Sandkoli

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Sandkoli (Limanda limanda)

Stærð: Lengsti sandkoli, sem vitað er um, veiddist rétt austan við Vestmannaeyjar í maí 1992, og var hann 48 cm á lengd. Annars er algengasta stærðin um 20-30 cm.

Lýsing: Sandkoli er hauslítill og með lítinn kjaft, sem nær aftur að hægra auga. Tennur eru hvassar og uggar eru venjulegir flatfiskuggar. Sporðblaka er fremur stór. Hreistur er mjög smátt og hrjúft á dökku hliðinni en slétt á þeirri ljósu. Rákin er greinileg og myndar bug yfir eyrugganum. Hann getur skipt um lit eftir botni og umhverfi. Einnig er til sandkola albinói.

Heimkynni: Heimkynni hans eru í Hvítahafi og NA-Atlantshafi, meðfram ströndum Noregs og inn í Skagerak, Kattegat og dönsku sundin inn í Eystrasalt. Einnig er hann mjög algengur í Norðursjónum og nær útbreiðsla hans suður um Ermarsund og Biskajaflóa. Hann er við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland en finnst hvorki við N-Ameríku né Grænland.

Lífshættir: Sandkoli er mjög algengur hér við land. Hann er aðallega grunnsævisfiskur á 20-40 m dýpi en fæst þó allt niður á 150 m dýpi. Mest er af honum á sandbotni. Hann flækist frekar lítið, nema hvað hann dregur sig út á djúpið á veturna og nálgast síðan landið á sumrin.

Fæða: Fæðan er margbreytileg: ýmis smá krabbadýr, ormar, smáskeljar og sniglar. Einnig lifir hann á smáfiskum og smáþörungum. Og þótt ótrúlegt sé með svona lítinn fisk, þá étur hann mikið af stórum kúfiski.

Hrygning: Hrygningin fer fram allt í kringum land á 20-40 m dýpi eða dýpra, en sennilega mest í hlýja sjónum. Í hlýja sjónum byrjar hrygningin í apríl en ekki fyrr en í maí-júní í kalda sjónum. Eggjafjöldinn er 50-150 þús. og klekjast þau á 7-14 dögum.

Nytsemi: Sandkoli er veiddur í dragnót og botnvörpu ásamt öðrum fiski. Hann er lítið notaður hérlendis en er nokkuð nýttur af nágrannaþjóðum okkar.