Blik 1960/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, I. kafli, II. hluti
Félagið er hlutafélag og nefnist „Ísfélag Vestmannaeyja“. Heimili þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum. Fyrirætlun þess er að safna ís, geyma hann til varðveizlu matvælum og beitu, verzla með hann og það, sem hann varðveitir, og styðja að viðgangi betri veiðiaðferðar við þær fiskitegundir og beitutegundir, sem ábatasamt er að geyma í ís.
Innstæðu félagsins skal skipt í hluti. Ákvæðisverð hvers hlutar er 25 krónur, en engin takmörk eru sett, hve margir þeir skuli vera.
Þegar félagsmaður hefur greitt að fullu hlut sinn til félagsins, skal hann fá hlutabréf, er félagsstjórnin gefur út, og veitir þá hlutabréfið honum full réttindi, þau, er lög þessi mæla fyrir. Á hverju hlutabréfi skal eigandi nafngreindur, og jafnframt skal hann ritaður með viðsettri tölu á hlutaskrá félagsins. Þegar eigendaskipti verða að hlutabréfi, skal tilkynna það félagsstjórninni, er þá ritar nafn hins nýja eiganda á hlutaskrána. Fyrr en það er gjört, á hann eigi atkvæðisrétt í félaginu. Ávallt skulu Vestmannaeyingar hafa forgangsrétt á kaupi á hlutabréfi. Glatist hlutabréf eða ónýtist, þá á réttur eigandi heimtingu á að fá nýtt hlutabréf í þess stað, þegar stjórnarnefndin á hans kostnað hefur fengið gildar líkur fyrir því, að hlutabréfið sé glatað.
Enginn félagsmaður er skyldur til að greiða skuldir félagsins fram yfir innstæðu þá, sem hann hefur lagt í félagið, né til að auka sjóð félagsins með fjárframlagi.
Félagsmenn skulu jafnan hafa forgangsrétt fyrir utanfélagsmönnum, þegar þeir óska þess, hvort heldur er vinna við ístöku, sala á fiski og beitu eða geymsla á matvælum. Við sölu á beitu skal ennfremur tekið tillit til hlutafjölda (aksíufjölda) hvers einstaks félagsmanns, þegar útlit er fyrir beituskort.
Aðalfundir félagsins hafa hið æðsta vald í öllum félagsmálum og ráða þeim til lykta innan þeirra takmarka, er lögin setja. Aðalfundur skal haldinn í Vestmannaeyjum í janúarmánuði ár hvert, og boðar stjórn félagsins hann með 14 daga fyrirvara. Aukafundi heldur stjórnin, er henni þurfa þykir, eða þegar þriðjungur félagsmanna sendir henni skriflega beiðni um það, og boðar hún til þeirra með hæfilegum fyrirvara. Kosinn fundarstjóri stýrir umræðum og sker úr öllu því, er við kemur reglu á fundum. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála að undanskildum lagabreytingum, sbr. 11. gr.
Félagsmenn einir eiga atkvæðisrétt á fundum, þannig, að sá á eitt atkvæði, sem á 1—3 hluti, tvö atkvæði sá, sem á 4—9 hluti, og þrjú atkvæði sá, sem á 10 hluti eða fleiri í félaginu. Fela mega félagsmenn öðrum hluthöfum skriflega að fara með atkvæði sitt á fundi, sé nafn hans á hlutaskrá. Þó getur enginn umboðsmaður haft á fundi fleiri en 3 atkvæði alls fyrir sjálfan sig og aðra. Enginn hluthafi má greiða atkvæði í þeim málum, sem snerta sérstaklega hagsmuni sjálfs hans gagnvart félaginu.
Aðalfundur ræður og úrskurðar:
a) Skýrslu félagsstjórnarinnar um hag félagsins og framkvæmdir á umliðnu almanaksári ásamt endurskoðuðum reikningi þess.
b) Tillögur um störf félagsins á hinu nýbyrjaða ári
c) Hvort greiða skuli hlutamönnum vexti fyrir hið umliðna ár og hve háa.
Stjórn félagsins skal skipuð þrem hluthöfum, sem kosnir eru á aðalfundi ár hvert og heimili eiga í Vestmannaeyjum. Svo skal kjósa einn mann til vara, er kemur í stað þess er fatlast eða flytur bústað sinn. Stjórnin skiptir með sér störfum og ræður öllum félagsmálum milli funda. Hún heldur gjörðabók og ritar í hana lög félagsins og lagabreytingar ásamt hinu helzta, er gjörist á fundum hennar. Ennfremur skal í bók þessa rita fundargjörðir félagsins. Stjórnin heldur hlutaskrá félagsins og geymir skjalasafn þess. Afl atkvæða ræður í stjórninni, en borið getur hún ágreining sinn undir aðalfund eða aukafund er sker úr málum.
Félagsstjórnin fær sanngjarna þóknun fyrir starfa sinn, er aðalfundur ár hvert ákveður.
Aðalfundur kýs árlega 2 yfirskoðunarmenn og 1 varayfirskoðunarmann, er rannsaka skulu ársreikninga og hagskýrslu félagsins, er stjórnin skal hafa sent þeim 10 dögum fyrir aðalfund, og skulu skriflegar athugasemdir þeirra sendar stjórn félagsins 3 dögum fyrir fundinn, en hún leggur þær síðan fyrir fundinn með svörum sínum.
Nú vill meiri hluti félagsmanna þeirra, er á fundi mæta, breyta lögum félagsins eða sundra félaginu, skal þá boða til nýs fundar með 14 daga fyrirvara, og skal í fundarboðinu tekið fram ákvæði síðasta fundar þar að lútandi.
Verði lagabreytingin eða félagsslitin samþykkt á þeim fundi með 2/3 atkvæða, er það málefni þar með til lykta leitt. Sé samþykkt að slíta félaginu, gerir sami fundur ráðstöfun fyrir eigum þess og skuldum.
Bráðabirgðafyrirmæli:
Hluthafar greiða 3/5 tillags síns fyrir 31. des. 1901, en afgang þess fyrir júlímánaðarlok 1902, að viðlögðum burtrekstri úr félaginu, og rennur það, er goldið kann að vera upp í hlutinn, í sjóð félagsins.
Svo var þá fyrsta stjórn félagsins kosin, og hlutu kosningu í hana þessir menn: Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir með 35 atkvæðum; Árni Filippusson, bókari með 33 atkvæðum; Gísli J. Johnsen, verzlunarmaður með 23 atkvæðum (þá tvítugur að aldri). Varamaður: Magnús Guðmundsson, útvegsbóndi, Vesturhúsum, með 20 atkvæðum. Endurskoðendur: Anton Bjarnasen, verzlunarstj. og Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri. Varaendurskoðandi: Magnús Jónsson, sýslumaður.
Þegar eftir fund þennan hélt hin nýkjörna stjórn fund og skipti með sér verkum samkv. lögum félagsins. Formaður var kosinn Þorsteinn læknir, gjaldkeri Árni Filippusson og ritari Gísli J. Johnsen.
Fyrsta greinin í lögum Ísfélags Vestmannaeyja ber þess vott, hversu forustumenn félagsins höfðu nána samvinnu við Tryggva Gunnarsson bankastjóra og Jóhannes Nordal, þegar lögin voru samin. Orðalagið um tilgang „Ísfélagsins við Faxaflóa“ og „Ísfélags Vestmannaeyja“ er svo að segja nákvæmlega eins í lögum þeirra, sbr. 1. gr. Eins má hugleiða nöfnin á samtökum þessum.
Ekki er mér kunnugt um, að Þorsteinn héraðslæknir ætti í útgerð um þessar mundir í Eyjum. Eigi að síður þótti útgerðarmönnum sjálfsagt, að hann skipaði sæti í fyrstu stjórn Ísfélagsins. Þar sannast það, sem Sigfús M. Johnsen, fyrrverandi bæjarfógeti, segir í Sögu Vestmannaeyja: „Þótti ekkert ráð ráðið, nema Þorsteinn læknir væri þar með, enda var hann vitur maður og forsjármaður mikill.“
Næsti fundur hins nýja félags var svo haldinn 30. jan 1902.
Á fundi þeim var lesið upp bréf frá verzlunarstjóra Brydeverzlunar hér, Antons Bjarnasen, til félagsstjórnarinnar. Stjórnin hafði séð sitt óvænna um fjárframlög og fjármagn til íshússbyggingarinnar og þess vegna m.a. farið þess á leit við verzlunarstjórann, að hann skrifaði hinum danska selstöðukaupmanni, etatsráði J.P.T. Bryde, og leitaði eftir vilja hans um að kaupa hluti í Ísfélaginu, en hann rak hér umfangsmikla verzlun.
Bréf verzlunarstjórans var svohljóðandi:
„Eftir tilmælum hinnar heiðruðu stjórnar „Ísfélags Vestmannaeyja“ hefi ég skrifað húsbónda mínum, hr. etasráði J.P.T. Bryde, og spurt hann, með hvaða kjörum hann vildi kaupa efni í íshús það, sem félagið hefur ráðgert að byggja, og hvort hann vildi gerast hluthafi í félaginu. Þessum fyrirspurnum mínum hefur hann svarað þannig:
„Með tilliti til íshússins vil ég fallast á það fyrirkomulag, sem hér segir:
Ég vil kaupa hlutabréf fyrir 500,00 krónur, þ.e. 20 hlutabréf, en einungis með því skilyrði, að ég fái atkvæðisrétt miðaðan við hlutafjöldann, þ.e. 20 atkvæði. Að öðrum kosti vil ég ekkert við það eiga. Ennfremur áskil ég, að þér séuð í stjórninni.
Verði þessu fyrirkomulagi komið á, skal ég kaupa sænskan við og annað efni í húsið eftir nánari vísbendingu frá yður og reikna mér 5% umboðslaun og 35 aura farmgjald fyrir hvert teningsfet í viðnum, en borga verður félagið uppskipunarkostnaðinn. Skipsfermingin skal þá fara fram í júnímánuði.“
Þetta tilkynnist hér með hinni heiðruðu stjórn til þóknanlegrar athugunar.
Vestmannaeyjum 29. jan. 1902.“
Nú voru góð ráð dýr. Vissulega þurfti hið nýstofnaða fyrirtæki á hlutafé selstöðukaupmannsins danska að halda. Áætlun lá fyrir fundinum um það, hvað kosta mundi efni í íshús, sem væri 15x10 álnir að flatarmáli. Nam sú upphæð kr. 2080,00 miðað við gangvarð þá á timbri í Eyjum. Hlutaféð, sem greiðzt hafði, nam hins vegar aðeins kr. 1165,00 þ.e. 7 hlutabréf höfðu greiðzt að öllu leyti og 66 hlutabréf aðeins með 3/5 hlutum eða með 15 kr. hvert.
Eftir nokkrar umræður samþykkti fundurinn að ganga að öllum skilyrðum Bryde kaupmanns og taka hann inn í félagið. Til þess að fullnægja kröfum hans þurfti að gera róttækar breytingar á sumum greinum félagslaganna, t.d. varðandi atkvæðisréttinn. Þar var krafa kaupmannsins, að hver hlutur hefði eitt atkvæði. Hinsvegar var krafan um það, að verzlunarstjóri kaupmannsins, Anton Bjarnasen, ætti skilyrðislaust sæti í stjórninni, ekki neinn þyrnir í augum félagsmanna. Anton verzlunarstjóri var vel séður maður, sanngjarn og góðviljaður og Eyjabúum hlynntur um allt það, sem útvegi þeirra mátti verða til styrktar og gengis, hins vegar varð ekki framhjá því litið, að hann var þjónn selstöðukaupmannsins, sem m.a. hafði átt það til að neita útgerðarmönnum Eyjanna og sjómönnum um
salt í aflann, þegar hann einn verzlaði með það, til þess að neyða þá til að selja sér allan aflann upp úr sjó fyrir verð, sem hann sjálfur afréð.
Enn var það einnig Eyjabúum í fersku minni, að forstjóri skipaútgerðar landssjóðs, Ditlev Thomsen, hafði fyrir skömmu kveðið upp með það í skýrslu til landsstjórnarinnar, að fiskur frá Vestmannaeyjum hafi verið greiddur hærra verði
á erlendum markaði en annar íslenzkur fiskur, og þó var vitað, að á sama tíma greiddi selstöðukaupmaðurinn Eyjaskeggjum lægra verð fyrir fiskinn en útgerðarmenn og sjómenn fengu við Faxaflóa. Þá var það einnig í fersku minni stofnendum Ísfélagsins, að fyrir fjórum árum hafði umboðsmaður Fischers hér, Gísli Stefánsson, greitt Eyjabúum 48 krónur fyrir skippundið af fiskinum (160 kg), en þá hafði Brydeverzlun greitt þeim
36— 40 krónur. Bæði vegna alls þessa og margs annars, sem Eyjabúar höfðu reynslu af í viðskiptum sínum við selstöðukaupmanninn, var það ekki án íhugunar gert og tortryggni, að þeir neyddust til að beygja sig fyrir kröfum hans. Þetta sannar þessi bókun í fundargjörð, sem Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, hefur ritað: „Með því að mörgum þótti tryggilegra að treysta betur stjórn félagsins í tilefni af fyrirhugaðri lagabreytingu, og með því að héraðslæknir Þorsteinn Jónsson vildi verða laus við stjórn félagsins, ályktaði fundurinn að kjósa að nýju stjórn fyrir yfirstandandi ár, er skipuð væri 5 mönnum í stað þriggja, sem áður. Var svo gengið til stjórnarkosninga á ný. Þessir menn hlut nú kosningu í stjórnina: Anton Bjarnasen, verzlunarstjóri, 40 atkvæði, Árni Fillippusson, verzlunarmaður, 36 atkvæði, Gísli Stefánsson, kaupmaður, 35 atkv., Magnús Guðmundsson, útgerðarmaður, 34 atkvæði, Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri 30 atkvæði.
Hin nýkosna stjórn skipti þegar með sér verkum samkvæmt lögum félagsins og var Árni Filippusson kosinn formaður þess, Anton Bjarnasen gjaldkeri og Sigurður Sigurfinnsson ritari. Varaformaður var kosinn Gísli Stefánsson.
Á fundi félagsins 9. febrúar 1902 voru svo þessar breytingar gerðar á lögum félagsins:
3. gr. Í stað orðanna „Ávallt skulu Vestmannaeyingar hafa forgangsrétt að kaupi á hlutabréfi“ komi: „Ávallt skulu þeir, er heimili eiga í Vestmannaeyjum, hafa forgangsrétt að kaupi á hlutabréfi.“
Bryde kaupmaður átti ekki heimili sitt í Vestmannaeyjum.
7. gr. Félagsmenn einir eiga atkvæðisrétt á fundum, og hefur hver um sig jafnmörg atkvæði og hann á marga hluti í félaginu.
9. gr. breyttist þannig, að í stað þriggja stjórnarmanna skyldu nú vera fimm.
Til mála hafði komið, að hið fyrirhugaða íshús yrði að einhverju leyti grafið í jörðu. Með því móti skyldi spara efniskaup. Einnig héldu ýmsir, að þannig gjört geymdist ís betur í húsinu. Um þetta atriði mun hafa verið leitað ráða til Jóhannesar Nordals í Reykjavík og svo hins væntanlega byggingarmeistara hússins, Friðriks Bjarnasens, bróður Antons verzlunarstjóra.
Ráðið var frá því að byggja húsið þannig.
Hinsvegar þótti engin þörf á að hafa timburgólf í ísgeymslunni og mátti með því spara nokkur efniskaup.
Á þessum fundi var samþykkt einróma að panta efni í íshús, sem yrði 15 álna langt (9,4 m), 10 álna breytt (6,3 m) og 6 álna hátt (3,7 m) að veggjum.
Ennfremur, að stjórnin skyldi hafa heimild til að
fjölga hluthöfum í félaginu, en gæta þess þó, að „Eyjabúar eigi ávallt meiri hluta hlutabréfanna.“
Í marz 1902 var svo endanlega gengið frá ráðningu Friðriks Bjarnasens, sem ráðinn var aðalsmiður við íshúsið. Hann hafði áður unnið við íshúsbyggingar úti á landi og hafði því nokkra reynslu í starfinu.
Friðrik Bjarnasen kom til Eyja í apríl 1902. Þá hafði stjórn Ísfélagsins samráð við hann um val á staðnum, þar sem íshúsið skyldi byggt.
Árið 1877 hafði hreppsnefnd Vestmannaeyja undir forustu Þorsteins læknis Jónssonar beitt sér fyrir því, að lagður yrði vegur neðan úr Sandi milli króar Árna Diðrikssonar bónda í Stakkagerði og Lárusar Jónssonar hreppsstjóra, þ.e. hið svokallaða Formannasund. Síðan skyldi hreppsvegur þessi liggja suður fyrir vestan þinghúsið (nú Borg) og austan Brandshúss (nú Batavíu) suður undir Vesturhúsatúngarð. Þarna liggur nú Heimagata.
Forráðamenn íshússhugsjónarinnar völdu þennan hreppsveg til flutninga að hinu fyrirhugaða íshúsi og afréðu því að byggja húsið spölkorn austan við hann. Íshúsið var því byggt vestan við Lönd eða Landakálgarð, þar sem Ingólfshvoll stendur nú.
Óskað var þegar eftir því við umboðsmann ríkisins, sýslumanninn, að Ísfélagið fengi þarna útmælda svo ríflega lóð, að hún leyfði stækkun hússins síðar.
Nú skyldi taka til óspilltra mála og hraða byggingunni sem mest. Gísli Stefánsson í Hlíðarhúsi, sem var vanur verkstjóri við vegaframkvæmdir sýslusjóðs, var ráðinn verkstjóri við bygginguna og skyldi ráða verkamenn. Skyldi hann hefjast handa sem allra fyrst og ráða menn til þess að aka grjóti að grunnstæðinu, meðan lítið væri um atvinnu í kauptúninu, en fjöldi verkfærra manna annars austur á fjörðum í kaupavinnu eða við sjósókn. Það var m.a. ástæðan fyrir því, að aðalfundi félagsins það ár var frestað til haustsins, þar til félagsmenn væru komnir heim af Austfjörðum.
Sumarið 1902 var unnið svo kappsamlega að íshússbyggingunni, að í september um haustið sást fyrir endann á verkinu. Þá afréð stjórnin á fundi sínum að selja ýmislegt afgangsefni frá íshússbyggingunni. M.a. höfðu af gengið 23 tylftir af gólfborðum. Skyldu þau seld á kr. 12,00 hver tylft eða á eina krónu borðið. Einnig voru 12 sekkir af sagi til sölu, naglar o.fl., en sag var þá notað til að einangra með útveggi íshúsanna. Einnig þá í september samþykkti stjórnin að ráða félaginu íshússvörð, eins og þeir menn voru kallaðir, sem önnuðust afgreiðslu þeirra vara, er íshúsin geymdu og „lögðu í“ þau, eins og það var kallað, að mylja ísinn, blanda hann salti og fylla holrúmið milli útveggjanna og geymsluklefans með honum. Íshússvörðurinn skyldi ráðinn frá sumarmálum 1903.
Þá afréð stjórnin einnig að leita eftir samþykki bænda hér og umboðsmanns ríkisins, að félagið fengi forgangsrétt að ístöku t.d. á Vilpu og Daltjörninni.
Þegar félagsmenn voru allir komnir heim frá Austfjörðum haustið 1902, efndi félagsstjórnin til aðalfundar. Það var um miðjan nóvember. Þar voru m.a. lagðir fram byggingarreikningarnir. Kom þá í ljós, að íshúsið hafði kostað kr. 3200,00 og orðið um kr. 1000,00 dýrara en upphaflega hafði áætlað verið. Olli það mestu um hærra verð á efni en gert hafði verið ráð fyrir, svo og hærri tímalaun verkamanna. Galli var á: Enginn fullnaðarreikningur lá fyrir frá viðarsalanum, Bryde kaupmanni.
Skuldir félagsins námu nú alls 400 krónum. Félagsmenn brugðust vel við í gleði sinni yfir því, hve forustumennirnir hefðu reynzt þeim ötulir og framtakssamir um sumarið, og keyptu þegar á aðalfundinum hluti í félaginu fyrir 400 krónur, eða 16 hluti, enda hafði sumarið verið þeim mörgum gjafmilt við fiskveiðar á Austfjörðum. Nú urðu tök á að greiða að fullu byggingarskuldirnar.
Þá skorti félagið algjörlega rekstrarfé. Til þess að afla þess, skyldi kosta kapps um að selja fleiri hluti í félaginu. Lítil ráð virtust til þess að fá rekstrarlán. Þó kom sú hugmynd fram að vátryggja íshúsið og reyna síðan að fá lán út á það.
Til þess að geta hafið starfið og safnað ís og snjó um haustið og veturinn
1902—1903 án þess að hafa nokkurt handbært fé til þess að greiða með vinnulaunin, kom ekki annað til greina en fórnarstarf, þegnskylduvinna. Félagsmenn urðu að vinna í þágu félagsins endurgjaldslaust. Samþykkt var því að leggja til einn mann án endurgjalds til að afla íss eða snjós, þegar bauðst, fyrir hvert hlutabréf í félaginu.
Til þess að geta tekið ís af Daltjörninni og ekið honum heim í íshús, þurfti nauðsynlega að endurbæta veginn inn í Herjólfsdal, svo að um hann yrði komizt með handvagna. Um önnur farartæki var þá ekki að ræða. Þessar vegabætur varð að vinna endurgjaldslaust. Þetta var gert. Þannig sigruðust útvegsbændur og Eyjamenn á öllum erfiðleikum, sem steðjuðu að, þegar þeir þurftu að hrinda í framkvæmd einu allra mesta velferðarmáli byggðarlagsins, starfrækslu fyrsta íshússins, án þess að hafa nokkurt rekstrarfé handbært.
Til þess að spara salt og ís var frystirinn (geymsluhólfið) í íshúsinu þiljaður sundur, svo að minna rúm þyrfti að kæla, þegar lítið var að frysta.
Fyrir aðalfundinum í febrúar 1903 lágu fyrir timburreikningarnir frá Bryde kaupmanni. Í ljós kom, að sumt af timbrinu var dýrara en hér fékkst í verzlun, t.d. hjá Gísla J. Johnsen. Við því var ekkert hægt að gera, þar sem Bryde hafði aldrei heitið félaginu timbri á hérlendu gangverði. Ekki lágu heldur fyrir neinar sannanir um það, hvert innkaupsverðið var á timbrinu, svo að þá varð ekki séð, hversu mikið Bryde hafði ætlað sér í hagnað af timburkaupunum. Bót var það sjálfsagt í máli, að Bryde kaupmaður var stærsti hluthafi félagsins og hafði því orðið að fórna því mestu vinnuafli við öflun íss og endurbóta á vegum í þágu þess.
Á þessum aðalfundi var stjórninni falið að festa kaup á frosinni síld frá Reykjavík til að geyma í íshúsinu til nota síðari hluta vetrarins og vorsins, ef nógu margir útvegsmenn æsktu þessara kaupa að hennar dómi.
Tveir menn höfðu sótt um íshússvarðarstöðuna, þeir Högni Sigurðsson, sem þá bjó á Heiði í skjóli föður síns, Sigurðar Sigurfinnssonar hreppstjóra, og Steinn Sigurðsson á Brekku, síðar skólastjóri hér. Greidd voru atkvæði um þessa menn og hlaut Högni 44 atkvæði en Steinn 23. Þá var lesið upp á fundinum frumvarp að starfssamningi við Högna Sigurðsson, það var svohljóðandi:
Samkvæmt ályktun aðalfundar „Ísfélags Vestmannaeyja“ hinn 15. f.m. ræður stjórn félagsins Högna bónda Sigurðsson á Heiði í þjónustu þess frá fyrsta degi næstkomandi sumars með skilmálum þeim, er nú skal greina:
1) Hann skal hafa umsjón yfir húseign og áhöldum félagsins og vinna dyggilega að því, að þau matvæli eða beita, sem félagið á eða hefur til geymslu, varðveitist í góðu ástandi í íshúsi þess.
2) Hann skal afgreiða viðskiptamenn félagsins 1—2 klukkustundir í hvort mál á virkum dögum og 1—2 klukkustundir á helgum dögum, þegar þess er þörf. Afgreiðslutímann ákveður félagsstjórnin nákvæmar með auglýsingu til almennings í Vestmannaeyjum.
Þegar síldarafli er, skal hann þó veita síld móttöku í íshúsið eftir föngum á hverri stundu dags, sem hún er á boðangi.
3) Hann skal með tilliti til 6. greinar félagslaganna ráða menn til ístöku og annarra starfa í félagsins þarfir, sem hann getur ekki lokið einn á hentugum tíma.
4) Í félagsins þarfir skal hann nota og rita í þær bækur, sem nú skal greina:
a) Aðalbók, sem rita skal í hvern þann mann, sem að staðaldri hefur viðskipti við félagið, ásamt því, sem hann tekur út og því, sem hann leggur inn, hvorttveggja með viðsettu verði.
b) Kassabók, er í skal rita þær peningaupphæðir, sem hann félagsins vegna tekur á móti eða lætur af hendi, hvort heldur peningagreiðslan áhrærir gjaldkera félagsins eða aðra við skiptamenn þess. Upphæðir þær, sem vegna smávegis lausakaupa greiðast inn eða út, þarf þó ekki að færa í kassabókina hverja út af fyrir sig heldur daglega aðalupphæð þeirra.
c) Vinnubók, sem rita skal í nöfn þeirra manna, er vinna í þarfir félagsins, kaup þeirra og að hverju unnið er.
Bækur þessar skal hann ætið hafa til taks, þegar félagsstjórnin heimtar þær til endurskoðunar eða annars.
5) Hann skal með tilliti til 5. greinar félagslaganna annast kaup og sölu á matvælum þeim og beitu, sem félagið verzlar með og haga verðlagi á því eftir kringumstæðum og í samráði við félagsstjórnina.
Viðskiptamönnum félagsins skal hann láta í té viðskiptareikninga, þegar þess er þörf, og vinna ötullega að því, að útistandandi skuldir þess greiðist ekki seinna en á gjalddaga þeim, sem félagsstjórnin ákveður.
6) Beitu má hann ekki taka til geymslu af einstökum mönnum eða öðrum félögum. Þar á móti á hann með hliðsjón af 5. gr. félagslaganna að taka matvæli til geymslu fyrir sanngjarna þóknun, þegar kringumstæður leyfa.
7) Varðveizlu þess fjár, sem hann tekur á móti félagsins vegna, skal hann haga, eins og félagsstjórnin mælir fyrir.
8) Hann skal aðstoða félagsstjórnina við samning á skýrslum þeim og reikningum, sem leggja ber fyrir aðalfund.
9) Fyrir starfa sinn skal hann fá 370 (þrjú hundruð og sjötíu) krónur árlega, sem greiðast úr félagssjóði, að hálfu um veturnætur, hinn helmingurinn um sumarmál.
10) Uppsögn að beggja hálfu er bundinn við fyrsta sumardag, en uppsagnarfrestur er 3 mánuðir, ef samningur þessi er haldinn í öllum greinum, annars getur uppsögn átt sér stað fyrirvaralaust.
Ég, Högni Sigurðsson, geng að framanskráðum skilmálum og skuldbind mig til að fullnægja þeim að öllu leyti.
- Vestmannaeyjum, 22. marz 1903
- Vegna ísfélagsstjórnarinnar
- Árni Filippusson
- (sign.)
- Árni Filippusson
- Högni Sigurðsson
- (sign.)
- Högni Sigurðsson
- Vitundarvottar:
- Magnús Ísleifsson
- (sign.)
- (sign.)
- Sigurður Ísleifsson
- (sign.)
- Magnús Ísleifsson