. aldarinnar, sóttu Vestmannaeyingar í æ ríkari mæli atvinnu sína til Austfjarða á vorin og sumrin eins og aðrir Sunnlendingar. Á Austfjörðum gátu Eyjasjómenn sér mikinn og góðan orðstír fyrir dugnað, sjómennsku og aflasæld. Þeir stunduðu þar fiskveiðar með línu.
Vorið 1895 fóru þrír kunnir Eyjasjómenn austur á Mjóafjörð til fiskveiða. Það voru þeir Magnús Guðmundsson, bóndi og formaður að Vesturhúsum, Vigfús Jónsson frá Túni og Jón Jónsson hreppstjóra Jónssonar í Dölum (Jón í Brautarholti). Þeir réru þar saman á þriggja manna fari um sumarið og var Magnús formaðurinn. Þeir hófu róðra 1. júní og hættu róðrum 19. september. Alls höfðu þeir þá farið 66 róðra og aflað 22526 fiska.
Næsta vor (1896) fóru sömu Vestmannaeyingar austur á Mjóafjörð til róðra á sama þriggjamannafarið. Þá hófu þeir róðra 29. maí og hættu róðrum 3. nóvember um haustið. Alls fóru þeir 109 róðra á þessu tímabili og öfluðu 33707 fiska. Þeir voru bæði sumrin á útvegi Vilhjálms hreppstjóra Hjálmarssonar á Brekku í Mjóafirði. — Hafa skal það í huga, að fiskur af grunnmiðum við Austurland er að öllum jafnaði mun smærri en hér á sér stað við Eyjar.
Annað hvort þessara ára eða bæði var Friðrik Svipmundsson á Löndum formaður fyrir árabát á Seyðisfirði og aflaði mikið, þó að hann stæði ekki Magnúsi Guðmundssyni á sporði í þeim efnum, enda var Magnús Guðmundsson mesti fiskimaður á áttæringnum Ingólfi, þá stærsta opna skipinu í Eyjum. Það var því litið upp til Magnúsar Guðmundssonar, hlustað á orð hans og tekið eftir háttum hans um fiskveiðar og útgerð. Þessi tvö áminnztu sumur hafði hann hlotið góða reynslu af fiskveiðum með línu og lært að búa hana í hendur sér og öðrum.

Árið 1896 bjuggu í Vestmannaeyjum innan við 600 manns. Þó að kauptúnið væri ekki fjölmennara, átti það á að skipa mörgum afburða mönnum um dugnað, verktækni og alla framtakssemi. Þá var þar einna fremstur í flokki Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri og formaður Framfarafélags Vestmannaeyja. Þessi kappi hafði um daga sína þar mörgum störfum að sinna. Hans er eilítið minnzt á öðrum stað hér í ritinu, af því að hann er fyrstur manna í Eyjum, svo að vitað sé, sem vekur máls á því, hve það sé aðkallandi nauðsyn að byggja þar íshús.
Haustið 1896, 15. nóvember, boðaði Sigurður Sigurfinnsson til fundar í Framfarafélagi Vestmannaeyja. Á fundi þessum hreyfði hann því nýmæli, að Vestmannaeyingar tækju höndum saman og byggðu sér íshús. Hann vildi, að athugað væri, hve mikinn styrk Framfarafélagið gæti veitt því framtaki. Lagði hann til á fundinum, að þegar yrði unnið að því að gera áætlun um kostnað við byggingu þessa.
Eftir nokkrar umræður var Sveinn Jónsson, smiður að Sveinsstöðum, kjörinn til þess að gjöra kostnaðaráætlunina. Sveinn æskti þess þá, að Sigurður sjálfur yrði með sér í ráðum. Þessi íshússhugsjón fékk lítinn byr með Eyjabúum. Bar þar margt til. Þá höfðu þeir ekki lært almennt að nota línu til fiskveiða og höfðu þá litla trú á veiðarfæri því. Ýmsar ytri aðstæður ollu einnig deyfðinmi og framtaksleysinu. Illa hafði aflazt undanfarin ár ýmist vegna lítillar fiskgengdar eða gæftaleysis, sérstaklega þá um sumarið. Vetrarvertíðarhlutur varð hjá flestum rýr og vesall. Hæstur hlutur varð 240 fiskar, lægstur 100 fiskar, en flestir höfðu í kring um 150 fiska hlut. Sumarið kalt og gróðurlaust.

Sumarið 1896 geisuðu jarðskjálftarnir miklu um mikinn hluta Suðurlands. Vestmannaeyingar fóru ekki varhluta af þeim, þó að þeir yllu ekki miklum skaða á öðrum húsum en prestssetrinu að Ofanleiti. Og mannslíf höfðu þeir kostað í Eyjum. Vegna þeirra varð minna úr bjargræði í úteyjum en venjulega og svo fjöllum. Grjóthrun var óskaplegt í kippunum, og þess vegna lífshættulegt að draga sig til bjargar í fjöll og úteyjar. Kringumstæður allar voru því lamandi og drógu úr framtakshug og kjarki.
Hugsjón skipstjórans og útgerðarmannsins, Sigurðar Sigurfinnssonar, að byggja íshús, var því lögð á hilluna um sinn.
Rétt er að taka það fram, að yfirgangur erlendra togara á grunnmiðum við Eyjar hafði sjaldan eða aldrei verið meiri en á vetrarvertíðinni 1896 og um vorið, og dró það mjög úr aflaföngum Eyjabúa. Örvænting og kvíði um afkomu alla vegna ágengni veiðiþjófanna fór nú mjög í vöxt með Eyjamönnum. Ekki minnzt af þeim sökum fór fjöldi þeirra til Austfjarða í atvinnuleit vorið 1896, svo að aðeins 2—5 jul gengu til fiskjar endur og eins um sumarið frá Eyjahöfn, að mestu leyti mönnuð börnum og gamalmennum.

Því aðeins hefi ég dvalið dálítið við árið 1896, að ýmsir atburðir, er þá gerðust í Eyjum og næstu ár á eftir, mörkuðu spor fram á við í útgerðarsögu Eyjamanna og knúðu m.a. fram byggingu íshúss þar, þó að hugsjón sú ætti eftir að bíða þess næstu fimm árin að rætast.
Haustið 1896, 13. september, kom enskur línuveiðari inn á Vík við Eyjar og lagðist í grynnra lagi austur með Urðunum. Nafn línuveiðara þessa var Thayetmyo og hét skipstjórinn G. Marks. Þegar leið á kvöldið, gerði skarpan austanvind. Skipsmenn uggðu ekki að sér og kl. 1 um nóttina rak skipið upp í Urðirnar austur af Miðhúsum og kom þar brátt gat á það, svo að það fylltist af sjó, og sökk að einhverju leyti. Skipshöfnin bjargaðist einhvern veginn í land á skipsbátnum um nóttina. Undir morgun kyrrði veðrið og örkuðu þá Eyjabúar til og reyndu að bjarga því, sem bjargað varð úr skipinu. Meðal þess, sem bjargað var, var línan, sem Eyjaskeggjar kræktu upp úr lest skipsins með krókstjökum. Næsta dag var svo haldið uppboð á öllu því, sem bjargaðist úr skipinu, t.d. kolum, fiski og svo veiðarfærunum. Snærið keyptu ýmsir í Eyjum, sjálfsagt sumir með þeirri hugsun, að „sjaldan er bagi að bandi“, en allt var þetta selt við lágu verði, enda var Þorsteinn læknir þá settur sýslumaður, og hafði hann víst litla löngun til — sá mæti maður — að hlunnfara Eyjabúa til hagsbóta brezkum veiðiþjófum. Skipið var ársgamalt og hafði kostað 90 þúsundir króna. Það seldist á 20 kr., skrifa tuttugu krónur, og þótti fjárans nóg í enska ljónsginið, enda sökk það alveg tveim mánuðum síðar. Rétt er að geta þess, að línan úr enska skipinu var ekki fyrsta línan, sem Eyjabúar eignuðust. Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson segir frá því í blaðafréttum úr Eyjum, sumarið 1896, að þar hafi verið borið við að veiða skötu og ýsu á lóðir á stöku bát, en þá vanti þar bæði beitu og íshús¹.

Þegar Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum, og Friðrik Svipmundsson á Löndum, og félagar þeirra og hásetar komu heim frá Austfjörðum haustið 1896 eftir hið mikla aflasumar þar, sögðu þeir Eyjabúum frá hinu markverða framtaki Austfirðinga um byggingar frosthúsanna. Þessir Eyjasjómenn og aflaformenn skildu nú betur en flestir þar, hversu línan jók hagsæld Austfirðinga. Hún var það veiðarfærið, sem skaut sterkustum stoðum undir vaxandi efnahag þeirra á þessum árum. Engum var þessi staðreynd eins ljós og þeim Sunnlendingum, sem stundað höfðu fiskveiðar með línu á útvegi þeirra þar eystra. En til þess að þær veiðar mættu takast og blessast, þurfti beitu, næga og góða beitu. Ráð þurfti einnig til að geyma hana vel á milli þess að síldin veiddist.
Vetrarvertíðin 1897 var vindasöm og þess vegna oft erfitt að stunda færi, þó að afli væri sæmilegur, þegar tök voru á að athafna sig. Þá voru gerð út af Eyjamönnum 10 skip, en aðeins tvö skip lágu þar við frá meginlandinu. Hæsti hlutur varð 470 af þorski, lægstur um 200 og meðalhlutur um 300 af þorski. Helztu formenn í Eyjum þá voru Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum, Gísli Lárusson, Stakkagerði og Hannes Jónsson, Miðhúsum. Oft höfðu hinir tveir síðarnefndu, sem aldrei höfðu stundað sjó á Austfjörðum, rætt við Magnús Guðmundsson um línuveiðarnar þar eystra, gerð línunnar og gagn hennar. Þessa vertíð komu þeir sér saman um að láta nú til skarar skríða og draga út með línu, þegar á liði. Magnús hafði oft haft á orði, að marga stormasömu dagana, þegar þeir lítt gátu að staðið með færin, hefðu þeir auðveldlega getað athafnað sig við línu.

Svo hefst þá „línuöldin“ í Eyjum í aprílmán. 1897 (10. apríl). Dagana 7. og 8. sama mánaðar höfðu ofan nefndir formenn lítið aflað á handfærin. Magnús hafði fengið einn í hlut t.d. Þegar að var komið 8. apríl, höfðu þeir ágætu menn samráð um að hefja nú brautryðjendastarfið og róa með línu aðfaranótt 10. apríl. Dagurinn 9. apríl var notaður til þess að undirbúa línuróðurinn. Línuna áttu þeir að mestu tilbúna, höfðu sett hana upp um haustið, og þá keypt í hana strengina í verzlun eða notazt við eitthvað af hinum sveru, ensku strengjum úr strandgóssi línuveiðarans. Annars voru þeir strengir beztir í uppistöðurnar, bólfærin. Þeir höfðu líka látið sponsa kálfsbelgi handa sér um haustið og veturinn, svo að nú þurfti ekki annað en að blása þá upp. Það voru línubólin. Einnig höfðu þeir látið smíða bjóðin. Stjórar voru fatlaðir um daginn og línan beitt. Síðan var gengið til hvíldar. Morguninn eftir eða þegar stutt lifði nætur var svo dregið út með línuna. Þrjú hin ágætustu skipin í flota Eyjamanna þá dreifðu sér eftir geðþótta formannanna og ákvörðun, og var svo línan lögð. Fáir þekktu betur botnlagið í kringum Eyjar en þeir, sem stundað höfðu þar handfæraveiðar árum saman. Svo var um þessa þrjá menn.
Afli þeirra var misjafn um daginn. Magnús Guðmundsson fiskaði vel. Hann fékk 21 í hlut af þorski og tvær ýsur að auki eða um hálffermi á stærsta áttæringinn, sem þá gekk frá Eyjum, Ingólf¹.
Tímarnir breytast og mennirnir með. Það sannaðist nú á Eyjamönnum. Árið 1884 hafði formaður í Eyjum borið það við að veiða á línu. Eyjabúar fordæmdu þetta „athæfi“ hans. Hann sá sitt óvænna brátt og hætti þá þegar því bannfærða „uppátæki“. Nú var uppi fótur og fit í kauptúninu og allir vildu eignast línu. Hana eignuðust nú færri en vildu af þeirri einföldu ástæðu, að verzlanirnar höfðu hana ekki til, voru ekki við þessari byltingu búnar.
Helzta beitan á línuna var gota, ýsa og langa. Síldin, hin mikla tálbeita, var ekki til enda illt að geyma hana, þar sem engin voru frosthúsin. Hvað var þá til ráða? Skipshafnir byggðu sér kofa úr torfi og grjóti og söfnuðu þar í snjó og ís að vetrinum. Í kofum þessum var svo síld geymd, ef bauðst, og bjóðum eða beittri línu var skotið inn í kofa þessa, ef snögglega tók fyrir gæftir. Oft var þá lítið um snjó á vetrum í Eyjum sem nú, og höfðu menn jafnan mikið fyrir að afla hans og færa í kofa. Stundum sóttur í poka til fjalla.
Þegar leið fast að aldamótum, voru þessir ískofar skipshafna víða um Heimaey í námunda við kauptúnið eða höfnina. Glöggum mönnum varð það æ ljósara með ári hverju, að þessi íshróf og beitugeymslur Eyjasjómanna voru ekki til frambúðar. Hina fullkomnustu tækni, er þeir þá vissu deili á í þessum efnum, urðu Eyjamenn að taka í þjónustu sína. Þeir skyldu eignast íshús.

Sunnudaginn 15. sept. 1901 var haldinn almennur fundur í kauptúninu í Vestmannaeyjum. Efni fundarins var það að íhuga og ræða, hvort tiltækilegt væri að byggja íshús, sem komið gæti öllu kauptúninu að gagni.
Forystumenn þessa máls voru þeir Magnús Jónsson, sýslumaður, og Árni Filippusson, verzlunarmaður, þá búandi á Vegamótum. Fundurinn var haldinn í þinghúsi sveitarfélagsins.
Fundurinn var vel sóttur og létu menn í ljós mikinn áhuga á máli þessu. Fundarmenn vildu þegar stofna til hlutafélags til þess að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Eftir nokkrar umræður var leitað með nafnakalli eftir því, hve margir af fundarmönnum vildu gerast hluthafar í slíku félagi sem þessu. Þegar gáfu sig fram 45 menn og hétu þegar hlutafé samtals 1400,00 krónum.
Fundurinn kaus þegar 5 manna nefnd til þess að beita sér fyrir stofnun félagsins, kynna sér gerð íshúsa, hver mundi hæfileg stærð þessa fyrirhugaða húss og kostnað við bygginguna. Jafnframt skyldi nefnd þessi semja frumvarp til laga fyrir félagið. Kosningu hlutu Magnús sýslumaður Jónsson, Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, Gísli Lárusson, útgerðarmaður í Stakkagerði, Magnús Guðmundsson bóndi og formaður að Vesturhúsum, og Árni Filippusson verzlunarmaður, Vegamótum.
Nefndin tók nú ótrauð til starfa og vann að málefninu eftir beztu getu. En samgöngur við Eyjar voru tregar og margt gekk þess vegna seinna en skyldi.
Undirbúningnum að stofnfundinum hafði hún lokið fyrir nóvemberlok 1901 og boðaði til stofnfundarins 1. desember.
Eyjabúar sýndu mikinn áhuga á þessu máli, og mættu flestallir þeir, sem setið höfðu fundinn 15. sept., einnig á þessum fundi.
Undirbúningsnefndin lagði nú fram á stofnfundinum frumvarp til laga fyrir félagið, teikningu af væntanlegu íshúsi og kostnaðaráætlun um byggingu þess.
Lögin voru samþykkt í einu hljóði eftir litlar umræður.

¹Fjallkonan 1897.

II. hluti