Sprettfiskur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. ágúst 2006 kl. 11:53 eftir Sigurgeir (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. ágúst 2006 kl. 11:53 eftir Sigurgeir (spjall | framlög) (Leiðrétt)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Sprettfiskur (Pholis gunnellus). Sprettfiskur er einnig nefndur skerjasteinbítur, teistufiskur eða teistusíli.

Stærð: 15 – 30 cm, algengast 15 – 20 cm.Við rannsóknir á sprettfiski í kringum Ísland hefur komið í ljós að vaxtarhraði er misjafn og ræður þar sjávarhitinn mestu. Sem dæmi má nefna að í heita sjónum við Vestmannaeyjar var meðalstærð 5 ára fisks 19,69 cm, en mældist aðeins 15,38 cm í kalda sjónum við Flatey og 7 ára fiskur við Vestmannaeyjar mældist 21,73 cm á móti 18,15 við Flatey.

Lýsing: Mjósleginn og langvaxinn, mesta hæð um miðjan bol og smámjókkar til sporðsins. Hausinn er þunnur og smár, stutt trjóna og kjaftur er lítill og skástæður sem nær aftur á móts við mið augu. Neðri skoltur örlítið framteygður og tennur smáar. Í efra skolti eru þær í einfaldri röð en í mörgum röðum í neðra skolti. Augu eru lítil. Bakuggi er langur og lágur, nær frá tálknopi aftur að sporðblöðku þar sem hún skilst að með smá rauf. Broddgeislar eru á bakugga. Frá rauf á miðjum fiski og nánast aftur að sporðblöðku liggur raufarugginn. Sporður er lítill og bogadreginn fyrir endann. Hreistur er smátt og þakið þykku slímlagi. Litur er breytilegur, oft gulleitur til brúnleitur, með rauðleitum blettum, kviður er fölleitur til gulhvítur. Ofan við augun og aftan við er dökk lína. Á bakugga eru 10 – 14 jafndreifðir blettir, svartir og kringlóttir með ljósum jaðri. Raufaruggi og sporðblaðka eru gulleit.

Heimkynni: Sprettfiskur lifir beggja vegna N–Atlantshafsins, frá Ermarsundsströnd Frakklands og umhverfis Bretlandseyjar, í Norðursjó og Eystrasalti. Hann er einnig meðfram Noregsströndum og allt til Múrmansk og Hvítahafs, í kringum Ísland og við SV-Grænland er hann algengur en sjaldséður við Jan Mayen og finnst ekki við A-Grænland. Í NV–Atlantshafi er hann frá Labrador, Georgsbanka og Stórabanka og allt suður til Delawareflóa.

Lífshættir: Hann er botnfiskur og er algengast er að hann sé á 0 – 30 metra dýpi en hefur fundist allt niður á 183 metra dýpi á Stórabanka við Nýfundnaland. Heldur sig mest innan um grjót, þang og þara þar sem auðvelt er að fela sig. Í vistkerfi fjörunnar er sprettfiskurinn án efa mjög mikilvægur þrátt fyrir að lítið sé vitað um tegundina. Hann hefur frostvarnarkerfi í blóðinu, því að við ýmsar kringumstæður þarf hann að geta þolað hitastig undir frostmarki. Frostvarnarkerfi sprettfiska er talið vera eitt það fullkomnasta meðal fiska.

Fæða: Alls konar smádýr eins og rækja, burstaormar, fiskseiði, marfló, þanglús, krabbafló og jafnfætlur.

Hrygning: Sprettfiskurinn verður kynþroska 3 ára gamall, 17 – 24 sentimetra langur og hrygnir á veturna hér við land við S og SV land. Eggin eru botnlæg og loða saman í litlum kekki sem foreldrarnir hringa sig utan um til aðgæslu. Seiðin eru sviflæg og leita til botns snemma vors er þau hafa náð 3 cm lengd.

Nytsemi: Sprettfiskur er aðalfæða teistunnar og sumir fiskar leggja hana sér til munns svo sem þorskur, en önnur nytsemi er engin.