Humar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Humar (Nephrops norvegicus)

Stærð: Algeng meðalstærð karldýra hérlendis er 4,5 cm skjaldarlengd og kvendýra 3,5 cm. Stærstu karl- og kvendýr geta hins vegar náð hvor um sig 7-8 cm og 5-6 cm skjaldarlengd.

Lýsing: Humarinn er gulleitur eða appelsínurauður að lit. Líkaminn skiptist í höfuðbol og afturbol sem oftast eru nefnd haus og hali. Höfuðbolurinn hefur fimm pör gangfóta að neðan og flókna smærri munnlimi og langa þreifara að framan. Fremstu fæturnir, gripklærnar ganga framan úr dýrinu og eru m.a mikilsverðir við fæðuöflun. Höfuðbolurinn er umlukinn heilum skildi að ofan og til hliðanna og fram úr honum stendur skjaldarnef eða trjóna. Í króknum milli trjónunnar og skjaldarins standa augun. Í höfuðbolnum eru öll helstu líffæri dýrsins. Afturbolur er með liðskiptum skjöldum, sem einkennast af reglulegu mynstri. Í halanum er mjög sterkur sundvöðvi sem sem aftast er tengdur halablöðkum. Halinn með sundvöðvanum er um 30% af heildarþunga og sá hluti humarsins sem mest er nýttur til matar. Bæði kynin eru svipuð að ytra útliti en þekkast þó fljótlega í sundur á ólíkri gerð fremstu halafóta. Þeir eru fíngerðir, þráðlaga og lengri hrygnunnien á hængnum sem hefur styttri halafætur og harðari gerð.

Heimkynni: Heimkynni humarsins eru í Norðaustur-Atlantshafi og Miðjarðarhafi. Útbreiðslan er mikil, allt frá suðurströnd Íslands, Færeyjum og Vestur-Noregi, suður um Skagerak og Kattegat, Norðursjó, Bretlandseyjar, Biscayflóa, Spán og Portúgal til Marokkó í Norður-Afríkuog inn í Miðjarðarhaf til ítalíu og Adríahafs. Við Ísland finnst finnst humarinn aðeins í hlýja sjónum fyrir Suður- og Suðversturlandi, frá jökuldjúpi í norðanverðum Faxaflóa og austur í Lónsdjúp út af Hornafirði. Útbreiðslan er þó ákaflega blettótt þar því humarinn er staðbundinn eftir botngerð og dýpi.

Lífshættir: Hérlendis lifir humarinn á um 100-300 metra dýpi við sunnanvert landið, en er aðallega veiddur á 120-250 metrum. Humarinn heldur sig eingöngu á fínum sand- og leirbotni, þar sem hann grefur göng eða gangakerfi ofan í leirinn.

Fæða: Fæða humarsins eru smá botndýr af ýmsu tagi auk þess sem hann gerir sér að góðu tilfallandi fiskúrkast frá veiðiskipum.

Hrygning: Mökun fer fram á sumrin og geymir kvendýrið sæðið í geymslu neðan á höfuðbolnum fram að hrygninguvorið eftir. Við hrygninguna í maí, ná um 500-3000 dökkgræn egg að frjóvgast og límir kvendýrið þau við fæturnar undir halanum. Humarlifrurnar þroskast hægt og klekjast þær ekki fyrr en í maí-júní árið eftir. Þá endurtekur hringrásin sig með mökun, þroskun eggjastokka og loks hrygningu í maí árið síðar.

Nytsemi: Fram til 1987-88 fór mest af humarframleiðslunni til Bandaríkjanna sem humarhalar í skel, en síðan 1988 hefur heilfrystur humar verið seldur til Evrópulanda í ríkari mæli.