Ufsi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Ufsi (Pollachius virens)

Stærð: Er miðlungs fiskur á stærð. Hann er 70-110 cm langur og 4-10 kg, verður mest 125 cm og 15 kg. Ungfiskurinn er um 40-50 cm að lengd.

Lýsing: Ufsinn er straumlínulaga, gildastur um framanverða miðju og mjókkar í báðar áttir. Kjaftur hans er meðalstór með frekar smáar og hvassar tennur. Ungar eru með skeggþráð en hann hverfur með aldrinum. Fiskurinn hefur frekar stórt hreistur og hefur mjög greinilega rák. Hann hefur tvo raufugga og þrjá bakugga.

Heimkynni: Ufsinn lifir í N-Atlantshafi.Í NA-Atlanshafi er útbreiðlsusvæði hans frá Íslandi að Færeyjum og norður og vestur um Bretlandseyjar, finnst í Norðursjó, fer norður með Noregi og finnst í Barentshafi. Ufsinn er einnig í NV-Atlantshafi, þó ekki jafn algengur og í NA-Atlantshafi. Þar er hann frá St.Laurens flóa og suður að New Jersey.

Lífshættir: Ufsinn er bæði uppsjávar- og botnfiskur. Algengastur á 200 m dýpi og fer mest á 450 m dýpi. Hann lifir helst í 4-12°C hita og ferðast í torfum. Mest er af ungfiskinum í sjónum og er hann oft vel sjáanlegur, því að þeir mynda miklar torfur og fara þær torfur jafnvel inn í hafnir og sjást þar.

Fæða: Stóri- og miðlungsufsinn lifir á augnasíli, náttlampa, loðnu, síld, fiskaseiðum o.fl. ásamt ýmsum smádýrum. Smáufsinn (á 2.-3. ári) lifir á smádýrum við botninn, t.d. rækjum, marfló, ögn o.fl. stundum jafnvel á ufsa og þorskaseiðum (á 1.ári). Seiðin (á 1.ári) lifa mest á krabbaflóm og krabbalirfum.

Hrygning: Hér við land hefst hrygningin í síðari hluta janúar, nær hámarki í febrúar og er lokið um miðjan mars. Hann hrygnir frá Lónsvík og vestur um Látrabjarg, en mest á Selvogsbanka og Eldeyjarbanka. Hann hrygnir á 100-200 m dýpi. Egg eru sviflæg og eru frá nokkur hundruð þúsundum til 8 milljóna (í hverri hrygningu. Eggin eru 1,0-1,22 mm í þvermál. Lirfan klekst út á 9 dögum við 6°C hita en á 6 dögum við 9°C hita. Eru orðin 3-5 cm um miðjan júní.

Nytsemi: Ufsinn er mikið nýttur, aðalveiðiþjóðir eru Norðmenn, Frakkar, Íslendingar og Færeyingar. Ufsinn veiðist helst vestur af Noregi, í Norðursjó og á Íslandsmiðum.